Laugardagur 23.10.2010 - 21:35 - FB ummæli ()

Evrópusambandið og strákarnir frá Chicago

Í Evrópu gætir vaxandi óróleika og mótmæla. Þar eins og hér er ráðist á velferðakerfið og það er gert í skjóli bankakreppunnar. Eins og við vitum allt of vel þá urðu bankarnir óstarfhæfir vegna skulda. Hinn hluti hagkerfisins var að mjólka beljur, veiða fisk og bræða ál. Þrátt fyrir það sogaðist raunhagkerfið niður með bönkunum. Núna á raunhagkerfið og almenningur að greiða tap bankanna og því þarf að skera niður.

Á Evru svæðinu mega löndin ekki hafa meiri halla en 3% af landsframleiðslu(GDP) og heildarskuldirnar verða að vera minni en 60% af GDP. Nýlega ákvað  Evrópusambandið að innleiða refsiákvæði fyrir óþekk lönd sem fylgja ekki reglunum. Þessar reglur munu væntanlega verða að raunveruleika í nánustu framtíð.

Hugmyndin er að framkvæmdavaldið hjá ESB fylgist með löndunum og birti síðan opinbera skýrslu um þau lönd sem standa sig illa, þ.e. setja þau í skammarkrókinn. Mun framkvæmdastjórnin fylgjast grannt með kostnaði við vinnuafl í því augnamiði að auka samkepnishæfni, á þeirri forsendu að hátt kaup minnki samkeppnishæfnina. Samtímis er viðkomandi löndum kynnt sú vegferð sem ESB ætlast til að þau fari í til að ná settum markmiðum. Almennt telur ESB að launakostnaður vegna vinnandi fólks sé of mikill og ósveigjanleiki vinnumarkaðarins hindri samkeppnishæfni.

Framkvæmdavald Evrópusambandsins ákvarðar síðan refsinguna. Hún getur verið t.d. 0.1% af landsframleiðslu viðkomandi ríkis á hverju ári þangað til að ESB finnst að viðkomandi ríki hafi staðið sig.

Í raun hafa lönd Evrusvæðisins afhent framkvæmdavaldi ESB/Seðlabanka Evrópu fullveldi sitt við fjárlagagerð. Þjóðþing viðkomandi landa eru kosin með lýðræðislegum hætti en vald þeirra flyst í auknu mæli til framkvæmdavalds ESB sem tilheyrir frekar bankaelítu Evrópu. Þar sem ekki er hægt að gengisfella gjaldmiðilinn, Evruna, þá verða þjóðlöndin að „gengisfella“ sig innan frá. Það er gert með kauplækkunum og niðurskurði í velferðar og eftirlaunakerfinu. Lettland er dæmi um slíkt.

Þegar reglur ESB eru lesnar er augljóst að lítill sem enginn munur verður á hugmyndafræði, starfsaðferðum og afleiðingum ESB reglnanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Enda hafa ESB og AGS starfað saman í nokkrum Evrópulöndum og virðist ekki vera mikill ágreiningur á milli þeirra.

Koss AGS hefur verið kaldur en að vilja nátta hjá ESB til frambúðar er óskiljanlegt.

http://ec.europa.eu/economy_finance/articles/eu_economic_situation/pdf/com2010_525en.pdf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur