Fimmtudagur 11.08.2016 - 10:02 - FB ummæli ()

Ein þjóð – ein tunga

Lengi hefur verið vitnað í orð Snorra Hjartarsonar: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein”, orða Jónasar um „Ástkæra ylhýra málið” og orða Einars Benediktssonar: „Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu.” Þá er haft eftir Sigurði Nordal: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku“. Þessi ummæli lýsa viðhorfi margra.

Úlfar Bragason skrifar í Fréttabréfi Stofnunar Sigurðar Nordals 2, 2000:

Íslendingum er tamt að líta svo á að þjóðerni þeirra sé falið í tungumálinu og þeim bókmenntum sem á því hafa verið ritaðar. Íslensk málrækt hefur því oft snúist upp í málvernd, íhaldsemi og þröngsýni. Þegar verst gegnir þola menn ekki annað tungutak en sitt eigið og skiptir þá litlu hvort það er betra en annarra. Þetta viðhorf hefur síðan meðvitað eða ómeðvitað bitnað á útlendingum sem hafa viljað læra málið. Gengið er út frá því að þeim muni varla eða aldrei takast að ná valdi á því enda sé íslenskan svo erfitt mál. Að vísu verða menn að viðurkenna að dæmin sýna annað en einatt er litið á þau sem undantekningar.

Viðhorf Íslendinga til eigin tungu hefur valdið því að mikla einbeitni hefur þurft hjá erlendu fólki sem hefur viljað læra málið. Erfitt hefur reynst að finna kennsluefni við hæfi og framboð á kennslu hefur verið lítið. Þessi viðhorf landsmanna gera líka erlendu fólki erfitt fyrir að setjast að á Íslandi því það hættir seint að vera utangarðs í málsamfélaginu enda allt of lítið hjálpað til að nema málið.

Undanfarnar vikur hefur Veðurstofa Íslands látið tvo útlendinga – sennilega nýbúa – lesa veðurfréttir annan veifið. Framtak Veðurstofunnar er sannarlega umhugsunarvert: að leyfa starfsmönnum, sem hafa lagt á sig það erfiði að ná tökum á þessu flókna máli, að lesa veðurfréttir. Ef til vill má líta á þetta frumlega framtak sem tilraun til að sýna nýbúum virðingu og vekja athygli á mikilvægi málsins í samfélaginu – þessu samfélagi á Íslandi sem er ekki lengur einsleitt og einangrað heldur hefur færst nær hringiðu umheimsins með flóknu tungumálakerfi sínu, átökum og tortryggni.

Á hinum Norðurlöndum hefur það ekki gerst – að því best er vitað – að nýbúar hafi fengið að koma fram í útvarpi eða sjónvarpi með þessum hætti. Í Noregi eru tvö ríkismál og fjölmargar mállýskur og í norska ríkisútvarpinu NRK, bæði útvarpi og sjónvarpi, eru þessar mallýskur virtar. Í BBC má heyra margs konar ensku, eins og lesendur vita. En erlendir málhafar fá ekki inni við fréttalestur í NRK eða BBC né annars staðar sem vitað er til.

Framtak Veðurstofunnar er sannrelega umhugsunarvert og til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það ber að rækta íslenska tungu sem þjóðtungu landsmanna hvaðan sem þeir eru upprunnir, enda er það samdóma álit nýbúa á Íslandi – eins og víðast hvar annars staðar – að til þess að geta tekið þátt í lífi og starfi samfélagsins verði þeir að læra þjóðtunguna.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar