Föstudagur 30.11.2012 - 10:58 - FB ummæli ()

Íslenskir stjórnmálamenn alltaf að rífast

Fróðlegt var að hlusta á Göran Persson, fyrrum, forsætisráðherra Svía, ræða íslensk stjórnmál á dögunum. Það sem hann lagði mesta áherslu á til þess að komast út úr fjárhags- og hugmyndakreppu íslenskrar örþjóðar, var að íslenskir stjórnmálamenn sýndu samstöðu og ynnu saman þar til varanlegur árangur næðist. Síðan gætu þeir farið að takast á – rífast.

Það eru gömul sannindi að „sameinaðir  sigrum vér, sundraðir föllum vér” – eða eins og rómverski sagnaritarinn Sallustius orðaði það fyrir 2000 árum: „Concordia parvae res, discordia maximae dilabuntur.” Samstaða virðist hins vegar ekki vera ein af gáfum þessarar undarlegu þjóðar. Sumir þingmenn eru heldur ekki þingtækir – eru ekki færir um að talast við á mannamótum, heldur nota þeir sjóðabúðatal og vinnukonukjaft, sem hugsanlega getur verið gott og gilt norður í Ólafsfirði eða austur í Flóa – en ekki á Alþingi.

Eftirtektarvert er einnig að sumir fréttamenn veita þessum strigakjöftum meira rúm í umfjöllun sinni en þeim fjölmörgu alþingisþingmönnum sem reyna að leggja gott til málanna. Það þykir sennilega ekki „kúl” í fréttum þar sem alltaf er verið að leita að fréttinni um manninn sem beit hundinn.

Þá er það einnig umhugsunarvert að formenn stjórnmálaflokkanna láta sitt ekki eftir liggja í svigurmælum, hvort heldur um er að ræða Bjarna Benediktsson, Steingrím Jóhann eða Sigmund Davíð – það er helst Jóhanna Sigurðardóttir sem talar af setningi, en Össur Skarphéðinsson bætir það þá upp.

Einnig er eftirtektarvert að gamlir stjórnmálamenn, sem ættu að geta litið af yfirvegun um farinn veg og gefið góð ráð, þenja sig með stóryrðum. Fer ritstjóri Morgunblaðsins þar fremstur í flokki, enda orðvís maður, en sama er að segja um Halldór Blöndal og Þorstein Pálsson, sem þó ættu að geta miðlað af þekkingu sinni. Ég tala ekki um Sighvat Björgvinsson sem enn verður sér til skammar í stjórnmálaumræðu eins og hann byrjaði með ungur á Alþingi 1976 þegar hann sakaði Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra um að hefta rannsókn í morðmáli.

Þess hefur verið getið til, að við Íslendingar værum svona orðhvatir vegna þess að við erum komnir af Agli Skallagrímssyni og öðrum ribböldum sem flýðu nýtt þjóðfélagsskipulag og reglu sem Haraldur hárfagri Hálfdanarson svarta vildi koma á í Noregi. Einnig benda fróðir menn á að yfirgangur hafi fylgt okkur frá því Sturlungaöld þegar bræður bárust á banaspjót.

Ekkert af þessu er ekki næg skýring, þótt vera kunni hluti af skýringunni. Miklu fremur mætti segja að við gerum okkur ekki grein fyrir, hvað hæfir í samskiptum siðmenntaðs fólks, enda hafa útlendingar, sem hingað koma, undrast framkomu okkar. Hér er helst um að kenna þekkingarleysi á góðum siðum, fávísi og menntunarleysi. Því bind ég vonir við að nýtt fólk og betur menntað og betur siðað sem er að hasla sér völl í stjórnmálum á Íslandi, taki upp aðra siði og sameinist um að sýna samstöðu en ali ekki á sundrungu. Þar bind ég vonir við stjórnmálaleiðtoga eins og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún flutti með sér nýtt viðhorf í borgarstjórn og gerir það án efa í landsstjórninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar