Fimmtudagur 26.7.2012 - 11:07 - FB ummæli ()

Hólmsteinn á heilanum?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir í pistli í vikunni að ég sé með hann á heilanum!

Ef það væri rétt, þá væri ég bæði þunglyndur og önugur.

En ég er yfirleitt kátur og glaður og með fullt af áhugaverðum viðfangsefnum á heilanum.

Reyndar er það svo, að Hannes þessi hefur skrifað nærri 200 greinar um mig á síðustu 3-4 árum, allar bakkafullar af ósannindum og ófrægingum.  Nærri 200!

Sú sem hann skrifaði í vikunni endurtekur nokkur af þeim atriðum sem hann hefur skrifað tugi greina um. En hvert einasta atriðið sem hann nefnir er ósatt. Pælið í því.

Ég hef þó engu svarað þessum aragrúa greina hans! Ekki einni einustu.

Það sýnir hversu mikið ég er með hann á heilanum!

Hins vegar hóf ég nýlega að blogga hér á Eyjunni og hef stundum vikið orðum að Hannesi þar, þegar efnið hefur krafist þess.

Það er nefnilega þannig, að ef maður ætlar að skrifa um stöðu þjóðarinnar, reynslu síðasta áratugar og hrunið, þá er óhjákvæmilegt að víkja stöku sinnum orði að Hannesi.

Hannes Hólmsteinn var jú hugmyndafræðingur frjálshyggjutilraunarinnar sem Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn framkvæmdu á Íslandi – með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning.

Við þurfum að skoða allt það sem gerðist ofan í kjölinn til að varast að svo hörmulega takist til aftur. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess. Hluti þess sem gera þarf er að skýra gerðir og áhrif frjálshyggjuróttæklinganna sem yfirtóku Sjálfstæðisflokkinn.

Frjálshyggjumennirnir hafa hins vegar engu breytt í hugmyndum sínum og bíða þess eins að komast til valda á ný  – og byrja aftur að græða á daginn og grilla þjóðina á kvöldin, samkvæmt forskrift Hannesar!

Almenningi á Íslandi stafar því mikil ógn af þeim. Annar hrunadans í kringum gullkálfinn er ekkert grín.

Hannes og félaga hlýtur því stundum að bera á góma ef við viljum læra af reynslunni – án þess að þeir séu á heilanum á nokkrum manni.

Það vill enginn fara svo illa með sjálfan sig að vera með hirð Davíðs á heilanum!

En þó miklar hörmungar tengist áhrifum Hannesar Hólmsteins á íslenska þjóðmálaþróun á áratugnum fram að hruni þá má hann eiga eitt.

Sumt sem honum tengist er sprenghlægilegt – og ber að þakka fyrir það.

Ég  hló til dæmis mjög innilega er ég las fréttina um að Hannes og AMX-mykjudreifarinn hefðu í sameiningu fengið “frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar”, eins og greina má í þessari færslu:

Mykjudreifari hlýtur frelsisverðlaun.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.7.2012 - 13:50 - FB ummæli ()

Valdið bak við tjöldin

Jóhann Hauksson skrifar mjög athyglisverða grein í DV í dag um þræði valdsins á Íslandi. Jóhann, sem er vel menntaður félagsvísindamaður, skrifaði bók um þetta efni í fyrra sem dróg upp afar skýra mynd af valdasamþjöppuninni á Íslandi (Þræðir valdsins).

Megineinkenni valdakerfisins á Íslandi eru óvenju náin tengsl auðmanna, stjórnmálaflokka (einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar) og fjölmiðla. Mesta valdið liggur hægra megin í stjórnmálunum.

Vinstri menn eru oftast veikburða gagnvart valdi auðmanna og fjölmiðla. Áður fyrr var verkalýðshreyfingin meira til vinstri og mikilvægt mótvægisafl gegn þessum valdakjarna, en nú skiptir hún minna máli.

Dæmisaga Jóhanns fjallar um þessi tengsl eins og þau koma fram hjá LÍU, Morgunblaðinu og hægri flokkunum á Alþingi. Þó það vald sem þar situr sé mikið tókst þrátt fyrir allt, með samstöðu vinstri og miðjumanna á Alþingi, að sigra það í veiðigjaldamálinu.

Hér er grein Jóhanns, nokkuð löng en afar gagnleg innsýn:

Á dögunum var upplýst að Íslandsbanki hefði enn á ný afskrifað skuldir Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Ég staldraði við eftirfarandi viðbrögð Jónasar Kristjánssonar við þeim tíðindum: „Með nýjasta milljarðinum eru afskriftir Íslandsbanka af skuldum Moggans komnar yfir fimm milljarða. […] Allir, sem taka upp varnir fyrir þjóðina í orrahríð kvótagreifanna, sæta árásum og illmælum Moggans. Þetta er bezta dæmið um, að ekkert breyttist við þriggja ára stjórn annarra flokka. Bófaflokkur sjálfstæðismanna heldur samt fast um stjórnartaumana.“
Er vald sjálfstæðismanna mikið þrátt fyrir að við stjórnvölinn sé lýðræðislega kjörin ríkisstjórn annarra flokka? Og hverjar eru rætur þessa valds ef Jónas hefur rétt fyrir sér?
Auðvelt er að komast að því að útgerðarmenn og félög þeirra eiga a.m.k. 80% í Árvakri sem gefur út Morgunblaðið. Forvitnilegt er að skoða hluthafalistann og hverjir forsvarsmenn félaganna eru sem eiga samanlagt 99% Árvakurs undir hatti Þórsmerkur ehf. Á þessi tengsl benti Ingimar Karl Helgason blaðamaður í úttekt á Smugunni í febrúar síðastliðnum. Hér verða þau útfærð nánar.

 

Hvað sem það kostar
Stærsti eigandi Árvakurs (Þórsmerkur)  eru félög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum. Þau eru Hlynur A með 16,4% hlut og Ísfélagið sem á um 13,4% hlut. Fyrir Ísfélaginu fer Stefán Friðriksson sem á sæti í stjórn LÍÚ, Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Samanlagt er þetta um 30% ráðandi eignarhlutur. – Handgengnir Guðbjörgu eru Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson sem annarst fjármál Ísfélagsveldisins og Sigurbjörn Magnússon lögfræðingur, stjórnarformaður Árvakurs, en lögfræðistofa sem hann rekur á sjálf nærri 2% hlut í Árvakri. Óskar Magnússon, útgáfustjóri Árvakurs,  hefur einnig verið handgenginn Ísfélagsveldinu og Guðbjörgu og var meðal annars forstjóri Tryggingarmiðstöðvarinnar hf. á sínum tíma þegar hún var í meirihlutaeign Ísfélagsveldisins.Óskar er persónulega skrifaður fyrir litlum hlut í Árvakri en Ármót ehf., félag sem hann fer fyrir, á 12,3% hlut.

Allt eru þetta gallharðir sjálfstæðismenn og voru lengi í innsta hring Davíðs Oddssonar sem nú ritstýrir Útgerðarmogganum. Hér má bæta við að Friðbjörn Orri Ketilsson, sem stýrir penna á AMX-áróðursvefnum, er tengdasonur Gunnlaugs Sævars. Þess má geta að Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, er sonur Friðriks Sophussonar, en hann er formaður bankastjórnar Íslandsbanka (sem afskrifar skuldir Árvakurs)  og fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Segja má að bandalag þessara manna og félaga Guðbjargar Matthíasdóttur myndi samanlagt um 45% eignarhlut í Árvakri.
Næst stærsti útgerðarhluthafinn í Morgunblaðinu er Krossanes ehf. sem Þorsteinn Már Baldvinsson fer fyrir. Eign félagsins er um 18,5%. Kristján Vilhelmsson, frændi Þorsteins og meðeigandi í Samherja hf. situr í stjórn LÍÚ. Sjálfur sittur Þorsteinn Már í varastjórn LÍÚ. – Síldarvinnslan í Neskaupstað á liðlega 6% hlut í Árvakri en hún er í helmingseign Samherja. Því má segja að Samherji fari með um 23% hlut samanlagt í Árvakri. Forstjóri Síldarvinnslunnar er Gunnþór Ingvarsson en hann á sæti í stjórn LÍÚ.
Þriðji stærsti útgerðareigandi Morgunblaðsins er Kaupfélag Skagfirðing með liðlega 9 prósenta hlut. Forsvarsmaður KS í Árvakri er Sigurjón Rafnsson, einn nánasti samstarfsmaður Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra sem reyndar er náskyldur Davíð Oddssyni ritstjóra Moggans. Annar náinn samstarfsmaður Þórólfs, Jón Edvald Friðriksson, á sæti í varastjórn LÍÚ.
Rammi hf. á jafn stóran hlut og Síldarvinnslan eða 6,14% í Árvakri. Fyrir félaginu og eignarhlutnum fer Ólafur H. Marteinsson en hann á einnig sæti í stjórn LÍÚ.
Þingey ehf. á 4,1% hlut í Árvakri en forsvarsmaður fyrir hlutnum er Aðalsteinn Ingólfsson hjá Skinney Þinganesi og bróðursonur Halldórs Ásgrímssonar. Gunnar Ásgeirsson situr í stjórn LÍÚ fyrir hönd Skinneyjar Þinganess.
Páll H. Pálsson hjá Vísi í Grindavík er persónulega skrifaður fyrir rúmlega 2% hlut í Árvakri. Bróðir hans og meðeigandi, Pétur H. Pálsson á sæti í varastjórn LÍÚ.
Loks á félagið Skollaborg ehf. 1,72% í Árvakri en forsvarsmaður þessa félags gagnvart eignarhlutnum í Árvakri er Einar Valur Kristjánsson forstjóri Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf á Ísafirði.  Einar Valur á jafnframt sæti í stjórn LÍÚ.

 

Þar sitja þeir saman
Hér hafa verið nefndir 10 einstaklingar sem gæta samtímis hagsmuna í stjórn LÍÚ og Árvakurs. Þræðina má rekja í fleiri áttir eins og til Íslandsbanka, viðskiptabanka Árvakurs.  Nær undantekningarlaust tengjast öll nöfnin, um 25 alls, Sjálfstæðisflokknum en einnig Framsóknarflokknum. Sem dæmi sitja mennirnir 10 í stjórn og varastjórn LÍÚ fundi með Þorsteini Erlingssyni eiganda útgerðarinnar Saltvers á Suðurnesjum. Þorsteinn var um árabil bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og formaður stjórnar Sparisjóðs Keflavíkur meðan hann var skafinn að innan af vinum og klíkubræðrum.

Það virðist ekkert hlaupið að því að uppræta íslenska kunningja- og klíkuþjóðfélagið með opinberum aðgerðum. Enda er ekki um það að ræða að uppræta fjölskyldu- eða kunningjatengsl. Óheilbrigð tengsl af þeim toga verða aðeins upprætt með siðsemi, ráðvendni og prinsípfestu að vopni. Margfalt betur hefur gengið að reisa við efnahag þjóðarinnar eftir hrunið. Svo vel, að eftir er tekið langt út fyrir landsteinana.

Auk þess er engin samstaða innan stjórnmálastéttarinnar um hreingerningar af þessu tagi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur t.d.  kyrfilega læst ofan í skúffu samþykktir um að koma hrunverjum úr forystu flokksins og forherðist í sérhagsmunagæslu við fótskör þessa valds sem hér er lýst.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.7.2012 - 15:44 - FB ummæli ()

Skjaldborg um stóreignafólk

Þórður Snær Júlíussson er vandaður blaðamaður á Fréttablaðinu, ekki síst á sviði fjármála. Í dag skrifar hann öflugan leiðara um hvernig stóreignafólk var verndað í hruninu og segir meðal annars:

„Þegar öll innlán voru tryggð tók íslenska ríkið á sig nokkur þúsund milljarða króna ábyrgð á innlánum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að ef fimm milljón króna hámarksvernd hefði verið sett á innstæður þá hefðu skuldbinding ríkisins vegna þeirra verið 555 milljarðar króna miðað við umfang þeirra í maí 2008. Hefði slík aðferðarfræði orðið ofan á hefðu 95 prósent einstaklinga verið með allan sparnað sinn í vari. Sama hefði átt við um 90 prósent lögaðila. Stórir fjármagnseigendur hefðu verið látnir sitja uppi með stóran reikning. Þess í stað ábyrgðist ríkið eignir þeirra.

Samkvæmt niðurstöðu ESA voru kaup á ónýtum skuldabréfum úr peningamarkaðssjóðum líka ákvörðun stjórnvalda. Þau ákváðu því, með báðum þessum ákvörðunum, „að skýla fjárfestum frá enn stærra tapi á sparifé sínu“. Þetta gerðu þau á kostnað þeirra sem áttu lítið eða ekkert sparifé og gátu ekki tekið þátt í gullgrafaraævintýrum fyrir-hruns-áranna. Skattgreiðendur greiða reikninginn þótt einungis lítið brot þeirra hafi hagnast á ákvörðuninni. Það kann að vera samrýmanlegt við EES-löggjöf, en það er hvorki réttlátt né boðlegt“.

Það voru forsætisráðherra og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde og Árni Matthiesen sem léku lykilhlutverk í ákvarðanatöku um þetta. Samfylkingin sem var einnig í stjórninni sat hjá að því er virðist, eða lét þetta yfir sig ganga, eins og annað í ævintýralegri fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins á árunum fram að hruni.

Samfylkingin gerði í reynd mikil mistök að fela Sjálfstæðisflokknum alla mikilvægustu þætti fjármála og efnahagsmála í stjórnarsamstarfinu frá 2007.

Að auki hafði Sjálfstæðisflokkurinn æðsta yfirvald íslenskra peningamála, í höndum Davíðs Oddssonar sem aðalbankastjóra Seðlabankans. Það voru einkum Sjálfstæðismenn í bönkum og stjórnkerfinu sem stýrðu fjármálakerfi þjóðarinnar í ógöngur og endanlega fyrir björg.

Aldrei hefur verið almennilega upplýst hvers vegna ekki var látið nægja að verja sparifé upp að eðlilegu hámarki, t.d. 5 milljónum króna, eins og Þórður Snær nefnir. Um 95% sparifjáreigenda hefðu þar með verið varðir.

Vitað er að einstaklingar sem áttu fé að upphæð mörg hundruð milljónir og jafnvel yfir einn milljarð á sparireikningum nutu þarna mikils örlætis í formi tryggingar að hálfu skattborgara, sem margir bera nú þungar byrðar vegna fjármálahrunsins.

Það var í senn óþarft, óréttlátt og óverjandi.

Spyrja má hvort nálægð við forystu Sjálfstæðisflokksins hafi þarna ráðið miklu um að skjaldborg var reist um eignir stóreignafólks á innlánsreikningum og í peningamarkaðssjóðum? Margir helstu auðmenn landsins eru nátengdir og áhrifamiklir í Sjálfstæðisflokknum. Hvaða aðrar skýringar geta verið á þessu?

Sjálfstæðismenn reistu þannig skjaldborg um stóreignafólk í hruninu. Fyrir hrun höfðu þeir líka þjónað stóreigna- og hátekjufólki vel með miklum raunlækkunum á skattbyrði þeirra, auk annarra nýrra forréttinda.

Núverandi stjórnvöld geta hins vegar hælt sér af því að hafa að hluta varið lágtekju- og millitekjufólk gegn kjaraskerðingu hrunsins.

Þarna er ef til vill kominn skilgreinandi munur á hægri stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokks og vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Hægri menn reisa skjaldborgir um auðmenn en vinstri stjórnir reisa skjaldborgir um milli og lægri tekjuhópa.

Svo sjá vinstri menn auðvitað um skúringarnar!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 21.7.2012 - 13:37 - FB ummæli ()

Velferðarstefna Sjálfstæðisflokks – Niðurskurður alla leið!

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór mikinn í fjölmiðlum í gær. Sagði að stjórnvöld verði að skera miklu meira niður… “Við eigum ekkert val”, sagði hann.

Bjarni sagði velferðarráðherrann “veruleikafirrtan” að vilja frekar verja heilbrigðis- og velferðarkerfið en skera meira niður.

Tilefnið var að ríkisvaldinu hafði borist eingreiðslu bakreikningur, einkum vegna Sparisjóðs Keflavíkur (SpKef), sem gerði hallann á ríkissjóði á síðasta ári meiri en áætlað hafði verið.

Bjarni vill mæta þessu, eins og öllum öðrum kostnaði við hrunið, með niðurskurði velferðarmálanna, sem eru stærstu útgjaldaliðir hins opinbera.

Þessi stóri bakreikningur er þó kominn frá Sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ! Beinlínis frá sumum forystumönnum flokksins í bænum og sparisjóðsstjórninni, sem breyttu þessari áður traustu fjármálastofnun í braskbanka og tóku þátt í því sem hefur verið kallað “að tæma bankann innanfrá”. Núverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins kom þar við sögu.

Halló! Tókuð þið eftir þessu?

Sjálfur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í Valhöll er í miðju málinu!

Það er kanski þess vegna sem Sjálfstæðismenn hafa alla jafna mjög hátt um meint mistök Steingríms J. Sigfússonar, þegar kostnað við hrun SpKef ber á góma?

Samt voru það Sjálfstæðismennirnir Geir Haarde og Árni Matthiesen, þáverandi fjármálaráðherra, sem lofuðu að ríkið myndi tryggja allar innistæður í bönkum og sparisjóðum, alveg upp í top. Á kostnað skattborgara.

Steingrímur varð einfaldlega að efna það loforð, hvort sem hann léti SpKef fara á hausinn eða ekki.

Sjálfstæðismenn, sem stýrðu okkur inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og þaðan inn í hrunið, vilja nota “tækifærið” í fjármálakreppunni til að skera velferðarkerfið niður – svo um munar.

Það hefur verið lína þeirra út í gegnum kreppuna. Engar skattahækkanir á þá sem aflögufærir eru, heldur laga fjármál ríkisins með því einu að skera niður opinber útgjöld.

Ragnar Árnason, sem ásamt Hannesi Hólmsteini er helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar í flokknum,  sagði á fundi hjá Samtökum atvinnulífsins í janúar 2010, að við Íslendingar hefðum ekki efni á að reka velferðarkerfi af svipuðum gæðum og á hinum Norðurlöndunum. “Velferðarkerfið er að drepa okkur”, sagði Ragnar og bætti við, “við verðum að skera það niður”. Samt er velferðarkerfið hér minna en í Skandinavíu!

Þetta fékk góðan hljómgrunn í flokknum, Mogganum og hjá samtökum atvinnurekenda og fjárfesta. Þó var það brask auðmanna sem setti þjóðina á hausinn, en ekki velferðarkerfið!

Tvær meginstefnur eru nú uppi í viðbrögðum við fjármálakreppunni á Vesturlöndum: NIÐURSKURÐUR í anda frjálshyggju eða VELFERÐAR- og ÖRVUNARSTEFNA í anda John M. Keynes og Franklin D. Roosevelts.

Niðurskurður (austerity measures) miðar að því að minnka skuldir ríkisins strax, með miklum niðurskurði útgjalda. Það þýðir alla jafna miklar uppsagnir, mikið atvinnuleysi og mikla lækkun velferðarbóta og lífeyris. Heilbrigðiskerfi, almannatryggingar og skólar verða helst fyrir barðinu, því þar eru útgjöldin mest. Niðurskurðinum fylgir svo samdráttur efnahagslífs og dýpri kreppa.

Velferðarstefnan (stimulus and social protection) miðar að því að vernda velferðarkerfið og beita því til að verja lágtekjufólk og millitekjufólk við afleiðingum kreppunnar. Þegar hún er tengd skattahækkunum hjá tekjuhærri hópum felur þessi stefna í sér að atvinnuleysi verður minna og lífeyrisþegar og bótaþegar þurfa ekki að bera bagga kreppunnar í meiri mæli en aðrir.

Hér var þeim tekjulægstu reyndar hlíft. Neyslustig hélst hærra en ella og auðveldara var að koma hagkerfinu aftur af stað.

Evrópa og Bandaríkin eru nú á kafi í niðurskurðarstefnunni og það er einmitt hún sem er að dýpka kreppuna og magna upp hörmungar – ekki síst í Suður-Evrópu.

Á Íslandi var velferðarstefnunni beitt með miklum árangri. Við erum nú á leiðinni upp, langt á undan öðrum kreppuþjóðum. En þetta hefur vissulega verið erfitt.

Ef hins vegar stefnu Sjálfstæðisflokksins hefði verið fylgt hér eftir hrun hefði niðurskurður orðið helmingi meiri en þó varð. TVÖFALDUR!

Atvinnuleysi hefði orðið mun meira og ellilífeyrisþegar, öryrkjar, barnafjölskyldur og húsnæðisskuldarar hefðu borið mun þyngri byrðar. Það eru óhjákvæmilegar afleiðingar róttækrar niðurskurðarstefnu. Við sjáum afleiðingar slíkrar stefnu nú á Írlandi, Spáni, Portúgal og í Grikklandi.

En Sjálfstæðismenn hefðu þar með náð helsta markmiði frjálshyggju-róttæklinganna í flokknum – að rústa velferðarkerfinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 20.7.2012 - 16:38 - FB ummæli ()

Rödd skynseminnar

Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, er löngu þjóðþekktur fyrir ötula baráttu sína fyrir hag langveikra og öryrkja. Oftar en ekki er hann rödd skynseminnar á þeim vetvangi.

Í gær skrifaði hann grein í Fréttablaðið um forgangsröðun í baráttu ÖBÍ. Ég er sammála hverju orði í grein hans og birti hana hér orðrétt:

Mannréttindi eru ómetanleg í peningum. Samt sem áður eru mannréttindi brotin á fötluðum og öldruðum alla daga á Íslandi. Það hefur þó tekist með baráttu einstaklinga frekar en samtaka að mjaka okkur í rétta átt. Eitt af stærri verkefnum sem unnið er að þessar vikurnar er að Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði að veruleika á Íslandi. Allt að 30 árum á eftir öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Til þess að koma þessu af stað hefur ríkið lagt okkur til 150 milljónir árlega í 2 ár.

Við fatlaðir verðum að vega og meta hvað getur talist skynsamlegt að nota takmarkaða peninga til að lagfæra. Er það skynsamlegt af samtökum öryrkja að sóa tíma og peningum í lögfræðikostnað til að ógilda nýafstaðnar forsetakosningar? Kosningar sem með endurtekningu munu kosta það sama og við erum að fá til NPA-þjónustuformsins árlega. Ekki síst þegar þingmenn úr öllum flokkum hafa lýst því yfir að þetta verði eitt af þeirra fyrstu verkum á haustþingi til að leiðrétta.

Hver er forgangsröðun Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ)? Er það að halda uppi lögfræðingum í stríði við stjórnvöld? Eru að þeirra mati engin brýnni mál til að taka á?

Hvað með biðraðir fólks eftir matarúthlutunum? Hvað með að tosa upp bætur fólks? Hvað með að tryggja að allir fái vinnu við hæfi? Hvað með að fólk í hjólastólum komist út í Viðey?

Hvað með aðgengi almennt að stjórnsýslu og menntun? Hvað með að þjónusta sem ætluð er öllum sé leyfð á annarri hæð í lyftulausu húsi? Hvað með að aldraðir séu sviptir sjálfræði og fjárræði þegar þeim er komið fyrir á stofnun? Hvað með að efla virkniúrræði fólks sem í dag gerir ekkert? Hvað um aðgengi að húsnæði almennt?

Svo mætti lengi telja. Verkefnin eru endalaus og því sárnar mér tíma- og peningasóun ÖBÍ í eitthvað sem er í lagfæringarferli. Nema tilgangur kærunnar sé annar en að bæta hag öryrkja?

Þetta er ekki skynsamlegt að mínu mati og skora ég á ÖBÍ að snúa sér að öðrum og brýnni verkefnum.“

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.7.2012 - 00:47 - FB ummæli ()

Skattbyrði ríka fólksins – fyrir og eftir hrun

Egill Helgason hefur eftir grískum vini sínum í gær, að Grikkland komist ekki út úr kreppunni fyrr en ríka fólkið fari líka að borga til samfélagsins.

Það er mikið til í þessu.

Þetta var einmitt gert á Íslandi. Ríka fólkið var látið greiða hærri skatta eftir hrun og við erum á leið út úr kreppunni.

Fjármagnstekjuskattur var hækkaður og upp var tekið fjölþrepa skattkerfi með hærri álagningu á hærri tekjur. Skattar á lágtekjufólk voru hins vegar lækkaðir.

Á myndinni má sjá hvernig raunverulegar skattgreiðslur ríkustu 10% fjölskyldnanna í landinu þróuðust frá 1993 til 2010.

Myndin sýnir beina skatta sem hlutfall af heildartekjum fyrir skatt, hjá þessum ríkasta hluta þjóðarinnar. Allar skattskyldar tekjur eru meðtaldar, einnig allar álögur og allir frádrættir (Heimild: Gögn Ríkisskattstjóra; hjón og sambúðarfólk).

Árin 1993 til 1995 greiddi ríkasta fólkið um 31% heildartekna sinna í skatta. Það lækkaði svo verulega í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, niður í 17% árið 2007.

Skattbyrði þeirra lækkaði sem sagt um hátt í helming. Það var einstakt á Vesturlöndum. Mun meira en hjá Bush-stjórninni í USA.

Ríka fólkið á Íslandi naut þannig gríðarlegra forréttinda á árunum fram að hruni.

Eftir hrun hækkaði skattbyrði þeirra umtalsvert á ný, eða úr 17% og aftur upp í 31% árið 2010.

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og margir hægri stjórnmálamenn hafa kvartað hástöfum undan þessu og kallað skattpíningu. Þessir aðilar réðu öllu fram að hruni og vilja endurheimta þessi forréttindi komist þeir aftur til valda.

Þeir vilja lækka skattbyrði ríka fólksins aftur.

Samt er skattbyrði hátekjufólksins eftir hækkunina bara sú sama og hafði verið áður en forréttindatími frjálshyggjunnar gekk í garð árið 1995. Um 31%.

Þetta hjálpaði við að koma Íslandi út úr kreppunni. Minna þurfti að skera niður.

Þetta er því eitt að því sem vel heppnaðist hjá stjórnvöldum.

Bara að Grikkir gætu líka beitt þessari leið…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 17.7.2012 - 23:56 - FB ummæli ()

Kreppumyndir frá Grikklandi

Kreppan leikur Grikki grátt um þessar mundir.

En lífið heldur áfram – og húmorinn líka.

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók nýlega í Aþenu…

AGS mun koma grísku þjóðinni í skuldafangelsi – fyrr en varir! Veggmynd í Plaka hverfinu.

 

Tom elskar Þjóðverja – en ekki Angelu Merkel.

 

Mótmælandi í umferðinni – skilaboð til Merkel!

 

Laust starf forsætisráðherra…

 

Þessi er vandanum vaxinn…

 

Allt í rusli – allir á fætur…

 

Glaðvær götusali

Flokkar: Menning og listir

Mánudagur 16.7.2012 - 17:16 - FB ummæli ()

Hvert fóru lífskjörin?

Andri Geir Arinbjarnarson skrifar pistil á Eyjuna í dag um hrun lífskjaranna. Hann styður að hluta þá ályktun Þorsteins Pálssonar, að lífskjarabati síðustu 20 ára hafi verið froða ein. Við séum nú á sama stað og við vorum um 1993.

Í gær stökk ég til varnar Davíð Oddssyni og sagði Þorstein ýkja þegar hann sagði að allur lífskjarabati Davíðs-tímans hafi verið froða.

Þó froða hafi verið vaxandi einkenni á þróun fjármála, efnahagsmála og kjaramála á árunum frá um 1998 til 2007, þá er of mikið sagt að öll lífskjaraþróun frá 1993 hafi verið froða.

Það er líka of mikið sagt að lífskjörin hafi hrokkið alla leið aftur til 1993.

Það sem Andri Geir gerir er að bera saman þróun vergrar landsframleiðslu í Bandaríkjadölum frá 1990. Slíkar tölur eru mjög háðar miklum sveiflum á gengi krónunnar. Það þarf því að draga varlega ályktanir af öllum rauntölusamanburði á erlendu gengi.

Fyrir hrun var gengi krónunnar of hátt skráð en í dag er það of lágt skráð. Ef skilyrði batna með áframhaldandi hagvexti og gengi krónunnar hækkar um 15-20% þá hækkar þjóðarframleiðslan sömuleiðis í takti við það, í dollurum talið. Þar með myndu forsendur fyrir ályktunum Andra Geirs gjörbreytast.

Stærsti hluti útgjalda íslenskra heimila er fyrir vöru og þjónustu sem verður til hér innanlands á íslenskum launum. Kaupmáttur gagnvart innflutningi er annað en kaupmáttur gagnvart innlendri framleiðslu, eins og Andri Geir bendir raunar á.

Til að meta hversu langt til baka lífskjörin hrukku er nærtækara að byggja á innlendum magntölum um mikilvæga lífskjaraþætti. Til dæmis getum við tekið magnþróun vergrar landsframleiðslu, einkaneyslu og kaupmátt ráðstöfunartekna heimilageirans.

Það er sýnt á eftirfarandi myndum, sem koma úr skýrslu minni og Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings, Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar (apríl 2012).

Öllum þessum tölum ber saman um að lífskjörin hafi að jafnaði hrokkið aftur til ársins 2004, eða þar um bil. Það sama kom í ljós þegar skoðaður var kaupmáttur launavísitölunnar, sem ég sýndi í síðasta pistli. Fleira mætti tína til.

Mynd 1: Kreppan í sögulegu samhengi. Hagvöxtur frá 1945 til 2011. Raunveruleg magnbreyting vergrar landsframleiðslu á mann frá fyrra ári, í %. (Heimild: Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands).

Á mynd 1 má sjá að verg landsframleiðsla dróst saman um 10% alls, en það er lítilega minna en samanlagður vöxtur VLF sem hafði orðið frá 2005 til 2007. Við fórum nokkurn veginn til 2004. Tapið er hins vegar meira ef við gefum okkur að kreppuárin hefðu ella haft meðalvöxt vestrænna þjóða í kreppunni.

Síðan má sjá að tæpur þriðjungur þess sem tapaðist hafði verið endurheimtur árið 2011. Ef vöxturinn verður áfram svipaður 2012 þá verður meira en helmingurinn af tapi landsframleiðslunnar endurheimtur nú í árslok.

Mynd 2: Þróun einkaneyslu heimilanna frá 1945 til 2011. Magnvísitölur Hagstofunnar; % breyting frá fyrra ári. (Heimild: Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands).

Einkaneyslan fór samkvæmt þessum magnvísitölum Hagstofunnar niður um tæp 23%, en það er svipað og samanlagður vöxtur hennar hafði verið frá 2005. Einkaneyslan fór nokkurn veginn aftur til 2004, að magni til.

Mynd 3: Kjaraskerðingin í sögulegu samhengi: Breyting kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna frá 1955 til 2010. (Heimild: Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands).

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna (að teknu tilliti til kaupmáttarrýrnunar tekna, minna vinnumagns og aukinnar skuldabyrði) varð samtals um 29% 2009 og 2010. Batnaði svo aftur 2011.

Tapið er nokkurn veginn sú samanlagða aukning sem orðið hafði frá 2004 til 2007.

Þetta eru hins vegar meðaltöl.

Vegna þess að stjórnvöldum tóks að hluta að hlífa lægri tekjuhópum við kjaraskeringunni þá varð tap lágtekju- og millihópa minna, um leið og hæstu tekjuhópar töpuðu meiru, enda höfðu þeir notið miklu meiri kjarabóta en allir aðrir fyrir hrun.

Hátekju- og stóreignafólk stórgræddi raunar á froðu bóluhagkerfisins. Meira um það síðar.

Lágtekjufólk hrökk því skemur til baka í lífskjörum en hátekjufólk. En lágtekjufólk er líka viðkvæmara fyrir kjaraskerðingu en hátekjufólk, sem hefur meira aflögu. Atvinnulausir fóru hvað verst út úr kreppunni. Alvarlegast var þegar saman fór kjaraskerðing, atvinnueysi og mikill skuldavandi í sömu fjölskyldu.

Þess vegna er svo mikilvægt að hlífa lágtekjufólki í kreppu, eins og hér var gert.

Sú staðreynd að það tólkst að halda aftur af atvinnuleysi og halda uppi þokkalegri eftirspurn í hagkerfinu, ásamt dreifingar og velferðaraðgerðum stjórnvalda, gerði að verkum að afleiðingar hrunsins á lífskjörin urðu ekki eins miklar og ætla mátti.

Hrunið var skelfilegt en við erum að sleppa furðu vel frá því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 14.7.2012 - 15:08 - FB ummæli ()

Var góðæri Davíðs-tímans froða ein?

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrðir ansi mikið í annars ágætri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að við hrunið hafi komið í ljós að “tuttugu ára lífskjarabati reyndist froða”.

Þorsteinn er að segja að við séum komin aftur á þann stað sem við vorum á árin 1992-3.

Einn af efnahagsráðgjöfum Sjálfstæðisflokksins, spákaupmaðurinn Heiðar Már Guðjónsson í Sviss, skrifaði líka í síðustu viku að lífskjörin á Íslandi hafi færst aftur til ársins 1993.

Hann var umsvifalaust tekinn í kennslustund af hagfræðingum Seðlabankans, sem sýndu að hann hafði tvítalið gengisáhrifin á kaupmáttinn og ýkti þannig verulega afleiðingar hrunsins á lífskjörin. Heiðar Már virðist hafa meiri áhuga á draugasögum en staðreyndum.

En hvað segja staðreyndirnar um kaupmáttarsveifluna?

Gögn Hagstofu Íslands á myndinni sýna að miðað við maí sl. þá erum við nú með svipaðan kaupmátt launa og var á árinu 2005 (menn geta stikað þetta út á myndinni). Hagfræðingar Seðlabankans miðuðu við janúar og fengu út að þá hefðum við verið á svipuðu róli og 2004.

Þegar við náðum botni í kreppunni árið 2010 var kaupmáttarstigið svipað og verið hafði árin 2001-2.

Um helmingur af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007 hefur svo verið endurheimtur á árunum 2011 og 2012.

Það hlýtur að teljast nokkuð gott!

En segir þetta allt um lífskjaraskerðinguna? Nei, því miður.

Kjörin versnuðu meira en þetta bendir til, vegna minni vinnu (skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis, fleiri hlutastarfa) og vegna aukinnar skuldabyrði. Sjá nánar um það í skýrslu minni og Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings, Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

Lífskjaraskerðingin (þ.e. rýrnun kaupmáttar, aukin skuldabyrði, og fækkun starfa) kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem margir dásama og vilja alls ekki vera án.

Vissulega voru lífskjörin á árunum 2001 til 2007 að umtalsverðu leyti byggð á froðu (aukinni skuldsetningu fyrirtækja og heimila, of hátt skráðu gengi og algerlega misheppnaðri peningastjórnun Seðlabankans). Það var því mikil froða á bak við lífskjarabata Davíðs-tímans, eins og Þorsteinn segir.

En það er of mikið sagt hjá Þorsteini Pálssyni að tuttugu ára lífskjarabati hafi verið froða ein!

Góðæri Davíðs Oddssonar var að stórum hluta froða – en ekki eingöngu.

Sjálfstæðismenn fara augljóslega mjög frjálslega með staðreyndir.

Er það vísvitandi eða vegna kunnáttuleysis?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 12.7.2012 - 09:08 - FB ummæli ()

Studdi Jón Sigurðsson innrás í Írak?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir Jón Sigurðsson forseta hafa verið “frjálshyggjumann”, í nýlegu bloggi. Hann hefur reyndar oft áður skráð þjóðfrelsishetju Íslendinga í sértrúarsöfnuð sinn.

Jón Sigurðsson var hlyntur frjálsum viðskiptum almennt. Hann stóð í sjálfstæðisbaráttu og vildi færa viðskiptin á íslenskar hendur. Hann benti á að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis og ítrekaði að einokunarverslunin hefði haft afgerandi áhrif til ills fyrir þjóðina. Barátta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.

Þýðir þetta að Jón Sigurðsson hafi verið “frjálshyggjumaður” og skrifað upp á allt sem Hannes og félagar boða?

Hefði Jón Sigurðsson stutt forréttindi og brask auðmanna eins og Hannes gerði, sem helsta klappstýra útrásarinnar? Varla

Hefði Jón barist fyrir skattalækkunum til auðmanna um leið og skattar væru hækkaðir á almenning? Varla. Hann tók almannahag fram yfir sérhagsmuni.

Hefði Jón stutt það frelsi auðmanna sem leiddi til gegndarlausrar skuldasöfnunar er ógnaði sjálfstæði þjóðarinnar? Varla.

Hefði Jón Sigurðsson viljað leggja niður opinberar eftirlitsstofnanir, jafnvel þó ófullnægjandi eftirlit í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti hefði verið ein af mikilvægum orsökum hins risavaxna fjármálahruns? Varla.

Hefði Jón stutt herferð Hannesar Hólmsteins og Péturs Blöndal um “fé-án-hirðis”, sem fól í sér að sameignir þjóðarinnar væru afhentar auðmönnum til að braska með, í eigin þágu? Varla.

Hefði Jón stutt frelsi auðmanna til að flytja auð sem til varð á Íslandi í erlend skattaskjól? Varla.

Hefði Jón Sigurðsson smjaðrað fyrir George W. Bush og stutt innrásina í Írak, fyrir hönd bandarískra olíuhagsmuna? Sjálf þjóðfrelsishetjan? Varla.

Það gerðu leiðtogar íslenskra frjálshyggjumanna hins vegar.

Við getum haldið áfram og fullyrðing Hannesar verður sífellt hlægilegri.

Það hefur enga meiningu að klína stimplun úr nútímanum á fólk fyrri alda. Það hafði allt aðra merkingu að vera frjálshyggjumaður á tíma Jóns Sigurðssonar en það gerir í dag.

Raunar hefði verið eðlilegra að kalla Jón Sigurðsson frjálslyndan mann (liberal) frekar en frjálshyggjumann, hvað þá ný-frjálshyggjumann. Nútímalegir jafnaðarmenn eru t.d. frjálslyndir, ekki síður en hægri menn.

Kommúnistar reyndu um árið að gera Jesús Krist að talsmanni kommúnisma, enda mátti finna í helgiritunum orð og setningabrot því til stuðnings. Það gekk þó aldrei vel. Fólk sá í gegnum hjómið.

Sölumennska Hannesar er af svipuðum toga.

Hann notar Jón Sigurðsson til að selja snákaolíu frjálshyggjunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.7.2012 - 08:02 - FB ummæli ()

Kreppustjórnmálin í Evrópu

Ég hef undanfarna tvo daga setið ráðstefnu evrópskra fræðimanna sem fjalla um afleiðingar fjármálakreppunnar og viðbrögð ríkisstjórna í 34 Evrópuríkjum, í Níkósíu á Kýpur. Níkósía er viðeigandi staður fyrir slíka ráðstefnu því hér skjálfa bankar nú og kreppan herðir tökin, enda hafa Kýpverjar sótt um neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og AGS.

Flestir fjalla hér um afleiðingar kreppunnar fyrir lífskjör og hvaða úrræðum stjórnvöld hafa beitt til að bregðast við vandanum. Mjög misjafnt er hversu alvarleg kreppan er fyrir einstaka Evrópuþjóðir. Verst standa Grikkir, Portúgalir, Írar, Ítalir, Spánverjar og ýmsar þjóðir í Austur-Evrópu og á Balkanskaga. Þjóðverjar, Hollendingar, Lúxemborgarar, Norðmenn, Svíar, Finnar, Danir og Austurríkismenn standa ágætlega. Sumar þjóðir eru lítt snortnar af kreppunni þó þær séu í ESB og hafi Evru. Önnur atriði skipta mestu fyrir kreppuþróunina.

Þær þjóðir sem verst hafa farið eru ýmist fastar á botni kreppunnar eða enn á leiðinni niður. Ísland og Eystrasaltslöndin eru hins vegar búin að ná botni og eru nú á uppleið. Eystrasaltslöndin fóru þó mun verr út úr kreppunni en Ísland, þó hrun Íslands hafi verið stærra. Atvinnuleysi varð og er enn mun meira hjá þeim og kjaraskerðing yfirleitt meiri en á Íslandi, einkum hjá fólki í lægri og milli tekjuhópum. Velferðarkerfi þeirra eru mjög veik og þeim var almennt ekki beitt til að milda áhrif kreppunnar, heldur skorin niður.

Ísland og Írland voru með fyrstu þjóðum til að falla, er bóluhagkerfi þeirra sprungu. Mikill munur er á árangri Íslands og Írlands í að vinna bug á kreppunni. Ísland hefur verið á uppleið frá seinni hluta 2010 og var vöxturinn og kaupmáttaraukningin all kröftug 2011 og einnig nú 2012, en Írar virðast fastir á botninum eða jafnvel enn á leið niður. Írar lögðu mestar byrðar á lágtekjufólk en á Íslandi var sömu hópum mest hlíft við kreppuáhrifum.

Þegar farið er yfir það hvernig stjórnvöld hafa brugðist við kreppunni kemur þannig í ljós allmikill munur milli landa. Flestar þjóðir Evrópu eru fastar í niðurskurðarstefnu (austerity measures). Það felst öðru fremur í að draga einhliða úr opinberum útgjöldum eftir að skuldastaða hefur víða versnað umtalsvert, mest þar sem kreppuáhrifin urðu alvarlegust. Skuldastaðan versnar yfirleitt vegna minni tekna ríkisins sem leiðir af minnkandi efnahagsumsvifum og auknum útgjöldum vegna beinna kreppuáhrifa (t.d. vegna aukinna atvinnuleysisbóta) og sérstaks kostnaðar, svo sem við endurreisn banka og fyrirtækja.

Árangur Íslands vekur mikinn áhuga hjá mörgum evrópskum sérfræðingum á þessu sviði. Ísland þykir hafa náð borni fljótt og tekist vel að koma samfélaginu aftur upp úr kreppufarinu. Sérstaklega vekur áhuga að í úrræðum stjórnvalda var markvisst stefnt að því að milda kreppuáhrifin á fólk í lægri og milli tekjuhópum, en víða finnur tekjulægsta fólkið mest fyrir kreppunni, bæði í formi atvinnuleysis og kjaraskerðingar. Hér tókst vel að ná niður hallanum á fjárlögum og beita skatta- og bótakerfinu til að milda höggið, sem var auðvitað mjög mikið.

Margir staldra við að á Íslandi var endurdreifingu tekna, skatta og bóta beitt í umtalsverðum mæli, sem dró úr þörf á beinum niðurskurði útgjalda. Blönduð leið tekjuöflunar (með skattahækkunum á hærri tekjuhópa), niðurskurðar og markvissari nýtingu velferðarútgjalda skilaði árangri, sem bæði varði lægri tekjuhópa gegn kjaraskerðingunni sem gengisfellingin orsakaði og hélt fleiri störfum gangandi, með meiri einkaneyslu en ella hefði orðið.

Ísland virðist því hafa haft mikla sérstöðu í beitingu úrræða gegn kreppunni og jafnframt náð mun betri árangri en aðrar þjóðir. Gengisfelling er ekki aðalatriði í því. Eystrasaltslöndin og Írland voru t.d. öll með fastgengisstefnu en lækkuðu laun og bætur með beinum hætti, oft þó þannig að það bitnaði hlutfallslega mest á lægri tekjuhópum. Það dró svo niður neyslu sem kom svo fram í auknu atvinnuleysi. Gengisfellingin hér fjölgaði störfum í ferðaþjónustu en fækkaði þeim í mun meiri mæli í byggingariðnað,  verslun og þjónustu. Bættur hagur sjávarútvegs vegna gengisfellingar fjölgar ekki störfum þar til að vega á móti fækkunaráhrifum gengisfellingar.

Gengisfellingin á Íslandi rústaði kaupmætti heimilann, hækkaði skuldabyrðina og fækkaði störfum. Jöfnunaráhrif og markvissari beiting velferðarútgjalda skipti miklu til að milda kreppuáhrifin og leggja grunn að endurreisninni sem virðist vera komin á gott skrið.

Það sýnir sig nú að jöfnunarstefna gagnvart kreppuáhrifunum er líka góð hagfræði, eins og kennt er í klassískum kenningum John M. Keynes. Það var einnig lexían sem menn lærðu af kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Margir hafa hins vegar ekki viljað beita úrræðum Keynes og eru fastir í frjálshyggjuúrræðum sem dýpka kreppuna að óþörfu. Um það fjallar Paul Krugman á athyglisverðan hátt í nýrri bók, End This Depression Now.

Ísland er á góðri leið með að verða fyrirmynd í endurreisn eftir fjármálahrun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 8.7.2012 - 09:36 - FB ummæli ()

Styrmir stýrir Samfylkingunni

Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason skrifa reglulega á vefsíðu sem kallast Evrópuvaktin. Meginverkefni þeirra virðist vera að segja eitthvað niðrandi og hrollvekjandi um Evrópusambandið, minnst tvisvar á dag.

Styrmir og Björn skrifa þó líka um innlend stjórnmál. Einkum er þar að finna alls konar skrif um ríkisstjórnina og er það allt á einn veg – úrtölur, hrakspár og svartagallsraus. Þeir félagar þrá völdin aftur…

Það allra skondnasta í þessum skrifum er herferð sem Styrmir hefur staðið í gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hann hefur í marga mánuði klifað á því að Jóhanna eigi að hætta sem formaður Samfylkingarinnar. Undanfarið hefur þetta komið með vaxandi þunga, mörgum sinnum í viku. Hann virðist liggja andvaka yfir þessu…

Hann hefur sagt að hún hljóti að hætta. Ef hún haldi áfram muni Samfylkingin bíða afhroð í kosningum að ári. Hann hefur ávarpað þingmenn Samfylkingarinnar og sagt við þá að fæstir þeirra muni komast aftur á þing ef Jóhanna leiði Samfylkinguna áfram. Hann reifar hverjir eigi að taka við af henni o.s.frv. Svona gengur þetta í síbylju, eins og rispuð hljómplata. Til að hafa áhrif.

um daginn sagði hann svo að þrjú mál yrðu efst á dagskrá stjórnmálanna á næstu mánuðum: ESB málið (stöðvun aðildarviðræðna); stjórnarskrármálið (að ná samkomulagi um að þrengja að stöðu forsetans); og leiðtogaskipti í Samfylkingunni!

Styrmir virðist telja að kreppuviðfangsefnin séu öll leyst, eða hvað?!

Ég held reyndar að mörg önnur mál séu efst á baugi og mikilvægari fyrir þjóðina. Eigum við að nefna nýja stjórnarskrá með lýðræðis- og auðlindaumbótum, framkvæmd hinnar snjöllu og mikilvægu fjárfestingaráætlunar 2013-2016 til að draga úr atvinnuleysi, fiskveiðistjórnunarmálið, kjarabætur til eldri borgara og barnafjölskyldna, jafnvel álver í Helguvík, o.s.frv…

Forgangsröðun Styrmis er því skondin, svo ekki sé meira sagt! Skoðum þó nánar þriðja „stórmálið“ í landsmálapólitíkinni á lista Styrmis, framtíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hvers vegna er það svo mikilvægt fyrir Styrmi að Samfylkingin fái nýjan leiðtoga?

Er það vegna þess að Styrmir vilji veg Samfylkingarinnar svo mikinn? Vill hann umfram allt að Samfylkingin fá gott fylgi?

Nei, ég held ekki…

Styrmir er einn þeirra sem telja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi náttúruborinn rétt til að eiga og stjórna Íslandi – alltaf. Réttkjörin vinstri stjórn er eins konar valdarán í huga hans og félaga í hirð Davíðs.

Hann vill veg Samfylkingarinnar sem verstan, því hann og félagar hans telja Samfylkinguna helstu ógnina við ævarandi stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Hann er einfaldlega að grafa undan pólitískum andstæðingum, eins og hann gerði iðuglega sem ritstjóri Morgunblaðsins í áratugi.

Styrmir og félagar vita að Jóhanna hefur unnið þrekvirki í starfi forsætisráðherra. Hún, Steingrímur og félagar þeirra í ríkisstjórninni tóku við samfélaginu í rústum frjálshyggjuhrunsins. Engin stjórn í sögu lýðveldisins hefur fengið erfiðari verkefni að glíma við. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar þurftu í ofanálag að glíma við sundrungu í liði VG, sem Styrmir og félagar ýttu mjög undir.

Nú er sífellt að koma betur í ljós að árangur ríkisstjórnarinnar er mikill og til hans horft sem fyrirmyndar í öðrum löndum. Það tókst að milda áhrif kreppunnar á milli og lægri tekjuhópa og halda atvinnuleysi í skefjum. Hagur þjóðarinnar er nú batnandi – þrátt fyrir allt. Engin ríkisstjórn hefur verið athafnameiri né árangursríkari.

Jóhanna, Steingrímur og ríkisstjórnin munu að öllum líkindum njóta þess í vaxandi mæli á komandi vetri. Það liggur einfaldlega í kortunum.

Styrmir er því að reyna að stýra Samfylkingunni í ógöngur – veikja hana. Hann vill ekki að Samfylkingin njóti þess að þjóðin muni smám saman sjá að Jóhanna hefur staðið sig ótrúlega vel.

Skilaboðin til Samfylkingarfólks hljóta að vera þau, að leggja hart að Jóhönnu að leiða flokkinn áfram í gegnum næstu kosningar. Þau ættu líka að hvetja hana til að hafa það opið hvort eða hvenær hún dragi sig í hlé á næsta kjörtímabili – eða þarnæsta.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur efni á að setja pólitíska afreksmenn sína til hliðar – síst af öllu ef það er einlæg ósk pólitískra andstæðinga hans!

 

PS! Ég tek það fram að ég hef enga hugmynd um hver áform Jóhönnu eru eða hvort hún yfir höfuð getur hugsað sér að halda áfram eftir næstu kosningar. Ég er einungis að lesa á spilin hjá Styrmi Gunnarssyni!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.7.2012 - 17:36 - FB ummæli ()

Ameríski draumurinn – búinn að vera?

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, var að gefa út nýja bók, The Price of Inequality. Þar fjallar hann um hvernig aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum er að grafa undan efnahagslífinu, stjórnmálunum og samfélaginu. Ójöfnuðurinn er að eyðileggja samfélagið, segir hann.

Í bókinni gerir hann grein fyrir aukningu ójafnaðar í skiptingu tekna og eigna frá um 1980, eftir að frjálshyggjuáhrifa tók að gæta í mjög auknum mæli, m.a. með ríkisstjórnum Ronalds Reagan og Bush-feðganna.

Stiglitz sýnir hvernig hagvöxturinn í Bandaríkjunum á síðustu þremur áratugum rann að mestu leyti til ríkustu aðilanna, ríkustu 5% til 10% heimilanna.

Fólk með meðaltekjur er í dag með lægri rauntekjur en það hafði fyrir um 15 árum. Lágtekjufólk í Bandaríkjunum hafði í mörgum tilvikum lægri rauntekjur fyrir kreppu en það hafði um 1980.

En Stiglitz talar líka um það sem rannsóknir hafa verið að sýna í auknum mæli, nefnilega að verulega hefur fjarað undan ameríska draumnum á sama tíma.

Ameríski draumurinn er eins konar óformleg stjórnarskrá Bandríkjanna og stendur fyrir það, að Bandaríkin eigi að vera land tækifæranna. Fólk geti komist til bjargálna og velsældar með dugnaði í vinnu og útsjónarsemi.

Þeir fátæku eigi líka möguleika á að vinna sig upp í efri stéttir samfélagsins. Um þetta eru til miklar bókmenntir í Bandaríkjunum, t.d. dæmisögur Horatio Alger af ungum drengjum sem komust áfram í lífinu af eigin rammleika. Þetta eru allt að því trúarbragðalegar dæmisögur sem hafa haft áhrif á margar kynslóðir Bandaríkjamanna – og fleiri þjóða.

Ekki má heldur gleyma að nefna ævisögu Benjamíns Franklín, uppfindingamannsins kunna og hollráð hans til ungra manna. Þetta eru eins konar helgirit ameríska draumsins.

Rannsóknir bæði í félagsfræði og hagfræði hafa nú sýnt að á síðustu þremur áratugunum hefur mikið tapast í þessu í Bandaríkjunum, einmitt vegna aukins ójafnaðar í skiptingu lífskjaranna.

Margar Evrópuþjóðanna eru nú í meiri mæli “lönd tækifæranna” en sjálf Ameríka. Þar er nú auðveldara að vinna sig upp í samfélaginu en í Bandaríkjunum. Jafnvel í „hinni gömlu Evrópu“ (þó ekki Bretland, sem fylgir að mörgu leyti svipaðri stefnu og Bandaríkin). Skandinavísku samfélögin eru á toppnum í þessu efni.

Bandaríkjamenn þurfa í reynd að flytja til hinna skandinavísku velferðarríkja, á vit  ríkisafskipta, jafnaðarstefnu og barnaheimila, til að njóta alvöru tækifæra!

Það er umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að á árunum fram að hruni vorum við á bandarísku leiðinni. Við vorum hætt að leita til norrænu frændþjóðanna að fyrirmyndum – eins og Viðskiptaráð boðaði.

Óheftur fjármálakapítalismi var okkar framtíðarsýn, í boði frjálshyggjuróttæklinga og braskara. Ójöfnuður jókst sem aldrei fyrr. Og svo hrundi spilaborgin!

Nú erum við í meiri mæli á leið norrænu velferðarríkjanna. Það eru umskipti.

Stiglitz myndi segja að það væri okkur fyrir bestu, – bæði fyrir efnahagslífið, stjórnmálin og samfélagið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 4.7.2012 - 11:44 - FB ummæli ()

Mykjudreifari hlýtur frelsisverðlaun!

Um helgina voru veitt í Valhöll svokölluð “Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar”, fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins til áratuga og bankaráðsmanns í Landsbankanum fram að hruni.

Það vakti mikla hneykslun árið 2010 þegar verðlaun þessi voru veitt InDefence hópnum “fyrir að verja þjóðina gegn Icesave-byrðunum”, vegna þess að Kjartan Gunnarsson átti sjálfur mikinn þátt í að færa þjóðinni Icesave, því hann var varaformaður bankaráðsins þegar sú ferð hófst. Samhengið þótti vægast sagt óviðeigandi.

AMX-vefurinn og Hannes Hólmsteinn Gissurarson fá verðlaunin að þessu sinni.

AMX vefurinn er helst þekktur fyrir miðlun ófræginga og persónuníðs í bland við áróður fyrir öfgafrjálshyggju, í skjóli nafnleyndar. Sagt er að Hannes skrifi reglulega á vefinn.

Þeir kalla skrif sín “fuglahvísl” en gárungarnir kalla þau “fugladrit”. Í samræmi við það er vefurinn oft kallaður “mykjudreifari”. Markmiðið virðist einmitt oft vera að ata auri á fólk og málefni sem vefurunum líkar ekki við.

Hannes Hólmsteinn fær verðlaunin fyrir ævistarf sitt við að halda frjálshyggjuróttækni að flokksmönnum í Sjálfstæðisflokknum, með miklum árangri. Flokkurinn varð einn róttækasti frjálshyggjuflokkur Vesturlanda í tíð Davíðs og Hannesar.

Árangurinn var reyndar svo mikill, að Íslandi var í vaxandi mæli stýrt eftir forskrift frjálshyggjunnar, sem gat af sér stærsta bóluhagkerfi sögunnar og mesta fjármálahrunið í kjölfarið.

Þeir keyrðu þjóðarbúið í þrot með græðgi sinni, en auðmenn græddu þó vel á öllu saman. Það skiptir þá “frelsismenn” mestu máli.

Hannes Hólmsteinn hefur auðvitað verið helsti talsmaður og hagsmunagæslumaður auðmanna hér á landi, enda snýst frjálshyggjan fyrst og fremst um það að auka frelsi og eignir auðmanna – oftast á kostnað almennings.

Frægt varð þegar Hannes lýsti sjálfstæðismönnum þannig, að “þeir vildu græða á daginn og grilla á kvöldin”. Fyrir það fékk hann sæmdarheitið “Grillmeistari græðginnar”. Ætli það sé ekki örugglega skráð á verðlaunaskjöldinn?

Það fer þannig vel á því, frá sjónarhóli Valhallar, að Hannes Hólmsteinn fái verðlaun sem kennd eru við auðmanninn Kjartan Gunnarsson, fyrir frjálshyggjutrúboð sitt. Þannig hrökkva líka molar af veisluborði Kjartans til Hannesar, sem er bara starfsmaður á plani.

Fyrir aðra er það umhugsunarefni, að frjálshyggjuróttæklingar ætla hvergi að slá af í herferð sinni, þrátt fyrir að stefna þeirra hafi leitt til hrunsins og lagt kjaraskerðingu kreppunnar á herðar almennings í landinu. Þeir mæla með enn stærri skammti af frjálshyggju í framhaldinu!

Meira frelsi fyrir auðmenn, meira brask, meiri skuldasöfnun, meira streymi fjár í erlend skattaskjól, minna hlutverk ríkisins og lýðræðisins, minna velferðarríki, meiri skattalækkanir til auðmanna og meiri einkaeign á auðlindum landsins o.s.frv.

Verðlaunaveitingin er til marks um það, að ef þessir aðilar komast til valda þá verði allt fært í sama farveg og var fyrir hrun, en jafnvel með enn meiri krafti.

Það er auðvitað sérkennilegt að það skuli talið fýsilegt að bjóða þjóðinni upp á slíka endurtekningu á hrunadansi í kringum gullkálfinn, í skjóli afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar.

Sennilega treysta þessir aðilar því að þeir hafi nægilega mikið fjölmiðlavald til að heilaþvo þjóðina svo hún taki þessum boðskap fagnandi á ný.

Á myndinni má sjá AMX-dreifarann á fullu. Hannes situr glaðbeittur við stjórnvölinn…

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.7.2012 - 10:29 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn vilja beisla forsetann

Í greiningu minni á forsetakosningunum á sunnudag (Flétta Ólafs Ragnars) benti ég undir lokin á að hann hefði þegar sagt að hann vildi blanda sér meira í þjóðmálaumræðuna og leiða deilumál til lykta með þjóðinni. Svo sagði ég þetta:

“Það gæti verið stórbrotið prógram! Gæti til dæmis fært völdin í þjóðfélaginu frá stjórnmálum og auðmönnum til almennings.

Sennilega munu hægri stjórnmálamenn nú verða æstir í að skilgreina ramma stjórnarskrárinnar um hlutverk forsetans mjög þröngt – í flýti…”

Í kvöldfréttum RÚV í gær kom svo fram að Sjálfstæðismenn vilja leggja fram frumvarp í haust til að “skýra stöðu forsetans”, eins og þeir segja.

Þetta þýðir á mannamáli að þeir vilja “þrengja stöðu forsetans” – í flýti!

Þeir reikna fastlega með að komast til valda að ári og óttast réttilega að Ólafur Ragnar verði þeim ljár í þúfu í ýmsum málum. Til dæmis auðlindamálum, sjávarútvegsmálum, velferðarmálum, stjórnsýslumálum, milliríkjamálum  og fleiru.

Stórbrotið prógram Ólafs Ragnars um að auka lýðræðið og aðkomu almennings að ákvarðanatöku um lykilmál er þannig nokkuð sem helstu valdaaðilar samfélagsins hafa ástæðu til að óttast, ef af því verður.

Hverjir eru þessir helstu valdaaðilar samfélagsins? Jú, það eru atvinnurekendur, fjármálamenn og pólitískir samherjar þeirra, þ.e. hægri menn, einkum í Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Einmitt þeir stjórnmálamenn sem börðust fyrir hagsmunum auðmanna í sjávarútvegi á síðasta þingi.

Verkalýðshreyfingin var áður alvöru mótvægisaðili í valdabaráttunni á Íslandi. Nú eru þeir nánast orðnir eins og deild í Samtökum atvinnulífsins. Þeir sitja með atvinnurekendum í stjórnum lífeyrissjóðanna og vilja almennt ekki rugga báti samráðsins.

Vinstri stjórnmálamenn hafa aldrei haft nein alvöru völd hér á landi, ólíkt því sem verið hefur í Skandinavíu. Þeir ættu hins vegar að vera hrifnir af sumum hugmyndum Ólafs Ragnars um að auka völd og áhrif almennings. Það getur varla annað en ýtt undir að markmið vinstri manna náist betur en undir valdstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, fyrirtækjaflokkanna tveggja.

Þess vegna myndi ég halda að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur af Ólafi Ragnari. Reyna frekar að vinna með honum. Ríkisstjórnin er að ná góðum árangri og ætti almennt ekki að hafa miklar áhyggjur af neinu, nema slakri áróðursstöðu sinni.

Hins vegar ætti Samfylkingin sennilega að endurskoða Evrópuferðina. Megin verkefni þeirrar vegferðar var að fá niðurstöðu um hvað aðild gæti falið í sér fyrir Ísland – svo hægt væri að taka skynsamlega afstöðu til þess valkostar. Þetta var mikilvæg ferð til upplýsingaöflunar. Það er enn afar mikilvægt að fá niðurstöðu í samningaviðræðurnar, en sennilega ætti Samfylkingin að lýsa meiri fyrirvörum um fýsileika aðildar við núverandi aðstæður. Of mikil óvissa tengist Evrópumálunum þessi misserin.

Ef Ólafur Ragnar ætlar að fara í alvöru samræður við þjóðina þarf hann að tala um það sem skiptir þjóðina máli: velferðarmál, menntamál, nýsköpun, umhverfismál, réttlætismál, erlend samskipti og skipan stjórnsýslu og valda á Íslandi. Þetta eru allt góð mál, einkum fyrir vinstri menn. Ólafur Ragnar er ekki áhugamaður um að auðmenn flytji auðlindir þjóðarinnar í erlend skattaskjól, eins og frjálshyggjumen berjast fyrir.

Sjálfstæðismenn eru hins vegar búnir að átta sig á hættunum sem fylgja of djörfum forseta, sem gæti tekið hag þjóðarinnar framfyrir hag auðmanna og atvinnurekenda.

Þeir munu því vilja þrengja að forsetanum með stjórnarskrárbreytingu. Strax í haust. Það eru umskipti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar