Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur farið mikinn gegn Evrópusambandsaðild Íslands á Evrópuvaktinni, sem Hannes Hólmsteinn og vinir hans reka.
Nú síðast fárast hann mikið yfir svokölluðum IPA styrkjum, sem ESB veitir umsóknarríkjum til stjórnsýsluumbóta samhliða umsóknarferli. Þetta hafa Styrmir og félagar hans í hirð Davíðs Oddssonar kallað “mútustyrki”. Styrmir segir að styrkirnir hafi verið veittir “til þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið”.
Nú hefur ESB hætt við veitingu frekari umbótastyrkja, eftir að stjórnvöld stöðvuðu aðildarviðræðurnar. Það er rökrétt að hálfu ESB, en margir virðast harma þá niðurstöðu.
Stöðvun styrkveitinganna sýnir hins vegar einmitt hið andstæða: styrkirnir eru tengdir aðildarumsóknarferlinu en ekki til að móta velvilja á Íslandi í garð ESB. Ef svo væri þá hefði ESB frekar aukið styrkina núna en að stöðva þá!
En Styrmir fer á kostum í tvískinnungi þegar hann tengir styrkveitingarnar við sjálfstæði þjóðarinnar. Hann segir:
“Það væri áreiðanlega tiltölulega auðvelt að reka ríkissjóð að verulegu leyti á styrkjum. Við gætum t.d. efnt til samkeppni um styrki okkur til handa. Kínverjar mundu áreiðanlega hafa mikinn áhuga á að veita okkur styrki. Þá munar ekkert um það. Það væru smápeningar fyrir þá. Og það er vel hugsanlegt að ef samkeppni hæfist á milli Evrópusambandsins og Kína um styrkveitingar til Íslands mundu einhverjir í Washington taka eftir því að gamall bandamaður þeirra norður í hafi væri enn til.
En í því fælist ákvörðun um að við treystum okkur ekki lengur til að vera sjálfstæð þjóð”, segir Styrmir
En bíddu nú við!
Þetta er einmitt það sem Sjálfstæðismenn gerðu alla tíð gagnvart Bandaríkjamönnum, frá stofnun lýðveldisins og þar til herinn fór úr landi. Þeir reyndu iðulega að selja Bandaríkjamönnum stuðning Íslands og tengsl. Og náðu miklum árangri í því.
Valur Ingimundarson prófessor í sagnfræði hefur ritað merkar bækur og greinar um tengsl Íslands og Bandaríkjanna á þessum tíma, sem segja þessa sögu með skýrum hætti.
Mútur frá Bandaríkjunum?
Mikill fégróði var tryggður frá Bandaríkjamönnum í gegnum hermangið og t.d. helmingaskiptaregluna sem Íslenskir aðalverktakar voru reknir eftir. Þannig má segja að efnahagsleg þýðing bandaríska hersins hafi verið umtalsverð frá um 1950 og næstu áratugina þar á eftir. Yfir tíma dróg úr umfanginu.
Þegar mest var skilaði vera bandaríska hersins umtalsverðum hluta útflutningstekna íslenska þjóðarbúsins, eða á annan tug prósenta.
Árið áður en herinn fór af landinu voru beinar tekjur af honum um 2,3% útflutningstekna, eða á þriðja tug milljarða (sjá hér). Þá voru umsvifin komin í lágmark. Auk beinna tekna rak herinn mikilvæga starfsemi sem sparaði íslenskum stjórnvöldum umtalsverð útgjöld (t.d. í landvarnir, í rekstur Keflavíkurflugvallar, í sjúkraflug með þyrlum, o.m.fl.).
Það var heldur ekki talin nein ógn við sjálfstæði Íslands að Bandaríkjamenn tækju þátt í byggingarkostnaði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Miðað við tal andstæðinga ESB aðildar um IPA styrkina ættum við því að tala um “viðamiklar mútur “frá Bandaríkjunum í tengslum við okkar vestrænu samvinnu!
En Styrmir og Sjálfstæðismenn almennt höfðu ekki áhyggjur af sjálfstæði þjóðarinnar þegar bandarískt fé streymdi inn í stríðum straumum og skipti umtalsverðu máli í bókhaldi ríkissjóðs. Það gera IPS styrkirnir frá ESB hins vegar ekki.
Menn muna svo auðvitað að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson settu Ísland á lista “hinna viljugu þjóða” sem réðust inn í Írak, í þeirri von að Bandaríkjamenn myndu í staðinn halda hernum og björgunarþyrlunum lengur hér á landi. Þau “viðskipti með utanríkispólitík” brugðust hins vegar – kaninn vildi ekki borga.
Þegar bankarnir stefndu í hrun reyndi Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, að fá bandaríska seðlabankan til að lána íslenskum stjórnvöldum gríðarlegt fé til að bjarga bönkunum. Bandaríski seðlabankastjórinn sagði það ekki duga til og benti Davíð á neyðaraðstoð AGS. Davíð hafnaði því og reyndi næst við Rússa!
Slíkt ofurlán, ef veitt hefði verið, hefði ekki dugað og féð að öllum líkindum glatast í hruni, en áfram verið skuld íslenska ríkisins við Bandaríkin. Skuldastabbi okkar vegna frjálshyggjuhrunsins hefði orðið mun stærri en þó varð.
Við vitum nú að slíka skuld hefði sennilega aldrei verið hægt að greiða til baka, en hvað hefði tilkoma hennar gert við sjálfstæði landsins?
IPA styrkirnir eru bara lítið brot af fjárstreyminu sem var frá Bandaríkjunum til Íslands á meðan bandaríski herinn var hér á landi, jafnvel undir lokin.
Ég er enginn sérstakur talsmaður þess að íslenska þjóðarbúið sé rekið á erlendum styrkjum.
En þegar talsmenn vestrænnar samvinnu, sem aldrei sáu neina ógn við sjálfstæði landsins af gríðarlegu efnahagslegu og pólitísku hlutverki Bandaríkjanna hér á landi, fara offari yfir smápeningum sem ESB veitir ríkjum sem sækja um aðild í umbótastyrki, þá finnst mér tvískinnungurinn keyra um þverbak.
Og þá eigum við alveg eftir að nefna hlut hræsninnar í málinu öllu.
Ágætur Sjálfstæðismaður sagði við mig um daginn, að allt tal Davíðs, Styrmis og félaga um Evrópusambandið væri til að beina athygli landsmanna frá hruninu, sem þeir báru mesta ábyrgð á. Sennilega hefðu þeir ekki svo mikið við ESB að athuga, þegar öllu væri á botninn hvolft.
Tvískinnungur og óheilindi í málflutningi þeirra um ESB er í samræmi við það.
Síðasti pistill: Samanburður á fjölda opinberra starfsmanna
Fyrri pistlar