Miðvikudagur 15.8.2012 - 23:12 - FB ummæli ()

Þandist ríkið út fyrir hrun?

Oft er fullyrt að ríkið hafi þanist út á áratugnum fyrir hrun. Þetta er sagt fela í sér tilefni til að skera nú duglega niður útgjöld, ekki síst útgjöld til velferðarmála. Sífellt er talað um að báknið bólgni út.

Aðrir hafa fullyrt að meint mikil útþensla ríkisins á áratugnum fyrir hrun þýði að hér hafi ekki gætt frjálshyggjuáhrifa.

Báðar þessar fyllyrðingar eru hins vegar rangar.

Það segja gögn Hagstofu Íslands, sem sýnd eru á myndinni sem hér fylgir:

Myndin sýnir öll opinber útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Niðurstaðan er sú, að opinber útgjöld héldust svipuð á tímabilinu, sveifluðust í kringum 42% af landsframleiðslu. Opinberi geirinn óx sem sagt einfaldlega með þjóðarframleiðslunni. Hlutur hans í þjóðarbúskapnum hvorki stækkaði né minnkaði.

Í raun hefðu opinber útgjöld þó átt að aukast umfram landsframleiðsluna. Það er m.a. vegna þess að lífeyrisþegum og ungu fólki í skólakerfinu fjölgaði tiltölulega ört og meðalaldur þjóðarinnar hækkaði á þessum tíma. Allt kallar það á aukin opinber útgjöld. Sjá ítarlegri umfjöllun hér.

Það er því enginn fótur fyrir tali um að ríkið hafi þanist óeðlilega mikið út fyrir hrun. Enginn.

Eftir hrun jukust útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu tímabundið, vegna kostnaðar við fjármálahrunið. Það jafnast nú smám saman út.

Þróun opinberra útgjalda fyrir hrun segir heldur ekkert um hvort hér hafi gætt frjálshyggjuáhrifa eður ei. Meira um það síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 14.8.2012 - 15:36 - FB ummæli ()

Mogginn mærir hægri öfgamann

Auðmaðurinn Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikana í Bandaríkjunum, valdi sér nýlega meðframbjóðanda í varaforsetaembættið, mann að nafni Paul Ryan.

Sá er þekktur fyrir öfga-frjálshyggju og sérstaklega hraustlegar tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda. Hann vill líka lækka skatta á hátekjufólk verulega, þó þeir séu nú nær sögulegu lágmarki í Bandaríkjunum.

Paul Ryan telur að allt sem lýðkjörin ríkisstjórn geri sé verra en það sem gert er á svokölluðum frjálsum markaði, eða í einkageiranum. Þó fjármálahluti einkageirans í USA hafi steypt Bandaríkjunum í mestu kreppu frá fjórða áratug síðustu aldar, þá dregur það ekkert úr oftrú frjálshyggjuróttæklinga á einkageiranum!

Óháð úttekt Congressional Budget Office (CBO) á niðurskurðartillögum Paul Ryans á síðasta vetri sýndi að um 60% af niðurskurðartillögum hans myndi bitna á fátækum Bandaríkjamönnum, sem margir hverjir búa við ömurleg kjör. Hann vill líka einkavæða velferðarkerfið sem mun þrengja kost fátækra enn frekar.

Kosningapakki bandarískra Repúblikana er þá svona: Leiftursókn gegn kjörum fátækra og fólks í millistétt og ríflegar skattalækkanir til stóreigna- og hátekjufólks.

Skattalækkanir til yfirstéttarinnar í USA verða í reynd meiri en niðurskurður útgjalda, þó mikill sé, og mun halli á ríkisbúskapnum því ekki minnka næstu áratugina. Þetta kallar Moggaleiðarinn mikið vit í efnahagsstjórn!

Það kemur kanski ekki á óvart að ritstjóri Morgunblaðsins, sem er í eigu auðmanna, skuli dást að slíkri frjálshyggjustefnu í Bandaríkjunum. Hann reyndi að framkvæma skylda skattastefnu hér frá 1995 til 2004, þó niðurskurður þá hafi ekki verið af þeim toga sem nú er boðaður.

Íslenskir frjálshyggjumenn og auðmenn þeirra sækja reyndar allar sínar hugmyndir nú á dögum í þær smiðjur sem Paul Ryan notar. Það eru svokallaðir “think tanks” hægri öfgamanna, sem fjármagnaðir eru af auðmönnum þar vestra. Þetta eru réttnefndar “áróðursveitur auðmanna”.

Sjálfstæðismenn eru þegar farnir að reifa niðurskurðarleið sína (sjá hér).

Ef hugmyndir Ryans og róttæklinganna í Repúblikanaflokknum verða framkvæmdar fer bandaríska velferðarkerfið á það stig sem það var á fyrir New Deal aðgerðir Franklin D. Roosevelts á kreppuárunum, að mati CBO.

Um 80 ára framfarir í félagsmálum verða þurrkaðar út. Út af fyrir sig væri fróðlegt að sjá þetta framkvæmt – en án efa dapurlegt fyrir íbúa Bandaríkjanna.

Það er gott fyrir íslenskan almenning að vita hvernig hérlendir hægri róttæklingar hugsa og ber að þakka fyrir hreinskilnina sem leiðari Moggans sýnir.

Við vitum hver stefnan þar á bær er.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.8.2012 - 21:55 - FB ummæli ()

Risastökk í nýsköpun hefst 2013

Í hinni snjöllu Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, sem ríkisstjórnin samþykkti í vor með liðsinni Guðmundar Steingrímssonar, er boðuð bylting í íslenskum vísindum og tækniþróun – strax á árinu 2013.

Áætlunin byggir á fjármögnun með sölu eignahluta ríkisins í bönkunum og arðgreiðslum frá þeim, auk tekna af hinu nýja veiðigjaldi sem var samþykkt á Alþingi fyrir skömmu.

Þó slegið hafi verið af veiðigjaldinu á lokametrunum, til að friða pólitíska fulltrúa útvegsmanna (Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn), þá er fjármögnun nú að mestu tryggð.

Áformin gera ráð fyrir tvöföldun fjármagns í samkeppnissjóðum vísinda- og tæknisamfélagsins, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði Rannís. TVÖFÖLDUN!

Í hvorn þessara sjóða verða lagðar aukalega 750 milljónir króna og að auki verða settar 500 milljónir í markáætlanir til skilgreindra átaksverkefna í nýsköpun. Alls 2 milljarðar á ári. Átakið hefst strax á næsta ári.

Ríkisstjórnin byggir þessi áform að hluta á stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs og er þetta hluti af aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á þekkingarhagkerfið. Auk þess er lagt mikið fé til samgöngumála, í sóknaráætlanir landshlutanna og önnur atvinnuskapandi verkefni.

Í Vísinda- og tækniráði hefur menn dreymt um að auka fé í samkeppnissjóðum um langt árabil. Enginn þar átti þó von á tvöföldun núna eða á næstunni!

Við höfum ekki séð jafn myndarlegt átak í þágu vísinda og tækni á Íslandi fyrr. Ekkert slíkt gerðist í “góðæri” bóluhagkerfisins. Þetta eru því mikil  tíðindi.

Nú er mikilvægt að vísinda-, tækni- og nýsköpunarsamfélagið taki fast í árarnar og leggi sitt af mörkum til öflugrar framþróunar þekkingarhagkerfisins á Íslandi.

Þessi stefnumörkun er í anda þess sem Svíar og Finnar gerðu eftir fjármálakreppur sínar upp úr 1990. Vonandi skilar þetta góðum árangri hér eins og var hjá þessum frændum okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 12.8.2012 - 13:39 - FB ummæli ()

Evrópuumræðan – á valdi vitfirringar

Það er dapurlegt að fylgjast með Evrópuumræðunni og hefur lengi verið.

Ríkisstjórnin samþykkti að fara í aðildarviðræður til að fá niðurstöðu um það, hvað aðild gæti falið í sér. Fá staðreyndirnar upp á borðið. Síðan skyldi leyfa þjóðinni að taka afstöðu á grundvelli þeirra samningsdraga.

Þetta er auðvitað sú leið sem skynsamt fólk myndi fara í öllum álitamálum. Fá staðreyndirnar fram og taka svo afstöðu.

Ég vil gjarnan eiga þess kost að sjá niðurstöðu samninga við ESB og taka svo afstöðu til aðildar. Ég hef ekki mótað mér neina afgerandi afstöðu til aðildar enn sem komið er. Evrópumálið er þó óneitanlega mjög mikilvægt fyrir framtíðarstefnumótun okkar sem þjóðar.

Sjálfur hef ég lengi talið að íslenska þjóðin myndi fella jafnvel góðan aðildasamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Það er t.d. of stutt síðan við fengum sjálfstæði og því auðvelt að gera aðild tortryggilega á grundvelli þjóðernisviðhorfa margs konar, hvort sem þau eiga við rök að styðjast eða ekki.

Umræðan hefur hins vegar orðið vitfirrtari eftir því sem málinu hefur fram undið. Kanski vegna þess að tímabundnir erfiðleikar í Evrópu gera allar efasemdir svo auðveldar.

Málflutningur andstæðinga ESB aðildar er sérstaklega ómerkilegur. Sumir þeirra skrifa 3 eða fleiri greinar á dag með upphrópunum og bulli um Evrópu. Þeir vilja hvorki fá staðreyndirnar fram né leyfa lýðræðislega kosningu um málið. Geta ekki talað um það af viti.

Þráðurinn í afstöðu margra ESB andstæðinga er þó augljóslega sá, að reyna að koma ríkisstjórninni illa. Reyna að kljúfa hana og koma henni frá. Það er greinilega höfuðmarkmið stjórnarandstæðinga með málflutningi sínum um Evrópumálin.

Sífellt eru settir út önglar með margvíslegum beitum og vonast eftir að einstakir VG menn bíti á. Nú síðast hefur Vigdís Hauksdóttir í Framsóknarflokknum sett út öngulinn með beitu um “aðlögunarferlið” og vonast eftir að Ögmundur, Svandís, Katrín o.fl. bíti á – og stjórnarsamstarfið lendi í uppnámi. Styrmir, Björn Bjarnason, eigendur Moggans og fleiri standa á bakkanum og ærast af spenningi!

Stjórnarandstaðan veit auðvitað að slíkt uppnám og deilur innan stjórnarflokkanna – eina ferðina enn –veikir ríkisstjórnina gagnvart kjósendum, jafnvel þó ekki takist að fella hana.

Stjórnarflokkarnir eru hins vegar í þeirri góðu stöðu að endurreisnarstarf þeirra er að skila miklum árangri, sem væntanlega kemur betur og betur í ljós alveg fram að kosningum á næsta ári. Þeirra augljósi hagur er því að klára verkin og skila öllu í hús. Standa saman. Njóta síðan ávaxtanna.

Ef ekki er hægt að klára samningaviðræðurnar vel fyrir kosningar ættu stjórnarflokkarnir í sameiningu að skoða alvarlega að fresta viðræðunum þar til staða mála í Evrópu og framtíðarskipan ESB er orðin ljósari. Í Brussel myndu menn skilja slíka afstöðu.

Frestun yrði súr fyrir suma Samfylkingarmenn, einkum þá sem þegar eru búnir að móta sér afstöðu án þess að samningar hafi verið kláraðir. Hinir, sem hafa þá skynsömu afstöðu að vilja sjá samninginn fyrst, ættu að geta beðið. Óvissan í Evrópu segir okkur að bið geti verið skynsamleg við þessar aðstæður.

Síðan væri einnig athyglisvert að setja kostina bið eða framhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það gæti farið á hvorn veginn sem er. Aðrir valkostir kæmu einnig til greina. Kanski væri atkvæðagreiðsla besta leiðin fyrir stjórnarflokkana. Láta þjóðina leysa málið.

Það er líka athyglisvert við bæði atkvæðagreiðsluleiðina og biðleiðina að með báðum væru ansi mörg vopn slegin úr höndum stjórnarandstöðunnar.

Er ekki mikilvægast fyrir stjórnarflokkana að klára sitt íslenska endurreisnarstarf og leggja þann árangur sem þar næst, ásamt framtíðarsýn, í dóm kjósenda næsta vor?

Evrópumálin verða hvort eð er ekki endanlega útkljáð á þessu kjörtímabili. Á meðan erum við auðvitað með 70% aðild í gegnum EES!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.8.2012 - 11:16 - FB ummæli ()

Niðurskurður – Veik rök Illuga Gunnarssonar

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn af fáum þar á bæ sem hægt er að taka alvarlega. Hann er oft vandaður og rökfastur í málflutningi.

Illugi skrifaði grein í Morgunblaðið um daginn þar sem hann varði róttæka niðurskurðarstefnu, sem er höfuðstefna Sjálfstæðisflokksins nú, sem og í gegnum alla kreppuna.

Illugi er hins vegar á villigötum í þessari grein og hefur veik rök fyrir málstað sínum og Sjálfstæðisflokksins.

Það er þó rétt hjá Illuga að skuldir ríkissjóðs eru orðnar afar miklar, vegna kostnaðar við frjálshyggjuhrunið og minni tekna í kreppunni. Að hluta eru þó eignir á móti þessum skuldum og nettóstaðan því mun skárri. Það er þó ástæða til að hafa áhyggjur af skuldastöðunni.

Hins vegar lýsir Illugi stefnu og árangri ríkisstjórnarinnar af talsverðri ónákvæmni og ósanngirni.

Stefna ríkisstjórnarinnar, í samstarfi við AGS og frændþjóðirnar á Norðurlöndum, fól í sér blandaða leið niðurskurðar og tekjuaukningar, með skattahækkunum á þá sem greiðslugetu hafa (einkum tekjuhærri heimilin og stóreignafólk; aðrir fengu skattalækkun). Tekjutilfærslur til heimila voru einnig auknar. Skattahækkanir á breiðu bökin minnkuðu þörfina á niðurskurði um helming.

Sú stefna er að skila ótrúlega góðum árangri, bæði í minnkun hallans á ríkisbúskapnum og í vörn gegn verstu áhrifum kreppunnar á kjör heimilanna. Ef stefnu Sjálfstæðisflokksins hefði verið fylgt hefði niðurskurðurinn orðið tvöfaldur.  Gáið að því!

Hver væru kjörin þá? Eða atvinnuleysið? Eða staðan í heilbrigðiskerfinu?

Nú vilja Sjálfstæðismenn gefa í og skera harkalega til viðbótar; í heilbrigðisþjónustu, skólum, almannatryggingum og öðru. Vill þjóðin það? Væri það gott fyrir þjóðina? Ég held ekki.

 

Tvær meginleiðir

Valið í dag er nokkurn veginn um þessar tvær meginleiðir: Róttækan niðurskurð opinberra útgjalda (sem er einkum niðurskurður í velferðarmálum, þar sem stærstu útgjöldin eru) eða velferðar- og örvunaraðgerðir (líkt og ríkisstjórnin framkvæmir nú).

Í raun er þetta val um frjálshyggjuleið (niðurskurð opinberra umsvifa) eða keynesíska hagstjórnarleið sem gafst vel í kreppunni á 4. áratugnum. Þær þjóðir sem hafa farið harkalega í niðurskurð eru nú í verstri stöðu, jafnvel enn á leiðinni niður. En Íslandi gengur betur en flestum kreppuþjóðum – svo eftir er tekið.

Illugi vísar til rannsóknar sem fræðimenn við Harvard háskóla í USA gerðu (Alesina o.fl. 2009), sem rökstuðning fyrir skynsemi niðurskurðarleiðarinnar. Boðskapurinn er sá, að niðurskurður geti stöðvað skuldasöfnun fyrr og styrkt forsendur hagvaxtar.

Þessar rannsóknir Harvard-manna hafa hins vegar verið harðlega gagnrýndar fyrir ófullnægjandi aðferðafræði og villandi niðurstöður, af mörgum sérfræðingum um málefnið (t.d. Romer, Wren-Louis, DeLong og Summers, Krugman o.fl.).

Sérfræðingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hafa einnig nýlega gagnrýnt aðferðafræði þessara rannsókna og gert sjálfir mun viðameiri rannsókn sem byggir á reynslu síðustu 30 ára og sýnir hið gagnstæða (Guajardo o.fl. 2011).

Niðurstöður AGS eru þær, að niðurskurður ríkisútgjalda um 1% af VLF leiðir að meðaltali til 0,6% samdráttar þjóðarframleiðslu, 0,3% aukningar atvinnuleysis og 0,8% samdráttar einkaneyslu og fjárfestingar innan tveggja ára. Samkvæmt þessu er ótvírætt að niðurskurður í kreppu eykur vandann. Einn af meðhöfundum Alesina (Perroti 2011) viðurkennir nú að aðferð AGS sé betri en aðferð Alesina og félaga.

 

Vítahringur niðurskurðar og samdráttar – eða örvun?

Aukinn samdráttur í miðri kreppu getur þannig leitt til vítahrings samdráttar og enn meiri niðurskurðar, sem magnar skuldavandann og þrengingarnar, í stað þess að leysa vandann. Keynesíska leiðin hins vegar hægir á niðurskurði til skemmri tíma og gefur í með örvunar- og velferðaraðgerðum. Lögð er  áhersla á að koma hagvexti af stað og minnka atvinnuleysi sem fyrst. Þá verður í framhaldinu auðveldara að greiða skuldirnar hraðar á uppsveiflunni, með þjóðartekjum sem eru orðnar meiri vegna vaxtarins.

Þá spyrja menn hvort hægt sé að laga kreppu í skuldugu samfélagi með enn meiri skuldum? Svar Paul Krugmans, í anda Keynes, er ! Það er hægt.

Ef hægt er að endurræsa hagvöxt og fækka atvinnulausum, styttist fljótt í stöðvun skuldasöfnunar og stækkun þjóðarkökunnar, sem léttir róðurinn. Niðurskurður dýpkar hins vegar kreppuna og seinkar tekjuaukningu ríkisins, sem getur magnað skuldavandann í stað þess að minnka hann, segir Krugman.

Við sjáum sýnikennslu í áhrifum þessara tveggja leiða nú, einkum í Evrópu. Þær þjóðir sem eru að skera duglega niður í djúpri kreppu fara í aðra kreppudýfu (double-dip recession). Þetta á til dæmis við um Spán, Grikkland, Írland og Bretland.

Ísland, sem er á keynesísku og norrænu velferðarleiðinni, er hins vegar með ágætan hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi og jafnframt að stöðva skuldasöfnunina á næsta eða þarnæsta ári og hefja niðurgreiðslu skulda.

Valið er því auðvelt milli þessara leiða, eins og Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sýnir í nýrri bók (End This Depression Now). Hér eru nokkrar heimildir fyrir lesendur til að glöggva sig frekar á þessari umræðu: Romer, rannsókn AGS, DeLong og Sumers, Krugman, Wren-Louis, Chowdhury.

Ef rök málsvara Sjálfstæðisflokksins eru ekki betri en þessi hjá Illuga, þeirra besta manni, þá er málefnastaða flokksins veik.

 

Niðurskurður: hagsmunir og hugmyndafræði

Niðurskurðarleiðin leggur að auki þyngstar byrðar á lægri og milli tekjuhópa en hlífir gjarnan hátekju- og stóreignafólki. Kanski það sé helsta ástæðan fyrir vilja Sjálfstæðisflokksins til að fara þá leið, þegar öllu er á botninn hvolft?

Svo er niðurskurðarleiðin auðvitað í takti við trúarbrögð frjálshyggjunnar, sem eru þau að ríkið beri að minnka, hvað sem það kostar.

Ekki síst velferðarríkið!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 10.8.2012 - 09:17 - FB ummæli ()

Poppari í pólitík

Bandaríski tónlistarmaðurinn Ry Cooder er mjög pólitískur. Hann hefur áhyggjur af Mitt Romney og Repúblikanaflokknum, sem hann segir vera á góðri leið með að eyðileggja Bandaríkin (sjá viðtal við hann hér).

Ry Cooder hefur gert fjölda tóndiska og átti meðal annars mikinn þátt í að endurvekja hina skemmtilegu kúbversku sveit Buena Vista Social Club aftur til lífsins, sem vakti heimsathygli.

Nýlega gaf hann út disk sem innlegg sitt í baráttuna um forsetaembættið í Bandaríkjunum og beinir honum gegn framboði Mitt Romneys. Diskurinn heitir Election Special.

Hann segir Mitt Romney vera hættulegan og grimman mann. Romney er auðmaður sem efnaðist á fjármálabraski, en jafnframt mormóni. Hann sameinar því trúarhita sértrúarfólks og auðmennsku, sem mörgum finnst hættuleg blanda.

Ry Cooder vísar til ummæla bandaríska bókmenntamannsins kunna, Gore Vidal, sem lést nýlega. Vidal var spurður hvað honum þætti um Repúblikanaflokkinn nú orðið. Hann sagði þá ekki vera venjulegan stjórnmálaflokk lengur. Líkja mætti hugarfari þeirra við hugarfar Hitlers æskunnar. Þeir væri á leið sem myndi eyðileggja Bandaríkin.

Í þessu sambandi er athyglisvert að frjálshyggjuróttæklingarnir í Sjálfstæðisflokknum hér á landi sækja pólitískar hugmyndir sínar í auknum mæli í sömu smiðjur og Repúblikanar í Bandaríkjunum, þ.e. í áróðursveitur eins og Cato Institute, Heritage Foundation, American Enterprise Institute o.fl.

Hannes Hólmsteinn segir t.d. að þetta séu allt vinir sínir. Hann er með stórtæk áform um að flytja slíka áróðursmenn inn á færibandi til Íslands í vetur (sjá hér)

Undanfarið hefur atvik er varðar hund Mitt Romneys verið mikið milli tannanna á fólki þar vestra. Romney lét hundinn dvelja í kassa á þaki bíls síns á 12 tíma ferðalagi og sagði hundinn hafa haft gaman að. Hundurinn var hins vegar svo skelfingu lostinn að hægðir gengu niður af honum og yfir afturhluta bílsins.

Hér er skondið lag Ry Cooders um þetta atvik.

 

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 9.8.2012 - 09:31 - FB ummæli ()

Skattpíning fyrirtækja á Íslandi?

Talsmenn atvinnulífsins og róttæklingar frjálshyggjunnar halda úti síbylju um að skattpíning fyrirtækja sé óhófleg á Íslandi og hafi hækkað úr öllu valdi. Þeir fara offari.

Í gær söng formaður Samtaka iðnaðarins þuluna. Hún er alltaf eins. Nú eru skapandi bókarar á KPMG sagðir höfundar lags og texta. Boðskapurinn var sá að Ísland ætti Evrópumet í hækkun skatta og allt væri að fara til andskotans í atvinnulífinu.

Samt er hér meiri hagvöxtur en í öðrum hagsælum ríkjum á Vesturlöndum!

En hvað segja staðreyndirnar um skattpíningu fyrirtækja?

Skoðum til dæmis nýjar tölur OECD um skattlagningu fyrirtækja (www.oecd.org):

Á myndinni má sjá að skattlagning á hagnað fyrirtækja er með minnsta móti á Íslandi af 34 OECD-ríkjum, þó ríkisstjórnin hafi hækkað hana úr 15% 2008 í 20% nú.

Það eru einungis 5 lönd sem hafa lægri skattlagningu fyrirtækja en Ísland árið 2011. Þau eru Slóvakía, Pólland, Ungverjaland og Tékkland með 19% og svo Írland með 13%.

Fjögur lönd eru með svipaða skattbyrði fyrirtækja og Ísland, þ.e. Grikkland, Chile, Slóvenía og Tyrkland. En Japan og Bandaríkin eru með helmingi meiri skattlagningu fyrirtækja en Ísland, eða 39-40%.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja allar meiri skatta á fyrirtæki en Ísland. Samt gengur flest mjög vel í þeim löndum.

Ef við skoðum hverju tekjuskattur á fyrirtæki skilar í ríkissjóð, sem % af vergri landsframleiðslu, þá er Ísland í 4. neðsta sæti 2010.

Fyrir hrun var búið að færa atvinnurekendum, fjárfestum og bröskurum ótrúleg fríðindi í skattamálum á Íslandi. Betri en í sumum erlendum skattaparadísum. Hófleg hækkun skatta á þá eftir hrun hefur litlu breytt. Skilyrðin eru enn góð.

Það eru því staðlausir stafir hjá talsmönnum atvinnulífsins og hægri róttæklingum þegar þeir fullyrða að fyrirtæki séu sérstaklega skattpínd á Íslandi.

Íslensk fyrirtæki eru með einna minnstu skattlagninguna sem þekkist í hagsælli ríkjunum.

Spurningin er þá hvort atvinnurekendur telji að þeir eigi ekki að bera kostnað af hruninu? Eiga þeir að vera stikkfrí eftir að hafa grætt óhóflega á árunum fyrir hrun og átt sjálfir stóran hluta í orsökum hrunsins?

Margir af forystumönnum atvinnulífsins þá og nú voru framarlega í útrás og braski bulláranna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 8.8.2012 - 12:14 - FB ummæli ()

Skattbyrði lágtekjufólks – þá og nú

Í gær heyrði ég góðan mann segja í útvarpi að skattbyrðin hjá okkur væri komin upp úr öllu valdi. Það á ekki við um lágtekjufólk eða millitekjufólk, eins og hér verður sýnt.

Fyrir skömmu birti ég pistil um skattbyrði hátekjufólks fyrir og eftir hrun. Þar kom fram að skattbyrði hátekjufólks hefur hækkað, en er þó ekki hærri en hún var 1995. Hún er alls ekki hærri nú en á hinum Norðurlöndunum eða víða í Evrópu.

Hvað segja staðreyndirnar um skattbyrði lágtekjufólks fyrir og eftir hrun?

Myndin sýnir þróun skattbyrðarinnar frá 1996 til 2010.

Mynd 1: Skattbyrði lágtekjufólks og millitekjufólks, 1996 til 2010. Hjón og sambýlisfólk.

Lágtekjufólk eru þau 10% fjölskyldna sem eru með lægstu heildartekjurnar en millitekjufólk eru þeir sem eru í miðju tekjustigans.

Lágtekjufólk var með neikvæða skattbyrði um -6% í byrjun tímabilsins, þau fengu meira frá skattinum en þau greiddu (þ.e. þau fengu barna- og/eða vaxtabætur en greiddu ekkert í skatt). Síðan dró úr meðgjöfinni til lágtekjufólks jafnt og þétt til 2001 er skattbyrðin varð jákvæð um 0,8% og áfram hækkaði skattbyrðin til 2004, er hún náði hámarki í um 4,1% af heildartekjum.

Síðan lækkaði skattbyrði lágtekjufólks lítillega árið á eftir og hélst þar til 2007 uns hún lækkaði lítillega á árinu 2008, úr um 3% í 2,1%.

Loks lækkaði skattbyrðin umtalsvert eftir hrun niður í -3% árið 2010. Þannig varð hún aftur neikvæð, þ.e. lágtekjufólk fékk meira frá skattinum en það greiddi á ný.

Skattbyrði lágtekjufólks varð minni eftir hrun en hún hafði verið öll árin frá 1999 til 2008.

Línan á myndinni sýnir svo þróun skattbyrðarinnar hjá millitekjufólki. Hún hækkaði úr 17,9% árin 1996-7 upp í 22,1% árið 2004 er hún náði hámarki. Þá lækkaði hún stig af stigi uns hún náði lágmarki 2009 í 18,5%. Svo hækkaði hún aftur lítillega í 18,9%.

Skattbyrði millitekjufólks var þannig eftir hrun minni en hún hafði verið öll árin frá 1998.

Skattastefnunni var því breytt umtalsvert eftir hrun, til hagsbóta fyrir bæði lágtekjufólk og millitekjufólk. Beinir skattar þeirra lækkuðu.

Skattbyrði beinna skatta jókst einungis hjá hátekjufólki.

 

Skýringar: Skattbyrði er það hlutfall heildartekna (fyrir skatt) sem fólk greiðir í beina skatta, eftir alla álagningu og alla frádrætti (persónufrádrátt / skattleysismörk, barnabætur, vaxtabætur, lífeyrisiðgjöld o.fl.). Tölurnar eru úr skattagögnum Ríkisskattstjóra og sýna raunskattbyrði, það sem fólk greiddi í raun í beina skatta af tekjum sínum. 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 7.8.2012 - 09:44 - FB ummæli ()

Framtíð Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ég hef unnið fyrir á kjördag. Ég sat á kjördeild í Keflavík og merkti við hverjir höfðu kosið til þings í það skiptið. Það var fyrir nokkuð löngu síðan.

Pabbi er frá Haukadal í Dalasýslu og þegar hann flutti á mölina þá tók hann framsókarstefnuna með sér. Mamma er frá Djúpavogi og þar var Eysteinn Jónsson leiðtogi Framsóknarmanna í miklum metum. Síðan eignaðist ég góðan vin í frænda mínum í Keflavík sem var fóstursonur eins af sonum Eysteins.

Það var því óhjákvæmilegt að afstaða til Framsóknarflokksins væri jákvæð í mínu umhverfi. Ég náði meira að segja svo langt að bera út dagblaðið Tímann í mínu hverfi. Fyrir utan persónuleg tengsl held ég að mitt fólk hafi séð í Framsóknarflokknum samstöðu með almenningi og landsbyggðinni og metið það. Sjálfstæðisflokkurinn þótti of hallur undir  yfirstéttina. Kommarnir of hallir undir Sovétríkin.

Ég fór að hugsa um þessa fortíð er ég las athyglisverða grein eftir Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, um einkenni og stöðu flokksins á Pressunni um daginn.

Það sem einkennir grein Jóns er óróleiki yfir sjálfsmynd og stefnu flokksins, efasemdir um núverandi forystumenn flokksins og ótti um afdrif hans í næstu kosningum.

Jón er hófsamur miðjumaður með frjálslynd viðhorf gagnvart atvinnulífi sem hann sættir vel við þjóðlega félagshyggju, sem átti sér djúpar rætur í flokknum á síðustu öld, einkum í dreifbýli sveita og þorpa og í tengslunum við samvinnuhreyfinguna og ungmennahreyfinguna.

Hann vill flokknum sínum vel – en er órólegur.

Ég skil hann vel.

Framsókn staðsetti sig lengi vel á miðjunni og reyndi að sameina að mörgu leyti öndverð sjónarmið. Á sjöunda áratugnum var sagt að hann væri opinn í báða enda og stefnan einkenndist af já, já – nei, nei stefnu. Þeir þóttu tækifærissinnar sem hefðu þá stefnu helsta að komast í ríkisstjórn – sama hvað það kostaði.

En þeir reyndu þrátt fyrir allt að halda tengslum í báðar áttir, eins og Jón Sigurðsson segir. Byggðu brú til vinstri til að geta vegið á móti alræðisvaldi Sjálfstæðisflokks og fjármálamanna. Urðu sjálfkrafa forystuflokkur í vinstri stjórnum fyrir vikið. Þeir þurftu líka að verja Samvinnuhreyfinguna gegn kaupmannavaldi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er nú allt breytt. Jón lýsir vel þeirri togstreitu sem fylgdi breyttum grundvelli Framsóknarflokksins: fækkun í landbúnaði og á landsbyggð; fjölgun í Reykjavíkurþéttbýlinu; hrun eða upplausn Samvinnuhreyfingarinnar, fyrst sem félagslegrar hreyfingar og síðar sem fyrirtækjaveldi.

Grundvöllur hinnar þjóðlegu félagshyggju, sem Jón kallar svo, molnaði undan flokknum. Í staðinn reyndu Halldór Ásgrímsson og Jón og fleiri að hasla honum völl sem miðjusinnuðum þéttbýlisflokki, jafnvel með jákvæða afstöðu til Evrópusambandsins. Þetta var línudans – sem mistókst að mati Jóns.

Framsókn missti síðan stöðu sína sem leiðandi flokkur á miðjunni til Samfylkingarinnar. Forsenda gömlu ímyndarinnar, hinnar þjóðlegu félagshyggju, er nú að miklu leyti farin.

Ég saknaði þess að Jón Sigurðsson botnaði alveg umbreytingu Framsóknarflokksins í hinu langa stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum frá 1995 til 2007. Það voru miklir örlagatímar fyrir íslenska þjóð. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu ótrúlega vel saman á þeim tíma, nánast runnu saman í einn flokk. Mér fannst það t.d. kristallast ansi vel eitt sinn er Guðni Ágústsson, þá ráðherra Framsóknar, mismælti sig og vísaði til sín og sinna sem “við Sjálfstæðismenn”!

Það sem greiddi fyrir mikilli samstöðu flokkanna á þeim tíma var sú staðreynd að þeir voru báðir í grunninn “fyrirtækjaflokkar”. Fulltrúar atvinnulífsins, eins og það var líka kallað. Á meðan Samvinnuhreyfingin var við lýði var Framsókn öðruvísi fyrirtækjaflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn.

Svo þegar samvinnureksturinn var að mestu horfinn af sjónarsviðinu, eða umbreyttur í “venjuleg fyrirtæki”, þá varð Framsókn einfaldlega alveg eins fyrirtækjaflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn. Hagsmunir atvinnurekenda áttu of greiðan aðgang að forystu flokksins og ríkisstjórninni. Viðskiptaráð sagði um stjórnir Davíðs og Halldórs að þeir hefðu fengið 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af þessum ríkisstjórnum.

Þetta voru ríkisstjórnir endurnýjaðrar helmingaskiptareglu, með tilheyrandi spillingu (skýrast við sölu ríkisbankanna), þar sem böndum var létt af öllum hömlum og aðhaldi á sviði fjármála og rekstrar. Velferðarmál voru látin mæta afgangi (lífeyrisþegar drógust afturúr öðrum og barnabætur og vaxtabætur rýrnuðu ár frá ári). Skattbyrði lágtekjufólks jókst en lækkaði hjá hátekjufólki.

Fríðindi atvinnurekenda og fjármálamanna í skattkerfinu voru aukin, sem aldrei fyrr. Galopnað var fyrir flutning verðmæta sem orðið höfðu til á Íslandi í erlend skattaskjól. Framsókn tók síðan forystu árið 2006 um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, sem var upphaflega hugmynd frjalshyggjuróttæklinganna í Sjálftæðisflokknum. Það var kastalinn sem hrundi.

Hagsmunir landsbyggðar urðu skilgreindir í Framsókn sem það sama og hagsmunir útvegsmanna með kvótakerfinu og þeirri einkavæðingu fiskimiðanna sem í því fólst. Rétt eins og útvegsmenn stæðu undir kostnaði við byggingu vega, skóla og heilsugæslustöðva!

Nú er svo komið að formaður Framsóknarflokksins, formaður þingflokksins og fleiri þar á bæ tala alla jafna eins og hörðustu og hrokafyllstu frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum. Kalla það góða hagfræði – þó þetta séu hugmyndirnar sem leiddu þjóðarbúskapinn afvega og í stærsta fjármálahrun sögunnar.

Að vísu eru einnig málefnalegir fulltrúar í þingliði Framsóknar, sumt auðvitað ágætis fólk, sem ekki verður sakað um ofangreinda dólgafrjálshyggju. Einhverjir aðrir en Jón Sigurðsson hljóta þó að vera órólegir um stöðu og framtíð flokksins.

Það virðist ekki vera að virka vel að formaður Framsóknar sé í keppni um hávaða við frjálshyggjuróttæklinga Sjálfstæðisflokksins, í bland við yfirboð á vettvangi lýðskrumsins, eins og í skuldamálum heimilanna (sem Jón nefnir).

Ég held því að vandi Framsóknarflokksins sé svolítið annar en kemur fram í grein Jóns Sigurðssonar. Mér sýnist Framsókn búin að grafa hina þjóðlegu félagshyggju að mestu og að flokkurinn muni eiga í miklum vanda með að aðgreina sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna held ég að Guðmundur Steingrímsson, hinn geðþekki og frjálslyndi félagshyggjumaður á miðjunni, eigi góða sóknarmöguleika gagnvart gömlu fylgi Framsóknar.

Faðir hans, Steingrímur Hermannsson, var einmitt vendilega staðsettur á miðjunni og náði að halda félagshyggjunni lifandi á sinni tíð, samhliða jákvæðu viðhorfi til atvinnulífsins. Steingrímur naut mun meira fylgis sjálfur en Framsóknarflokkurinn sem hann leiddi.

Það er auðvitað leiðinlegt að spá illa fyrir stjórnmálaflokki sem manni þótti vænt um – og kanski hef ég rangt fyrir mér um eitthvað í þessari greiningu.

Dómur reynslunnar sker auðvitað úr um allt slíkt!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.8.2012 - 14:09 - FB ummæli ()

Hækkun barnabóta – snjöll stefna

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu nýlega að ríkisstjórnin hygðist hækka barnabætur umtalsvert í fjárlögum næsta árs.

Þetta eru stór og merkileg tíðindi.

Margar rannóknir á afleiðingum hrunsins á lífskjör heimilanna hafa einmitt sýnt að ungt barnafólk varð fyrir sérsaklega miklu áfalli, einkum ef það hafði keypt húsnæði á árunum 2004 til 2008 (sjá t.d. hér og hér).

Kaupverðið var uppsprengt í bólunni og skuldirnar því hærri en áður hefur tíðkast hjá ungu fjölskyldufólki. Þegar krónan hrundi á árinu 2008 magnaðist vandinn, meira hjá þessum hópi en mörgum öðrum.

Hækkun barnabóta gerir þrennt sem skiptir afar miklu máli í núverandi stöðu þjóðarinnar:

  • Það er góð velferðarstefna sem léttir byrðum af stórum hópi sem varð sérstaklega illa úti í kreppunni
  • Það er efnahagsleg örvunaraðgerð í anda John Maynard Keynes, sem dróg lærdóm af kreppunni miklu á 4. áratugnum og lagði áherslu á að efla þyrfti eftirspurn neytenda til að koma hjólum efnahagslífsins á ferð á ný. Barnafólkið setur barnabæturnar beint út í neysluna, sem er gagnlegt.
  • Það jafnar lífskjaradreifinguna frekar, vegna þess að barnabæturnar fara mest til lægri og milli tekjuhópa. Einnig fer meira til þeirra sem eiga minna í húsnæði sínu og/eða eiga fleiri börn.

Ríkisstjórnin slær því margar flugur í einu höggi með þessari aðgerð. Hún bætir hag heimilanna, léttir byrðum vegna kreppunnar á réttlátan hátt og hjálpar til við að auka hagvöxtinn frekar og fjölga störfum.

Þá verður auðveldara að greiða niður skuldir í framhaldinu.

Hækkun barnabóta leggur þannig fleiri lóð á þær vogaskálar sem eru að koma okkur upp úr kreppunni. Ekki er ástæða til að hækka strax greiðsluþak í fæðingarorlofskerfinu. Leggja á sem mestan þunga á barnabæturnar sjálfar.

Úrtölumenn Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar að tala um mikinn niðurskurð. Þeir vilja fara leiðir Spánar, Írlands og Bretlands, þar sem hægri sinnuð stjórnvöld eru að dýpka kreppuna með róttækum og óréttlátum niðurskurðaraðgerðum. Þessar þjóðir eru á niðurleið – í enn dýpri kreppu.

Hægri menn vilja gjarnan nota tækifærið í kreppunni til að skera velferðarkerfin niður og lækka skatta á hátekjufólk og fjárfesta.

Stjórnvöld hér á landi eru hins vegar á réttri leið – leiðinni upp!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 2.8.2012 - 15:34 - FB ummæli ()

Benedikt Jóhannesson biður afsökunar

Ritdeila okkar Benedikts Jóhannessonar náði hámarki í gærkveldi með afsökunarbeiðni hans, vegna rangfærslu um meðferð mína á gögnum Hagstofu Íslands um tekjuójöfnuð. Hann dróg af rangfærslu sinni miklar ályktanir sem voru bæði rangar og meiðandi. Amx-ófrægingavefurinn stökk til og fullyrti að ég hefði falsað línurit! Þeir munu nú væntanlega draga það til baka og líka biðjast afsökunar. Spurning með Björn Bjarnason, sem einnig stökk á vagninn?

Málið er nú að baki og ég meðtek afsökunarbeiðni Benedikts.

Ritdeilunni er þar með lokið.

Ég verð í sólinni um helgina en Benedikt segist farinn á húkkaraballið. Vona að hann skemmti sér vel.

Góða helgi, góðir hálsar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.8.2012 - 13:26 - FB ummæli ()

Risaklúður Benedikts Jóhannessonar

Benedikt Jóhannesson rembist eins og rjúpan við staurinn við að gera athugasemdir við greinar mínar, sem virðast hafa komið illa við hann. Í dag sendir hann mér enn eina greinina og fullyrðir þar að ég hafi gert mistök við að birta tölur Hagstofunnar um tekjuójöfnuð frá 2003 til 2010. Segir Benedikt að ég hafi sett röng ártöl á tölur Hagstofunnar, fært allt um eitt ár afturábak.

Það er reyndar rétt. En það er einmitt það sem á að gera (sjá hér)!

Eins og Hagstofan sjálf upplýsir í skýrslum sínum, þá koma upplýsingar um tekjur hvers árs úr skattskrám ársins á undan! Þær tölur sem þeir birta fyrir árið 2004 eru tekjutölur fyrir 2003 og tölurnar fyrir 2009 eru tekjutölur fyrir 2008, o.s.frv. Það er því allt rangt sem Benedikt segir í þessari grein sinni.

Þar eð Benedikt sparar ekki hroka og yfirlæti í skrifum sínum væri nú við hæfi að hann biðji bæði mig og Hagstofuna afsökunar á kunnáttuleysi sínu um þau gögn sem hann vísar í.

Ég birti svo aftur hér að neðan grein mína sem stendur óhögguð í einu og öllu.

 

Þróun ójafnaðar – Mat Hagstofunnar 

Í umræðum síðustu daga hefur ójafnaðarþróun fyrir hrun borið á góma (t.d. hér og hér og hér). Þar er farið ranglega með og sagt að tölur Hagstofu Íslands rekist að einhverju leyti á það sem ég hef sagt og skrifað. Það er allt rangt.

Ég sýndi í nokkrum fræðilegum greinum með ábyggilegum gögnum að ójöfnuður hefði aukist á Íslandi fram að hruni og að sú aukning hefði verið óvenju mikil, samanborið við önnur lönd. Síðan hefði dregið úr ójöfnuði á ný eftir hrun (sjá t.d. hér og með öðrum höfundi hér).

Hægri menn fullyrtu á hinn bóginn að tekjuskiptingin hefði ekki orðið ójafnari fram að hruni. Einn þeirra fullyrti jafnvel að hún hefði orðið jafnari.

Hvað segja tölur Hagstofunnar um málið?

Mynd 1: Þróun Gini ójafnaðarstuðla fyrir ráðstöfunartekjur á mann, skv. könnunum Hagstofu Íslands.

Ójafnaðarstuðullinn fór úr 24 upp í tæplega 30 á 6 ára tímabili fram að hruni, sem er hækkun um 22,8%. Það er aukning ójafnaðar, en ekki óbreytt staða eins og hægri menn sögðu!

En er það mikil aukning? Já, mjög mikil.

Hækkun um eitt Gini stig á ári er mjög mikil aukning ójafnaðar. Ísland fór úr einna jöfnustu tekjuskiptingunni í Evrópu árið 2003 (2-3. sæti) upp í 18. sæti 2008, þegar mest var og síðan aftur niður í 8unda sæti 2010 (skv. könnunum Hagstofunnar og Eurostat).

OECD hefur viðmið um hvað teljist mikil aukning ójafnaðar. Þeir segja að hækkun Gini stuðuls um 1,2% á ári teljist “mikil breyting”, einkum ef hún er viðvarandi um eitthvert árabil.

Samkvæmt viðmiði OECD telst hækkun um 7,2% á 6 ára tímabili því vera “mikil aukning ójafnaðar”. Hér varð hækkunin sem sagt 22,8%, eða rúmlega þrisvar sinnum meiri en viðmið OECD!

Aukning ójafnaðar hér fram að hruni var því mjög mikil. Raunar finnst ekki dæmi á Vesturlöndum um aðra eins aukningu ójafnaðar á jafn skömmum tíma.

Samt sleppir Hagstofan hluta fjármagnstekna (söluhagnaði hlutabréfa og annara eigna) sem var óvenju mikill í íslenska bóluhagkerfinu. Þegar það er talið með (eins og gert er í gögnum Ríkisskattstjóra) þá er aukning ójafnaðar talsvert meiri en tölur Hagstofunnar þó benda til.

NIÐURSTAÐA: Aukning ójafnaðar hér á landi fram að hruni var mun meiri en sést hefur í öðrum vestrænum löndum. Raunar var hún fordæmalaus.

Umskipti til aukins jafnaðar eftir hrun voru einnig fordæmalaus. Nú er staðan svipuð og var á árinu 2003 eða fyrr.

Niðurstöður mínar og samstarfsmanna minna eru vendilega studdar af gögnum Hagstofunnar (eins og hér hefur verið sýnt), en einnig af skýrslum OECD og skýrslum Eurostat.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.7.2012 - 17:41 - FB ummæli ()

Þróun ójafnaðar – mat Hagstofunnar

Benedikt Jóhannesson rembist eins og rjúpan við staurinn við að gera athugasemdir við greinar mínar, sem virðast hafa komið illa við hann. Í dag sendir hann mér enn eina greinina og fullyrðir þar að ég hafi gert mistök við að birta tölur Hagstofunnar um tekjuójöfnuð frá 2003 til 2010. Segir Benedikt að ég hafi sett röng ártöl á tölur Hagstofunnar, fært allt um eitt ár afturábak.

Það er reyndar rétt. En það er einmitt það sem á að gera (sjá hér)!

Eins og Hagstofan sjálf upplýsir í skýrslum sínum, þá koma upplýsingar um tekjur hvers árs úr skattskrám ársins á undan! Þær tölur sem þeir birta fyrir árið 2004 eru tekjutölur fyrir 2003 og tölurnar fyrir 2009 eru tekjutölur fyrir 2008, o.s.frv. Það er því allt rangt sem Benedikt segir í þessari grein sinni.

Þar eð Benedikt sparar ekki hroka og yfirlæti í skrifum sínum væri nú við hæfi að hann biðji bæði mig og Hagstofuna afsökunar á kunnáttuleysi sínu um þau gögn sem hann vísar í.

Ég birti svo aftur hér að neðan grein mína sem stendur óhögguð í einu og öllu.

—————————————

 

Í umræðum síðustu daga hefur ójafnaðarþróun fyrir hrun borið á góma (t.d. hér og hér og hér). Þar er farið ranglega með og sagt að tölur Hagstofu Íslands rekist að einhverju leyti á það sem ég hef sagt og skrifað. Það er allt rangt.

Ég sýndi í nokkrum fræðilegum greinum með ábyggilegum gögnum að ójöfnuður hefði aukist á Íslandi fram að hruni og að sú aukning hefði verið óvenju mikil, samanborið við önnur lönd. Síðan hefði dregið úr ójöfnuði á ný eftir hrun (sjá t.d. hér og með öðrum höfundi hér).

Hægri menn fullyrtu á hinn bóginn að tekjuskiptingin hefði ekki orðið ójafnari fram að hruni. Einn þeirra fullyrti jafnvel að hún hefði orðið jafnari.

Hvað segja tölur Hagstofunnar um málið?

Mynd 1: Þróun Gini ójafnaðarstuðla fyrir ráðstöfunartekjur á mann, skv. könnunum Hagstofu Íslands.

Ójafnaðarstuðullinn fór úr 24 upp í tæplega 30 á 6 ára tímabili fram að hruni, sem er hækkun um 22,8%. Það er aukning ójafnaðar, en ekki óbreytt staða eins og hægri menn sögðu!

En er það mikil aukning? Já, mjög mikil.

Hækkun um eitt Gini stig á ári er mjög mikil aukning ójafnaðar. Ísland fór úr einna jöfnustu tekjuskiptingunni í Evrópu árið 2003 (2-3. sæti) upp í 18. sæti 2008, þegar mest var og síðan aftur niður í 8unda sæti 2010 (skv. könnunum Hagstofunnar og Eurostat).

OECD hefur viðmið um hvað teljist mikil aukning ójafnaðar. Þeir segja að hækkun Gini stuðuls um 1,2% á ári teljist “mikil breyting”, einkum ef hún er viðvarandi um eitthvert árabil.

Samkvæmt viðmiði OECD telst hækkun um 7,2% á 6 ára tímabili því vera “mikil aukning ójafnaðar”. Hér varð hækkunin sem sagt 22,8%, eða rúmlega þrisvar sinnum meiri en viðmið OECD!

Aukning ójafnaðar hér fram að hruni var því mjög mikil. Raunar finnst ekki dæmi á Vesturlöndum um aðra eins aukningu ójafnaðar á jafn skömmum tíma.

Samt sleppir Hagstofan hluta fjármagnstekna (söluhagnaði hlutabréfa og annara eigna) sem var óvenju mikill í íslenska bóluhagkerfinu. Þegar það er talið með (eins og gert er í gögnum Ríkisskattstjóra) þá er aukning ójafnaðar talsvert meiri en tölur Hagstofunnar þó benda til.

NIÐURSTAÐA: Aukning ójafnaðar hér á landi fram að hruni var mun meiri en sést hefur í öðrum vestrænum löndum. Raunar var hún fordæmalaus.

Umskipti til aukins jafnaðar eftir hrun voru einnig fordæmalaus. Nú er staðan svipuð og var á árinu 2003 eða fyrr.

Niðurstöður mínar og samstarfsmanna minna eru vendilega studdar af gögnum Hagstofunnar (eins og hér hefur verið sýnt), en einnig af skýrslum OECD og skýrslum Eurostat.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 30.7.2012 - 16:04 - FB ummæli ()

Tekjur eða laun? – Benedikt Jóhannessyni svarað

Benedikt Jóhannesson eigandi Frjálsrar verslunar sendir mér tóninn á Eyjunni í dag, vegna umfjöllunar um upplýsingar í tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Fyrir utan útúrsnúninga og tal um önnur mál, staðfestir Benedikt það sem fram kemur í pistli mínum. Hann reynir hins vegar að gera lítið úr því að fjármagnstekjur séu ekki taldar með sem hluti af því sem kallað er “tekjur” í FV.

Hann véfengir heldur ekki að fjármagnstekjur séu mestar í tekjuhærri hópum og dreifist því mjög ójafnt.

Benedikt segir m.a.: “Frjáls verslun birtir ekki upplýsingar um tekjur hópa heldur um útsvarsstofn 3.000 einstaklinga”.

Ég spyr: Hvers vegna heitir blaðið þá “Tekjublað Frjálsrar verslunar”?

Hvers vegna er það sem þar birtist kynnt sem “Tekjur 3000 Íslendinga”? Er það ekki villandi, eins og ég segi?

Hvers vegna heitir blaðið þá ekki “Launablað Frjálsrar verslunar”, eða það sem réttara er “Útsvarsstofn Íslendinga“? Tekjur eru annað og víðara en laun eða útsvarsstofn.

Síðan segir hann: “Stefán og félagar hans hafa hins vegar óhikað blandað saman öllum fjármagnstekjum og launatekjum. Það er á skjön við alþjóðlegar skilgreiningar”.

Þetta er alrangt. Í algengustu tekjutölum OECD og Evrópusambandsins (heildartekjur fyrir skatta og ráðstöfunartekjur eftir skatta og bætur), sem og í tölum Hagstofu Íslands, eru fjármagnstekjur meðtaldar (en söluhagnaði hlutabréfa og annarra eigna er sleppt). Söluhagnaður er hluti fjármagnstekna, en ekki allar fjármagnstekjur!

Í alþjóðlegum rannsóknum á tekjuskiptingu er algengast að nota heildartekjur eða ráðstöfunartekjur og telja helstu fjármagnstekjur með. Það gildir um OECD, Evrópusambandið (Eurostat), Luxembourg Incomes Survey og um flesta fræðimenn á sviðinu. Sú leið sem Benedikt vill fara í mati á tekjuskiptingu er nær hvergi notuð.

Auðvitað er líka gagnlegt að skoða laun fyrir tiltekin störf. Það er bara annað viðfangsefni en tekjur og skipting þeirra.

Síðan er nær allt annað rangt sem Benedikt segir um tekjuójöfnuð, kannanir Hagstofunnar og skrif mín og félaga um það viðfangsefni.

Fjalla nánar um það síðar.

Flokkar: Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 29.7.2012 - 11:04 - FB ummæli ()

Villandi tölur um tekjur á Íslandi

Nú er sá tími árs er tímaritið Frjáls verslun og dagblöð birta tölur um tekjur Íslendinga, upp úr skattskrám. Margir hafa áhuga á þessu enda sjálfsagt í lýðræðisþjóðfélagi að fyrir liggi upplýsingar um slíkt sem og um skattgreiðslur.

Hitt er verra að þær tölur sem birtar eru og kynntar sem upplýsingar um “tekjur” Íslendinga í ólíkum starfsgreinum eru vægast sagt villandi.

Það sem birt er eru vísbendingar (út frá útsvarsálagningu) um “launatekjur fyrir skatta”, sem er bara hluti af “tekjum” fólks. Það sem helst vantar eru fjármagnstekjur. Ef þær væru meðtaldar myndu tölurnar fara nærri því að sýna “heildartekjur fyrir skatt”.

Skiptir það máli?

Jú það skiptir verulegu máli, einkum fyrir upplýsingarnar um tekjur hátekjufólks, sem er með langmestar fjármagnstekjur.

Þær tölur sem birtar eru vanmeta því stórlega hærri tekjurnar í samfélaginu, einkum hjá hærri stjórnendum í einkageira. Frávikið er svo mikið að tölur Frjálsar verslunar og dagblaða um tekjur hærri stjórnenda og stóreignafólks eru nær marklausar.

Í eftirfarandi töflu má sjá hve stór hlutur fjármagnstekna er eftir tekjuhópum. Það sýnir það sem vantar inn í tölur Frjálsrar verslunar og blaða  um “tekjur” fólks í ólíkum tekjuhópum.

Miðað er við fjóra tekjuhópa: lágtekjufólk, miðtekjufólk, efstu 10% fjölskyldna og efsta 1% (ofurtekjufólk).

Hjá lágtekjufólki og millitekjufólki hefur hlutur fjármagnstekna verið lítill (2-5% heildartekna) og skiptir því almennt litlu máli þar. Nokkur aukning var eftir hrun (2008-9) vegna verðbólgu og hærri vaxta sem skilaði hærri vaxtatekjum af innstæðum í bönkum. Það hefur nú lækkað aftur.

Hjá hátekjufólki skipta fjármagnstekjur hins vegar umtalsverðu. Ef litið er á ofurtekjufólkið (tekjuhæsta 1% fjölskyldna) þá fór hlutur fjármagnstekna úr 16,5% 1995 upp í 85-86% á árunum 2005 til 2007. Launatekjurnar sem Frjáls verslun birti þá sem “tekjur hátekjufólks” voru innan við 15% af heildartekjum þeirra þau árin!

Tekjuhæsta fólkið er fyrst og fremst með fjármagnstekjur, ekki síst í góðæri eða bóluhagkerfi.

Hjá tekjuhæstu 10% fjölskyldna var hlutur fjármagnstekna 50-61% af heildartekjum á þessum árum.

Eftir hrun hafa fjármagnstekjur lækkað, en alls ekki horfið. Árið 2010, á botni kreppunnar, var tekjuhæsta 1% fjölskyldna með tæpan helming heildartekna sinna sem fjármagnstekjur og efstu 10% fjölskyldna voru með um 18%.

Nú í nýjasta skattframtali hafa fjármagnstekjur hækkað frá 2010 um á annan tug prósenta. Hlutur fjármagnstekna er því meiri nú en á árinu 2010.

Það virðist því ljóst að í tekjutölur hærri stjórnenda í einkageira, sem birtar hafa verið, vantar nú að jafnaði um og yfir helming heildartekna fyrir skatt, þ.e. fjármagnstekjurnar.

Tekjur tekjuhæstu hópanna eru því vantaldar sem þessu nemur í þeim upplýsingum sem Frjáls verslun og dagblöð birta núna.

Tölur um eignir stóreignafólks, sem nú eru líka birtar í blöðum, eru einnig stórlega vantaldar – en það er önnur saga.

 

PS!

Þar eð taflan er lítil og óskýr hef ég teiknað tölurnar úr henni á eftirfarandi mynd:

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar