Laugardagur 17.11.2012 - 17:36 - FB ummæli ()

Ný kynslóð í stjórnmálum á Íslandi Ný hugsun – Nýtt Ísland

Margt bendir til þess að ný kynslóð sé að kveðja sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, bæði í gamla fjórflokkunum og nýjum flokkum eða framboðum, sem hafa hætt sér út á vígvöllinn, þar sem flestir verða sárir, allir ákaflega móðir og margur góður maður, karl eða kona, fer þaðan kalinn á hjarta, eins og Grímur Thomsen segir í kvæði sínu Á Glæsivöllum þar sem hann lýsir stjórnmálalífi á 19du öld. Kvæðið kallar hann Á Glæsivöllum.  Þar er ekki allt sem sýnist, þrátt fyrir glæsileikann:

Hjá Goðmundi á Glæsivöllum

gleði er í höll,

glymja hlátrasköll,

og trúðar og leikarar leika þar um völl,

en lítt er af setningi slegið.

Á Glæsivöllum aldrei

með ýtum er fátt,

allt er kátt og dátt,

en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,

í góðsemi vegur þar hver annan.

Náköld er Hemra,

því Niflheimi frá

nöpur sprettur á.

En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,

kalinn á hjarta þaðan slapp ég.

Lýsing Gríms, bónda á Bessastöðum, getur vel átt við stjórnmálalíf á Íslandi undanfarna áratugi, eins og skrif Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar, Styrmis Gunnarssonar, Svavars Gestssonar – að ekki sé talað reiðilestra  Sighvats Björgvinssonari – bera með sér.  Allir virðast þeir að vísu hafa sloppið lifandi úr þessu ríki handan Hemru, fljótinu sem skilur á milli ríkis hinna lifandi og hinna dauðu, Niflheimi, en allir koma þeir aftur til mannheima með kalið hjarta.

Vonandi er að unga fólkið, sem nú kveður sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, getið sloppið við hjartakuldann. Mikilsverðast í því sambandi er að nýir stjórnmálamenn geti talað saman, bróðernið verði ekki flátt og gamanið ekki grátt, heldur tali fólk saman, hlusti á andstæðinginn eins og segir í Hávamálum: tala þarft eða þegja, eða eins og Rómverjar hinir fornu höfðu að orði á blómaskeiði sínu: Audiatur et altera parshlustið einnig á hinn aðilann. Ef stjórnmálamenn á Íslandi hlusta á hinn aðilann – og reyna að læra hver af öðrum-  er von til þess að hilli undir nýtt Ísland.

 

 

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar