Hlutverk grunnskóla
Samkvæmt lögum er hlutverk grunnskóla – í samvinnu við heimilin – að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi og haga störfum sínum í samræmi við þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Þá skal grunnskólinn stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning á íslensku samfélagi, sögu og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra, eins og segir í gildandi lögum um grunnskóla.
Hlutverk framhaldsskóla
Hlutverk framhaldsskóla er lögum samkvæmt að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, bjóða nám við hæfi og búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til þekkingarleitar. Markið er því sett hátt í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.
Framkvæmd laganna ábótavant
Lítið er hins vegar gert í grunnskólum og framhaldsskólum landsins til þess að sinna þessum lagalegu skyldum og Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekkert gert til þess að stuðla að þessu mikilsverða hlutverki skólanna. Kennarar fá enga menntun eða þjálfun í því að stuðla að þátttöku nemenda í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun og hvorki er þessi lagaskylda skipulega fléttuð inn í nám nemenda í hinum ýmsu greinum né heldur er fyrir hendi kennaranám eða kennsla í lýðræðislegri hugsun og þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi í stöðugri þróun.
Námsskrá í lýðræði og lýðræðislegri hugsun
Brýna nauðsyn ber til að Mennta- og menningarmálaráðuneytið láti þegar í stað semja námsskrá í lýðræði og lýðræðislegri hugsun og sinni þannig ótvíræðri lagaskyldu sinni og skólanna. Til þess að gera kennurum kleift kenna lýðræðislega hugsun og lýðræðisleg viðhorf í skólum og gera nemendum fært að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun, þarf að gefa kennurum kost á að mennta sig sérstaklega á þessu sviði. Vel menntað fólk í háskólum landsins er fullfært um að taka að sér þessa kennslu fyrir kennara þar sem rakin væri rakin saga, inntak og markmið lýðræðis á Vesturlöndum og bent á réttindi – og skyldur almennings og stjórnvalda í lýðræðisríki. Í kennslunni mætti m.a. hafa til hliðsjónar niðurstöður Þjófundarins 2009 og rannsóknarskýrslu Alþingis í níu bindum sem skilað var 2010 auk þess sem mikið hefur verið um lýðræði skrifað undanfarna áratugi hér á landi og erlendis. Málið þolir enga bið.