Miðvikudagur 22.1.2014 - 12:49 - FB ummæli ()

Ríkustu 85 einstaklingarnir

Oxfam, bresk hjálparsamtök, birtu nýlega skorinorða áskorun til samkomu helstu valdsmanna heimsins, sem nú hittast á árlegum fundi í Davos í Sviss.

Áskorunin er sú, að auðmenn heimsins – áhrifamiklir atvinnurekendur, fjármálamenn og stjórnmálamenn – standi við fagurgalann sem þeir viðhafa á tillidögum og hætti að vinna að forréttindum hinna fáu útvöldu í heiminum. Breyti stefnunni í þágu framfara fyrir alla.

Auka þarf jöfnuð og draga úr fátækt. Ójöfnuðurinn ógnar framförum, segja Oxfam-menn. Frans páfi í Róm tekur undir og sendir svipaðar áskoranir til fundarins í Davos.

Oxfam birtir athyglisverða skýrslu, Working for the few, að þessu tilefni.

Þar kemur meðal annars fram að 85 ríkustu einstaklingar jarðarinnar eiga jafn miklar eignir og fátækari helmingur mannkynsins (um 3,5 milljarðar einstaklinga – þ.e. 3.500.000.000 einstaklinga). Samþjöppun auðs hefur víða aukist enn frekar í kreppunni.

Áskoranir Oxfam til Davos ráðstefnunnar eru m.a. eftirfarandi:

> Auðmenn hætti að fela fé sitt og eignir í skattaskjólum

> Auðmenn hætti að nota auð sinn til að kaupa sér pólitísk áhrif

> Atvinnurekendur og fjárfestar tryggi að öll fyrirtæki þeirra greiði öllum starfsmönnum mannsæmandi laun

> Auðmenn styðji hærri skattlagningu á mikinn auð og hátekjur

> Auðmenn hvetji ríkisstjórnir til að nota skattfé til að veita öllum þegnum heilbrigðisþjónustu, menntun og félagsvernd (almannatryggingar)

Stjórnvöld eru hvött til að tryggja að leikreglurnar í samfélögunum styðji við hagsældaraukningu fyrir alla, en ekki bara þá fáu útvöldu á toppnum.

Loks er vitnað til frægra ummæla bandaríska hæstaréttardómarans, Louis Brandeis, sem sagði:

…val samfélaga stendur milli lýðræðis eða mikillar samþjöppunar auðs í höndum fárra – en við getum ekki haft hvoru tveggja.

Lýðræði og réttlæti eiga því að hafa forgang.

Það er orðið athyglisvert hversu skýrmæltir áhrifamenn á alþjóðavettvangi eru að verða um ójafnaðarmálin. Kanski eitthvað breytist í framhaldinu…

 

Síðustu pistlar:

Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

Hvað þarf til að kaupmáttur aukist á árinu?

Dagur vill meiri nýsköpun í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.1.2014 - 15:41 - FB ummæli ()

Hvað þarf til að kaupmáttur aukist á árinu?

Kjarasamningurinn fyrir næsta ár gerir ráð fyrir 2,8% almennri kauphækkun. Hann er kallaður “kaupmáttarsamningur” og sagður vera að “skandinavískri fyrirmynd”.

Hvað þarf til að samningurinn skili skandinavískri kaupmáttaraukningu á árinu sem framundan er?

Jú, verðbólgan á árinu þarf að vera minni en kauphækkunin, þ.e. minni en 2,8%.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% og hefur það einungis einu sinni náðst frá aldamótum.

Ef þetta verðbólgumarkmið næst nú verður kaupmáttaraukning um 0,3% á árinu.

Það er lítil sem engin kaupmáttaraukning.

Skandinavískir kjarasamningar hafa skilað að jafnaði um 2% kaupmáttaraukningu á ári síðustu tvo áratugina, þ.e. í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Til að ná skandinavískri kaupmáttaraukningu í ár (um 2%) þyrfti verðbólgan hér á landi að vera um 0,8%.

Það hefur aldrei gerst á síðustu 60 árum lýðveldissögunnar!

Það virðist þurfa kraftaverk til að skandinavísk útkoma verði úr fyrirliggjandi kjarasamningum.

 

Síðasti pistill: Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.1.2014 - 21:50 - FB ummæli ()

Dagur vill meiri nýsköpun í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, hefur skýra framtíðarsýn fyrir Reykjavík. Hann leggur áherslu á nýsköpun og þekkingarhagkerfið, bætt skipulag, velferðar- og húsnæðismál.

Í dag var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, Landsspítalans, Samtaka sveitarfélaga og Háskólans í Reykjavík um að þessir aðilar muni vinna saman að uppbyggingu nýsköpunar og þekkingarfyrirtækja á Vatnsmýrarsvæðinu.

Hugmyndin er komin frá erlendum borgum sem hafa náð góðum árangri í að skapa þekkingarhagkerfinu frjótt umhverfi í samspili háskóla, fyrirtækja og borgarinnar. Miðborgarumhverfi með háskólum og rannsóknarstofnunum er ákjósanlegur kostur fyrir slíka þróun.

Það eina sem vantar í myndina er öflugt frumkvöðlasetur, sem fóstrar frumkvöðla og sprotafyrirtæki og hjálpar við að koma þeim á legg. Það hlýtur að vera næst á dagskrá þessa athyglisverða samstarfsvettvangs.

Bygging nýsköpunar- og þróunarseturs Alvogen lyfjafyrirtækisins er þegar hafin á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands, skammt frá Íslenskri erfðagreiningu og Náttúrufræðahúsinu Öskju. Boltinn er því farinn að rúlla…

Ég hef fylgst með þessum málaflokki um árabil og veit að Dagur B. Eggertsson hefur meiri skilning á mikilvægi hans en flestir aðrir í stjórnmálunum.

Það er því gott fyrir þennan málaflokk að Dagur B. Eggertsson haldi um stjórnvölinn hjá borginni.

Fátt er brýnna en að auka nýsköpun og þekkingarbúskap hátæknigreina í Reykjavík.

Það er atvinnuþróun framtíðarinnar.

 

Síðasti pistill: Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.1.2014 - 13:02 - FB ummæli ()

Stórmerk bók Guðrúnar Johnsen um hrunið

GJGuðrún Johnsen, lektor í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands, sendi frá sér bókina Bringing Down the Banking System – Lessons from Iceland í síðustu viku. Það er hin virta útgáfa Palgrave-MacMillan sem gefur bókina út. Guðrún kynnti bókina á fjölmennum fyrirlestri í hátíðarsal HÍ á fimmtudag.

Guðrún er sérstaklega vel til þess fallin að fjalla um þetta viðfangsefni. Hún er menntuð í fjármálahagfræði, starfaði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hefur aðra starfsreynslu á þessu sviði frá Bandaríkjunum og víðar og vann að auki með Rannsóknarnefnd Alþingis við úttektina miklu á orsökum falls bankanna.

Bók Guðrúnar byggir því á kenningum og lærdómum faglegra fjármálafræða og miklum gögnum og niðurstöðum Rannsóknarnefndarinnar. Það eru sterkar stoðir að byggja á.

Það er mikilvægt að fagkona eins og Guðrún fjalli svo ítarlega um hrunið vegna þess að skrif aðila sem voru beinir eða óbeinir þátttakendur í þeirri þróun sem leiddi til hrunsins eru mörg hver hlutdræg og ótraust.

Guðrún segir frá því í fyrsta kafla bókarinnar að hún hafi árið 2005 tekið þátt í skýrsluskrifum hjá AGS um vaxandi áhættur vegna örrar skuldasöfnunar í nokkrum löndum. Ísland var þar á meðal. Guðrún gekk milli Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og forsætisráðherra til að vekja athygli á málinu. Hún mætti tómlætinu einu, eins og hún segir frá í fyrsta kafla (sjá hér).

Í mars 2007 skrifaði Guðrún grein í Viðskiptablaðið um óraunhæft lánshæfismat á íslensku bönkunum og vakti athygli á að Seðlabankinn væri orðinn ófær um að gegna lagalegri skyldu sinni sem lánveitandi til þrautavara. Raunar voru síðustu forvöð að bjarga íslensku bönkunum á árinu 2006, eftir að danskir bankamenn sendu okkur skilmerkilega viðvörun (Geysiskrísan).

Það virðist sem ófullnægjandi þekking eða grandvaraleysi hafi einkennt íslenska fjármála- og stjórnmálaumhverfið á bóluárunum miklu, frá 2003 til 2007. Líklega er oftrú á óhefta markaði að einhverju leyti um að kenna, eins og hagfræðingurinn Axel Leijonhufvud hefur bent á (hér).

Sagan af íslenska bóluhagkerfinu og hruninu er mikil saga og öll með ólíkindum. Guðrún sýnir í bók sinni hvernig saman fór óvenju ör vöxtur íslenska bankakerfisins, með of mikilli skuldasöfnun í umhverfi ófullnægjandi eftirlits og aðhalds. Þegar halla tók undan fæti urðu viðskiptahættir í bönkunum vafasamari og fóru jafnvel út fyrir ramma laga og siðferðis. Allt of miklar áhættur voru teknar, upplýsingar voru takmarkaðar og villandi.

Afleiðingin varð þriðja stærsta gjaldþrot heimssögunnar og það varð í þessu örríki sem Ísland er. Stærsta bóluhagkerfi sögunnar leiddi af sér eitt stærsta fjármálahrun sögunnar, með gríðarlegu tjóni fyrir íslensku þjóðina.

Guðrún spyr réttu spurninganna í bók sinni: hvernig gerðist þetta, hvers vegna, af hverju komu stjórnvöld ekki í veg fyrir óheillaþróunina; hver er lærdómurinn?

Eftirfarandi eru molar úr bókinni og erindi Guðrúnar Johnsen í Háskóla Íslands á fimmtudag sl:

  • Efnahagur og útlán bankanna uxu langt framúr innviðum bankanna – þeir fóru illa afvega (á 7 árum frá 2000 til 2007 var vöxtur bankanna 20 faldur).
  • Þróunin varð í umhverfi þar sem nýlega hafði verið innleitt fullt frelsi til fjármagnsflutninga (EES 1995). Ríkisbankarnir höfðu verið einkavæddir í kjölfarið (frá 1998 til 2003). Nýir aðilar komu að stjórn bankanna.
  • Hinir nýju eigendur og stjórnendur bankanna nýttu sér til hins ítrasta ofgnótt lánsfjár sem bauðst á erlendum mörkuðum á þessum tíma á lágum vöxtum og nutu góðs lánstrausts sem íslenska ríkið hafði aflað sér á löngum tíma.
  • Of mikil útlán með of mikilli skuldasöfnun leiðir til stórra gjaldaga, sem kallar á mikla endurfjármögnunarþörf. Það er mikil áhætta gagnvart breyttu framboði lánsfjár á mörkuðum.
  • Vorið 2006 fékk Ísland alvöru viðvaranir um áhætturnar sem voru að byggjast upp hér á landi. Þá hægði á framboði fjár til endurfjármögnunar, en Landsbanki og Kaupþing reyndu þá í auknum mæli að bjarga sér með söfnun sparifjár frá almenningi í Bretlandi (og síðar Hollandi), með Icesave og Edge reikningum.
  • Haustið 2007 varð sú áhætta að köldum veruleika er markaðir lokuðust. Skuldatryggingarálag íslenskra banka tók að hækka mikið og hlutabréfavísitalan hóf verulega lækkun. Gengi íslensku krónunnar fór að lækka skömmu síðar og stóð það alveg fram í sumarbyrjun 2008.
  • Guðrún telur að bankarnir hafi í reynd verið komnir á leiðarenda haustið 2007.
  • Til viðbótar við Icesave og Edge innlán sóttu bankarnir frekari lán til Seðlabanka Íslands, gegn ófullnægjandi veðum (“ástarbréfum”). Þetta leiddi til gjaldþrots Seðlabanka Íslands. Síðan gerðu þeir það sama gagnvart Seðlabanka Lúxemborgar og læddu íslenskum veðum inn í Seðlabanka ESB gegnum bakdyrnar – með brögðum.
  • Starfsemi íslensku bankanna var sögð alþjóðleg starfsemi og 60% lána þeirra voru sögð erlend útlán. Samt var meirihluti lánasafnanna íslensk áhætta – falið í vefjum eignarhaldsfélaga í skattaskjólum. Krosseignatengsl og blekkingarvefir voru notaðir til að fela of mikil lán til eigenda bankanna og tengdra aðila.
  • Þannig gátu íslensku bankarnir lánað félögum tengdum eigendum sínum langt umfram löglegt hámark.
  • Á endanum voru stærstu eigendur allra bankanna þriggja búnir að taka stóran hluta af eiginfé bankanna að láni sjálfir, langt umfram löglegt hámark, í gegnum félög sín. Bankarnir lánuðu til félaga eigenda hvors annars til að blekkja eftirlitsaðila.
  • Hvers vegna gerðu bankamennirnir þetta?
  • Eigendur bankanna voru í eigin góðaleit, eins og hverjir aðrir braskarar. Launaðir stjórnendur bankanna voru á bónusum sem þýddi að ofurvöxtur og ofuráhættur juku tekjur þeirra. Hvati til aukinnar áhættu var innbyggður.
  • Gæðum lánasafnsins hrakaði með vaxandi hraða eftir 2003, t.d. með fjölgun kúlulána (eingreiðslulána) – áhætta jókst og endurfjármögnunarþörf varð meiri
  • Lánasafn dótturfélags Landsbankans í Lúxemborg var að megni til íslensk áhætta.
  • Stór hluti af skráðum hlutabréfum voru veðsett í bönkunum, þar á meðal þeirra eigin bréf í þeim sjálfum.
  • Til að halda verðmæti veðanna fóru bankarnir í vaxandi markaðsmisnotkun 2006 til 2008 til að varna því að hlutabréf þeirra lækkuðu í verði á markaði. Það var þeirra lífróður, ásamt söfnun innistæðna frá almennum sparifjáreigendum í Bretlandi og Hollandi, með ósjálfbærum yfirboðum á vöxtum.
  • Bankarnir blekktu í ársreikningum sínum með því að gera ekki grein fyrir þeirri veikingu eiginfjárgrunns sem þessu fylgdi. Fölsuðu í reynd tölur um eiginfé. Endurskoðendur horfðu framhjá því.
  • Bresk yfirvöld sáu að eiginfé í útibúum Landsbankans í Englandi var ónógt til að tryggja innistæður. Buðust til að taka það á eigin hendur gegn hóflegu fjárframlagi frá bankanum á Íslandi, fyrst í maí 2008. Bankinn gerði það ekki, gat sennilega ekki ráðið við það. Íslensk stjórnvöld gátu ekki eða vildu ekki leggja fram fé til þess. Þá tóku bresk stjórnvöld útibú LÍ í Bretlandi yfir að kvöldi dags 7. október 2008.
  • Móðurfélag Kaupþings tappaði lausu fé út úr Kaupþing Singer and Friedlander í London, með brellum. Bresk stjórnvöld sáu þetta og ákváðu að taka bankann yfir og frysta íslenskar eignir í landinu (með hryðjuverkalögunum).
  • Þó Ríkissjóður Íslands sjálfur væri nærri skuldlaus í aðdraganda hrunsins vildi enginn lána honum né Seðlabanka Íslands – vegna þess að allir erlendir seðlabankar sáu að íslensku bankarnir voru að hruni komnir. Þeir bentu á AGS sem veitanda neyðarstoðar.
  • Það var lán í óláni að ekki fengust lán til að bjarga bönkunum – því ella hefðu skuldir Íslands orðið algerlega óviðraðanlegar og þjóðarbúið farið í gjaldþrot, eins og Már Guðmundsson seðlabankastjóri stafesti á nýlegri ráðstefnu um hrunin á Íslandi og Írlandi í Reykjavík.
  • Hvers vegna gekk þetta svona langt á Íslandi?
  • Of veikt Fjármálaeftirlit, of veikur Seðlabanki og veik stjórnvöld voru lykil brestir. Hér var algerlega ófullnægjandi eftirlit og aðhald. Ofurtú á óhefta markaði og fjandskapur í garð “eftirlitsiðnaðar” var prédikaður í pólitík og viðskiptaheiminum.
  • Áhyggjur Seðlabankafólks af stöðu bankanna jukust verulega frá nóvember 2007 – en þeir sendu ríkisstjórninni engar tillögur til mótvægisaðgerða, hvorki formlega né óformlega. Það var þó skylda Seðlabankans að grípa til aðgerða.
  • Eftir fall bankanna voru eignir þeirra taldar vera um 40% af bókfærðum eignum þeirra. Froðan var um 60%. Eignir bankanna voru niðurfærðar um nærri fimmfalda þjóðarframleiðslu Íslands.

Lærdómar af íslenska bankahruninu eru því margir. Of hraður vöxtur er varasamur. Of mikil skuldasöfnun er gríðarlegur áhættuþáttur. Ófullnægjandi eftirlit og aðhald gagnvart fjármálamarkaði eykur hættur á því að bankar fari afvega.

Bankakerfinu íslenska var leyft að vaxa landinu og Seðlabankanum langt yfir höfuð og stóðu bankarnir því berskjaldaðir þegar veðrabrigði urðu á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Þróunin í aðdraganda hrunsins á Íslandi, raunar alveg frá 1998 til 2007, var óhófleg, óvarkár og ógæfuleg á marga vegu. Þetta var verulega ýkt fjármálabóla með óvenju miklum áhættum.

Því miður brást stjórnkerfi þjóðarinnar því hlutverki sínu að verja almenning gegn áhættum sem gráðugir braskarar í bönkum og fyrirtækjum tóku. Stærsta lexían er sú, að eftirlit og aðhald þarf að vera mun meira en hér var á bóluárunum.

Bók Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System – Lessons from Iceland, er tímamótaverk um óheillaþróunina sem hér varð og hrunið sem í kjölfarið fylgdi.

 

Síðasti pistill: Velferðarstefna í mjólkuriðnaði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.1.2014 - 00:30 - FB ummæli ()

Velferðarstefna í mjólkuriðnaði

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor er snjall og talnaglöggur maður. Hann er sífellt að grafa upp staðreyndir um undarlega viðskiptahætti, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði.

Hann hreyfir oft við gagnlegum umræðuefnum og lætur hvergi deigan síga þó sægreifar og bændahöfðingjar sæki að honum með vopnaskaki.

Hann heldur sínu striki og lætur staðreyndirnar tala.

síðast upplýsti Þórólfur að Mjólkursamsalan selur rjóma á margföldu kostnaðarverði og notar svo hagnaðinn af því til að niðurgreiða verð á mjólk og smjöri til almennra neytenda.

Við ríka fólkið sem kaupum mikið af rjóma fyrir jól og aðrar hátíðir greiðum sem sagt ofurverð fyrir rjómann og hagnaðurinn rennur til almennings sem kaupir alþýðlegri mjólkurvörur.

Þetta er eins og í velferðarríkinu í Skandinavíu. Þeir ríku eru skattlagðir þunglega og afraksturinn sendur til milli og lægri tekjuhópa í formi velferðarbóta og velferðarþjónustu. Þetta einkenni velferðarríkisins hefur raunar skapað bestu samfélög jarðarinnar – norræna módelið.

En þetta er þó ekki í samræmi við markaðsmódel kennslubókanna í hagfræði. Þykir ganga í berhögg við lög um frjálsa samkeppni og eðlilega verðmyndun.

 

Samræður við hagfræðinga

Ég spurði vini mína í hagfræðinni hvort þetta tíðkaðist ekki bara í fleiri atvinnugreinum? Hvort bílainnflytjendur (umboðin svokölluðu) verðlögðu ekki varahluti alltof hátt því þar hafa þeir neytendur í bandi?

Eða hvort t.d. Toyota umboðið selji ekki Landcruiser jeppann á ofurverði til ríka fólksins og noti svo hagnaðinn af því til að niðurgreiða Yaris bíla handa almenningi? Geti þannig selt meira af litlu bílunum en keppinautar þeirra á smábílamarkaði?

Nei, sögðu hagfræðingarnir. Ef þeir selja Landcruiser of dýrt þá fara aðrir að flytja hann inn og selja ódýrar – eða að ríkir neytendur velja frekar aðra sambærilega jeppa sem eru þá á betra verði. Samkeppnin virkar, því það er ekki einkasala á þessum bílum eða varahlutum, sögðu hagfræðingarnir.

En þá spurði ég: Eru nokkrir aðrir en Toyota umboðið að flytja inn Landcruiser eða varahluti fyrir Toyota bíla svo nokkru nemi? Er ekki næstum einkasala (einokun) á þessu, þrátt fyrir samkeppnislög og bann við umboðum og einkasölum?

Það er að vísu rétt sögðu þeir. Samkeppnismarkaðinum er ekki alveg fullkominn.

Hagfræðivinir mínir töldu hins vegar fráleitt að bílainnflytjendur létu hagnað af sölu lúxusvöru eða varahluta renna til að lækka verðið á alþýðubílum. Þeir myndu frekar stinga gróðanum í vasann.

Kanski er það meira að segja svo að bílainnflytjendur smyrja á ódýru bílana en selja jeppana frekar ódýrt. Það eru jú óvenju margir jeppar á Íslandi samanborið við önnur lönd.

En kanski er bara of miklu smurt á allt. Það er jú allt svo dýrt á Íslandi. Hæsta verðlag í heimi og hæstu vextir í heimi. Mesta ávöxtunarkrafan! Þarna eru rannsóknarefni.

Þá sagði ég:  Kanski velferðarkerfi mjólkuriðnaðarins sé þrátt fyrir allt betra fyrir neytendur en margir kaupmenn í einkageiranum.

Almennir neytendur, t.d. barnafjölskyldur, fá þó mjólkina og smjörið ódýrar en ella – vegna okursins á rjómanum!

Svo fær almenningur hinn bráðskemmtilega Guðna Ágústsson í kaupbæti hjá Mjólkursamsölunni.

Hann er óborganlegur þegar hann kemur glaðbeittur á skjáinn og útskýrir hvernig Mjólkursamsalan flytur inn írskt smjör til að tryggja nægilegt framboð af íslensku smjöri fyrir jólin!

“Íslendingar elska íslenska smjörið”, sagði Guðni – og kyssti Kusu á munninn.

Maður botnað auðvitað ekkert í þessari smjörlógík, en gleðst yfir glaðværðinni sem stafar frá Guðna.

Mjólkursamsalan er sem sagt hluti af velferðarríkinu á Íslandi.

Og allir elska velferðarríkið, eins og smjörið – nema auðvitað ríku karlarnir sem vilja ekki borga fyrir það…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 14.1.2014 - 19:46 - FB ummæli ()

Jón Steinar þrýstir á Hæstarétt

Það er athyglisverð umræðan um Al-Thani dóminn yfir nokkrum Kaupþingsmönnum.

Ég hef enga sérstaka skoðun á þeim dómi.

Ég tók þó eftir því að Sérstakur saksóknari hefur lengi verið með málið í rannsókn og dómur var felldur um fimm árum eftir að meintu afbrotin áttu sér stað.

Í framhaldi tók Brynjar Níelsson til máls og sagðist ósammála dóminum og hefur hann nú skrifað grein um þá afstöðu sína.

Þar fullyrðir hann meðal annars að málið hafi verið rannsakað í sérstöku „hatursástandi“ í þjóðfélaginu og að bæði saksóknari og dómarar hafi orðið fyrir „þrýstingi úr samfélaginu“.

Jón Steinar Gunnlaugsson, sem tekur til máls með tilvísun til greinar Brynjars, segir m.a. eftirfarandi:

“Dómari má ekki láta vindana sem á hverjum tíma blása í samfélagi okkar hafa nokkur áhrif á sig þegar hann leysir úr máli sem fyrir honum liggur.”

Í ljósi þess að Brynjar og Jón Steinar gefa í skyn að bæði saksóknari og dómurinn hafi brugðist starfsskyldum sínum vegna meints þrýstings úr samfélaginu, þá má spyrja hvort bæði Jón Steinar og Brynjar séu ekki sjálfir að setja þrýsting á dómarana?

Gilda viðvaranir Jóns Steinars um óheppilegan þrýsting á dómsvaldið þá ekki um hann sjálfan og Brynjar Níelsson? Málið á jú eftir að fara fyrir Hæstarétt.

Þeir félagar eru einmitt aðilar úti í samfélaginu sem virðast áhugasamir um tiltekna niðurstöðu í málinu – og beita sér kröftuglega.

Annars virðist heldur hæpið að halda því fram að dómurinn hafi fallið í einhverju hatursástandi.

Hvar gætir þess núna – fimm árum eftir hrun? Hjá dómurum?

 

Síðasti pistill: Borgarlíf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.1.2014 - 10:20 - FB ummæli ()

Borgarlíf

Þetta er impróvíseruð götumynd frá New York. Ekki meira um það að segja… 014-DSC_3700 b1

 

Smellið á myndina til að fá stærri og betri útgáfu – hún eflist mikið við það!

Gallerí mitt með myndum frá New York er nú fullbúið og má sjá það í heild sinni hér:

http://www.pbase.com/stefanolafsson/new_york

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.1.2014 - 10:45 - FB ummæli ()

Rangfærslur um norræna kjarasamninga

Það stendur upp úr sumum hér á landi að kjarasamningarnir sem gerðir voru í skjóli jóla hafi byggt á “skandinavískri aðferðafræði”.

Látið er í veðri vaka að þessi skandinavíska aðferðafræði felist í því að semja um minni kauphækkanir en nemur verðbólgustigi og verðbólguspá fyrir samningstímann.

Svo er sagt að þannig megi ná “raunverulegri kjarabót”. Það er blekking.

Ef kaup hækkar minna en verðlag, þá minnkar kaupmáttur. Raunlaun lækka.

Það er ekki raunveruleg launahækkun, heldur rýrnun kjara. Þannig er almennt ekki samið á hinum Norðurlöndunum.

Ásmundur Einar Daðason stekkur á þennan vagn í gær og segir eftirfarandi:

“Kjarasamningar sem undirritaðir voru í lok síðasta árs voru unnir eftir aðferðarfræði sem reynst hefur vel á norðurlöndum. Eitt af markmiðum þessa kjarasamnings var að ná tökum á verðbólgu og ná þannig fram raunverulegum launahækkunum.”

Við þetta má gera eftirfarandi athugasemdir:

  • Skandinavar hafa mun hærri laun en Íslendingar
  • Skandinavar vinna mun skemmri vinnutíma en Íslendingar
  • Kaupmáttur Skandinava lækkaði ekki um 20% í fjármálakreppunni eins og gerðist á Íslandi
  • Skandinavar þurfa því ekki að vinna upp mikið kaupmáttartap eins og við
  • Skandinavar semja gjarnan um hóflegar kauphækkanir, enda ásættanlegt í því kjarasamhengi sem þeir búa við
  • Kaup í Skandinavíu hækkar þó almennt um 2% umfram verðlag á ári hverju
  • Skandinavar búa við stöðugri gjaldmiðla en Íslendingar, sem skapar mun meiri stöðugleika og minni verðbólguþrýsting
  • Skandinavar þurfa ekki að rýra kaupmátt til að ná stöðugleika. Þeir hafa alvöru gjaldmiðil og festu í stjórnsýslu sem því skilar

Í þessu samhengi verður varla framhjá því horft, að allt þetta tal um að það sé sérstaklega skandinavískt að semja um kaupmáttarrýrnun er einfaldlega áróður og ósannindi – í besta falli misskilningur.

Skandinavar leggja ábyrgðina á stöðugleika ekki einhliða á launþega. Þeir þvinga því ekki fram kaupmáttarskerðingar til að ná fram stöðugleika. Þeir fara aðrar leiðir til þess.

 

Mun lakari samningur en tíðkast á Norðurlöndum

Tölur í nýlegri skýrslu aðila vinnumarkaðarins um kjarasamninga á Norðurlöndum sýna að laun hækka þar árlega meira en verðlag  – að staðaldri.

Verðbólga á hinum Norðurlöndunum var um 1,8-1,9% á ári að meðaltali frá 1993 til 2012. Tímakaup í iðnaði hækkaði á sama tíma um 3,5-3,9%.

Kaupmáttur launa á hinum Norðurlöndunum jókst almennt um nálægt 2% á ári frá 1993 til 2012 – svipað og hagvöxturinn. Kaup hækkaði sem sagt reglulega um 2% umfram verðlag.

Það er skandinavísk aðferðafræði í kjarasamningum.

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ gerir ráð fyrir 2,8% almennri kauphækkun á Íslandi í 3-4% verðbólgu og 0,3% kaupmáttaraukingu ef verðbólgumarkmið Seðlabankans (2,5%) næst. Það er þó fjarri því að vera í hendi.

Þetta er augljóslega mun lakari kjarasamningur en tíðkast á hinum Norðurlöndunum – þó þörf fyrir kauphækkun sé nú meiri hér.

Eina leiðin til að ná sambærilegum árangri hér á landi væri að gera verðtryggðan kaupmáttarsamning um nálægt 2% hækkun launa á ári hverju.

Í „aðfararsamningi“ að skandinavískri aðferðafræði til lengri tíma hefði hins vegar átt að sækja fastar fram nú til að ná okkur fyrst betur upp úr kreppufarinu.

Launþegahreyfingin virðist hins vegar hvorki hafa styrk til að gera eðlilegan aðfararsamning né til að ná hófsömum skandinavískum kjarasamningi. Það er umhugsunarefni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.1.2014 - 22:27 - FB ummæli ()

Launamisrétti í Apalandi

Hér er stórmerkilegt myndband af tilraun um réttlætisskynjun apa.

Tveir apar voru þjálfaðir í að leysa verkefni, sem umbunað var fyrir, með agúrkubita.

Síðan var breytt til og annar fékk betri verðlaun en hinn (vínber í stað agúrku). Öpum þykir meira til vínberja koma.

Þá varð réttlætiskennd þess sem fékk agúrkuna misboðið. Sjáið viðbrögð hans hér:

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 9.1.2014 - 17:46 - FB ummæli ()

Verðtrygging launa er nú tímabær

Nú er lag til alvöru breytinga í kjarasamningum.

Ef launþegahreyfingin og atvinnurekendur eru ákveðin í að semja um mjög litlar kauphækkanir, ekki bara í hinum nýja “aðfararsamningi” heldur einnig til langs tíma í framhaldinu, eins og sagt er, þá þarf annað verklag í samningum.

Með svo lágum kauphækkunum, sem stefna einungis að 1-3% kaumáttaraukningu á ári, þá er fráleitt annað en að verðtryggja kjarasamninginn.

Verðtryggingu launa var hafnað á verðbólguárunum vegna ótta við allt of miklar kauphækkanir, sem þóttu auka verðbólguþrýsting. Þá hækkuðu menn kaupið jafnvel um 10-20% í kjarasamningum og náðu iðulega ágætri kaupmáttaraukningu, þrátt fyrir hátt verðbólgustig.

Með hinum mjög svo hóflegu kauphækkunum sem nú er stefnt á er engin hætta á verðbólguþrýstingi frá launum.

Þess vegna er algerlega skaðlaust að verðtryggja slíka kjarasamninga. Það ætti raunar að auka stöðugleika.

Verðtryggðir kjarasamningar sem auka kaupmátt í takti við raunverulegan hagvöxt eru ekki verðbólguhvetjandi.

Með verðtryggingu hóflegra kjarasamninga er ábyrgðin á verðbólgunni flutt af herðum launþega yfir á herðar atvinnurekenda og stjórnvalda – þar sem hún á að vera.

Ef fyrirliggjandi kjarasamningi verður hafnað ættu launþegafélögin því að halda sér áfram við hóflegar kauphækkanir (um 2-3%) en verðtryggja samninginn til fulls – og án skilyrða.

Annað er ekki boðlegt. Það er raunar eina leiðin til að gera tal um “kaupmáttarsamning” meiningarbært.

Síðan mætti í framhaldinu stefna á verulega styttingu vinnutíma og aukna framleiðni.

Framtíð með auknum kaupmætti, styttri vinnutíma og aukinni framleiðni gerir Ísland samkeppnishæfara við grannríkin – fyrir launþega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 9.1.2014 - 12:09 - FB ummæli ()

Launþegum sýndur fingurinn

Svona er staðan:  Hér var gerður kjarasamningur í skjóli jóla um 2,8% almenna kauphækkun og smá aukauppbót á lægstu laun. Verðbólgan var nærri 4% þegar sá samningur var gerður og verðbólguspá fyrir samningstímann (eitt ár) er um 3,6%.

Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar vonast til að kauphækkun sem er undir verðbólguspánni verði til að draga úr verðbólgu. Það er krefjandi forsenda og hæpið að gangi eftir.

Samhliða þessu lofuðu stjórnvöld og atvinnurekendur (sem ákveða sjálfir verðlagið á vöru og þjónustu) að halda verðhækkunum í hófi á samningstímanum. Það myndi hjálpa til að ná markmiði Seðlabankans um 2,5% verðbólgu. Kaupmáttaraukning yrði samt lítil sem engin.

Nú í fyrstu viku gildistíma samninganna skella hins vegar á verðhækkanir sem sumar hverjar eru margfaldar þessar kauphækkanir. Allt upp í 20% hækkun á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu er þar á meðal.

Þetta er meira að segja áður en kjarasamningarnir hafa verið bornir undir atkvæði félagsmanna!

Þeir sem þetta gera virðast gefa sér að fólk sé fífl, þ.e. að launþegar muni samþykkja samninginn jafnvel þó forsendurnar séu brostnar – strax í fyrstu viku samningstímans!

Það er eins og hægt sé að bjóða launafólki á Íslandi hvað sem er. Sýna bara fingurinn!

 

Verðtrygging launa er nú tímabær

Mér sýnist að nú sé lag til alvöru breytinga í kjarasamningum.

Ef launþegahreyfingin er ákveðin í að semja um svo lágar kauphækkanir, ekki bara í þessum “aðfararsamningi” heldur einnig til langs tíma í framhaldinu, eins og sagt er, þá þarf annað verklag í samningum.

Með svo lágum kauphækkunum, sem stefna einungis að 1-3% kaupmáttaraukningu á ári, þá er fráleitt annað en að verðtryggja kjarasamninginn.

Verðtryggingu launa var hafnað á verðbólguárunum vegna ótta við allt of miklar kauphækkanir, sem þóttu auka verðbólguþrýsting. Þá hækkuðu menn kaupið jafnvel um 10-20% í kjarasamningum og náðu iðulega ágætri kaupmáttaraukningu, þrátt fyrir hátt verðbólgustig.

Með hinum mjög svo hóflegu kauphækkunum sem nú er stefnt á er engin hætta á verðbólguþrýstingi frá launum.

Þess vegna er algerlega skaðlaust að verðtryggja slíka kjarasamninga. Það gæti raunar aukið stöðugleika.

Verðtryggðir kjarasamningar sem auka kaupmátt í takti við raunverulegan hagvöxt eru ekki verðbólguhvetjandi.

Ef fyrirliggjandi kjarasamningi verður hafnað ættu launþegafélögin því að halda sér áfram við hóflegar kauphækkanir (t.d. um 2-3% á ári) en verðtryggja samninginn til fulls – og án skilyrða.

Annað er ekki boðlegt. Það er raunar eina leiðin til að gera tal um “kaupmáttarsamning” meiningarbært.

Hin leiðin er auðvitað að halda áfram að fífla launafólk og láta reyna á hversu langt er hægt að komast á þeirri leið.

 

Síðasti pistill: Japanska ríkisstjórnin skilur nú gildi kauphækkana

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.1.2014 - 11:40 - FB ummæli ()

Ríkisstjórn Japans vill hækka kaupið

Japan lenti í fjármálakreppu fyrir rúmum 20 árum, í kjölfar mikillar fasteignabólu. Síðan þá hefur gætt stöðnunar og jafnvel verðhjöðnunar í japanska hagkerfinu.

Stjórnvöld hafa gert margvíslegar tilraunir til að koma hagkerfinu aftur á skrið – en með litlum árangri. Tveir áratugir framþróunar eru tapaðir.

Fyrir rúmu ári tók við nýr forsætisráðherra, Shinzo Abe, sem hefur þegar breytt stöðunni til betri vegar. Japanska hagkerfið er farið að sýna merki alvöru bata.

Nýlega kynnti forsætisráðherrann áform um það sem hann kallar “óvænta kauphækkun” til almennings (sjá hér).

Kanski íslenska launþegahreyfingin ætti að kynna sér þessar björtu hugmyndir um nytsemd kauphækkana? Nema þeir vilji frekar kalla þessar hugmyndir japönsku stjórnarinnar “lýðskrum”…

Í stuttu máli eru rök japönsku stjórnarinnar þau, að langtíma raunlækkun launa í Japan hafi átt þátt í stöðnun japanska hagkerfisins. Það var hluti af verðhjöðnunarástandi. Kaupmátturinn lækkaði um 0,8% á ári að meðaltali frá árinu 2000.

Það er að vísu ekki jafn mikil lækkun og varð hér á landi frá og með árinu 2008.

Með kauphækkun núna vill forsætisráðherra Japans auka þrótt og væntingar almennings og þar með auka eftirspurnina í hagkerfinu. Hann vill auka einkaneysluna. Eins og gera þarf hér á landi (sjá hér).

Í kjölfar þess sér hann fyrir sér að tækifæri fyrirtækja til vaxtar og fjárfestinga aukist – hjólin snúist örar. Þetta er klassískt Keynesískt úrræði til að sækja út úr kreppuástandi. Auka eftirspurn neytenda.

Íslendingar gætu lært mikið af þessari hagfræði (Abenomics) – sem þó er bara gamalt Keynesískt vín á nýjum belgjum.

Raunar er tilefnið fyrir raunhækkun launa meira hér á landi en í Japan – því hér varð mun meira fall kaupmáttar (sjá hér og hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.1.2014 - 23:12 - FB ummæli ()

Offituvandinn eykst í USA

Hlutfall íbúa Bandaríkjanna sem teljast með offituvanda hækkaði á síðasta ári (sjá hér).

Varla var á það bætandi.

Svipuð þróun er víða á Vesturlöndum. Þetta er lífsstílsvandi í ríkum samfélögum og tengist bæði þeim matvælum sem bjóðast á markaði (bragðgóðri óhollustu) og einnig að einhverju leyti óhófi okkar og of lítilli hreyfingu.

Á Íslandi hefur þessi þróun verið all afgerandi á síðasta áratug.

Í Bandaríkjunum er það svo að rétt rúmur þriðjungur þjóðarinnar telst nú normal að þyngd (miðað við hæð), annar þriðjungur er of þungur og svo er tæpur þriðjungur með offitu sem fer illa með heilsuna.

Þetta er heldur óheppileg samsetning bandarísku þjóðarinnar. Tveir af hverjum þremur eru of þungir!

Þó ástandið sé ekki jafn slæmt hér á landi þá stefnir í sömu átt.

Maður verður nokkuð meðvitaður um þetta á jólahátíðinni, sem því miður er talsverð ofneysluhátíð.

Best að byrja nýja árið á stífu aðhaldi… og jafnvel æfingum…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.1.2014 - 08:18 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn ganga klofnir til kosninga

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vakti blendnar tilfinningar í röðum flokksmanna. Mannavalið þótti ekki gott og forystusætið var skipað manni frá Ísafirði – sem er hlynntur aðild að ESB í þokkabót! Það býður uppá klofning.

Styrmir Gunnarsson, sem var aðgerðastjóri Sjálfstæðisflokksins í áratugi á ritstjórn Morgunblaðsins, hefur talað skýrt um þetta. Vildi hafa opinn fund í Valhöll um slæma stöðu flokksins í höfuðborginni.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, sendi Styrmi tóninn í gær og kvartar yfir því að hann geri lítið úr hinum nýja forystumanni flokksins í Reykjavík, sem Sturla telur góðan frambjóðanda. Hann segir Styrmi skaða flokkinn með skrifum sínum.

Fyrir helgi spurði Styrmir hver verði baráttumál flokksins í borgarstjórnarkosningunum?

Það er að vísu óþarfi hjá Styrmi að beina slíkri spurningu út í loftið af Evrópuvaktinni. Það er ritstjóri Moggans og/eða kontóristar á skrifstofu LÍÚ sem svara slíku, enda móta þeir stefnuna.

Ég held þó að það sé ekki bara óánægja með mannaval á framboðslista Sjálfstæðismanna sem muni skemma kosninguna fyrir þeim í vor.

Það er hin nýja stefna Sjálfstæðisflokksins að ganga fyrst og fremst erinda yfirstéttarinnar sem fælir kjósendur frá.

Flestum er að verða það ljósara en áður að Sjálfstæðisflokkurinn er bara flokkur yfirstéttarinnar, jafnvel á kostnað millistéttar og lægri hópa.

Það er sumsé nýfrjálshyggjan, hugmyndafræði yfirstéttarinnar, sem er að leika Sjálfstæðisflokkinn grátt – jafnvel meira en umdeilanlegt mannaval á framboðslista.

Þess vegna verður flokkurinn áfram á lágu nótunum í fylgi í vor – eins og í kosningunum í fyrra.

 

Síðasti pistill: Forsetinn fór afvega

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.1.2014 - 12:41 - FB ummæli ()

Forsetinn fór afvega

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Ólafs Ragnars Grímssonar.  Okkar ágæta forseta.

Það þýðir þó ekki að ég telji hann óskeikulan. Ólafur er eitursnjall en honum hættir til í mælsku sinni að fara framúr sér og hann á það til að vera full sjálfhverfur.

Í síðasta nýársávarpi sínu fór hann heldur langt út fyrir ramma staðreyndanna. Menn hafa bent á það varðandi ýkt tal um gildi samstöðu fyrir helstu framfaraspor þjóðarinnar og um draumsýnina um að Norðurslóðir og Ísland verði þungamiðja “nýrrar heimsmyndar”.

Ég ætla að bæta einni villu við tossalistann hjá okkar ástsæla leiðtoga. Hún liggur í eftirfarandi klausu hans:

“Þegar verðbólgan hafði í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks náðist fyrir rúmum tuttugu árum þjóðarsátt um stöðugleika, varanlegan grundvöll framfara og velferðar.”

Í þessari klausu eru alvarlegar staðreyndavillur.

Skiptum tímabilinu frá 1960 til hrunsins 2008 í tvö tímabil: verðbólgutímann (1960-1989) og þjóðarsáttartímann (1990-2008). Spyrjum svo hvort tímabilið hafi verið betra fyrir vöxt atvinnulífs og bætt kjör launafólks.

Niðurstaðan er sú, að verðbólgutíminn hefur talsverða yfirburði yfir þjóðarsáttartímann, bæði hvað snertir meiri vöxt atvinnugreina (meiri hagvöxt) og bætt lífskjör launafólks (aukinn kaupmátta ráðstöfunartekna). Tölur um þetta má sjá hér og hér.

Fyrstu 4 ár þjóðarsáttartímans minnkaði kaupmáttur launafólks eða stóð í stað. Það fór saman við markvert lægra verðbólgustig. Síðan var ágæt aukning kaupmáttar frá 1995 til 2000 og svo aftur í bóluhagkerfinu frá 2003 til 2007. En kaupmáttaraukning var þó markvert meiri á tímabilinu frá 1960 til 1987, þ.e. á verðbólgutímanum.

Það er því kolrangt að segja að verðbólgan hafi “í áratugi hamlað vexti atvinnugreina og skert lífskjör launafólks” og að allt hafi batnað með þjóðarsáttinni. Verðbólgutíminn var eitt almesta framfaraskeið Íslands, þrátt fyrir allt.

Verðbólgan lagaðist að vísu með þjóðarsáttinni en kjörin bötnuðu þá minna en á verðbólgutímanum og hagvöxtur varð minni.

 

Varanlegur grundvöllur framfara og velferðar?

Skapaði þjóðarsáttartíminn svo “varanlegan grundvöll framfara og velferðar”, eins og forsetinn segir?

Ónei!

Í kjölfar þjóðarsáttarinnar kom tími aukinna frjálshyggjuáhrifa sem leiddu til bóluhagkerfisins er byggði á braski með erlent lánsfé. Forsetinn og Hannes Hólmsteinn lögðust þá á árarnar með bankamönnum og útrásarbröskurum og mærðu í sameiningu “snilli” þeirra.

Hagþróun þess tíma, einkum eftir aldamótin, á ekkert sameiginlegt með hugtakinu “varanlegur grundvöllur”, heldur var þá flest á sandi byggt. Þjóðarbúið var þanið áfram með óhóflegri sókn í lánsfé – raunar var Íslandi drekkt í skuldum.

Varanlega afleiðingin af því tímabili er skuldabasl, en ekki „grundvöllur framfara og velferðar“.

Verkalýðsleiðtogarnir voru svo uppteknir af goðsögninni um þjóðarsáttina að þeir gleymdu að fylgjast með þegar yfirstéttin fór að taka tekjur sínar inn sem fjármagnstekjur er báru mun minni skattbyrði en launatekjur. Lágtekjufólk drógst afturúr, svo um munaði.

Hlutur atvinnurekenda og fjármálamanna af þjóðartekjunum stórjókst. Tekjur þeirra jukust langt umfram tekjur venjulegs fólks, um leið og þeir drekktu þjóðarbúinu í skuldum (sjá hér og hér).

Nú biðja menn um endutekningu á þjóðarsátt um ábyrgð launamanna á verðbólgunni og ætlast til að launafólk fórni kaupmáttaraukningu um langt árabil til að ná því marki. Á meðan hafa atvinnurekendur og fjáraflamenn frítt spil.

Reynsla sögunnar er sú, að samstaða launamanna innbyrðis er mikilvæg fyrir sókn eftir kjarabótum. Samstaða launamanna með atvinnurekendum þjónaði meira hagsmunum atvinnurekenda en launamanna á tímabili þjóðarsáttarinnar frá 1990 til 2008. Öll fögnuðum við þó lægra verðbólgustigi, vegna verðtryggingar á skuldum heimilanna, sem hefur reynst hin mesta spennitreyja fyrir launabaráttuna.

Raunar er hin almenna lexía sögunnar líka sú, að mörg helstu framfaraspor fyrir almennt launafólk hefur þurft að sækja af krafti og með átökum. Það á við um kaupmáttaraukningu og velferðarréttindi flest. Það á einnig við um framfarir í mannréttindamálum.

En þeir sem sækja fram gegn íhaldi og forréttindastéttum þurfa hins vegar að standa saman til ná árangri. Ólafur Ragnar Grímsson hefur örugglega kennt nemendum sínum þá lexíu á háskólaárum sínum, enda var hann góður háskólakennari.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar