Eins og áður er kynlegt að lesa skrif Sighvats Björgvinssonar. Í grein í Fréttablaðinu daginn fyrir friðardaginn ræðst hann með skömmum að fólki á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára og kallar það sjálfhverfustu kynslóð á Íslandi, sem tali ekki um annað en sjálft sig og sagðist fyrir hrunið bera lagt af jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum, taldi sig geta kennt öðrum þjóðum og ól af sér útrásarvíkingana, keypti þekktustu vörumerki Norður Evrópu og vínræktarhéruð í Suður Evrópu, turna í Macao og notaði gullduft sem útálát á steikurnar í Róm enda komið á vanskilaskrá fyrir hrun af því að lifa um langt efni fram, tók lán í öðrum gjaldmiðlum en hún hafði tekjur í – og segir fall íslensku krónunnar forsendubrest. „Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.”
Ekki veit ég hvað fyrir fyrrum formanni jafnaðarmannaflokks Íslands, gömlum alþingismanni og ráðherra gengur til að hella úr skálum reiði sinnar yfir fólk á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára, uppnefna það, alhæfa og fella sleggjudóma. Gamli jafnaðarmaðurinn kórónar síðan skömm sína með grein í Fréttablaðinu í dag, 13da nóvember árið 2012, og dregur þá ályktun, að af því til eru fleiri ofstækismenn en hann – jafnvel sex þúsund – hafi hann sagt satt og stefið í drápu hans er: „Ekki lýg ég”.
En nú er komið í ljós að Sighvatur sagði ekki satt – hann laug, ef til vill ekki vísvitandi heldur af þekkingarleysi og ofstæki sem hæfir ekki manni á áttræðisaldri. Í nýjustu neyslu- og lífsstílskönnun Capacent kemur nefnilega fram að hópurinn 35-45 ára er ekki sjálfhverfasti hópurinn, eins og hann heldur fram. Fyrirtækið Auglýsingamiðlun hefur unnið úr könnun Capasent þar sem kemur í ljós að hópurinn 18-29 er mun sjálfhverfari, þ.e.a.s. eyðir meiru. Í könnuninni kemur einnig í ljós að sjálfhverfa – en hér er átt eyðslusemi – fer almennt minnkandi eftir því sem fólk eldist, þótt undantekningar séu á og til séu gamlir menn sem gleyma engu og læri ekkert, eins og sagt er um heimska fíla. Og þá er að ráðast á hópinn 18-29 ára – það er sjálfshverfa kynslóðin.
Hins vegar vil ég sem gamall barnakennari að norðan benda á, að orðið sjálfhverfur er nýyrði sem Sigurður Guðmundsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, bjó til um það sem á dönsku er nefnt egocentrisk og á ensku egocentric og merkir sjálfselskur, eigingjarn – en einnig „maður sem beinir athyglinni um of að eigin tilfinningum eða gerir sig að mælikvarða allra hluta”. (Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi 1999:311)