Sunnudagur 29.6.2014 - 00:23 - FB ummæli ()

Something is rotten in the state of Iceland

Hvers vegna í ósköpunum – svo ég sem gamall sjómaður að austan segi ekki : hvers vegna í andskotanum þarf að vera þessi vafi um heiðarleika íslenskra útgerðarmanna? Sem sonur útgerðarmanns fyrir austan segi ég: Hvers vegna í andskotanum hefur skammaryrðið sægreifi leyst orðið útgerðarmaður af hólmi?

Íslendingar hafa ekki efni á óheiðarlegum útgerðarmönnum – óheiðarlegum sægreifum sem taldir eru „ganga ekki glæpaveg en götuna meðfram honum“. „For den sags skyld“ höfum við heldur ekki efni á óheiðarlegum kaupmönnum, óheiðarlegum verktökum, óheiðarlegum dómurum – að ég sem gamall fréttamaður undir stjórn hins heiðarlega Jóns Magnússonar fréttastjóra Fréttastofu Ríkisútvarpsins tali nú ekki um óheiðarlega fréttamenn.

Íslendingar – þessi voðalega þjóð – er aðeins til vegna þess, að í þúsund ár hefur þjóðin búið við fengsælustu fiskimið á Atlantshafi. Ísland er raunar eins konar skuttogari á miðjum fiskimiðum á mörkum Atlantshafs og Norður Íshafs.

Sem málfræðingur leyfi ég mér að nefna, að Íslendingar eiga elsta tungumál í Evrópu og geta af þeim sökum lesið þúsund ára gamlar bókmenntir, sem engir önnur þjóð í Evrópu getur. Þessi ummæli mín eru í augum sumra talin þjóðernishroki eða þjóðernisstefna – nationalismus a la Hitler – þótt skoðun okkar sé sú, að allar þjóðir – jafnvel fólks sem játar múslímstrú eða telur sig með öllu trúlaust – eigi rétt á að hrósa sér af menningu og viðhorfum meðan þess er gætt að virða mannréttindi og jafnrétti allra á öllum sviðum – og ekki að fremja morð. Móses gamli sagði líka fyrir fimm þúsund árum: „Þú skalt ekki morð fremja.“

Shakespeare, sem að vísu var ekki eins gamall og Móses, lætur Marcellus segja við Hamlet í leikritinu Hamlet Prince of Denmark: „Something is rotten in the state of Denmark. ”Höfundur þessara orða, þ.e.a.s ég – ef mig skyldi kalla – segi við Sigmund Davíð, Bjarna Benediktsson, Ólaf Ragnar og aðra valdsmenn: „Something is rotten in the state of Iceland.”

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.6.2014 - 00:42 - FB ummæli ()

Þúsund ár á einni öld

Í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga, þessarar dvergþjóðar á mörkum hins byggilega heims, þjóðar sem fjölgaði ekkert í 900 ár meðan fólksfjöldi nágrannalandanna þrefaldaðist. Fyrir rúmri öld var Ísland amt í Danmörku. Fátækt var svo mikil að sjómenn frá Noregi, sem hingað komu til fiskveiða um aldamótin 1900, sögðu heimkomnir að fátækt á vesturströnd Noregs væri auðlegð í samanburði við kjör þurrabúðarmanna á Íslandi.

MENNTUN

Fyrir 100 árum voru skólar fáir og fábreyttir. Nú er menntunarstig Íslendinga svipað og í öðrum löndum álfunnar. Í upphafi 20ustu aldar höfðu innan við þrjátíu Íslendingar lokið doktorsprófi. Síðan 1950 hafa á fjórða þúsund Íslendingar lokið doktorsprófi og nú ljúka um eitt hundrað Íslendingar doktorsprófi víðs vegar um lönd – og eru konur þar í meirihluta.

Efnahagur þjóðarinnar hefur aldrei verið betri. Verkmenning er sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum. Talandi tákn um framfarirnar er barnadauði, sem 1875 var hæstur hér á landi af öllum löndum Evrópu, en er nú lægstur í öllum heiminum.

ÍSLENSK TUNGA

Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Í upphafi 19du aldar var Reykjavík danskur bær þar sem töluð var danska á bæjarstjórnarfundum. Undanfarna hálfa öld hefur verið ritað á íslensku um flest þekkingarsvið nútímasamfélags. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og kvikmyndagerð stendur með blóma. Myndlist og tónlist þola samanburð við flest lönd Evrópu og til er orðin áður óþekkt íslensk fyndni, gamansögur og hnyttnir orðaleikir, ekki síst meðal ungs fólks, í stað skítabrandara, sjóðbúðatals og sagna af skrýtnu fólki. Atvinnulíf er fjölbreytt og fyrirtæki, stór og smá, sækja á ný mið og renna stoðum undir aukna velsæld og bætta afkomu. Þúsundir karla, kvenna og barna af erlendu bergi brotið hafa flust til Ísland til þess að setjast hér að og verða íslenskir ríkisborgarar og auðgað menningarlíf á Íslandi. 

HRAPALLEGT ÁSTAND Í STJÓRNMÁLUM

En þótt Ísland hafi „ferðast“ þúsund ár á einni öld og listir, menntun og atvinnulíf standi með blóma er enn margt ógert – og ýmsu er ábóta vant. Hrapallegast er ástandið í stjórnmálum þar sem borist er á banaspjót, innan flokka og utan, og Alþingi er skopmynd af löggjafarsamkomu. Stendur þessi ómenning mörgu fyrir þrifum.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða, viðhorf og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega umræðu og frjálsa skoðanamyndun – og farsælt stjórnarfar.

VANMÁTTUGIR STJÓRNMÁLAMENN

Samanburðarrannsóknir í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar hafa leitt í ljós gríðarlegan mun á starfsháttum stjórnmálamanna og umræðuhefð. Brigsl og stóryrði, sem margir íslenskir stjórnmálamenn temja sér, er óhugsandi í Danmörku og Noregi, enda grafa þarlendir stjórnmálamenn sér gröf með slíku tali. Hér á landi telja margir stóryrði og brigsl tákn um djörfung og festu.

Þessi frumstæða umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu og eykur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og hindrar eðlilegt samstarf enda ber almenningur ekki virðingu fyrir Alþingi eða íslenskum stjórnmálamönnum. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum við lausn aðkallandi vandamála á rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og frumstæðs stjórnmálasiðferðis og umræðuhefðar.

FJÖLMIÐLAR

Umfjöllun um ágreiningsmál í fjölmiðlum á Íslandi einkennist oft af „yfirheyrsluaðferðinni“ þar sem spyrjandi reynir að gera viðmælanda sinn tortryggilegan – og fella yfir honum dóm. Við hlið dómstóls götunnar og skvaldursins í netheimum, hefur verið settur dómstóll íslenskra fjölmiðla. Í sjónvarpi í Danmörku og Noregi býr spyrjandi sig vel undir og leitar svara á hlutlægan hátt með yfirveguðum spurningum til þess að reyna að skýra málin – og fellir ekki persónulega dóma og tekur því síður sjálfur þátt í umræðunni. Vegna yfirheyrsluaðferðarinnar fást iðulega ekki svör við brennandi spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum. 

FRUMSTÆÐ UMRÆÐUHEFР

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar á Íslandi eru vafalaust margar. Rótgróin borgmenning hefur enn ekki fest rætur á Íslandi með tillitssemi, yfirvegun og persónulegri fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámenni hefur valdið því að allir þykjast þekkja alla og persónulegt návígi nálgast iðulega ofsóknir. Stéttskipting með sínum harða aga hefur verið með öðrum hætti en úti í hinum stóra heimi – með kostum sínum og göllum, og agaleysi Íslendinga er áberandi á flestum sviðum.

Eitt af því sem mjög er aðkallandi í þjóðfélaginu, er að bæta umræðumenningu, auka virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum annarra – samfara því að koma á jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.6.2014 - 13:06 - FB ummæli ()

Alvarlegi gamanleikarinn

Þegar gamanleikarinn Jón Gnarr bauð sig fram til borgarstjórnar og varð borgarstjóri Reykjavíkur fyrir fjórum árum, undraðist ég uppátækið og hneykslaðist yfir framferðinu og taldi að nú væru endalokin framundan.

Síðan hef ég orðið að endurskoða álit mitt, orð mín og ummæli. Með góðum samstarfsmönnum hefur hann unnið ágætt starf í höfuðborg allra landsmanna, friður hefur ríkt, auk þess sem umræðan í borgarstjórn skemmtilegri en löngum og glaðværð ríkt.

En hvað veldur því að gamanleikarinn Jón Gnarr hefur staðið sig með svo miklum ágætum og öðlast virðingu og traust flestra? Það sem mestu veldur er einlægni hans og heiðarleiki og fágæt gamansemi sem hann beitir á sjálfan sig en ekki gegn öðrum. Eftir þessu hefur þjóðin beðið lengi og Þjóðfundurinn 2009 setti heiðaleika efst á óskalistann

Heiðarleiki og einlægni Jóns Gnarr kemur nú síðast fram í færslu hans á bloggsíðu sinni í dag þar sem hann segir:

„Nú langar mig til að mennta mig meira. Mig langar til að læra taugalíffræði, heimspeki og mannfræði til að geta skilið mannfólkið betur. Mig langar til að læra um loftslagsbreytingar svo við getum gert eitthvað í því. Hvernig get ég lagt mitt að mörkum? Ég vil læra um mannréttindi svo ég geti varið þau. Ég vil læra betri ensku svo ég geti talað þannig að fólk heyri til mín.“

Stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ættu að læra af gamanleikaranum sem tók hlutverk sitt sem stjórnmálamaður alvarlega.

Flokkar: Stjónmál

Sunnudagur 23.3.2014 - 20:30 - FB ummæli ()

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, hótanir og völd

Eins og stundum áður er einkennilegt að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins.  Það er engu líkara en höfundur Reykjavíkurbréfsins í dag hafi ekki að fullu stjórn á hugsun og máli, enda er honum augljóslega mikið niðri fyrir. En þó má skilja af skrifum hans: hann er ekki ánægður með Ríkisútvarpið.

Traust á Fréttastofu Ríkisútvarpsins
Höfundur Reykjavíkurbréfsins fullyrðir að ekki sé „um það deilt, svo nokkru nemi, að BBC hafi alla tíð haft verulega slagsíðu”.  BBC hafi engu að síður „gætt mun betur að sér í slíkum efnum en íslenska ríkisútvarpið, svo himin og haf eru á milli“. Síðan horfir höfundur heim og ræðir um

„hið fráleita fyrirkomulag sem komið var á til að tryggja rekstur ríkisútvarpsins undir stjórn hóps þess fólks sem lætur eins og hann eigi það og það eignarhald sé svo afgerandi að ekki þurfi að hlusta á neinar gagnrýnisraddir, þótt studdar séu margsönnuðum staðreyndum sem blasa við þorra fólks og enn síður beygja sig undir þær lagareglur sem um þessa stofnun gilda.“

Þetta segir höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, þótt meirihluti þjóðarinnar treysti – og hafi alla tíð treyst best Fréttastofu Ríkisútvarpsins allra fjölmiðla landsins fyrr og síðar.

Kommúnistinn á Fréttastofunni
Það er ekki nýtt af nálinni að Morgunblaðið ráðist að starfsmönnum Fréttastofu Ríkisúrvarpsins. Í miðu ofstæki kalda stríðsins, sem höfundur Reykjavíkurbréfsins virðist enn lifa og hrærast  í, skrifaði Morgunblaðið um rangan fréttaflutnings fréttamanns Fréttastofu Ríkisútvarpsins af mótmælafundi á Austurvelli. Sagði blaðið ekki fara milli mála að þarna væri augljóslega að verki einn af kommúnistunum á Fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Svo illa vildi til að fréttamaðurinn, sem fréttina skrifaði, var heiðursmaðurinn Thorolf Smith, flokksbundinn sjálfstæðismaður alla sína ævi, sem vitnaði gjarna í orð Voltaire gamla:

Ég er ósammála því sem þú segir en  mun verja allt til dauða rétt þinn til að segja það,“

Orð þessi hafa lengi verið notuð til þess að lýsa höfuðeinkennum tjáningarfrelsis í lýðræðisríkjum.

Nýr útvarpsstjóri
Margir binda miklar vonir við nýráðinn útvarpsstjóra. Magnús Geir Þórðarson hefur getið sér afar gott orð sem leikhússtjóri á Akureyri og leikhússtjóri Borgarleikhússins. Höfundur Reykjavíkurbréfsins reynir hins vegar að gera Magnús Geir Þórðarson tortryggilegan og læðir inn dulbúnum hótunum, enda einkenni valdsjúkra manna að vilja láta aðra dansa eftir sinni pípu. Það mun enda vera tilgangur höfundar Reykjavíkurbréfsins að hræða. En sá tími er liðinn að Morgunblaðið geti látið menn dansa eftir sinni pípu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.3.2014 - 12:13 - FB ummæli ()

Atvinnustjórnmálamenn

Könnun sem gerð var í Danmörku og birt var í www.avisen.dk/ í gær leiðir í ljós að almenningur telur danska stjórnmálamenn valdasjúka, óáreiðanlega, hrokafulla og óskiljanlega. Starf stjórnmálamanna sé að verða atvinnumennska í stað þess að berjast fyrir stefnu sinni til þess að bæta hagsmuni almennings.  Er þetta nokkuð líkt því sem er á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.2.2014 - 23:36 - FB ummæli ()

Þrætubókarlist íslenskra átakastjórnmála

Eftir að hafa hlustað á viðtal Gísla Marteins við forsætisráðherra í morgun get ég tekið undir orð Gísla Marteins – “Vá, furðulegt viðtal” – ekki aðeins vegna þess hvað forsætisráðherra sagði og gerði – heldur ekki síður vegna þess hvernig Gísli Marteinn hegðaði sér.

Sem gamall fréttamaður á gömlu Fréttastofu gamla Ríkisútvarpsins furða ég mig á sífelldum framíköllum Gísla Marteins og stöðugum tilraunum hans til þess að túlka orð forsætisráðherra. Vikulega horfi ég á sambærilega þætti í danska og norska sjónvarpinu og slík framkoma þáttastjórnenda þar er bæði óþekkt og óhugsandi. Þar stunda þáttastjórnendur ekki orðaskak við viðmælendur sína heldur reyna að kasta ljósi á viðfangsefnið og sýna virðingu.

Þrætubókarlist kemur sennilega til með að einkenna íslensk átakastjórnmál enn um hríð.

Flokkar: Stjónmál

Laugardagur 8.2.2014 - 11:32 - FB ummæli ()

Nýr Landspítali

Forsenda þess að unnt sé sinna nútímalækningum og líknarþjónustu á Íslandi er traustur Landspítali – spítali allra landsmanna, miðstöð lækninga, líknarþjónustu  og rannsókna. Ljóst er að núverandi húsnæði Landspítalans við Hringbraut er úrelt, dýrt í rekstri og fælir frá starfsfólk. Þótt mörg önnur aðkallandi verkefni séu á sviði heilbrigðismála, má það ekki verða til þess að stjórnvöld sitji lengur með hendur í skauti. Nýr Landspítali þolir enga bið. Hönnunarforsendur að nýjum spítala liggja fyrir og finna þarf leið til fjármögnunar þar sem ríki, einstaklingar og samtök almennings koma að málum.

Endurskipulagning og nýtt húsnæði

Mikill árangur hefur orðið af endurskipulagningu á þjónustu Landspítalans undanfarin ár. Í greinargerð sérfræðinga sem fyrir liggur er á það bent að tvær meginleiðir séu til þess að hafa veruleg áhrif á rekstrarkostnað sjúkrahúsa til lengri tíma, annars vegar endurskipulagning þjónustu og hins vegar endurnýjun á húsnæði. Ábati af endurskipulagningu er fullnýttur. Frekari hagræðing verður því að byggjast á endurnýjun húsnæðis.

Fjölgun aldraðra – aukinn kostnaður

Ljóst er að kostnaður við rekstur Landspítalans vex á næstu árum. Tvennt vegur þyngst: aukin tíðni langvinnra sjúkdóma – og öldrun þjóðarinnar. Rannsóknir sýna að um 65% kostnaðar við heilbrigðisþjónustu á rætur að rekja til langvinnra sjúkdóma, s.s. hjartasjúkdóma, stoðkerfissjúkdóma, krabbameins, sykursýki, offitu og lungnasjúkdóma. Meðal aldraðra er þetta hlutfall um 95%, enda þjást langflestir aldraðir af einum eða fleiri langvinnum sjúkdómi.

Samkvæmt spá Hagstofu fjölgar Íslendingum 65 ára og eldri um 50% fram til ársins 2025. Þessi aldurshópur nýtir mest þjónustu Landspítala og tekur þegar til sín 45% af legudögum, þótt hópurinn sé einungis 14 % af heildaríbúafjölda landsins. Ljóst er að sjúkrahúsið ekki annað þessari auknu eftirspurn miðað við núverandi aðstæður þar sem legurými eru fullnýtt. Þetta eru helstu rökin fyrir nauðsyn þess að bæta húsakost Landspítala og sameina alla bráðastarfsemi á einn stað.

Hagkvæmniathugun

Norska ráðgjafarfyrirtækið Hospitalitet AS bar saman fjárhagslegan ávinning af tveimur valkostum, annars vegar að vera áfram í núverandi húsnæði og sinna nauðsynlegum endurbótum á byggingum sem fyrir eru – ellegar hins vegar að reisa nýbyggingu fyrir bráðaþjónustu spítalans við Hringbraut sem í dag er rekin á tveimur meginstarfsstöðum, þ.e. við Hringbraut og í Fossvogi. Með því að nýta sér það hagræði, sem nýtt og sérhæft húsnæði hefur í för með sér, má draga úr kostnaðarhækkun.

Fyrri valkosturinn felur í sér endurbætur og viðhald núverandi húsnæðis auk 15.000 m2 nýbyggingar sem tækniframfarir og aukin starfsemi kallar á og núverandi byggingar duga ekki til. Kostnaður af þessu er metinn á 41 milljarð króna fram til ársins 2050. Hin valkosturinn felur í sér nýbyggingar fyrir bráðastarfsemi spítalans og endurbætur og viðhald á húsnæðinu við Hringbraut. Kostnaður af þessu er metinn á 61 milljarð króna fram til ársins 2050.

Athuganir sýna að nýtt sérhannað húsnæði dregur mjög úr sýkingum sem eru kostnaðarsamar og eykur öryggi sjúklinga. Allir þessir þættir stuðla auk þess að styttri legu sjúklinga, aukinni framleiðni og þar með lægri rekstrarkostnaði.

Hagnaður af nýjum Landspítala

Greining norska ráðgjafafyrirtækisins sýnir að síðari valkosturinn skilar árlegri rekstrarhagræðingu sem nemur 2.6 milljörðum króna miðað við fyrri valkostinn. Gerð var núvirðisgreining til að bera saman áhrif valkostanna tveggja til ársins 2050. Niðurstaðan var sú að síðari leiðin hefur mun hagstæðara núvirði en fyrri kosturinn. Munurinn var frá 6,8 milljörðum upp í 27,6 milljarða eftir vaxtastigi. Rekstrarhagræðing af síðari leiðinni er því nægileg til að standa straum af verkefninu ásamt fjármagnskostnaði að teknu tilliti til þeirrar hækkunar á rekstrarkostnaði húsnæðis sem fylgir breytingunum og rekstrarábati byrjar að skila sér sama ár og nýtt hús er tekið í notkun og annað húsnæði lagt af.

Síðari valkosturinn eykur framleiðni og dregur úr áhrifum af hugsanlegum skorti á heilbrigðisstarfsfólki þar sem hver starfsmaður afkastar meiru í nýju húsnæði, auk þess sem nýtt húsnæði er líklegra til að draga að hæft starfsfólk. Það er því bæði brýnt og hagkvæmt að reisa nýjan Landspítala strax.

Flokkar: Stjónmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Laugardagur 14.12.2013 - 10:46 - FB ummæli ()

Ríkisútvarp – sem rís undir nafni

Ríkisútvarp – sem rís undir nafni – er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins ásamt Alþingi, mennta- og rannsóknarstofnunum, stofnunum heilbrigðiskerfisins í margbreytilegum myndum sínum, menningarstofnunum, svo sem leikhúsum og tónlistarfélögum – og þjóðkirkju.

Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um slíkar stofnanir svo og aðrar stofnanir sem reknar eru fyrir skattpeninga almennings, enda eru umræður stöðugar og skoðanir skiptar. Auk þess er umræða um atvinnulífið og fyrirtæki í eigu einstaklinga nauðsynleg, en slík fyrirtæki hafa ekki síður áhrif á daglegt líf, velsæld og velferð almennings en stofnanir hins opinbera.

Lýðræðisland – sem rís undir nafni

Í lýðræðislandi – sem rís undir nafni – þarf að vera vettvangur fyrir málefnalegar umræður um þessi og önnur álitamál svo og aðgengi að traustum upplýsingum um þjóðfélagsmál. Til þess að stuðla að þessari umræðu og veita upplýsingar höfum við fjölmiðla af margvíslegu tagi: blöð og tímarit, útvarp, sjónvarp og ekki síst hið mikla undur tækninnar – veraldarvefinn.

Enn sem komið er virðist mikilsverðasti fjölmiðillinn hér á landi – og í nágrannalöndum okkar, vera ríkisútvarp – rekið í almannaþágu. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er öflugt ríkisútvarp með mörgum rásum hljóðvarps og sjónvarps auk skóla- og kennslusjónvarps og kennsluútvarps og sjónvarps um listir og menningu.

Umræða – sem rís undir nafni

Í fyrstu grein laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu segir, að markmið laganna sé „að stuðla að lýðræðislegri umræðu og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.”

Ráðherra – sem rís undir nafni

Þessi markmiðslýsing Ríkisútvarpsins er því skýr og metnaður af hálfu löggjafans mikill að þessu leyti. Hins vegar eru ákvæði laganna „um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu“ gölluð hvað varðar stjórn þess. Í þriðja kafla um Stjórnskipulag Ríkisútvarpsins segir Ríkisútvarpið sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins, ráðherra fari með eignarhlut ríkisins og stjórn skuli kosin á aðalfundi.

Þetta þýðir að ráðherra kýs einn stjórn á aðalfundi og getur einn ráðið öllu, sem hann gerir. Slíkt samrýmist illa fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu í lýðræðislandi þar sem valddreifing er fyrsta boðorðið – ekki einræði. Fyrirkomulagið er að vísu svipað í Noregi. Þar er löggjafinn hins vegar ekki að breiða yfir einræðið heldur segir einfaldlega: Ráðherra er aðalfundur útvarpsins: „Kirke- og kulturministeren er NRKs generalforsamling.” En lýðræðisleg hugsun er lengra á veg komin í Noregi en á Íslandi og pólitísk aðhald meira.

Danska ríkisútvarpinu, Danmarks radio, er stjórnað af ellefu manna stjórn sem ráðherra skipar eftir tilnefningu frá Folketinget sem tilnefnir sex fulltrúa og starfsfólk Danmarks radio tvo. Sjálfur tilnefnir ráðherrann þrjá fulltrúa. Með þessu er reynt að gæta ólíkra hagsmuna og fagmennsku, enda eru Danir lengra komnir í lýðræðislegri hugsun og gerðum en Íslendingar.

Lýðræðileg umræða og hlutlægar upplýsingar

Til þess að stýra málefnalegri umræðu og veita hlutlægar upplýsingar og koma á framfæri andstæðum sjónarmiður þarf að vera til sjálfstætt Ríkisútvarp laust úr viðjum flokkspólitískra valdhafa. Æskilegt væri að helstu stofnanir og samtök þjóðfélagsins, s.s. samtök atvinnulífsins og launþega, samtök listamanna og skólar, þjóðkirkjan og önnur trúfélög ættu fulltrúa í stjórn Ríkisútvarps sem risi undir nafni og lagt gæti grunninn að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi. Þá hefðu mistök af því tagi sem nú hafa orðið í Ríkisútvarpi ráðherra ekki orðið.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Laugardagur 16.11.2013 - 01:03 - FB ummæli ()

Jónas Hallgrímsson

Mörgum er það ráðgáta að einstaka menn, karlar eða konur, geta orðað hugsanir, tilfinningar og lífsreynslu sína betur en aðrir og geta í máli brugðið upp sterkum myndum af mannlífi, náttúru, hugsunum og tilfinningum. Vafalaust veldur margt þessum hæfileikum: næm tilfinning, innsæi, lífsreynsla, íhygli og gagnrýnin hugsun.

Í dag er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, eins og Grímur Thomsen nefndi hann í ljóði sem birtist í Nýjum félagsritum 1846, árið eftir að Jónas dó. Þessu litla ljóði lýkur þannig:

 

Náttúrunnar numdir mál,

numdir tungur fjalla,

svo að gastu stein og stál

í stuðla látið falla.

 

Íslands varstu óskabarn,

úr þess faðmi tekinn,

og út á lífsins eyðihjarn

örlagasvipum rekinn.

 

Langt frá þinni feðra fold,

fóstru þinna ljóða,

ertu nú lagður lágt í mold,

listaskáldið góða.

 

Þessi ummæli hlaut Jónas Hallgrímsson nýlátinn, 37 ára að aldri. Ekkert annað ljóðskáld hefur hlotið sömu hylli, enda þótt Íslendingar hafi síðan eignast mörg afburða ljóðskáld, enda tókst honum í fáum ljóðum að bregða upp sterkum og lýsandi myndum af mannlífi, náttúru, hugsunum og tilfinningum. Jónas Hallgrímsson er fyrsta nútímaskáld Íslendinga af þeim sökum að enn lesum við ljóð hans eins og samtímaskáldskap sem ekki er um önnur samtímaskáld hans. Þá ber það vitni um virðingu og hylli sem hann nýtur, að fæðingardagur hans var gerður að sérstökum málræktardegi Íslendinga, Degi íslenskrar tungu, þótt allir dagar á Íslandi eigi að vera málræktardagar.

En hvað gerði Jónas Hallgrímssonar að því skáldi sem hann er? Grímur Thomsen svarar þessu að nokkru í ljóðinu Jónas Hallgrímsson: hann nam mál náttúrunnar og mýkt ljóða hans var einstök; hann varð fyrir sorg og hvarf burtu af Íslandi og örlögin ráku hann út á eyðihjarn lífsins með svipum þungra örlaga.

Það sem gerði Jónas Hallgrímsson að því skáldi sem hann er, var skilningur hans og tilfinning fyrir íslenskri náttúru og kveðskaparhefð sem hann ólst upp við heima og í Bessastaðaskóla, söknuðurinn við föðurmissi og annarra ástvina, heimþrá, tilfinninganæmi, ástarsorg og þunglyndi – bringsmalaskottan, sem hann fann snemma fyrir – og að auki næmleiki hans sem víða má sjá dæmi um í ljóðum hans.

Síðasta árið sem Jónas Hallgrímsson lifði, orti hann smáljóð, sonnettu, sem lýsir hug hans og tilfinningum:

 Svo rís um aldir árið hvurt um sig,

eilífðar lítið blóm í skini hreinu.

Mér er það svo sem ekki neitt í neinu,

því tíminn vill ei tengja sig við mig.

 

Eitt á eg samt, og annast vil eg þig,

hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu,

er himin sér, og unir lágri jörðu,

og þykir ekki þokan voðalig.

 

Ég man þeir segja: hart á móti hörðu,

en heldur vil eg kenna til og lifa,

og þótt að nokkurt andstreymi ég bíði,

 

en liggja eins og leggur upp í vörðu,

sem lestastrákar taka þar og skrifa

og fylla, svo hann finnur ei – af níði.

 

Orðin: heldur vil eg kenna til og lifa eiga sér fáar hliðstæður í bókmenntum Íslendinga, látlaus en áhrifamikil. 

Flokkar: Menning og listir

Þriðjudagur 12.11.2013 - 08:51 - FB ummæli ()

Yfirveguð stjórnmálaumræða

Yfirveguð umræða um stjórnmál – og önnur álitamál er fágæt á Íslandi.  Sumir skýra frumstæða og öfgakennda umræðu með víkingseðli Íslendinga, á sama hátt og forseti Íslands skýrði útrásina forðum daga. Aðrir skýra íslenska umræðuhefð með einangrun landsins, menntunarleysi landsmanna og fámenni þjóðarinnar.  Enn aðrir kenna því um, að lítil áhersla sé lögð á umræður og málefnaleg skoðanaskipti í skólum.

Vonir

Margir bundu vonir við, að þegar Þorsteinn Pálsson tók að skrifa fasta þætti um þjóðmál og stjórnmál í Fréttablaðið, yrðu skrif hans fræðandi og málefnaleg, bæði vegna menntunar hans og reynslu.  Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur að mennt, varð ritstjóri Vísis 1975, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1979, formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991, sat á Alþingi 16 ár, var forsætisráðherra 1987-1988, sat sem ráðherra í tveimur ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar – „einkum til að tryggja sátt og einingu meðal flokksmanna“, eins og skrifað stendur, og er „sá maður sem lengst hefur farið með sjávarútvegsmál á Íslandi“.  Að lokum var Þorsteinn Pálsson sendiherra í Lundúnum og Kaupmannahöfn 1999-2005 og ritstjóri Fréttablaðsins 2006-2009.

Vonbrigði

Skrif þessa reynslumikla manns hafa hins vegar valdið vonbrigðum – og undrun.  Þau eru óskipuleg og orðalag böngulegt. En ekki síst hefur það valdið undrun – og vonbrigðum, að hann hefur enn ekki getað hafið sig yfir dægurþras og átakastjórnmál, heldur skipar hann sér í flokk og dæmir andstæðinga sína óvægilega.

Þetta á við um pistil hans í Fréttablaðinu 2. nóvember s.l. sem fjallar um „þjóðernispópúlisma í Evrópu“.  Pistillinn virðist skrifaður til þess að sverta andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu og eru okkur valin uppnefni til þess að gera afstöðu okkur tortryggilega. Hann talar um þjóðernislegar tilfinningar og pópúlisma og segir, að sumir þessir flokkar hafi jafnvel á sér yfirbragð fasisma.  Þrennt einkenni þá flokka sem andvígir eru Evrópusambandinu: þjóðernishyggja og andstaða við Evrópusamvinnu, neikvæð afstaða til innflytjenda og „yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála“.

Ekki liggur í augum uppi, við hvað Þorsteinn Pálsson á með því, að flokkarnir hafi á sér „yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála“.  Sennilegt er, að hann eigi við, að þessir flokkar þykist berjast fyrir umbótum í velferðar- og félagsmálum.  Slík barátta ætti þó ekki að vekja undrun og tortryggni árið 2013, því að flestir stjórnmálaflokkar í norðanverðri Evrópu – að ekki sé talað um á Norðurlöndum – hafa barist fyrir jafnrétti á sviði velferðar- og félagssmála áratugum saman, m.a. Hægri flokkurinn í Noregi (Høyre partiet), Hægri flokkurinn í Svíþjóð (Moderata samlingspartiet) og Hægri flokkurinn í Danmörku (Det Konservative Folkeparti), sem eru systurflokkar Sjálfstæðisflokksins, flokks Þorsteins Pálssonar.

Undrun

Þá vekur það undrun okkar gamalla framsóknarmanna, að Þorsteinn Pálsson skuli kalla Fremskridspartiet, sem Glistrup stofnaði í TIVOLI 14. júní 1972, Framsóknarflokkinn í Danmörku – ekki Framfaraflokkurinn í Danmörku, eins og þeir gera sem gæta vilja hlutlægni og vilja láta taka sig alvarlega.  Sama gildir um Fremskrittspartiet í Noregi, sem Carl. I. Hagen stjórnaði í aldarfjórðung og flestir er kalla Framfaraflokkinn í Noregi til þess að jafna honum ekki við Framsóknarflokkinn á Íslandi sem hefur ávallt verið og er hógvær miðflokkur, eins og Senterpartiet í Noregi sem þrívegis hefur átt forsætisráðherra.  Fremskridspartiet í Danmörku og Fremskrittspartiet í Noregi voru hins vegar lengi hægri öfgaflokkar þar sem ríkti þjóðernisstefna, neikvæð afstaða til innflytjenda og andstaða við umbætur í velferðarmálum, þótt það hafi breyst.  En tilgangur Þorsteins Pálssonar er hins vegar ekki að „hafa það sem sannara reynist“, heldur að kasta rýrð á skoðanir sem andstæðinga sinna.

Óboðleg skrif um álitamál

Þegar Þorsteinn Pálsson hefur undirbúið jarðveginn í þessum pistli sínum og líkt Framsóknarflokknum við hægri öfgaflokka, skrifar hann „að ekki hafi bólað að nokkru marki á pólitískri þróun af þessum toga hér á landi fyrr en ný forysta  tók við í Framsóknarflokknum fyrir rúmum fjórum árum.  … Framsókn er fyrsti og eini flokkur sinnar tegundar á evrópska efanhagssvæðinu til að veita ríkisstjórn og landi forystu“.

Og Þorsteinn Pálsson, ritstjóri, ráðherra, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og sendiherra, klikkir út með því að segja: „Þó að þessi pólitík hafi verið lengi á leiðinni til Íslands hefur hún náð hærra flugi hér en annars staðar.“ Með öðrum orðum: Hægri öfgaflokkurinn – Framsóknarflokkurinn – hefur gengið lengra en slíkir öfgaflokkar annars staðar sem einkennast af þjóðernishyggja og andstöðu við Evrópusamvinnu, neikvæðri afstöðu til innflytjenda og hafa á sér „yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála“ og sumir jafnvel á sér yfirbragð fasisma.  Hvaða tilgangi þjóna skrif af þessu tagi og eru þau boðleg almenningi og sæmandi Þorsteini Pálssyni?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar