Föstudagur 7.6.2013 - 23:39 - FB ummæli ()

Tekjur – eldri borgarar sátu eftir

Á ársfundi TR í síðustu viku gerði ég grein fyrir þróun tekna lífeyrisþega (örorku- og ellilífeyrisþega), frá maí 2008 til maí 2013.

Megin niðurstaðan var sú, að ráðstöfunartekjur ellilífeyrisþega hækkuðu minna á tímabilinu en tekjur öryrkja. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Slide1

  Miðtekjur öryrkja og eldri borgara 2008 til 2013 og hlutfallsleg breyting (%). Ráðstöfunartekjur á verðlagi hvers árs. Heimild: TR

 

Miðtekjur eru tekjur þeirra sem eru í miðju tekjustiga lífeyrisþega. Þær endurspegla kjör “venjulegra” lífeyrisþega. Helmingur lífeyrisþega er með sömu eða lægri tekjur en miðtekjurnar – hinn helmingurinn er með hærri tekjur en miðtekjurnar.

Eins og myndin sýnir hækkuðu ráðstöfunartekjur öryrkja um 21% á tímabilinu en tekjur eldri borgara aðeins um 6,8%. Þetta er nafnverð tekna. Verðlag hækkaði umtalsvert meira svo kaupmáttur lífeyrisþega lækkaði, talsvert meira hjá eldri borgurum.

Í reynd fóru tekjur öryrkja framúr tekjum eldri borgara og urðu hærri í lok tímans, ólíkt því sem var fyrir kreppu. Þá voru tekjur ellilífeyrisþega nokkru hærri en tekjur öryrkja, einkum vegna meiri fjármagnstekna og meiri greiðslna úr lífeyrissjóðum sem elliífeyrisþegar nutu.

Það voru einungis lífeyrisþegar með allra lægstu tekjur sem voru ágætlega varðir gegn kreppuáhrifum, með hækkun lágmarkstryggingar almannatrygginga þann 1. janúar 2009. Lífeyrisþegar með milli og hærri lífeyristekjur fengu hins vegar umtalsverða skerðingu, einkum 1. júlí 2009. Það voru umdeilanlegar aðgerðir, sem bitnuðu mest á eldri borgurum.

Eygló Harðardóttir, nýskipaður félags- og húsnæðisráðherra, hefur tilkynnt að þessar skerðingar sem innleiddar voru í júlí 2009 verði dregnar til baka. Stefnt er að því að hefja þá aðgerð þegar í sumar.

Með því verða mikilvæg tímamót hjá lífeyrisþegum.

 

Nýlegur pistill: Mikið dregur úr fjölgun örorkulífeyrisþega

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.6.2013 - 23:15 - FB ummæli ()

Ósæmandi bull um Evrópu

Það er satt að segja ótrúlegt bull sem menn láta stundum út úr sér á Íslandi um vinaþjóðir okkar í Evrópusambandinu og aðildarviðræður okkar. Andstæðingar aðildar eru alla jafna verstir.

Það er að vísu eitrað og óheilbrigt margt sem á borð er borið í þjóðmálaumræðunni á Íslandi, t.d. linnulaus ósannindi og afbakanir frjálshyggjumanna um skatta og tekjuskiptingu. En ummælin sem látin eru vaða á opinberum vettvangi um ástandið í ESB ríkjum og um samskipti Íslands og ESB eru alltof oft ósæmandi. Þetta eru jú okkar nánustu viðskipta- og samstarfsþjóðir sem um er að ræða.

Mál Evrópu og möguleikar Íslands í framtíðinni fást almennt ekki rædd af neinu viti hér á landi. Það er auðvitað miður.

Nú var forsetinn okkar, sjálft átrúnaðargoð mitt, að bera í bakkafullan lækinn með vægast sagt vafasamar fullyrðingar um að við séu ekki velkomin í Evrópusambandið, þrátt fyrir aðildarviðræðurnar! Segir ESB hvorki hafa getu né vilja til að klára samningaviðræður.

Þau ummæli rekast á alltof margar staðreyndir til að vera boðleg.

Við erum t.d. nú þegar með um 70% aðild að ESB í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. ESB hefur tekið umsókn Íslands vinsamlega þó hún breyti litlu fyrir sambandið – hver svo sem niðurstaðan verður.

Þetta skiptir kanski ekki máli lengur, því við erum ekkert á leið inní ESB á næsta áratug. Andstæðingar aðildar hafa þegar unnið sigur í málinu.

Einmitt þess vegna er ekki lengur þörf fyrir forheimskandi bull þeirra um Evrópu.

Snúum okkur að öðru gagnlegra, til dæmis því hvernig hægt er að bæta og verja kjör heimilanna – þrátt fyrir síendurteknar gengisfellingar krónunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.6.2013 - 09:19 - FB ummæli ()

Mikið dregur úr fjölgun öryrkja

Ég flutti erindi á nýafstöðnum ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins. Þar gerði ég m.a. grein fyrir þróun í fjölgun öryrkja yfir tíma. Þar kom fram að verulega hefur dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega á síðustu árum.

Rannsóknir höfðu sýnt að áður var sambandi milli aukningar atvinnuleysis og fjölgunar nýskráðra örorkulífeyrisþega. Margir óttuðust því að í kjölfar hrunsins myndi koma holskefla umsókna um nýtt örorkumat, meðal annars vegna þess að kjör öryrkja eru heldur skárri en kjör atvinnulausra.

Það varð ekki reyndin, eins og myndin hér að neðan sýnir.

Slide1

    Heimild: TR

 

Fjölgunin var mest frá því skömmu fyrir 1990 og alveg til 1995, en þá hægðist á um leið og úr atvinnuleysi dró. Síðan tók aftur við talsverð fjölgun frá 1999 til 2005, en á því ári varð mikil umræða í samfélaginu um það mál.

Eftir það varð fjölgun örorkulífeyrisþega mun hægara, einnig í gegnum kreppuna þegar atvinnuleysi náði áður óþekktum hæðum.

Þetta er athyglisverð þróun á kreppuárunum.

Margt bendir til að sumum sem áður fóru í ríkum mæli á örorkulífeyri sé nú beint í auknum mæli í aðra og farsælli farvegi, meðal annars aukna endurhæfingu.

 

Síðasti pistill: Vatnsmýri – lausn fyrir alla

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.6.2013 - 23:42 - FB ummæli ()

Vatnsmýrin – lausn fyrir alla

Framtíð Vatnsmýrar skýrist smám saman. Tillaga að nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík gerir ráð fyrir að flugvallarstarfsemin flytjist brott í áföngum. Um hana er góð samstaða í borgarstjórninni. Í staðinn  komi blönduð íbúabyggð og misborgarsækin atvinnustarfsemi, meðal annars tengd háskólunum tveimur og Landsspítalanum.

Tímamótaúttekt á valkostum fyrir nýja staðsetningu flugvallar fyrir innanlandsflug, sem gerð var í samstarfi borgar og ríkis árið 2007, nefndi Hólmsheiði, Löngusker eða Keflavík sem hentuga kosti.

Úttektin sýndi jafnframt fram á að það er mjög þjóðhagslega hagkvæmt að flytja flugvöllinn og nýta Vatnsmýrina undir miðborgarbyggð, sem gæti orðið stórglæsileg.

Screen shot 2013-06-04 at 9.00.50 PM

Vatnsmýrarsvæðið er hágæðaland, sem býður uppá einstaka viðbót við miðborg Reykjavíkur, eins og skipulagstillaga Graeme Massie og félaga frá 2008 sýndi. Sem slíkt er Vatnsmýrarlandið gríðarlega verðmætt.

Ég var formaður undirbúningsnefndar en annaðist framkvæmd íbúakosningarinnar um framtíð Reykjavíkurflugvallar árið 2001. Hluti af þeirri vinnu fólst í könnun, með aðstoð sérfræðinga, á margvíslegum valkostum um breytta skipan flugvallarins eða aðra staðsetningu hans.

Ég hef því hugsað mikið um valkostina um framtíðarnýtingu Vatnsmýrarlandsins í gegnum tíðina og skoðað hinar ýmsu leiðir.

Það er langt síðan ég komst að þeirri niðurstöðu að flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur væri ófullnægjandi kostur fyrir landsbyggðina, ferðaþjónustuna og sjúkraflugið.

Flutningur vallarins úr Vatnsmýri yrði því að vera á annan stað nálægt höfuðborginni. Nú eru tveir kostir efstir á blaði, Hólmsheiði og uppfylling á Lönguskerjum. Báðir koma til greina.

Flugvöllur á uppfyllingum á Lönguskerjum er mjög spennandi kostur, sem gæti sameinað margt: kjörstaðsetningu nálægt miðborginni, aðlaðandi viðbót við umhverfið, tenging miðborgar við Álftanes og/eða Kópavog, og sitthvað fleira.

Það er hins vegar nokkuð dýr kostur. Stóra spurningin er þá hvort verðmæti Vatnsmýrarlandsins dugi til að greiða kostnað af byggingu nýs flugvallar fyrir innanlandsflugið á Lönguskerjum?

Það kann að vera.

Ef ekki, þarf að finna annan stað nálægt höfuðborgarsvæðinu.

Nýja aðalskipulagið setur málið enn meira á dagskrá en áður var. Klára þarf staðsetningarmálið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.6.2013 - 17:24 - FB ummæli ()

Lífsánægja þjóða í kreppunni

Íslendingar hafa lengi verið í efstu sætunum þegar hamingja þjóða og ánægja með lífið hafa verið mæld og samanborin – ásamt Dönum, Írum, Hollendingum og öðrum norrænum þjóðum.

Þetta hefur svolítið breyst í kreppunni síðustu fjögur árin.

Lífsánægja minnkaði verulega á Íslandi í kjölfar hrunins. Við fórum úr einu af efstu sætunum niður að meðaltali OECD-ríkjanna. Frá og með árinu 2011 fór lífsánægja Íslendinga að aukast á ný, sem kom einnig fram í væntingavísitölu og lífsgæðamati Capacent.

Samkvæmt nýjustu samanburðartölum frá OECD var Ísland aftur komið í efstu sætin á árinu 2012, raunar í fjórða efsta sæti. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Lífsánægja þjóða 2012 og 2010

Nýjustu tölur frá OECD um lífsánægju þjóða, 2012 samanborið við 2010 (www.oecd.org).

 

Hvergi í OECD-ríkjunum hefur ánægja með lífið aukist meira en á Íslandi, frá því skömmu eftir hrun til 2012. Ísland náði botni í kreppuþróuninni vorið 2010 og fór svo að lyftast á ný undir lok ársins og áfram á árunum 2011 og 2012.

Aðrar þjóðir sem hafa orðið ánægðari með líf sitt í kreppunni eru Svisslendingar, Norðmenn og Svíar, sem allar eru ofan við okkur á ánægjulistanum. Þetta eru allt með afbrigðum hagsælar þjóðir sem fundu lítið sem ekkert fyrir fjármálakreppunni.

Það er raunar merkilegt að við Íslendingar skulum hafa verið búnir að ná stöðu okkar í hópi ánægðustu þjóðanna þegar á árinu 2012. Næst á eftir okkur komu Hollendingar og Danir, en þeir síðarnefndu hafa nú sigið niður listann sem þeir hafa oft  áður toppað.

Þar fyrir neðan ar athyglisvert að sjá enskumælandi þjóðirnar (Kanada, Ástralíu, Bandaríkin, Bretland og Írland) sem hafa minni lífsánægju 2012 en 2010. Þær hafa verið á leiðinni niður síðustu misserin.

Á neðri endanum standa svo út úr þjóðir sem fóru seinna og dýpra inn í kreppuna en við og hafa mun lægra ánægjustig 2012 en 2010. Þar eru Grikkir fremstir í flokki, en þeir fara álíka mikið niður og Ísland fer upp!

Þessi jákvæða útkoma fyrir Íslendinga er í samræmi við ýmsar aðrar mælingar á kjörum og hugarfari þjóðarinnar frá síðustu tveimur árum (sjá hér og hér og hér). Sérstaklega var árið 2011 hagstætt í endurreisninni en síðan hafa framfarirnar orðið hæggengari.

Í ljósi þess að Íslendingar voru aftur orðnir með allra ánægðustu þjóðum með líf sitt á árinu 2012 er athyglisvert að velta fyrir sér útkomu kosninganna í apríl sl. Stjórnvöld nutu þess í engu að hafa hugsanlega átt þátt í að endurbæta ástandið hér svo þjóðin gæti endurheimt hamingju sína á ný.

Þvert á móti var stjórnvöldum harkalega refsað af kjósendum. Þar vegur mest að stjórnvöld misstu sjónar á æskilegu velferðarhlutverki sínu í kosningabaráttunni og stjórnarandstaðan, sérstaklega Framsókn, var í mun betra jarðsambandi og bauð heimilunum betri von um frekari kjarabætur.

Önnur lexía sem draga má af þessum upplýsingum er sú, að þó þjóðir geti verið óánægðar með fjárhagsafkomu sína þá geta þær verið ánægðar með margt annað í lífi sínu. Þar er einmitt að finna þætti sem skipta meira máli en peningar, svo sem fjölskylda, félagsleg tengsl og önnur samfélagsleg og persónuleg skilyrði.

Fjárhagur heimilanna á Íslandi er enn ófullnægjandi þó lífsánægjan hafi batnað.

Fjármálakreppa skerðir efnahagslegu kjörin til skemmri tíma, en forsendur hamingjunnar og ánægju með lífið eru flestar áfram fyrir hendi – eða koma fyrr til baka en afkomugleðin.

Með bættri fjárhagslegri afkomu íslenskra heimila munu lífskjör Íslendinga aftur geta orðið sambærileg við það sem var lengst af á síðasta áratug.

En í millitíðinni er það auðvitað mikilvægt að Íslendingar skuli hafa tekið gleði sína á ný.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.6.2013 - 14:56 - FB ummæli ()

Mogginn er stærsta dagblaðið!

Um daginn var Mogganum dreift ókeypis í öll hús, í tvöföldu umbroti. Eins og þar væri mikið dagblað á ferð.

Þetta var eins konar auglýsing fyrir Moggann og N1 (sem greiddi nær allar auglýsingar í blaðinu þennan dag).

Talsmenn Moggans sögðu sigri hrósandi að nú væri Mogginn aftur orðinn “stærsta blað þjóðarinnar” – í einn dag! Það var húmor í því.

Mér fannst reyndar forvitnilegt að kíkja aftur í Moggann eftir nokkurn tíma – en það entist bara í svona fimm mínútur. Þetta var allt eins og áður, nema bara í stærra broti.

Staksteinn var að níða Steingrím J. Sigfússon og leiðarahöfundur að fjargviðrast yfir “aðlögun að ESB”. Svo var þarna frétt um áhyggjur af minnkandi hagnaði Íslandsbanka, eins og manni komi það við…

Það helsta sem var áhugavert í blaðinu var grein eftir Atla Harðarson skólamann, um menntun og brottfall úr framhaldsskólum. En þessi grein hafði þegar birst á netinu í síðustu viku og var því ekki ný.

Þessi “stóri Moggi” var 24 blaðsíður, ígildi 48 blaðsíðna í venjulegu umbroti. Fréttablaðið var hins vegar 68 blaðsíður sama dag. Mun stærra – þrátt fyrir allt.

Þegar smávaxið fólk fer í of stór föt þá stækkar það ekki, heldur dregur meiri athygli að smæð innihaldsins.

Kanski það sama gildi um dagblöð…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.6.2013 - 11:33 - FB ummæli ()

Horfurnar í heimsbúskap og heimahögum

Þó alþjóðlega fjármálakreppan sé ekki yfirstaðin er nokkuð ljóst hvað blasir við í þróun heimsbúskaparins.

Vestrænar þjóðir, Evrópa og Ameríka, sitja uppi með þunga skuldaklafa og munu njóta frekar lítils hagvaxtar á næstu árum, miðað við fyrri áratugi. Stjórnmál innanlands munu einkennast af umtalsverðum átökum og sundrungu, meðal annars vegna aukins ójafnaðar, tapaðs trausts á stjórnmálum og minnkandi umburðarlyndis.

Dani Rodrik, merkur hagfræðiprófessor við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, telur að flestar vestrænu þjóðirnar muni af þessum sökum verða innhverfari í viðfangsefnum sínum á næstu árum. Þær muni hafa minnkandi getu til að sinna alþjóðlegu samstarfi og samvinnu, sem muni koma niður á hagsældartækifærum allra.

Nýju rísandi hagsældarríkin (Kína, Indland og Brasilía) telur hann ekki líkleg til að filla tómarúmið sem Evrópa og Ameríka munu skilja eftir sig. Hann telur sem sagt að tækifærum er tengjast hnattvæðingunni muni fækka og því muni hægja á allri hagsældarþróun.

Það gæti víða hrikt í stoðum í slíkum aðstæðum. Nútímaþjóðir eru svo háðar hagvextinum í lífsháttum sínum. Sumum þjóðum mun þó áfram vegna vel (ekki síst þeim sem eru með minni skuldir og stóla minna á heimsmarkaðinn), segir Dani Rodrik.

Þungum skuldaklafa fylgir gjarnan hægari hagvöxtur, því stærri hluti kaupmáttarins fer í afborganir skulda. Eftirspurn neytenda verður of lítil og fjárfesting til nýsköpunar ófullnægjandi. Það eru dæmigerðar afleiðingar djúprar fjármálakreppu.

Fjármálahagfræðingarnir Reinhart og Rogoff hafa lagt mikla áherslu á að þjóðir sem eru með mestu skuldaklafana þurfi að fá skuldaafskriftir. Annars verða höft á hagvexti þeirra langt inn í framtíðina.

Við Íslendingar þurfum líka að taka langtímahorfurnar inn í myndina. Okkar fjármálakreppa var eins sú allra dýpsta og þjóðarbúið er með gríðarlegan skuldaklafa – ríkið, heimilin og fyrirtækin.

Þó við séum á uppleið þá er hún hæg og hikandi. Sumir leita enn galdralausna, einkum í nýjum álverum. Það er ekki nóg og varla skynsamlegt heldur.

Þó talsvert hafi þegar verið afskrifað af skuldum á Íslandi þarf meira til. Samkvæmt viðmiðum Reinhart og Rogoff er skuldabyrði íslenska þjóðarbúsins of mikil. Því til viðbótar er svo ónóg framleiðsla gjaldeyris er tengist snjóhengjuvandanum og fyrirliggjandi kröfum erlendra fjármagnseigenda hér á landi. Án verulegra afskrifta losnum við ekki við gjaldeyrishöftin innan fyrirsjáanlegrar framtíðar.

Við eigum þess vegna ekki að forðast að nálgast slík viðfangsefni heldur sækja fram. Það á ekki bara við um heimilin heldur einnig um skuldir ríkisins og fyrirtækjanna.

En það er góð áhersla að setja heimilin í forgang, því þau eru undirstaða þjóðarbúskaparins.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.5.2013 - 15:01 - FB ummæli ()

The Great Gatsby myndin

Nú þegar nýja útgáfan af Gatsby bíómyndinni, eftir klassískri sögu F. Scott Fitzgerald, er í bíó er við hæfi að skoða aðra hlið á Gatsby-fyrirbærinu.

En áður en ég geri það, ætla ég að mæla með bíómyndinni, sem Baz Luhrmann gerði. Þetta er skemmtileg og litrík innsýn í heim ofurríka fólksins í Bandaríkjunum á Jazz-tímanum, þriðja áratug síðustu aldar, sem endaði með hruni og Kreppunni miklu frá 1929. Minnir svolítið á tíðaranda 2007-samfélagsins á Íslandi!

Alræði auðsins, óhóf og hégómi eru í aðalhlutverki. Keypt hamingja og keyptir stjórnmálamenn eru viðfangsefni. Gamla auðstéttin í höllum sínum og nýríka fólkið með illa fengið fé úr undirheimum og braski takast á.

Boðskapurinn er sá, að þeir nýríku tapa og geta ekki keypt sér ást, jafnvel þó þeir yfirbjóði í hvívetna. Og þeim fátæku er fórnað. Þetta er líka almenn lexía um áhrif auðsins í bandaríska samfélaginu.

 

The Great Gatsby Curve

Í fræðaheiminum hafa menn á síðustu misserum farið að tala um það sem kallað er “Great Gatsby kúrfan”, sem á að sýna neikvæð áhrif mikillar samþjöppunar auðsins í samfélaginu, þ.e. áhrif mikils ójafnaðar.

Megin boðskapur Gatsby-kúrfunnar (sem væri betur nefnd “Gatsby-myndin”) er sá, að í samfélagi þar sem er mikill ójöfnuður tekna og eigna, þar er líka erfiðara að vinna sig frá fátækt til bjargálna. Þar eru minni tækifæri til að komast úr lægri stétt í milli eða hærri stétt, frá einni kynslóð til annarrar.

Ójafnaðarsamfélagið er lokaðra samfélag.

Hér er Gatsby-myndin úr fræðaheiminum:

Slide1

Myndin er byggð á gögnum um tekjudreifingu og ójöfnuð tækifæri frá einni kynslóð til annarrar.

Niðurstaðan er sú, að norrænu þjóðirnar eru með jafnari tekjuskiptingu, opnari samfélög og meiri möguleika fyrir fólk úr lægri stéttum til að vinna sig upp í milli eða hærri stéttir.

Bandaríkin og Bretland, ásamt Ítalíu, eru með ójafnari tekjuskiptingu, lokaðri samfélög og minni möguleika fyrir fólk til að vinna sig upp úr lægri stéttum.

Bandaríkin voru auðvitað áður „land tækifæranna“, en nú gætir þar mun meiri tilhneigingar til lokunar og erfðra forréttinda og ríkidæmis frá einni kynslóð til annarrar. Að sama skapi er erfiðara að brjótast þar úr fátækt til bjargálna en áður var. Þetta hefur breyst til hins verra á síðustu 30 árum.

Norrænu velferðarríkin eru helstu lönd tækifæranna nú á dögum. Norræna blandan af þróttmiklum samkeppnismarkaði og öflugu velferðarríki skilar árangri.

Þegar minna kemur í hlut þeirra ofurríku verður meira til skiptanna fyrir alla hina.

Þá virkar samfélagið líka betur – á flesta vegu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.5.2013 - 10:26 - FB ummæli ()

Meðferð flóttafólks á Íslandi

Það hefur lengi undrað mig hvernig við Íslendingar meðhöndlum flóttafólk sem vill freista gæfunnar hér á landi, eftir að hafa búið við hörmungar og ofsóknir í heimalandi sínu.

Hér er alltaf mikil fyrirstaða gegn veitingu landvistarleyfa fyrir slíkt fólk. Kerfið er vel á verði og sendir þá gjarnan til baka, eftir að hafa haldið þeim í búðum mánuðum saman á meðan pappírar eru skoðaðir.

Þetta snýst yfirleitt um frekar fá einstaklinga og fjölkyldur, í mesta lagi fáa tugi á ári hverju.

Nú hefur ekki verið nein flóðbylgja flóttamanna til Íslands á undanförnum áratug. Það hefur hins vegar verið flóðbylgja annarra innflytjenda til landsins. Frá 2001 til 2013 fjölgaði innflytjendum til Íslands um nálægt 20 þúsund manns, úr rúmlega 10 þúsund í 29 þúsund. Flesti koma frá löndum ESB, enda hafa þeir rétt til að setjast hér að og leita sér vinnu.

Þetta voru um 1500 manns á ári að meðaltali sem þannig komu.

Hvers vegna er þá alltaf verið að hundelta þessa fáu sem hingað koma sem flóttamenn? Og senda grátandi til baka.

Í gær var verið að senda til Króatíu 27 flóttamenn og aðrir 23 eru í bið eftir afgreiðslu. Þeim fylgdi her lögreglumanna í aðkeyptri leiguflugvél. Mikil aðgerð. Eins og verið væri að flytja brott glæpamenn en ekki bara venjulegar barnafjölskyldur.

Þessi síðasta sending til Króatíu er vitlausari en nokkurt fyrra dæmið af þessum toga, þó af nógu sé að taka. Það er vegna þess að Króatía verður fullgilt aðildarríki ESB frá og með 1. júlí nk. og þá eiga flestir þeirra sem flogið var með utan í gær rétt á að koma hingað aftur til atvinnuleitar!

Um hvað snýst þessi meðferð á flóttamönnum eiginlega?

Flóttamenn eru einungis lítið brot af þeim fjölda innflytjenda sem hingað koma án hindrana á hverju ári. Oft fjölskyldufólk í leit að skjóli undan miklu ofbeldi, tilbúið að leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði.

Auðvitað á að kanna bakgrunn og gæta fyllsta öryggis í sambandi við innflytjendur almennt. En eru áherslurnar ekki rangar þegar fámennir hópar flóttamanna eru sérstaklega meðhöndlaðir og beittir mikilli hörku, þegar til hliðar við þá flæðir stórfljót innflytjenda án sérstakrar fyrirstöðu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 28.5.2013 - 09:52 - FB ummæli ()

Framsókn gerist velferðarflokkur

Framsóknarflokkkurinn setti heimilin í forgang í kosningabaráttunni, með höfuðáherslu á lækkun skulda.

Framsókn lofaði líka umtalsverðri kjarabót til lífeyrisþega, með því að afnema skerðingar sem voru innleiddar 1. júlí 2009.

Eygló Harðardóttir, nýskipaður félagsmálaráðherra, er afgerandi á fyrstu dögum sínum í embætti og segir að staðið verði við þessi loforð – jafnvel strax á sumarþinginu.

Nýr félagsmálaráðherra vill sem sagt bæta hag lífeyrisþega og draga úr skerðingum.

Það er í samræmi við stefnu sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, setti í gang undir lok árs 2007 og allt árið 2008. Þá voru stigin mörg skref til að draga úr skerðingum í almannatryggingum vegna annarra tekna, m.a. með aukinni áherslu á frítekjumörk, á atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur. Þá voru einnig aflagðar skerðingar vegna tekna maka.

Síðan var innleidd lágmarksframfærslutrygging í september 2008, rétt fyrir hrunið. Hún hækkaði lágmarkið (gólfið) í almannatryggingakerfinu, þ.e. bætti hag verst settu lífeyrisþeganna. Það viðmið var svo hækkað um 20% 1. janúar 2009, til að lyfta öllum lífeyrisþegum upp fyrir fátæktarmörk í kreppunni. Það var mikilvæg aðgerð. Hins vegar hækkaði almennur lífeyrir ekki til fulls með verðlaginu.

Þann 1. júlí var að hluta snúið af braut minnkandi skerðinga er þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, innleiddi m.a. skerðingar á grunnlífeyri almannatrygginga vegna tekna úr lífeyrissjóðum. Það var hluti af aðhaldsaðgerðum vegna erfiðrar fjárhagsstöðu ríkisins. Það var mjög umdeilanleg aðgerð sem sparaði ríkinu einungis um 3,5 milljarða á ári. Skerðingin bitnaði verst á lífeyrisþegum með milli og hærri tekjur. Lífeyrislágmarkið hélt sér þó að fullu og varði áfram þá sem allra lægstu tekjurnar höfðu.

Þessar skerðingar verða nú teknar til baka, samkvæmt yfirlýsingu Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra. Það er mikilvæg kjarabót fyrir lífeyrisþega.

Framsókn virðist hafa tekið stakkaskiptum frá þeim tíma er Halldór Ásgrímsson var formaður flokksins. Þá var lítil áhersla lögð á velferðarmál og flokkurinn lét Sjálfstæðisflokkinn draga sig langt út í frjálshyggjufenið, illu heilli.

Nú er sem sagt öldin önnur. Framsókn Sigmundar Davíðs virðist ætla að gera velferðarmálum hátt undir höfði.

Það er reyndar sniðug herfræði hjá Framsókn, því þannig getur hún styrkt stöðu sína á miðjunni og jafnvel yfir á vinstri vænginn. Með því gæti Framsókn nálgast það hlutverk sem krataflokkarnir í Skandinavíu hafa lengi haft.

Samfylkingin missti sjónar á velferðarhlutverki sínu í kosningabaráttunni. Þar með opnaðist tækifæri fyrir Framsókn til að svara betur kalli heimilanna.

Ef loforð nýju stjórnarinnar á sviði lífeyrismála verða efnd á sómasamlegan hátt hefur Framsókn fest sig í sessi sem velferðarflokkur. Farsæl lausn á skuldalækkun heimilanna mun auðvitað bæta þungum lóðum á sömu vogaskál.

Ef Framsókn verður flokkur með afgerandi velferðaráherslu gæti Samfylkingin átt erfitt með að endurheimta fyrri stöðu sína sem “turn” á miðjunni. Vinstri flokkar eiga raunar ekki einkarétt á velferðarríkinu. Miðjuflokkar í Evrópu hafa margir gert velferðarmálum hátt undir höfði.

Þetta eru því athyglisverðar breytingar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.5.2013 - 09:33 - FB ummæli ()

Gengisfelling er árás á heimilin

Menn hafa mikið talað um að vinstri stjórnin hafi gert árás á undirstöðuatvinnuveginn, sjávarútveginn. Þá er átt við nýja veiðigjaldið og tilraunina til að endurbæta kvótakerfið.

En hver gerði árás á hvern?

Gengisfelling krónunnar, sem hófst í byrjun árs 2008 og stóð fram á árið 2009, var risaárás á kjör heimilanna í landinu. Hún lækkaði kaupmátt heimilanna strax með verðhækkunum og jók skuldabyrði verðtryggðra lána. Kaupmáttur tekna heimilanna lækkaði að jafnaði um 20%, en 29% ef aukin skuldabyrði er tekin með.

Helsta orsök gengisfellingarinnar var ofþensla bóluhagkerfisins, sem kom til vegna of mikils brasks með lánsfé. Bankar og fyrirtæki voru helstu braskararnir og söfnuðu mestu skuldunum. Hegðun þeirra gróf undan genginu.

Gengisfellingin hækkaði hins vegar kaupmátt útvegsmanna og annarra fiskútflytjenda um nærri 50%! Erlendu álfyrirtækin fengu sambærilega kaupmáttaraukningu.

Nýja veiðigjaldið færir einungis lítinn hluta þessa aukna kaupmáttar útgerðarinnar aftur í sameiginlega sjóði. Það fjármagnar t.d. framkvæmdir við samgöngubætur um land allt, nýsköpun og hækkun barnabóta.

Þetta segja menn að sé „árás á undirstöðuatvinnuveginn“! Það er mjög villandi staðhæfing.

 

Er fastgengisstefna framtíðin?

Gengisfelling færir kaupmátt frá heimilunum til útflutningsfyrirtækja á alltof auðveldan hátt.

Ef við getum ekki fengið annan gjaldmiðil til að nota á Íslandi, eins og nú virðist ljóst, þá eigum við að taka upp fastgengisstefnu. Það gera til dæmis Danir og Eystrasaltslöndin, með ágætum árangri. Og auðvitað Evru-löndin öll.

Með föstu gengi yrði ekki eins auðvelt að gera síendurteknar árásir á kaupmátt heimilanna.

Forysta ASÍ hefur talað fyrir fastgengisstefnu.

Nú er tímabært að móta stefnu í peningamálum til framtíðar. Lausn snjóhenguvandans ætti að geta orðið mikilvægt skref í átt til fastgengisstefnu.

Eyjan er með athyglisverðan fund um þessi málefni á mánudagsmorgun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.5.2013 - 21:36 - FB ummæli ()

Ósanngjarnasta stjórnarandstaða lýðveldisins?

Nú við stjórnarskiptin er við hæfi að líta til baka

Fráfarandi stjórn tók við Íslandi á barmi þjóðargjaldþrots og upplausnar. Ástandið var eldfimt og hættulegt.

Stjórnin tók við erfiðasta búi lýðveldissögunnar. Hún náði verulegum árangri við endurreisnarstarfið. Hefur hlotið mikið hrós fyrir – en nær einungis frá útlöndum. Málsmetandi erlendir aðilar og alþjóðastofnanir hafa ausið stjórnina lofi fyrir verk sín.

Vissulega tókst henni ekki allt sem hún ætlaði sér, en þetta er sennilegasta vinnusamasta stjórn sögunnar. Sumt hefði mátt gera á annan veg, en það er auðvelt að vera vitur eftirá.

Hér heima var hins vegar sótt að ríkisstjórninni af fordæmalausri hörku og heift, alveg frá fyrstu vikum stjórnartímans, bæði innan þings og í fjölmiðlum.

Hvernig fjallað var um verk stjórnarinnar hér heima var ekki í nokkru samræmi við umfjöllunina erlendis. Ég tel augljóst að vinstri stjórnin hafi ekki notið sannmælis innanlands fyrir verk sín. Það er auðvitað ósanngjarnt.

Sumir þeirra sem voru hvað ómerkilegastir í heiftúðugum áróðri gegn stjórninni áttu sjálfir mesta sök á því hvernig allt fór hér afvega í fjármálunum frá 1998 til 2008 og endaði í hruni. Fremstur í þeim flokki var og er ritstjóri Morgunblaðsins.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sker sig úr á hægri vængnum fyrir drengskap og sanngirni. Hann segir um hátterni stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabils:

“Á tíma síðustu ríkisstjórnar fannst mér ömurlegt að heyra stjórnarandstæðinga óska stjórninni alls ills, og þeir hinir sömu gátu ekki einu sinni glaðst þegar góðar fréttir bárust af ríkisfjármálum, minnkandi atvinnuleysi eða góðri afkomu fyrirtækja. Heiftin í garð pólitískra andstæðinga var sterkara afl en óskin um bættan hag landsmanna.”

Þetta er ljótur vitnisburður.

Nú þegar sumir þeirra sem voru virkir í þessum leik stjórnarandstöðunnar eru komnir í stjórnarliðið þá eiga þeir auðvitað ekkert tilkall til sanngirni frá nýrri stjórnarandstöðu, í þessu ljósi.

Hins vegar gætu nýir stjórnarliðar á þingi sjálfir haft frumkvæði að siðlegri háttum sem gætu stuðlað að heilbrigðari samskiptum og jafnvel samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu í mikilvægum málum. Þeir gætu til dæmis haft samskipti á þingum norrænu frændþjóðanna til fyrirmyndar í því.

Boðuð samráð í nýja stjórnarsáttmálanum ættu þannig að ná líka inn í þingsalinn, en ekki bara frá stjórnarmeirihlutanum til samtaka atvinnulífsins og annarra hagsmunasamtaka.

Munum það að þingstörfin eiga að vera í þágu þjóðarinnar allrar, en ekki hluti af viðvarandi stéttastríði eða borgarastyrjöld.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.5.2013 - 21:32 - FB ummæli ()

Hvernig stjórn verður þetta?

Það var athyglisvert að heyra Bjarna Benediktsson segja í hofi Jónasar frá Hriflu, Héraðsskólanum á Laugarvatni, að þetta yrði “samvinnustjórn”.

Sigmundur Davíð hafði áður útskýrt staðsetningu stofnfundar ríkisstjórnarinnar með því að undirstrika tengsl hennar við landsbyggðina og ungmennafélagshreyfinguna.

 

Andi Framsóknar

Það var sem sagt andi Framsóknar sem sveif yfir vötnum, þegar stjórnarsáttmálinn var kynntur og undirritaður.

Framsókn hefur forsætisráðuneytið og stærsta stefnumál þeirra er höfuðmál ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðismenn fá meira texta um “breytingar” á skattakerfinu “á kjörtímabilinu” en afgerandi ákvæði um lækkun skatta.

Eina skýra skattalækkunin sem er boðuð er lækkun tryggingagjaldsins, sem allir flokkar eru sammála um að gera. Bjarni sagði svo í viðtölum að hann vildi láta auðlegðarskattinn á stóreignafólk fjara út í árslok. Það mun vekja ánægju í Garðabæ og Arnarnesi.

Hugmyndir frjálshyggjumanna og vúdú-hagfræðinga um dólgslegar skattalækkanir sjást varla í stjórnarsáttmálanum. Talað er af varkárni um stöðu ríkisfjármála og nauðsyn úttekta og leitar að hagræðingu og breyttri forgangsröðun.

 

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn kominn aftur?

Að því leyti má segja að það sé meira “gamli Sjálfstæðisflokkurinn” sem er í þessari stjórn frekar en hinn “nýji Sjálfstæðisflokkur” frjálshyggjunnar. Þannig birtist þetta a.m.k. í upphafi ferðarinnar.

Ef þetta reynist rétt hjá mér þá hygg ég að Bjarni Benediktsson gæti styrkt sig í þessu stjórnarsamstarfi. Hann ætti raunar að rjúfa sem mest tengsl við hirð Davíðs Oddssonar og frjálshyggjutrúboð Hólmsteins og fara eigin leið, leið hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu. Það yrði farsælt – fyrir hann sjálfan, flokkinn og almenning.

Mér lýst ágætlega á sumt í þessum stjórnarsáttmála. Ég hef áður tekið undir leið Framsóknar um skuldalækkun til heimila. Þarna er skýrt kveðið á um að hún muni fela í sér leiðréttingu á verðbólguáhrifum frá 2007 til 2010, en jafnframt er tekið fram að til greina komi að setja þak á endurgreiðsluna. Ég hef sjálfur mælt með slíku á Eyjunni. Ef það er gert þá verður þetta ekki flöt niðurfelling skulda. Auk þess sparar það umtalsverð útgjöld til þeirra sem ekki þurfa á slíku að halda, sem nota má til annarra mikilvægari verka.

Nýja veiðigjaldið verður endurskoðað en ekki lagt af. Það eru tíðindi. Aðildarviðræður við ESB verða settar í bið, en ekki slitið. Það er út af fyrir sig best fyrir þann málaflokk að bíða í 3-4 ár, uns Evrópa verður aftur komin á sléttan sjó. Sjálfur vil ég fá niðurstöðu í aðildarviðræðurnar fyrir framtíðina – hvort sem við förum inn eða ekki.

 

Endurreisn frítekjumarka í almannatryggingum og einföldun skattkerfis

Stjórnin ætlar að innleiða á ný frítekjumörk vegna atvinnutekna og fjármagnstekna sem voru rýrð og aflögð í júlí 2009. Það er gott. Ég var sjálfur í “Verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga” sem lagði til slík frítekjumörk á árinu 2008.

Ég tel að leið frítekjumarka í almannatryggingakerfinu sé farsæl, því henni fylgja heilbrigð hvataáhrif, til atvinnuþátttöku og sparnaðar. Stjórnin vill endurskoða hið nýja almannatryggingafrumvarp sem hvarf af braut frítekjumarka. Mér finnst það athyglisvert.

Það er líka út af fyrir sig í fínu lagi að einfalda skattkerfið. Ég er enginn sérstakur talsmaður fjölþrepakerfisins í tekjuskattinum, því hægt er að ná sömu dreifingaráhrifum skattbyrðar með flötum skatti og háum persónuafslætti.

Það var jú jafnaðarmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson sem innleiddi flatan tekjuskatt hér á landi 1988, með mjög háum persónufrádrætti. Það var ágætt kerfi, þó vel megi hafa í því hátekjuskatt að auki, eins og var milli 1994 og 2005. Tvö þrep í stað þriggja getur þannig verið í lagi, með réttri útfærslu.

Það sem miður fór á þeim árum var hins vegar óeðlileg rýrnun persónufrádráttarins (skattleysismarkanna), sem bitnaði illa á lágtekjufólki.

Svo leggur nýja stjórnin mikla áherslu á samráð við aðila vinnumarkaðar og aðra hagsmunahópa í samfélaginu. Það er auðvitað í fínu lagi – svona upp að vissu marki. Ekki má þó gefa of mikið eftir af valdi stjórnmálanna til hagsmunasamtaka. En að tengja skattabreytingar eða velferðarumbætur við kjarasamninga getur vel átt rétt á sér og verið hagkvæmt.

 

Lítið um dólgafrjálshyggju

Svo hvernig stjórn verður þetta þá?

Samvinnustjórn, Framsóknarstjórn, Sjálfstæðisstjórn, samráðsstjórn, velferðarstjórn, þjóðleg stjórn?

Dómur reynslunnar svarar því að leiðarlokum. En út úr stjórnarsáttmálanum má lesa forsendur allra þessara skilgreininga – í mismiklum mæli þó. En lítil merki er þar að finna um róttæka frjálshyggju.

Ég er harður gagnrýnandi frjálshyggju og tel því mikilvægt að henni sé haldið í skefjum. Fátt ógnar meira velferð almennings en dólgafrjálshyggja, eins og sú er tíðkaðist hér á árunum fram að hruni.

Vonandi farnast stjórninni vel að vinna í þágu almannahagsmuna – eins og hún segist ætla sér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.5.2013 - 10:05 - FB ummæli ()

Veiðigjaldið blífur – en breytist

Eitt stærsta framfarmál síðasta kjörtímabils var álagning hins nýja veiðileyfagjalds. Með því varð loksins tryggt að útvegsmenn greiddu sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlind þjóðarinnar. Áður voru hér einungis sýndargjöld fyrir veiðileyfin.

Tekjurnar af gjaldinu renna til samgönguframkvæmda um land allt, til nýsköpunar í atvinnulífi og í önnur framfaramál. Veiðigjaldið fjármagnar jafnvel mikilvæga hækkun barnabóta.

Margir hafa velt fyrir sér hvort ný ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks myndi leggja nýja veiðgjaldið af. Ritstjóri Morgunblaðsins, fréttabréfs LÍÚ, heimtar aflagningu þess – strax í sumar!

Það er ánægjulegt að forystumenn nýju ríkisstjórnarinnar ætla ekki að fara að tilmælum ritstjórans og leggja gjaldið niður, heldur breyta því.

Eftirfarandi kom fram í viðtali RÚV við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í morgun:

„Það er samstaða um að gera breytingar á veiðigjaldinu, enda er það mjög skaðlegt eins og það hefur verið reiknað af litlum og meðalstórum fyrirtækjum,“ svaraði Sigmundur Davíð, aðspurður um hvort veiðigjald yrði fellt niður. Hann sagði að því verði breytt þannig að það taki meira mið af hagnaði fyrirtækja en nú sé, svo það ýti ekki undir samþjöppun í greininni.

Þetta er ágæt niðurstaða. Það voru gallar á útfærslu gjaldsins. Gallarnir verða lagaðir.

En þjóðin mun áfram njóta tekna af veiðigjaldinu til góðra framfaramála.

Það er skynsamleg niðurstaða, enda fjármál ríkisins viðkvæm.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.5.2013 - 08:48 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan – óvinur velferðarríkisins

Velferðarríkið hefur verið kallað ein merkasta uppgötvun siðmenningarinnar.

Það bætir kjör þeirra sem hölllum fæti standa, tryggir lífsafkomu almennings gegn tímabundnum áföllum og leggur byrðar kostnaðarins á breiðari bökin, þá sem meiri greiðslugetu hafa. Það er öflugasta tæki samtímans til að draga úr fátækt.

Frjálshyggjumenn á Vesturlöndum sjá hins vegar enga kosti við velferðarríkið. Þeir vilja rífa það niður og láta markaðinn einan um að skammta fólki lífsviðurværi. Jafnvel þó fátækt myndi stóraukast.

Þeir eru almennt á móti ríkisvaldinu og vilja ekki greiða skatta til samneyslunnar, jafnvel þó skattar bæti samfélagið.

Milton Friedman sagði í bók upp úr 1980 að bandarísku samfélagi stafaði meiri ógn af velferðarríkinu en af kjarnorkuvæddum Sovétríkjunum!

Bandarískir frjálshyggjumenn og aðrir hægri öfgamenn hafa þá stefnu að svelta velferðarríkið með skattalækkunum. Þeim er alveg sama þó skattalækkanir leiði til halla á ríkisbúskapnum, því þeir telja að þá sé auðveldara að neyða þingið til að lækka útgjöld til velferðarmála.

Þeir kalla þessa kenningu sína “starving the beast”. Vilja svelta velferðarríkið til dauða með skattalækkunum. Velferðarríkið er “skrímsli” í hugum sumra þeirra.

Margrét Thatcher vildi ráðast að velferðarríkinu og skera útgjöld til þess stórlega niður árið 1982. Það mætti hins vegar mikilli andstöðu innan hennar eigin flokks, þar sem menn óttuðust fylgistap. Þá gaf hún sig og neitaði öllu. Áform hennar upplýstust hins vegar nýlega (sjá hér).

Frjálshyggjumenn nútímans hafa engu breytt. Þeir eru óvinir velferðarríkisins.

Þeir hafa almennt meiri áhyggjur af velferð fjárfesta og auðmanna en af velferð lífeyrisþega, sjúkra, barna og atvinnulausra.

Stundum þykjast þeir þó ekki vera andvígir velferðarríkinu, vegna þess að almenningur styður það.

Stefna frjálshyggjunnar er hins vegar ljós og skýr. Þeir vilja fríðindi og frelsi handa fjárfestum og atvinnurekendum og telja að það greiði fyrir hagvexti. Kalla það „atvinnufrelsi“. Hagvöxtur sé allt sem þarf til lífskjarabóta, jafnvel þó afrakstri hans sé misskipt og margir sitji eftir í fátækt.

Þannig er það einmitt í Bandaríkjunum, þar sem harðasta fátækt Vesturlanda þrífst í nábýli við mestu auðsæld samtímans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar