Fimmtudagur 21.02.2013 - 10:22 - FB ummæli ()

Ný heilbrigðisáætlun

Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um velferðarstefnu: heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að jöfnuði í heilsu og lífsgæðum og tryggja aðgengi allra að viðeigandi velferðarþjónustu, óháð efnahag. Þessu markmiði þarf að fylgja eftir án undanbragða.

Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning velferðarstefnunnar og heilbrigðisáætlunarinnar, enda eru þetta mikilsverðir þættir í menningu og þroska þjóðar. Þá er heilbrigði „mikilvægt fyrir menntun, samfélags- og atvinnuþátttöku, efnahagslega þróun og samfélagið í heild,” eins og segir í greinargerð.

Af þeim sökum hefði verið eðlilegt að öll svið heilbriðisþjónustu, forvarnar- og líknarstarfs, ungra og aldinna – frá vöggu til grafar – hefðu verið tekin með í velferðarstefnu og heilbrigðisáætlun þá sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, en það er ekki gert.

Hollvinasamtök líknarþjónustu hafa að meginmarkmiði að efla líknar- og heilbrigðisþjónustu við sjúka, aldraða og deyjandi um allt land, þjónustu sem tekur mið af þörfum notenda í samráði við þá sjálfa og aðstandendur þeirra og stuðla að kynningu á líknarhjúkrun.

Í þingsályktunartillögunni er ekki minnst á líknarþjónustu. Hins vegar segir í athugasemdum: „Farið verður yfir stöðu líknarþjónustu á landinu.” Velferðarráðuneytið á að bera ábyrgð á þessu starfi en samstarfsaðilar eru heilbrigðisstofnanir, háskólar og notenda- og félagasamtök. Framkvæmd er í höndum landlæknis og skal verkinu lokið fyrir árslok 2014. Stjórn Hollvinasamtaka líknarþjónustu telur þetta bæði of lítið og of seint, auk þess sem samstarfið þarf að vera víðtækara, m.a. ná til sérhæfðrar líknarhjúkrunar utan stofnana.

Það er því eindregin ósk stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu að þessum þáttum verði gerð betri skil og tekið mið af því mikla og góða starfi sem unnið hefur verið á sviði líknarmeðferðar um allt land, bæði innan og utan heilbrigðisstofnana, en sérhæfð heilbrigðisþjónusta hefur unnið sér sess, m.a. með heimahlynningu. Þar sem ekki er grundvöllur fyrir slíka sérhæfða þjónustu í dreifðum byggðum, skal starfsfólk heilbrigðisþjónustu á hverjum stað fá markvissa fræðslu, ráðgjöf og stuðning til að tryggja að fólk geti varið síðustu ævidögunum í heimabyggð sinni, og að það geti orðið raunhæft val að deyja heima með stuðningi heilsugæslu og ráðgjöf sérhæfðs starfsfólks heimaþjónustu.

Það vekur nokkra furðu að heilbrigðisáætlun til ársins 2020, sem á að leysa af hólmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010, er svo seint fram komin. Áætlunin tekur naumast gildi fyrr en 2014, vegna afgreiðslu fjárlaga og annars undirbúnings, og kemur því aðeins til með að gilda sjö ár. Af þeim sökum þarf þegar í stað að hefja undirbúning nýrrar heilbrigðisáætlunar.

Í nýrri heilbrigðisáætlun þarf að hafa í huga, að mikill hluti kostnaðar við heilbrigðiskerfið fer sjálfkrafa í sérhæfingu, þá sem veikastir eru og í dýrustu aðgerðirnar, þ.e. sjúkrahúsin. Hins vegar þarf að stórauka forvarnarstarf og daglega þjónustu heilsugæslu við almenning og breyta áherslum, t.d. með auknu aðgengi að ráðgjöf sérfræðinga á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. Með því er unnt að minnka kostnað sjúkrahúsa. Heilsugæsla í landinu þarf einnig að taka ábyrgð á eftirfylgni og stuðningi við þá sem greinast með lífsstílssjúkdóma eða eru í áhættuhópi og þurfa að breyta lifnaðarháttum sínum.

Þá telur stjórn Hollvinasamtaka líknardeilda að endurskoða þurfi frá grunni áætlun um byggingu svo kallaðs hátæknisjúkrahúss í miðborg Reykjavíkur og efla sjúkrahús og heilsugæslustöðvar um allt land. Síðast en ekki síst þarf að tryggja menntun og kjör starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar á öllum stigum.

Í greinargerð við þingsályktunina segir: „Við gerð nýrrar áætlunar er leitast við að móta framtíðarsýn í heilbrigðismálum til ársins 2020 og lögð fram aðgerðaáætlun til að nálgast þau markmið sem fram eru sett.” Þetta hefur ekki tekist. M.a. er hvergi getið um aðkomu og áhrif sjúklinga eða aðstandenda þeirra sem er eitt höfuðmarkmið nýrrar stefnu Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðisálastofnunarinnar, WHO, sbr. t.d. nýja heilbrigðisáætlun sem norska stórþingið samþykkti 2011, samhandlingsreformen, og tók gildi 1. janúar 2012.

Með auknu trausti og aukinni samvinnu ríkis, sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, starfsfólks heilbrigðisþjónustu, sjúklinga og aðstandenda þeirra er unnt að bæta þjónustu á öllum sviðum og nýta betur bæði starfskrafta, þekkingu og fjármuni.

Flokkar: Stjónmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar