Miðvikudagur 10.1.2018 - 18:25 - FB ummæli ()

Opinber tungumál heims

Mismunandi er hve mörg opinber tungumál eru í hverju sjálfstæðu ríki heims.  Samkvæmt skrá Sameinuðu þjóðanna eru aðildarríki þeirra nú 193 talsins.  Ísland var um tveggja áratuga skeið fámennasta ríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.  Nú eru 20 ríki fámennari.  Eins og lesendur þekkja, eru íbúar á Íslandi um 340 þúsund en aðeins eitt opinbert tungumál.  Á landinu eru hins vegar töluð um 100 – eitt hundrað – tungumál og á landinu býr samkvæmt skrá Hagstofu Íslands fólk sem fætt er í um 160 þjóðlöndum, flestir í Póllandi eða 13.811.  3.412 eru fæddir í Danmörku, 2001 í Svíþjóð, 1.132 í Noregi og 213 í Finnlandi.  1.751 eru fæddir í Þýskalandi, 1.489 í Bretlandi, 2.187 í Bandaríkjunum, 399 í Rússlandi, 682 á Spáni, 635 í Frakklandi og 342 á Ítalíu, 77 í Eþíópíu, 84 í Gabon og 90 í Kenía – og þannig mætti lengi telja.

Þetta er mikil breyting á 50 árum og hefur áhrif á málsamfélagið.  Engar kröfur hafa enn verið gerðar um annað – eða önnur opinber tungumál á þessu fámenna landi, enda sennilega tómt mál um að tala af ýmsum ástæðum.  Hins vegar er heimsmálið enska sífellt notað í auknum mæli í samskiptum fólks á Íslandi, s.s. í verslunum, veitingastöðum og á vinnustöðum.

Í Noregi eru íbúar um 5.2 milljónir og eru opinber tungumál tvö, norska og samíska.  Norska skiptist í tvennt: nýnorsku, sem er runnin frá gamla norræna málinu – eins og íslenska, og bókmál, sem er danska með sænskum framburði, eins og gárungarnir segja.  Í Danmörku eru íbúar nær 5.7 milljónir.  Opinbert tungumál er þar aðeins eitt, danska, enda þótt íbúar í landsins tali um 50 mállýskur og yfir 100 tungumál eins og á Íslandi.  Í Svíþjóð eru íbúar um 10 milljónir.  Frá 2009 er sænska eina staðfesta opinbera tungumálið í landinu.  Hins vegar eru samíska, finnsk-úgríska tungumálið meankieli, finnska, rómani og jiddiska, sem er mál Gyðinga frá Mið og Austur Evrópu,  viðurkennd sem mál minnihlutahópa sem búið hafa í landinu um langt skeið.  Að auki eru í Svíþjóð að sjálfsögðu töluð á annað hundrað mál innflytjenda eins og í flestum öðrum Evrópulöndum.

Til gamans má geta þess að í Tógó, sem er eitt minnsta og fámennasta land í Afríku með um 8 milljónir íbúa, eru töluð um 40 tungumál, en franska er þar opinbert tungumál auk tveggja annarra tungumála, evé í suðri og kabiyé.  Í Kína er íbúafjöldi um 1,4 milljarðar.  Þar eru nær 300 tungumál sem töluð eru víðs vegar um þetta víðfeðma land sem er um 9.6 milljarðar ferkílómetra, 9.596.961 km2.  Flestir tala mandarín, sem er af kínversk-tíbetanska málaflokknum, og er það hið opinbera mál í Kína.

Í Belgíu búa um 6.5 milljónir íbúa.  Þar eru töluð þrjú tungumál þeirra sem fæddir eru í landinu: hollenska sem um 60% tala og oft er kölluð flæmska; franska eða vallónska sem um 40% íbúanna talar, og þýska er töluð af um einu prósent íbúa.  Öll þessi þrjú tungumál eru talin opinber tungumál í Belgíu.

Opinber tungumál ríkja heims eru því með ýmsum hætti, eins og sjá má af þessum dæmum, en tungumál heimsins eru talin nær 7000.   Tungumál heims eru því mörg og misjöfn – ólík eins og mannfólkið.

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 1.12.2017 - 15:40 - FB ummæli ()

Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018

Á næsta ári „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, eins og segir í þingsályktunartillögu Alþingis 13. október 2016. Haldinn verður hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag árið 1918 var samningnum um fullveldi Íslands lokið. Einnig verður efnt til hátíðahalda 1. desember 2018 í tilefni þessara tímamóta.

Alþingi kaus nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöldin á næsta ári í samræmi við þingsályktunartillöguna, ráði framkvæmdastjóri og starfslið eftir þörfum og eins og fjárveiting leyfir. Nefndinni var falið að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna og „stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafna öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi, og hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.”

Alþingi fól ríkisstjórn að gera í fjármálaáætlun næstu fimm ára ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns og undirbúa tillögu um fimm ára áætlun uppbyggingu innviða máltækni fyrir íslenska tungu og fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar og efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.

Undirbúningsnefndin auglýsti í haust eftir „hugmyndum að vönduðu verkefni á dagskrá afmælisársins” vegna fullveldisins. Hópur áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu sendi nefndinni tillögu um að gefin yrði út Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, sem hefði að geyma ljóð er birst hafa á öld íslensks fullveldis. Skyldi sýnisbókin afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í hverjum skóla landsins. Sýnisbókin yrði síðan gefin út sem skólaljóð fyrir grunnskóla, er Ríkisútgáfa námsbóka gæfi út. Tekið var fram að til verkefnisins væri stofnað „til að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum lifandi ljóðarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefur verið meiri.”

Undirbúningsefndin um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands svaraði tillögu áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu fyrir viku og tilkynnti, að ekki væri unnt að styðja við tillöguna um Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, enda hefðu 169 tillögur borist og sótt um rúmlega 200 milljónir króna.

Fróðlegt verður að sjá, hvaða tillögur hljóta náð fyrir augum nefndarinnar „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, en grundvöllur íslenskrar menningar og forsenda sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar er tungumálið: ástkæra ylhýra málið, eins og Jónas Hallgrímsson segir í ljóði sínu „Ásta”, ljóði sem ort er til skáldgyðjunnar.

Flokkar: Stjónmál

Laugardagur 4.11.2017 - 13:40 - FB ummæli ()

Hún hefur svo sem alveg heimild til þess að sækja um embætti dómkirkjuprests

Einkennileg voru ummæli Þorvalds Víðissonar biskupsritara, sem höfð voru eftir honum í hádegisfréttum RÚV í dag laugardag 4rða nóvember AD 2017, þegar hann var spurður um það, hvort séra Eva Björk Valdimarsdóttir gæti sótt um embætti dómkirkjuprests þegar það verður auglýst að nýju – og hann svaraði:

„Hún hefur svo sem alveg [sic] heimild til þess þegar embættið í Dómkirkjunni verður auglýst, það er ekkert sem útilokar það í sjálfu sér. En hún hefur tekið við nýju embætti þannig að það væri kannski svolítið skrýtið [sic], en hún hefur alveg heimild til þess.“

Gætinn biskupsritari hefði átt að haga orðum sínum á annan hátt, því að eins og gefur að skilja getur séra Eva Björk Valdimarsdóttir að sjálfsögðu sótt aftur um embætti dómkirkjuprests.  Auk þess þarf Þjóðkirkjan á varfærni, skilningi og hógværð að halda – sem aldrei fyrr.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.10.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Öryrkjar og fátækt fólk

Nýafstaðnar Alþingiskosningar eru eftirtektarverðar um margt. Eftirtektarverðasta niðurstaða kosninganna er að mínum dómi sigur Flokks fólksins þar sem einlægni og hreinskilni Ingu Sæland olli straumhvörfum, en Þjóðfundurinn 2010 gerði orðin mannréttindi, menntun og heiðarleiki að helstu kjörorðum sínum.

Óhreinu börnin hennar Evu

Flokkur fólksins hefur m.a. vakið athygli á „óhreinu börnunum hennar Evu”, öryrkjum og fátæku fólki, sem hefur ekki átt sér formælendur í öðrum flokkum.  Samkvæmt rannsóknarskýrslu UNICEF á Íslandi frá því í fyrra, líða 9% íslenskra barna skort, og það eru um 600 börn og þar af eru um 1600 börn sem líða verulegan skort og eru t.a.m. svöng í skólanum og fá ekki að borða með hinum börnunum af því að foreldrar þeirra hafa ekki efni á að greiða fyrir skólamáltíðir. Þetta eru börn sem geta ekki stundað íþróttir, lært á hljóðfæri eða eignast ónotuð föt.  Þetta eru börnin sem mörg hver lifa við erfiðar aðstæður heima og hafa ekki náð augum stjórnvalda sem ekki hafa séð ástæðu til að skera upp herör gegn þessum sorglegu aðstæðum.  Nú hefur fártækt fólk og öryrkjar eignast málsvara á Alþingi.

Inntak lýðræðis

Annað sem fagna má er breytt umræða og breytt viðhorf.  Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna bendir á að „stjórnmál snúist ekki um meirihluta og minnihluta,” heldur að sjónarmið allra fái að heyrast.  Lengi hefur meirihlutinn á Alþingi virt að vettugi skoðanir minnihlutans eins og einn fulltrúi meirihlutans á síðasta þingi sagði: „Við erum í meirihluta og við ráðum.”  Þetta er í hæsta máta ólýðræðislegt að naumur meirihluti virði minnihlutann að vettugi.  Lýðræði felur í sér að raddir allra heyrist.

Kominn er tími til að að ræða saman og finna skynsamlegar leiðir til að leysa hin stóru vandamál, finna sameiginlega leiðir til úrlausnir með því að tala saman.  Það er kominn tími til að við hrekjum orð Halldórs Laxness í Innansveitarkróniku: Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.

Sameinuð stöndum við, sundrum föllum við

Sjálfstæðimenn notuðu á sínum tíma vígorðið „Sameinaðir sigrum við, sundraðir föllum við,”  sem nú ætti að heita: Sameinuð stöndum við, sundrum föllum við, en í frelsissöng Bandaríkjanna segir: The Liberty song, eftir John Dickinson  [1732-1808], sem ortur var 1768 hefst á orðunum: Then join in hand, brave Americans all, By uniting we stand, by dividing we fall, orð sem eiga sér sögu allt til hins forna Rómarveldis. Þessi orð eiga nú brýnt erindi til allra íslenskra stjórnmálamanna.

Flokkar: Stjónmál

Fimmtudagur 26.10.2017 - 13:42 - FB ummæli ()

Frábær leiksýning sem á erindi til allra

 

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit Henriks Ibsens Óvinur fólksins í leikgerð og þýðingu Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur, sem er leikstjóri.  Er leikgerðin allverulega stytt en kemur ekki að sök.  Leikmynd og búninga gerði Eva Signý Berger og tónlist og hljóðmynd Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristinn Gauti Einarsson.

Leikritið heitir á norsku En folkefiende og er skrifað árið 1882 og var í fyrri þýðingu á íslensku nefnt Þjóðníðingur.  Bandaríski rithöfundurinn Arthur Miller gerði leikgerð af verkinu á sjötta áratug síðustu aldar og kallaði það An Enemy of the People, sem hlaut mikla athygli, enda var þetta á tímum ofsókna í Bandaríkjunum á hendur róttæku fólki, svo kölluðum MacCarthy tímanum.

Leikritið Óvinur fólksins er eitt frægasta verk Henriks Ibsens.  Verkið fjallar um átök í smábæ í Noregi.  Þar hafa verið stofnuð heilsuböð sem draga að sér fólk víðs vegar að og eru böðin orðin undirstaða atvinnulífs og velmegunar í bænum.  Hins vegar kemur í ljós að vatnið í böðunum er mengað, eitrað, frá verksmiðju sem rekin hefur verið í bænum þrjá mannsaldra.  Bæjarstjórinn, Katrín Stokkmann, sem leikin er af Sólveigu Arnarsdóttur, vill leyna menguninni og reyna að finna leiðir til þess að bjarga böðunum og bæjarsamfélaginu, en bróðir hennar, læknirinn Tómas Stokkmann, sem Björn Hlynur Hallsson leikur, vill upplýsa almenning um málið.  Skiptist fólk í tvær andstæðar fylkingar sem takast á, en margir skipta um skoðanir og sumir oftar en einu sinni.  Einn er sá sem ekki skiptir um skoðun og það er læknirinn og vísindamaðurinn sem vill berjast fyrir lýðræði og sannleika.

Verkið lýsir á áhrifamikinn hátt hverjir hafa vald yfir sannleikanum og hvernig má skrumskæla lýðræðið.  Lokaorð verksins eru orð Tómasar Stokkmanns: „Ég gerði nýja uppgötvun. Þegar maður berst fyrir sannleikanum, þarf maður að standa einn.  Og sterkasti maður heims er sá sem þorir að standa einn.  Ég er sá maður.  Ég er sterkasti maður heims.”  Á norsku hljóða lokaorð Stokkmanns: „Den sterkeste mann i verden, det er han som står mest alene.”

Hljóðmyndin er afar áhrifamikil og leikmyndin frábær, sýnir hinn lokaða heim iðnaðarsamfélagsins með járnmöstrum og byggingum úr stáli.  Verkið kallast á við samtíma okkar þar sem takast á gróðahyggja og mengun annars vegar og hins vegar krafa um valddreifingu, velsæld og mannvirðingu.

Þessi sýning Þjóðleikhússins á leikritinu Óvinur fólksins er ein áhrifamesta sýning sem blekberi hefur séð um langan tíma og leiðir í ljós, að óvinir fólksins í samtímanum eru margir.

 

 

Flokkar: Menning og listir

Laugardagur 7.10.2017 - 09:22 - FB ummæli ()

Snjalltæki og íslensk tunga

Samskipti Íslendinga við snjalltæki verða íslenskri tungu ekki að falli. Unnt er að nýta tækni sem gerir samskiptin auðveld og einföld. Það sýnir frábært starf íslensku starfsmanna Google sem getið var um í fréttum á dögunum. Það eru aðrir þættir sem gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli.

Þá ber að hafa í huga, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku.

Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar en áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, málnotkun, bókmenntum, sagfræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í skjóli háskóla á Íslandi og annarra rannsóknarstofnana.

Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir – og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því málræktarstarfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf. Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.

 

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 7.9.2017 - 12:28 - FB ummæli ()

Skólar á nýrri öld

Enn hafa umræður orðið um styttingu náms í framhaldsskólum. Sýnist þar sitt hverjum, eins og eðlilegt er, en málefnaleg skoðanaskipti eru undirstaða framfara í lýðræðislandi. Það sem hins vegar hefur einkennt þessar róttæku breytingar, er að menntamálayfirvöld hafa lítið rætt breytingarnar og lítið samráð haft við skólana – skólastjóra og kennara – að ekki sé talað um nemendur og foreldra.

Skólanám

Eins og lesendur þekkja, eru fjögur skólastig í landinu: leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar. Hér verður einkum rætt um framhaldsskólastigið, þótt flest sem hér er sagt eigi við öll skólastigin fjögur.

Framhaldsskólar eru nú 37 talsins, þar af sjö „viðurkenndir einkaskólar”, eins og það er orðað. Öllum þessum framhaldsskólum er samkvæmt lögum ætlað að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum einum nám við hæfi og búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.

Nám í framhaldsskólunum er margbreytilegt og skólarnir af þeim sökum afar ólíkir. Skipta má framhaldsskólunum 37 í tvo meginhópa. Annars vegar eru bóknámsskólar, sem bera allir nafnið menntaskóli og hafa að meginhlutverki að búa nemendur undir sérhæft háskólanám. Hins vegar eru fjölbrautaskólar sem bjóða upp á un fjölbreyttara nám, bæði á bóknámsbrautum, listnámsbrautum og verknámsbrautum, s.s. málabraut, húsasmiðabraut, rafvirkjabraut, sjúkraliðabraut, snyrtibraut, tölvubraut og íþróttabraut.

Ljóst er af þessu að íslenskum framhaldsskólanemendum gefst kostur á að velja ólíkar námsleiðir sem veita undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms. Þá lýkur náminu með mismunandi námsgráðum, svo sem framhaldsskólaprófi, prófi til starfsréttinda, stúdentsprófi og iðnmeistaraprófi. Lýsingar á námsbrautum framhaldsskólastigi taka mið af þessum fjölbreytileika og þurfa að mæta kröfum annarra skólastiga og atvinnulífsins, auk þess að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Kröfur til framhaldsskóla

Miklu skiptir að framhaldsskólar uppfylli þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að láta nemendum líða vel, sem er algert grundvallarskilyrði.  Í öðru lagi að koma nemendum til þroska og búa þá undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Í þriðja lagi ber skólunum í upphafi nýrrar aldar að nýta tækni og þekkingu við kennslu og nám.  Einkum ber að gera nemendum kleift að nota samskiptatækni, sem stöðugt fleygir fram, til þess að afla sér þekkingar. Með því eru nemendur gerðir ábyrgir fyrir námi sínu, en eru ekki undir smásjá „heyrara” – kennara sem kanna hvort nemandinn hafi lesið heima en kenna minna.

Fyrir hálfri öld sagði nemandi við Menntaskólann á Akureyri að „heimanám ætti ekki að þekkjast í betri skólum”.  Með því átti hann við að líta bæri á skólanám sem vinnu nemenda sem lyki á eðlilegum vinnutíma en námið hengi ekki yfir þeim allan sólarhringinn, því að nemendur í framhaldsskólum vildu og vilja flestir geta sinnt öðru en náminu einu, s.s. hollu tómstundastarfi, íþróttum og listum.

Ný öld

Með nýrri tækni á nýrri öld breytast skólarnir.  Ekki síst breytist starf kennara og vinna nemenda. Stjórnvöld þurfa nú að gera áætlun um framtíð skólanna, bæði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla –og háskóla. Samræða þarf að hefjast milli þeirra sem eiga hlut að máli: kennara, skólastjóra, nemenda, foreldra, ríkis og sveitarfélaga, þannig að ný áætlun um nýtt skólakerfi á nýrri öld liggi fyrir innan fimm ára. Áætlun með skýr markmið er nauðsyn til þess að tryggja samfellu í menntakerfi landsins og efla bæði bókmenntun og verkmenntun í landinu.

 

Flokkar: Menning og listir

Föstudagur 28.7.2017 - 09:38 - FB ummæli ()

Misgerðir sem ekki verða fyrirgefnar

Sumar misgerðir verða ekki fyrirgefnar, hvorki samfélagslega né trúarlega. Verstar af þessum misgerðum, sem ekki er unnt að fyrirgefa, er ofbeldi gegn börnum, einkum kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg misnotkun barna, þótt annað ofbeldi svo sem skammir og barsmíðar.  Ofbeldi gegn konum – og „for den sags skyld” ofbeldi gegn okkur körlum – svo og hvers konar líkamsmeiðingar á fólki, af sumum taldar til íþrótta, eru skammarlegar, en allt ofbeldi er framið vegna siðblindu og í sumum tilvikum vegna geðbilunar.

Hernaðarofbeldi, sem í flestum tilvikum á rætur að rekja til gróðafíknar kapítalista og við heyrum af úti í hinum stóra heimi, bitnar ávallt á saklausu fólki, einkum konum og börnum, og eru þyngri en tárum taki og eru einnig misgerðir sem ekki er unnt að fyrirgefa. Hernaðarofbeldi – eins og allt annað ofbeldi – er ein grundvallarmynd valdabaráttu siðblindra stjórnvalda þar sem valdasjónarmið ráða.

Kristileg fyrirgefning

Í grein 16. apríl 2013, sem nefnd er „Fyrirgefning – ekki alltaf svarið”, spyr Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, hvort fyrirgefningarlíkan Nýja testamentisins sé gagnlegt í dag – og hún segir:

Ég tel það. Sérstaklega held ég að þeir sem vinna með einstaklingum sem brotið hefur verið á, svo sem þolendum ýmiss konar ofbeldis, andlegs, líkamlegs og kynferðislegs, geti haft visst gagn af því að styðjast við það. Valdasjónarmið þau sem koma fram í því eru þrátt fyrir allt alls ekki fjarri okkar veruleika. Öll tengsl okkar við annað fólk eru valdatengsl ef því er að skipta. Í ofbeldisaðstæðum nær annar aðilinn valdi yfir hinum og í krafti þess valds getur hann beitt ofbeldi. Að losna undan sálrænu valdi persónu sem hefur meitt mann og sært er mjög erfitt og tal um fyrirgefningu hjálpar ekki alltaf í þeim aðstæðum. Ef gerandinn hvorki viðurkennir verknað sinn né reynir að bæta fyrir brot sitt skyldum við, með vísan í Nýja testamentið, sleppa öllu tali um fyrirgefningu. Þótt fyrirgefningin sé okkur kristnum kær er fyrirgefning ekki alltaf svarið.

Bent skal á að kristin fyrirgefning er að dómi prófessorsins í guðfræðilegri siðfræði ekki alltaf svar við ofbeldi – og til sé annað svar. Auk þess ber að hafa í huga á þessum síðustu og verstu tímum, hafa menn, sem kallaðir eru löglærðir og hafa gegnt dómarastörfum við Hæstarétt Íslands, mæla með uppreist æru brotamanna, sem gerst hafa sekir um kynferðisleg ofbeldi og misnotkun á börnum og telja uppreist brotamanna eftir slíkar misgerðir til mannréttinda. Þarna skortir eitthvað á skilning, siðferði og heiðarleika.

Skóggangur

Í lögum íslenska þjóðveldisins eru ákvæði um hegningar við alvarlegustu brot. Þyngsta refsing, sem lögin gerðu ráð fyrir, var svo nefndur skóggangur, ævilöng útlegð úr landinu – brottrekstur úr mannlegu samfélagi. Ef til vill væri ekki úr vegi að huga að því aftur að taka aftur upp einhvers konar skóggangsdóm yfir brotamönnum sem gerast sekir um kynferðisleg ofbeldi gegn börnum og annað skelfilegt ofbeldi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.6.2017 - 19:12 - FB ummæli ()

Prins Henrik og Danmark

Det var en stor oplevelse for mig som en islandsk royalist, født under kong Christian den X, i går at se DRs „direkte” genudsendelse af prinsesse Margrethe og greve Henri de Monpezats bryllup den 10. juni 1967. Ikke mindst var det indtagende at se tronfølgerens kærlighed til den smukke grev, der lyste fra hendes øjne og i hendes smil.

Det har derimod længe undret mig på hvilken måde mange af mine danske venner i tidens løb har snakket om Hans Kongelige Højhed Prins Henriks danske sprog. Min medlidenhed har en smule med at gøre, at han og jeg har tre ting til fælles. For det første er vi begge to født på „fandens fødselsdag” den 11. juni. For det andet har vi været gift i over 50 år med vores egne Margrethe, han med Danmarks tronfølger, nuværende dronning af Danmark, jeg med min Eggertsdóttir, mor til seks børn. For det tredje har vi begge to måttet opleve at være „fremmedarbejdere” i kongeriget Danmark, greve Henri de Monpezat som „ansat” i et halvt århundrede i det danske kongehus, jeg tjenende i fire år som leder i afdeling for uddannelse og kultur i Nordisk Ministerråds Sekretariat.

De fire år i København – og mange gange siden – har jeg hørt dem som har dansk som modersmål, snakke om hvor dårlig dansk grev Henri de Monpezat taler og hvor dårligt sprogøre han har. Da har jeg funderet over hvor godt fransk eller islandsk de taler. Dette blev jeg mindet om da jeg i går hørte DRs kvindelige TV vært nævne navnet på Islands præsident i år 1967, Ásgeir Ásgeirsson, som sandelig er et vanskelig navn at udtale hvor det forekommer lange diftonger og tryk på første stavelse. Ingen Islænding ville have forstået TV værtindens udtale af præsidentens navn. Man skal ikke kaste sten i et glashus. Og greve Henri de Monpezat har gjort alt hvad han kunne for at tjene det dejlige Danmark.

Reykjavík, 11. juni 2017

Tryggvi Gíslason

 

Sent til Berlingske og Jyllandsposten

Flokkar: Menning og listir

Miðvikudagur 31.5.2017 - 12:29 - FB ummæli ()

Framtíð íslenskrar tungu

Undanfarið hefur allmikið verið rætt og ritað um ensk heiti íslenskra fyrirtækja. Ástæðan er sú, að síðara hluta maímánaðar tók Flugfélag Íslands upp nafnið Air Iceland Connect. Um árabil notaði félagið nafnið Air Iceland, en með því að bæta við orðinu Connect sýnum við tengingu við íslenska náttúru og erlenda áfangastaði á borð við Grænland, Skotland og Norður-Írland. Þetta er lýsandi nafn og við erum sannfærð um að þetta muni leiða til sterkara vörumerkis á alþjóðamarkaði, eins og haft er eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Air Iceland Connect.

Samkeppni á alþjóðamarkaði

Naumast þarf að fara í grafgötur um, að íslensk fyrirtækni og stofnanir taka aukinn þátt í samkeppni á alþjóðamarkaði þar sem tungumálið er enska. Ekkert óeðlilegt er að íslensk fyrirtæki á alþjóðamarkaði noti ensk heiti til þess að vekja á sér athygli. Leyfi ég mér að fullyrða, að ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum ógna ekki framtíð íslenskrar tungu, eins og þráfaldlega er gefið í skyn. Aðrir þættir vega þar þyngra svo sem minnkandi bóklestur ungs fólks, tölvuleikir á ensku sem valda því að börn og unglingar tala orðið ensku sín á milli. Afstaða stjórnvalda til menntamála og léleg kjör kennara er mun meiri ógn við íslenska tungu en ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum. Jafnvel óskýr framburður, sem vinnur gegn gagnsæi málsins og getur breytt málkerfinu, veldur meiri hættu en Air Iceland Connect. Röng notkun orða og orðatiltækja og orðfæð er miklu alvarlegri ógn við framtíð tungunnar en Air Iceland Connect. Lítill skilningur ákveðins hóps Íslendinga á málrækt er einnig ógn við framtíð íslenskrar tungu, en hafa ber í huga að það er vegna íslenskrar  tungu erum við sjálfstæð þjóð í eigin landi.

Dómsdagsspá

Lengi hefur verið efast um gildi íslenskrar tungu og henni spáð dauða. Árið 1754 kom út í Kaupmannahöfn ritið TYRO JURIS edur Barn í Lögum eftir Svein lögmann Sölvason. Þar segir hann, að heppilegra sé að nota orð úr dönsku en íslensku þegar ritað er um lögfræði á íslensku. Bjarni Jónsson, rektor Skálholtsskóla, lagði til í bréfi til Landsnefndarinnar fyrri árið 1771 að íslenska yrði lögð niður og danska tekin upp eða með hans orðum – á dönsku: „Jeg anseer det ikke alene unyttigt men og desuden meget skadeligt, at man skal beholde det islandske Sprog.” Í upphafi velmektardaga frjálshyggju í lok síðustu aldar var lagt til að íslenska yrði lögð niður og enska tekin upp í staðinn.

Sterk staða íslenskrar tungu

Þrátt fyrir þetta er raunin sú, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Á þetta m.a. rætur að rekja til þess, að málið hefur verið sveigt að nýjum viðfangsefnum og breyttu menningarumahverfi. Ritun skáldsagna og leikrita, ljóðagerð og vísnasöngur og vönduð bókaútgáfu hefur aldrei verið öflugri en undanfarna áratugi og nýstárlega auglýsingagerð í útvarpi og sjónvarpi hafa auðgað tunguna þar sem orðið hafa til orðaleikir og íslensk fyndni sem áður voru óþekktir í málinu – að ógleymdu rappi á íslensku. Engu að síður eru ýmis viðgangsefni sem bíða úrlausnar svo sem notkun íslensku í stafrænu umhverfi.

Flest bendir því til, að íslenska, þetta forna beygingarmál, geti áfram gegnt hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Hins vegar hefði mátt finna betra enskt nafn á Flugfélag Íslands en Air Iceland Connect.

 

Flokkar: Stjónmál

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar