Laugardagur 21.10.2017 - 00:00 - FB ummæli ()

Að skila auðu

Almenningur vill vita sem mest. Almenningur vill til dæmis vita allt um fjármál Bjarna Ben eins og Stundin hefur verið að upplýsa okkur um. Þegar yfirstéttin lokar svo á það upplýsingaflæði nennir almenningur ekki að standa upp úr sófanum til að mótmæla og skiptir bara um rás.

Nei almenningur hefur alls ekki fundið vitjunartíma sinn enn í pólitísku tilliti. Áratuga áróður um að það sé púkó að mótmæla og krefjast réttar síns hefur haft áhrif. Hugtakið stétt er framandi almenningi í dag. Sennilega gerist lítið í huga almennings þegar talað er um yfirstéttina því almenningur gerir sér ekki fyllilega grein fyrir því að hann er lágstétt. Margir samsama sig með hástéttinni án þess að fatta það að þeim hefur aldrei verið boðið inn í Versalahöll.

Enginn núverandi þingflokka hafa gengið erinda lágstéttarinnar af hörku og ósérhlífni. Líkurnar eru litlar að það breytist í bráð. Þeir þingflokkar sem segjast vilja gera það hafa alltaf tekið meira tillit til yfirstéttarinnar, annars væri hlutskipti almennings annað.

Ef allir 63 þingmenn á Íslandi gengju erinda almennings þá væri engin fátækt, ekki húsnæðisskortur, enginn skortur í heibrigðiskerfinu, félagskerfinu, skólakerfinu og svo framvegis.

Á meðan við sitjum föst í sófanum mun fátækt vera til áfram á Íslandi, einu ríkasta landi veraldar. Komandi kosningar munu bara staðfesta það. Þar með hefur almenningur skilað auðu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.10.2017 - 22:47 - FB ummæli ()

Að verða afi

Þá er ég orðinn afi. Upplifunin er stórkostleg og hamingjuóskunum rignir yfir mann. Á facebook hverfur allur pólitískur eða annar ágrenningur og allir óska manni til hamingju. Sakleysi nýfædds barns ræður umræðunni. Það vitnar um að við erum öll í raun vinir þegar við speglum okkur í því sakleysi sem hið nýfædda barn býr yfir. Flestir menn eru góðir og vilja bara lifa í sátt við aðra menn.

Að verða afi veldur að sjálfsögðu líka heilbrotum. Hvað hef ég gert til að skapa barnabarninu mínu góða framtíð. Ég er ekki hluti af Engeyjarættinni og hef ekki tök á því að troða gullskeið upp í munninn á barnabarninu mínu. Bóka góða einkaskóla, lóð í Garðabænum og þægilega stöðu innann íslenskrar stjórnsýslu, eftir laganám að sjálfsögðu.

Nei ég er bara venjulegur millistéttagaur og trúi ekki á brauðmolakenninguna, á ættingja sem trúðu henni og kusu alltaf Sjálfstæðisflokkinn og hafa aldrei grætt neitt á því. Nei ég hef viljað fara aðra leið en að selja sálu mína elítu Íslands. Ég vil réttlæti. Að allir fái viðeigandi forgjöf þannig að allir standi jafnfætis á startlínunni.

Ég get ekki sagt að ég hafi haft árangur sem erfiði. Enn er Sjálfstæðisflokkurinn ráðandi í íslenskum stjórnmálum og Vinstri grænir orðinn stærsti flokkurinn sem aldrei hefur sett fótinn í veg fyrir auðvaldið. Þeir stjórnmálaflokkar sem sett sig hafa upp á móti auðvaldinu á Íslandi hafa aldrei náð langt.

Mitt pólitíska brölt hefur ekki skilað nýfæddu barnabarni mínu neinu auknu réttlæti, enn ræður ættarsamfélagið á Íslandi. Hingað til hefur eina lausn þingflokkanna verið að arðræna alþýðinu og koma sínu fólki að eða forða því frá umtali fjölmiðla. Hugtakið réttlæti hefur ekkert vægi í íslenskri pólitík. Það virðist ekki leita á íslenska kjósendur heldur.

Til allra hamingju býr barnabarnið mitt í Svíþjóð. Þar hefur orðið ”rettvisa” mjög mikið vægi, þegar það er sagt þarf ekki að rökstyðja það eða útskýra. Það hefur mikla eigin þyngd í umræðunni. Þar skilur á milli Íslendinga og Svía. Svíar hafa aldrei trúað á brauðmolakenninguna en þeir hafa krafist réttlætis í skjóli hugtaksins ”rettvisa”. Að krefjast ”rettvisa” í Svíþjóð setur jafnvel sænsku auðvaldsættirnar í varnarstöðu.

Ef íslenskir kjósendur gætu bara tengt orðið réttlæti við orðið forgjöf í golfi þá væri mikið unnið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.9.2017 - 21:15 - FB ummæli ()

Raddir fólksins

Hörður Torfa er kominn af stað aftur og er það vel. Hann hélt fyrsta fundinn núna á laugardaginn á Austurvelli. Hittingurinn var á við besta ættarmót, flestir þekktust frá fyrri tíð. Margir búnir að mæta frá haustdögum 2008 og enn að reyna að koma á réttlæti. Baráttan heldur áfram.

Einn draumur sem fæddist í Búsáhaldarbyltingunni var að stofna þverpólitískan flokk sem færi inná þing og breytti því nauðsynlegasta. Tveir slíkir flokkar hafa verið stofnaðir eftir hrun, Borgarahreyfingin og Dögun. Þrátt fyrir áralanga baráttu endurhljómuðu kröfur Búsáhaldarbyltingarinnar á laugardaginn úr munni Harðar. Það bendir til þess að árangurinn sé ekki mikill. Við í Dögun höfum þó reynt að bera þennann kyndil Búsáhaldabyltingarinnar sem endurspeglast í þeim kröfum sem Hörður taldi upp. Vinstri-græn, Samfó, Sjálfstæðisfl og Framsókn hafa öll stjórnað frá hruni en enn erum við langt frá markmiðunum. Hvað er það sem við viljum? Sjá xdogun.is/kjarnastefna/

Afnema völd bankakerfisins yfir lífi okkar.

Afnema fátækt.

Allir hafi þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði.

Nýja Stjórnarskrá.

Þjóðin fái arðinn af auðlindunum sínum.

Stokka upp kvótakerfið.

Afnema spillingu.

Þetta er ekki flókið og sjálfsagt eru flestir Íslendingar sammála þessu en þrátt fyrir það erum við nánast í sömu sporum og þegar Búsáhaldarbyltingin hófst. Það er því augljóst að ”flestir Íslendingar” hafa ekki setið við völdin síðan þá. Þeir sem stjórnað hafa landinu er minnihluti Íslendinga og hafa mikla hagsmuni svo að kröfur Búsáhaldarbyltingarinnar nái ekki fram. Aftur á móti þegar ”flestir Íslendingar” hafa áttað sig á þessu og að þeir hafa verið hlunnfarnir af minnihlutanum þá verður kannski raunveruleg breyting. Góð byrjun væri að hætta að kjósa stjórnmálaflokka þessara ”fáu Íslendinga” sem hafa ráðið hér för í áratugi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.9.2017 - 23:06 - FB ummæli ()

Ný Stjórnarskrá eða hvað

Bjarni Ben hefur sett stjórnarskrámálið á dagskrá í upphafi kosningabaráttunar. Hann leggur til 12 ára áætlun. Flestir telja að það sé pólitískur leikur. Hann gefur í skyn áhuga á breytingum en ætlar í raun að drepa málið í nefnd eins og hingað til. Helsti drifkraftur hans eru hagsmunir kvótagreifanna sem vilja festa sjávarauðlindina sem sína eign en ekki þjóðarinnar.

Þá gerist það að sumir stjórnarandsöðuflokkarnir taka undir með Bjarna og meðal annars Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Þess vegna hefur verið rifjuð upp snautleg framganga þingsins á lokametrum stjórnarskrarinnar 2013. Þá gerðist það sem allir raunsæir einstaklingar höfðu reiknað með. Auðvaldið sagði hingað og ekki lengra og þingið hlýddi. Að þjóðin hefði möguleika á meiri afskiptum var bannað, nógu erfitt var að hafa stjórn á þessum 63 þingmönnum.

Aðalgagnsemi stjórnarsrársmálsins hingað til var að skilja hafrana frá sauðunum.

Síðan keppast talsmenn þeirra flokka sem taka undir tillögu Bjarna að tala niður stjórnarskrárbreytingar. Þeim finnst sennilega að þingræðið sé enn í fullu gildi. Ef þeirra flokkur nær góðri stöðu muni kjör þeirra verst settu batna. Við sem aðhyllumst nýja stjórnarskrá erum þreytt á kosningasvikum en þar er algengasta afsökunin ”samsteypustjórn”. Við teljum að þingræðinu sé lífsnauðsynlegt að fá beint lýðræði annars verða þingkosningar með 12 mánaða millibili.

Við almenningur bjóðumst til að taka af ykkur þingmönnum þennann kross við að innleiða það sem meirihluti þjóðarinnar vill hvort eð er og þið hafið lofað að gera marg oft en svikið jafn oft. Afnema fátækt, afnema verðtryggingu, afnema kvótakerfið, afnema lífeyrissjóðaruglið, afnema ægivald húseigenda/verktaka á leigumarkaðnum, afnema ægivald bankakerfisins á líi fólks og afnema óréttlát kosningalög. Í stuttu máli þá ætlum við að krefjast réttlætis og að auðnum og réttindum verði smurt jafnt yfir kökuna. Það ætlum við að gera með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Að kjósa síendurtekið sömu kosningaloforðin sem eru svo svikin segir okkur að sú leið er ófær. Þess vegna er öll töf á stjórnarskrá af hinu illa fyrir hagsmuni hins almenna borgara.

Sérhagsmunaöflin í þjóðfélagi okkar skilja þetta mæta vel og munu koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá með öllum ráðum. Þess vegna er það svo mikilvægt að stjórnmálamenn kljúfi sig frá sérhagsmunaöflunum og lýsi því yfir endurtekið að ný stjórnarskrá með auknum völdum almenning sé forgangsmál. Auk þess eiga Alþingismenn að sjá sóma sinn í því að skipta sér sem minnst af nýrri stjórnarskrá nema til þess að stuðla að framgangi málsins. Eiga lyfjaframleiðendur að semja lyfjalög?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.7.2017 - 22:15 - FB ummæli ()

G20 og Yanis Varoufakis

Núna er G20 fundurinn í Hamborg þar sem þjónar fjármálavaldsins koma saman og koma því í verk sem fjármálavaldið vill. Kjörnir þjóðhöfðingjar eru þrælar fjármálavaldsins. Það ætti að vera augljóst öllum að bankakerfið hefur notið sérkjara en allir aðrir hafa þurft að taka á sig miklar skerðingar á lífskjörum í kjölfar bankakreppunnar 2008.

Yanis Varoufakis var fjármálaráðherra í Grikklandi 2015 og hefur gefið út endurminningar sínar frá þessum tíma, Adults in the Room: My Battle with Europe’s Deep Establishment. Hann lýsir því mjög vel í þessari bók hversu stjórnmálamenn eru valdalausir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabanki Evrópu hafa síðasta orðið á fundum fjármálaráðherra Evrópusambandsins. Gríska þjóðin hafnaði skilyrðum fjármálavaldsins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Evrópusambandið fyrir hönd þess var að þvinga upp á grísku þjóðina.

Ekki einu sinni þjóðaratkvæðagreiðsla var virt. Seðlabanki Evrópusambandsins kom til skjalanna og hætti að skaffa Grikkjum seðla og mynt sem er þó lagaleg skylda bankans. Án peninga stöðvast samfélagið. Yanis var tilbúinn með nýtt peningakerfi byggt á skattkortum því hann vissi vel að Seðlabanki Evrópsambandsins myndi gera þetta. Lausn Varoufakisar var aldrei notuð vegna þess að vinstri stjórnin sveik Varoufakis og kjósendur sína. Ef kerfi Yanisar hefði farið í gang og virkað þá hefðu vopnin verið slegin úr höndum fjármálavaldsins og Grikkir hefðu getað gefið fjármálavaldinu langt nef.

Fjármálavaldið/bankakerfið/seðlabankakerfið framleiðir peningana okkar og stjórnar magni þeirra í umferð. Sá sem gerir það er með valdið. Þess vegna eru stjórnmálamenn og kjörnir þjóðarleiðtogar valdalausir þar sem þeir eltast við að þjóna fjármálakerfinu í stað þess að þjóna fólkinu sem kaus þá. Þegar bankarnir minnka magn peninga verður kreppa. Þegar þeir auka magn þeirra verður bóla og þegar þeir skrúfar fyrir þá eins og í dæmi Grikkja hrynur samfélagið. Pólitíkin í dag hversu falleg sem hún kann að vera getur ekki breytt ákvörðunum fjármálakerfisins. Pólitíkin í dag verður að snúast um að endurheimta valdið yfir framleiðslu peninga til að hún virki fyrir fólkið.

Öllu þessu lýsir Yanis mjög vel í bók sinni og óskar eftir því að fullorðið fólk komi inní herbergið, þ.e. að við föttum þetta. Að öðrum kosti verðum við bara áhorfendur þegar allt draslið fer til helvítis eins og hann segir í lok bókar sinnar.

Mæli eindregið með bókinni hans Varoufakisar svo menn skilji betur stóru myndina og hvernig fjölmiðlarnir eru misnotaðir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.2.2017 - 22:02 - FB ummæli ()

Silfur hafsins

Það var eins og ljóstýra hefði kveiknað í kollinum á Íslendingum haustið 2008, héldum við. Í hverri eldræðunni af fætur annarri haustið 2008 var það fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn væri upphaf og endir á óhamingju Íslendinga. Eini sýnilegi árangurinn af búsáhaldarbyltingunni í dag er að Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar sem fyrr.

Vinstri stjórnin brást ekki auðvaldinu enda hafði hún löngu áður samþykkt framsalið og þannig orðið hluti af auðvaldinu. Samfylkingin er Sjálfstæðisflokkur fyrir litblinda og í Vg hafa allir hrökklast út sem ekki vilja vera Sjálfstæðismenn. Í dag sjáum við afleiðingar fylgispektar þeirra við auðvaldið. Sjómenn standa einir, hvar eru baráttumenn alþýðunnar?

Viðreisn er bara Sjálfstæðisflokkur sem vill inní ESB. Björt framtíð er eitthvað sem fittar vel þar sem hún er núna engum til ama nema því alþýðufólki sem kaus hana. Framsóknarflokkurinn hefur hingað til verið hækja þess sem óskar.

Í raun kjósa lang flestir íslenskir kjósendur Sjálfstæðisflokkinn í einni eða annarri mynd.

Útgerðarmenn stjórna hinum mismunandi þingflokkum Sjálfstæðisflokksins og því er það meira formsatriði hverja við kjósum af þeim.

Ekki skrítið að fólk nenni ekki að kjósa og gefi lýðræðið upp á bátinn.

Sjómenn eiga það ekki gott. Útgerðarauðvaldið vill brjóta þá niður og Alþingi mun sennilega koma útgerðarauðvaldinu til hjálpar, fljótlega.

Hvers vegna þjóðin horfir aðgerðalaus á útgerðarauðvaldið svína á sjómönnum og þjóðinni er í raun ráðgáta. Vandamálið er að þjóðin þorir ekki að hrófla við kvótakerfinu né útgerðarauðvaldinu því hún trúir því að síðasti fiskurinn í hafinu verði veiddur. Það er eins og sú trú réttlæti allt óréttlæti af hálfu útgerðarauðvaldsins. Þessu verður að linna, við eigum að veiða mun meira og við eigum að afnema einokun útgerðarvaldsins á fiskinum okkar. Núna er lag því útgerðarmenn hafa sjaldan afhjúpað eigingirni sína betur en núna.

Það er aðgerða þörf og þær verða að hefjast fyrst í huga okkar sjálfra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.10.2016 - 20:49 - FB ummæli ()

Samfélagsbanki-norður Dakóta bankinn

Í Norður Dakóta í Bandaríkjunum er starfræktur samfélagasbanki. Hann er eigu Norður Dakóta fylkis og lang flestir íbúar fylkisins eru mjög ánægðir með bankann. Saga hans er mjög merkileg en hann var stofnaður árið 1919 af bændum.

Á þessum árum voru uppskerubrestir og einkabankarnir settu bændur miskunnarlaust í gjaldþrot. Þá sameinuðust bændurnir og stofnuðu stjórnmálaflokk sem náði völdum í fylkinu. Árið 1919 stofnaði fylkið sinn eigin banka

Í raun snérist barátta bænda fyrir fylkisbanka í N-Dakóta ekki um stjórnmál heldur um praktíska hluti. Ef fylkið ætti bankann og hann væri ekki hagnaðardrifinn þá myndi kostnaður bænda lækka verulega. Auk þess var hagur bankans samofinn hag samfélagsins sem hann var hluti af. Þess vegna rak hann ekki bændur í gjaldþrot heldur beið þangað til hagur þeirra vænkaðist og þá voru skuldirnar gerðar upp. Þannig hefur bankinn starfað í nær hundrað ár. Hann horfir á heildarmynd samfélagsins sem hann tilheyrir. Bankinn telur það vera sitt hlutverk að brúa bilið þegar óblíð ytri skilyrði valda skaða en ekki að vera hluti af þeim óblíðu skilyrðum. Þess vegna elska íbúar N Dakóta bankann sinn því hann er vinur þeirra.

Við í stjórnmálasamtökunum Dögun viljum feta í fótspor bændanna í Norður Dakóta. Fyrsta skrefið er ný lagasetning á Alþingi. Þar þarf að skilgreina samfélagsbanka. Banki sem er eingöngu viðskiptabanki en ekki fjárfestingabanki. Fjárfestingabankar taka miklu meiri áhættu sem viðskiptabankar gera ekki. Sú áhættusækni olli bankahruninu 2008. Auk þess á bankinn ekki að vera hagnaðardrifinn en einkabankarnir þrír á Íslandi hafa innheimt um 4-500 milljarða á liðnum 8 árum í hagnað sem er hreinn kostnaður fyrir viðskiptavini. Samfélagsbanki hefur samfélagslegar skyldur og skilar hugsanlegum hagnaði aftur til samfélagsins. Reynslan sýnir að samfélagsbankar eru ódýrari fyrir viðskiptavini og fara sjaldnar í þrot. Banki Norður Dakóta skaðaðist ekki af bankahruninu 2008. Til er þýskur samfélagsbanki sem heitir Sparkasse og er 200 ára gamall og hefur hann 50 milljón þjóðverja sem viðskiptavini en þjóðverjar eru 80 milljónir. Þetta er vel hægt á Íslandi. Dögun vill nota tækifærið núna og breyta þeim bönkum sem nú þegar eru í eigu ríkisins í samfélagsbanka með sérstakri lagasetningu. Þess vegna verður Dögun að komast á þing til að koma þessum breytingum í framkvæmd.

Þessi grein birtist í Bændablaðinu 20. október.

 

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er hér góð fræðslumynd um Norður Dakótabankann.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.10.2016 - 00:29 - FB ummæli ()

Bankar gegn okkur

Finnst þessi frásögn svo athyglisverð að ég ákvað að deila þessu hér.

 

Eins og sum ykkar vitið höfum við Haffi, Hafþór Ólafsson staðið í baráttu við bankana frá hruni. Fæst ykkar vitið þó hversu hörð og óvægin þessi barátta hefur verið, hversu tæpt hún hefur oft staðið og hversu nálægt því við höfum oft verið að tapa öllu okkar lífsstarfi í hendur bankanna, fyrir engar sakir.

Það sem við höfum lært og upplifað á eigin skinni er að það ríkir ekki réttlæti á Íslandi. Við köllum okkur réttarríki en við erum það ekki í raun. Stjórnarskráin okkar segir að allir eigi að vera jafnir gagnvart lögum óháð t.d. efnahag, en sú er alls ekki raunin.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að við erum alls ekki þau einu. Það eru ÞÚSUNDIR í sömu stöðu og við og þegar er búið að hirða þúsundir heimila af fólki í svipaðri stöðu. Þessi barátta snýst ekki um „okkur“ – hún snýst um framtíð Íslands. Endilega hafið þetta í huga þegar þið lesið framhaldið, því barátta okkar allra er sú sama, þó saga hvers og eins sé einstök og við getum bara sagt okkar eigin sögu.

AF HVERJU AÐ STÍGA FRAM NÚNA?

Við höfum misst alla trú á Ísland sé réttarríki sem verndi hagsmuni þegna sinna gegn ofríki og kúgun.

Ísland/stjórnkerfið verndar bara eina hagsmuni – hagsmuni fjármálakerfisins!

Á meðan fjármálakerfið fær sitt – og svo miklu miklu meira en það, má almenningur éta það sem úti frýs.

Samtryggingin og spillinginn innann stjórnkerfisins er, ja… ógeðsleg, það er því miður ekki til annað orð yfir það.

Það að við, Ásta og Haffi, skulum tala svona um landið okkar er í raun alveg með ólíkindum. Við erum fólk sem höfðum alla trú á Íslandi og ef einhver hefði sagt okkur að þetta væri svona er ekki víst að við hefðum trúað því.

Nú standa kosningar fyrir dyrum. Okkur hrýs hugur við óbreyttu ástandi.

Við höfum því ákveðið að stíga fram og segja sögu okkar í von um að breytingar geti orðið á nýju þingi og það er borin von ef sama fólkið og sömu flokkarnir komast aftur að – og þar undanskiljum við ekki Pírata!

Öllum fjórflokkunum, Bjartri framtíð og Pírötum er fullkunnugt um ástandið og hvernig er verið að murka „lífið“ úr fólki. Allir hafa þeir tekið þátt í því; sumir á beinan hátt með því að standa fyrir lagasetningum sem gera bönkunum þetta kleift, aðrir með því að standa til hliðar og leyfa þessu að viðgangast – sem í okkar bókum er ekki mikið betra.

Þó er sökin vissulega stærst hjá þeim sem í upphafi seldu heimilinn í hendur bankanna með hinum skelfilegu Árna Páls (ó)lögum!

Við vitum að fleiri en við höfum barist, en við getum fullyrt að a.m.k. þremur núverandi ráðherrum og einum fyrrverandi, er fullkunnugt um óréttlætið sem er í gangi því við höfum persónulega upplýst þá um það. En þeir hafa allir kosið að líta í hina áttina og leyfa þessu að viðgangast á meðan bankarnir éta upp „landið“ okkar, heimili fyrir heimili – svo ekki sé minnst á fyrirtæki, en þau eru ekki umfjöllunarefnið hér.

HVAÐ GETUR ÞÚ GERT TIL AÐ HJÁLPA?

„Ég vildi að ég gæti gert eitthvað“ hafa margir þeirra sagt sem hafa frétt af eða fylgst með baráttu okkar. Það hefur hingað til verið lítið sem hönd á festir – góðir vinir og fjölskylda hafa þó verið ómetanleg í gegnum þennan tíma. Svo má nefna frábæra vinnufélaga sem fæstir hafa þó vitað af þessu – sem hefur einmitt verið svo gott 😉

En núna getið þið gert eitthvað. Þið getið kosið „rétt“.

Já ég ætla að vera svo djörf að „segja fólki“ hvernig það eigi að kjósa, því það liggur svo mikið við – þið takið því svo eins og þið viljið.

Staðreyndin er sú að ef Alþingi gengur ekki í málin og afnemur hin svokölluðu Árna Páls (ó)lög – lög 151/2010, munum við missa allt okkar í gin bankans.

Arion banki mun þá ganga í burtu með a.m.k. 50 milljónir í hreinan hagnað frá okkur, Haffa og Ástu, og skilja okkur eftir slipp og snauð. Við segjum nánar frá þessu hér fyrir neðan.

Það er ENGINN sem við munum eftir á Alþingi í dag sem hefur sýnt þessum málum minnsta áhuga hvað þá skilning, fyrir utan Vigdísi Hauksdóttur og Guðlaug Þór Guðlaugsson.

Við þurfum „raddir“ inn á Alþingi, fólk sem þekkir málin og er óhrætt við að taka þennan slag.

Við höfum fundið þetta fólk í Dögun.

Ástæðan fyrir því að ég treysti því að Dögun muni standa við loforðin og ganga í málin er að þetta er fólk sem hefur gengið í gegnum þessa baráttu sjálft og hefur gífurlega þekkingu á málaflokknum.

Ég VEIT að fólk sem er búið að fara í gegnum þessar mulningsvélar bankanna og er enn þá uppistandandi mun ALDREI gefast upp, ekki heldur inni á Alþingi.

Það verður ekki hægt að þagga niður í því og ekki hægt að kaupa það, það mun berjast fram í rauðan dauðann fyrir réttlæti.

Við erum alltaf að biðja um „venjulegt fólk“ inn á Alþingi – þarna er það, hert eftir margra ára baráttu sína fyrir réttlæti.

Annað sem eykur á trúverðugleikann er að Dögun hefur verið starfandi síðan 2009. Þetta er ekki „óánægjuframboð“ sem keyrt er í gang korteri fyrir kosningar.

Er ég sammála öllum þeirra stefnumálum? Ekkert endilega en þó sennilega að mestu leiti.

Út um allt er fólk sem segjist vilja breytingar. Getum við átt von á breytingum með sömu flokkunum við völd?

Skoðum það aðeins:

• Fólk hneykslast á bankakerfinu og sýpur hveljur yfir gróða bankanna:
Mun það breytast með fólkinu sem nú situr á Alþingi? Fólkinu sem hefur bugtað sig og beygt fyrir fjármálakerfinu og sett hagsmuni þess ofar hagsmunum almennings alla tíð frá hruni – svo ekki sé litið lengra aftur.

• Lífeyrissjóðakerfið er ekki að ganga upp eða vinna fyrir okkur:
Mun það breytast með núverandi valdhöfum? Í fyrsta sæti í Kraganum fyrir Dögun er maður, Ragnar Þór Ingólfsson, sem hefur sennilega einhverja yfirgripsmestu þekkingu sem finnst á lífeyriskerfinu þó víða væri leitað, og hefur nú þegar barist fyrir breytingum á því í mörg ár.

• Húsnæðismarkaðurinn og ungt fólk, er breytinga þörf þar?
Í dag búa um 40% fólks á aldrinum 20 – 30 ára heima, því hvorki er hægt að leigja né kaupa. Mun það breytast með núverandi valdhöfum? Hjá Dögun situr fólk sem hefur starfað fyrir samtök leigjenda og Hagsmunasamtök heimilana og þekkir þessi mál út og inn og veit hvaða lausnir virka.

Þetta fólk MUN leggja fram frumvörp um afnám Árna Páls laganna og afnám verðtryggingar, ásamt því að hjóla í lífeyrissjóðakerfið og bankana, því það hefur reynt afleiðingarnar og óréttlætið á eigin skinni.

Þau munu ekki láta þagga niður í sér!

Það er lífsspursmál fyrir okkur Haffa að þetta fólk komist inn á þing, það er okkar eina von, annars munum við missa allt okkar.

Við viljum því biðja ykkur um að kynna ykkur þennann flokk og skoða hvernig ykkur lýst á.

Setjum svo að ég hafi rangt fyrir mér og að þau séu alveg eins og „allir aðrir stjórnmálamenn“. Þá verðum við í versta falli jafn illa stödd og núna. En hafi ég rétt fyrir mér, breytir það öllu!

EFNI ÞESSA PISTILS

Hér fyrir neðan ætla ég að segja sögu okkar „opinberlega í fyrsta skipti“ eins og Séð og heyrt myndi segja 😉 Í ljósi þess sem ég segi hér fyrir ofan ætla ég þó aðallega að fjalla um samskipti okkar við ýmsa ráðamenn síðastliðna 18 mánuði, til að þið sjáið á hverju ég byggi það sem ég segi hér fyrir ofan. Hér í þessum pistli er hins vegar ekkert fjallað um samskipti okkar við bankana og lögaðila eins og sýslumenn.

Stundum segi ég „ég“ og stundum „við“. Við Haffi höfum náttúrulega staðið í þessu saman og orðið erfitt að greina á milli okkar 😉

Baráttan hefur staðið í meira en 8 ár! Þetta er því nokkur lesning og ekki hjá því komist að skoðanir og túlkanir mínar/okkar blandist þarna inn. Ég reyni að vera eins málefnaleg og mér er unnt en stundum ræð ég ekki alveg við að láta kaldhæðni mína eða reiði koma í ljós.

Margt af því sem segjum er skjalfest, en það getur þó aldrei átt við um allt, eins og t.d. frásögn mína af fundi okkar með Bjarna Ben.

Þetta er allt skrifað eftir minni bestu samvisku og ég reyni að láta fólk njóta sannmælis þar sem það er hægt. Sé eitthvað rangt í skrifum mínum mun ég takast á við það, en ég bið ykkur einnig að týna ykkur ekki í smáatriðum, sem hafa alltaf náð yfirhöndinni í umræðu um þessi mál, heldur horfa á stóru myndina.

Það er verið að brjóta gróflega á Stjórnarskrárbundnum réttindum fólks og í boði Ríkisstjórna Jóhönnu og svo síðar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, er verið að murka lífið úr heimlum landisins og færa bönkunum þau/landið á silfurfati.

Og þá er bara að byrja 

ÁRNA PÁLS LÖGIN – ALÞINGI VAR BLEKKT

Það verður ekki hjá því komist að rekja tilurð Árna Páls laganna í stuttu máli.

Forsaga þessara laga nr 151/2010, er umfjöllunarefni út af fyrir sig og ætti að hringja þúsund viðvörunarbjöllum um að eitthvað sé nú rotið í kringum þau, en það er enn ein hliðarsagan sem ekki verður sögð hér.

Það er hins vegar óumdeilt að Árna Páls lögin voru keyrð í gegnum þingið á síðustu dögum fyrir jólafrí 2010, undir formerkjum þess að verið væri að „hjálpa skuldurum“ sem eru einhver örgustu öfugmæli sem um getur. Ef skuldurum var hjálpað, þá var það beint í skuldafangelsið!

Það er einnig auðvelt að sýna fram á að Alþingi hafi verið blekkt við setningu þessara laga af þáverandi ríkisstjórn með Árna Pál í broddi fylkingar .

A.m.k. 40 umsagnir við frumvarpið komu frá mörgum aðilum sem flestar vöruðu við því sem síðar hefur komið í ljós. Þær voru allar hunsaðar.

M.a. var frábær greinagerð frá umboðsmanni skuldara, þar sem hann varar eindregið við þessara lagasetningu og íþyngjandi áhrifum hennar á skuldara, auk þess sem hann bendir á að lögin brjóti í bága við eignaréttarákvæði Stjórnarskrárinnar. Það þótti greinilega ekki ástæða til að kanna það betur (!).

Mikið hefði nú verið gott ef umboðsmaður skuldara hefði staðið undir nafni, haldið þessum athugasemdum á lofti og haldið áfram að berjast fyrir skuldara eftir að lögin voru sett, en það er allt önnur saga sem aðrir þekkja betur en við.

Það skal vera ljóst að þessi lagasetning er ekki sett í einhverju „stresskasti“ rétt eftir hrun þegar engin vissi hvað sneri upp eða niður. Nei, þessi lög eru sett í desember 2010, TVEIMUR ÁRUM eftir hrun. Það var EKKERT sem kallaði eftir þeim, engin neyð, engir almannahagsmunir, engir bankar sem voru að fara á hausinn. EKKERT!!!

Bankarnir voru meira að segja löngu komnir fram með yfirlýsingar um að þó að gengistryggingin hefði verið dæmd ólögleg væri afkoma þeirra ekki í neinni hættu.

Af hverju var þá farið í þennann gjörning sem hefur valdið svo miklum skaða hjá svo mörgum?

Við höfum engin svör við því frekar en þið, en við höfum s.s. hugsað ýmislegt .

Staðreyndin er hins vegar sú að með þessum lögum fengu bankarnir veiðileyfi á skuldara.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Já, hvað er til ráða? Það er kannski ágætt að svara þeirri spurningu áður en lengra er haldið og saga okkar rakin.

Það eina sem við höfum farið fram á í Stjórnkerfinu er að Árna Páls lögin verði sett í endurskoðun og skoðuð út frá Stjórnarskrárbundnum eignarrétti ásamt lögbundnum samnings- og neytendarétti, og að allar aðfarir sem byggi á þessum (ó)lögum verði stöðvaðar á meðan á endurskoðun stendur.

Það er engin vafi á því í okkar huga að í kjölfar slíkrar endurskoðunar yrðu þessi illræmdu lög afnumin því þau þverbrjóta öll grundvallarréttindi fólks – a.m.k. EF við viljum kalla okkur réttarríki en á því er reyndar farinn að leika nokkur vafi.
Ég ætla ekki að fara djúpt í rökstyðning þessara orða hér því lögin sem slík eru ekki umfjöllunarefni þessa pistils en fyrir þá sem ekki þekkja er örstuttur rökstuðningur um ólögmæti þeirra hér fyrir neðan.

En það er greinilegt að það er auðveldara að setja lög en endurskoða þau, hvað þá afnema.

En myndi bankakerfið ekki fara á hliðina ef þeir misstu þennann spón úr aski sínum?

Svarið við því er „Nei“. Þó að um þúsundir heimila sé að ræða er þetta ekki nema lítið brot af öllum „bankapakkanum“, við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af því að þeir verði á flæðiskeri staddir.

En segjum að bankarnir myndu koma illa út úr þessu? Er það þá „mitt“ vandamál? Það var ekki ég sem braut lögin vitandi vits, þeir gerðu það. Er hægt að réttlæta það að hirða ævistarfið og heimilin af þúsundum, hreinlega setja fólk í ánauð, til að afkoma bankanna batni??!! Hvað er það?!!

Málin voru ekki flókin, en þau hafa óneitanlega verið flækt af fólki sem gekk undir hvers annars hönd til að tryggja með öllum ráðum að bankarnir þyrftu ekki í neinu að taka afleiðingum eigin lögbrota.

En flækjustigið er ekki okkar vandamál. Við erum ekki til í að láta fórna okkur og lífsstarfi okkar á altari bankanna!!

Við þurfum fólk inn á þing sem stöðvar þessar mannfórnir!

Svo má líka nefna að refsiramminn á Íslandi er 16 ár. „Gerendur“ hrunsins, bankastjórar og aðrir hafa mest verið dæmdir í 5 ára fangelsi. Allir virðast þeir halda eigum sínum að mestu leiti, líka þeim sem þeir græddu á lögbrotum sínum.

Engin hefur hins vegar getað útskýrt fyrir okkur í hverju „glæpur“ okkar felst, en samt skal svipta okkur öllu okkar lífsstarfi án dóms. Segjum að við séum sek, er refsingin þá í einhverju samhengi við glæpinn og/eða fyrrnefnd dómafordæmi?

SAGA OKKAR

Saga okkar hófst í ágúst 2007 þegar við festum kaup á húseign og tókum lán fyrir 55% kaupverðs, upp á 30 milljónir króna hjá Frjálsa fjárfestingabankanum. Við hrunið fór lánið vel yfir 70 milljónir.

Í janúar 2009 gerðum við tímabundin samning við bankann til 10 mánaða upp á fasta greiðslu á mánuði, kr. 170.000. Þegar sá samingur rann út i nóvember sama ár vorum við rukkuð um tæpar 365.000 fyrir mánuðinn.

Við ákváðum að borga ekki, enda ekki möguleiki að standa við slíkar greiðslur til lengri tíma.

Síðan voru gengisviðmið lánsins dæmd ólögleg í mars 2010 sem svo var staðfest í Hæstarétti í júní sama ár.

Hæstiréttur bætti einnig um betur nokkru síðar og dæmdi að auki lánsvextina ólöglega en henti þá um leið inn afturvirkum Seðlabankavöxtum. Sá gjörningur stenst enga lagarýni en er það sem öll ósköpin sem á eftir koma byggja á. Með þessu fór Hæstiréttur í einu og öllu eftir „tilmælum“ Viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar og Seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar.

Skömmu síðar voru hin svokölluðu Árna Páls lög sett. Með einni stjórnvaldsákvörðum var sigur „okkar“ að engu gerður og samningsréttur okkar sem einstaklinga hvarf.

Við vorum hjá Frjálsa fjárfestingabankanum og fórum í gegnum Dróma hryllinginn. En sá „banki“ stundaði ólöglegar innheimtur á okkur í heil 5 ár í boði Ríkisins. Drómi hafði nefnilega ekki innheimtuleyfi en gat samt komið fjölda fólks á vonarvöl.

Lánið var svo selt til Arion banka, sem er engu skárri, þó hann hafi vissulega lögformlegt innheimtuleyfi.

Í öllu kerfinu eru varnir skuldarans engar. „Þið getið náttúrulega farið með þetta fyrir dóm“ hefur verið margsagt við okkur í gegnum árin.

„Þú meinar við, Ásta og Haffi, á jafnræðisgrundvelli við bankann?“

Ekkert mál, við höfum alveg úr jafn miklu að moða og hann.

Dómstólaleiðin er eina „jafnræðið“ sem boðið er upp á. Í dómsmálum skiptir dýpt vasa óneitanlega miklu máli, auk þess sem erfitt er að finna lögfræðinga sem ekki hafa unnið fyrir bankana eða dreymir um að gera það, því þar eru jú peningarnir. Einnig er bara erfitt að treysta því að lögfræðingur væri virkilega að vinna fyrir okkur.

Við höfum s.s. ekki farið út í það að læra lögfræði til að berjast eins og Theodóra Þorsteinsdóttir í RANSACKED gerði. Hún á alla okkar aðdáun fyrir þrautseigju sína í þessari erfiðu baráttu. En hugsið ykkur að þetta skuli þurfa til!! Er ekki eitthvað athugavert við það?

En þó að farið sé í dómsmál er ekki bara verið að berjast við bankana og verið að hætta miklum fjármunum sem venjulegu fólki munar verulega um (a.m.k. meira en andstæðingnum), heldur leikur líka verulegur vafi á réttlátri dómsmeðferð.

Hæstiréttur er nefnilega í raun einn af gerendum málsins. Hann lagði línurnar með ólöglegum dómi og er, eins og einn lögfræðingur orðaði það við okkur, „ekki hrifin af því að dæma okkur í vil“.

Annar lögfræðingur, sem hefur unnið mörg mál fyrir bankana, benti okkur einnig á það að „þetta snerist ekkert um réttlæti“ sem er eitt það sorglegasta sem við höfum heyrt.

Við höfum nefnilega staðið á því. Á réttlæti. Staðið á því að réttlæti ríki á Íslandi og að óréttlætið og kúgunin sem svo margir hafa lent í myndi aldrei standast til lengri tíma. Réttlætið myndi ná fram að ganga.

Frá hruni eru liðin átta ár og sex ár frá setningu Árna Páls laganna, og við bíðum enn þá eftir réttlætinu.

Við ákváðum snemma að það versta sem gerðist væri að við myndum tapa húsinu – en við myndum standa, og falla, með því sem rétt væri.

Okkar eina vörn hefur verið að neita að spila með.

Við höfum neitað að beygja okkur fyrir kúgunartilburðum bankana, svarað öllum bréfum með rökum og farið fram á löglega endurútreikninga, samkvæmt neytendarétti sem kveður skýrt á um að ekki megi breyta samningum eftir á neytanda í óhag, og að þó að leyfilegt sé að dæma ákvæði samnings ólögleg (gengistryggingu og vexti) sé EKKI LEYFILEGT að setja önnur ákvæði inn í staðinn (Seðlabankavexti).

„Hafið þið ekki borgað af láninu ykkar?“ spurði fjármálaráðherra stórhneykslaður þegar við fengum stuttann fund með honum. Það er ekki nema von að manninum hafi blöskrað, hans vinir og fjölskylda fá AFSKRIFAÐ en er að sjálfsögðu fólk sem borgar sínar skuldir – það sem búið er að afskrifa er náttúrulega ekki skuld.

Það hljómar óneitanlega illa að hafa neitað að borga af láninu, en hvaða aðrir kostir voru í stöðunni?

Bankinn hefur aldrei verið til samninga. Við erum með lága veðsetningu og góða eign og þannig samsetning er á „dauðalista heimilanna“ hjá bönkunum. Í upphafi var þetta spurning um að borga og svelta eða neita og lifa. Þegar krafan frá Frjálsa upp 365.000 kr. mánaðargreiðslur kom voru heildalaun mín sem kennara í kringum 240.000 og Haffi ennþá í 50% vinnu vegna eftirmála hrunsins í hans fyrirtæki.

Svo fóru dómarnir að falla og allt í einu snerist þetta ekki um að lifa af, heldur rétt og rangt, og þegar maður hefur sannfæringu um réttlæti þá stendur maður með henni, því annars er maður „bara lítið skítseyði“ eins og Jónatan Ljónshjarta sagði svo eftirminnilega.

KERFIÐ

Sagan er orðin löng; við höfum fjórum sinnum verið sett í uppboðsferli en alltaf bjargast á síðustu stundu af því að dómur féll, lög um frestun nauðungaruppboða voru sett, verkfall skall á hjá lögfræðingum hjá sýslumönnum, og svo núna 6. september sl. átti að halda loka uppboð á eigninni okkar, en þá mætti bankinn ekki á svæðið þannig að uppboðið var fellt niður.

Það er ekki hægt að kalla það annað en kraftaverk að við skulum enn vera uppistandandi og enn á heimili okkar.

Það verður ekki næg áhersla lögð á hversu skelfilegt varnarleysi fólks er gagnvart kerfinu. Þó að allur réttur sé „þín“ megin, þó engin geti mótmælt rökum þínum, og þó allir hlutaðeigandi séu í raun sammála þér, þá skiptir það engu máli. Sýslumenn eru eins og afgreiðslustofnanir fyrir bankana, bankarnir hafa alltaf allan rétt sín megin og allur vafi er reiknaður þeim í hag. Þetta er eins og að vera innikróaður í herbergi og jarðýtan nálgast og nálgast og engrar undankomu auðið, á meðan fólk situr og horfir á, hristir hausinn og segir, „Alveg er þetta svakalegt, aumingja fólkið“.

Það er ekki eins og þetta sé eitthvert náttúrulögmál, eða af völdum einhverra hamfara, ekki einu sinni af völdum efnahagshamfara.

Allt þetta dæmi stafar einfaldlega af því að „kerfið“ tók meðvitaða ákvörðun um að vernda fjármálakerfið á allan hátt, en fórna skuldurum. Flóknara er dæmið ekki. Þetta er af mannavöldum!

Meðal annars nokkurra sem vilja að við kjósum þá aftur.

STJÓRNMÁLA- OG EMBÆTTISMENN

Ég ætla ekki að rekja alla söguna í þessum pistli heldur einbeita mér að samskiptum okkar við stjórnmálamenn og þá um leið af hverju ég hef enga trú á þeir muni gera neitt í þessum málum – og þá þaðan af síður verðtryggingunni, þó hún sé allt annað mál.

Í mars 2015 var staðan slæm. Bankinn aftur farin af stað með uppboðsbeiðnir og við búin að reyna allt sem okkur datt í hug. Þá fékk ég þá hugmynd að leita til forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs.

Ég var nógu bláeyg til að trúa því að þegar að æðsta embætti landsins yrði sýnt það svart á hvítu hvernig kerfið væri að fara með fólk, þá myndi þetta verða stöðvað.

Við fórum með bréf heim til Sigmundar því við treystum því ekki að bréf sent í ráðuneytið kæmist yfirleitt til skila. Sigmundur var einstaklega almennilegur þegar ég bankaði upp á og tók við bæði bréfi og blómum.

Nokkrum vikum síðar fengum við símtal úr forsætisráðuneytinu, frá Lilju Alfreðsdóttur, þv. aðstoðarmanni Sigmundar, en hann hafði falið henni að skoða málið.

Það verður að segja Sigmundi það til hróss að hann fól einhverjum málið, hann hefði alveg getað sleppt því og Lilja var alveg frábær í öllum samskiptum sínum við okkur. Þó ekki sé annað þá bjargaði þetta sjálfsagt geðheilsu okkar fram á þetta ár og gaf okkur von. Það er í sjálfu sér ekki lítils virði í svona baráttu að eitthvað gefi manni von, og þó ekkert hafi komið út úr þessu, erum við þeim báðum mjög þakklát fyrir það.

Lilja hafði fyrst samband við okkur seint í apríl 2015 en svo tóku við einhver stór mál og þinglok ásamt sumarleyfum, þannig að fyrsti fundur með henni var um miðjan ágúst í fyrra.

Það var mjög gott að tala við Lilju og hún var – eða virtist að minnsta kosti, verulega sleginn yfir því sem við sögðum henni. Hún sagði okkur jafnframt að „stjórnkerfið“ hefði staðið í þeirri trú að gengislánafólk væri bara í góðum málum. Hún útskýrði jafnframt fyrir okkur að lögformlega heyrði þetta mál undir innanríkisráðuneytið og sagðist myndu koma því áleiðis þangað.

Hún gerði það og hafði svo samband og sagðist hafa komið málunum til Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.

Ég hafði strax miklar efasemdir um það því Steinunn Valdís er náttúrulega samfylkingarkona, og Samfylkingin á Árna Páls lögin með hurðum og gluggum, þó Vinstri grænir hafi vissulega lagt þung lóð á vogarskálarnar.

Það kom í ljós að efasemdir mínar áttu fullan rétt á sér. Steinunn tafði málin svo vikum skipti, gott ef það voru ekki einhverjar sex vikur þangað til hún hreyfði við málinu, þrátt fyrir að Lilja væri að ýta á eftir henni úr forsætisráðuneytinu.

Þegar þarna var komið var okkur orðið ljóst að barátta okkar var ekki fyrst og fremst við bankann heldur við ólögleg lög sem byggðu á ólöglegum dómi. Fyrirspurnir okkar sneru því að því hvernig Hæstaréttardómurinn og svo í framhaldinu Árna Páls lögin stæðust neytenda- og samningsrétt ásamt eignarréttarákvæði Stjórnarskárinnar.

Þessu hefur engin lögfræðingur innann neins ráðuneytis getað svarað efnislega.

STEINUNN VALDÍS, INNANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ og VÖLD EMBÆTTISMANNA

Eftir dúk og disk sendi Steinnunn málið til lögmanns neytendastofu sem eftir annann dúk og disk kom með staðlað svar um að Árna Páls lögin væru í samræmi við dóm Hæstaréttar.

Við vissum það, en vorum að benda á að dómur Hæstaréttar stæðist enga skoðun.

Við svöruðum þessu bréfi og bentum á að fyrirspurn okkar hefði ekki verið svarað, og höfum ekki ennþá, ári síðar, fengið svar við því.

Við óskuðum eftir fundi með innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, bréflega í a.m.k. tvígang auk þess sem Haffi talaði við ritara hennar, en engin svör hafa borist við því.

Við vitum að sjálfsögðu ekki hvort Ólöfu sé kunnugt um beiðni okkar um fund eða hvað okkar mál snúast um. Ritarinn hennar sagði samt við Haffa að okkar mál yrði „efst í bunkanum“ á morgunfundi daginn eftir, en hvað vitum við svo sem um það?

Það er reyndar enn eitt „hliðarmálið“ í þessu öllu, hvað embættismenn hafa mikil völd. Þeir eru kannski búnir að vera í einhverju ráðuneyti í mörg ár, jafnvel tugi ára, hafa tekið þátt í að vinna alls kyns mál, eins og t.d. að undirbúa og vinna Árna Páls lögin, og svo síðan tekið þátt í því að breiða yfir og fela skelfinguna sem þau hafa valdið. Er von á réttlæti eða hjálp frá þeim aðilum?

Margir hafa áhyggjur af þaulsætni stjórnmálamanna eða forseta, ég held að það sé mun meiri ástæða til að hafa áhyggjur af þaulsetnum embættismönnum sem hafa ómæld völd á bakvið tjöldin. Svona svipað og í „Já ráðherra“ þáttunum.

Ég er ekki halda því fram að fólk sé vont, heldur að þegar þú hefur litið aðeins of oft í hina áttina, þá viltu ekki að flett sé ofan að því sem þú hefur tekið þátt í að fela og jafnvel mætti kalla vanrækslu í starfi.

Ég verð áreiðanlega skömmuð fyrir að ráðast á og alhæfa um „gott fólk sem vinnur vinnuna sína og getur ekki borið hönd yfir höfuð sér“ og það er nokkuð til í því. En það skal samt haft í huga að völdum fylgir ábyrgð og almenningur á enga möguleika á að verja sig fyrir gjörðum og eða aðgerðarleysi þessa fólks, og að það er hvorki hafið yfir gagnrýni né skoðun.

En nóg um það.

Ólöf hefur ekki enn svarað okkur hverju sem það er um að kenna.

FORSÆTISRÁÐUNEYTIÐ

Klukkann hélt áfram að tikka og tíminn leið.
Um áramótin hvarf Lilja til sinna fyrri starfa í Seðlabankanum og lét okkar mál í hendurnar á Jóhannesi Þór Skúlasyni aðstoðarmanni Sigmundar. Við fengum fund með honum strax 4. janúar sem stóð í rúman klukkutíma.

Eitt af því sem Jóhannes sagði var að mál eins og okkar væru þau erfiðustu sem kæmu inn því þó eitthvað yrði gert myndi það ekki gagnast þeim sem hefðu barist hvað harðast. Enn og aftur var tekið undir allt sem við sögðum, þetta væri allt alveg hræðilegt en…. svo gerist ekkert meira.

Við sögðum þarna að það eina sem gæti bjargað okkur og fjölmörgum öðrum, væri að sett yrði í gang endurskoðun á Árna Páls lögunum með tilliti til eignaréttarákvæðis Stjórnarskrárinnar, neytenda- og samningsréttar, og allar aðfarir stöðvaðar á meðan. Við óskuðum einnig eftir fundi með forsætisráðherra til að ræða þessi mál.

Daginn eftir hafði Jóhannes svo samband við Haffa og sagðist hafa talað við ráðuneytisstjórann og að lögfræðingur ráðuneytisins yrði settur í skoða lögmæti Árna Páls laganna, eftir því sem okkur skildist, út frá þessum fyrrnefndu atriðum.

Í einhverju samhengi á fundinum sagði Jóhannes að eitthvað væri ekki hægt því það bryti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þetta truflaði mig þó ég kæmi því ekki í orð á fundinum og þann 8. janúar sendi ég Jóhannesi bréf þar sem ég fór yfir það hvernig jafnræðisreglan hefði á allan hátt verið þverbrotin á okkur og öðrum í sömu stöðu í gegnum alla okkar sögu. Við höfum ekki heyrt frá Jóhannesi síðan.

Við sendum samt áfram einhverja pósta en okkur mætti þögnin ein.

Við vorum farin að ókyrrast þegar komið var fram í mars, og þann 6. mars sendum við póst til Jóhannesar, eftirfarandi er úr þeim pósti:

———————————
Við ítrekum einnig ósk okkar um fund með Forsætisráðherra og óskum aftur eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
Ætlar þessi Ríkisstjórn, undir forystu Framsóknarmanna að leggja blessun sína yfir þetta „rán í boði Ríkisins“ sem bankarnir eru að fremja í skjóli Árna Páls laganna?
– Ef ekki, hvenær má þá vænta aðgerða?
o Lögin hafa nú þegar gilt í fimm ár og valdið ómældum skaða, getum við búist við að Árna Páls lögin verði sett í endurskoðun og allar aðgerðir bankana stöðvaðar á meðan, áður en langt um líður?

– Ef Ríkisstjórnin/Forsætisráðherra/Framsóknarflokkurinn ætlar ekkert að gera:
o Eruð þið þá til í að útskýra fyrir okkur lögin sem við brutum sem réttlæta það að vera svipt ÖLLU okkar?
 Refsiramminn á íslandi er 16 ár fyrir hrottaleg morð. Menn sem frömdu milljarða glæpi innan bankana á meðan þeir mökuðu krókinn , fengu mest 5 ára fangelsisdóm og halda stórum hluta „þýfisins“.
 Hvernig samræmist okkar refsing refsirammanum? Við erum a.m.k. til í að skipta við þessa menn!
o Miðað við öll þau gögn sem við höfum lagt fyrir ykkur, er þá ekki a.m.k. komin „skynsanlegur vafi“ á sekt okkar sem ætti að nægja til endurupptöku eða réttara sagt afnáms Árna Páls laganna?
o Í fyrra högnuðust bankarnir um 107 milljarða og hafa hagnast um 477 milljarða frá hruni, þannig að hagnaður þeirra er að stóraukast.
 Teljið þið að eðlilega hafi verið staðið að endurreisn bankanna eftir hrun?
 Teljið þið að eðlilega hafi verið staðið að sölu og yfirfærslu lánasafna til „nýju“ bankana eftir hrun?
 Teljið þið að bankastarfssemi á Íslandi sé með eðlilegum hætti?

Ef um okkar „einkamál“ væri að ræða, væri kannski skiljanlegt að mál okkar væri ekki forgangsmál í Ráðuneytinu. En það er ekki bara um okkur að ræða, heldur þúsundir sem þurfa sárlega á því að halda að einhver sé til í að standa með þeim og taka slaginn.

Með von um skjót svör
Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Hafþór Ólafsson

——————————–

Þar sem ekkert gekk í samskiptum við ráðuneytið ákváðum við að fara aftur með bréf til Sigmundar Davíðs og gerðum það um mánaðarmótin mars apríl. Það var nú heldur þyngri tónn í því bréfi en því fyrra og við óskuðum þarna eftir fundi með honum til að ræða þessi mál við hann augliti til auglitis.

Þegar þarna var komið sögu vildi ég að hann myndi horfast í augu við okkur og segja okkur að ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn hefðu tekið pólitíska ákvörðun um það að láta Árna Páls lögin halda sér og leyfa þessum Stjórnaskrárbrotum og óréttlæti að halda áfram í sínu skjóli?

Tímasetning okkar hefði sennilega ekki getað verið óheppilegri því þarna er Wintris málið allt að koma upp og ekkert heyrðist frá Sigmundi enda hafði hann í öðru að snúast.

Lögfræðialitið lét enn þá bíða eftir sér og kom ekki fyrr í byrjun maí þegar búið var að skipta um forsætisráðherra og sennilega enginn lengur í ráðuneytinu sem ýtti á eftir því að spurningum OKKAR væri svarað en ekki einhverju allt öðru.

Þegar það loksins kom svaraði það enda engum af efnislegum spurningum okkar heldur kom með standard svarið um að Árna Páls lögin væru í samræmi við dóma Hæstaréttar. Einar Hugason lögfræðingur sem skrifaði álitið sá sér hvorki fært að svara spurningum okkar um brot á Stjórnarskrárvörðum rétti fólks, né um brot á samnings- og/eða neytendarétti.

Það er reyndar mjög áhugavert í þessu samhengi að engir „aðilar“ málsins tala um að „fylgja lögum“. Allir tala þeir hins vegar um að allt sé þetta „í samræmi við dóma Hæstaréttar“!!

Til hvers þurfum við löggjafarvaldið ef Hæstiréttur getur bara litið fram hjá þeim lögum sem ekki henta honum hverju sinni og/eða túlkað þau og teygt í allar áttir?

VIGDÍS HAUKSDÓTTIR

Í millitíðinni hafði okkur tekist að fá fund með Vigdísi Hauksdóttur. Það var reyndar ekki erfitt, pabbi frétti af opnum fundi með henni og Frosta Sigurjónssyni, við mættum og bárum fram fyrirspurn um málið. Þegar Vigdís kom í pontu til að svara bauð hún okkur fund með sér strax morguninn eftir.

Það var mjög hressandi að hitta Vigdísi. Hún var algjörlega með á nótunum enda eins og hún sagði, voru mál eins og okkar bara hin hliðin á því sem hún var að berjast við varðandi einkavæðingu bankana hina síðari.

Það er ekki spurning í okkar huga að þessi mál eru nátengd. Við þessa síðari einkavæðingu bankana voru heimili landsins hreinlega seld kröfuhöfum. Þarna er margt sem á eftir að koma upp fram þó að Vigdís hafi gert sitt besta til að draga þetta upp á yfirborðið – ein í baráttu við kerfið sem varði sig með kjafti og klóm.

Við Haffi berum mikla virðingu fyrir Vigdísi og þeirri baráttu sem hún stóð fyrir. Það er ekki spurning að fljótfærni og óheppilegt orðalag á stundum háði henni, en þetta er baráttukona og í dag ber ég ómælda virðingu fyrir fólki sem tekst á við ofurefli þó það nái kannski ekki tilætluðum árangri.

Við vorum í samskiptum við Vigdísi fram á sumar en svo, kannski vegna allra látana í kringum Framsóknarflokkinn, var eins og hún gæfist upp – eða þannig var okkar skynjun á hlutunum. Lái henni hver sem vill, ég held að öll hennar þingseta hafi verið stöðug barátta við ofurefli á mörgum vígstöðvum.

FJÁRMÁLARÁÐHERRA, BJARNI BENEDIKTSSON

Aftur mættum við á opinn fund, nú hjá Sjálfstæðisfélaginu í Garðbæ klukkann 11 á laugardagsmorgni, með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.
Við bárum fram okkar fyrirspurn og óskuðum eftir fundi með Bjarna til að koma honum inn í málin. Við fengum fundinn og hittum Bjarna og aðstoðarmann hans Teit Einarsson, nokkrum dögum síðar.

Þetta var ekki góður fundur. Sumt af því sem ég segi hérna eru hlutir sem við sáum þegar við litum til baka en áttuðum okkur ekki endilega á meðan á fundinum stóð.

Eftir á að hyggja voru það mistök hjá okkur að senda engin gögn fyrir tímanlega fyrir fundinn, en ástæða þess var sú að samkvæmt reynslu okkar er yfirleitt betra að ræða við fólk, útskýra okkar hlið og senda svo gögn, það átti sennilega ekki við í þessu tilfelli.

Bjarni tók strax stjórnina á fundinum; við fengum ekki að segja frá heldur spurði hann okkur mjög markvissra spurninga sem, eftir á að hyggja, miðuðu allar að því að ná fram fyrirfram gefinni niðurstöðu. Að við værum vanskilafólk sem værum að væla og kenna öðrum um stöðu sem væri á allan hátt okkur sjálfum að kenna.

Hvað er langt síðan þið borguðuð af láninu ykkar?

„Hafið þið ekki borgað af láninu?!!“ sagði hann hneykslaður, maðurinn sem á fjölskyldu og vini sem hafa fengi tugi milljarða afskrifaða. En það eru náttúrulega ekki vanskil (!)

„Af hverju borguðuð þig ekki a.m.k. vextina þá væruð þið ekki í þessari stöðu núna?“ Að þessi spurning/athugasemd hafi komið frá sjálfum fjármálaráðherra landsins finnst mér algjörlega makalaust – maður velur ekkert hvað maður borgar bönkunum, en kannski gerir fólk „eins og“ Bjarni Ben það

„Hvað viljið þið?“ „Að fá að borga lánið okkar eins og samningurinn kveður á um, nema Hæstiréttur er náttúrulega líka búin að dæma vextina ólöglega.“

Þarna ofbauð Bjarna, „Þið fáið lánið aldrei vaxtalaust“ sagði hann. Við sögðumst aldrei hafa farið fram á það, en það væri samt sem áður staðan fyrst Hæstiréttur hefði farið út í þessa leikfléttu að dæma vextina ólöglega, til að hjálpa fjármálafyrirtækjunum og opna leið fyrir afturvirka Seðlabankavexti og það væri ekki nema eðlilegt að sá hluti dómsins stæði, enda ekkert ólöglegt við hann.

Svona einhvern veginn gekk fundurinn fyrir sig. Þegar við vorum búin að sitja undir spurningaflóði og því að hafa varla sagt ótruflaða setningu og það leit út fyrir að nú kæmumst við að með okkar rökstuðning, stóð Bjarni upp og sagðist þurfa að fara á annann fund.

Málið er nefnilega að þegar gripið er hér og þar inn í málin, er hægt að láta þetta allt líta mjög illa út. Við höfum aldrei verið í vanskilum með neitt og erum ekki í vanskilum með neitt „annað“.
Við viljum ekkert frekar en fá að borga af láninu okkar. En við viljum borga lánið OKKAR, ekki einhverjar uppdiktaðar ólöglegar tölur sem eru einhliða ákveðnar af bankanum.

Okkur leið ekki vel þegar við gengum út. Það er ekki þægilegt að finna fyrir ja, næstum því fyrirlitningu frá einum valdamesta manni landsins.

Það var ekki fyrr en síðar sem ég varð reið og áttaði mig á hvernig fundurinn var „spilaður“.

Ég er líka alveg yfir mig hneyksluð á því að maður sem hefur, a.m.k. á „óbeinan hátt“ í gegnum ehf félög, fengið svo mikið afskrifað og svo miklar fyrirgreiðslur úr kerfinu, skuli voga sér að skammast í fólki sem er að berjast fyrir afkomu sinni og lífi með einu vopnunum sem það hefur.

Ef við hefðum t.d. E-Há-Effað húsið okkar eins og allt „almennilegt fólk“ gerði, þar af margir vinir hans Bjarna, á árunum fyrir hrun, værum við í góðum málum. En við voru svo vitlaus að við erum m.a.s. bæði skrifuð fyrir láninu. Það er ekki nema von að honum hafi þótt við heimsk.

Það getur vel verið að Bjarni sjái þennann fund öðruvísi, en þá bendi ég á að Bjarni virðist muna afskaplega lítið af því sem hann hefur verið að bralla á undanförnum árum, þannig að það er lítil von til þess að hann muni rétt eftir einum fundi af þeim hundruðum funda sem hann mætir á.

Bjarni og Teitur fengu gögnin okkar í hendur auk þess sem við skrifuðum þeim, þökkuðum fyrir fundinn og komum því á framfæri sem ekki tókst eða var „misskilið“ á fundinum. Teitur þakkaði fyrir það en síðan heyrðist ekki meira frá þeim.

FJÁRMÁLARÁÐUNEYTIÐ

Skömmu eftir fund okkar með Bjarna Ben fórum við velta fyrir okkur hvort lögfræðiálit væri til um lögmæti Árna Páls laganna. Haffi var sannfærður um að hann hefði á einhverjum tímapunkti séð að Alþingi hefði verið sagt að gert hefði verið lögfræðiálit, til að svara athugasemdunum sem komu um frumvarpið, m.a. þeirri sem Umboðsmaður skuldara skrifaði.

Þegar við leituðum fundum við reyndar ekkert um þetta lögfræðiálit en ákváðum engu að síður að óska eftir því. Bæði vorum við sannfærð um að vitnað hefði verið í lögfræðiálit þegar lögunum var komið í gegn þó við fyndum ekkert yfir það á þessum tímapunkti, en efuðumst hins vegar stórlega um tilvist þess.

Það er ástæða til að skýra þetta svolítið betur. Við teljum okkur bæði muna að sagt hafi verið á Alþingi við setningu laganna að ríkissstjórn Jóhönnu hefði látið kanna lögmæti þeirra og þau væru í lagi. Hvernig hefðu þau öðruvísi getað komið lögunum í gegnum þingið þrátt fyrir allar athugasemdirnar sem um það bárust?

Við höfðum því áhuga á að sjá hvaða „æfingar“ væri farið í í álitinu til að komast að „réttri“ niðurstöðu, auk þess sem við vildum vita hvaða lögfræðingur hefði verið til í að setja nafn sitt við það.

Á hinn bóginn var okkur farið að gruna að þetta lögfræðiálit hefð aldrei verið til og að logið hefði verið að þingheimi, enda vorum við þarna búin að vera í samskiptum við þrjú ráðuneyti og ekkert þeirra hafði dregið þetta lögfræðiálit fram til að hrekja skoðanir okkar.

Eins og áður sagði tókst okkur ekki á þessum tímapunkti að finna „sönnun“ þess að við myndum rétt, leituðum reyndar ekkert of mikið, en ákváðum að láta reyna á að fá það afhent.

Eftir smá eftirgrennslan var okkur sagt að öll gögn varðandi þessi lög væru hjá fjármálaráðuneytinu.

Þann 11. maí sendum við beiðni á Teit, aðstoðarmann Bjarna Ben, og báðum um afrit af álitinu. Engin svör bárust. Þann 23. maí sendum við ítrekun og bættum þá ráðuneytistjóra inn í póstinn en engin svör bárust. Þann 30. maí sendum við Vigdísi Hauksdóttur póst og spurðum hvort hún gæti ýtt á eftir þessu.

Vigdís svaraði okkur ekki en þann 1. júní barst eftirfarandi svar frá Fjármálaráðuneytinu:

„Sæll Hafþór, Guðmundur Árnason hefur falið Lilju Sturludóttur, skrifstofustjóra á lögfræðisviði ráðuneytisins að svara erindi þínu.“

Svar þetta kom okkur nokkuð á óvart. Við hefðum haldið að það að finna til skjöl í ráðuneytinu væri í höndum einhverra „undirmanna“ en þarna er málið falið skrifstofustjóra á lögfræðisviði!

Við sendum Lilju Sturludóttur póst þann 8. júní þar sem við furðuðum okkur á hversu langan tíma svo einfalt mál tæki og óskuðum eftir að fá lögfræðiálitið ekki síðar en 10. júní, enda við komin í mikla tímapressu þarna í kapphlaupi okkar við bankann/sýslumann.

Þann 9. júní hringdi ég í ráðuneytið og fékk samband við Lilju. Það var athyglivert samtal og eftir það sendi ég Vigdísi Hauksdóttur póst sem ég ætla að birta hér:

————————————
Sæl Vigdís

Núna á fimmtudaginn náðum við símasambandi við Lilju Sturludóttur, skrifstofustjóra lögfræðisviðs fjármálaráðuneytisins.

Samkvæmt henni hefur þeim ekki tekist að finna lögfræðiálitið sem vísað er í með Árna Páls lögunum, en þau „eru að gera sitt besta“, t.d. að reyna að ná í þá „sem að þessu stóðu“ en þar sem þeir vinna ekki lengur hjá Stjórnarráðinu hafði þeim ekki enn tekist það.

Hún sagði að þetta gæti hafa glatast við sameiningu ráðaneyta, en aðspurð sagðist hún ekki vita til þess að önnur fylgiskjöl með frumvarpinu fyndust ekki.

Þegar ég spurði hana hversu langt gæti liðið sagðist hún ekki vita það. Þegar ég sagði að okkur lægi á þessu, mátti heyra á henni að hún skyldi ekki hvers vegna því hún benti mér á að þetta lögfræðiálit staðfesti lögmæti Árna Páls laganna.

Ég svaraði því játandi en sagði að við hefðum sterkar grunsemdir um það að það hefði aldrei verið til. Með það kvaddi Lilja – það er er ekki hægt að segja að hún hafi skellt á því hún var kurteis, en hún sagði eitthvað í áttina að þakka þér fyrir bless, og lagði á.

Það þarf ekki segja þér hversu alvarlegt það er ef logið var að Alþingi með þessum hætti og hversu einbeittann brotavilja þarf til.

Sérð þú fyrir þér, eftir allt þitt grúsk í skjalageymslum stjórnaráðsins/Alþingis, að skjöl eigi að geta glatast með þessum hætti?

Spurningin er, hvað gerum við nú?

Kveðja
Ásta Lóa og Hafþór
——————————————-

Vigdís svaraði, snögg upp á lagið eins og vanalega og sagði, „Þetta mál er einn af stóru skandölum síðasta kjörtímabils og rímar alveg við fundargerðirnar sem ”ekki finnast”.“

Tilvist lögfræðiálitsins var aldrei neitað, ráðuneytið gerir greinilega ráð fyrir því að það eigi að vera til, enda var, eftir því sem við munum best, vitnað í það í greinagerðinni sem fylgdi frumvarpinu.

LÖGFRÆÐIÁLITIN SEM KOMU

Allt í einu dró til tíðinda. Þann 11. júlí kom póstur frá fjármálaráðuneytinu eins og þruma úr heiðskýru lofti.

Þessum pósti fylgdu tvö lögfræðiálit í þremur skjölum sem m.a. voru unnin 17. júní 2010 (táknrænn dagur), daginn eftir að dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingarinnar féll.

Lögfræðiálitin voru skrifuð af Jóhannesi Karli Jóhannessyni hrl. og Aðalsteini Jónassyni hrl. og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Það sem var okkur kannski mesta áfallið var að annað lögfræðiálitið skyldi vera skrifað af Aðalsteini Jónassyni hrl. og einum aðal lögfræðingi Landsbankans, en hann þekkjum við af góðu einu og hann hjálpaði okkur meira að segja með okkar mál fyrri part ársins 2014 – var okkur mikill stuðningur og bjargaði geðheilsu okkar á erfiðu tímabili.

Lögfræðiálitin eru skrifuð af beiðni Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins (Gylfa Magnússonar, fyrrverandi stjórnarmanns í Félagi fjárfesta) og í þeim er hreinlega lögð línan fyrir allt það sem á eftir fer.

Tilmæli Gylfa og Más Seðlabankastjóra um notkun Seðlabankavaxta, Hæstaréttardómurinn um Seðlabankavextina sem og svo Árna Páls lögin í kjölfarið; „rökstuðningurinn“ fyrir þessu öllu er tekin beint úr þessum lögfræðiálitum, sérstaklega Aðalsteins, með örlitlum breytingum/undantekningum sem varla tekur að nefna.

Við höfum ekki getað fengið að sjá verkbeiðnina sem lögfræðingarnir fengu þrátt fyrir að hafa farið fram á það, þannig að við vitum ekki hvort þeir tóku þessar „leikfimiæfingar“ með lögin upp hjá sjálfum sér eða hvort verkbeiðnin var „viltu finna leið til að láta skuldara borga samt!“

Við þurftum nokkra daga til að melta að Aðalsteinn væri „höfundurinn“ að þessu öllu saman.

Okkur fannst einnig áhugavert að sjá að hann skrifaði undir álitið sem dósent í Háskólanum í Reykjavík sem gefur því óneitanlega meiri vikt en ef hann hefði skrifað undir eða bætt við „ [og] Lögfræðingur Landsbanka Íslands“.

Það skal tekið fram að í niðurstöðum sínum mæltu báðir lögfræðingarnir gegn lagasetningu.

Við höldum að okkur hafi verið send þessi álit fyrir mistök, að við höfum aldrei átt að fá þau í hendurnar. Það að Hagsmunasamtök Heimilana, sem hafa nú víða leitað fanga, höfðu hvorki séð né heyrt um þessi álit fyrr en við sögðum þeim frá þeim styður þær grunsemdir.

Við erum ekki löglærð en eigum ekki í nokkrum vandræðum með að hrekja málflutning þessara álita.

Það sem skín svo skýrt í gegnum þessi álit, sem og ALLT annað sem við höfum séð, heyrt og upplifað í gegnum þetta ferli, er að ALLT er unnið út frá hagsmunum fjármagnseigenda og kröfuhafa.

Með öllum ráðum skyldi tryggt að almenningur borgaði brúsann.

Enginn úr Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur nokkurn tímann þurft að svara fyrir það!

Það skal tekið fram að ekki hefur ennþá fundist lögfræðiálit sem svarar athugasemdunum sem komu fram um Árna Páls lögin frá t.d. Umboðsmanni skuldara. Það hlýtur að teljast grafalvarlegt mál að svo alvarlegar athugasemdir hafi ekki talist svara verðar.

Það skal líka tekið fram að þó að hægt væri að túlka 4. og 18. grein vaxtalaga með þeim hætti sem lögfræðingarnir gera, þá stendur eftir sú staðreynd að samkvæmt lögum 7/1936, liðum a-d er BANNAÐ að breyta samningum eftir á neytanda í óhag. Auk þess sem að þó að leyfilegt sé að fella í burtu einhver ákvæði samninga, er BANNAÐ að setja neitt annað í staðinn, sá hluti skal bara falla burt og ekkert koma í staðinn samkvæmt þessum sömu lögum.

Annað hvort gilda lög á Íslandi eða ekki. Það getur ekki farið eftir hentugleikum hverju sinni.

MEIRA UM SVAR FJÁRMÁLARÁÐUNEYTISINS

Það er einnig ýmislegt áhugavert sem kemur fram í póstinum sem fylgir viðhengjunum. Þar er t.d. greinilegt að stjórnvöldum var fullljóst að lagasetningin kynni að brjóta gegn eignaréttarákvæði Stjórnarskrárinnar, en þau höfðu hins vegar bara áhyggjur af eignarrétti kröfuhafa, almenningi mátti fórna!

Í póstinum stendur m.a.:

„Líkt og greinir í undirbúningsgögnum frumvarpsins sem birt eru á vef Alþingis var á þessum tíma talið brýnt, þrátt fyrir álitamál um hvort lagasetning stæðist kröfur 72. gr. stjórnarskrárinnar, að leitast við að eyða þeirri óvissu sem upp var komin varðandi vexti sem skyldi miða við í uppgjörum á gengistryggðum lánum eftir nýgengna dóma Hæstaréttar.“
[Smá athugasemd frá okkur: Það var aldrei nein óvissa um vexti, þeir voru skýrt tilgreindir í samningunum. Þessi „óvissa“ er algjörlega heimatilbúin.]
Áfram heldur pósturinn:
„Þannig segir m.a. eftirfarandi í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til efnahags- og skattanefndar Alþingis, dags. 9. desember 2012, þar sem farið er yfir athugasemdir sem bárust í tengslum við þinglega meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 151/2010:
Það er ljóst að lagasetning sem felur í sér breytingar á skilmálum lánasamninga getur falið í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignaréttindum, að því marki sem breyttir skilmálar lækka höfuðstól eða vexti kröfu. „

Þarna kemur skýrt fram að áhyggjur stjórnvalda snerust um kröfuhafa/fjármangseigendur. Lækkun höfuðstóls eða vaxta væri skerðing á eignarréttindum(!)

Höfum í huga að á þessum tíma er búið að færa kröfuhöfum bankana á silfurfati og þeir búnir að fá kröfurnar/lánin til sín á hæst 6% af verðgildi lánanna, miðað við það sem kom fram í RANSACKED.

Hvaða skerðingu hefðu kröfuhafar þá orðið fyrir?

Þó að öll gengistryggðu lánin hefðu fengið að standa óbreytt utan gengistryggingar hefðu kröfuhafar fengið fjárfestingu sína margfalda til baka.

UTANRÍKISRÁÐHERRA, LILJA ALFREÐSDÓTTIR

Eins og lýst er hér að ofan var Lilja Alfreðsdóttir alveg frábær sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, svaraði öllum okkar símtölum/póstum innan skamms tíma og reyndist okkur á allan hátt mjög vel. Við vorum því mjög ánægð þegar hún var gerð að utanríkisráðherra, bæði fannst okkur hún alveg frábær í embættið, en auk þess vorum við svo glöð yfir því að nú væri loksins ráðherra í ríkisstjórninni sem þekkti þessi mál út og inn og myndi tala okkar máli. En Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra virðist því miður hafa „flutt í blokkina“. Okkur hefur ekki tekist að ná sambandi við hana eftir að hún varð ráðherra þrátt fyrir að hafa gert þrjár tilraunir til þess, með tveimur tölvupóstum þar sem við óskuðum henni til hamingju og óskuðum eftir fundi, og þegar þeim var ekki svarað fórum við með bréf heim til hennar.

Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir að mál eins og okkar eru ekki á könnu utanríkisráðherra, en hann situr samt í ríkisstjórninni, er í samskiptum við þá ráðherra sem sjá um málaflokkinn og getur talað máli „okkar“ í ríkisstjórninni.

Það er líka alls ekki ásættanlegt að láta stórfelld brot á réttindum fólks óátalinn því þau heyri ekki beint undir mann. Ef það er hugsunarhátturinn erum við í slæmum málum.

Lilju varð tíðrætt um lög og réttlæti þegar hún talaði hjá Sameinuðu þjóðunum. Eiga lögin og réttlætið þá bara að vera til útfutnings?

Auk þess er eitt stærsta vandamálið sem við höfum staðið frammi fyrir að þessi mál heyra ekki beint undir neinn, nema þá að einhverjum hluta. Allir vísa þannig á aðra því þetta er ekki þeirra mál. Eins og Lilja sjálf útskýrði fyrir okkur þá heyra Árna Páls lögin undir a.m.k. þrjú ráðuneyti. Á ríkisstjórnarfundum koma allir þessir ráðherrar saman og því væri mögulegt að samhæfa aðgerðir.

UMBOÐSMAÐUR ALÞINGIS

Í janúar á þessu ári sendum við greinargerð um málið til Umboðsmanns Alþingis, en þessi mál reyndust ekki falla undir hans verksvið frekar en nokkurra annarra.

Engin ber ábyrgð á þessum málum!

HVAÐA ÁHRIF HEFUR ÞETTA HAFT Á LÍF OKKAR?

Þetta hefur staðið í ÁTTA ÁR! 1/3 af okkar hjónabandi. Áhrifin eru ómæld og ómælanleg.
Minnst af okkar skaða verður mældur í peningum. Við höfum barist sjálf í stað þess að eyða í lögfræðinga og því ekki lagt svo mikið út, en peningar eru ekki allt.

Tíminn sem hefur farið í þetta er líka ómældur. Ef við værum á tímakaupi lögfræðinga værum við rík í dag. Svo má nefna svefntruflanir og andvökunætur.

Þetta eru glötuð ár sem koma ekki aftur. Hvers virði er það? Hversu mikils virði er eitt ár af lífi þínu þar sem allt er sett „á hold“? Hvað með átta ár?

Í átta ár höfum við ekki getað gert neinar áætlanir fyrir framtíðina því við höfum engar forsendur til að fara eftir og vitum aldrei hvenær bankinn muni næst láta til skarar skríða. T.d. hefur spurningunni „Ætlið þið að gera eitthvað í sumar?“ yfirleitt verið svarað með „Nei, við höfum ekki planað neitt sérstakt?“

Framtíðaráætlanir í fjármálum, hvernig gerirðu þær þegar þú getur varla gefið þér neinar forsendur? Hvað munu þessi glötuðu ár kosta okkur á efri árum?

Hvar værum við stödd og hvað hefðum við gert ef þessi ógn hefði ekki alltaf verið yfirvofandi og oft mjög nálæg?

Þetta eru þessar „hefðu“ spurningar sem enginn getur svarað, en þessi ár eru farin og koma aldrei aftur og nú er NÍUNDA árið hafið. Ég hefði aldrei trúað því að þessi barátta myndi standa svona lengi.

Auðvitað má segja að það sé ákveðin aumingjaskapur að hafa leyft þessu að hafa þessi áhrif á líf sitt og fara í þessa biðstöðu og að hluta til er það rétt, en svona langvarandi álag og barátta dregur líka úr manni mátt og drepur í manni frumkvæði.

Mér finnst tilfinningin líkjast því að vera í verkfalli; þú veist ekki hvað það verður langt þannig að þú gerir engar áætlanir og allt í einu eru sex vikur liðnar og þú ert ekki búin að gera neitt! Þú hefðir getað farið í ferðalag eða farið í framkvæmdir á heimilinu. En þú gerðir ekkert, því þú vissir ekki hvað þú hefðir langan tíma og svo líturðu til baka og veltir fyrir þér hvert allur þessi tími fór og hvað þú gerðir eiginlega við hann, en hann er bara í e.k. þoku – glataður tími.

Í átta ár höfum við lifað svona, í bið eftir næsta höggi eða að takast á við afleiðingar þess síðasta, fyrir utan það að finna leiðir til að berjast og reyna að vekja athygli ráðamanna á stöðu mála.

Við höfum ekki gert fyrirhugaðar breytingar á húsinu okkar sem myndu auka bæði virði þess og notagildi töluvert, því við förum ekki að leggja í kostnað með eitthvað sem bankinn er að fara að hirða. Við höfum ekki endurnýjað húsbúnað, því ef við missum þetta getum við varla hugsað okkur að búa lengur á þessu landi svo þeim peningum væri kastað út um gluggann. Við keyrum um á eldgömlum bílum, því ekki getum við hugsað okkur að taka lán. Ég kólna hreinlega upp við tilhugsunina.

Lánasamningar á Íslandi í dag eru nefnilega ekki einu sinni pappírisins virði. Við höfum reynt það á eigin skinni og ég lofa ykkur því að í næsta hruni verður leikurinn endurtekinn. Í næsta hruni verður mun auðveldara að breyta lánasamningum til að vernda fjármálakerfið, því þá er komið fordæmi!!

Ég á erfiðast með að sætta mig við glataðan tíma með strákunum okkar sem nú eru orðnir fullorðnir menn. Þeir voru á unglingsaldri þegar þetta hófst og við að byrja að upplifa meira svigrúm í okkar fjármálum. Ég sé mest eftir ferðalögum sem aldrei voru farin og því sem við hefðum getað gert bæði fyrir þá og með þeim.

Ég sé líka eftir trúnni sem ég hafði á landinu mínu. Hún er farin. Ég ber minna en ekkert traust til stjórnvalda og „kerfið“ er eins rotið og það getur verið. Svo maður minnist nú ekki á fjármálakerfið – einu sinni var hægt að treyst bönkum, sú tíð er löööngu liðin, alveg sama hvað þeir fara í margar ímynda herferðir.

Við Haffi sáum RANSACKED í vikunni og það var átakanlegt að horfa á Þorstein pabba hennar Theodóru lýsa áhrifunum sem þetta mál hafði haft á líf hans. Ég grét þá og ég grét líka þegar Theodóra sjálf beygði af þegar hún sagði að það hefði verið ótrúleg tilfinning að vinna Landsbankann og að upplifa að þetta væri búið. Ég get ekki einu sinni ímyndað mér þá tilfinningu! Ég hef reynt það en get það ekki. Stundum held ég að þá muni ég fyrst falla saman og fá e.k. taugaáfall. Ég get ekki lengur ímyndað mér líf þar sem þetta er ekki hangandi yfir okkur.

Ráðamenn þurfa nefnilega að átta sig að hér er um „líf“ að ræða en ekki tölur á Excel skjali.

Fólk hefur mismikinn styrk og við Haffi megum þakka fyrir að hafa ekki verið veik fyrir, að berjast við þunglyndi eða kvíða, því þá veit ég ekki hvar við værum – eða hvort við værum. En ég hef samt átt daga þar sem mér hefur liðið eins og ég gæti ekki meir. Það var þó ekki fyrr en á síðasta ári sem það komu dagar þar sem ég var „veik“ og mætti ekki í vinnu af því hreinlega gat ekki meir.

Hefur þetta haft áhrif á heilsu okkar? Við getum ekki vitað það fyrir víst en höldum það þó. Við erum t.d. bæði að berjast við of háan blóðþrýsting sem kannski fylgir aldrinum og hefði komið hvort eð er – hver veit? Þessi hái blóðþrýstingur uppgötvaðist hjá mér vorið 2014 en þá voru efri mörkin í 220 og þau neðri yfir um 110. Lækirinn horfði á mig og spurði „hefurðu verið undir einhverju sérstöku álagi að undanförnu?“ Það flaug ýmislegt í gegnum huga minn en ég svaraði því samt neitandi. Það var ekkert sérstakt álag í gangi þá, bara það sama og verið hafði árum saman og hvernig átti ég að útskýra það?

Þrátt fyrir þess upptalningu höfum við borið gæfu til að halda þessum málum utan við okkar daglega líf, að leggja þetta til hliðar og (næstum því) gleyma þessu. En þetta er samt alltaf þarna, skuggi sem rammar inn líf okkar og setur því mörk.

HVER ER STAÐAN Í DAG?

Staðan í dag er sú að bankinn er að leggja í sitt fimmta uppboðsferli.

Það kom bréf frá lögfræðideild bankans þann 27. september. Bréfið var dagsett 15. september og borið heim til okkar í opnu umslagi að kvöldi þess 27. Í því er okkur gefin 15 daga frestur FRÁ DAGSETNINGU bréfsins, til að bregðast við kröfunni.

Smámál, en lýsir vel vinnubrögðum bankanna.

Krafan á okkur er komin yfir 60 milljónir, að þeim mörkum sem eignin okkar stendur undir.

Það hvílir mikil leynd yfir öllum þessum málum hjá bönkunum, enda margt þar sem þolir illa dagsljósið, þannig að við vitum ekki fyrir víst hvað bankinn keypti kröfuna okkar á. Við getum þó verið nokkuð viss um að verðið fór ekki yfir 10% af virði hennar.

Miðað við það keypti Arion banki 30 milljóna lánið okkar á u.þ.b. 3 milljónir, og fór í harðar innheimtuaðgerðir af því að við neituðum að borga þeim 46 milljónir og núna vilja þeir fá 60 milljónir.

Arion banki mun þannig fá a.m.k. 50 milljónir í hreinan hagnað frá Ástu og Haffa, en skilja þau eftir slipp og snauð – einhverjir þurfa jú að borga bónusana.

SKIPTIR MÁLI HVERJIR KOMAST TIL VALDA?

Hvað okkur og þessi mál varðar skiptir öllu máli hverjir komast til valda og hvaða „raddir“ fá að heyrast inn á Alþingi.

Verði engar breytingar á munum við tapa öllu okkar í vetur.

Hvaða flokkar, ef einhverjir, eru líklegir til að takast á við þessi mannréttindabrot sem verið er að fremja á þúsundum íslendinga?

Förum aðeins yfir það:

Samfylkingin:
Samfylkingin er upphaf og orsök allrar þessarar skelfingar. Hún á Árna Páls lögin með hurðum og gluggum og hefur varið þessa svokölluðu „skjaldborg“ sína fram í rauðan dauðann. Ég held það sé óhætt að fullyrða að Samfylkingin muni ALDREI gera neitt til að breyta þessu!

Vinstri græn:
Þó Árna Páls lögin séu skilgetið afkvæmi Samfylkingarinnar verða Vinstri græn að taka á sig sína ábyrgð á þeim. Auk þess höfðu Vinstri græn forgöngu um það að færa kröfuhöfum bankana á silfurfati. Ég hef ekki nokkra trú á að þeir muni gera nokkuð ekki einu sinni með Katrínu Jakobsdóttur fremsta í flokki, enda tók hún þátt í þessu öllu. Svo er Steingrímur þarna líka og hann hefur mjöööög margt að fela frá sínum ferli sem fjármálaráðherra.

Björt framtíð:
Björt framtíð er allt of tengd Samfylkingunni til að gera eitthvað í þessum málum og engin af þeirra þingmönnum hefur sýnt þessum málum nokkurn áhuga. Þau eiga þó það stóra tromp að Theodóra Þorsteinsdóttir er í framboði fyrir þá í Kraganum og hennar rödd þarf að heyrast inni á þingi.

Sjálfstæðisflokkurinn:
Þarf ég yfirleitt að ræða hann? Bjarna Ben finnst þetta fínt. Maðurinn hefur setið sem fjármálaráðherra allt þetta kjörtímabil og verið í kjöraðstæðum til að láta a.m.k. endurskoða Árna Páls lögin, en hann hefur ekki gert það. Fundi okkar með honum var lýst hér á undan og það mun ekkert breytast með hann/flokkinn á þingi og/eða í stjórn.
Guðlaugur Þór hefur reyndar komið að þessum málum og sagði við okkur persónulega þegar við náðum að eiga stutt óformlegt samtal við hann að það væri fáránlegt að „… við værum með stærsta eftirlitskerfi [með fjármálafyrirtækjum] í heimi, en hvergi nokkurs staðar í því væri að finna vörn fyrir lánþega.“ sem er svo rétt! Einnig má nefna að Sigríður Á. Andersen svaraði pósti frá okkur í desember 2014 og við kunnum að meta það, en þar kom fram að hún sá ekkert athugavert við Árna Páls lögin – enda lögfræðingur(!).

Viðreisn:
Hef ekki kynnt mér þau mikið, en finnst þetta vera fjármálafólkið sem vill vera í Evrópusambandinu. Þar á listum er fólk sem hefur svo sannarlega notið annarra kjara hjá bankakerfinu en við hin. Hef enga trú á að þau muni reyna að hafa áhrif á þessi mál. Enda eru stórar líkur á því að margar þær aðgerðir sem farið var í eftir hrun til að verja hagsmuni fjármagnseigenda hafi verið vegna kröfu frá Evrópusambandinu og skilyrði fyrir inngöngu í það.

Píratar:
Pírötum er alveg jafnvel kunnugt um þessi mál og öllum öðrum. Þeir hafa ekki sýnt nokkurn einasta áhuga á þessum málum enda mjög uppteknir af því að komast í ríkisstjórn með helstu gerendum málsins, Samfylkingunni og Vinstri grænum.

Framsóknarflokkurinn:
Innan hans er eina fólkið sem hefur sýnt þessum málum nokkurn áhuga, svarað frá okkur póstum og reynt að hjálpa okkur. Það verður að virða það við þau og við erum mjög þakklát fólki eins og Vigdísi Hauksdóttur, Lilju Alfreðsdóttur og Sigmundi Davíð sem hefði alveg getað hunsað póstinn okkar eins lenskan virðist vera í kerfinu. Þetta fólk átti sinn þátt í að bjarga geðheilsu okkar, þó ekki væri meira.
Það stendur hins vegar eftir að ekkert gerðist og engar breytingar urðu á stöðu okkar þrátt fyrir hjálpina, fundina, og almennilegheitin. Ég veit ekki hvað „nýji“ framsóknarflokkurinn gerir en hef samt meiri trú á aðgerðum frá þeim en flestum öðrum.

„Litlu flokkarnir“
Ég hef ekki lagst yfir stefnuskrár „litlu flokkanna“ nema Dögunar, en tel að ALLT sé betra en Status Quo.

Hvernig væri að nota þessar kosningar til að sýna stóru „blokkunum“ að VIÐ, venjulega fólkið, skiptum máli og umbylta Alþingi.

Ég hvet ykkur enn og aftur til að kjósa Dögun, þó ekki væri nema til að hjálpa okkur og öllum hinum sem lent hafa í klóm bankana – þessu ráni í boði Ríkisins.

Ástandið getur a.m.k. ekki versnað mikið og þjóðfélag sem leyfir svona kýli að vaxa getur aldrei orðið heilbrigt og stöðugleiki sem byggir á fjárhagslegri kúgun og valdbeitingu er ekki stöðugleiki, heldur eitthvað allt allt annað.

Við þökkum þér innilega sem hefur nennt að lesa alla leið hingað 🙂 og ítrekum:

Við förum fram á tafarlausa endurskoðun Árna Páls laganna (lög 151/2010) og frestingu allra aðfara í skjóli þeirra. Það ríkir meira en skynsamlegur vafi á sekt okkar og EKKERT sem réttlætir þessa aðför að lífi okkar og afkomu.

Með kærri kveðju

Ásta Lóa og Haffi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.9.2016 - 10:36 - FB ummæli ()

Bjarni-borgum gróðann með bros á vör…

Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða og þess vegna líka almannaþjónustu. Bankakerfið ætti í raun að vera almannaþjónusta því við getum ekki valið að nota það ekki. Einakrekið er gott og blessað á mörgum sviðum en annað gildir í almannaþjónustu. Ástæðan er hagnaðurinn sem er tekinn út úr starfseminni. Skattgreiðendur fá ekki neina þjónustu fyrir þennan hagnað þrátt fyrir að þeir borgi hann.

Hagnaður stóru bankanna á liðnum árum er risastór tala og þeir sem hafa staðið undir þeim hagnaði eru viðskiptamenn bankanna, þ.e. allir Íslendingar. Þessi hagnaður er jafngildi hömlulausrar skattlagningar því almenningur á engan annan valmöguleika í bankaþjónustu og getur því ekki varið sig. Skrítið að Sálfstæðisflokkurinn sé sáttur við þessa tegund af skattlagningu.

Dögun vill minnka þessa skattheimtu í formi hagnaðar. Við viljum stofna Samfélagsbanka og til þess þarf að semja ný lög. Ástæðan fyrir því er að hlutverk samfélagsbanka er ekki það sama og einkarekinna banka. Samfélagsbankar eru bara viðskiptabankar og því mun áhættuminni. Þeir skila hugsanlegum gróða til baka og því fer ekki fram nein auka skattlagning með þeim hagnaði. Þess vegna er þjónusta samfélagsbanka ódýrari fyrir viðskiptamenn.

Dögun vill breyta Landsbankanum í samfélagsbanka. Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða hann og þá myndast krafan um hagnað hjá hluthöfum. Þar með heldur hagnaðarskattlagningin áfram. Afleiðingin af einkavæðingu bankanna síðast var skelfilegt bankahrun sem hefur valdið ómældum skaða í íslensku þjóðfélagi.

Það er því deginum ljósara að hið opinbera verður að “vasast” í bankarekstri til að forða almenningi frá þessari miklu auka skattlagningu í formi hagnaðar sem Bjarni Ben er svo hrifinn af.

Gróði er bara kostnaður nema fyrir þá fáu sem njóta hans, bónusar og fleira….

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 12.9.2016 - 19:23 - FB ummæli ()

Steinmundur og fjármálavaldið

Formaður Framsóknarflokksins er með sérkennilegar fullyrðingar um hetjudáðir sínar gagnvart blóðsugum Íslands, kröfuhöfum, vogunarsjóðum og allan afganginn af fjármálavaldinu. Hann lagði allann pakkann að velli, punktur. Sérkennileg fullyrðing því ef öðrum aðferðum hefði verið beitt hefði gróði okkar sennilega orðið nokkrum hundruðum milljörðum meiri-eins og menn státuðu af í upphafi atlögunnar að fjármálavaldinu.

Í dag kemur út skýrsla sem segir okkur að fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J Sigfússon hafi kiknað í hnjáliðunum og gefið eftir gagnvart fjármálavaldinu líka. Auk þess kastaði hann skuldugum samlöndum sínum á bál skuldauppgjöra með forsendum markaðarins.

Ráðherrar vinna á bak við tjöldin, fyrir luktum dyrum. Eftir dúk og disk fær almenningur skýrslur og jafnvel er þá enn vissum hlutum haldið leyndum.

Ef almenningur hefði upplýsingar í rauntíma myndu menn ekki semja svona af sér. Er ekki betra að kalla almenning að borðinu og fá styrk frá honum. Þá þurfa þeir ekki að standa í þessu einir. Hvernig væri að viðurkenna að ráðherrar eru ekki hæfir til að standa einir og berjast við fjármálavaldið á bak við luktar dyr. Hvernig væri að innleiða gagnsæi með stórum staf. Hvernig væri að innleiða beint lýðræði með stórum staf. Hvernig væri að láta fjármálavaldið horfast í augu við alla kosningabæra menn og konur á Íslandi. Vitandi að valdið er fólksins.

Að almmenningur eigi ekki fullan rétt á aðkomu að samningunum er kjaftæði, það er almenningur sem borgar brúsann. Eina ástæðan fyrir því að almenningi er haldið fyrir utan er að við erum ósigrandi þegar við stöndum saman og verjum hagsmuni okkar.

Beint lýðræði + gagnsæi, takk fyrir-STRAX.

 

xdogun.is 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur