Þriðjudagur 09.04.2013 - 12:16 - FB ummæli ()

Nýir tímar

Miklar breytingar verða á þingliði eftir kosningar. Ljóst er, að fleiri nýir fulltrúar taka sæti á Alþingi en nokkru sinni í 167 ára sögu hins endurreista Alþingis. Vonandi þekkja nýir alþingismenn og -konur sinn vitjunartíma og átta sig á því, til hvers ætlast er til af þeim: að þjóna almenningi, hætta skömmum og málrófi og taka upp samræður en láta af hæðni, spotti og heimskutali, sýna virðingu og nýta þingtímann til góðra verka, bæði í nefndum og á þingfundum.

Það eru nýir tímar. Kjósendur þekkja orðið rétt sinn – þekkja sinn vitjunartíma. Þeir vita að valdið er hjá fólkinu. Í nýrri stjórnarskrá verða – hvernig sem annað veltist – ákvæði um að kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög, sem Alþingi hefur samþykkt, og geti lagt fram þingmál á Alþingi.

Beint lýðræði tekur við af flokksræði og frjálsir blaðamenn munu í auknum mæli grafast fyrir rætur hvers máls. Aukin menntun og víðsýni fólks mun valda því að gagnsæi verður haft og blind flokkshollusta hverfur fyrir skynsamlegu mati á hverju máli sem upp kemur. Þetta verða alþingismenn og -konur að gera sér ljóst. Ef þau bregðast á næsta þingi, verða þau send heim.

Þjóðþing Íslendinga árið 2010 – sem einstaka misvitrir stjórnmálamenn hæddust að – bað um réttlætivelferð og jöfnuð, bætt siðgæði, frið, aukið alþjóðlegt samstarf, skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og virðingu fyrir alla: konur og menn, unga og gamla, fólk allra þjóða og alls staðar í heiminum, hver sem trúarbrögð kunna að vera.

Það eru nýir tímar. Krafan er jöfnuður, velferð og réttlæti. Það er nóg handa öllum – ef skipt er rétt og þjóðin fær sjálf arð af eignum sínum: orkunni, vatninu og fiskinum í sjónum. Purkunarlaus auðsöfnum fárra mun senn heyra fortíðinni til. Þá er unnt að bæta menntun, sinna sjúkum frá vöggu til grafar, greiða mannsæmandi laun og gera almenningi kleift að búa við öryggi í eign húsnæði – eða í leiguhúsnæði. Þetta er markmið nýrra tíma á Íslandi.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar