Mánudagur 01.08.2016 - 18:29 - FB ummæli ()

„Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?

 

Fróðlegt er að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gær. Fyrirsögnin er: „Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?” Fyrirsögnin endurómar upphafsorð þýðingar Steingríms Thorsteinssonar á ljóði Heinrichs Heine, Loreley:

Eg veit ekki af hvers konar völdum

svo viknandi dapur eg er.

Ef til vill hefði höfundur Reykjavíkurbréfs átt að nota orð skáldbróður síns ómenguð, því að þau virðast lýsa mun betur hug hans og efni bréfsins.

Fyrsti kafli bréfsins heitir „Þreytt fyrir tímann”. Þar segir:

Væntanlega er mest að marka það sem gerist í opnum, upplýstum og lýðræðislegum þjóðfélögum. Varla er nýjabrum lýðræðisins fokið út í veður og vind. Þetta er glænýtt fyrirkomulag. En þó virðist óneytanlega á því þreytueinkenni. Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.

Rétt er að benda á orðin: „Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.” Síðar segir höfundur:

Stór hluti jarðarbúa hefur ekki enn fengið að kynnast lýðræðinu, nema af afspurn. … Mannréttindasáttmálar eru til og manréttindadómstólar, en því fer fjarri að heimurinn allur lúti þeim. Sumir gera það meira á orði en borði, en aðrir alls ekki og komast upp með það. En hvernig stendur á því, að einmitt þar sem lýðræðislegar leikreglur eru í heiðri hafðar, sé álitið á leiðtogunum sem almenningur hefur sjálfur valið svona lítið.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins svarar spurningunni þannig, að almenningi sé „löngu orðið ljóst að ekkert sé að marka” orð leiðtoganna.

Lýðræðislegir valdamenn hafa nokkur völd, þótt misjafnt sé eftir löndum. Í létt – lýðræðisríkjum, sem óþarft er að nefna, geta völd manna verið býsna mikil. Helsta ástæða þess er sú að jafnvægi vantar. Það skortir öfl sem veita valdhöfunum aðhald. Þar má nefna öfluga stjórnarandstöðu, frjálsa fjölmiðla, gagnsæja stjórnsýslu og á lokastogi dómstólana.

Þetta eru eftirtektarverð orð Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, en það blað hefur ekki talist til frjálsra fjölmiðla. Jafnvægi í stjórnmálum á Íslandi má lýsa með því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn nær 55 ár af 72 árum lýðveldistímans – eða nær 8 ár af hverjum 10 árum. Hefur enginn flokkur á Vesturlöndum átt viðlíka fylgi – og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar 2009 þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs .

Einu fulltrúar fólksins í kerfinu

Áður en höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins víkur að lokum að hinu „ólýðræðislega sambandi í álfunni” – Evrópusambandinu – segir hann: „Enn sem fyrr eru þó stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu.” Þessi orð lýsa takmörkuðum skilningi á nútíma lýðræði og gamaldags og úreltri afstöðu. Að vísu er ekki ljóst við hvað höfundur á með orðinu „stjórnmálamenn”, en það virðist merkja fulltrúar á Alþingi, alþingismenn og ráðherrar. Í nútíma lýðræðisríki á almenningur fjölmarga fulltrúa. Í dag ber að nefna forseta Íslands, sem telur mikilsverðasta hlutverk sitt að hlusta á og þjóna almenningi, umboðsmann Alþingis, umboðsmenn barna, sveitarstjórnarmenn og kennara, svo nokkur dæmi séu tekin, auk þess sem stjórnarskrá lýðveldisins og lög veita almenningi tryggingu.

Lokaorð Reykjavíkurbréfs gærdagsins skjóta síðan skökku við, að enn sem fyrr séu stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu. Lokaorðin hljóða þannig í Drottins nafni: „Fyrst að stjórnmálamenn hafa sjálfviljugir svipt sig völdum að mestu, gerir þá nokkuð til þótt við kjósum t.d. Pírata, sem enginn veit fyrir hvað standa.” Þessi orð bera svip þess sem höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fordæmdi í upphafi: að afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar