Miðvikudagur 23.1.2019 - 13:49 - Lokað fyrir ummæli

Frostið oss herði?

Peter Freuchen, danski heimskautaofurhuginn, hefur líkast til aldrei hlotið þá frægð sem hann á skilið. Einn af þessum sérvitru brjálæðingum sem krydda mannkynssöguna með tilvist sinni og ævintýrum. Sögurnar hans hafa yfir sér ævintýrablæ í ætt við Munchausen, vafalaust ýktar eða í það minnsta færðar í stílinn, þó svo kjarni þeirra geti svosem vel verið sannur. Þannig er sagan af því þegar hann grófst í fönn í svo miklu frosti að gufan úr andardrætti hans settist innan á snjóveggina sem umluktu hann og breyttist í ís. Hélumyndunin þrengdi sífellt meira að honum svo hann sá sig loks tilneyddan að brjótast út.

Það hlýtur að vera æðsta stig sjálfheldunnar að festast í eigin andardrætti.

Óneitanlega er eitthvað táknrænt við þessa frásögn. Hún gæti til dæmis verið dæmisaga um kvíða, þar sem einstaklingur lokar sig af en eykur um leið á eigin vanda og verður því að brjótast út úr skelinni til að halda lífi. Flott saga sem slík, trúleg og ótrúleg um leið. Líkingin gæti líka talað til stærri veruleika þar sem hópur sem einangrar sig frá umheiminum verður fjötraður af eigin „anda“, frýs inni.

En Peter Freuchen braust út.

Það gerði hann af eigin rammleik, með eigin hugviti og því sem hann átti tiltækt og hendi var næst, segir sagan. Hann ku nefnilega hafa fryst eigin skít og mótað úr honum verkfæri til að moka sig með út. Hvað sem sagt verður um blautan skít þá virðist sá frosni bíta.

Kannski var Freuchen pólitíkus

Pólitík er mögulega sá bransi þar sem fólk beitir oftast fyrir sig eigin skít sem vopni. Tekur eigið klúður, eigin ósigur eða niðurlægingu, hnoðar saman og herðir síðan í frostinu sem jafnan umlykur hinn einangraða stjórnmálamann. Ræðst svo af öllu afli á fyrirstöðuna og mokar sig út.

Í þeim heimi verður ævintýrið, hetjusagan, að veruleika. Að minnsta kosti um sinn.

Hvort hinn pólitíski ofurhugi lifir síðan hetjulífi til æviloka, segjandi sögur sínar með tilþrifum umkringdur stóreygum og opinmynntum fylgjendum, er alfarið háð því hvort honum tekst að sveifla lífsvopni sínu nógu hratt og hátt til að ekki finnist af því fnykurinn eða áferðin sjáist.

Sem og því hvort við hin kjósum heldur að játa trú á ævintýrahetjur eða læra af sögunni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.6.2017 - 17:07 - Lokað fyrir ummæli

Ávarp 17. Júní 2017

Kæru Hafnfirðingar, góðir gestir – gleðilega hátíð!

Það er hjarta í Hafnarfirði. Það sjáum við glöggt á degi sem þessum, 17. júní, þegar lífið streymir um götur bæjarins í allri sinni fjölbreytni og litadýrð. Hér er gaman að vera og gott að vera til.
Þakka ykkur öllum fyrir að lífga upp á bæinn, við skulum njóta þess að vera saman á þjóðhátíðardaginn, sem og aðra daga.
Skrúðgangan hófst á óhefðbundnum stað í dag með því að bæjarbúum var boðið í afmæli til Hraunbúanna í skátaheimilið sem fagnar 20 ára afmæli í dag. Takk fyrir boðið kæru skátar og til hamingju með daginn! Megi Hraunbyrgi blómstra áfram með því góða starfi sem þar fer fram.

Síungur bær
Hafnarfjörður fagnar sjálfur kaupstaðarafmæli í júní og á næsta ári verða árin orðin hundrað og tíu. Það ár verða líka hundrað ár liðin frá því Ísland hlaut fullveldi og mun því bæði bærinn og landið allt hafa ástæðu til að fagna.
Bærinn okkar er í senn gamall og ungur. Miðbærinn á sér langa sögu, hér byggðust húsin upp í kringum líf og starf með höfnina og sjóinn sem útgangspunkt. Þessi saga heldur áfram, enn kvikna hér hugmyndir og verða að veruleika, enn veðjar ungt fólk á þennan stað til að stofna fyrirtæki sem styrkja bæjarmyndina og glæða miðbæinn lífi.

Starfsemin í dag er önnur en hún var fyrir hundrað árum, en nú sem þá er hún í takt við samtímann, öflug, skapandi og í fremstu röð.
Við þurfum ekki að ganga langt út frá þessum miðpunkti, Thorsplaninu, til að upplifa þetta mannlíf, þessa sköpun og þennan kjark. Gleymum því ekki að við íbúarnir erum lífið í bænum, það er í okkar höndum að styðja og styrkja þetta dýrmæta frumkvæði sem gerir bæinn okkar svo einstakan.

Heilsueflandi Hafnarfjörður
Hafnarfjörður er heilsueflandi samfélag og hefur gert samkomulag við Landlæknisembættið um að setja heilsu í forgang í allri stefnumótun og starfi. Fyrstu verkefnin sem fara af stað undir merkjum þessa samkomulags snúa að yngstu og elstu íbúum bæjarins. Heilsa og vellíðan barna, hvort sem er líkamleg, andleg eða félagsleg, er þar annars vegar og hins vegar heilsuefling eldri borgara.
Skólarnir eru í brennidepli hvað börnin okkar varðar, sem og hið fjölbreytta og öfluga frístundastarf sem bærinn státar af. Við Hafnfirðingar höfum styrkan grunn til að byggja á, sem veitir heilsueflingu byr frá fyrsta degi og gefur fyrirheit um góðan árangur.
Heilsuefling eldri borgara er gríðarlega mikilvægt og verðmætt verkefni. Fjárfesting í heilsu borgar sig margfalt, enda er ómetanlegt að búa við góða heilsu og virkni ævina á enda. Í Hafnarfirði er öflugt félagsstarf í elstu aldurshópunum. Því stýrir fólk sem tekur frumkvæði og hefur metnað fyrir því að gera sífellt betur. Ég hlakka mjög til að sjá heilsueflingarverkefnið fara af stað, en það mun byggja á markvissri þjálfun sem miðar að því að viðhalda og efla líkamlegt jafnt sem andlegt atgervi. Ég veit að eldri borgarar í Hafnarfirði munu taka þátt af krafti og njóta afrakstursins ríkulega.

Hafnfirðingar eignast St. Jósefsspítala
Þessa dagana er langþráður draumur að verða að veruleika. Við Hafnfirðingar erum að fá St. Jósefsspítala í okkar hendur og getum nú loksins sett kraft í það verkefni að glæða hann lífi á ný. Það er heilsuefling fyrir bæjarsálina að þetta fallega hús fái aftur sitt fyrra útlit og reisn og fylli okkur stolti á ný í stað sársauka þegar við göngum þar hjá. Þetta hús og það starf sem þar fór fram á ríkan stað í hjarta bæjarbúa og við höfum öll þörf fyrir að sjá það lifna á ný.
Hvert hlutverk hússins verður mun framtíðin leiða í ljós. Það munum við bæjarbúar ákveða í sameiningu og hvet ég ykkur öll til að koma ykkar hugmyndum á framfæri við starfshópinn sem fá mun það spennandi verkefni að gera tillögur um framtíðarnotkun. Til hamingju Hafnfirðingar!

Vaxandi bær
Hafnarfjörður er að fyllast krafti og sækja í sig veðrið á ný. Bærinn er að vaxa. Nútíð og framtíð fylgja ný tækifæri sem okkur ber að grípa. Markaðsstofa Hafnarfjarðar, nýr samstarfsvettvangur stjórnsýslu, íbúa og atvinnulífs, fagnaði nýlega sínu fyrsta starfsári. Á þessum stutta tíma hefur Markaðsstofan sannað sig sem tengslavettvangur sem eflir samheldni í vaxandi flóru fyrirtækja í bænum. Saman getum við svo margt!

Lifandi söfn
Mig langar að hvetja ykkur sérstaklega til að heimsækja söfnin okkar í dag, sem og aðra daga. Byggðasafnið opnaði nýverið sýningu um skólastarfið í bænum og Hafnarborg er síkvik með sínar fjölbreyttu sýningar. Í dag, 17. júní, hýsir Hafnarborg gestasýningu frá Annríki, þjóðbúningum og skarti, þar sem sjá má þjóðbúninga frá ýmsum tímum.
Reyndar er bærinn allur sýningarsalur á 17. júní þegar þjóðbúningar eru annars vegar. Á þessum degi fyllist Hafnarfjörður nefnilega af gangandi myndastyttum íklæddum dýrmætu handverki hins íslenska búningaarfs. Þetta er fallegur siður, megi hann dafna áfram.

Verum við sjálf!
Lífið er sjaldan litríkara en á 17. júní. Í dag hittast gamlir vinir, skólafélagar og ættingjar á förnum vegi og njóta þess að vera til. Börnin finna eitthvað spennandi að sjá og gera á hverju götuhorni og öllum er okkur boðið heim til Austurgötubúa, sem að þessu sinni sýna náungakærleik í verki með söfnun fyrir nágranna sína sem nýlega misstu húsið sitt.
Hjartað slær í Hafnarfirði og hjartað er hlýtt og kærleiksríkt. Leggjum áfram rækt hvert við annað, eflum heilsu bæjarlífsins, verum virk og tökum þátt!
Þorum umfram allt að vera við sjálf, fjölbreytileikinn er verðmæti út af fyrir sig. Öll erum við einstök þótt öll séum við eins inn við beinið.

Hjartað slær í Hafnarfirði, framtíðin er björt!
Njótið dagsins, kæru Hafnfirðingar, gleðilega þjóðhátið!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.4.2016 - 10:29 - Lokað fyrir ummæli

Róluvellir og rekstur bæjar

Ræða mín um ársreikning Hafnarfjarðar 2015 frá bæjarstjórnarfundi 27. apríl 2016:

Á róluvelli þjóðfélagsins
er vegasaltið 
langsamlega mikilvægast

Samt skal alltaf vera
lengsta biðröðin
við hoppukastalana

Þetta ljóð eftir Sigurð Pálsson skáld, sem ber yfirskriftina Þjóðvegasalt, lýsir í einfaldleika sínum heimi stjórnmálanna á snilldarlegan hátt og er að mínu mati vel við hæfi við lestur ársreikninga og undirbúning fjárhagsáætlana.

Löngunin til að opna fyrir aðgang í hoppukastala og finna fiðringinn í maganum er alltaf jafnsterk, enda þótt skynsemin segi okkur að jafnvægið sé grundvöllurinn, að við verðum að geta staðið áður en við göngum og gengið áður en við hlaupum.

Skynsemi er almennt ekki mikið tekin í pólitík, hún kemst ekki í fyrirsagnir blaða og fær hjartað ekki til að slá hraðar af spenningi. En skynsemin er samt forsenda gleðinnar, grunnurinn undir fjörinu.

Ársreikningur Hafnarfjarðar fyrir árið 2015 ber merki um langvarandi jafnvægisskort. Þættirnir sem draga niður eru hlutfallslega þungir og þegar horft er lengra aftur í tímann sést að jafnvæginu hefur verið náð með herkjum trekk í trekk og að reksturinn á erfitt með að standa af sér ytra áreiti.

Uppsafnað ójafnvægi

Jafnvægisskorturinn er uppsafnaður, hvort sem horft er til langvarandi kyrrstöðu í launaþróun starfsfólks sveitarfélaga sem tók síðan kipp síðustu tvö árin, langvarandi skorts á viðhaldi á eignum bæjarins sem skapar þörf á bráðaaðgerðum, uppsöfnunar lífeyrisskuldbindinga sem ekki er brugðist við með inngreiðslum, eða þeirra fjölmörgu ára þar sem skuldir eru ekki greiddar öðruvísi en með nýrri lántöku. Sumt af þessu hefur Hafnarfjarðarbær haft á sínu forræði og valið að hafast ekki að, annað eru afleiðingar af ytri aðstæðum, fjármálakreppu og ákvarðanatöku á öðrum vígstöðvum. Oft er um samverkandi þætti að ræða, en áhrifin eru öll mjög á einn veg.

Á síðasta árinu sem kom út í plús hjá Hafnarfirði, var það gengismunur gjaldmiðla sem gerði gæfumuninn. Með öðrum orðum tilviljun. Gengismunur gjaldmiðla er ekki á forræði bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Það að hagstætt gengi skuli geta vippað bæjarsjóði upp um hundruð milljóna endurspeglar reyndar þá köldu staðreynd að skuldir bæjarins í erlendri mynt voru umfangsmiklar, þannig að happafengurinn sem ýtti bænum upp fyrir núllið árið 2013 var í raun ekki kominn til af góðu. Hann var ekki styrkur, heldur mun frekar veikleiki. Þung skuld, sem hefði allt eins getað ýtt okkur niður eins og upp eftir því hvernig vindar blésu í gjaldmiðlaþróun á alþjóðamarkaði. Vogun vinnur og vogun tapar, vegasaltið sveiflast án okkar stjórnar. Það er fallvalt jafnvægi.

Árið 2015

Á miðju ári 2015 var gripið til hagræðingaraðgerða á grunni rekstrarúttektar sem unnin var veturinn 2014-15. Áhrifa þeirra aðgerða gætir því ekki nema að hálfu leyti á rekstrarárinu, auk þess sem aðlögunartími fylgir flestum breytingunum. Ljóst má vera af lestri ársreikningsins að ráðstafanir til hagræðingar voru óumdeilanlega nauðsynlegar og verulega tímabærar. Það sést reyndar ekki bara í baksýnisspeglinum. Þörfin var þekkt, enda vitað að von væri á hækkunum launa en því til viðbótar komu síðan ófyrirséð áföll sem eiga þátt í því að draga reksturinn niður fyrir núllið.

Ytri áhrifaþættir árið 2015

Niðurstaða ársins 2015 sveiflast niður fyrir áætlun af ýmsum orsökum, sem bæjarstjórn hefur ekki nema í besta falli óbeina stjórn á:

-Endurkröfu um útsvarsgreiðslur upp á um 400 milljónir var ekki hægt að sjá fyrir, en alveg ljóst að á tímum stórra launahækkana var það þungt högg að fá ekki inn aukið útsvar, heldur þvert á móti þurfa að skila til baka útsvari sem greitt var í bæjarsjóð löngu fyrir 2015.

-Launaleiðréttingar (samkvæmt bókunum í fyrri samningum um endurupptöku starfsmats) og launahækkanir í nýjum samningum vógu líka þungt. Hafnarfjörður hafði þar sömu aðkomu og önnur sveitarfélög (að Reykjavík undanskilinni sem gerir eigin samninga), sem aðili að kjarasamningum Sambands sveitarfélaga. Þessum launaleiðréttingum ber reyndar að fagna, enda langt tímabil kjarafrystingar að baki. Launaumhverfi opinberra starfsmanna á Íslandi er því miður með þeim hætti að á skiptast tímabil stöðnunar og tímabil átaka sem leiða til stórra stökka í kjörum. Áhrif þessarar vinnumarkaðsvenju á sveitarfélögin eru svo þau sem við sjáum í ársreikningi 2015, stór breyting sem slær út fyrri áætlun og raskar jafnvæginu.

-Aukning lífeyrisskuldbindingar um milljarð, til viðbótar við hálfs milljarðs aukningu árið 2014 er afleiðing launabreytinga og frá því sjónarhorni ekki beint á forræði bæjarins að stjórna. Uppsöfnun lífeyrisskuldbindinga í bókhaldinu byggir hins vegar á vali bæjarstjórna í gegnum tíðina, þar sem hægt er að grynnka á þeim með inngreiðslum.

Lífeyrisskuldbindingar Hafnarfjarðarbæjar

Lífeyrisskuldbindingar eru orðið stórt rautt flagg í ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar. Sé horft til annarra sveitarfélaga þá sést að okkar krónutala er um 80% af krónutölunni sem Reykjavíkurborg hefur í sínum bókum (árið 2014). Samt er Hafnarfjörður að umfanginu til bara rétt um 20% af Reykjavík. Kópavogur er með næstum helmingi lægri tölu en Hafnarfjörður, sem reyndar getur tengst því að um yngra sveitarfélag er að ræða og því mögulega færri starfsmenn (núverandi og fyrrverandi) sem tilheyra eldri deildum lífeyrissjóða, eftirlaunadeildunum. Því ber líka að halda til haga að um 20% af upphæðinni okkar eru til komin vegna skuldbindinga sem raktar eru til Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem er mál sem ekki á sér hliðstæðu í nágrannasveitarfélögunum.

Það liggur hins vegar fyrir að Reykjavíkurborg greiddi inn á sínar lífeyrisskuldbindingar þegar hlutur borgarinnar í Landsvirkjun var seldur fyrir um áratug síðan. Uppsöfnun lífeyrisskuldbindinga er nefnilega ekki náttúrulögmál, við henni má bregðast. Í raun er um skuld að ræða, svipað og með skuldir vegna lána, enda vinnuveitandinn skuldbundinn til að greiða fólki eftirlaun þegar starfsævinni lýkur. Eftirlaunadeildir lífeyrissjóða búa ekki að sjóðsöfnun nema að litlu leyti, í dag greiðir t.d. Hafnarfjörður tvo þriðjuhluta af lífeyri til fyrriverandi starfsfólks, á meðan sjóðurinn greiðir þriðjung.

Lífeyrisskuldbinding í bókum bæjarins sem er orðin á pari við heildartölu árlegra launaútgjalda og vex á tveimur árum um 1,5 milljarð kallar óneitanlega á það að bæjarstjórn skoði inngreiðslur á skuldbindinguna til jafns við innborganir á lán.

Niðurgreiðslur skulda

Síðusta rúma áratug hefur Hafnarfjörður ekki greitt af lánum öðruvísi en með nýrri lántöku. Núverandi meirihluti hefur á stefnuskrá sinni að greiða með virkum hætti niður skuldir bæjarins og bæta þannig jafnvægið í rekstrinum. Fjárhagsáætlun ársins 2016 inniheldur beinar niðurgreiðslur lána upp á 200 milljónir, auk þess sem tilfallandi tekjuaukningu er að jafnaði ráðstafað til viðbótaruppgreiðslu lána. Það er skynsamleg og ábyrg ráðstöfun sem horfir til lengri tíma en yfirstandandi augnabliks.

Rekstrarniðurstaða ársins 2015 sýnir það glöggt að Hafnarfjörður þarf á skynsemi að halda næstu misserin. Við verðum að létta á þeim þáttum sem draga reksturinn niður, skuldum og lífeyrisskuldbindingum þar á meðal um leið og markvisst er unnið að því að efla allt það sem lyft getur rekstrinum upp.

Höldum okkur við staðreyndir

Þessi skoðun mín á ársreikningi Hafnarfjarðar fyrir árið 2015 fjallar ekki um persónur og leikendur, bæjarstjóra eða flokka. Hún fjallar um staðreyndir og það sem hefur verið gert, eða ekki gert, á undanförnum árum.

Verum óhrædd við að rýna staðreyndir, skoða orsök og afleiðingu og læra af reynslunni. Tökum síðan höndum saman um að treysta grunninn til langrar framtíðar og bæta jafnvægið í rekstri Hafnarfjarðarbæjar. Verum skynsöm.

Forgangsröðun verður að byggja á styrkum grunni – án hans gerum við ekkert.

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Föstudagur 15.5.2015 - 09:12 - Lokað fyrir ummæli

Fjölmenning í Hafnarfirði

Heimurinn er alltaf að minnka og veröldin að stækka. Þetta hljómar kannski þversagnarkennt, en með bættum samgöngum og fjölbreyttari samskiptaleiðum, styttast leiðir og kunningsskapur eykst milli þjóða og menningarheima.

Evrópsk lýðræðisvika verður haldin í október næstkomandi undir yfirskriftinni „Að búa saman í fjölmenningu, virðing, samtal og samskipti“. Þessi yfirskrift lýsir vel því viðfangsefni sem bæjarfélög víðs vegar í Evrópu fást við um þessar mundir; að tengja saman innfædda og aðflutta og styrkja þannig samfélagið innanfrá.

Hafnarfjörður er engin undantekning hvað þetta viðfangsefni varðar, nema síður sé. Í bænum er eitt stærsta, ef ekki það stærsta, samfélag innflytjenda frá Póllandi, auk þess sem fjölmörg önnur þjóðerni er að finna í fjölbreytilegu samfélagi fjarðarins fagra.

Bærinn á reyndar rótgróna sögu um samskipti við aðrar þjóðir, allt frá Hansakaupmönnum til erlendra nunna og systra sem þjónuðu bæjarbúum með hjúkrun og kennslu barna.

Enda er margt vel gert í Hafnarfirði þegar kemur að fjölmenningu. Öflug móttaka nemenda með annað móðurmál fer fram í Lækjarskóla, bókasafnið státar af góðum bókakosti á þýsku og pólsku og starfrækir á þeim grunni m.a. líflegt barnastarf. Nýverið tók bærinn síðan á móti flóttamönnum í samstarfi við Rauða krossinn og félagsmálaráðuneyti.

Fjölmenningarráð, stefnumótun í málefnum innflytjenda og bætt aðgengi að upplýsingum

Alltaf má hins vegar bæta og efla það sem vel er gert, ekki síst ef grunnurinn er góður. Fyrir liggur að stofnsett verður fjölmenningarráð í Hafnarfirði og verður í þeim efnum byggt á góðri reynslu af öldungaráði, ungmennaráði og ráðgjafaráði í málefnum fatlaðs fólks.

Þjónustuviðmót bæjarins gagnvart fólki með annað móðurmál en íslensku þarf tvímælalaust að bæta, ekki síst á heimasíðu og á þeim samskiptaleiðum sem bæjarbúar nýta gagnvart sveitarfélaginu. Þörf fyrir móðurmálskennslu tvítyngdra barna eykst sífellt. Heildstæð stefna í málefnum innflytjenda, þvert á málaflokka, er líka mikilvægt verkefni sem þarf að vinna.

Þegar þjónusta er mótuð er fyrst og síðast brýnt að hafa samráð við notendur hennar, ekki síst þegar um er að ræða minnihlutahópa. Sama gildir um stefnumótun, þar þarf að hafa í heiðri slagorðið góða „ekkert um okkur án okkar“.

Því er það mikið kappsmál að vel takist til við stofnun fjölmenningarráðsins. Sérfræðingarnir í málefnum innflytjenda eru nefnilega innflytjendurnir sjálfir og mikilvægt að þeirra raddir fái að heyrast. Liður í því að svo verði er m.a. að fyrirhugað Gaflarakaffi (hafnfirska orðið yfir íbúafund) um málefni innflytjenda verði haldið í haust. Til stendur að tengja fundinn við evrópsku lýðræðisvikuna, enda smellpassar efnið við yfirskrift hennar.

Það sem einkennir samfélög þar sem vel hefur tekist til að sameina ólíka menningarheima, er það viðhorf að fjölbreytileiki sé verðmæti í sjálfu sér. Að aðflutt fólk sem kemur til lands til að lifa og starfa sé auðlind sem beri að virkja, frekar en vandi sem þarf að leysa.

Björt framtíð er fjölbreytt – allskonar er best

Í yfirlýsingu Bjartrar framtíðar segir: „Fjölbreytni er verðmæti í sjálfu sér“. Sú grundvallarafstaða er leiðarljós okkar sem störfum undir merkjum flokksins hvar sem við erum. Undir þeim formerkjum viljum við gera gagn.

Hafnarfjörður á þess kost að nýta ríkulega fjölbreytni í bænum. Gaflarar, aðfluttir, innflytjendur og fólk sem sagt er hafa brotnað af bergi, öll eigum við okkar þátt í að halda samfélaginu gangandi.

Fjölmenning er ekki aðeins vettvangur erlendra einstaklinga í bænum, heldur vísun í hve ólík við erum öll og misjafna menningaþætti sem við komum með inn í fjölbreytt samfélag. Bærinn verður ríkur af þeim ólíku hefðum, þekkingu og siðum sem ólíkt fólk ber með sér til samfélagsins.

Ég trúi því og vona að fjölmenningarráð verði öflug og góð viðbót við starfið á vegum sveitarfélagsins og að tilkoma þess hjálpi til við að gera þjónustu í góðum bæ enn betri.

Allskonar er best.

Grein þessi birtist í blaðinu Hafnarfjörður vikublað þann 15. mai 2015

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Föstudagur 1.5.2015 - 21:39 - Lokað fyrir ummæli

Í dag er 1. maí

Starfsævin dugar ekki til að greiða niður námslánin hjá háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum. Samt skilur ríkið ekki kröfur um að menntun sé metin til launa, miðað við yfirlýsingar undanfarið.

Engar skuldaleiðréttingaraðgerðir frá hruni hafa tekið tillit til námslána. Sú staðreynd talar sínu máli í mati á menntun almennt, þar sem litið er á skuld vegna fjárfestingar í menntun sem einkavandamál hvers og eins.

Sóknarfæri íslensks vinnumarkaðar á næstu árum og áratugum liggja á sviði þekkingar og nýsköpunar, bæði í geirum sem ekki eiga forsögu hérlendis og á formi samþættingar gróinna atvinnuvega við nýja þekkingu.

Getur einhver bent mér á markvissa stefnu stjórnvalda og vinnumarkaðar sem miðar að því að styðja þekkingargeirann sérstaklega? Standa sterk í samkeppni um þekkingarstarfsfólk?

Þrátt fyrir að allir kjarasamningar á landsvísu frá hruni (og jafnvel fyrri) hafi snúist um hækkun lægstu launa umfram millitekjuhópana, er í dag litið á kröfu um 300 þúsund króna lágmarkslaun sem draumóra og fásinnu, ef marka má talsmenn atvinnulífsins og ríkisstjórnina.

Það er eitthvað sem ekki gengur upp í þessu reikningsdæmi.

Okkur er ekki að takast að láta almenning njóta arðs af auðlindum landsins, ég tel að reikningsskekkjan liggi þar. Það er gert ráð fyrir of litlu til skiptanna. Og almenningi síðan gert að keppa innbyrðis um gæðin.

Ég vil taka það skýrt fram að ein af auðlindum landsins er unga fólkið sem okkur er ekki að takast að halda í landinu.

Fjárfesting landsins í þekkingu ætti sem útflutningsvara að byggja á sölu „afurða“ þekkingarinnar, ekki á því að mennta fólk og flytja það sjálft út í stórum stíl. Það er fullunnin afurð sem við erum bókstaflega að gefa úr landi.

Hver er framtíðarstefnan á íslenskum vinnumarkaði?

Ríkið á ekki peninga – en þarf þá heldur ekki?

Í aðdraganda 1. maí þetta árið, þegar verkfall BHM félaga hjá ríki hefur varað um mánuð og fleiri verkföll á landsvísu yfirvofandi, lýsir fjármálaráðherra að forgangsmál sé að létta á skattgreiðslum álfyrirtækja. Sem hljómar óneitanlega undarlega í ljósi yfirlýsinga um að alls ekki sé svigrúm til að bæta launakjör ríkisstarfsmanna.

Það er ekki nema von að ráðherra afþakki aðstoð skoðanakannana á vegum MMR við að sýna fram á skort á tengslum hans við almenning. Hann er fullfær um að sýna fram á það tengslaleysi sjálfur.

Gleðilegan baráttudag launafólks.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.3.2015 - 23:06 - Lokað fyrir ummæli

Fegurðin í fjölbreytileikanum – hugleiðing um ferðaþjónstu

Mannlífið er og verður fjölbreytt. Aðlögun okkar að þeirri staðreynd felst furðu oft í því að aðgreina fólk í hópa – undir því yfirskini að gera öllum jafnhátt undir höfði. Þótt við séum öll einn hópur.

Hvert og eitt okkar býr við eigin veruleika. Sumt það sem skilgreinir okkur sem einstaklinga er valkvætt en annað ekki. Meðal þess sem við veljum ekki sjálf eru eiginleikar eins og litarháttur, kynhneigð og atgervi. Fötlun er til dæmis ekki val. Nema ef vera skyldi að því leyti að samfélagið velur hvað skal teljast eðlilegt og hvað frávik. Með öðrum orðum hvað er fötlun og hvað ekki.

Undanfarið hefur ferðafrelsi fatlaðs fólk verið í hámæli og ekki laust við að sú umfjöllun veki umhugsun. Umræðan dregur fram þann veruleika sem við búum við í dag, að ákveðinn hópur í samfélaginu er upp á aðra kominn hvað það varðar að komast ferða sinna milli staða.

Sjálf finn ég mig í þeirri undarlegu stöðu að tilheyra þeim sem úthluta þessum gæðum til undirsetts hóps – gæðunum að komast leiðar sinnar. Umgjörðin um þessa úthlutun er kallað kerfi, þar sem skilyrði eru sett og línur dregnar.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tók þá jákvæðu ákvörðun nýverið að endurmeta umrædd skilyrði, nánar tiltekið að hætta að spyrja notendur kerfisins um erindi þeirra út í lífið. Áður kváðu reglurnar á um að ferðir til læknis, í skóla og tómstundir nytu forgangs umfram aðrar ferðir sem úthlutað væri. Með öðrum orðum var gerð krafa til skynsamlegrar – og að hluta til sjúkdómsvæddrar – hegðunar. Fatlað fólk átti helst að ferðast ef erindið var brýnt og gjarnan til heilsubótar. Mikið sem kerfi geta verið spes.

Eða yrði t.d. ekki umræðan um umferðarmannvirki, þar sem tekist er á um einkabíl eða almenningssamgöngur spennandi ef við hana yrði bætt að fólk ætti auðvitað ekki að vera að nota göturnar nema þá helst til að fara í skóla, vinnu eða til læknis? Annars bara vera heima. Þá fyrst myndi heyrast hljóð úr horni er ég hrædd um.

Öll kerfi eru börn síns tíma, fyrir utan að vera spes. Núna stendur yfir breytingarskeið í kerfinu sem fer með ferðaþjónustu fatlaðs fólks, breytingarskeið sem hefur reynst afar erfitt og jafnvel áhættusamt.

En fyrir hvern er ferðaþjónusta fatlaðra, í hverju erum við að fjárfesta?

Fyrsta hugsun flestra er eflaust sú að þarna sé samfélagið að leggja af mörkum og fjárfesta í lífsgæðum fyrir fatlað fólk. Sem er rétt og satt, skárra væri það nú. En það er hins vegar fleira sem liggur undir, atriði sem erfiðara er að meta til fjár í reikningum hins opinbera.

Sýnileiki fjölbreytileikans er meðal þess sem mannréttindi fatlaðs fólks leiða af sér. Flest hræðumst við það sem við ekki þekkjum og forðumst það þar af leiðandi. Vanþekking er undirrót fordóma. Ferðafrelsi fatlaðs fólks er því í raun liður í forvörnum gegn fordómum.

Foreldrar fatlaðra barna þekkja vel hversu særandi klisjur eins og „kyn barns skiptir ekki máli, bara að barnið sé heilbrigt“ og fleiri slíkar geta verið. Enda er hver og einn einstaklingur eins og hann er og samfélaginu verðmætur sem slíkur. Samfélag okkar ber mikla virðingu fyrir lífi, en vill stundum gleyma að líf verðskuldar tækifæri á eigin forsendum. Fötlun er ekki sjálfkrafa það sama og galli.

Áföll í þjónustu við fatlað fólk á borð við þau sem ferðaþjónustan hefur glímt við að undanförnu skaða ekki bara notendur þjónustunnar og alla sem henni tengjast – heimili, skóla, vinnustaði, þjónustuveitendur – heldur líka viðhorf samfélagsins til fjölbreytileikans.

Slík áföll senda þau skilaboð að fötlun sé kvíðvænlegt ástand en ekki hluti af sjálfsögðum breytileika mannlífsins. Þess vegna er það brýnt fyrir okkur öll, ekki bara notendur, að þessi þjónusta komist í það horf sem er til þess fallið að auka öryggi en ekki ótta. Þótt ferðafrelsi og traust þjónusta sé aðalatriðið, þarf líka að endurheimta hversdagsleikann í „kerfið“ – hið sjálfsagða í tilveruna.

Og hvað kostar þetta svo?

Framundan er án efa umfjöllun um þann tilkostnað sem úrbætur á ferðaþjónustunni munu skapa. Í þeirri umræðu tel ég brýnt að við tökum með í reikninginn þann fórnarkostnað sem felst í óviðunandi ferðaþjónustu, sem hætt er við að gleymist þegar debet og kredit er skoðað. Af hverju var farið af stað með breytingar, hvert er takmarkið í þessu ferðalagi? Höfum hugann við það.

Sem bæjarfulltrúa ber mér að sýna ábyrgð í ráðstöfun almannafjár. Ég ber hins vegar líka þá ábyrgð sem hluti af stjórnvöldum landsins að tryggja mannréttindi og virðingu við allar hliðar mannlífsins.

Öryggi, traust og fegurðin í fjölbreytileikanum verður að vera markmiðið, þangað er ferðinni heitið.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.1.2015 - 20:17 - Lokað fyrir ummæli

Okkur er ekki alls varnað – af ungu fólki, lýðræðisþátttöku, mannréttindum og nýsköpun

Stundum er ekki annað hægt en fyllast bjartsýni andspænis framtíðinni. Þrátt fyrir allt og allt.

Fyrir viku síðan leit ég inn á ráðstefnu Landssambands æskulýðsfélaga um lýðræðsþátttöku og samfélagsáhrif ungs fólks

Fyrir utan að líða eins og liðstirðu gamalmenni innan um öll blómlegu ungmennin, var upplifunin mögnuð. Sem er ekki skrýtið, orkan í ungu fólki er kröftug og eflaust oft vannýtt af hálfu samfélagsins.

Nokkrir punktar sem ég tek með mér í nesti frá æskulýðsviðburðinum eru m.a.:

-rafrænar kosningar eru ekki töfralaust hvað varðar dræma þátttöku ungu kynslóðarinnar – málið er ekki síður að efla aðkomu allra í aðdraganda kosninga. Ef fólk setur sig ekki með virkum hætti inn í stefnumál og framtíðarsýn þeirra valkosta sem í boði eru í kosningum, skiptir prósentutala þeirra sem kjósa í raun ekki máli. Virk lýðræðisþátttaka er meira en að mæta á kjörstað – hún felst í því að segja skoðun sína, hafa áhrif á stefnumál flokka og móta samfélagsumræðuna.

-það þarf að vanda sig þegar ungu fólki er boðin þátttaka í stefnumótun. Ekki bara stofna ráð þar sem ungt fólk getur komið saman og rætt þau mál sem „okkur hinum“ þykir við hæfi að þau fjalli um. Veitum ungliðunum aðgang að sem flestum ráðum og spyrjum þau um öll mál – óháð því hvort þau teljist til „málefna ungs fólks“. Framtíðin er jú þeirra – skipulag bæja og borga, inntak félagsþjónustu og fleira og fleira mun allt verða þeirra mál þegar fram í sækir.

Mannréttindi og ferðafrelsi

Á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði sl. miðvikudag var meðal annars fjallað um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, ekki bara út frá hnökrum við flutning þjónustunnar milli þjónustuaðila um áramótin, heldur líka í tengslum við ferðafrelsi og réttindi almennt. Á fundinum urðu þau góðu tíðindi að ákveðið var að skoða möguleika á rýmkun réttinda umfram það sem þegar hafði verið lagt til og liggur nú fyrir fjölskylduráði að yfirfara reglur bæjarins um ferðaþjónustuna að nýju hvað útfærslur varðar.

Í þessu samhengi er rétt að halda því til haga að hafnfirska stjórnkerfið hefur á að skipa sérstöku ráðgjafaráði um málefni fatlaðra, hópi sem hagsmunaaðilar skipa. Sem nýjum formanni fjölskylduráðs og nýliða í bæjarstjórn fannst björtu framtíðarmanneskjunni mér það mikið gleðiefni að slíkur hópur skyldi þegar hafa verið stofnaður, enda mjög mikilvægt að hafa notendur ávallt með í ráðum þegar þjónusta er mótuð. Í tilfelli ferðaþjónustunnar voru t.d. drög að nýjum reglum bornar undir ráðgjafaráðið og tillit tekið til þeirra athugasemda við endanlega útfærslu (sem nú verður reyndar endurskoðuð aftur).

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ráðgjafaráð í málefnum fatlaðs fólks eigi ekki bara að fjalla um félagsþjónustu og tengd málefni. Það á að mínu mati fullt erindi inn til umhverfis- og framkvæmdaráðs, skipulags- og byggingaráðs, sem og fræðsluráðs – með öðrum orðum í alla stefnumótun á vegum bæjarins. Betur sjá augu en auga. Ég veit ekki betur en að hafinn sé undirbúningur að samráði í amk einu af ofannefndum ráðum á næstunni, svo það mál mjakast í rétta átt.

Þess má geta að fjölskylduráð hefur sett af stað vinnu við að móta sambærilegan vettvang fyrir Hafnfirðinga af erlendum uppruna, með sama markmið í huga – að leita álits á mögulegum sérþörfum hvað varðar þjónustu bæjarins. Upplýsingagjöf við hæfi er t.d. forsenda fyrir virkri samfélagsþátttöku og mikið kappsmál að vel takist til í þeim efnum. Þá er gott að geta byggt á reynslunni frá ráðgjafaráðinu um málefni fatlaðs fólks.

Í dag var ég síðan viðstödd tvo viðburði sem hvor um sig vakti von um bjartari framtíð

Annars vegar var þar um að ræða afhendingu verðlauna og viðurkenninga fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu, þar sem Hafnarfjarðarkaupstaður fékk viðurkenningu fyrir frumkvöðlaverkefnið „Áfram“ sem snýr að því að efla þjónustu við atvinnulausa á fjárhagsaðstoð. Yfir því verkefni getur bærinn sannarlega glaðst, enda árangurinn verið mjög góður. Það er alls ekki sjálfgefið í hafnfirskri pólitík að allir flokkar sameinist um mál, en sú er raunin um þetta verkefni og á síðasta fundi borgarstjórnar í Reykjavík var ákveðið að fara að okkar fordæmi og taka upp svipað verklag.

Meðal annarra verkefna sem hlutu viðurkenningar var Ungmennaráð Seltjarnarness en verkefni þeirra var einmitt kynnt á ráðstefnu æskulýðsfélaganna og felst m.a. að því að opna ungmennaráðsliðum leið inn í allar nefndir bæjarins. Þetta fyrirkomulag er að mínu mati mjög til eftirbreytni og mun ég beita mér fyrir því að Hafnarfjörður fylgi í kjölfarið með einum eða öðrum hætti. Þar vildi ég reyndar líka sjá öldungaráðið okkar virkjað, sem á ekki síðra erindi en ungmennaráðið.

Hinn viðburður dagsins var síðan Framtíðarþing BHM, sem er jafnframt síðasta formlega verkefnið sem ég tók þátt í að undirbúa sem formaður þess frábæra bandalags. Þar var einfaldlega opnaður vettvangur fyrir háskólanema til að tjá sig um spurninguna „Hvernig Ísland vilt þú?“ án allra afskipta eða mótunar á umræðunni. Ég læddist þar inn sem fluga á vegg undir lokin. Sú reynsla var vægast sagt punkturinn yfir i-ið á uppörvandi viku og frábært að sjá og heyra hvað framtíðarraddirnar hafa margt gott fram að færa.

Jamm. Þetta er frekar væminn pistill, en stundum er bara svo hollt og gott að taka eftir því góða og jákvæða sem er að gerast allt í kringum okkur.

Okkur er nefnilega ekki alls varnað.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.3.2014 - 13:03 - Lokað fyrir ummæli

Félagsmenn BHM hjá hinu opinbera – dýrmætt fólk á bak við tjöldin (brot úr ræðu)

Á síðustu vikum höfum við í BHM haldið á fjórða tug vinnustaðafunda með félagsmönnum vítt og breitt. Þeir hafa verið afar vel sóttir og þátttakendur eflaust orðnir yfir 1500.

Óhætt er að segja að það sé hugur í okkar fólki og jafnframt augljóst af þessum milliliðalausu samskiptum forystu og félagsmanna að samninganefndir aðildarfélaganna voru með puttann á púlsinum þegar kröfur í yfirstandandi kjaraviðræðum voru mótaðar.

Það er ómentanlegt að upplifa þessa miklu virkni í baklandinu, sem birtist reyndar mun víðar en í góðri mætingu á fundi. Rafrænar kannanir félaganna um viðhorf til verkfallsaðgerða nú á síðustu dögum eru nærtækt dæmi. Svörun upp á 70% innan tveggja sólarhringa virðist vera eitthvað sem aðildarfélög BHM geta hrist fram úr erminni. Það er afskaplega vel af sér vikið og alls ekki sjálfgefið.

Fólkið bak við tjöldin

Undanfarið hef ég verið rækilega minnt á það að félagsmenn BHM eru vanir því að virka eins og vel smurð vél. Ekki bara þegar þátttaka í kjarabaráttu er annars vegar, heldur í daglegu starfi árið út og inn. Hvort sem leið okkar hefur legið inn til Skattstjóra, þjónustumiðstöðva borgarinnar, sjúkrahúsa, Stjórnarráðsins, Vinnumálastofnunar, Þjóðleikhússins, Lögreglunnar, Greiningarstöðvar, Hagstofunnar, Sinfóníunnar, Háskólanna, bókasafna eða til starfsmanna ríkisins og sveitarfélaganna vítt og breitt um landið, höfum við þessi gestkomandi fundið skýrt fyrir því að starfsmenn bera hag vinnustaðarins og þjónustuþega fyrir brjósti. Hins vegar er það jafn augljóst fyrir gestsaugað að tími þolinmæði gagnvart launafrystingum og álagsaukningu til að „halda vélinni gangandi“ á hverjum stað fyrir sig er á þrotum. Nú er mál að snúa við blaði og færa launakjör og vinnuaðstæður til betri  vegar. Og sama hvað hver segir, þá er það hægt, ef viljinn er fyrir hendi.

Um þetta snúast kröfur BHM og viðræður okkar við viðsemjendur fjalla ekki um hvort, heldur hvenær og hvernig þessi leiðrétting verður framkvæmd, því hún er beggja hagur.

Ómetanlegt fólk

Á opnum fundi í Háskólabíói þann 6. febrúar síðastliðinn flutti ég ræðu um kröfur BHM og rökstuðninginn sem býr þar að baki.

Einn hluti ræðunnar fjallaði um verksvið þeirra starfsmanna sem samningarnir fjalla um. Kveikjan að honum var tvíþætt; annars vegar þarf ég sem formaður BHM ótrúlega oft að gera grein fyrir því hvað fólkið okkar vinnur við, hvaða stéttir er um að ræða. Gildir þá einu hvort rætt er við stjórnvöld eða fjölmiðla. Hins vegar veit ég sem er, að opinberir starfsmenn eru vanari því í opinberri umræðu að fá á sig neikvæðan stimpil. Þeir þykja ýmist of margir, of dýrir, með of mikil réttindi, eða þar fram eftir götum. Sjálfur vinnuveitandinn, stjórnvöld, ber sjaldnast í bætifláka fyrir þá þegar ráðist er að þeim í umræðunni, heldur biðst jafnvel afsökunar á tilvist þeirra og þeirra réttinda.

Því fannst mér rakið að lýsa því í stuttu máli hvaða þýðingu þetta fólk hefur í okkar daglega lífi.

Og af því að góð vísa er sjaldnast of oft kveðin – og vegna fjölmargra fyrirspurna um það hvar sé hægt að finna þessi orð (þau eru reyndar á bhm.is) – birti ég textann hér eins og hann var lesinn í Háskólabíói í febrúar:

Félagsmenn BHM starfa á öllum sviðum vinnumarkaðarins. Yfirstandandi kjaraviðræður varða þá sem tilheyra opinbera geiranum.
Almenningur á Íslandi vill búa við opinbera þjónustu í fremstu röð, trygga umsjón og öflugt öryggisnet. Þegar kemur að því að fjármagna þá þjónustu verður umræðan oft neikvæð, sem er skrýtið, þar sem fólkið á bak við þjónustuna er okkur afar dýrmætt.

Ég fagna því að hafa verið umvafin opinberum starfsmönnum allt frá fæðingu. Opinberir starfsmenn taka á móti okkur í heiminn, skrá nafnið okkar, fylgjast með heilsufarinu og gæta okkar í hvívetna. Þeir passa okkur, kenna okkur, annast okkur í veikindum eða þegar erfiðleikar steðja að, fylgjast með veðrinu, hafa gætur á náttúrunni og varðveita sameiginlegan arf okkar á hverju því formi sem tjáir að nefna. Þeir hafa svæft okkur, vakið okkur, gegnumlýst, rannsakað, þjálfað, nært, staðið vörð um lög og rétt. Kennt okkur að lesa ljóð, spila á hljóðfæri, fara eftir umferðarreglum, sýnt okkur leikrit, spilað tónlist. Passað upp á gögn, haldið skikk á tölum, talið fiskana í sjónum og grösin á heiðum, reiknað laun, innheimt skatta, borgað laun. Þeir stuðla að því að við séum öll virkir þjóðfélagsþegnar, eflum andlegt og líkamlegt atgervi og fótum okkur í lífsins ólgusjó. Þeir styðja okkur frá vöggu til grafar. Hvað er hægt að biðja um meira?
Mér dettur eitt í hug. Það er hægt að biðja um að framlag þeirra sé metið að verðleikum. Þekking þeirra sé launuð. Menntun þeirra sé viðurkennd.
Það er krafa BHM. Vegna þess að BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar

Svo mörg voru þau orð. Þetta er það sem félagsmenn BHM gera (og svo margt, margt fleira). Á öllum þessum sviðum ber okkar fólk faglega ábyrgð og er ráðandi í stefnumótun, með það að markmiði að tryggja að þjónustan sé á hverjum tíma í samræmi við nýjustu þekkingu og færni.

Sameiginlegt verkefni BHM og viðsemjenda er síðan að tryggja að launakjör endurspegli verðmæti þekkingarinnar. Þar er verk að vinna.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Laugardagur 8.3.2014 - 21:30 - Lokað fyrir ummæli

Réttu fram lófann

Á menntaskólaárunum var fastur punktur í tilveru minni að bíða eftir strætó. Eftir skóla beið ég ýmist inni í MR eða í „brekkusjoppunni“, nema veður byði upp á útiveru.

Eitthvað vorið var ég einu sinni sem oftar stödd í brekkusjoppunni að bíða, ein að venju, þegar óárennilegur ungur maður eigraði upp að mér og sagðist þurfa að tala við mig. Ég hafði aldrei séð hann áður, hefði án efa munað eftir því ef svo hefði verið. Hann var hvíthærður og með nánast glærblá augu, klæddur í snjóþvegnar gallabuxur og jakka úr sama efni. Húðliturinn var bleikur, af þeirri tegund sem stundum einkennir róna og útigangsmenn. Augun voru rauðsprengd og syndandi og maðurinn augljóslega mjög vímaður.

En hann átti semsagt við mig erindi og baðst afsökunar á því að hann yrði bara að segja mér svolítið, þótt ég vildi augljóslega ekkert við hann tala. „Ég er bara svo hrikalega skyggn og þarf að tala við þig.“

Það fyrsta sem hann sagði var: „þú átt ekki að krossa þig svona“.  Mér fannst hann frekar dónalegur og afskiptasamur og hef eflaust beðið hann að láta mig í friði, en hann hélt áfram og lét dæluna ganga. Með „að krossa þig“ átti hann ekki við neitt trúarlegt, heldur það að krossleggja handleggina. Miðað við allt sem hann sagði, við mig – og um mig – bláókunnugur maðurinn, hef ég frekar hallast að því að hann hafi virkilega verið skyggn. Ég man alltaf eftir skærbláu og rauðsprengdu augnaráðinu, en þessi maður varð ekki aftur á vegi mínum.

Réttu fram lófann

Skilaboðin voru nokkurn veginn svona, (fyrir utan orð um ýmislegt úr mínu lífi sem er of persónulegt fyrir þetta blogg): ekki krossleggja hendurnar fyrir framan þig, réttu heldur fram lófana og biddu um það sem þú vilt. Ef þú leggur niður þessa varnarstöðu og lokar þig ekki af bakvið krosslagðar hendur – ef þú réttir fram hendurnar – muntu fá allt sem þú biður um.

Mér hefur oftsinnis verið hugsað til þessa skrýtna manns og orða hans. Hvort sem hann var skyggn eða ekki, var það alveg satt sem hann sagði. Að halla sér afturábak og vera í varnarstöðu skilar engu, en að rétta fram hendurnar og teygja sig eftir því sem maður vill er lykill að árangri. Það tók mig talsverðan tíma að tileinka mér þetta til fulls, sérstaklega þetta með að biðja um aðstoð, en þó er óhætt að segja að þetta samtal hafi fylgt mér og mótað.

8. mars

Í dag var ég stödd á svipuðum slóðum í miðbænum. Fyrst í Iðnó á frábærum baráttufundi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Síðan á Austurvelli á fjölmennum samstöðufundi. Ég stóð fyrir framan bekkina við styttuna af Jóni Sigurðssyni og þegar dagskránni var nærri lokið sá ég hvar rytjulegur maður braut sér leið gegnum þvöguna til að komast í sætið sitt á einum þeirra. Hann var greinilega fastagestur og virtist ekki fylgjast neitt með mannfjöldanum. Þegar hann var sestur tók hann upp sígarettu, braut af henni filterinn og kveikti í. Hann var með ljóst sítt hár og bleikur á hörund og þegar hann leit upp mættu mér allt í einu þessi himinbláu augu.

Hvort þetta er sami maðurinn veit ég ekki, en mikið fannst mér vel við hæfi að rifja samtalið í brekkusjoppunni upp einmitt í dag. Í Iðnó fjölluðu ræður kvenna úr öllum áttum allar um það sama: það þarf að bera sig eftir björginni, stíga fram og sækjast eftir því sem maður vill. Þori ég, vil ég, get ég?

Ekki átti það síður við á samstöðufundi fyrir rétti þjóðar til kosninga um eigin framtíð að hugleiða muninn á lokaðri varnarstöðu hinna krosslögðu handa í samanburði við útréttar samvinnu- og sáttahendur.

Skilaboð mannsins með bláu augun eru sígild. Hafi hann þökk fyrir.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.1.2014 - 13:20 - Lokað fyrir ummæli

Launaleiðrétting BHM

Fjárfesting í menntun er samfélagsleg nauðsyn og til þess að hún nýtist sem best og gefi af sér til samrekstrar þjóðarheimilisins þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar.

Gróflega áætlað fjárfestir íslenskt samfélag um 26 milljónir króna í hverjum háskólamenntuðum einstaklingi í gegnum menntakerfið og gera má ráð fyrir að hann greiði um 124 milljónir til baka í gegnum skattkerfið á starfsævi sinni. Til viðbótar eru þau störf og þjónusta sem háskólamenntað fólk innir af hendi bæði samfélagslega mikilvæg og virðisaukandi. Það er því mikilvægt að þessi fjárfesting nýtist íslensku samfélagi sem allra best og enn mikilvægara að hún tapist ekki.

Lengi hefur legið fyrir að opinberir vinnuveitendur hafa orðið undir í samkeppni um vinnuafl við almennan vinnumarkað á Íslandi, enda launakjör hjá ríki og sveitarfélögum alls ekki eftirsóknarverð frá sjónarhorni háskólamenntaðra sérfræðinga. Launakjör háskólamenntaðra sérfræðinga hjá hinu opinbera hafa á undanförnum árum dregist verulega aftur úr miðað við aðra hópa, eins og meðal annars má sjá í sameiginlegri greiningu aðila vinnumarkaðar á launaþróun á árunum 2006 til 2012, og eru nú meira en 30% lægri en á almennum markaði.

Vinnumarkaður háskólamenntaðra sérfræðinga er í síauknum mæli alþjóðlegur. Í launamun yfir landamæri hallar mjög á Ísland, sem og í samanburði á ýmsum öðrum samfélagslegum kjörum. Gögn Eurostat um laun háskólamenntaðra á Norðurlöndum, mæld í kaupmáttareiningum, sýna að Ísland var þar í neðsta sæti árið 2006 og lækkaði á árinu 2010 á meðan öll hin löndin hækkuðu. Í þessu samhengi skal bent á að ef ungt fólk sem nýverið hefur lokið námi er hreyfanlegra en þeir eldri og ráðsettari skapast hætta á kynslóðabili innan þeirra geira sem eru útsettir fyrir atgervisflótta hverju sinni.

Þessar staðreyndir styðja við kröfu BHM um leiðréttingu kjara háskólamenntaðra. Þær kröfur miða fyrst og fremst að því að bæta samkeppnishæfni Íslands þannig að það verði ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir háskólamenntað fólk, ekki hvað síst í opinberri þjónustu. Þannig getum við tryggt að fjárfesting sú sem samfélagið hefur lagt í menntun nýtist til fulls og forsendur skapist fyrir sjálfbærum hagvexti og bættum lífsgæðum á Íslandi til framtíðar.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu þann 9. janúar 2014

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur