Sunnudagur 11.8.2013 - 13:54 - FB ummæli ()

Hræsni og tvískinnungur á Evrópuvaktinni

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur farið mikinn gegn Evrópusambandsaðild Íslands á Evrópuvaktinni, sem Hannes Hólmsteinn og vinir hans reka.

Nú síðast fárast hann mikið yfir svokölluðum IPA styrkjum, sem ESB veitir umsóknarríkjum til stjórnsýsluumbóta samhliða umsóknarferli. Þetta hafa Styrmir og félagar hans í hirð Davíðs Oddssonar kallað “mútustyrki”. Styrmir segir að styrkirnir hafi verið veittir “til þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið”.

Nú hefur ESB hætt við veitingu frekari umbótastyrkja, eftir að stjórnvöld stöðvuðu aðildarviðræðurnar. Það er rökrétt að hálfu ESB, en margir virðast harma þá niðurstöðu.

Stöðvun styrkveitinganna sýnir hins vegar einmitt hið andstæða: styrkirnir eru tengdir aðildarumsóknarferlinu en ekki til að móta velvilja á Íslandi í garð ESB. Ef svo væri þá hefði ESB frekar aukið styrkina núna en að stöðva þá!

En Styrmir fer á kostum í tvískinnungi þegar hann tengir styrkveitingarnar við sjálfstæði þjóðarinnar. Hann segir:

“Það væri áreiðanlega tiltölulega auðvelt að reka ríkissjóð að verulegu leyti á styrkjum. Við gætum t.d. efnt til samkeppni um styrki okkur til handa. Kínverjar mundu áreiðanlega hafa mikinn áhuga á að veita okkur styrki. Þá munar ekkert um það. Það væru smápeningar fyrir þá. Og það er vel hugsanlegt að ef samkeppni hæfist á milli Evrópusambandsins og Kína um styrkveitingar til Íslands mundu einhverjir í Washington taka eftir því að gamall bandamaður þeirra norður í hafi væri enn til.

En í því fælist ákvörðun um að við treystum okkur ekki lengur til að vera sjálfstæð þjóð”, segir Styrmir

En bíddu nú við!

Þetta er einmitt það sem Sjálfstæðismenn gerðu alla tíð gagnvart Bandaríkjamönnum, frá stofnun lýðveldisins og þar til herinn fór úr landi. Þeir reyndu iðulega að selja Bandaríkjamönnum stuðning Íslands og tengsl. Og náðu miklum árangri í því.

Valur Ingimundarson prófessor í sagnfræði hefur ritað merkar bækur og greinar um tengsl Íslands og Bandaríkjanna á þessum tíma, sem segja þessa sögu með skýrum hætti.

 

Mútur frá Bandaríkjunum?

Mikill fégróði var tryggður frá Bandaríkjamönnum í gegnum hermangið og t.d. helmingaskiptaregluna sem Íslenskir aðalverktakar voru reknir eftir. Þannig má segja að efnahagsleg þýðing bandaríska hersins hafi verið umtalsverð frá um 1950 og næstu áratugina þar á eftir. Yfir tíma dróg úr umfanginu.

Þegar mest var skilaði vera bandaríska hersins umtalsverðum hluta útflutningstekna íslenska þjóðarbúsins, eða á annan tug prósenta.

Árið áður en herinn fór af landinu voru beinar tekjur af honum um 2,3% útflutningstekna, eða á þriðja tug milljarða (sjá hér). Þá voru umsvifin komin í lágmark. Auk beinna tekna rak herinn mikilvæga starfsemi sem sparaði íslenskum stjórnvöldum umtalsverð útgjöld (t.d. í landvarnir, í rekstur Keflavíkurflugvallar, í sjúkraflug með þyrlum, o.m.fl.).

Það var heldur ekki talin nein ógn við sjálfstæði Íslands að Bandaríkjamenn tækju þátt í byggingarkostnaði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Miðað við tal andstæðinga ESB aðildar um IPA styrkina ættum við því að tala um “viðamiklar mútur “frá Bandaríkjunum í tengslum við okkar vestrænu samvinnu!

En Styrmir og Sjálfstæðismenn almennt höfðu ekki áhyggjur af sjálfstæði þjóðarinnar þegar bandarískt fé streymdi inn í stríðum straumum og skipti umtalsverðu máli í bókhaldi ríkissjóðs. Það gera IPS styrkirnir frá ESB hins vegar ekki.

Menn muna svo auðvitað að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson settu Ísland á lista “hinna viljugu þjóða” sem réðust inn í Írak, í þeirri von að Bandaríkjamenn myndu í staðinn halda hernum og björgunarþyrlunum lengur hér á landi. Þau “viðskipti með utanríkispólitík” brugðust hins vegar – kaninn vildi ekki borga.

Þegar bankarnir stefndu í hrun reyndi Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, að fá bandaríska seðlabankan til að lána íslenskum stjórnvöldum gríðarlegt fé til að bjarga bönkunum. Bandaríski seðlabankastjórinn sagði það ekki duga til og benti Davíð á neyðaraðstoð AGS. Davíð hafnaði því og reyndi næst við Rússa!

Slíkt ofurlán, ef veitt hefði verið, hefði ekki dugað og féð að öllum líkindum glatast í hruni, en áfram verið skuld íslenska ríkisins við Bandaríkin. Skuldastabbi okkar vegna frjálshyggjuhrunsins hefði orðið mun stærri en þó varð.

Við vitum nú að slíka skuld hefði sennilega aldrei verið hægt að greiða til baka, en hvað hefði tilkoma hennar gert við sjálfstæði landsins?

IPA styrkirnir eru bara lítið brot af fjárstreyminu sem var frá Bandaríkjunum til Íslands á meðan bandaríski herinn var hér á landi, jafnvel undir lokin.

Ég er enginn sérstakur talsmaður þess að íslenska þjóðarbúið sé rekið á erlendum styrkjum.

En þegar talsmenn vestrænnar samvinnu, sem aldrei sáu neina ógn við sjálfstæði landsins af gríðarlegu efnahagslegu og pólitísku hlutverki Bandaríkjanna hér á landi, fara offari yfir smápeningum sem ESB veitir ríkjum sem sækja um aðild í umbótastyrki, þá finnst mér tvískinnungurinn keyra um þverbak.

Og þá eigum við alveg eftir að nefna hlut hræsninnar í málinu öllu.

Ágætur Sjálfstæðismaður sagði við mig um daginn, að allt tal Davíðs, Styrmis og félaga um Evrópusambandið væri til að beina athygli landsmanna frá hruninu, sem þeir báru mesta ábyrgð á. Sennilega hefðu þeir ekki svo mikið við ESB að athuga, þegar öllu væri á botninn hvolft.

Tvískinnungur og óheilindi í málflutningi þeirra um ESB er í samræmi við það.

 

Síðasti pistill: Samanburður á fjölda opinberra starfsmanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.8.2013 - 11:00 - FB ummæli ()

Samanburður á fjölda opinberra starfsmanna

Menn fara oft mikinn þegar rætt er um “ríkisbáknið” og opinbera starfsmenn. Þeir sem eru á hægri væng stjórnmálanna vilja margir fækka opinberum starfsmönnum stórlega. Aðrir kunna að meta opinbera starfsemi á sviði velferðar, heilbrigðismála og menntunar, auk öryggisgæslu og stjórnsýslu.

Sumir virðast binda miklar vonir við að núverandi stjórnvöld muni skera mikið niður í opinbera geiranum, til viðbótar því sem þegar hefur verið gert eftir hrun.

Í þessari umræðu er oft farið óvarlega með staðreyndir. Það er því gagnlegt að freista þess að bera saman ábyggilegar tölur milli landa um fjölda opinberra starfsmanna (hjá ríki, sveitarfélögum og opinberum stofnunum eða fyrirtækjum). Slíkan samanburð má finna á myndinni hér að neðan, fyrir árin 2000 og 2008.

Opinberir starfsmenn 2000 og 2008

Opinberir starfsmenn alls sem hlutfall mannafla. (Heimildir: OECD og fjármálaráðuneytið)

Hér má sjá að hlutfall oinberra starfsmanna (í fullum störfum og hlutastörfum samanlagt) er um 20% á Íslandi og er það sjötta hæsta hlutfallið í OECD-ríkjunum. Margir eru í hlutastörfum í opinbera geiranum hér á landi.

Við komum næst á eftir norrænu velferðarríkjunum (Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi), ásamt Frakklandi. Frændþjóðir okkar eru með frá um 23% til 29%. Þar eru umtalsvert fleiri opinberir starfsmenn en hér.

Opinberi geirinn á Íslandi er hins vegar ódýrari en í mörgum öðrum OECD-ríkjum, því við erum mun neðar á listanum ef opinber útgjöld eru borin saman. Þar erum við í 17. sæti (sjá hér). Þetta bendir til að laun opinberra starfsmanna séu frekar lág hér á landi m.v. grannríkin.

Stærð velferðarþjónustunnar skiptir miklu máli fyrir fjölda opinberra starfsmanna. Norrænu velferðarsamfélögin eru farsælustu samfélög heimsins með bestu lífsgæðin fyrir almenning. Það er því enginn löstur að líkjast þeim.

Meðaltal OECD-ríkjanna er um 15% og hefur það lítið breyst frá 2000 til 2008. Bandaríkin eru rétt fyrir neðan meðaltalið með 14,6% (mest hjá sveitarfélögum/fylkjum).

Ísland var með um 17,9% vinnuaflsins í opinberum störfum árið 2000 og hækkaði það í 20,4% til 2008. Það er meiri fjölgun en í nokkru öðru OECD-ríki á sama tíma.

Frá 2008 til 2010 fækkaði stöðugildum opinberra starfsmanna í heild hins vegar um rúmlega 6% og starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu einni og sér fækkaði um nærri 20%. Óvíst er um þróun fjölda starfsmanna sveitarfélaga á þeim tíma.

Það voru því hægri stjórnir sem stækkuðu „báknið“ meira hér en annars staðar frá 2000 til 2008. Vinstri stjórnin dróg það síðan saman á kreppuárunum.

Helsta leiðin til að fækka opinberum starfsmönnum svo máli skipti er að færa rekstur á sviði heilbrigðisþjónustu eða menntunar og velferðar yfir í einkageirann.

Reynslan af einkavæðingu er hins vegar skelfileg á Íslandi og óvíst að almenningur vilji hverfa frá leið norræna velferðarsamfélagsins.

Það verður því varla auðvelt að stórfækka opinberum starfsmönnum – en það væri hægt að halda aftur af fjölgun þeirra á næstu árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.8.2013 - 12:47 - FB ummæli ()

Koch bræður – svona móta auðmenn samfélagið

Bandarískir auðmenn hafa lengi verið áhrifamiklir í mótun bandaríska samfélagsins. Í seinni tíð hafa auðmenn orðið ríkari en áður og möguleikar þeirra til að hafa áhrif því enn meiri.

Það er og nýtt að auðmenn, einkum í Bandaríkjunum, eru orðnir ákveðnari og ósvífnari en áður í að beita auði sínum til að hafa áhrif og skara eld að sinni eigin köku. Þess vegna eykst ójöfnuðurinn sífellt.

Hugmyndafræðin sem þessir auðmenn beita fyrir sig er nýfrjálshyggjan, sem boðar pólitík sem er einkum í þágu auðmanna, atvinnurekenda og fjárfesta, en gegn hagsmunum milli og lægri stétta.

Þeir fara gegn ríkisvaldi og lýðræði en eru með markaði og auðhyggju.

Koch bræður (David og Charles ) eru gjarnan teknir sem dæmi um það versta í fari auðmanna í Bandaríkjunum, en þeir eru olíubarónar sem beita sér meira á vettvangi stjórnmála en flestir aðrir. Fyrirtækjasamsteypa þeirra (Koch Industries) er eitt af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna.

Koch bræður nota gríðarlegan auð sinn til að styrkja einstaka stjórnmálamenn, flokka, fjölmiðla og áróðursveitur (Cato Institute, Heritage Foundation, Americans for Prosperity o.fl.). Allt í þágu þess að móta samfélagið að eigin hugmyndafræði.

Þeir reyna að koma á fót auðræði (plutocracy) í stað fulltrúalýðræðisins.

Meðal baráttumála þeirra eru eftirfarandi:

  • Minna og veikara ríkisvald
  • Lækkun skatta á fyrirtæki og auðmenn
  • Minna opinbert eftirlit og aðhald með einkarekstri, t.d í umhverfisvernd og fjármálum
  • Einkavæðing velferðarríkisins (einkatryggingar komi í stað almannatrygginga)
  • Einkavæðing opinbera skólakerfisins
  • Vilja aðgreiningu kynþátta í menntakerfinu
  • Eru andvígir ríkisreknu heilbrigðiskerfi
  • Reka áróðursveitur (Cato; Heritage, AFP o.fl.)
  • Vilja auka áhrif frjálshyggju í háskólaumhverfinu (með kostun og styrkjum)
  • Vilja auka fjölmiðlavald sitt
  • Grafa undan launþegafélögum

Þegar hafa Koch bræður getað stöðvað birtingu heimildamynda sem þeir telja neikvæðar fyrir sig, t.d. Citizen Koch og Park Avenue – Money, Power and the American Dream. Það gerðu þeir með því að beita kostunarvaldi sínu.

Þessi peningaöfl eru beintengd við hægri róttæklinga á Íslandi, ekki síst Cato Institute, en þangað hefur Hannes Hólmsteinn sótt sitthvað á síðustu árum og fyrir skömmu var byrjað á því að senda unga íslenska blaðamenn á námskeið hjá Cato áróðursveitunni.

Nýlega hafa borist fréttir af því að Koch bræður hyggist leggja undir sig áhrifamikla fjölmiðla í Bandaríkjunum.

Þeir eru þegar byrjaðir að undirbúa næstu forsetakosningar og segjast ætla að verja fé sínu vel á vettvangi stórnmálanna.

Hér má sjá ítarlega og mjög fróðlega heimildarmynd um stjórnmálastarfsemi Koch bræðra.

 

Síðasti pistill: Kostnaður Íslands af hruninu – samanburður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 5.8.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Kostnaður Íslands af hruninu – samanburður

Í nýlegri rannsókn á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lagt mat á kostnaðinn af fjármálakreppunni frá 2007 til 2009. Ísland er borið saman við helstu kreppulöndin (sjá hér).

Niðurstöðurnar eru að miklu leyti samhljóða niðurstöðum rannsókna Reinhart og Rogoff (2009) hvað varðar orsakir og einkenni fjármálakreppa eftir 1980, en höfundarnir grundvalla rannsókn sína á miklum gagnabanka um fjármálakreppur á tímabilinu 1970 til nútímans, sem þeir hafa byggt upp hjá AGS.

Algengt einkenni í aðdraganda fjármálakreppanna, sem höfundarnir Laeven og Valencia draga fram, er umtalsverð aukning skulda í einkageira, sem kom gjarnan í kjölfar aukins frelsis á fjármálamörkuðum (afreglunar, aukinna lausataka og nýmæla í starfsháttum, t.d. með aukinni skuldabréfavæðingu), samhliða auknu framboði lánsfjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Skuldasöfnunin var almennt mest hjá bönkum, heimilum eða fyrirtækjum. Á Íslandi voru það bankarnir og fyrirtækin sem söfnuðu langmestu skuldunum, sem á endanum keyrðu Ísland fram af bjargbrúninni (sjá hér).

 

Þríþætt mat á kostnaði af fjármálakreppunni

Höfundarnir leggja þríþætt mat á kostnað af fjármálakreppunni í helstu kreppulöndunum 2007 til 2009. Eftirfarandi eru mælikvarðarnir:

  • Beinn kostnaður við að endurreisa eða bjarga bankakerfinu (% af landsframleiðslu)
  • Aukning opinberra skulda (% af landsframleiðslu)
  • Töpuð framleiðsla (miðað við lengri tíma þróun, þ.e. leitni)

Á myndunum hér að neðan má sjá niðurstöðurnar um kostnað af fjármálakreppunni á Íslandi í samanburði við helstu kreppulöndin.

Ísland var með mestan beinan kostnað af endurreisn bankakerfisins og mesta aukningu opinberra skulda vegna hrunsins, en töpuð framleiðsla varð mun meiri á Írlandi og í Lettlandi en á Íslandi.

 

Beinn kostnaður af endurreisn fjármálakerfisins – mestur á Íslandi og í Hollandi:

Screen shot 2013-08-05 at 11.13.05 PM

 

Aukning opinberra skulda – langmest á Íslandi:

Screen shot 2013-08-05 at 11.13.26 PM

 

Töpuð framleiðsla – mest í Lettlandi og á Írlandi:

Screen shot 2013-08-05 at 11.13.45 PM

 

Inn í þetta mat vantar svo kostnað vegna kjaraskerðingar heimilanna og vegna vaxtagreiðslna af opinberum skuldum sem skattgreiðendur munu bera langt inn í framtíðina.

Kaupmáttarrýrnun heimilanna varð hvergi meiri en á Íslandi (sjá hér).

Það er því mikið í húfi að skuldalækkunin til heimilanna sem Framsóknarflokkurinn boðaði nái fram að ganga sem fyrst. Einnig væri gott ef afskriftir krónueigna erlendra kröfuhafa dygðu að auki til að lækka opinberar skuldir um nokkur hundruð milljarða króna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 3.8.2013 - 21:55 - FB ummæli ()

Neyðarkall úr heilbrigðisgeira

Í góðærinu eftir aldamótin var skorið niður í heilbrigðiskerfinu. Svo kom hrunið og enn meira var skorið niður, raunar alveg inn að beini.

Málsmetandi og leiðandi læknar, eins og prófessorarnir Einar Stefánsson og Sigurður Guðmundsson, senda nú út neyðarkall og vara við hættu á vítahring sem geti skaðað heilbrigðisþjónustuna varanlega.

Sífellt fleiri læknar tala orðið tæpitungulaust um þessa alvarlegu stöðu (sjá t.d. hér).

Þetta er ekkert grín, heldur dauðans alvara.

Fyrri stjórn áformaði að hefja byggingu nýs Landsspítala og var byrjuð að veita meira fé til tækjakaupa. Hún hóf einnig kjarabætur meðal starfsliðs heilbrigðisþjónustunnar.

Nú er hins vegar talað um enn frekari niðurskurð í opinbera kerfinu og breytta forgangsröðun í heilbrigðismálunum – jafnvel aukna einkavæðingu.

Það sem er að í heilbrigðisþjónustunni er m.a. þetta:

  • Húsakostur Landsspítalans og tækjabúnaður er úreltur og í vaxandi mæli illa bjóðandi sjúklingum og starfsfólki.
  • Starfsfólk flýr í hlutastörf eða varanlega til hinna Norðurlandanna, ekki síst Noregs. Nýútskrifað fagfólk í læknisfræði og fleiri greinum kýs í auknum mæli að koma ekki til starfa á Íslandi.
  • Íslenski heilbrigðisgeirinn er ekki samkeppnisfær í launakjörum, hvorki fyrir lækna né aðra sérfræðinga.
  • Heilsugæslan, sem á að vera fyrsti viðkomustaður og stýra aðgengi að dýrum sérfræðilæknum (og þar með auka hagkvæmni verulega), er í langtíma hnignun og hefur þegar látið verulega á sjá.

Þetta eru grafalvarleg mál – öll sömul.

Þetta ástand kallar á þjóðarátak til að bregðast við áður en óbætanlegt tjón verður á gæðum heilbrigðisþjónustunnar, með vítahring samdráttar og niðurskurðar og frekari flótta ómetanlegs fagfólks.

Breytt forgangsröðun og/eða niðurskurður eru engin boðleg úrræði. Það þarf endurnýjun og umbætur. Framsókn en ekki afturför. Einkarekstur er almennt ekki ódýrari en ríkisrekstur, þó ástæðulaust sé að útiloka hann með öllu. Stórtæk einkavæðing væri að fara úr öskunni í eldinn hvað kostnað snertir.

Í þessu samhengi veldur miklum vonbrigðum að stjórnvöld hafi afsalað sér réttmætri hækkun veiðigjaldsins og hóflegri hækkun virðisaukaskatts á gistingu erlendra ferðamanna – auk þess að fella niður auðlegðarskatt á þá sem stórgræddu á bóluárunum 2003 til 2007.

Ef þessir skattstofnar væru nú nýttir eins og til stóð væri hægt að ráðast í verulegar umbætur í heilbrigðismálunum, þar með talið að hefja byggingu hins nýja Landsspítala (sem sparar rekstrarkostnað til lengri tíma).

Bygging Landsspítalans væri þar að auki kærkomin örvun fyrir byggingariðnaðinn, sem myndi stuðla að auknum hagvexti og minna atvinnuleysi.

Það er líka sparnaður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.8.2013 - 16:23 - FB ummæli ()

USA – þeir ríku græða í kreppunni

OECD birti nýlega niðurstöður um þróun tekjuskiptingarinnar í aðildarríkjunum frá 2007 til 2010. Þar kom fram að í flestum löndum bitnaði kreppan meira á lægri og milli stéttum en hátekjufólki.

Á Íslandi var þetta öfugt.

rannsókn PEW stofnunarinnar á eignum í Bandaríkjunum sýnir að eignir ríkustu 7 prósenta heimilanna jukust um 28% frá 2009 til 2011, á meðan eignir hinna 93ja prósentanna minnkuðu um 4%.

Þeir ríku voru að græða meira en allir aðrir á uppsveiflunni fram að fjármálakreppunni – og þeir græða líka meira í kreppunni sjálfri.

Ójöfnuðurinn eykst sem sagt stöðugt í Bandaríkjunum.

Þessu var öfugt farið á Íslandi frá 2008 til 2011. Lægri tekjuhópum var hlíft meira en hærri tekjuhópum (sjá hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.7.2013 - 15:26 - FB ummæli ()

Vaxandi öfgar í Sjálfstæðisflokki

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eru nú á dögum helstu öfgamennirnir í íslenskum stjórnmálum. Fyrir margt löngu mátti segja það um þá sem voru lengst til vinstri, sósíalista og kommúnista.

Þó aukin frjálshyggjuáhrif hafi getið af sér stærsta bóluhagkerfi sögunnar og í kjölfarið stærsta hrun sögunnar er engan bilbug að finna á hægri róttæklingum á Íslandi.

Nú eru þeir komnir til valda og herða róðurinn gegn ríkisvaldi og lýðræði og vilja nota kreppuna sem tækifæri til að skera niður velferðarríkið, markaðsvæða og einkavæða og lækka skatta hjá ríkasta fólkinu – eins og fyrir hrun.

Ríkisútvarpið er líka í fókus og nú vilja margir þeirra “selja” það einkavinum, svo hægt verði að nota það betur í þágu Sjálfstæðisflokksins, eins og Moggann.

Heilbrigðiskerfið virðist eiga að færa í átt einkavæðingar og niðurskurður velferðarríkisins er undirbúinn (sjá hér).

Ungir blaðamenn af Mogganum eru nú sendir á sumarskóla hjá öfgaveitum hægri manna í Bandaríkjunum (CATO Institute) og fleiri sagðir munu fylgja í kjölfarið.

Reynt er með þessu að normalísera hægri öfgana í bandarískum stjórnmálum inn í íslensk stjórnmál (sjá hér).

Framsóknarmenn verða að passa sig á því að láta ekki Sjálfstæðismenn draga sig ofan í þetta fen í stjórnarsamstarfinu. Það er mikilsvert að viðhalda norrænu samfélagsgerðinni hér á Íslandi áfram.

Norrænu velferðarríkin eru jú farsælustu samfélög jarðarinnar á flestum sviðum.

Bandaríkin, afspengi hægri frjálshyggjunnar, eru hins vegar í alvarlegri afturför – fyrir alla aðra en ríkustu auðmennina.

Framsókn hefur mikilvægu sögulegu hlutverki að gegna. Hún þarf að vera mótvægi gegn öfgafrjálshyggjunni í Sjálfstæðisflokknum og viðhalda og endurnýja norræna velferðarkerfið á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.7.2013 - 00:04 - FB ummæli ()

Nýsköpun eða gamaldags stóriðja?

Viðskiptblaðið er með viðtal við ungan athyglisverðan nýsköpunarmann, Davíð Guðjónsson, framkvæmdastjóri Handpoint, um nýsköpun á Íslandi. Vitnisburður hans um framfarir á nýsköpunarsviðinu er fróðlegur:

  • „Það er himinn og haf á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi í dag og frá því þegar við fórum á stað árið 1999. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og frábært að sjá hversu margt hefur gerst á Íslandi”, segir Davíð.
  • „Tækniþróunarsjóður RANNÍS og skattafrádráttur vegna rannsókna- og þróunarverkefna hafa gert rosalega mikið fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi sem og þessi vakning sem hefur orðið á mikilvægi sprotafyrirtækja fyrir hagkerfið. Það er líka að verða til meiri þekking á sviðinu en það vantar þó ennþá þekkingu og stuðningsumhverfi fyrir fyrirtæki sem eru komin lengra, með vörur og rekstur en eru að basla við að koma sér yfir hafið og ná fótfestu á stærri markaði.“

Ég sat í Vísinda- og tækniráði síðustu þrjú árin og veit að þetta er rétt lýsing. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði góðan skilning á mikilvægi nýsköpunar, rannsóknum og þróun og beitti sér fyrir mikilvægum umbótum á því sviði, þó fjárhagur ríkisins væri í rúst.

Það var líka hluti af fjárfestingaráætlun vinstri stjórnarinnar að gera enn betur á þessu sviði 2013 til 2015, meðal annars að tvöfalda framlög til Nýsköpunarsjóðs og Vísindasjóðs. Það átti meðal annars að fjármagna með tekjum af veiðigjaldinu nýja.

Nú hefur það verið lækkað umtalsvert og því ríkir óvissa um frekari framkvæmdir á þessu mikilvæga sviði.

Davíð Guðjónsson segir líka að ofuráhersla á stóriðju sé á kostnað nýsköpunar:

  • „En þetta er líka spurning um forgangsröðun. Í Evrópu allri og víðar keppast ríkisstjórnir við að hlúa að nýsköpunarfyrirtækjum því þau átta sig á því að þau skapa flestum vinnu og eru grundvöllur hagvaxtar í alþjóðavæðingunni þar sem þekking skiptir mun meira máli en auðlindir og ódýrt vinnuafl. Á Íslandi finnst manni oft hugsunin vera sú að stóriðja eigi að tryggja Íslandi velgengni inn í framtíðina og öll áhersla eigi að vera á vinnslu auðlinda frekar en uppbyggingu þekkingarverðmæta í bland,“ segir Davíð.

Hollráð ungra frumkvöðla, eins og Davíðs Guðjónssonar, ættu að vera leiðarljós stefnumótunar stjórnvalda.

Nýsköpun er lykilorð framfara nú dögum – ekki stóriðjuframleiðsla á hrávöru, eins og áli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 30.7.2013 - 10:54 - FB ummæli ()

Hvort þarf að kæla hagkerfið?

Fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson segir í viðtali við RÚV að “þörf sé á sameiginlegu átaki margra til að kæla hagkerfið”.

Fyrir þremur mánuðum var boðskapur Bjarna og félaga að hagkerfið væri botnfrosið undir hinni skelfilegu vinstri stjórn og hagvöxtur því ónógur. Þörf væri á hitun og örvun.

Staðan er í grundvallaratriðum sú sama í dag. Hagvöxtur er slappur, ekki sérstaklega vegna vinstri stjórnarinnar (enda hún farin frá) heldur vegan mikilla skulda fyrirtækja, heimila og ríkisins og lítillar fjárfestingar.

Einnig skapar lítill kaupmáttur almennings of litla eftirspurn sem heldur öllu í hægagangi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra virðist því í mótsögn við þann Bjarna Benediktsson sem stýrði kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins og sem svo skrifaði undir stjórnarsáttmálann.

Ég held það sé meiri þörf á hitun og örvun hagkerfisins nú en kælingu.

Hófleg en örugg kaupmáttaraukning, með miklu verðbólguaðhaldi, á að vera hluti slíks átaks – sem og skuldaniðurfelling Framsóknar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.7.2013 - 21:26 - FB ummæli ()

Hvers vegna kaupið má hækka í haust

Þessa dagana fara talsmenn atvinnurekenda mikinn og vara við kauphækkunum.

Þorsteinn Pálsson, Styrmir Gunnarsson og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hamra allir á sömu þulunni. Fleiri taka undir.

Boðskapur þessara aðila er sá, að engin innistæða sé í atvinnulífinu fyrir kauphækkunum. Engin innistæða.

Þeir hafa hins vegar rangt fyrir sér. Hvers vegna?

Reynslan frá kreppuárinu 2011 sýnir það. Þá jókst kaupmáttur umtalsvert í mjög erfiðu árferði og hagvöxtur fór á fullt.

Árið 2011 voru gerðir kjarasamningar um vorið upp á um 6% nafnlaunahækkun. Það skilaði sér í 3,7% hækkun kaupmáttar á árinu 2011 (frá des. 2010 til des. 2011). Seðlabankinn og atvinnurekendur sögðu þetta of mikla kauphækkun. En þeir höfðu rangt fyrir sér.

Kaupmáttur hafði reyndar einnig aukist vegna kjarasamninga vorið 2010 sem skilaði 2% aukningu kaupmáttar launa það árið. Frá og með þessum kjarasamningum tók hagvöxturinn að glæðast, þ.e. á seinnig hluta 2010 og allt árið 2011. Þetta má sjá á myndinni sem hér fylgir.

Kaupmáttur og VLF til 2012

Myndin: Tengsl kaupmáttaraukningar og hagvaxtar 2007-2012.

Árið 2011 var hagvöxtur meiri á Íslandi en í nær öllum vestrænum ríkjum (2,6%), eftir að kaupmáttur launa jókst um 2% árið 2010 og önnur 3,7% á árinu 2011.

Síðan hægði verulega á kaupmáttaraukningunni 2012 og 2013 – og viti menn, hagvöxturinn stórminnkaði einnig á þeim tíma. Hagvöxtur er slappur áfram á þessu ári, ekki síst vegna of lélegs kaupmáttar.

Þá má spyrja: var einhver innistæða fyrir þessum kauphækkunum 2010 og sérstaklega 2011? Við vorum á botni kreppunnar vorið 2010, eftir hið skelfilega hrun. Samt voru þetta vel heppnaðar kauphækkanir.

Ástandir er betra núna 2013 en það var 2010 og 2011, þegar kaupmáttaraukningin hófst.

 

Kaupmáttaraukning > aukin eftirspurn > aukinn hagvöxtur

Staðreyndin er sú, að aukning kaupmáttar eykur eftirspurn neytenda og það skapar fyrirtækjunum tækifæri til framleiðsluaukningar. Hagvöxtur eykst. Þetta er í samræmi við klassíska keynesíska hagfræði.

Leiðin til að koma þjóðum upp úr doða kreppunnar er að auka eftirspurnina. Aukinn kaupmáttur almennings er vænleg leið til þess (með kauphækkunum og/eða skuldaniðurfellingu).

Raunar er þetta sama rökfræði og liggur á bak við hugmynd Framsóknar um skuldalækkun til heimilanna, sem á að geta komið hagvextinum á hærra stig, eins og Paul Krugman hefur fært rök fyrir.

Atvinnurekendur og málpípur þeirra sjá aldrei innistæðu fyrir kauphækkunum (nema til æðstu stjórnenda og eigenda). Aldrei. Við eigum því ekki að hlusta á þá.

Hóflegar en markvissar kauphækkanir sem skila auknum kaupmætti í kjarasamningunum í haust munu skila auknum hagvexti og framförum. Reynslan frá árinu 2011 sýnir að þetta er vel mögulegt.

Hins vegar er líka mikilvægt að fara samhliða í mjög kröftugt átak gegn verðhækkunum, eins og gert var samhliða þjóðarsáttinni 1990.

Þetta er rétta framfaraleiðin.

Leið atvinnurekenda er hins vegar sú, að festa þjóðina á lágum launum krepputímans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.7.2013 - 11:00 - FB ummæli ()

Köben og listin í Louisiana

Ef menn bregða sér til Köben er sniðugt að taka lestina til Louisiana nýlistasafnsins í Humlebæk, sem er aðeins hálftíma ferð frá miðborginni upp með strönd Sjálands.

Louisiana er frábært safn á skemmtilegum stað.

Þar er nú mjög athyglisverð yfirlitssýning um listaferil Yoko okkar Ono, Half-a-wind-show.

Yoko

Úti í garði er svo óskatré Yoko, en á það hengja menn frómar óskir sínar til handa mannkyni. Þær óskir verða svo fluttar til Reykjavíkur og munu verða hluti af hinu frábæra verki hennar Imagine Peace Tower í Viðey. Gaman að þessu!

Þar eru líka frumleg verk eftir Töru Donovan, bandaríska listakonu sem ekki hefur áður sýnt í Evrópu.

DSC_3396

Og ef menn verða á þessum slóðum í ágúst má hitta fyrir Einar Má Guðmundsson rithöfund, á bókamessu með öðrum stórrithöfundum.

DSC_3401 b

Svo er safnið auðvitað alltaf með úrval eigin verka til sýnis, sem eru líka mikið augnakonfekt, eins og t.d. þetta eftir Eric Fischl.

DSC_3356

Úr þessu öllu má gera ansi góðan dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.7.2013 - 11:32 - FB ummæli ()

Þjóðarsátt um að hækka bara hæstu launin?

Ritstjóri tímaritsins Frjálsrar verslunar fór mikinn í fjölmiðlum í gær. Þeir voru að birta árlegt tekjublað sitt með upplýsingum um launatekjur 3000 Íslendinga.

Skilaboðin sem hann greindi frá voru þau, að laun forstjóra, stjórnenda og sjómanna hafa hækkað talsvert. Samt ná tölur Frjálsrar verslunar ekki til fjármagnstekna sem eru stærsti hluti tekna hátekjufólks.

Almenningur situr hins vegar enn nálægt botni kreppunnar sem færði honum um 20% rýrnun kaupmáttar ráðstöfunartekna með hruni krónunnar og bankanna.

Ritstjórinn, Jón G. Hauksson, hafði ekki sérstakar áhyggjur af því að laun forstjóra væru mjög há (í viðtali á Bylgjunni), heldur hinu að almenningur færi að draga af því ályktanir um að hækka þyrfti laun í komandi kjarasamningum (í nóvember nk.).

Ef slíkt gerðist færi allt á versta veg, því ekki væri innistæða fyrir neinum launahækkunum (þó stjórnendur atvinnulífsins hafi þegar séð svigrúm til að hækka sín eigin laun).

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður bankaráðs MP-banka, skrifar svo í Fréttablaðið í dag um þessa „hættu“ á kauphækkunum. Hann kennir að vísu ekki hátekjufólkinu um, heldur fyrrverandi velferðarráðherra og Kjararáði.

Þorsteinn vill að ríkisstjórnin kalli saman nýtt sumarþing og setji neyðarlög um að afnema hækkanir toppanna í opinbera kerfinu (sem fylgja þó bara hóflega í kjölfar hækkana hátekjumanna í einkageiranum), til að forða því að almenningur láti sér detta í hug að sækja kjarabætur í kjarasamningum í haust.

Velferðin mun hrynja ef kaupið verður hækkað, segir Þorsteinn Pálsson.

Það byggir Þorsteinn á því, að atvinnurekendur vilja yfirleitt frekar fleyta öllum kostnaðarhækkunum út í verðlagið en að leita hagræðingar eða minnka arðgreiðslur sínar ef kaup almennings hækkar. Það ættu þeir þó að gera, einkum að auka hagræðingu og framleiðni.

Þjóðina vantar einmitt kauphækkanir og framleiðniaukningu.

Margir fulltrúar yfirstéttarinnar vilja nú fá nýja þjóðarsátt sem aftrar því hins vegar að laun hækki. Þeir virðast vilja festa þjóðina á kjarabotni kreppunnar – önnur fjögur ár til viðbótar.

Þessir hátekjumenn hafa ekki beinlínis áhyggjur af hækkun launa í eigin stétt, heldur því að almenningur láti sér detta í hug að hans bíði samsvarandi kauphækkun í haust.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.7.2013 - 11:40 - FB ummæli ()

Skuldastaða hins opinbera 2013 – samanburður

Um daginn sýndi ég stöðu ríkisfjármála í vestrænum ríkjum m.v. árið 2012. Þar kom fram að Íslandi hefur gengið betur en mörgum kreppuþjóðum að ná niður halla á ríkisbúskapnum og fer nálægt því að stöðva skuldasöfnunina á þessu ári.

En afleiðingar hrunsins voru miklar og verða með okkur inn í framtíðina. Ein vísbending um alvarleika þeirra eru heildarskuldir hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga).

Þó skellurinn sem hrunið veitti Íslendingum hafi verið hlutfallslega stærri en hjá öðrum þjóðum erum við ekki skuldugust vestrænna ríkja – en mjög skuldug samt. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan (heimildir Eurostat og OECD).

Skuldastaða hins opinbera 2013 q1

Ísland er sjötta skuldugasta vestræna ríkið, næst á eftir Bandaríkjunum. Írland, Portúgal, Ítalía og Grikkand skulda mun meira en Íslendingar.

Sumar þjóðanna sem koma næst á eftir okkur eru með vaxandi skuldir, t.d. Kýpur, Bretland, Spánn og Frakkland.

Skuldirnar fóru hæst í 119% af landsframleiðslu á Íslandi og eru því minni nú. Vöxtur landsframleiðslu hefur verið meiri á Íslandi en í flestum vestrænum ríkjum á síðustu tveimur árum og það hefur lagað skuldastöðuna.

Þetta eru brúttóskuldir (á móti koma eignir, t.d. í of stórum gjaldeyrisvarasjóði o.s.frv.). Skuldir umfram eignir hins opinbera (nettóskuldir) eru um 60%, sem er ekki svo slæmt miðað við aðrar þjóðir, né miðað við fyrri áratugi á Íslandi.

Þessar skuldir og mikill vaxtakostnaður vegna þeirra eru þó afar þungur baggi og mikilvægt að ná honum niður og stækka þjóðarkökuna.

Miðað við þróun kreppunnar í öðrum vestrænum ríkjum er viðbúið að fjölgi í hópi þeirra ríkja sem skulda meira en Ísland.

Góður hagvöxtur og afgangur af ríkisbúskapnum eru mikilvægustu meðulin við of háum skuldum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.7.2013 - 17:00 - FB ummæli ()

Á ríkið að reka banka?

Síbylja viðskiptafræðinga og hægri stjórnmálamanna er alltaf sú, að ríkið eigi ekki að gera hitt eða þetta – heldur einkaaðilar. Það sé alltaf betra.

Í dag tjáðu greiningarmenn Landsbankans sig um að rétt væri að einkavæða eignir ríkisins í bönkunum, einkum í Landsbankanum. “Það er ekki hlutverk ríkisins að reka banka”, segja hinir miklu spekingar!

En hver er dómur reynslunnar?

Ríkið átti og rak Landsbankann frá 1886 til 2003, eða í 117 ár, án meiriháttar áfalla – og oft með ágætum hagnaði.

Eftir einkavæðingu til hinna bestu manna sem þá þótti völ á, tók það aðeins um 5 ár fyrir einkaaðilana að reka bankakerfið í heild í þrot! Og ekkert smá þrot, því gjaldþrot íslensku bankanna voru með þeim stærstu í heimssögunni.

Við vissum eftir hrun hversu misheppnuð þessi einkavæðing var. Í dag var svo sagt frá nýrri rannsókn á rekstri bankanna sem sýnir að rekstur venjulegrar bankaþjónustu þeirra stórversnaði eftir einkavæðinguna!

Ríkið gat rekið banka í 117 ár og byggt upp ágætt lánstraust erlendis en það tók einkaaðilana aðeins 5 ár að koma öllu á hausinn – og draga þjóðina sjálfa ofaní svaðið með sér.

Almenningur ber byrðar af þessum einkarekstri bankanna langt inn í framtíðina.

Það sér hver maður af þessu, að auðvitað á ríkið ekki að reka banka!!!

Að öllu gríni slepptu, tel ég þrátt fyrir allt að til greina komi að selja hluta af eignum ríkisins í bönkunum, til að lækka skuldir. En ríkið verður augljóslega að hafa mikil afskipti af bankarekstri í framtíðinni, ekki síst með öflugu eftirliti og aðhaldi – og einhverju eignarhaldi.

Annað væri heimska af verstu gerð.

Bitur reynsla af algjörum einkarekstri bankanna kennir okkur þá lexíu – ef við erum yfirleitt fær um að læra eitthvað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.7.2013 - 15:31 - FB ummæli ()

Hrunið – Styrmir fylgist ekki með!

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í bloggi í gær að hægri menn séu að taka forystuna í umræðu um orsakir hrunsins.

Það er verulega ofsagt – og satt best að segja nokkuð spaugileg yfirlýsing.

Styrmir nefnir tvennt þessu til sönnunar. Leiðara Davíðs Oddssonar um málið í Mogganum í gær og sundurlausan fyrirlestur sem Hannes Hólmsteinn hélt fyrr á þessu ári, í tilefni af sextugsafmæli sínu.

Hvoru tveggja er léttvægt og því marki brennt að fría frjálshyggjustefnuna og stjórnartíma Davíðs, bæði í ríkisstjórnum og Seðlabanka, af ábyrgð á því sem gerðist hér á landi frá aldamótum til hruns.

Ekki einasta eru þetta léttvæg framlög heldur horfir Styrmir framhjá, eða veit ekki af, umtalsverðum fræðilegum framlögum til greiningar á orsökum kreppunnar.

Preludes to Iceland crisisTil dæmis mætti nefna bók sem Robert Z. Aliber og Gylfi Zoega gáfu út árið 2011, Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Þar eru birt helstu gögn um þróunina í aðdraganda hrunsins og nýjar greinar, ma. eftir Robert Aliber og Anne Sibert o.fl., þar sem orsakir eru greindar. Aliber er heimsþekktur sérfræðingur á þessu sviði.

Þá hafa verið skrifaðar nokkrar bækur eftir aðila tengda hruninu, bæði þátttakendur í hrunadansinum, blaðamenn og fræðimenn.

Meðal annars hafa erlendir frjálshyggjumenn skrifað bók um orsakir hrunsins (sjá hér). Sú bók er gefin út af frjálshyggjustofnuninni Ludwig von Mises Institute árið 2011.

Þessir erlendu frjálshyggjumenn komast að allt annarri niðurstöðu en Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn. Þeir segja mistök Seðlabanka Íslands vera helstu orsök hrunsins – en Davíð og Hannes kenna einkum Baugsfjölskyldunni um ófarirnar!

Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur nýlega skrifað athyglisverðan greinaflokk á Eyjunni um ábyrgð Seðlabankans á hruninu.

Margar fleiri bækur mætti nefna, sem og greinar í tímaritum eða erlendum bókum. Sjálfur hef ég skrifað tvo fræðilega bókarkafla um efnið á erlendum vettvangi, sem og kafla í nýrri erlendri bók um samband milli bóluhagkerfisins og þróunar tekjuskiptingarinnar frá 1992 til 2010.

Orsakir hrunsins verða endanlega krufnar til fulls á fræðilegum vettvangi en ekki í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins, né í fyrirlestrum helsta hugmyndafræðings hinnar ógæfulegu íslensku frjálshyggjutilraunar. Slíkir aðilar hafa of mikinn hag af því að afvegaleiða umræðuna og geta því ekki fjallað hlutlægt um efnið. Þeir geta einungis birt eigin málsvörn – sem aðrir verða að leggja mat á.

Þá má einnig benda á að sérfræðingar á sviði fjármálakreppa, t.d. Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff, auk Robert Alibers, Anne Siberts, Mark Blythes, Paul Krugmans og fleiri, hafa sett þróunina hér í samhengi við reynslu annarra þjóða af fjármálakreppum.

Slíkir fagaðilar draga gjarnan fram sameiginleg einkenni í aðdraganda fjármálakreppa og benda jafnframt á sérstöðuna sem varð hér á Íslandi. Hún fólst ekki síst í því að hér var gengið lengra en annars staðar í braski og skuldasöfnun, samhliða afskiptaleysisstefnu hjá eftirlitsaðilum og stjórnvöldum, sem skapaði geigvænlega áhættu.

Engin einn þáttur skýrir allt sem hér gerðist í aðdraganda hrunsins, heldur þarf að skoða samspil margra þátta í framvindunni.

Styrmir ber hins vegar augljóslega þá ósk í brjósti að hægri menn nái vopnum sínum og geti búið til „seljanlega söguskoðun“ um þróunina að hruni, sem fríar þá af þeirri ábyrgð sem þeir þó augljóslega bera. Þá afstöðu mátti glögglega sjá í bókinni sem Styrmir sjálfur skrifaði um efnið og kallaði „Umsátrið“, en þar var útlendingum einkum eignuð ábyrgð á hruninu og kreppunni.

Það er skiljanleg afstaða hjá hægri mönnum – en hvorki fræðilega boðleg né stórmannleg.

Hins vegar má vel taka undir með Styrmi þegar hann leggur til að Háskóli Ísland beiti sér fyrir ráðstefnuhaldi um orsakir hrunsins, þar sem helstu skýringar og álitamál verði leidd fram.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar