Föstudagur 13.10.2017 - 22:47 - FB ummæli ()

Að verða afi

Þá er ég orðinn afi. Upplifunin er stórkostleg og hamingjuóskunum rignir yfir mann. Á facebook hverfur allur pólitískur eða annar ágrenningur og allir óska manni til hamingju. Sakleysi nýfædds barns ræður umræðunni. Það vitnar um að við erum öll í raun vinir þegar við speglum okkur í því sakleysi sem hið nýfædda barn býr yfir. Flestir menn eru góðir og vilja bara lifa í sátt við aðra menn.

Að verða afi veldur að sjálfsögðu líka heilbrotum. Hvað hef ég gert til að skapa barnabarninu mínu góða framtíð. Ég er ekki hluti af Engeyjarættinni og hef ekki tök á því að troða gullskeið upp í munninn á barnabarninu mínu. Bóka góða einkaskóla, lóð í Garðabænum og þægilega stöðu innann íslenskrar stjórnsýslu, eftir laganám að sjálfsögðu.

Nei ég er bara venjulegur millistéttagaur og trúi ekki á brauðmolakenninguna, á ættingja sem trúðu henni og kusu alltaf Sjálfstæðisflokkinn og hafa aldrei grætt neitt á því. Nei ég hef viljað fara aðra leið en að selja sálu mína elítu Íslands. Ég vil réttlæti. Að allir fái viðeigandi forgjöf þannig að allir standi jafnfætis á startlínunni.

Ég get ekki sagt að ég hafi haft árangur sem erfiði. Enn er Sjálfstæðisflokkurinn ráðandi í íslenskum stjórnmálum og Vinstri grænir orðinn stærsti flokkurinn sem aldrei hefur sett fótinn í veg fyrir auðvaldið. Þeir stjórnmálaflokkar sem sett sig hafa upp á móti auðvaldinu á Íslandi hafa aldrei náð langt.

Mitt pólitíska brölt hefur ekki skilað nýfæddu barnabarni mínu neinu auknu réttlæti, enn ræður ættarsamfélagið á Íslandi. Hingað til hefur eina lausn þingflokkanna verið að arðræna alþýðinu og koma sínu fólki að eða forða því frá umtali fjölmiðla. Hugtakið réttlæti hefur ekkert vægi í íslenskri pólitík. Það virðist ekki leita á íslenska kjósendur heldur.

Til allra hamingju býr barnabarnið mitt í Svíþjóð. Þar hefur orðið ”rettvisa” mjög mikið vægi, þegar það er sagt þarf ekki að rökstyðja það eða útskýra. Það hefur mikla eigin þyngd í umræðunni. Þar skilur á milli Íslendinga og Svía. Svíar hafa aldrei trúað á brauðmolakenninguna en þeir hafa krafist réttlætis í skjóli hugtaksins ”rettvisa”. Að krefjast ”rettvisa” í Svíþjóð setur jafnvel sænsku auðvaldsættirnar í varnarstöðu.

Ef íslenskir kjósendur gætu bara tengt orðið réttlæti við orðið forgjöf í golfi þá væri mikið unnið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur