Þriðjudagur 20.8.2013 - 11:53 - FB ummæli ()

Íslenskar kreppur

Ég er ekki sá fyrsti til að gera samanburð á þróun hagkerfisins á krepputímum. Aðferðarfræðin sem hér er notuð til að bera saman þróun vergra þjóðartekna er klassísk: lands- eða þjóðarframleiðslu árið fyrir fyrsta ár samdráttar í lands- eða þjóðarframleiðslu er gefið gildið 100 og svo er raunþróunin reiknuð út frá byrjunarárinu í hvert skipti. Þannig fæst nokkurs konar samanburður á kreppum, þ.e. dýpt þeirra og hversu lengi heildarframleiðslan var fyrir neðan gildið 100, þ.e. árið áður en samdrátturinn byrjaði.

Eftir sem áður datt mér í hug að eftirfarandi gæti verið áhugavert, sérstaklega þar sem ég notast við gögn Hagstofunnar alla 20. öldina en ekki bara frá lýðveldisstofnun. Að bera saman 3. áratuginn – Kreppuáratuginn í Evrópu – við núverandi ástand er líka athyglisvert.

Hér á grafinu fyrir neðan má sjá allar kreppur frá 1900. Notast er við verga þjóðarframleiðslu. Öll gögn koma frá Hagstofunni sem fyrr segir.

Samdráttarskeið í vergum þjóðartekjum frá 1900, lengd þeirra og dýpt. Appelsínugula, feita línan er þróun vergra þjóðartekna frá 2007.

Kreppur_Iceland

Sem sjá má er það í raun eingöngu tímabilið 1915-1924 sem er samanburðarhæft við efnahagsþróun síðustu ára. Þróun efnahagsmála var basl þá svo ekki sé meira sagt. Heimsstyrjöldin fyrri varð til þess að við yfirgáfum gullfótinn og bankarnir notuðu tækifærið meðan enginn var gullfótur til að auka útlán sín töluvert. Úr varð gjaldeyrisskortur þegar nýmyndaðar krónur voru notaðar til að kaupa innfluttar vörur. Verðhækkanir á kolum og verðlækkanir á síld gerðu illt verra, alltaf var skortur á gjaldeyri. Togaraflotinn var seldur úr landi 1917 til að fá gjaldeyri og um svipað tímabil voru Bretar að skipta sér af útflutningi Íslands sem varð til þess, samfara aukinni útlánaveitingu bankanna, að gjaldeyriskreppan varð algjör 1920. Þá hafði krónan veikst um 58% gagnvart pundi síðan 1918.

Við fáum „enska lánið“ 1921 til að redda bæði Landsbankanum og Íslandsbanka sem þá voru komnir á vonarvöl vegna þess að lánin sem þeir höfðu búið til voru ekki borguð til baka. Meira fall krónunnar (27% gagnvart pundi milli 1921 og 1924) og aukinn fiskafli og -útflutningur reddaði málum.

Krónan er svo aftur sett á gullfót 1925 (í gegnum pundið, Bretar fara aftur á alltof sterkan gullfót í maí það ár) en gengið var sett of sterkt svo gjaldeyrir þurrkaðist aftur upp og hagkerfið hrundi aftur í kreppu: þess vegna kom önnur dýfa 1924-1927. Verðhjöðnun varð aftur áberandi. Íslandsbanki fer svo loksins endanlega í gjaldþrot 1930. Gjaldeyriskrísan verður algjör og innflutningshöft eru sett 1931. Þau voru til staðar fram á 7. áratuginn.

Það er raunar þema í hagsögu Íslands að alltaf skal vera skortur á gjaldeyri. Og oftar en ekki hafa bankarnir lánað út of mikið árin á undan með þeim afleiðingum að krónur í umferð aukast hratt. Þeim er svo eytt í innfluttar vörur svo skortur verður á gjaldeyri sem verður að bregðast við með gengisfellingu. Ég fjallaði lítillega um þetta í Af hverju er krónan alltaf að falla? þar sem ég ritaði:

Síendurtekið gengisfall krónunnar nánast allt frá því íslenskt bankakerfi var stofnað hefur ekkert að gera með að hún sé „ónýtur gjaldmiðill.“ Gjaldeyrisvandamál Íslendinga hafa alltaf verið afleiðing af því að bankakerfið fær að þenja út skuldir og peningamagn í umferð nánast eins og því lystir. Benjamín Eiríksson benti fyrstur á það að innflutningshöftin á 4. áratugnum og fram til 1960 voru vegna þess að lánsfjárþensla banka var sífellt vandamál. Samskonar lánsfjárþensla er í dag orsök þess að gjaldeyrishöft eru á Íslandi.

Nú er bara spurningin hvort núverandi kreppa verði jafn langvin og fyrir 90 árum síðan. Miðað við nýjustu spár um frekar slappan hagvöxt er útlitið ekki sérstaklega gott. Svo mætti alveg íhuga að endurskoða það hvernig peningar eru gefnir út á Íslandi. Ef það á að leyfa bönkum að gera það þarf a.m.k. að hafa hemil á þeim, prökkurunum að tarna!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.8.2013 - 11:01 - FB ummæli ()

AGS um gjaldeyrishöftin

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út „selected issues“ pappír sem birtist ekki alls fyrir löngu á vef Seðlabankans. Sjá má pappírinn hér.

Pappírinn skiptist í tvennt. Fyrri hlutinn er um afnám gjaldeyrishafta og hugsanleg áhrif þess á greiðslujöfnuð (e. balance of payments). Seinni hlutinn er um hugsanlegan sparnað í heilbrigðis- og menntunarkerfunum.

Ég ætla bara að fjalla um fyrri hlutann.

Við erum í vondum málum

AGS má eiga það að þeir eru í raun ekki að tvínóna við að segja hlutina: „The orderly lifting of capital controls is a major outstanding challenge for Iceland.“

Ef þetta er þýtt af „stofnanaísku“ – alþjóðleg samskipti og stofnanir nota oft varfærið orðfæri – yfir á okkar ástkæra ylhýra væri þýðingin e.t.v. eitthvað á þessa leið: „OK, þið eru í verulega vondum málum gott fólk!“ AGS hefur raunar varað við þessu áður á álíka augljósan máta og þeir gera nú. Það gerir málefnið enn alvarlegra því AGS er svo handviss í sinni sök. (Og það mega þau alveg vera.)

AGS notast svo við eignasafnsfræði (e. portfolio theory) og m.a. samanburð við norrænar nágrannaþjóðir til að reyna að nálgast það á einhvern máta hversu mikið af fjármagni myndi flýja land ef gjaldeyrishöftin væru tekin úr sambandi.

Niðurstaðan: fjármagn ígildi 35-170% af landsframleiðslu (600-2.900 milljarðar!) gætu yfirgefið landið. Óvissa þessa mats er heldur nær neðri mörkunum að þeirra sögn. (Sjá einnig athugasemd neðst).

AGS er svo með slæmar fréttir handa þeim sem voru að vonast eftir því að hægt væri að aflétta höftunum í hvelli. Að öllu öðru óbreyttu mælir AGS með hraðahindrunum á útflæði fjármagns. Það þýðir að höftunum verði aðeins að hluta lyft í fyrstu, nokkuð sem allir bjuggust við. En tímaramminn gæti komið sumum á óvart (mín þýðing, mín feitletrun):

Ef árlegt útflæði fjármagns frá íbúum gæti verið takmarkað við 7-8% af landsframleiðslu í átta ár eftir að dregið væri úr höftunum myndi hlutfall gjaldeyrisforða af skammtímaskuldum vera fyrir ofan 100% á sama tíma. Þetta er ályktað út frá  núverandi mati á þróun greiðslujafnaðar við útlönd.

Mat AGS er því að það gæti tekið átta ár að aflétta höftunum ef Íslendingar vilja gera það hægt og varlega (þ.e. halda hlutfalli brúttó gjaldeyrisvaraforða móti skammtímaskuldum yfir 100% á sama tíma, hlutfall sem er kallað Guidotti-Greenspan reglan). Lítur út fyrir að það þurfi að endurmeta frestinn til 2015…

Hvað skal gjöra?

Vitanlega vaknar spurningin strax hvað gera skuli til þess að auðvelda afnám haftanna. Þeirri spurningu hefur verið reynt að svara síðan 2008. Seðlabankinn vinnur eftir áætlun um afnám hafta og hefur m.a. reynt að lagfæra stöðuna með útboði skuldabréf í gegnum fjárfestingaráætlunina. Þá hefur hið opinbera tekið (rándýrt) erlent lán til að sýna það og sanna að það geti tekið lán í erlendum gjaldeyri.

En þetta virðist ekki vera að virka, a.m.k. ekki miðað við mat AGS (600-2,900 milljarðar á startlínunni, bíðandi eftir því að geta hlaupið út). Ég ætla því að leyfa mér að velta upp nokkrum hugmyndum (bendi líka á pistla Friðriks Jónssonar, sérstaklega þegar kemur að skuldabréfaútgáfum í gegnum fjárfestingaleiðina):

Stýrivextir lækkaðir, lánakvótar settir á: Seðlabankinn lækkar stýrivexti í 1-2% og notar í staðinn lánakvóta til að stýra nýsköpun peningamagns í umferð. Lánakvótarnir myndu virka þannig að bankar yrðu að búa til ákveðið magn lána til fyrirtækja, hvorki meira né minna. Það ætti jafnvel að íhuga að ganga enn lengra og leyfa seðlabankanum að setja lánakvóta fyrir hverja og eina atvinnugrein með það markmið í huga að neyða bankana til að fjármagna fjárfestingu í útflutningsfyrirtækjum sérstaklega (til að ná í nettó gjaldeyri). Markmiðið væri aukin atvinnuvega fjárfesting, bættur greiðslujöfnuður og minna atvinnuleysi en ekki bara lánabóla sem endaði í húsnæði. Seðlabanki Japan gerði þetta eftir seinna stríð og gekk mjög vel í nokkra áratugi. Hættan er vitanlega að seðlabankinn klúðri kvótunum stórkostlega og geri illt verra með því að setja kvótana of lága eða of háa (eins og endaði í Japan) eða með því að misreikna skiptingu heildarlánakvótans milli atvinnugreina. (Eftir afnám hafta, sem myndi ganga hraðar yrði þetta gert og vel tækist til, ætti að viðhalda lánakvótunum en leyfa bönkunum meira frjálsræði varðandi hvar lánin enda).

Endurbætur skattkerfisins sem miða við að draga úr neyslu- og skuldahvata sumra skatta: Augljósasta dæmið er virðisaukaskattur (heldur ætti að notast við veltuskatta). Nefna má t.d. að sumir bændur hugsa með sér að til að minnka greiddan virðisaukaskatt af sinni framleiðslu þá kaupa þeir aðföng á borð við (innfluttar) dráttarvélar og tæki. Hvatinn er að aðkeypt tæki veita innskatt á móti útskattinum sem þeir þurfa annars að borga. Önnur fyrirtæki standa frammi fyrir svipuðum hvata. Ef einfaldur veltuskatur væri tekinn upp myndi þessi hvati til að kaupa aukin aðföng, sem oft eru innflutt, hverfa. Í staðinn fyrir að kaupa eitthvað nýtt væri meiri áhersla á viðhald. Skattlagning hagnaðar eftir fjármagnsliði er líka hvati til þess að notast meira við lánsfé heldur en eigið fé til að fjármagna fyrirtæki. En of miklar skuldir gera fyrirtækið opnara fyrir áföllum á borð við tekjumissi eða hækkun vaxta. Þessu þyrfti að breyta: skatturinn ætti að vera óháður fjármagnsliðum á borð við vaxtakostnað. Breyting/afnám virðisaukaskatts væri gjaldeyrisskapandi, breyting á skattlagningu fyrirtækja myndi ýta undir stöðugleika fjármálakerfisins og auðvelda fyrirtækjum að standa af sér hugsanleg áföll þegar höft væru afnumin. Mun minna væri af ónýtum lánum í bankakerfinu (e. non-performing loans) sem myndi hjálpa bönkunum þegar kæmi að afnámi hafta.

Auknar fjárfestingar hins opinbera, sérstaklega gjaldeyrisskapandi: Nokkur dæmi: uppbygging ferðamannastaða, aukinn kraftur í ferðaþjónustu og opinbert fjármagn í átök á borð við „Ísland allt árið“, uppbygging iðnaðar sem framleiðir dýrafóður úr fiskúrgangi sem í dag er að mestu hent (sauðfé er mjög hrifið af þessu, minnkar þörf á t.d. innflutningi á áburði til annarrar fóðurgerðar), saltframleiðsla með sjó og rafmagni (myndi það ganga?)

Niðurfelling skatta og gjalda á völdum innflutningsvörum: markmiðið væri að spara gjaldeyri. Augljósasta dæmið er rafmagns- og metanbílar. Einnig mætti ýta undir hvata til þess að betrumbæta bílaflotann með t.d. niðurfellingu virðisaukaskatts af metaneldsneytisviðbótum á bifreiðum.

Innlend framleiðsla á innfluttum matvörum, t.d. ávöxtum: ríkisstjórnin ætlaði að auka matvælaframleiðslu. Það mætti skoða hvort það veiti meiri nettó gjaldeyri að nota raforkuna til að auka framleiðslu á matvöru sem annars er innflutt frekar en að selja orkuna til álvera (miðað við þá staðreynd að bein erlend fjárfesting getur auðveldlega gert viðskiptajöfnuð verri en áður til langs tíma litið væri þetta vel þess virði að skoða).

 

 

*Fyrir utan að þetta mat AGS er í sjálfu sér skelfilegt þá er hugmyndin um að nota eignasafnsfræði til að meta útflæðið ekki skotheld því það er ólíklegt að nokkur maður pæli mikið í slíku þegar gjaldeyrishöftunum er lyft. Líklegra er að fólk taki ákvarðanir um hvort það eigi að kaupa erlendan gjaldeyri eða ekki á hóphegðunargrundvelli, þ.e. „behavioural“ og „bandwagon effects“ grundvelli: ákvarðanir verða teknar á grundvelli hræðslu, vantrausts, óvissu og sögusagna en staðfestu, öryggi, trausti og stærðfræðilegri nákvæmni er hent út um gluggann. Niðurstaðan gæti því verið sú að útflæðið yrði meira og/eða óstöðugra en AGS áætlar meðan mesta hræðslan gengur yfir. Þegar fólk róast kemur það að einhverju leyti aftur inn í krónuna og hún styrkist að hluta á nýjan leik. Afleiðingarnar verða eftir sem áður skelfilegar því verðbólguskot mun ganga yfir í kjölfar gengisveikingarinnar og allar viðskiptaáætlanir í inn- og útflutningi verða erfiðar vegna gengisflökts. Svo mat AGS um 35-170% er ekki heilagt, það gæti jafnvel orðið meira útflæði. Þá er líka líklegt að það verði meiri sveiflur á því en AGS virðist gera ráð fyrir í þeirra módeli.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.7.2013 - 13:49 - FB ummæli ()

Þetta reddast!

Í tilefni nýjustu frétta þess efnis að Íslendingar eru aftur farnir að velja verðtryggð lán umfram óverðtryggð settist ég niður og lék mér með tölur – í Excel!

Þróun fyrstu greiðslu

Fyrst velti smellti ég því upp hvernig fyrsta greiðsla á óverðtryggðu láni annars vegar og verðtryggðu hins vegar hefur þróast. Ég notaðist við 20 milljón króna lán til 25 ára á annuitet greiðsluformi (jafngreiðslulán). Óvertryggðu lánin eru sum með föstum vöxtum til næstu 3-5 ára en ég valdi að fara beint eftir breytilegu lánunum, þessum sem fylgja stýrivöxtum Seðlabankans eins og skugginn. Þau gögn koma beint frá Seðlabankanum sem og gögnin fyrir verðtryggðu lánin. Í báðum tilvikum læt ég vexti lánanna fylgja þeim vöxtum sem Seðlabankinn gefur upp að gildi á nýjum lánum og/eða lánum sem eru með breytilega vexti.

Þróun fyrstu greiðslu 20 millj. króna láns, 25 ára lánstími (þúsundir króna)

Þróun fyrstu mánaðargreiðslu

Eins og sjá má hefur fyrsta greiðslan á verðtryggðum lánum lækkað hægt en örugglega síðan janúar 2010 (fyrstu óverðtryggðu lánin komu um mitt ár 2009 en urðu ekki almennilega vinsæl fyrr en 2010 svo ég miða við janúar 2010 hér). Ástæðan er vitanlega sú að vextir verðtryggðra lána hafa lækkað hægt en örugglega, eru nú komnir í minnst 3,5% samkvæmt Seðlabankanum. Hins vegar hafa vextir óverðtryggðra lána sveiflast í takt við stýrivaxtastefnu Seðlabankans og þeir vextir hafa breyst. Og til að minna fólk á það einu sinni enn: stýrivextir eiga að hafa áhrif á vaxtakostnað svo það er þjóðhagslega jákvætt að kostnaðarbyrði óverðtryggðra lána fylgi stýrivaxtabreytingum.

Ekki er ósennilegt að þetta – hækkun á fyrstu greiðslu óverðtryggðra lána m.v. verðtryggð lán – sé að minnsta kosti hluti ástæðunnar fyrir því að hin verðtryggðu hafa sótt í sig veðrið.

En ég ætla að vara fólk við: sé mark takandi á fortíðinni eru lántakar verðtryggðra lána sem hræðast hækkandi fyrstu greiðslu óverðtryggðra lána að kasta krónunni til að spara aurinn.

Þróun greiðslubyrðar og höfuðstóls

Í myndunum hér að neðan nota ég sömu gögn og hér að ofan. Vextir lánanna eru breytilegir og fylgja þeim vöxtum sem Seðlabankinn gefur upp sem „almenna vexti“ óverðtryggðra og verðtryggðra lána. Skoðum nú hvernig tvö lán, verðtryggt annars vegar og óverðtryggt hins vegar, hafa þróast frá janúar 2010 miðað við þessar vaxtaforsendur.

Þróun höfuðstóls: 20 milljón króna lán, 25 ára lánstími, fyrsta greiðsla jan 2010 (milljónir króna)

verdtryggt_vs_overtryggt4
Þróun mánaðarlegrar greiðslubyrði: 20 milljón króna lán, 25 ára lánstími, fyrsta greiðsla jan 2010

verdtryggt_vs_overtryggt2

Það er ekkert nýtt að greiðslubyrðin sé bæði sveiflukenndari og hærri – í fyrstu – á óverðtryggða láninu. Þannig á það að vera! En nú kemur það skemmtilega: höfuðstóll verðtryggða lánsins er 2.450.000kr. hærri. Á sama tíma eru heildargreiðslur óverðtryggða lánsins aðeins 775.000kr. hærri. Til að fá ögn réttari tölu er rétt að tala um núvirði greiðslnanna. Miðað við 5% ávöxtunarkröfu eru heildargreiðslur óverðtryggða lánsins 781.000 hærri að núvirði.

Með þetta í huga er ef til vill hægt að segja að með því að „láta sig hafa það!“ og standa skil á sveiflukenndara óverðtryggðu láni sparaði lántaki óverðtryggða lánsins sér tæplega 1,7 milljón króna á þremur og hálfu ári. Ég minni á að þetta er 20 milljón króna lán og þessi munur eykst eftir því sem upphaflega lánsfjárhæðin er hærri.

Og það má halda áfram að leika sér. Hér eru tölurnar ef lánin hefðu verið tekin í janúar 2011. Þar er munurinn á höfuðstólunum 2,1 milljón og munurinn á núvirtum heildargreiðslum 434.000.

Þróun höfuðstóls: 20 milljón króna lán, 25 ára lánstími, fyrsta greiðsla jan 2011

verdtryggt_vs_overtryggt5

 Þróun mánaðarlegrar greiðslubyrði: 20 milljón króna lán, 25 ára lánstími, fyrsta greiðsla jan 2011

verdtryggt_vs_overtryggt3

„Þetta reddast!“

Vitanlega er þetta ekki fullkominn samanburður. Til dæmis eru vextir lánanna breytilegir (þeir breytast sjaldan svona hratt í tilviki verðtryggðra lána), veðhlutföll hafa áhrif á vextina og það er ekki reiknað með neinum lántökukostnaði. En eftir sem áður, miðað við þessa einföldu greiningu, má velta fyrir sér hví fólk gerir sjálfu sér það að taka verðtryggt lán! En líklega er það ekki svo mikil ráðgáta.

Fólk hefur venjulega yfir ákveðinni mánaðarlegri greiðslugetu að ráða: það hefur laun, þarf að standa skil á reikningum, borga skatta og kaupa mat. Eftir stendur upphæð sem er notuð til að finna sér þak yfir höfuðið. Þegar það vill kaupa sér húsnæði fer það út í bankann og spyr „við ráðum við að borga svona mikið á mánuði, hvað getum við tekið hátt lán?“. Þjónustufulltrúinn reiknar það út og gefur þeim tvö svör: „þið getið tekið X mikið að láni ef þið takið verðtryggt lán en þar sem greiðslubyrðin af óverðtryggða láninu er hærri en af verðtryggðu láni í upphafi lánstímans getið þið aðeins tekið Y að láni með slíku láni.“ Og vitanlega er Y lægri upphæð en X. Viðkomandi fara heim og ræða hvað skuli gera. Fólkið hugsar með sér „æ, það væri nú rosa gott að geta keypt 90 fm. íbúðina í staðinn fyrir þessa sem er aðeins 75 fm. En 90 fm. íbúðin er vitanlega dýrari. En við getum samt greitt af láninu, að minnsta kosti í byrjun, ef við tökum verðtryggt lán!“

Og það gera þau. Því þetta reddast!

Þetta ferli er ekkert undarlegt. Það er hegðunarfræðileg staðreynd að fólk hugsar fyrst og fremst um það að hafa það gott í núinu (sjá t.d. hér og hér). Framtíðin er langt í burtu og það er óþægilegt og leiðindi að þurfa að hugsa fram í tímann. Það er ástæðan fyrir því að fólk sparar venjulega of seint og of lítið, það velur að éta of mikið af fræjum í dag í staðinn fyrir að sá þeim og éta enn meira í framtíðinni og hví fólk hringir í bankann á föstudegi til að fá 800.000kr. yfirdrátt á 18% vöxtum því það bara verður að eignast snjósleðann sem það sá auglýstan og „SVO SNJÓAR ÚTI SVO ÉG GET NOTAÐ HANN UM HELGINA!!“

Og þess vegna, jafnvel þótt fólk viti það vel að líklega muni verðtryggða lánið drekkja þeim eftir nokkur ár, velur fólk skammtímaánægjuna sem er fólgin í því að geta flutt í 90 fm. íbúðina frekar en að taka óverðtryggða lánið og flytja í 75 fm. En þetta er hættulegt. Boginn er spenntur um of.

Ekki plata sjálft ykkur og sættið ykkur við staðreyndir: ef þið þurfið að taka verðtryggt lán til að kaupa 90 fm. íbúðina eru allar líkur á því að þið hafið ekki efni á henni. Og þá er bara að sætta sig við minna húsnæði og spara fyrir stærra!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.7.2013 - 00:13 - FB ummæli ()

„Let them eat credit!“

Við lestur nýjustu bloggfærslu Andra Geirs Arinbjarnarsonar – Böl 40 ára lána – rifjuðust upp orðin í heiti þessa pistils. Orðin koma frá hagfræðingnum Raghuram G. Rajan úr bókinni „Fault Lines“ sem kom út árið 2010. Bókin rokseldist vegna einfaldrar ástæðu: hún er þrælgóð.

„Látum þau borða lán!“ er, samkvæmt Rajan, notað sem skammtímalausn á ákveðnu vandamáli sem bandarískir pólitíkusar standa frammi fyrir: ójöfnuði í tekjum og þá einkum og sér í lagi þróuninni í þá átt að ójöfnuður aukist. Sú þróun varð sífellt meira áberandi í Bandaríkjunum eftir því sem leið á seinni hluta 20. aldar. Samkvæmt Rajan er grundvallarástæðan fyrir þessari þróun sú að vinnuaflið vestanhafs náði ekki að fylgja eftir þeirri tækniþróun sem varð á sama tíma. Tækniþróun kallaði eftir miklu og vel menntuðu vinnuafli. Þau fáu sem uppfylltu kröfurnar gátu ekki aðeins krafist hærri launa, vegna þess hversu fá þau voru og eftirspurnin eftir þeim mikil, heldur urðu þau einnig fyrst til að skilja tækifærin sem tækniþróunin bauð upp á. Menntaða fólkið með þekkinguna og sköpunarkraftinn varð því fyrst til að fá háu launin og fyrst til að stofna ný fyrirtæki (Apple, Google, Microsoft, o.s.frv.) sem græddu mest. Þess vegna varð tekjuójöfnuðurinn meiri og meiri því menntunarstigið náði ekki að halda í við tækniþróun og eftirspurn eftir menntuðu starfsfólki og aðeins fáir útvaldir sátu að öllum bestu tækifærunum sem tækniþróunin bauð upp á.

Þessi ójöfnuður skapar vandamál fyrir stjórnmálamenn því ójöfnuðurinn lítur illa út pólitískt. Til að „friða“ þá sem ekki græða er „lausnin“ sú að gera aðgengi að lánum auðveldara svo allir geti tekið þátt í neyslusamfélaginu. Í stað þess að aðstoða hin fátæku við að mennta sig og fara sjálf út í nýsköpunarverkefni er sagt: „Let them eat credit!“

Í Bandaríkjunum þróaðist þessi „Let them eat credit!“ stefna út í það að allir áttu að fá að lifa ameríska drauminn. Stór hluti af honum var eigið húsnæði, að vera sinn eiginn herra í eigin húsnæði. Fannie Mae og Freddie Mac – „Íbúðalánasjóðir“ Bandaríkjanna – voru því notaðir í þeim pólitíska tilgangi að dæla út íbúðalánum til bandarísks almennings sem og að auðvelda öðrum íbúðalánveitendum hið sama með því m.a. að kaupa skuldabréfavafninga sem myndaðir voru af íbúðalánum. Þannig áttu allir að upplifa ameríska drauminn en ekki bara þeir sem höfðu menntun og þekkingu til þess að grípa fjárfestingartækifærin sem mestan gróða gáfu.

En þetta endaði með harmleik eins og við þekkjum flest. Fannie Mae og Freddie Mac var bjargað af bandarískum stjórnvöldum í upphafi fjármálakreppunnar. Ástæðan var mikið tap sjóðanna vegna ógáfulegrar fjárfestingarstefnu þeirra árin á undan.

Íbúðalánasjóður og íslenska útlánaveislan

Þessi skýring Rajan rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las eftirfarandi orð Andra:

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann raunveruleika að stór hópur Íslendinga getur ekki eignast eigið húsnæði á eðlilegan hátt samkvæmt lögmálum hin frjálsa og opna fjármálamarkaðs.  Að reyna enn eina ferðina að “fiffa” markaðinn mun aðeins skapa vandamál sem á endanum leiðir til kerfisáfalla.

Þetta er hárrétt! Hér varð ekki ósvipuð þróun á útlánum og varð í Bandaríkjunum: útlán jukust og skuldir þöndust út, ekki síst vegna þess að stjórnmálamenn hvöttu banka og Íbúðalánasjóð til þess: stjórnmálamenn reyndu að „fiffa“ markaðinn. Bankar tóku vitanlega hjartanlega undir, ekki bara vegna sambanda þeirra við stjórnmálamenn heldur einnig beinlínis vegna þess að hagnaður banka er háður því að þeir geti nýmyndað peninga með nýjum og nýjum útlánum.

Það skal ósagt látið hvort tekjuójöfnuður hafi verið það sem ýtti íslenskum stjórnmálamönnum út í þessa hvatningu og í að „fiffa“ íbúðalánakerfið en það var gert engu að síður. Vafalaust var hluti af ástæðunni, ég leyfi mér að segja, sú undarlega árátta að allir á Íslandi skuli „eiga“ húsnæði. Þetta er ekki ósvipað ameríska draumnum. En hví má fólk ekki leigja húsnæði ef það hefur ekki efni á því að kaupa? Og ef út í það er farið: ef það er 80%-90% lán á íbúðarhúsnæði, er þá hægt að segja að hinn skráði fasteignaeigandi „eigi“ viðkomandi íbúðarhúsnæði?

Útlánaveislan sem boðið var upp á hér á Íslandi endaði á ekki ósvipaðan hátt og sú sem boðið var upp á vestan hafs. Fólk var ánægt og fannst það ríkt því það var skráður eigandi að húsnæði sem það átti þó ekki nema 10-20% í: svona svipað og að halda því fram að eiga 100kr. þegar 80 af þeim eru teknar að láni. Sjálfsblekkingin varð svo enn meiri þegar húsnæðisverð hækkaði einmitt vegna þess að aukin útlán stóðu til boða. En líkt og lýðurinn í Róm var ánægður svo lengi sem hann fékk leiki í hringleikahúsum og brauð með voru Íslendingar ánægðir svo lengi sem boðið var upp á nægilega mikið af útlánum. Á meðan voru stjórnmálamenn ánægðir því kjósendur voru ánægðir.

En bólan sprakk og það þarf að þrífa af borðum. Fjármálakerfið sjálft er enn í vandræðum vegna hárra skulda lántaka sem óvíst er að þeir ráði við. Íbúðalánasjóður er í vandræðum sem ekki sér fyrir endann á. Fyrri tíðar „fiff“ stjórnmálamanna þarf að laga.

Eitt væri að loka Íbúðalánasjóði. Nóg komið af tapi til handa framtíðarskattborgurum vegna þeirrar stofnunar. Vilji fólk auka möguleika tekjulágra til þess að búa í betra húsnæði en þeir gera á að hækka lágmarks framfærsluviðmið þeirra sem minnstar tekjurnar hafa. Í þeim hópi eru m.a. öryrkjar. Lækka mætti skatta á þá sem minnstar tekjurnar hafa svo það fólk hafi efni á að flytja í betra húsnæði. Þeir fjármunir sem sparast við að þurfa ekki að bjarga Íbúðalánasjóði enn meira en þurfa þykir mætti nota í þetta. Og munið að fólk þarf ekki að kaupa húsnæði – með 80-90% láni – til að því líði vel þar sem það býr.

Annað væri að taka peningamyndunarvaldið frá bönkunum eða að minnsta kosti koma böndum á það með mun öflugri hætti en nú er gert. „Let them eat credit“ væri þá ekki svo auðveldlega fjármagnað með nýmynduðum lánum og peningum frá bönkum sem græða mest þegar lántakar eru flestir. „Lán er lán“ er sannarlega rétt frá sjónarhóli banka.

Hið þriðja væri að endurskipuleggja lífeyrissjóðina, sérstaklega með blessaða ávöxtunarkröfuna í huga. Það er jú sannarlega „fiff“ hjá stjórnmálamönnum að setja lög um ákveðna skyldu lífeyrissjóða til lífeyrissgreiðslna sem aftur kallar á ákveðna ávöxtun fjármuna svo sjóðirnir geti staðið við hin lögfestu loforð. Þetta er ekki skynsamlegt! Hvað á að gera ef ekki er hægt að ná lágmarksávöxtuninni? Auka áhættuna í fjárfestingum? Lögin að baki lífeyriskerfinu eru satt best að segja ekki ósvipuð því að lögfest væri að ekki mætti taka lengri tíma en þrjár klukkustundir í að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur til að spara tíma því tíminn er peningar. Auðvitað þyrfti fólk þá að keyra eins og vitleysingar. Að sama skapi getur 3,5% viðmiðið ýtt lífeyrissjóðum í áhættufjárfestingar sem ekki geta talist skynsamlegar.

Hið fjórða væri að hætta að nota „útlánaveislur“ til að hylja yfir vandamál sem eiga sér rætur í öðru en skorti á útlánum. Ef Rajan hefur rétt fyrir sér og vandamálið er tekjuójöfnuður – kannski spilaði sú þróun sitt hlutverk á Íslandi meir en sú hugmynd að allir eigi að vera skráðir eigendur að húsnæðinu sem þeir búa í – þá þarf að sjá til þess að aðgengi að menntun og tekjumöguleikum sé sem jafnast (innskot: er þá t.d. góð hugmynd að draga úr starfsemi LÍN?) í stað þess að draga úr einkennum þess vandamáls með útlánaveislu. „Let them eat credit“ er ekki lausnin við slíku vandamáli ekki frekar en aspírin er lyfið við gláku. „Let them eat credit“ hefur raunar aldrei verið lausnin við einu né neinu öðru en ótta og fælni stjórnmálamanna frá því að takast á við erfið vandamál.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.6.2013 - 07:46 - FB ummæli ()

Álverin og íslenski orkumarkaðurinn

Íslendingar framleiða um 53.000 KWH af rafmagni á mann á ári. Miðað við hina frægu höfðatölu eru Íslendingar langstærstu framleiðendur rafmagns í heiminum. Næsta þjóð á eftir okkur eru Norðmenn með um 26.000 KWH á mann á ári.

Stóriðja á Íslandi kaupir um 80% af þessari raforku. Þar eru langstærstu kaupendurnir aðeins þrír, þ.e. Rio Tinto Alcan, Alcoa og Century Aluminium. Saman má raunar flokka þessi fyrirtæki sem einn hóp, sérstaklega þar sem til eru Samtök Álframleiðenda á Íslandi, SAMÁL.

Einkeypi- og fákeypi

Markaður þar sem aðeins einn kaupandi er af hinni framleiddu vöru er kallaður „einkeypismarkaður“ (e. monopsony). Séu þeir örfáir er markaðurinn kallaður „fákeypismarkaður“ (e. oligopsony).

Einkeypis- og fákeypismarkaðir virka í raun líkt og spegilmynd af einokunar- og fákeppnismörkuðum. Á einokunar- og fákeppnismörkuðum geta framleiðendur vörunnar verðlagt hana á hærra verði en ef almennileg samkeppni ríkti. Á einkeypis- og fákeypismörkuðum eru áhrifin þveröfug: í krafti stærðar sinnar getur kaupandinn krafist lægra verðs á vörunni en ef margir kaupendur væru að henni sem væru af svipaðri stærð.

Klassíska dæmið um einkeypismarkað er heilbrigðisþjónusta. Ástæðan er sú að langstærsti kaupandi heilbrigðisþjónustu er oftar en ekki ríkið, þ.e. þegar heilbrigðisþjónusta er á vegum hins opinbera. Læknar og hjúkrunarfólk eru framleiðendur heilbrigðisþjónustu en í krafti stærðar sinnar sem langstærsti kaupandi slíkrar framleiðslu getur hið opinbera borgað lægra verð fyrir hana en ella. Áhrifa af þessu má raunar gæta í þeim vandamálum sem upp hafa komið í íslenska heilbrigðiskerfinu í dag þar sem hið opinbera virðist reyna hvað það getur að fara ekki eftir gerðum launasamningum og vill þess aukin heldur ekki ganga til nýrra samninga um kaup og kjör lækna og hjúkrunarfólks.

Orkumaðurinn á Íslandi er fákeypismarkaður

Annað augljóst dæmi á Íslandi er orkumarkaðurinn. Langstærsti hluti framleiddrar orku er keyptur af örfáum aðilum sem í krafti stærðar sinnar geta þrýst verðinu sem þeir borga fyrir vöruna niður á við. Landsvirkjun og aðrir framleiðendur raforku geta í raun lítið gert því ef álfyrirtækin myndu ekki taka þátt í orkumarkaðinum myndi Landsvirkjun ekki finna tekjur til þess að borga eigin skuldbindingar á borð við endurgreiðslu lána. Landsvirkjun er því upp við vegg í málinu og getur ekki krafist þess verðs sem hún ella gæti ef raforkan væri seld til fleiri aðila. Ríkið getur ekki gert mikið í málinu heldur því það er ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsvirkjunar.

Álfyrirtæki geta því hótað að labba í burtu og skilja Landsvirkjun og hið opinbera eftir með skuldbindingar sem ólíklega væri ráðið við. Niðurstaðan verður því sú að raforkuverðið verður lægra, kaupendur raforkunnar græða og framleiðendurnir – Íslendingar – sitja eftir með sárt ennið þar sem þeir fá ekki réttmætt verð fyrir vöruna.

Það stórundarlega í stöðunni er að þrátt fyrir þetta fákeypisvandamál á íslenska raforkumarkaðinum virðist eiga að halda áfram að þrýsta á uppbyggingu frekari álframleiðslu á Íslandi en með því yrði þetta vandamál enn alvarlegra en það er í dag. Uppbygging álvers í Helguvík er því síður en svo gáfuleg út frá sjónarmiðinu um fákeypi á íslenskum orkumarkaði.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.5.2013 - 11:21 - FB ummæli ()

Álver, „eitthvað annað“ og hagvöxtur

Umræðan um hvort eigi að byggja álver eða gera „eitthvað annað“ er fjörleg nú um stundir. Ég ætla að leggja orð í belg og benda á þá staðreynd að margt „eitthvað annað“ hefur meiri möguleika en áliðnaður á því að halda uppi háum hagvexti á Íslandi til framtíðar.

Lögmál Thirlwalls

Til er „lögmál“ í hagfræði sem nefnt er eftir hagfræðingnum sem fann það fyrstur, Anthony Thirlwall. Lögmálið lýsir sambandi langtímahagvaxtar við útflutningsgreinar þjóðarinnar og í sinni einföldustu mynd er sambandið eftirfarandi:

Langtímahagvöxtur í landi A er jafn margfeldinu af hagvexti á heimsvísu og hlutfallinu milli tekjuteygnar eftirspurnar útflutnings og innflutnings.

OK, þetta hljómar illa svo ég skal gera mitt besta til þess að þýða þetta á mannamál.

Fyrst þurfum við að vita hvað „tekjuteygni eftirspurnar“ (e. income elasticity of demand) vöru er. Þetta hugtak lýsir því einfaldlega hversu mikið meira fólk vill neyta af vörunni þegar tekjur þess aukast. Ef ég t.d. eyk tekjur mínar um 1% er ég vís til þess að auka  neyslu  mína á humar um 2%. Það þýðir þá að tekjuteygni eftirspurnar humars er 2, þ.e. 2%/1%. Þetta einfalda samband eftirspurnar eftir vöru og tekna kaupandans er hægt að heimfæra á þjóðfélagið í heild.

Þá er eftir að þýða restina af setningunni. „Hagvöxtur á heimsvísu“ er auðskilinn. „Hlutfallið milli tekjuteygni eftirspurnar útflutnings og innflutnings“ er einfaldlega hlutfallið milli þess hve mikið meira er óskað eftir því að kaupa af útflutningi lands þegar tekjur heimsbyggðarinnar aukast – hagvöxtur á sér stað – og þess hve mikils landið sem um ræðir mun óska eftir því að flytja inn þegar tekjur þarlends fólks aukast.

Ef við t.d. ímyndum okkur að heimsbyggðin vilji kaupa 4% meira af einu vörunni sem er flutt út frá ákveðnu landi þegar tekjur heimsbyggðarinnar aukast um 1% væri það tekjuteygni eftirspurnar útflutnings upp á 4. Á sama tíma mun almenningur í þessu tiltekna landi vilja kaupa eitthvað inn frá öðrum löndum þegar tekjurnar aukast. Segjum að sú aukning sé t.d. 3% fyrir hverja 1% aukningu í tekjum. Tekjuteygni eftirspurnar innflutnings er þá 3. Saman þýðir þetta að hlutfallið milli tekjuteygnar eftirspurnar útflutnings og innflutnings er 4/3 eða 1,33.

Margföldum svo hagvöxt í heiminum öllum við töluna 1,33 og við fáum út langtímahagvöxt í viðkomandi landi samkvæmt Thirlwall.

 Dæmi um virkni lögmáls Thirwalls

Nú getum við skoðað nærtæknara dæmi til að skilja þetta betur.

Ímyndum okkur að landið Ísland geti valið milli tveggja vara þegar það tekur ákvörðun um hvora þeirra eigi að framleiða og flytja út. Köllum vörurnar „ál“ og „ferðamennsku“. Tekjuteygni áls er ca. 0,9 (sjá Tcha & Takashina, 2002) sem þýðir að þegar heimurinn allur eykur tekjur sínar um 1% eykst neysla á áli um 0,9%. Tekjuteygni ferðamennsku er hins vegar í kringum 1,8 (meðal annars háð því hvaðan ferðamennirnir eru að koma og hvert þeir eru að fara, sjá m.a. bók James Mak, 2004, „Tourism and the Economy“, University of Hawai Press) sem er tvöfalt hærri en samsvarandi tala fyrir ál. Við getum, til einföldunar, gert ráð fyrir því að hagvöxtur heimsins sé sá sami hvað sem Íslendingar velja að framleiða og þá gerum við líka ráð fyrir því, til einföldunar, að Íslendingar muni flytja inn sömu vörurnar óháð því hvort þeir ákveði að framleiða og flytja út ál eða ferðamennsku.

Það þarf ekki að íhuga málið lengi miðað við gefnar forsendur og gögn til að sjá að það er ekki gáfulegt fyrir Íslendinga að framleiða ál í staðinn fyrir ferðamennsku. Annars vegar erum við með ál hvers eftirspurn eykst um minna hlutfall en tekjur heimsins aukast um og hins vegar erum við með ferðamennsku sem selst eins og heitar lummur þegar tekjur fólks aukast. Vitanlega ættum við þá að framleiða ferðamennsku frekar en ál.

Þar fyrir utan er svo vitanlega sú staðreynd að hagnaðurinn af álframleiðslu er ekki eftir í landinu heldur er hann fluttur úr landi. Það á ekki við um ferðamennsku sem er í eigu innlendra aðila.

Innflutningshliðin

En þetta er ekki búið því hægt er að hugsa mun lengra en valið milli ferðamennsku og álframleiðslu, þ.e. útflutningsgreina. Lögmál Thirlwalls gengur í raun út á að hámarka hlutfallið milli tekjuteygni eftirspurnar útflutnings og tekjuteygni eftirspurnar innflutnings. Það má gera í fyrsta lagi með því að framleiða frekar þær vörur sem hvað mesta tekjuteygni eftirspurnar hafa – ca. 1,8 í tilfelli ferðamennsku en aðeins um 0,9 í tilfelli áls – en einnig með því að reyna að framleiða sjálf þær vörur sem við þurfum annars að flytja inn.

Eitt dæmi um hugsanlega vöru sem við getum reynt að minnka innflutning okkar á er orka. Þá á ég við orku í formi jarðefnaeldsneytis, s.s. dísel og bensín. Einhver geta er til þess að framleiða metan eldsneyti þótt líklega muni sú framleiðsla aldrei ná að þjóna allri eftirspurninni. Önnur hugsanleg aðferð er að auka fjölda rafmagnsbíla í umferð, sérstaklega þar sem nýjustu rafmagnsbílarnir gefa jarðeldsneytisbílum lítið eftir (t.d. Tesla Model S). Innflutningur á bensíni var rúmlega 18 milljarðar króna á síðasta ári og það væri kærkomið að minnka þessa tölu með þvi að nota orkugjafa – rafmagn – sem við framleiðum sjálf. Hið opinbera gæti aðstoðað við þessa þróun, t.d. með því að fella niður alla skatta og gjöld af rafmagnsbílum.

Hvað með „eitthvað annað“?

Á heildina litið snýst málið um að framleiða þær vörur hvers eftirspurn eykst hraðar en annarra vara þegar tekjur fólks í útlöndum aukast. Ef það tekst ekki er hætt við langtíma stöðnun. Það er til dæmis þekkt vandamál að þróunarlönd framleiða mikið af hrávörum og matvöru en eftirspurn eftir þessum vörum eykst, í mörgum tilfellum, lítið þótt tekjur fólks í öðrum löndum aukist. Útflutningur frá þróunarlöndum tekur því aldrei almennilega við sér. Á meðan framleiða þróuð hagkerfi vörur sem mikil eftirspurn er eftir þegar tekjur fólks aukast. Vegna þessa er svo erfitt fyrir þróunarlönd að brjótast út úr stöðnuninni og ná þróuðu löndunum í lífsgæðum. Íslendingar ættu að forðast að gera þessi mistök, þ.e. að framleiða hrávöru sem lítið meira selst af þótt tekjur fólks í öðrum löndum aukist.

Þær vörur sem seljast mikið þegar tekjur fólks aukast eru t.d. iðnaðarvörur byggðar á hátækni (vitsímar og vandaðir bílar eru gott dæmi), afþreying (þar með talið tölvuleikir, kvikmyndir, ferðamennska, veitingastaðir og fleira í þeim dúr), hágæða matvörur (fín vín, humar, kavíar og lífrænt ræktaðar matvörur svo dæmi sé tekið) og skartgripir (gull, úr, hringar, hálsmen, o.s.frv.). Vörur sem seljast lítið meira þótt tekjur fólks aukist eru vörur á borð við margar hrávörur (þar á meðal ál og margir aðrir málmar), grundvallar matvörur (mjólk, hveiti, hrísgrjón, maís, o.s.frv.) og óunnin vefnaðarvara (tískuvörufatnaður þar sem hönnun er mikilvægur hluti framleiðslunnar er hins vegar með háa tekjuteygni eftirspurnar).

Í raun má segja að svo lengi sem þetta „eitthvað annað“ sem framleiða á í staðinn fyrir meira ál er vara hvers eftirspurn eykst hlutfallslega meira en tekjur fólks aukast eru allar líkur á því að það sé gáfulegra að framleiða „eitthvað annað“ í staðinn fyrir álið. Ferðamennska er þar klárlega ofarlega á blaði og þar sem flestir ferðamenn sem koma til Íslands gera það vegna ósnortinnar náttúru (án rafmagnslína og álvera) eru allar líkur á því að áliðnaður og ferðamennska á Íslandi geti ekki lifað fullkomlega saman í sátt og samlyndi. Og þar sem vaxtar- og tekjumöguleikar ferðamennsku eru betri en álvinnslu á ferðamannaiðnaðurinn að fá forgang hjá stjórnvöldum! Það er þjóðhagslega hagkvæmt!

Íslendingar ættu, frekar en að byggja fleiri álver, að snúa sér að því að byggja ferðamannaiðnaðinn upp fyrir alvöru. Þá ætti að ýta undir nýsköpun í „einhverju öðru“, sérstaklega ef það er í framleiðslu á vöru og þjónustu hvers eftirspurn eykst mikið þegar tekjur fólks aukast. Þá mætti skoða að nota orkuna í „eitthvað annað“ eins og að stuðla að minni innflutningi á dýru jarðefnaeldsneyti. (Og hér er hugmynd fyrir ferðamannaiðnaðinn og orkuiðnaðinn til að vinna saman: reisið „Orkubúgarð“ sem væri knúinn af íslenskri raforku og sýndi t.d. sögu rafmagns, virkni þess og ýmsa notkun á því, eins og t.d. „Magnifying transmitter“ sem jafnvel væri hægt að labba í gegnum… vá hvað það væri flott!! Ég sé líka fyrir mér nokkurs konar „rafmagnstónleika“ þar sem íslensk tónlist væri flutt.)

Allt þetta hefur þá kosti að hagvöxtur á Íslandi yrði hærri til frambúðar en ef haldið væri áfram við uppbyggingu álvera. Uppbygging á „einhverju öðru“ yrði ekki skammtímafix, líkt og hættan er að yrði í tilviki álvers, heldur væri hagkerfinu lyft á hærra stig til frambúðar. Þá myndi arðurinn af þessari starfsemi vera eftir innan íslenska hagkerfisins en ekki vera fluttur úr landi.

Það eru allar líkur á því að það sé efnahagslega skynsamlegt fyrir Íslendinga að láta gott heita í uppbyggingu álvera. Gerum „eitthvað annað“.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.4.2013 - 12:32 - FB ummæli ()

Hugleiðingar um peningakerfið

Eitt af kosningamálunum er peningakerfið. Svei mér ef flestir ef ekki allir flokkarnir ætli sér að gera eitthvað með málefnið. Mest áberandi „kostirnir“ sem í boði eru fyrir kjósendur er evruupptaka (í kjölfarið á ESB inngöngu) eða það sem kallað hefur verið „Betra peningakerfi“ eða „heildarforðakerfi“. Þetta kerfi hefur einkum verið kynnt á vefnum Betra peningakerfi en systurfélög sem stefna að svipuðum markmiðum má finna í öðrum löndum t.d. Positive Money í Bretlandi.

Betra peningkerfi hugmyndin byggir, í grundvöllinn, á þeirri staðreynd að það eru bankar sem búa til mest alla þá peninga sem notaðir eru. Frá 1994 hefur, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, hlutfallið verið á bilinu 96-99%, sé miðað við stærsta mælikvarða peningamagns í umferð sem gefinn er út hér á landi.

Undir nýja peningakerfinu yrði þetta hlutfall 0%; bankar byggju ekki til neina af þeim peningum sem eru viðurkenndir sem lögeyrir (sem við skulum hér miða við að sé sú greiðsla sem hægt sé að nota við að borga skatta). Hugmyndin er að seðlabankinn þenji út hlutverk sitt sem útgefandi peninga úr því að ná aðeins yfir seðla og mynt yfir í alla peninga, þar með talið það sem kallað hefur verið „rafpeningar“. Það hugtak er notað yfir annars konar peninga en seðla og mynt, þ.e. innistæður á bankareikningum – einkum og sér í lagi tékkareikningum.

Ég ætla ekki að fara í út í það hér hverju yrði náð fram, fólk getur m.a. kynnt sér síðuna Betra peningakerfi til þess. Ég vil heldur koma á fram eftirfarandi hugleiðingum. Og hér finnst mér rétt að geta þess að þótt ég sé einn þeirra sem nafn birtist á Betra peningakerfi sem „aðstandendur“ þá eru þetta eigin hugleiðingar.

Hvaða peninga á seðlabankinn að búa til?

Eitt sem skoða verður er hvaða peninga Seðlabankinn á að búa til.

„Gallinn“ við peninga er þeir eru flókið fyrirbæri. Þeir eru annað og meira en bara seðlar og mynt eða innistæða á tékkareikningi sem tengdur er við debetkort. Peningar eru hvert það fyrirbæri sem viðurkennt er sem fullnaðargreiðsla fyrir ákveðinni skuldbindingu. Þessi eiginleiki peninga byggist á því hvort viðtaki greiðslunnar sé tilbúinn til þess að horfa skuldbindinguna sem uppfyllta gegn afhendingu einhvers fyrirbæris sem þá myndi vera „peningur“ því skuldbindingin er, samkvæmt viðtaka greiðslunnar, uppfyllt.

Þannig getur kaffibollinn sem ég er að drekka úr – fyrirbærið – verið peningur fyrir einhverri þjónustu – skuldbindingu – ef sá sem mun framkvæma þjónustuna samþykkir kaffibollann sem fullnaðargreiðslu. Að sama skapi þarf fyrirbærið ekki að vera eitthvað sem hægt er að halda í hendi. Loforð getur nægt eða það sem kallað er á ensku „I.O.U.“ (sem stendur fyrir „I owe you“ eða „ég skulda þér“). Raunar er loforðið líklega elsta form peninga sem til er (sjá Graber – Debt: The First 5,000 Years) og kom það löngu á undan lánum eða peningum.

Að sama skapi getur bókhaldsfærsla í viðskiptabanka verið peningur ef almennt er viðurkennt að slíkt sé fullnaðargreiðsla fyrir skuldbindingu. Það er svo sannarlega í dag; m.a.s. hið opinbera viðurkennir bankainnistæðu sem greiðslu fyrir skattskuld sem líklega er harðasta skuldbinding sem hægt er að búa til því hið opinbera getur fangelsað þig (eða skikkað þig í þrældóm eins og tíðkaðist hér fyrr á öldum) ef þú uppfyllir ekki þá skuldbindingu.

Raunar er það svo að hver sem er getur búið til peninga, vandamálið er að fá þá viðurkennda (fræg orð frá Hyman Minsky). Ég hef t.d. heyrt af því að á meðan hruninu stóð voru sum fyrirtæki byrjuð að viðurkenna annars konar peninga en þau voru vön að gera. Þá viðurkenndu þau það sem „greiðslu“ að viðskiptavinurinn, köllum hann Jón, gæfi út skuldabréf til þeirra, þ.e. loforð um greiðslu, án þess að nokkur banki kæmi nálægt. Þar með var Jón að búa til peninga: skuldabréfið var viðurkennd greiðsla.

Þá kemur spurningin: ef hver sem er, Jón þar á meðal, getur búið til peninga, hvaða peninga á Seðlabankinn að búa til í nýja peningakerfinu? Einstök skuldabréf sem ganga kaupum og sölum einstaklinga á milli án aðkomu fjármálastofnana eru ólíkleg til þess að hafa meiriháttar áhrif svo það er óhætt að horfa framhjá þeim.

En hvað með banka sem eru langstærslu milligönguaðilar greiðslna og nota það hlutverk sitt í dag til þess að búa til peninga eins og þeim lystir? Já, undir nýja kerfinu væri þeim bannað að búa til bókhaldsfærslur sem hægt væri að nota sem „rafpeninga“, s.s. til greiðslu skatta. (Slíkir peningar yrðu geymdir á bókum Seðlabankans.) En hvað með aðrar bókhaldsfærslur banka, s.s. afleiðuviðskipti, kaup á hlutabréfi með framvirkum samningi eða kreditkortaviðskipti?

Allt, og miklu meira til, eru þetta bókhaldsfærslur hjá bönkum sem gætu virkað sem peningar (kredikort gera það þegar í dag). Alveg eins og í tilviki Jóns hér að ofan væri það ekkert sem stoppaði banka í því að búa til bókhaldsfærslurnar til hvers þess sem þeir vildu. Það eina sem myndi stoppa bankana væri vilji mótaðila þeirra í viðskiptum til þess viðurkenna bókhaldsfærslu bankans sem greiðslu, þ.e. peninga.

Það sem ég er að koma að er spurningin hvort skilgreina þurfi hlutverk banka enn betur en það eitt að þeir geti ekki búið til lengur þá peninga sem viðurkenndir eru sem fullnaðargreiðsla á almennum skuldbindingum, skattskuldbindingum einkum og sér í lagi. (Skattskuldbindingar eru mjög mikilvægar því næstum allir hafa þær og því er hvað það sem viðurkennt er sem greiðsla skatta verðmætt vegna þess eins og mun mjög líklega verða viðurkennt sem peningar í framhaldinu.) Þar með talið er t.d. að skoða hvort það sé sniðugt að bankar geti verið fjárfestingar- og viðskiptabankar á sama tíma en það myndi draga úr getu banka til þess að búa til „annars konar peninga“ – „money substitutes“ eins og það er kallað á ensku – ef þeir væru aðskildir.

Skuldlausir peningar?

Eitt af því sem haldið er fram er að hægt sé að búa til peningana án þess að einhver skuld eða skuldbinding standi að baki þeirra.

Sjálfur hef ég vissar athugasemdir um hvort þetta sé hægt. Ég ritaði „skuldbinding“ margoft hér að ofan. Í raun er það grundvöllur peninga að það sé einhvers konar skuld eða skuldbinding sem greiðsla þeirra er að uppfylla: ef greiðsla þeirra uppfyllir ekki skuldbindinguna sem þeir eiga að uppfylla þá eru þeir ekki peningar.

Spurningin er hvort það sé hægt að bóka peningamyndunina í nýja peningakerfinu aðeins sem eignamyndun. Ég verð að viðurkenna að það þætti mér merkilegt því mér finnst að þá sé verið að brjóta grundvallarreglu tvíhliða bókhalds; credit færsla kallar á jafnháa debit færslu. Ef til vill er þetta hægt, ég er ekki meistari í bókhaldi og reglunum þar á bakvið.

Það hins vegar er í raun ekki vandamál hvort það sé hægt að bóka peningamynduna sem skuldlausa eða ekki. Það eina sem þarf að sjá til er að skuldin sem myndast við peningamyndunina verði aldrei greidd né heldur að það sé nokkurt greiðsluflæði (afborganir og vextir) sem þarf að standa skil á vegna hennar.

Peningamyndunina í nýja kerfinu má auðveldlega bóka til dæmis á eftirfarandi hátt. Seðlabankinn býr til 1.000.000 króna með því að bóka, samtals, 1.000.000kr. hækkun á tékkareikningum fólks sem geymdir eru á skuldahlið Seðlabankans. Í staðinn færir Seðlabankinn til bókar 1.000.000kr. eign sem skal vera skuld ríkissjóðs. Þar með er ríkissjóður í raun búinn að taka að láni 1.000.000kr. hjá Seðlabankanum og greiða inn á tékkareikninga fólks (sjá síðar hví ég set þetta svona upp). Efnahagsreikningur Seðlabankans hefur þanist út um 1.000.000kr.

Nú hugsar einhver hvort það sé ekki slæmt að ríkissjóður skuli skulda 1.000.000kr. vegna peningamyndunar Seðlabankans. Það er hins vegar svo að þessi skuld verður aldrei greidd til baka! Og það er raunar mjög mikilvægt eins og útskýrt verður rétt strax.

Þetta er skuldabréf er opið – nokkurs konar „lánalína“ eins og það heitir á máli fjármálamarkaða eða einfaldlega „yfirdráttarheimild“ í daglegu tali – og ber enga vexti og engar afborganir. Þetta skuldabréf skal alltaf vera á bókum seðlabankans og verður alltaf skuld ríkissjóðs til seðlabankans. En þar sem skuldabréfið hefur engar samningsgreiðslur er greiðslubyrði þess engin. Og þar sem greiðslubyrðin er engin er skuldabyrðin engin.

Það er mjög mikilvægt að þetta skuldabréf verði aldrei greitt til baka. Ástæðan er sú að peningamagnið í umferð í hagkerfinu er byggt upp af því að skuldabréfið sé til: peningarnir á tékkareikningum fólks eru búnir til með því að hækka höfuðstól skuldabréfsins. Ef ríkissjóður tæki sig til, heimtaði skatt af fólki og notaði þær skatttekjur til að greiða inn á skuldabréfið væri peningamagnið í umferð að minnka. Og það kallar á allan fjárann af efnahagsvandræðum: verðhjöðnun, skort á fjárfestingu, atvinnuleysi, o.s.frv.

Í raun er með þessu fyrirkomulagi verið að gera þá staðreynd að peningar séu skuld augljósa! Skuld ríkissjóðs til Seðlabankans eru peningarnir í hagkerfinu: „I.O.U“ nótan sem ríkissjóður gefur út til Seðlabankans verður að peningum í daglegu lífi fólks. Þessir peningar verða aðeins til staðar svo lengi sem „I.O.U“ nótan verður aldrei greidd til baka!

Það skemmtilega er að það er til að minnsta kosti eitt dæmi þess í sögunni að ekki ósvipuð atburðarás hafi átt sér stað (aftur, Graber segir söguna). Árið 1694 tók Englandskonungur lán hjá enskum bönkum. Lánið var upp á 1.200.000 punda og var m.a. ætlað til uppbyggingar á flota Englands (flota sem varð grundvöllurinn að breska heimsveldinu). Ofan á 8% vexti fengu bankarnir einokunarvald, í gegnum Bank of England (sem þá var í eigu bankanna sem veittu lánið), til þess að gefa út peningaseðla sem urðu að lögeyri. Þessir peningaseðlar voru í raun tryggðir af skuldabréfinu (svipað og gullfótur nema þarna var það „skuldabréfsfótur“).

Þetta er mjög mikilvægt í okkar samhengi. Staðreyndin er sú að þetta 1.200.000 punda lán hefur aldrei verið greitt til baka og það verður aldrei greitt til baka. Ef það gerist gæti grundvöllur peningakerfis Bretlands auðveldlega hrunið, svipað og ef allt gull heims hefði þurrkast út á einhvern hátt í tímum gullfótarins. Fótunum væri kippt undan peningakerfinu á svipstundu. Á sama hátt mætti skuld ríkissjóðs Íslands við Seðlabanka Íslands aldrei vera greidd upp í hinu nýja peningakerfi: skuldin væri peningarnir í umferð og án hennar væri ekkert peningakerfi!

Og vitanlega ætti skuldabréfið að vera vaxtalaust. Í fyrsta lagi yrði til staðar greiðslubyrði af láninu ef vextir yrðu til staðar og það væri beinlínis gegn tilgangi nýja peningakerfisins sem m.a. er að draga úr skuldabyrði hins opinbera. Í öðru lagi: hver væri tilgangurinn með því að hafa vexti á bréfinu? Svo Seðlabankinn fengi vexti af eign sem hann bjó til með því einu að skrifa tölur inn í tölvuna hjá sér?? Seðlabankinn er líka í eigu ríkisins. Það eru því engin rök fyrir því að hafa vexti á bréfinu.

Blessaðir pólitíkusarnir

Að koma peningunum í umferð er eitt málefni sem á eftir að ræða. Ein hugmyndin er að Seðlabankinn afhendi ríkissjóði peningana með innleggi á tékkareikning ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með króníska tilhneigingu stjórnmálamanna til að skora eld að eigin köku líst mér persónulega mjög illa á það. Ég sé það í anda: ráðherrar myndu keppast við að lofa upp í ermina á sér ýmis konar verkefnum í eigin kjördæmi sem þeir ætluðu að fjármagna með peningunum frá Seðlabankanum. Það má ekki gerast!

Ég hygg að það sé betra að Seðlabankinn greiði ríkissjóði aldrei eina einustu krónu. Það er hugmyndin hér að ofan. Í stað þess að Seðlabankinn greiði ríkissjóði þá peninga sem búnir eru til þá skuli greiða Íslendingum þá.

Hver og einn Íslendingur með tékkareikning – eða þeir sem eru fjárráða ef fólk vill það frekar – fengi greiddan sinn jafna skerf af þeim peningum sem Seðlabankinn telur rétt að búa til. Tékkareikningar fólks yrðu hvort eð er geymdir á bókum Seðlabankans svo það væri auðvelt: bókhaldsfærslur beggja megin efnahagsreiknings Seðlabankans svipuðum þeim sem lýst er hér að ofan.

Það er margt sem næðist fram með þessu. Í fyrsta lagi gæti fólk eytt peningunum eins og því lysti, það hefði fullkomið frelsi til slíks (þetta myndi þá draga úr áhyggjum fólks um að þetta sé sovéskt kerfi).

Í öðru lagi yrði almenningur meira á verði varðandi framgang peningastefnunnar. Það sæi innleggið (það mætti vera mánaðarlegt) frá Seðlabankanum og skildi betur hvað væri í gangi, allt eftir því hvernig innleggið breyttist. Ég efast stórlega um að fólk myndi nenna að fletta því upp jafnoft og það flettir upp stöðunni á tékkareikningum hvað ríkissjóður væri að fá mikið frá seðlabankanum ef hann fengi peningana beint. Skortur á gegnsæi yrði samstundis til staðar. Og það kallar á pólitíska spillingu.

Í þriðja lagi mætti ríkissjóður enn fá sinn skert af þessum peningum en það ætti að gerast á sama hátt og í dag: með skattlagningu. Það yrði þá hluti af lýðræðislegum kosningum hvort og þá hversu mikið ríkissjóður ætti að taka af þessum peningum (sem einnig ætti að draga úr áhyggjum fólks um sovétið).

Og í fjórða lagi yrði þetta sanngjarnasta leiðin: allir fengju sinn jafna skerf, enginn væri uppáhalds og enginn gæti notað sér pólitísk vinasambönd til þess að fá meira af þessum peningum en aðrir (að minnsta kosti yrði vandamálið ekki meira áberandi en það er þegar í dag hvað varðar pólitíska spillingu).

Breyting til batnaðar ef rétt er haldið á spilunum

Þetta eru svona mínar helstu hugleiðingar um kerfið en þær eru margar aðrar. Þær bíða þó betri tíma.

Í grundvallaratriðum er hugmyndin að baki nýju peningakerfi mjög góð. Það skiptir hins vegar máli hvernig hún er framkvæmd, sérstaklega þegar kemur að því að skoða hlutverk banka í hagkerfinu önnur en að búa til peninga eins og þeir gera í dag. Þá finnst mér ekkert að því að horfast í augu við þá staðreynd að ólíklega sé hægt að bóka peningana sem skuldlausa (það er mitt álit). En þótt það væri ekki hægt að bóka peningamyndunina sem skuldlausa þá þarf það ekki að vera vandamál.

Að minnsta kosti finnst mér ljóst að þetta kerfi yrði skárra en það sem við höfum í dag, svo lengi sem það yrði framkvæmt á réttan máta.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.3.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Heitasta kosningaloforðið

Í febrúar 2012 viðraði ég hugmynd um hvernig mætti fella niður hluta skulda heimila án þess að aðrir skattgreiðendur en útlánastofnanir – hverjar þær yrðu væri útfærsluatriði – borguðu kostnaðinn. Þar sem eitt heitasta kosningaloforðið er niðurfelling skulda (Dögun, Framsókn, Hægri Grænir… fleiri?) ætla ég að leyfa mér að rifja upp hugmyndina. Og, já, ég er ennþá þeirrar skoðunar að þetta er framkvæmanlegt, a.m.k. að einhverju marki.

Upprunalega hugmyndin

Til þess að forðast endurtekningar ætla ég einfaldlega að benda á pistlana þrjá sem ég skrifaði í febrúar fyrir ári síðan. Sá fyrsti var Framkvæmd skuldaniðurfellingar. Næstur var Framkvæmd skuldaniðurfellingar, hluti 2 og hinn síðasti var Athugasemdir um skuldaniðurfellingu. Þó er rétt að útskýra hugmyndina í mjög stuttu máli hér til að halda samhengi.

Fyrsta skrefið var að stofna „sértækt eignarhaldsfélag“ (e. special investment vehicle). Þetta fyrirtæki myndi taka lán hjá Seðlabankanum sem myndi búa til peningana úr engu öðru en bókhaldsfærslum líkt og bankar geta og gera. Andvirði lánsins yrði borgað út til heimila. Heimili gætu aðeins notað andvirðið í einn hlut: að borga inn á höfuðstól láns. Þá er upphæðin komin til útlánastofnana sem síðan leggja hana inn á reikning hjá seðlabankanum. Upprunalega lánið til eignarhaldsfélagsins yrði svo endurgreitt af útlánastofnunum en það væri útfærsluatriði hversu mikið hver útlánastofnun myndi borga. Endurgreiðsla lánsins myndi eingöngu eiga sér stað ef útlánastofnanir myndu hagnast.

Margir skutu hugmyndina samstundis í kaf. Gylfi Magnússon spurði hví við björguðum ekki Afríku í leiðinni. Tryggvi Herbertsson var hógværari, spurði hví við tækjum ekki 400-800 milljarða í staðinn fyrir 200 milljarða eins og oft var miðað við. Þórarinn Pétursson skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hann benti á hið augljósa: það væri ekki hægt að fella niður skuldir án þess að einhver borgaði það. Það er alveg hárrétt og hugmyndin var beinlínis að láta lánastofnanir borga kostnaðinn (það er ennþá hugmyndin, sjá neðar). Þá var það líka augljóst að það var ekki hægt að fella niður hvaða upphæð sem er, nokkuð sem a.m.k. Gylfi og Tryggvi virtust ekki átta sig á, vegna neikvæðra áhrifa á nettó vaxtatekjur útlánastofnana.

Greinarnar sem ég sá sem andsvar við hugmyndinni voru þó ekki að fjalla um það sem ég hafði mestar áhyggjur af. Það sem ég hafði mestar áhyggjur af var annars vegar hvort þetta væri löglegt bókhaldslega séð; væri hægt að bóka þetta í gegnum „sértækt eignarhaldsfélag“? Ég fékk aldrei svar við því.

En það er hægt að gera þetta án þess að stofna sértækt eignarhaldsfélag og sleppa allri bókhaldsleikfimi. Og það er vitanlega svo auðvelt að stilla því þannig upp að ég skammast mín fyrir að hafa ekki hugsað út í þetta áður. Margur hefur vafalaust gert það.

Einfaldara að nota efnahagsreikning ríkissjóðs

Lausnin er vitanlega sú að gefa út ríkisskuldabréf sem Seðlabankinn kaupir með peningum sem hann býr til úr engu öðru en bókhaldsfærslum – það er normið við lánveitingar bankastofnana hvort eð er. Engin „sértæk eignarhaldsfélög“ og engar „útrásarvíkinga bókhaldsæfingar“ eins og einn gagnrýnandi hugmyndarinnar sagði við mig á sínum tíma.

Þá náttúrulega standa allir upp og segja strax „og eiga skattgreiðendur að borga milljarða fyrir að fella niður skuldir heimila?“ Mitt svar er „já, en eingöngu nokkrir skattgreiðendur“. Þessir „nokkrir skattgreiðendur“ eru vitanlega útlánastofnanir, einkum og sér í lagi bankarnir þrír.

Hugmyndin er því eftirfarandi:

1. Seðlabankinn lánar ríkissjóði vaxtalaust lán upp á þá upphæð sem á að nota í skuldaniðurfellinguna. Sem áður skulum við miða hér við 200 milljarða en ég ætla ekki að halda því fram að „skattgreiðendur“ (bankarnir) geti staðið undir svo hárri niðurfellingu, það yrði að skoða sérstaklega. Það eru engir fastir gjalddagar á láninu því eingöngu er greitt inn á það í samræmi við lið 3.

2. Ríkissjóður borgar heimilum upphæðina sem eingöngu nota hana í að borga inn á höfuðstól lána. Upphæðin er komin inn á efnahagsreikning bankanna. Þeir setja upphæðina á vaxtalausan reikning í Seðlabankanum. Upphæðin er bundin uns skuldabréfið, eða hluti af því, hefur verið greitt upp, sjá lið 3.

3. Ríkissjóður setur skatt á framtíðar hagnað þeirra útlánastofnana sem eiga að borga kostnaðinn við skuldaniðurfellinguna. Þegar þessar skatttekjur verða að veruleika fara þær, skilyrðislaust, í að borga skuld ríkissjóðs við seðlabankann sem stofnað er til í lið 1. Þegar greitt hefur verið inn á skuldabréfið  mun Seðlabankinn leyfa viðkomandi útlánastofnunum að gera það sem þær vilja við samsvarandi upphæð af heildarupphæðinni, sjá lið 2. Þetta þýðir að borgi t.d. Arion 1 milljarð í skatt sem síðan er notaður til að borga niður höfuðstól lánsins frá seðlabankanum til ríkissjóðs (sjá lið 1) mun seðlabankinn losa um 1 milljarð á vaxtalausum reikningi Arion í seðlabankanum, sjá lið 2. Þetta er gert til að hvetja bankastofnanir til að greiða sinn hluta af reikningnum sem fyrst. Um leið og þær borga inn á skuldabréfið geta þær ráðstafað samsvarandi upphæð af vaxtalausa reikningnum í Seðlabankanum í hvað sem þær vilja og þar með hagnast meira en ef peningarnir myndu liggja inni á vaxtalausum reikningi. Bankastofnanir munu þá líka í kjölfarið sjá til þess að hið opinbera muni í raun nota peningana í að greiða niður lánið. Ætli hið opinbera að svíkja lit og t.d. byggja jarðgöng eða höfn einhvers staðar munu bankarnir láta fólk heyra það að ríkið sé að bregðast sínum skyldum.

Eina breytingin frá upprunalegu upphugmyndinni er í raun að bóka lánið á efnahagsreikning ríkissjóðs í stað þess að fara í gegnum sértækt eignarhaldsfélag.

Hvaða skattgreiðendur eiga að borga og hvers vegna?

Endurreisn íslenska fjármálakerfisins var ekki ókeypis. Sigrún Davíðsdóttir og Þórólfur Matthíasson setja ca. 340-420 milljarða á þann verðmiða (20-25% af landsframleiðslu) sem er með dýrustu endurreisnum í fjármálasögunni. Brúttókostnaður ríkissjóðs við endurreisn fjármálakerfisins var 414 milljarðar króna samkvæmt Ríkisendurskoðun. Mestur kostnaðurinn var vegna útlána Seðlabankans og ríkissjóðs til bankanna; 267 milljarðar. Þetta fé er tapað fé að mati Ríkisendurskoðunar. Þessi kostnaður er kominn til vegna þeirra bankabjörgunaraðgerða sem reynt var að fara út í á seinni hluta ársins 2007 og fram að hruni. Þær klúðruðust, ekki síst vegna þess að bankarnir voru þá þegar í raun komnir að fótum fram og það var ekki hægt að bjarga þeim hvort sem var.

Eftir hrun hafa Íslandsbanki, Landsbanki og Arion hagnast um samtals 234,5 milljarða króna samkvæmt upplýsingum frá The Icelandic Financial Reform Initiative. Hluti þessa hagnaðar er vegna uppfærslu á lánasafni bankanna sem flutt var á 30-40% afslætti (jafnvel meira í sumum tilvikum) frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þannig varð, í október 2008, 100 krónu skuld Jóns við Kaupþing að 60 kr eign á efnahagsreikningi Arion. Arion reyndi eftir sem áður að rukka Jón um 100 kr. og hefur, hægt og rólega, hækkað 60kr. töluna upp í kannski 70-80 krónur. 10-20 krónu hækkunin er bókuð sem hagnaður eða „endurmat á virði eigna.“ Frír bókhaldslegur hagnaður í vöggugjöf.

Hagnaðartölur bankanna eru ennþá magnaðri í ljósi þess að vegna til dæmis gengislánadómanna hafa um 170 milljarðar af skuldum heimila – eignum bankanna – þurrkast út. Það er þó aðeins brot af öllum þeim 750 milljörðum sem hafa verið felldir niður af skuldum síðan frá hruni.

Staldrið aðeins við og hugsið út í þetta: er ekki eitthvað óeðlilegt við 235 milljarða hagnað bankanna þrátt fyrir 750 milljarða skuldaniðurfellingar fjármálakerfisins alls á sama tíma sem að mestu koma frá umræddum bönkum? Og er ekki óeðlilegt að ríkissjóður borgi 414 milljarða til þess að endurreisa fjármálakerfið án þess að ríkissjóður fái það fé greitt til baka, með ávöxtun, á einn eða annan hátt?

Ég ætla ekki að skammast mín neitt fyrir að segja að það eiga að vera bankarnir sem skulu greiða mestan kostnaðinn við skuldaniðurfellingu. Ástæðan er einfaldlega sú að mestallan kostnaðinn vegna endurreisnar fjármálakerfisins má rekja til gömlu bankanna og þeirra starfsemi. Vilji fólk það má horfa á niðurfellingu á skuldum heimilanna sem endurgreiðslu á því opinbera fé sem fjármálakerfið fékk úthlutað í endurreisnarstarfinu. (Nota bene: það má gera þetta og nota peningana í annað en skuldaniðurfellingu, s.s. endurreisn heilbrigðiskerfisins. En þið vilduð vita hvernig ætti að fjármagna skuldaniðurfellingu sérstaklega svo fókusinn er á þeirri aðgerð hér.)

Kostnaðurinn við skuldaniðurfellingu endar, samkvæmt þessari tillögu, aldrei á öðrum skattgreiðendum en bönkunum. Þetta er svo þrátt fyrir að skuldabréfið í lið 1 sé bókað sem skuld ríkissjóðs. Þótt ríkisskuldabréfið yrði til þess að skuldir ríkissjóðs myndu aukast um upphæð þess yrði greiðsluflæði þess eingöngu til staðar þegar bankarnir yrðu skattlagðir og um nákvæmlega þá upphæð. Nettó myndi því t.d. vaxtakostnaður ríkissjóðs ekkert breytast.

Hvað varðar aðra punkta – s.s. áhrif á peningamagn í umferð og verðbólgu – vísa ég í Athugasemdir um skuldaniðurfellingu.

Er þetta hægt?

Það verður að undirstrika að það verður að skoða það vandlega hversu mikið bankarnir myndu ráða við að borga. Þeir geta ekki borgað hvaða upphæð sem er vegna neikvæðra áhrifa aðgerðarinnar á nettó vaxtatekjur þeirra. Einnig verður að framkvæma þetta þannig að framtíðarskattbyrði bankanna sé ekki bókuð sem skuld í dag en það myndi rústa efnahagsreikningi þeirra (er þetta hægt? Svar óskast frá endurskoðanda).

Þá er einnig vel mögulegt fyrir bankana að koma sér hjá slíkum reikningi sé skatturinn í lið 3. hér að ofan illa útfærður. Ef hann er t.d. lagður á hagnað bankanna er auðvelt að ímynda sér leið fyrir eigendur bankanna að komast hjá því að hagnaður bankans fari í skatt. Bankinn gefur einfaldlega út skuldabréf til eigenda sinna. Afborganir og vextir skuldabréfsins verða svo notuð til að koma hagnaði bankans niður í mun lægri tölu sem síðan er skattlögð. Auðvelt er að ímynda sér t.d. skuldabréf í erlendri mynt sem erlendur eigandi bankans í gegnum skilanefnd, þ.e. aðili sem á kröfu á gömlu gjaldþrota bankanna, kaupir sjálfur. Hann fær svo afborganir og vexti af skuldabréfi í stað þess að fá útgreiddan arð og þannig er komist hjá því að bankinn beri kostnaðinn við skuldaniðurfellinguna.

Þá er líka rétt að benda á að kannski erum við orðin of sein að skattleggja hagnað bankanna. Kannski er stjarnfræðilegur hagnaður þeirra frá hruni á enda runninn. Það er óvíst hversu mikið er eftir af þeirri vöggugjöf sem bankarnir fengu í formi afsláttar á lánasafni þeirra þegar þeir voru stofnaðir. Er búið að færa afsláttinn allan til baka eða er búið að nota hann í að afskrifa skuldir nú þegar? Það veit ég ekki.

Að lokum er líka rétt að benda á að allar útlánastofnanir munu tapa á skuldaniðurfellingu. Þótt það yrðu, sé þessari tillögu fylgt, bankarnir sem myndu bera stærstan hluta kostnaðarins yrðu vaxtatekjur lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs einnig fyrir áfalli. Ástæðan er sú að lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður fengju lágvaxtaeign (bankainnistæða) í stað hávaxtaeignar (útlán til heimila). En sannast sagna er þetta ekki endilega galli því enn verri staða lífeyriskerfisins myndi einfaldlega ýta við nauðsynlegu endurskipulagi á því. Það sama gildir um Íbúðalánasjóð sem er fjárhagsleg afturganga. Það er bara spurning um „hvenær“ en ekki „hvort“ þessar stofnanir verða endurskipulagðar.

Þannig að, já, þar til annað kemur í ljós ætla ég að leyfa mér að halda því fram að skuldaniðurfelling að einhverju marki án þess að hinn almenni skattgreiðandi beri kostnaðinn sé möguleg. Hvort hún takist – t.d. vegna löglegra undanskota – og hver upphæðin yrði og hvort hún verði framkvæmd er þó alls óvíst.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.3.2013 - 18:26 - FB ummæli ()

Verðtrygging og áhrif hennar á verðbólgu

Nýlega kom út pappír eftir Jacky Mallett sem ber heitið „An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð Lán (Indexed-Linked Loans)“.

Pappírinn er merkilegur fyrir þær sakir að í honum er í fyrsta skipti gerð tilraun til þess að magngera hversu mikil áhrif verðtryggingar neytendalána á Íslandi eru á útþenslu peningamagns og í framhaldi af því á verðbólgu. Með öðrum orðum: um hve mörg prósentustig hækkar verðbólga á Íslandi vegna verðtryggingarinnar á neytendalánum?

Jacky svarar þessari spurningu ekki beint. Í staðinn svarar hún spurningunni „um hve mörg prósentustig hefur árleg útþensla peningamagns í umferð aukist vegna verðtryggingarinnar á neytendalánum?“ Svarið við þeirri spurningu er eftirfarandi: 4-12 prósentustig á ári.

Sé miðað við að fólk sé ekki með peningaglýju (e. money illusion) fæst í kjölfarið út að verðbólga á Íslandi er 4-12 prósentustigum hærri en ef verðtrygging á neytendalánum væri ekki til staðar eða hún framkvæmd öðruvísi. Að gera ráð fyrir því að peningaglýja sé ekki til staðar er þó fráleit bjartsýni svo hin raunverulega tala er líklega einhverju lægri, kannski á bilinu 2-10% eða svo: verðbólga á Íslandi er 2-10 prósentustigum hærri en hún væri ef lán til einstaklinga væru ekki verðtryggð eða verðtryggingin framkvæmd öðruvísi. Svo sé verðtrygging neytendalána afnumin eða henni a.m.k. breytt mun verðbólga á Íslandi lækka m.v. það sem hingað til hefur verið.

Á þetta að koma á óvart?

Mörgum finnst þessi niðurstaða sjálfsagt fráleit. Að minnsta kosti kemur hún sjálfsagt mörgum á óvart. En þetta er alls ekki óvænt í mínum huga og hef ég raunar skrifað um þetta nokkrum sinnum áður. Ég m.a.s. gerði skýringarmynd um hvernig áhrifin, sem Jacky talar um, virka í pistlinum Bjarni Ben: Verðtryggingin ekki vandamál.

Jákvæða svörunin (e. positive feedback) á getu banka til að veita útlán og þar með búa til innlán sem aftur leiðir af sér verðbólgu og, séu útlán verðtryggð, eykur getu banka til útlána útskýrð með skýringarmynd. Jacky Mallett hefur nú tekist að magngera jákvæðu svörunina og svarið er: 4-12%

Svo ekki kom niðurstaða Jacky mér á óvart. Hins vegar hefur Jacky nú stigið skrefinu lengra og tekist að magngera áhrifin! Og það kallast vísindaleg framför!

Nokkrir punktar

Grípum aðeins niður í pappírinn. Ég bið lesendur afsökunar á því að eftirfarandi klausur eru á ensku en sannast sagna hef ég meiri trú á enskukunnáttu Íslendinga en hæfileikum mínum á sviði þýðingar. Svo þið vonandi takið viljann fyrir verkið. Allar undistrikanir eru mínar.

„Although it is still often argued that index-linked loans helped to stop the hyperinflation… they fail the scientific test of providing specific mechanisms to support their claims.“

 

„Based on this analysis there appears to be no evidence or mechanism that would support the claim that index-linked loans reduce or stop inflation. On the contrary: our research shows that the bookkeeping treatment of these loans within the banking system directly contributes to the banking system’s monetary expansion rate, and hence index-linked loans act to increase the inflation rate to which they are linked, rather than reducing it. They consequently create a positive feedback loop within the banking system’s monetary regulation operating directly on the money supply. Our results indicate that the additional monetary expansion caused by these loans has ranged between 4% to 12% per annum over the past 20 years, and continuing excessive inflation can be expected until these loans are removed from the economy.“

 

„Because bank lending relies on the creation and destruction of money (as principal is repaid), while profits are derived from the interest payments on outstanding loans, banks are relatively immune to the effects of any money supply expansion that they cause and do not experience capital destruction in the way that other lenders do.“

Síðasta klausan hér að ofan er mjög mikilvæg í sambandi við lífeyrissjóðina og almennan sparnað landsmanna. Oft eru það forsvarsmenn sparnaðar á Íslandi sem verja verðtrygginguna og segja hana nauðsynlega til þess að viðhalda einhverjum sparnaði í hagkerfinu. Margir grípa einnig til þeirra raka að sparnaður sé forsenda þess að hægt sé að veita lán. Sem dæmi get ég nefnt að ég hef séð Pétur Blöndal halda þessu fram oftar en einu sinni.

En þetta er rangt. Einmitt vegna þess að bankar einfaldlega búa til peninga meðfram útlánastarfsemi sinni þarf enginn að spara nokkurn skapaðan hlut áður en banki getur veitt lán. Viðskiptabanki sem hefur nægilegt eigið fé getur alltaf veitt lán finni hann lántaka sem hann treystir. Það hrikalega er að þeir sem halda verðtryggingu nauðsynlega til að verja sparnað landsmanna fyrir verðbólgu eru í raun að skjóta sig í fótinn því verðtryggingin eykur verðbólgustigið í gegnum útlánastarfsemi bankastofnana. Að lokum græðir enginn á því að viðhalda verðtryggingu neytendalána í því formi sem hún er framkvæmd í dag – nema bankarnir því þeir geta lánað út meira og þar með hagnast meira, allt í samræmi við orð Jacky: „…[banks’] profits are derived from the interest payments on outstanding loans…“

„Over time the capital reserve requirement generally dominates in determining a bank’s lending limits. In the event of a shortfall in their central bank reserves, Banks can borrow either from other banks or as a last resort from the central bank. When problems arise due to pressure on clearing and reserve liquidity the central bank can generally be relied on to intervene. As a consequence, the central bank reserve requirement is ineffective in limiting long term lending expansion, and this can be seen quite clearly in the Icelandic statistics where the monetary expansion during the 2000’s was accompanied by a sharp increase in the amount of inter-bank lending.“

 

[T]he high profitability of the [index-linked] loans depends entirely on a positive inflation rate… for rates of inflation that are approximately 3% or less (it depends to some extent on loan duration), the loans behave similarly to fixed rate compound interest mortgages, and the negative amortisation isn’t triggered. Had the banking system’s regulatory framework in Iceland succeeded in imposing an absolute limit on deposit growth, these loans could not have caused an increase in the money supply and the consequent inflation. In that regime, any increase in the bank deposit portion of the money supply caused by the negative amortisation would have had to be outset by a decrease in lending. In practice, the net effect would have been stable house prices, a stable or decreasing CPI, and the loans would have been no more expensive than their fixed rate equivalents.“

 

„Iceland’s money supply has usually expanded at considerably higher rates than those of its trading parties, consequently the foreign exchange fluctuations which are often cited as the direct cause of inflation… are better regarded as a consequence of money supply growth rather than its cause.“

Hér kemur Jacky inn á annað sem margur hefur haldið: verðbólga á Íslandi er há vegna þess að krónan er alltaf að falla í verði sem aftur leiðir af sér verðbólgu. Það er því þörf á því að vera með verðtryggingu svo lengi sem krónan er til staðar.

Þetta er rangt. Hið rétta í stöðunni er að krónan hefur venjulega fallið vegna þess að peningamagn í umferð hefur aukist samhliða útlánaveitingum banka sem aftur eru meiri en ella vegna framkvæmdar verðtryggingarinnar. Það er því verðtryggingin sem hraðar falli gengi krónunnar, eða eins og ég sagði eitt sinn við ónefndan ritstjóra dagblaðs á Íslandi: við getum ekki verið með krónuna svo lengi sem við erum með verðtryggingu neytendalána. Um þetta hef ég reyndar fjallað um áður, t.d. í pistlinum Veiking krónunnar og skuldir.

Eftir stendur þó vitanlega sú staðreynd að í dag er líklega, eins og minn gamli lærifaðir Ásgeir Jónsson benti nýlega á, þörf á því að „brenna“ 400-500 milljarða af krónum sem, ef ekki eru meðhöndlaðir, munu taka gengi krónunnar í ippon! Friðrik Jónsson var líklega sá fyrsti til að benda á þetta vandamál fyrir margt löngu. Og hví eru allir þessir milljarðar til staðar? Vegna of mikillar útlánaþenslu viðskiptabankanna fyrir hrun. Dýrt verður bankaævintýrið allt!

Mjög mikilvægt innlegg

Sjálfsagt hrista margir hausinn yfir pappír Jacky en fyrir hagfræðinginn sem ekki er hræddur við að hugsa hlutina upp á nýtt er hann frábær! Jacky ræðir verðtryggingu á vísindalegan hátt sem er einkar vel! Pappírinn notast einfaldlega við hina vísindalegu aðferð sem því miður er alltof sjaldgæft í hagfræði, jafn ótrúlegt og það hljómar. Við skulum endilega halda umræðunni áfram á þessum nótum.

Ég hlakka mikið til þess að sjá komment frá hagfræðingum og öðrum um pappírinn. Í því sambandi vil ég sérstaklega skora á Gunnar Tómasson, Jón Steinsson, Gauta Eggertsson, Gylfa Magnússon, Lilju Mósesdóttur, Ásgeir Daníelsson, Ásgeir Jónsson, Friðrik Jónsson, Gylfa Arnbjörnsson og Þórarinn Pétursson, svo nokkur séu nefnd, að tjá sig um innihald og niðurstöðu pappírsins. Vonandi taka þau vel í þá áskorun.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.3.2013 - 11:44 - FB ummæli ()

Landsnet og hagkvæmnin

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, skrifar grein í Fréttablaðið sem birtist á vefsvæðinu Vísi.is. Þar setur Þórður út á viðbrögð hagsmunaaðila í kjölfar eignarnámsumsókna Landsnets á landi  sem á að fara undir Suðurnesjalínu 2 – eignarnám sem viðkomandi landeigendur fréttu af í fjölmiðlum. Ég ætla ekki að velta þeim viðbrögðum fyrir mér heldur benda á eftirfarandi rangfærslu í grein Þórðar.

Þórður ritar: „Landsnet gegnir því lagalega hlutverki að tryggja öruggt og hagkvæmt raforkukerfi á Íslandi en um leið að gæta að umhverfisáhrifum nauðsynlegra flutningsvirkja.”

Þetta er ekki rétt. Hið rétta er að Landsnet gegnir því lagalega hlutverki að tryggja öruggt og þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi á Íslandi en um leið að gæta að umhverfisáhrifum nauðsynlegra flutningsvirkja. Um þetta er kveðið í raforkulögum (lög 65/2003, 1.gr., undirstrikun mín):

“Markmið laga þessara er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.”

Hagkvæmt og þjóðhagslega hagkvæmt

Á þessu tvennu – „hagkvæmu“ raforkukerfi og „þjóðhagslega hagkvæmu“ rafkorkukerfi – er stór munur.

Munurinn er sá að þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi tekur tillit til allra þátta, beinna sem óbeinna, sem að kerfinu og uppbyggingu þess lúta. Þar með talið eru svokölluð ytri áhrif en það eru áhrif sem verða á þriðja aðila vegna samninga milli tveggja aðila. Þessi ytri áhrif geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Klassískt dæmi um neikvæð ytri áhrif er útblástur bíls: eigandi bílsins (aðili 1) kaupir eldsneyti á bíl (af aðila 2)  og greiðir fyrir það ákveðið verð en þetta verð tekur ekki tillit til kostnaðarins sem Jón Jónsson (aðili 3) verður fyrir þegar gæði loftsins í kringum hann verða verri vegna útblásturs. Í tilviki raforkukerfisins má nefna neikvæð sjónræn áhrif af loftlínum. Það yrði að taka tillit til slíks í þjóðhagslegu arðsemismati á uppbyggingu raforkukerfisins.

Hagkvæmt raforkukerfi er allt annað mál. Í því tilviki er hagkvæmnin eingöngu skoðuð út frá áhrifum framkvæmdarinnar á Landsnet. Vitanlega hefur Landsnet, í tilviki Suðurnesjalínu 2, gert arðsemismat þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé arðsöm. Framkvæmdin er raunar bara arðsöm ef nægilega lág arðsemiskrafa er gerð. Grundvöllur arðsemisreikninga Landsnets er 5,98% nafnvextir sem er vægast sagt hlægilega lág arðsemiskrafa og m.a.s. lægri en á ríkisskuldabréfum en ávöxtunarkrafa á þeim (lengsti flokkurinn) er 6,6%: Landsnet myndi græða meira á því að kaupa ríkisskuldabréf, einhverja öruggustu eign sem hægt er að kaupa í hvaða hagkerfi sem er, en að byggja Suðurnesjalínu 2.

Trikkið er að átta sig á því að jafnvel þótt eitthvað geti verið hagkvæmt fyrir Landsnet þá er ekki þar með sagt að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Ástæðan er að hagkvæmnimatið fyrir Landsnet, sem er jákvætt svo lengi sem ávöxtunarkrafan er nægilega lág, tekur ekki tillit til „útblástursins“ sem yrði af lagningu Suðurnesjalínu 2 á t.d. ferðaþjónustu á svæðinu.

Hvar er þjóðhagslega hagkvæmnismatið á Suðurnesjalínu 2?

Málið er að þjóðhagsleg arðsemismat hefur ekki verið gert á Suðurnesjalínu 2 né á Suðvesturlínum í heild. Þetta er svo jafnvel þótt bæði heilbrigð skynsemi teldi það sjálfsagt sem og að skýrt er á um það kveðið í raforkulögum að byggja skuli kerfið upp á þjóðhagslega hagkvæman máta.

Þetta er ekki lítið hagsmunamál sem engu máli skiptir. Ímyndið ykkur t.d. áhrifin á ferðaþjónustu á svæðinu  og á landinu öllu! Eitthvað segir mér að ferðamenn sem vilja upplifa „ósnortna náttúru Íslands“ – ein helsta ástæða þess að þeir koma til landsins – verði ekki par hrifnir af því að sjá háspennumöstur alla leiðina milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Og seint verður upplifunin af því að fara í Bláa Lónið sú sama ef háspennulína blasir við himin. Raunar er það svo að m.v. núverandi áætlanir þarf að keyra undir Suðurnesjalínu 2 þegar farið er í Bláa Lónið frá Keflavík eða Reykjavík.

Líkanmynd sem sýnir sjónrænu áhrif Suðvesturlína í formi loftlína (heimild: Suðvesturlínur)

 

Í þessu sambandi er rétt að benda á niðurstöðu Rögnvaldar Guðmundssonar sem gerði, fyrir Landsnet, rannsókn á því hver yrðu áhrif Suðvesturlína á útivist og ferðaþjónustu:

„Heildarniðurstaðan er sú að þessar áformuðu línulagnir á Reykjanesskaganum muni  hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu á svæðinu, enda um verulega  aukningu á línumagni að ræða.“

„Talsverð neikvæð áhrif“ eru, samkvæmt skýrslu Rögnvaldar, næst versta einkunn af sjö mögulegum (einkunnin „-2“ á skalanum -3 upp í 3).

Er framkvæmdin þjóðhagslega hagkvæm?

Landsnet hefur, eftir því sem ég best veit, aldrei tekið tillit til þessa neikvæða þáttar á ferðaþjónustu, né annarra ytri þátta, þegar hugað er að byggingu Suðvesturlína. Þetta er svo jafnvel þótt raforkulög kveði á um að svo eigi að gera, þ.e. í samræmi við markmið laganna um að byggja upp þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi.

Því er rétt að spyrja spurningarinnar sem er eftir að svara: er fyrirhuguð lagning Suðvesturlína þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd og ef ekki, er hægt að breyta lagningu þeirra svo framkvæmdin verði þjóðhagslega hagkvæm?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur