Fimmtudagur 26.9.2013 - 17:22 - FB ummæli ()

Hafa Íslendingar efni á tannlækningum?

Ég hef nýlega birt tölur um áhrif kostnaðar á aðgengi lágtekjufólks og miðtekjufólks að almennri læknisþjónustu (hér).

Nú er komið að tannlækningum.

Á myndinni hér að neðan má sjá hve stór hluti lágtekjufólks (tekjulægsta fimmtungs einstaklinga, 16 ára og eldri) neitaði sér um tannlækningar á árinu 2011, vegna kostnaðar. Gögnin eru frá Hagstofu ESB (Eurostat) og er það Hagstofa Íslands sem aflar þeirra hér á landi.

Lágtekjufólk og tannlækningar

Hér má sjá að Íslendingar voru með þriðju verstu stöðuna í Evrópu á árinu 2011. Um 19% lágtekjufólks neituðu sér um tannlæknisþjónustu vegna kostnaðar. Búlgarir voru með 20,5% og Lettar með langverstu stöðuna, eða 36%.

Næst fyrir neðan okkur voru Rúmenar, Ítalir, Portúgalir, Eistar og Kýpverjar. Allt mun fátækari þjóðir en Íslendingar.

Þarna sér merki kreppunnar og hinnar miklu skerðingar kaupmáttar sem hér varð með hruni krónunnar 2008 til 2009.

Þessi hópur töfaldaðist að stærð eftir hrun, fór úr um 9% í 19%.

Norðmenn og Svíar eru að vísu furðu ofarlega á listanum, en þó með innan við helming af því sem hér er.

Í Finnlandi, Bretlandi og Hollandi er nær óþekkt að lágtekjufólk neiti sér um tannlæknisþjónustu.

Ef miðtekjufólk er skoðað kemur í ljós að um 10% Íslendinga úr þeim hópi neituðu sér um tannlæknisþjónustu á árinu 2011 og erum við líka þar í þriðja versta sæti, með Lettlandi, Rúmeníu og Búlgaríu. Það er vondur félagsskapur á slíkum mælikvarða.

Fyrri ríkisstjórn hóf að auka niðurgreiðslur á tannlækniskostnaði barna umtalsvert og vonandi verður því fram haldið af núverandi stjórn.

En staðan fyrir fullorðna er afleit í þessum efnum.

Þarna gætir í senn lágs kaupmáttar og lítilla niðurgreiðslna á tannlækningum, sem eru einkareknar hér á landi. Verðlag þjónustunnar gæti einnig verið frekar hátt, miðað við kaupmátt almennings.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.9.2013 - 09:17 - FB ummæli ()

Þeir sem ekki höfðu efni á læknisþjónustu árið 2011

Í gær birti ég tölur um hlutfall lágtekjufólks sem hafði þurft að neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar á árinu 2009.  Það voru tölur frá OECD um ástandið fyrst eftir að kreppan skall á.

Hér að neðan eru nýrri tölur frá Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins) og Hagstofu Íslands, fyrir árið 2011. Þá hafði ástandið versnað, enda krepputökin orðin harðari, þó Ísland hafi verið komið með hagvöxt á ný það árið.

Á árinu 2011 var Ísland með sjöttu verstu stöðuna í Evrópu í þessum efnum. Um 6,8% lágtekjufólks (þ.e. tekjulægstu 20 prósent heimilanna) þurftu að neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar það árið.

Lágtekjufólk og læknisþjónusta 2011

Ísland er í þessum efnum í hópi fátækari landa í Evrópu. Verri er staðan í Lettlandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Ítalíu og Grikklandi, en á eftir okkur koma svo Pólland, Kýpur og Ungverjaland.

Frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum eru með á bilinu 0,1% í Finnlandi til 1,1% í Svíþjóð. Það munar því afar miklu á stöðu okkar Íslendinga nú og stöðu frændþjóðanna. Við erum með sex sinnum stærri hóp í þessum vanda en Svíar.

Meðaltal ESB er 4,8% á móti 6,8% hér á landi.

Og nú er talað um að auka hlut sjúklinga í greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu, þar á meðal fyrir sjúkrahúsvistun.

Getur verið að Íslendingar ætli að lækka skattheimtu af ríkasta fólki landsins um leið og gjaldtaka af sjúklingum verði aukin enn frekar?

Með því myndi væntanlega fjölga í hópi þeirra sem þurfa að neita sér um læknisþjónustu og lyf.

Sjá nánar skýrslu Ingimars Einarssonar um kostnað krabbameinssjúklinga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 23.9.2013 - 19:38 - FB ummæli ()

Aðgengi lágtekjufólks að læknisþjónustu

Fyrir skömmu var birt merkileg skýrsla Ingimars Einarssonar, sérfræðings í velferðar- og heilbrigðismálum, sem hann vann fyrir Krabbameinsfélagið. Skýrslan fjallar um þróun kostnaðarhlutdeildar sjúklinga. Fram kemur m.a. að hlutur sjúklinga hefur tvöfaldast á síðustu 30 árum.

Fyrir krabbameinssjúklinga hefur kostnaður bæði við læknisþjónustu og lyfjakaup hækkað umtalsvert undanfarið, m.a. vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins við lyfjakaup, sem tók gildi 4. maí sl.

Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða í hvaða mæli fólk hefur þurft að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar. Hér að neðan eru tölur frá OECD um hlutfall lágtekjufólks (tekjulægstu 20% íbúa hvers lands) sem sögðust í könnun hafa þurft að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar á árinu 2009.

Lágtekjufólk og læknisþjónusta

Þarna er Ísland í áttunda efsta sæti, á eftir þjóðum eins og Grikklandi, Ítalíu og Portúgal, sem öll lentu illa í fjármálakreppunni.

Frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum, sem við gjarnan berum okkur saman við, voru með mun betri stöðu en við í þessum efnum á árinu 2009, þegar kreppan dýpkaði ört hér á landi og kaupmáttur hafði hrunið.

Svíar voru okkur næstir á Norðurlöndum, en einungis með um 1,2% íbúa í vanda með læknisþjónustu vegna kostnaðar á móti 3,7% hér á landi. Í Finnlandi voru það einungis um 0,3% lágtekjufólks sem höfðu þurft að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar, eða um tíundi hluti þess sem var á Íslandi. Þarna munar miklu.

Í fyrri pistli sýndi ég gögn um í hvaða mæli íbúar almennt hafa þurft að neita sér um læknisþjónustu til ársins 2011. Þar kom fram að vandinn jókst bæði árin 2010 og 2011. Staðan nú er því væntanlega verri en sýnt er á myndinni hér að ofan.

Það væri því afar vondur kostur ef notendagjöld myndu hækka í heilbrigðisþjónustunni á næstunni.

Fleiri í hópi lágtekjufólks og millitekjufólks myndu þá þurfa að neita sér um læknisþjónustu og mikilvæg lyf.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.9.2013 - 22:57 - FB ummæli ()

Gnarrenburg!

Jón Gnarr og Besti flokkurinn gera það gott í Reykjavík. Mörg framfaramál virðast vera að ganga upp hjá þeim, borgarbúum til hagsbóta og yndisauka.

Nýtt framsækið aðalskipulag hefur verið samþykkt með stuðningi fulltrúa annarra flokka, meðal annars jákvæðra Sjálfstæðismanna (sem enn má finna í borginni!). Hafnarsvæðið er á álitlegri leið og nýjar hugmyndir um uppbyggingu kringum Ingólfstorg og á Landsímareit virðast spennandi.

Þekkingarþyrping í Vatnsmýri er komin í fluggír og um helgina var opnuð stórskemmtileg hjóla- og göngubrú yfir Elliðavog.

Margir Reykvíkingar kunna að meta starf meirihlutans í Reykjavík, ekki síst að hafa bjargað Orkuveitunni frá yfirvofandi gjaldþroti og haldið sjó gegnum kreppuna. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri Sjálfstæðismanna,  sagði fyrir síðustu kosningar að Orkuveitan væri í góðu standi! Orkuveitan rambaði þá á barmi risagjaldþrots.

Svo er Besti flokkurinn aftur orðinn stærsti flokkurinn í Reykjavík, samkvæmt nýrri könnun.

Á sama tíma er sundrung og úlfúð ríkjandi í Sjálfstæðisflokki, sem líður fyrir það að Davíð Oddsson og félagar hirða ekki um hag borgaranna, heldur leggja höfuðáherslu á niðurrif, íhaldssemi og andóf gegn nútímalegum framförum.

Davíð Oddsson fer reyndar offari í skrifum um borgarmál í Mogganum í dag og beinir spjótum sínum og styggu skapi ekki síður að eigin flokksmönnum en andstæðingum.

Loks finnst honum sæmandi að uppnefna eftirmann sinn á borgarstjórastóli, að hætti götustráka og eltihrella. Margir hafa hlegið að skrifum hans um helgina – en aðra setur hljóða.

Það er allt samkvæmt áætlun!

Það virðist því fátt geta komið í veg fyrir áframhaldandi valdasetu núverandi meirihluta í Reykjavík, undir forystu Jóns Gnarr og Dags B. Eggertssonar. Það er vel við hæfi því margt horfir nú til betri vegar í Reykjavík.

Kanski Reykjavík verði enn um sinn Gnarrenburg!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.9.2013 - 19:07 - FB ummæli ()

Bylting í Vatnsmýri

Nú berast fregnir af því að samningar hafi tekist milli bandaríska lyfjafyrirtækisins Alvogen, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um uppbyggingu hátækniseturs innan Vísindagarða HÍ, sem muni hýsa höfuðstöðvar Alvogen.

Það er Róbert Wessman sem stýrir Alvogen, en heildarfjárfesting vegna verkefnisins er áætluð um 25 milljarðar króna.

Þetta eru mikil tímamót í þróun þekkingariðnaðar hér á landi og sérstaklega mikilvægt skref fyrir uppbyggingu Vísindagarða Háskóla Íslands (sjá hér).

Hugmyndir um stofnun Vísindagarða HÍ, sem vettvangs fyrir samstarf milli háskólans og þekkingarfyrirtækja, þróuðust á árunum 2001 til 2003. Þá var lokið við fyrstu útfærslu á deiliskipulagi svæðisins vestan við byggingu Íslenskrar erfðagreiningar. Síðan þá hefur lítið gerst fyrr en nú, er þetta stóra skref er stigið til að gera hugmyndina um vísindagarða HÍ að veruleika.

Mér er þetta sérstaklega hugleikið því ég var formaður Húsnæðis- og skipulagsnefndar HÍ, sem mótaði stefnuna um Vísindagarða  HÍ og fyrsta deiliskipulag svæðisins sem lokið var við árið 2003. Hugmyndir að vísindagarðaverkefninu voru sóttar til þekkingarþyrpinga í Bandaríkjunum og í Skandinavíu, sérstaklega í Finnlandi og Svíþjóð.

Finnar og Svíar lögðu sérstaklega mikla áherslu á þróun þekkingarhagkerfisins eftir kreppuna sem þeir lentu í upp úr 1990 og voru þekkingarþyrpingar við háskóla stór þáttur í þeirri þróun. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar ættum að leggja miklu meiri áherslu á nýsköpun á þessu sviði, frekar en gamaldags málmbræðslur.

Dagur B. Eggertsson hjá Reykjavíkurborg sýndi þessu verkefni mikinn áhuga frá fyrstu tíð og landar því nú með aðstoð Róberts Wessmans og Hilmars B. Janussonar hjá Vísindagörðum HÍ. Þeim og samstarfsfólki þeirra ber að þakka.

Vonandi verður þetta mikilvæga skref til þess að glæða frekari elda nýsköpunar í íslenska þekkingarhagkerfinu. Ekki veitir okkur af.

Screen shot 2013-09-19 at 6.55.58 PM

Skipulagsmynd af svæði Vísindagarða Háskóla Íslands

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.9.2013 - 10:48 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn hafna leið Framsóknar

Það er sífellt að koma betur í ljós að Sjálfstæðismenn leika tveimur skjöldum í stærsta máli síðustu kosninga, skuldalækkun til heimilanna.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi bankamaður, er í herferð gegn leið Framsóknar og kallar hana óábyrga.

Aðrir hamast á því að hátekjuhópar muni fá mesta skuldalækkun samkvæmt leið Framsóknar, rétt eins og útilokað sé að sett verði hámark á upphæðina, sem myndi vega gegn slíkum áhrifum. Hádegismórar skrifa um það í Moggann í dag.

Skuldalækkunarleiðinni er fundið allt til foráttu.

Margir áhrifamiklir Sjálfstæðismenn sjá sem sagt mikla annmarka á því að skuldalækkunarloforð Framsóknar verði efnd.

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Frosti Ólafsson, skrifar grein í Fréttablaðinu í dag og hamrar járnið enn frekar – gegn hagsmunum heimilanna.

Þar færir hann furðuleg rök fyrir því að óheppilegt sé að tengja samninga við kröfuhafa föllnu bankanna við áform Framsóknar um viðamikla lækkun á skuldum heimilanna.

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs telur að vísu nauðsynlegt að erlendu kröfuhafarnir afskrifi hluta krónueigna sinna. En það er einungis mikilægt í hans huga til að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum sem fyrst. Hann hefur engan áhuga á skuldalækkun til heimila venjulegs fólks.

Viðskiptaráð hugsar sem sagt bara um hag atvinnurekenda og fjármagnseigenda og vill fullt frelsi þeirra til að flytja auð sinn úr landi sem fyrst. Viðskiptaráð vill hins vegar ekki setja heimilin í forgang og lækka skuldir þeirra.

Þarna er tvískinnungurinn hjá Sjálfstæðismönnum. Viðskiptaráð réð ferðinni á árunum fram að hruni þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn. Viðskiptaráð er einn helsti valdaaðilinn innan Sjálfstæðisflokksins.

Ástæða er til að hvetja Framsóknarmenn til að láta hvergi deigan síga í baráttunni fyrir hag heimilanna.

Óvinir skuldalækkunarinnar eru innan veggja stjórnarheimilisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.9.2013 - 08:57 - FB ummæli ()

Hagvöxtur – Ísland og Eystrasaltslönd

Það er fróðlegt að bera saman hagvaxtarþróun á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum, fyrir og eftir hrun.

Fram að hruni var hagvöxtur almennt meiri í Eystrasaltslöndunum (Eistlandi, Lettlandi og Litháen) en á Íslandi.

Í kreppunni fóru þau hins vegar mun dýpra og örar niður en Ísland. Þau voru hins vegar fljótari upp á ný, eins og sjá má á myndinni hér að neðan (gögn frá Eurostat).

Hagvöxtur - Ísl og Eystrasalt

Eftir dýfu kreppunnar hafa Eystrasaltslöndin svo öll verið með meiri hagvöxt en Ísland.

Ein ástæða þess er sú, að þetta eu mun fátækari lönd en Ísland. Í slíkum fátækum löndum, sem á annað borð eru komin á hagvaxtarferil, er auðveldara að hafa meiri hagvöxt en í hagsælli ríkjum.

Það er auðveldara að bæta vel við litla landsframleiðslu en stóra. Þannig var það bæði fyrir og eftir dýfuna.

Hins vegar hefur Ísland náð mun betri árangri en Eystrasaltslöndin í að halda aftur af atvinnuleysi.

Það er mikilvægt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.9.2013 - 10:24 - FB ummæli ()

Afkoma þeirra ríku í kreppunni – USA og Ísland

Paul Krugman birti um daginn grein í New York Times um það hvernig þeir ríku í Bandaríkjunum eru komnir út úr kreppunni á meðan almenningur situr enn í viðjum hennar. Hann vísar í upplýsingar sem eru á myndinni hér að neðan (frá Piketty og Saez 2013).

Slide1

Hér má sjá hvernig tekjuhæstu 10 prósent heimila í Bandaríkjunum eru komin með stærri hlut af heildartekjum þjóðarinnar árið 2012 en var á bóluárinu 2007 – og raunar hærri en nokkrum sinnum fyrr síðastliðin 100 ár. Kreppa þeirra ríku varð bara lítil og stóð stutt.

Ríkustu 10 prósent heimila í USA eru með rúmlega helming heildartekna heimilanna. Ríkasta 1 prósentið var með rúm 23% árið 2007 en er nú með 22-23% heildarteknanna á ný.

Þeir ofurríku í USA eru sem sagt komnir aftur í rífandi sókn en almenningur situr eftir. Ójöfnuðurinn eykst enn frekar en orðið var.

Hvernig var þetta í kreppunni á Íslandi?

Vegna hins algera hruns hlutabréfamarkaðar og vegna jöfnunarstefnu vinstri stjórnarinnar þá varð þróunin önnur á Íslandi. Hana má sjá á myndinni hér að neðan, sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur reiknaði úr gögnum Ríkisskattstjóra. Miðað er við allar skattaskyldar tekjur (með söluhagnaði), fyrir skatt, eins og í efri línunni fyrir Bandaríkin.

Slide2

Tekjur ríka fólksins lækkuðu meira í kreppunni á Íslandi en í USA og hafa ekki hækkað eins bratt á ný – enn sem komið er.

Ríkustu 10 prósent fjölskyldna á Íslandi höfðu farið upp í um 43% heildartekna fjölskyldna árið 2007 (á móti tæplega 50% í USA). Hlutur ríkustu tíu prósentanna lækkaði svo meira á Íslandi en í USA, eða niður í 32% 2010 og er enn á svipuðum slóðum 2011.

Ríkasta eitt prósentið á Íslandi fór í 19,8% árið 2007 (á móti rúmlega 23% í USA) en lækkaði svo í 6,7-6,8% 2010 og 2011. Í USA fór hlutur ríkasta eins prósentsins ekki neðar en 18%.

Hrun hlutabréfamarkaðarins (sem lækkaði fjármagnstekjur hátekjufólks mikið) og stefna vinstri stjórnarinnar (aukin jöfnun tekna með sköttum og bótum) gerðu það að verkum að þróunin varð með öðrum hætti á Íslandi. Ekki eins hagstæð fyrir þá ríkustu og varð í Bandaríkjunum.

Vísbendingar eru um að hærri tekjuhópar hafi hækkað meira en aðrir á Íslandi á árinu 2012 (forstjórar og starfsmenn í fjármálageira), en það kemur í ljós síðar í vetur hvort það hafi breytt tekjuhlutdeildinni.

Síðan er athyglisverð spurning, hvernig þróunin verður á næstu árum, þegar hlutabréfamarkaður fer á meira flug og ef stjórnvöld breyta skatta- og bótastefnu sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.9.2013 - 21:58 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn verja leynibrask á ný

Alls staðar á Vesturlöndum er litið svo á, að of mikið frelsi og of lítið eftirlit og aðhald með fjármálamörkuðum hafi átt stóran þátt í fjármálakreppunni – og ekki síst í hruninu hér á landi. Afskiptaleysisstefna eftirlitsstofnana og stjórnvalda var einn stærsti sökudólgurinn.

Þetta hefur komið fram hjá helstu sérfræðingum í fjármálakreppum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD og hjá helstu úttektaraðilum íslenska hrunsins, eins og Rannsóknarnefnd Alþingis, Karlo Jänneri og fleirum.

Eftirlit með fjármálamarkaði var of lítið og veikt gagnvart fjármálaöflunum. Gat ekki hamið neitt af þeirri glórulausu þróun sem leiddi þjóðina út í fen fjármálahrunsins – þó allt hafi hér verið með mestu ólíkindum frá 2002 til 2008.

En um leið og Sjálfstæðisflokkurinn er kominn til valda á ný þá er það með fyrstu stefnumálum þeirra að veikja stórlega það sem þeir kalla “eftirlitsiðnaðinn”. Aðeins fimm árum eftir hrunið hrikalega!

Guðlaugur Þór, sem er í hinum einfeldnislega og athyglissjúka niðurskurðarhópi ríkisstjórnarinnar, tilkynnti fyrstur að draga þyrfti niður “eftirlitsiðnaðinn”, Fjármálaeftirlitið og Umboðsmann skuldara, og einhverjar smáskrifstofur aðrar.

Svo kom Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og sagði að vinda þyrfti ofanaf Fjármálaeftirlitinu og Sérstökum saksóknara, sem væru alltof stórt.  Við þurfum að “hugsa frekar til framtíðar”, sagði hann. Ekki mætti hamla framtaksfrelsinu á fjármálamarkaði.

Þessir ágætu menn láta svo eins og þetta sé hluti af því að draga úr útgjöldum ríkisins. En svo er alls ekki. Rekstur bæði Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmann skuldara er kostaður nær eingöngu af fjármálastofnunum einkageirans – en ekki af ríkinu.

Það þýðir að Guðlaugur Þór og Bjarni Ben. vilja veikja eftirlit með fjármálageiranum og þjónustu við skuldara, þó það spari ríkinu engan pening! Ekki krónu!

Þeir eru einfaldlega á móti eftirliti sem miðað að því að verja þjóðina gegn fjármálaáhættum – eins og þeim sem leiddu þjóðina fyrir fjármálabjörg, fyrir einungis 5 árum síðan.

Þegar ég hugsa um þetta þá finnst mér eins og ég búi í leikhúsi fáranleikans, sé staddur inni í miðju leikverki eftir Daríó Fó eða einhvern súrrealistann.

Þetta er svo ævintýralega djarft og vitlaust.

En svo minnist ég þess, að bæði Bjarni Ben. og Gulli Þór voru fórnarlömb Fjármálaeftirlitsins og Sérstaka saksóknara, vegna eigin tengsla við vafasama fjármálavafninga, brask og leynisjóði – þó ekki væru þeir beinlínis sóttir til saka.

Þeir vilja sem sagt fá að vera í friði næst, með sitt leynibrask. Það er líka vilji allra auðmannanna sem ráða ferðinni í Sjálfstæðisflokknum. Þeir ætla að græða á daginn og sætta sig ekki við neinar hraðatakmarkanir á gróðabraskinu.

Þetta er sem sagt leiðin sem Ísland er á – enn á ný.

Hefði nokkur maður trúað þessu í október 2008? Ja, eða bara á árinu 2009?

 

Síðasti pistill: Frjálshyggjan: Leiðin til skuldaánauðar 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.9.2013 - 22:37 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan: Leiðin til skuldaánauðar

Ein frægasta bók frjálshyggjunnar er Leiðin til ánauðar, eftir Friðrik von Hayek. Hún var skrifuð á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hayek var efst í huga að auka hlutverk markaðarins og minnka ríkisafskipti. Boðskapur hans var að allt sem markaði tengist sé gott, en allt sem ríkið gerir slæmt.

Hayek hafði horft upp á aukin ríkisafskipti á árum kreppunnar miklu og síðan stórjukust þau með styrjaldarrekstrinum. Hann óttaðist um hlutskipti markaðarins og einkageirans.

Í huga hans jafngiltu aukin ríkisafskipti auknu alræði og ófrelsi. Hann hafði ekki mikla trú á fulltrúalýðræði og velferðarríki. Bókin var skrifuð til að vara lesendur við að blandaða hagkerfið myndi leiða til of mikilla ríkisafskipta sem gætu ekki annað en endað í alræði fárra yfir fjöldanum.

Hayek hafði hins vegar algerlega rangt fyrir sér um þetta.

Þróunin á kreppuárunum (1929 til 1939) var afleiðing þess að óheftir markaðir höfðu farið illa afvega, en það leiddi til hrunsins á Wall Street 1929 og djúprar kreppu í kjölfarið. Markaðurinn og einkageirinn brugðust, eins og á Íslandi í aðdraganda hrunsins. Óheftir markaðir leiða oft til slíks ófarnaðar. Þess vegna þarf ríkið og samfélagið að hemja markaðina í þágu almannahags. Það gerir blandaða hagkerfið.

Blandaða hagkerfið sem tók við eftir seinni heimsstyrjöldina leiddi ekki til ánauðar, eins og Hayek spáði, heldur til mesta framfaraskeiðs í sögu mannkyns, með auknum hagvexti, auknu lýðræði, bættum kaupmætti almennings, bættri menntun og aukinni velferðarþjónustu. Úr stéttaskiptingu dróg. Allt gekk upp fyrir almenning á Vesturlöndum.

Framfaraskeið blandaða hagkerfisins stóð fram undir 1980, en þá tóku frjálshyggjuáhrif að aukast á ný.

Annað sem tengist frjálshyggjuáhrifunum er aukið frelsi og afskiptaleysi á fjármálamörkuðum. Meðal annars vegna þess að hægri menn veikja eftirlitsiðnaðinn (ríkisafskiptin) um of. Það hefur í för með sér mikla hættu á fjármálakreppum, auknum ójöfnuði og skuldaánauð.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig skuldir bandaríska þjóðarbúsins tóku að aukast á ný upp úr 1980 og náðu hámarki í aðdraganda fjármálakreppunnar.

Slide1

Frjálshyggjuáhrifin leiddu til sívaxandi skuldaánauðar upp úr 1980, bæði hjá heimilum og ríkinu. Það er raunar mögnuð þversögn.

Frjálshyggjuboðskapur Hayeks átti að leiða til aukins frelsis fyrir alla – í orði kveðnu. En eina frelsið sem jókst var frelsi auðmanna og bankamanna. Auðmenn græddu mikið en almenningur festist í þrældómi skuldaánauðar. Fólk í USA skuldsetti sig t.d. meira vegna þess að kaupmáttur launa stóð í stað eða lækkaði eftir 1980.

Kostnaður við að koma hagkerfum heimsins upp úr rústum frjálshyggjuhrunsins nú eykur svo skuldaánauð skattgreiðenda framtíðarinnar.

Frjálshyggjan reyndst vera hugmyndafræði sem miðaði að bættum hag auðmanna á kostnað almennings, en drekkti í leiðinni þjóðarbúinu og heimilunum í skuldum.

Skuldaþrælar eru ekki frjálsir – heldur í ánauð.

Frjálshyggjan er “leiðin til (skulda)ánauðar”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.9.2013 - 09:29 - FB ummæli ()

Framtíðin séð fyrir

Hér er skemmtilegt myndband með framtíðarspá frá árinu 1967.

Þetta er svolítið hallærislegt og skondið. Takið t.d. eftir kynjahlutverkunum!

Þó er þarna spáð fyrir um þróun tölvutækni á heimilum sem hefur gengið eftir og ríflega það.

Það er merkilegt í ljósi þess að þegar spáin var sett fram voru einkatölvurnar eða heimilistölvurnar ekki komnar til sögunar.

Framleiðsla einkatölva fór varla af stað fyrr en um og upp úr 1980 og internetið fór ekki að virka fyrir almenning fyrr en upp úr 1995.

Tölvupósturinn varð þó mun fullkomnari en þarna var gert ráð fyrir…

 

Síðasti pistill: Láglaunalandið Ísland: Förum nýja leið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.9.2013 - 20:58 - FB ummæli ()

Láglaunalandið Ísland: Förum nýja leið

Nýleg gögn frá Eurostat og Hagstofu Íslands sýna að kaupmáttur tímakaups á Íslandi var um 82% af meðaltali ESB-ríkja á árinu 2010. Samt er þjóðarframleiðsla á mann yfir meðaltali ESB-ríkja.

Ísland er óeðlilega mikið láglaunaland, miðað við ríkidæmi þjóðarinnar.

Íslendingar hafa löngum bætt sér upp hið lága kaup með því að vinna mikla yfirvinnu og með því að hafa tvær fyrirvinnur á heimili. Langur vinnutími og mikið vinnuálag á fjölskyldur hefur því verið fastur liður í kjaramálum þjóðarinnar. Það er ekki til fyrirmyndar.

Við vinnum um 8 klukkustundum lengur en Norðmenn á viku hverri. Það er einn virkur dagur sem við erum lengur í vinnu en Norðmenn – á hverri viku. Einn heill dagur! Það er mikill munur á lífskjörum.

Hvar við erum stödd í raunverulegum kaupmætti tímakaups á árinu 2010 má sjá á samanburðinum hér að neðan. Við erum allt of neðarlega.

Tímakaup í ESB

Svo segja menn að þetta sé vegna þess að framleiðni á vinnustund sé svo lág á Íslandi!

En við vitum það líka, að margir eru að vinna lengri vinnutíma vegna lágra launa – og langur vinnutími leiðir til minni framleiðni. Þetta er vítahringur. Við þurfum að brjótast út úr honum sem allra fyrst.

Íslendingar þurfa nú að fá kaupmáttaraukningu. En samhliða því eigum við að fara í þjóðarsátt um tvennt:

  • Að berjast af mikilli hörku gegn verðhækkunum (eins og gert var upp úr 1990, með árangri).
  •  Launþegar, atvinnurekendur og ríkisvaldið eiga einnig að fara í átak til að auka framleiðni. Stefna ætti að auknum afköstum samhliða styttri vinnutíma. Ná ætti sömu afköstum á 40 klst. og nú fást á 45 stundum – og færa yfirvinnulaunin inn í dagvinnulaunin.

Með slíkri þjóðarsátt um skynsama en ákveðna aukningu kaupmáttar getur Ísland bætt samkeppnishæfni sína fyrir launafólk. Það styrkir stöðu atvinnulífsins, með aukinni eftirspurn – eflir hagvöxt.

Með betri samkeppnishæfni fyrir launafólk hættum við að tapa gæðafólki til útlanda.

Samkeppnishæfni er ekki bara fyrir fyrirtæki. Mun mikilvægara er að ná samkeppnishæfni fyrir launafólk.

Það er forsenda búsetu á Íslandi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.9.2013 - 23:52 - FB ummæli ()

Hagvöxtur í þremur kreppulöndum

Það er þungt hljóð í mörgum á Íslandi en í raun hefur okkur miðað ágætlega út úr kreppunni til þessa. Að vísu er hagvöxtur almennt lítill á Vesturlöndum sem heldur öllum niðri.

Myndin hér að neðan sýnir samanburð á hagvexti á Íslandi, Írlandi og Grikklandi, fyrir og í gegnum kreppuna, með spá til 2014.

Hagvöxtur í þremur kreppulöndum

Hagvöxturinn var frekar mikill í öllum löndunum á bóluárunum fram að kreppu.

Írar fóru svo örar niður en við Íslendingar 2008-9. Írar voru heldur fljótari upp aftur en við en hafa síðan verið í meiri hægagangi en Ísland. Þeir eru að auki með mun meira atvinnuleysi en Íslendingar.

Grikkir fóru hins vegar hægar og seinna niður en hafa sigið mun dýpra en við og Írar og þeir hafa einnig verið seinni upp. Kreppan í Grikklandi er gríðarlega djúp vegna mikils niðurskurðar opinberra útgjalda og lítils kaupmáttar almennings. Þeim er þó spáð batnandi tíð á næsta ári.

Ísland hefur ná þokkalegum árangri eftir hrun, miðað við aðrar þjóðir, bæði í hagvexti og í að minnka atvinnuleysi.

Kaupmátturinn hér er hins vegar enn mjög lágur, eftir Evrópumet í lækkun hans.

Það getum við þakkað íslensku krónunni, einhverjum lélegasta gjaldmiðli hins þróaða heims.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.9.2013 - 21:20 - FB ummæli ()

Einkaneyslan er of lítil

Við hrun krónunnar sem hófst í byrjun árs 2008 og náði hámarki með hruni bankanna rýrnaði kaupmáttur Íslendinga meira en nokkru sinni áður á síðustu 50 árum.

Þetta var met í kjaraskerðingu heimila í Íslandssögunni og einnig mesta kjaraskerðingin sem varð í kreppunni í Evrópu frá 2008 til 2010. Það má vera að Grikkir og Kýpurbúar séu að ná okkur núna í kjaraskerðingu. Kreppan þar hefur dregist meira á langinn en á Íslandi.

Þessari kjaraskerðingu fylgdi mesti samdráttur einkaneyslu heimilanna frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun einkaneyslunnar frá 1960. Þar kemur í ljós hversu stór samdrátturinn var á árunum 2008 og 2009, í samanburði við fyrri kreppur eða samdráttarskeið.

Slide1

Á árinu 2011 jókst kaupmáttur launa nokkuð í kjölfar kjarasamninga. Það jók einkaneysluna að raunvirði, en þó ekki nema 2,7%. Hún jókst lítillega til viðbótar á árinu 2012 en virðist standa í stað á yfirstandandi ári. Við eigum því eftir að vinna upp mikið tap í einkaneyslu og kaupmætti.

Einkaneyslan er nefnilega háð kaupmætti heimilanna.

Hægagangurinn í efnahagslífinu nú er að miklu leyti vegna lélegs kaupmáttar og lítillar eftirspurnar frá heimilunum. Tækifæri atvinnulífsins til vaxtar eru þess vegna of lítil.

Heimilin þurfa kaupmáttarhækkun. Atvinnulífið þarf líka á því að halda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.9.2013 - 13:34 - FB ummæli ()

Opin eða lokuð samfélög – alþjóðlegur samanburður

Einn af mikilvægustu eiginleikum samfélaga er í hve miklum mæli þau gera þegnum sínum kleift að vinna sig upp og komast til bjargálna – ekki síst fyrir þá sem eru uppaldir í lægri stéttum samfélagsins.

Opin samfélög gera þetta í miklum mæli, en lokuð samfélög eru með stéttaskiptingu sem leyfir slíkt í minni mæli.

Opin samfélög eru oftar “verðleikasamfélög”, sem leyfa einstaklingum að njóta eigin hæfni og dugnaðar. Lokuð samfélög eru oftar “forréttindasamfélög”.

Þetta er það sem “ameríski draumurinn” snérist um.

Á nítjándi öld og langt fram eftir þeirri tuttugustu litu menn til Bandaríkjanna sem draumalands, þar sem auðveldara var fyrir venjulegt fólk að komast áfram en í gömlu Evrópu, og enn frekar en í öðrum heimshlutum.

Nú á dögum er þetta mikið breytt. Bandaríkin og önnur vestræn samfélög eru auðvitað enn rík og þróuð, en þar eru þó víða neikvæðar horfur varðandi möguleika á að vinna sig upp þjóðfélagsstigann.

Hér að neðan er mynd er sýnir mat íbúa (18 ára og eldri) í 38 löndum jarðarinnar á því hvort þau hafi færst upp eða niður þjóðfélagsstigann, miðað við forendra sína. Þetta er sem sagt huglægt mat íbúanna sjálfra, að meðaltali, byggt á þeirra eigin reynslu af lífshlaupi sínu.

Það er ekki eina leiðin til að meta hreyfanleika og opnun samfélaga, en mikilvægur mælikvarði engu að síður, því það sem fólki finnst um þetta skiptir miklu máli. Aðrar algengar leiðir til að meta hreyfanleika eru að bera saman starfsstétt eða tekjur foreldra og afkomenda þeirra.

Hér er mat íbúanna á opnun og lokun samfélaga þeirra. Gögnin koma úr alþjóðlegum sambærilegum könnunum sem gerðar voru árið 2009. Íslensku gagnanna var aflað af Jóni Gunnari Bernburg prófessor við HÍ og Sigrúnu Ólafsdóttur félagsfræðingi við Boston háskóla.

Slide1

Mat íbúa 38 landa á eigin hreyfanleika upp eða niður þjóðfélagsstigann, miðað við foreldra þeirra. (Gögn frá ISSP, kynnt af dönskum félagsfræðingi, Christian Albrecht Larsen, á alþjóðlegri ráðstefnu í Amsterdam í sumar).

 

Algengast er að fólk skynji hreyfanleika uppávið í samfélagi sínu.

Af þessum 38 samfélögum eru 27 þar sem fleirum finnst að þeir hafi færst uppávið, samanborið við foreldra sína. Japönum finnst þeir flestir standa í stað (eru nálægt 0 á myndinni) og í 10 löndum er algengara að fólk skynji sig hafa færst niðurávið, miðað við foreldra sína.

 

Örastar framfarir í Kína

Kína er mesta land tækifæranna núna, þ.e. í örustum vexti og framförum, sem staðið hafa frá um 1980. Kýpur var einnig í slíkri stöðu fram að kreppu, er þeir hrundu illa og standa í dag frammi fyrir miklum vanda, meiri en Íslendingar.

Að vissu leyti er auðveldast fyrir minna þróuð lönd sem komin eru á mikið flug framávið að koma vel út úr svona mælingu. Íbúarnir þar skynja mikla breytingu á hag og afkomu sinni, samanborið við foreldrana. Það er erfiðara að sama skapi fyrir ríku og hagsælu samfélögin að koma vel út í slíkum mælingum.

 

Noregur rís hæst í hópi hagsælla þjóða

Ef við lítum eingöngu á hagsælu vestrænu samfélögin, þá eru Noregur og Finnland þau lönd sem standa út úr, raunar í 3ja og 4ða sæti yfir allar þjóðirnar, sem er afar góð útkoma. Nýja Sjáland og Ástralía koma svo í humátt á eftir. Þetta eru mestu lönd tækifæranna um þessar mundir (Kanada vantar, en það kæmi væntanlega vel út).

Þá eru næst Frakkland, Sviss, Danmörk, Austurríki, Svíþjóð og Þýskaland. Síðan kemur Bretland í sextánda sæti

Norrænu þjóðirnar koma vel út úr þessum samanburði sem lönd mikilla tækifæra, en Svíþjóð og Ísland eru neðst í þeim hópi.

 

Ísland er neðst norrænu þjóðanna

Á eftir Bretum kemur Ísland í sautjánda sæti. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að könnunin er gerð hér á árinu 2009-10, er við vorum í sárum eftir hrunið. Það hefur væntanlega þrýst okkur neðar en í venjulegra árferði.

Við erum sem sagt á róli með Bretlandi og Spáni og talsvert neðar en frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

 

Ameríski draumurinn er dauður

Bandaríkin eru svo í neikvæða neðri hluta myndarinnar, þar sem almenningur skynjar oftar afturför samanborið við stöðu foreldranna. Þessi útkoma fyrir Bandaríkin er í samræmi við það sem nýlegar rannsóknir á hreyfanleika milli starfsstétta og tekjuhópa hafa sýnt.

Bandaríkin eru auðvitað enn ríkt samfélag og háþróað að mörgu leyti, en mikil og vaxandi misskipting auðs og tekna gerir að verkum að almenningur nýtur þjóðarauðsins og tækifæra ekki í nægilega ríkum mæli. Of mikið rennur til yfirstéttarinnar.

Þannig má segja að ójöfnuðurinn í Bandaríkjunum sé að skemma ameríska drauminn fyrir of stóran hluta íbúanna. Ójöfnuðurinn tók að aukast með vaxandi frjálshyggjuáhrifum upp úr 1980.

 

Fyrrum Sovétríki standa illa

Aðrar þjóðir sem eru á slóðum Bandaríkjamanna eru Filippseyjar, Króatía, Rússland og Tyrkland, auk nokkurra þjóða sem áður tilheyrðu Sovétkerfinu. Neðst eru Lettland og Úkraína.

Algerlega ólík staða fyrrverandi Sovétríkja og Kína er sérstaklega athyglisverð. Umskiptin yfir í óheftan kapítalisma sem urðu í mörgum fyrrum ríkjum Sovétríkjanna hafa ekki skilað almenningi eins jákvæðum framförum og virðast nú eiga sér stað í Kína. Þar er ekki síst miklum ójöfnuði og spillingu í fyrrum Sovétríkjum um að kenna.

Í öllu fallir virðist Kína vera að skila efnahagsframförum sínum í bættum kjörum almennings, enda hefur millistéttin þar vaxið mjög ört á síðustu árum, þó enn sé langur vegur í að Kínverjar nái algengum kjörum vestrænna þjóða.

Stærsta drama þessarar sögu er þó sennilega hnignum ameríska draumsins.

————————————————

Skýringar: Í þessum könnunum var fólk beðið um að staðsetja sjálft sig í þjóðfélagsstiganum á kvarða frá 1 til 10 (1=lægsta þrep; 10=hæsta þrep eða stétt). Síðan var fólk beðið um að staðsetja foreldra sína á sama hátt. Þar með er komin staðsetning tveggja kynslóða í stéttastiganum. Niðurstaðan á myndinni hér að ofan er svo munur á staðsetningu foreldra og afkvæma þeirra. Þegar talan á myndinni er „+“ þá er stéttarstaða afkvæmanna hærri en staða foreldranna að meðaltali (þ.e. þau hafa fært sig upp stéttastigann m.v. foreldrana) og öfugt ef niðurstaðan er með mínus-tölu (þá hafa afkvæmin lægri stöðu en foreldrarnir). Ef enginn munur er á staðsetningu foreldra og afkvæma, eins og í Japan, er niðurstaðan núll. Niðurstöðurnar eru meðaltöl hverrar þjóðar og sýna þannig nettó útkomu. Þó þjóð fái mínus útkomu þá eru auðvitað einhverjir sem hafa færst uppávið, en þeir sem fóru niðurávið í viðkomandi samfélagi eru einfaldlega fleiri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar