Laugardagur 20.10.2012 - 14:59 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá – nýtt Ísland

Frá stofnun lýðveldis hefur átt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944, sem að meginstofni er þýðing á DANMARKS RIGES GRUNDLOV af 5. Juni 1915 med ændringer af 10. September 1920. Ekki er þá aðeins verið að tala um að lappa upp á stjórnarskrána, eins og Alþingi hefur gert sjö sinnum – heldur skrifa nýja stjórnarskrá.

Við hrunið 2008, sem á sér enga hliðstæðu í 65 ára sögu lýðveldisins, töldu margir að nú væri tími kominn til að endurskoða stjórnarskrána, ekki vegna þess að “danska” stjórnskráin væri orsök hrunsins, heldur til að marka nýja stefnu – móta nýtt Ísland. Eftir hrunið hefur komið í ljós glæpsamleg spilling í efnahagslífi og stjórnmálum landsins, spilling sem á sér enga hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum sem við erum skyldust.

Sundurlyndi stjórnmálaflokka, sem eru sjálfum sér sundurþykkir, og fyrirlitning stjórnmálamanna – svo ekki sé sagt hatur þeirra hver á öðrum – hefur kynt ófriðarbál sem enn brennur með þjóðinni og tafið endurbætur á stjórnkerfi landsins.

Enn ríkir sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði og vonbrigði. Frumstæð umræða á opinberum vettvangi um álitamál – og þá ekki síst frumstæð, ómálefnaleg umræða á Alþingi – gerir þinginu ókleift að ráða fram úr aðkallandi verkefnum.

Með nýrri stjórnarskrá, sem verður sáttmáli hins skapandi meirihluta þjóðarinnar, má vænta þess að unnt verði að auka ábyrgð stjórnvalda, tryggja raunverulega þrískiptingu valds og endurreisa traust almennings á Alþingi, ríkisstjórn og dómstólum – hvað sem íhaldsöflin í öllum flokkum kunna að segja.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar