Þriðjudagur 26.05.2015 - 19:29 - FB ummæli ()

Stóriðja er náttúruspjöll

Dapurlegt er að lesa grein Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, í Morgunblaðinu í dag. Í upphafi vitnar hann í Jónas Hallgrímsson sem barðist fyrir endurreisn íslensku þjóðarinnar undir kjörorðunum nytsemi, fegurð og sannleikur. Væri betur að formaður atvinnuvegnanefndar Alþingis gerði þessi orð að kjörorðum sínum og áttaði sig á því hvernig háttað er arðsemi af þeirri stóðiðjustefnu sem hann berst fyrir og telur að ekki þurfi „að fjölyrða um mikilvægi þess að uppbygging orkufreks iðnaðar haldi áfram.“

Í grein Indriða H. Þorlákssonar, sem hann nefnir Er Skrokkalda kjarabót og birtist á heimasíðu hans 20. þ.m., segir:

Ein dapurlegasta tilraun til að réttlæta náttúruofbeldi stóriðjusinna kom fram í vikunni þegar fullyrt var að frekari virkjanir væru forsenda þess að bæta megi kjör almennings. Þetta er dapurlegt af þeirri ástæðu að það sýnir veruleikafirringu stjórnvalda og virðingarleysi fyrir rökum og staðreyndum. Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu, sem er um 13.000 gígawattstundir, eru seldar til stóriðju. Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi. Þessir 17 milljarðar (og einhver smáviðbót vegna svokallaðra afleiddra starfa) eru eina hlutdeild landsins í þeim verðmætum sem stóriðjan skapar. Það er um 1% þjóðartekna.

Og Indriði spyr:

Hvað þarf margar Skrokkölduvirkjanir til að auka þjóðartekjur og bæta hag almennings með nýjum stóriðjuverum? Væri ekki ráðlegt að svara því áður en náttúruverðmætum er fórnað erlendum auðhringjum?

Þetta er mergurinn málsins. Ný stóriðjuver bæta ekki hag almennings né heldur hag þjóðarinnar. Til þess eru aðrar leiðir færar á grundvelli nytsemifegurðar og sannleika. Hins vegar má taka undir orð Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnumálanefndar Alþingis, að við “eigum að gera kröfur um að íslenskt samfélag standist samanburð við það besta sem við þekkjum í nágrannalöndunum.” En við gerum það ekki með því að selja náttúruauðlindir landsins erlendum auðhringum sem maka krókinn – græða milljarða meðan við tínum molana af allsnægtarborðum þeirra.

Flokkar: Stjónmál
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar