Fimmtudagur 22.09.2016 - 13:36 - FB ummæli ()

Glæpir gegn mannkyni og morð á saklausu fólk

 

Hörmulegt er að horfa upp á glæpi gegn mannkyni og morð á saklausu fólki hvern dag sem guð gefur yfir. Þótt mannskepnan hafi frá örófi alda sýnt illmennsku og mannfyrirlitningu og saklaust fólk hafi þurft að þola ofbeldi og yfirgang valdsmanna, hafa glæpir gegn mannkyni og morð á saklausu fólki ekki verið daglegt brauð á borðum okkar fyrr en síðustu ár – vegna fréttaflutnings sem ekki lýtur boðum og bönnum valdhafanna.

Stóra spurningin er: Hvers vegna geta Sameinuðu þjóðirnar, Evrópubandalagið, Bandaríki Norður Ameríku, Rússland, Þýskaland, Bretland, Frakkland, Indland og Kína ekkert gert. Hvers vegna í ósköpunum er ekki bundinn endir á glæpi gegn mannkyni og morð á saklausu fólki sem við verðum vitni að hvern dag? Þarf heimurinn áfram að horfa upp á vannærð og deyjandi börn í Afríku og Asíu, vegalausa flóttamenn, bjargarlausar og svívirtar konur og ráðþrota flóttamenn? Hvar liggur hundurinn grafinn? Kann enginn af stífbónuðum stjórnmálamönnum ráð til þess að binda endi á þessa óþverra skömm – eða vilja þeir ekki eða geta þeir ekki hamlað gegn glæpum gegn mannkyni og morðum á saklausu fólki? Eeða eru það ef til vill allt önnur öfl en lýðræðislega kjörnir fulltrúar fóksins –eins og kallað er – sem ráða gangi heimsins, auðmenn og vopnaframleiðendur sem svífast einskis í auðsöfnun sinni?

 

Næturvörðurinn

Ríkissjónvarpið sýnir þessar vikurnar þáttaröð sem nefnd er á íslensku Næturvörðurinn, á ensku The Night Manager – tvírætt heiti sem e.t.v. mætti þýða „sá sem ræður nóttinni, myrkrinu”. Þættirnir eru byggðir á sakamálasögu eftir hinn frábæra rithöfund John le Carré, sem er dulnefni enska rithöfundarins Davids John Moore, en hann skrifaði skamálasögur á sínum tíma sem fjölluðu um samskipti vesturs og austurs á dögum kalda stríðsins og byggði þar á sögulegum heimildum.

Litlum vafa er undirorpið að John le Carré byggir frásögn sína á staðreyndum: spillingu innan stjórnmálanna og ofurvöld vopnaframleiðenda. Ef ekki kæmu til stríðsvopn og önnur manndrápstæki vopnaframleiðenda – hvar í flokki sem þá er að finna – gætu ofbeldismenn heimsins ekki staðið fyrir þessum glæpum gegn mannkyni og morðum á saklausu fólki.

Svarið til Sameinuðu þjóðanna, Evrópubandalagsins Bandaríka Norður Ameríku, Rússlands, Þýskalands, Bretlands, Frakklands, Indlands og Kína er því: Stöðvið alla vopnaframleiðslu til að binda enda á glæpi gegn mannkyni og morð á saklausu fólki og notið fjármagnið til þess að auka matvælaframleiðslu, bæta heilsugæslu, mennta fólk og efla lýðræði: rétt fólks til þess að ráða sér sjálft í skjóli þekkingar.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar