Föstudagur 12.01.2018 - 18:01 - FB ummæli ()

„Það sem dvelur í þögninni” – áhrifamikil bók um konur

Margar góðar bækur komu út á liðnu hausti: skáldsögur, minningarbækur og fræðirit – að ógleymdum ljóðabókum sem skipta tugum, enda hefur íslensk tunga aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú.  Staðhæfingin er reist á þeirri staðreynd að ekki aðeins á liðnu hausti heldur undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð, kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta, stendur með miklum blóma. Þá hafa nýmæli komið fram í ljóðagerð, vísnasöng og rappi, svo og  í auglýsinga­gerð í útvarpi og sjóvarpi, þar sem frumleiki, orðaleikir og fyndni, sem áður var óþekkt í málinu, hafa auðgað tunguna.

Ein bók frá liðnu hausti hefur sérstöðu fyrir margra hluta sakir, bók Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur sem hún nefnir Það sem dvelur í þögninni. Ásta Kristrún er brautryðjandi í námsráðgjöf á Íslandi og starfaði tæp tuttugu ár við uppbyggingu þjónustu Háskóla Íslands og allt frá bernsku hafa listir verið henni hjartfólgnar, svo og bækur, myndlist og tónlist.

Bókin Það sem dvelur í þögninni fjallar um ævi og örlög íslenskra kvenna á 19du og 20ustu öld.  Í upphafi bókainnar segir, að hvert sem litið sé í sögunni sé sjaldan getið um afrek kvenna og þær, sem komist hafi á spjöld sögunnar, hafi flestar komist þangað sakir grimmdar, lævísi eða galdra. Margar mikilhæfar konur dvelji hins vegar í hinum djúpa þagnarhyl aldanna.  Með bókinni vildi Ásta Kristrún einnig svipta hulunni af  þögninni um þrjár formæður sínar, Kristrúnu Jónsdóttur [1806-1881], Ástu Júlíu Thorgrímsen [1842-1893] og Kristrúnu Tómasdóttur [1878-1959], auk þess sem hún fjallar á nærfærin hátt um Jakobínu Jónsdóttur [1835-1919], eiginkonu Gríms Thomsens [1820-1896].  Kristrún Jónsdóttir var heitbundinn Baldvin Einarssyni [1801-1833] og beið hans í festum sjö ár, en hann gekk að eiga aðra konu í Kaupmannahöfn.  Sjö árum eftir heitrofið gekk Kristrún að eiga séra Hallgrím Jónsson [1811-1880] mikinn lærdómsmann, en Kristrún syrgði hins vegar Baldvin Einarsson  alla ævi.  Þá er mikill fegur að frásögn Ástu Kristrúnar um Guðnýju Jónsdóttur, skáldkonu frá Klömbrum í Aðaldal, en hún var systir  Kristrúnar og lést langt fyrir aldur fram eftir barnamissi og harðræði í hjónabandi.

Bókin Það sem dvelur í þögninni er skrifuð meðan barátta kvenna um allan heim gegn ofbeldi karla og kynferðislegri mismunun var að brjótast fram, og þótt bókin sé ekki skrifuð í tengslum við þá baráttu veitir hún þeirri mikilsverðu baráttu meiri dýpt.  Ásta Kristrún segir að frásagnir bókarinnar um þær merku konur sem skópu viðhorf hennar og tengingar við fortíðina séu ritaðar í minningu foreldra hennar, Jónínu Vigdísar Schram [1924-2007] og Ragnars Tómasar Árnasonar [1917-1984].

Næmni höfundar og tilfinning fyrir öðru fólki, aðstæðum þess og umhverfi mótast af einlægni og skáldlegum innblæstri af fólki úr lífi hennar svo að á stundum greinir lesandinn ekki milli skáldskapar og raunveruleika sem gerir bókina enn meira hrífandi.  Þá eiga þjóðfélagsmyndir bókarinnar og lýsingar á lífi fólks erindi við alla, karla og konur á nýrri öld nýrra réttinda og jöfnuðar þjóða og einstaklinga.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar