Enn einu sinni er ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands í fortið, nútíð og framtíð, því að enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar blandað sér á óviðeigandi hátt í stjórnmáladeilur samtímans.
Eins og oft áður hefur höfundur þessara orða hlustað á áramótaræður Margrétar Danadrottningar og Haralds Noregskonungs, en frá Noregi og Danmörku var Íslandi stjórnað í 656 ár – hálfa sjöundu öld og engum þjóðum erum við Íslendingar skyldari.
Megináhersla í orðum þessara tveggja þjóðhöfðingja um nýliðin áramót var lögð á það sem sameinaði þjóðirnar. Bæði Margrét Danadrottning og Haraldur Noregskonungur lögðu áherslu, hversu mikilsvert það væri að hefja sig yfir deilumál samtímans – og Haraldur Noregskonungur sagði:
Það – að þroska bestu eiginleika sína – er sérstaklega mikilsvert fyrir þá sem gegna forystuhlutverki í samfélaginu þannig að valdið sé notað til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Bæði innan stjórnmálanna og í atvinnulífi, rannsóknum, umhverfismálum og fjölmiðlum stöndum við andspænis miklum áskorunum. Við þurfum á vitrum leiðtogum að halda sem hafa getu til þess að hugsa langt fram í tímann og geta ráðið við áskoranir.
Það er erfitt að taka ákvarðanir sem bera árangur inni í framtíðinni og ekki er auðvelt að mæla. En það eru hyggindi sem við þurfum á að halda, leiðtogar sem starfa í þeirri trú að góðar ákvarðanir borgi sig þegar til lengdar lætur.
Ólafi Ragnari var ólíkt farið. Hann lagði áherslu á deilurnar í þjóðfélaginu:
Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum.
Daginn áður hafði Ólafur Ragnar lagt fram bókun á fundi ríkisráðs. Kom þar til deilna og orðaskipta í kjölfar bókunarinnar. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta í ríkisráði í nær 70 ára sögu lýðveldisins.
Í áramótaávarpinu gerði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskrá að sérstöku umræðuefni, einkum tillögur um að ríkisráð verði lagt niður. Taldi hann ríkisráð væri vettvangur fyrir „samráð þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar”.
Guðni Th. Jóhannesson segir, að ríkisráð hafi aldrei verið samráðsvettvangur, eins og Ólafur Ragnar vill vera láta. Einnig má benda á, að ríkisráð er arfleifð frá konungsríkjunum Noregi og Danmörku og ef til vill óþarft með öllu. Þá hafa fræðimenn bent á, að Ólafur Ranar sé vanhæfur að ræða um nýja stjórnarskrá sem felur í sér leikreglur fyrir forseta og alþingismenn.
En hvernig sem allt veltist, er eitt víst: Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn og koma fram fyrir hönd íslensku þjóðarinnar allrar án undirmála. Það gerðu fyrri forsetar. Þeir voru hafnir yfir flokkadrætti sem vitrir, víðsýnir og umburðarlyndur þjóðhöfðingjar en lögðu sig ekki fram um að stuðla að sundrungu og átökum.