Laugardagur 10.9.2016 - 21:37 - FB ummæli ()

Don Quixote Syndrome

Samkvæmt ræðu formanns framsóknarflokksins þá barðist hann við fjármálavaldið og það meira að segja var þá í sinni verstu birtingamynd. Hann hafði betur og er hann því alheiminum því fordæmi til eftirbreitni.

„Í einu landi tókst flokkur á við alþjóðafjármálakerfið og meira að segja grimmustu birtingarmynd þess og hafði betur. Við Framsóknarmenn og við Íslendingar erum fordæmi fyrir heiminn í því að það er hægt að takast á við þetta voldugasta kerfi og hafa undir,“

Fjármálavaldið hefur margsinnis farið mun verr með þjóðríki en Ísland. Árin eftir hrun fékk Ísland VIP meðferð af hálfu AGS. Ættum kannski að senda Sigmund til Grikklands til að kynnast hefðbundinn meðferð fjármálavaldsins.quixote_1_lg

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.9.2016 - 21:40 - FB ummæli ()

Bónusar, græðgi og bankar

Þessi þrjú orð virðast oft fara saman og er það miður því bankar eru nauðsynlegar stofnanir. Eigendur einkabanka í dag eru haldnir sjúklegri þörf fyrir að græða og veita því starfsmönnum sem uppfylla þarfir þeirra duglega bónusa. Stefna eiganda var öllu hógværari áður fyrr og meira horft fram á veginn. Í dag er gróðafíknin svo svæsin að það er eins og enginn sé morgundagurinn.

Reynslan sýnir að starfsmaður sem flytur sig frá græðgisbanka yfir í banka sem starfar án hagnaðarkröfu þá breytir viðkomandi starfsmaðurinn um hegðun. Þess vegna er vandamálið frekar eigendurnir og krafa þeirra um gróða. Einnig er lagaumhverfið gallað.

Þess vegna er hugmyndin um samfélagsbanka góð. Starfsemi slíks banka byggir á annarri lagasetningu en gróðabankarnir. Samfélagsbanki er ekki hugsaður til þess að græða fyrir eigendur sína. Eigendur geta verið ríkið eða sveitafélög. Ef bankanum verður það á að græða þá fer gróðinn aftur til almennings. Gróðinn fer ekki úr nærsamfélaginu.

Samfélagsbanki er venjulegur viðskiptabanki ekki fjárfestingabanki og fjárfestir því ekki í spákaupmennskunni sem setti allt á annan endann 2007. Áhætta slíks banka er mun minni en hinna sem eltast við stundargróða. Banki sem krefst ekki gróða og er áhættulítill getur boðið viðskiptavinum sínum mun ódýrari þjónstu. Auk þess fjárfestir hann í raunhagkerfinu, það er venjulegum fyrirtækjum sem framleiða raunverulega vöru en ekki einhver afleiðuveðmál sem eru bara froða. Þess vegna styður samfélagsbanki nærumhverfi sitt.

Stór og öflugur samfélagsbanki sem þjáist ekki af gróðafíkn á mun auðveldara með að sýna tillitsemi þeim sem lenda í vandræðum með lán sín. Það fellur vel að samfélagslegum skyldum samfélagsbanka. Hagur hans fer saman með hag fjöldans.

Samfélagsbanki er eitt af aðalstefnumálum Dögunar. Kynntu þér málin á xdogun.is og komdu með okkur í þá vegferð að gera bankaþjónustu ódýrari og mannlegri.

Fulltrúar Dögunar verða á Fundi fólksins í Norræna húsinu og þú hefur möguleika að kynna þér málefni Dögunar þar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.8.2016 - 23:34 - FB ummæli ()

Draumurinn um réttláta framtíð

Núna stefnir í kosningar í lok október. Stjórnmálasamtökin Dögun ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum. Stefna okkar er að skapa réttlæti til framtíðar. Við teljum okkur hafa lausnir sem munu virka ef við fáum aðstöðu til að koma þeim í framkvæmd.

Eitt mikilvægasta atriðið er að koma böndum á bankana og fjárfesta sem moka til sín gróða sem væri mun betur kominn við að jafna kjör í landinu. Með stofnun samfélagsbanka mun almenningi og fyrirtækjum gefast kostur á viðskiptum við stofnun sem ekki hefur það að markmiði að græða heldur vera samfélagslega ábyrgur.

Við ætlum að lögleiða framfærsluviðmið sem duga til mannsæmandi framfærslu og við munum einfalda lífeyrissjóðakerfið og minnka kostnað sjóðsfélaga.

Húsnæðismarkaðurinn á að vera þannig að auðvelt sé að fá öruggt þak yfir höfuðið. Munum skapa raunverulegan leigumarkað/húsnæðissamvinnufélög sem dansa ekki eftir geðþótta fárra fjárfesta.

Markmið okkar í stjórnskrármálinu er að koma völdum til almennings þar sem þau eiga í raun heima.

Arðurinn af auðlindum okkar á að renna til almennings en ekki í vasa örfárra.

Við viljum gjaldfrjálst heilbrigðis- og menntakerfi og stórefla bæði kerfin.

Við munum afnema þá einokun sem er í sjávarútvegsmálum og koma á jafnræði þar.

Þá er bara að skella sér inná heimasíðu okkar xdogun.is og kynna sér málin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.8.2016 - 20:52 - FB ummæli ()

Styður Alþingi skattaskjól

Nokkrir Íslendingar, m.a. fyrrverandi Forsætisráðherra Íslands Sigmundur eiga aflandsreikninga eða félög í skattaskjólum. Markmið þeirra sem stofna slíkan reikning/fyrirtæki með aðstoð sérfræðinga í skattaundanskotum er að fela eignir og minnka skatttgreiðslur. Það kemur glöggt fram í Panama skjölunum.

Afleiðingar skattaundanskota eru gríðalegar og þá sérstaklega fyrir fátæku löndin.

Samkvæmt nýrri skýrslu þá er Afríka arðrænd um 5600 milljarða ÍSK á ári. Það er varlega áætlað. Til að setja þessa tölu í samhengi þá streymir frá Afríku 660 milljónir ÍSK á KLUKKUSTUND. Tekjur íslenska ríkisins á ári eru um það bil 690 milljónir.. á ári.

Það þarf ekki að fjölyrða um hvað þessir fjármunir myndu minnka barnadauða, mæðradauða og annað ranglæti í Afríku. Í raun fóðrar Afríka ofsagróða fárra. Það er gert á kostnað barnanna í Afríku.

Það er slæmt að sitja hjá og er nægur glæpur í sjáfu sér en að taka þátt er margfallt verra. Að Alþingi Íslendinga hafi ekki hent þeim út, sem tekið hafa þátt og stutt þar með arðrán Afríku,  úr löggjafasamkundu okkar er hneyksli.

Það er í raun hræsni af verstu gerð.

 

Ýtarefni: http://www.risingafrica.org/blog/the-world-does-not-aid-africa-africa-aids-the-world/

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.8.2016 - 14:41 - FB ummæli ()

Auðveld leið til leiðréttingar á röngu fiskverði

Það þarf ekki stórkostlega fyrirhöfn til að breyta fyrirkomulagi sjávarútvegsmála til hins betra. Í raun mjög einfalt.

Það eru til tvö verð á fiski í dag. Venjulegt markaðsverð sem ræðst af framboði og eftirspurn. Hitt verðið er ákveðið í “Kreml” og kallast landsambandsverð. Það verð er lægra en markaðsverðið.  Lága verðið nota þeir sem eiga bæði veiðiskipið og verksmiðjuna sem vinnur fiskinn.

Að nota lága verðið lækkar laun sjómanna, minnkar skatttekjur okkar, minnkar hafnargjöld og útsvarstekjur. Við erum að tala um haug af milljörðum á ári. Þessir peningar fara inní svart hol “kvótaelítunnar” og enda sennilega í skattaparadísum.

Ef allur fiskur færi á markað þá ríkti meira jafnræði og hið raunverulega verð kæmi fram. Þannig gætu fiskverkunarfyrirtæki víðsvegar um landið keypt til sín fisk jafnvel þrátt fyrir að kvóti hafi verið fluttur úr byggðarlaginu.

Þetta er einföld aðgerð og er eitt af meginstefnumálum stjórnmálasamtakanna Dögunar. Þar sem við erum ekki háð sérhagsmunaaðilum munum við koma þessari breytingu á. Það hefur sýnt sig að fjórflokkurinn er allt of tengdur hagsmunum sjávarútvegsins til að geta breytt þessu og skiptir þá engu máli hvað hann lofar fyrir kosningar. Það hefur sagan kennt okkur.

Svo að sjálfsögðu eiga krókaveiðar að vera frjálsar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.8.2016 - 16:19 - FB ummæli ()

Íslensk okurlánastarfsemi

Það er öllum hollt að lesa þessa grein í Fréttatímanum um mismunandi lánakjör á Íslandi og Svíþjóð. Í Svíþjóð verður 7 milljón ISK lán að 8.3 milljónum þegar það er að fullu greitt. Á Íslandi verður sama lán að 18 milljónum þegar upp er staðið. Þegar verðbólgan gaus upp á tíunda áratugnum í Svíþjóð þá lögðust ALLIR á eitt að ná henni niður því lánastofnanir töpuðu peningum í hverjum mánuði. Þær lánuðu ekki verðtryggt eins og þeir á Íslandi. Á Íslandi er almenningur arðrændur með lögum.

Hluti fjórflokksins hefur endurtekið lofað kjósendum að afnema verðtrygginguna og svikið það jafn oft. Því miður hafa kjósendur tekið fjórflokkinn trúanlegan og veitt þar með fjórflokknum brautargengi.

Það virðist sem breyting sé í vændum, fjórflokkurinn minnkar á kostnað Pírata, sem er vel. Einn sterkasti hvatinn að stofnun stjórnmálasamtakanna Dögunar fyrir síðustu kosningar var afnám verðtryggingarinnar. Þegar Dögun kemst til valda verður verðtryggingin afnumin á sama hátt og henni var komið á-með lögum. Við munum standa við það því við erum ekki háð neinum sérhagsmunahópum og ég þekki ekki neinn frambjóðenda Dögunar sem er sérstaklega að leita sér að þægilegri innivinnu til áratuga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 5.8.2016 - 22:29 - FB ummæli ()

Megrunaraðgerðir og einkasjúkrahús

Það hefur verið nokkur umræða um megrunarskurðaðgerðir sem framkvæma á í Klínikinni í Ármúlanum í Reyjavík. Ekki veit ég nákvæmalega hvernig þeim málum er háttað í raun en af lestri félagsmiðla þá má skynja gagnrýni almennings. Vantrúin á gagnsemi nýs sjúkrahúss fyrir útlendinga er ekki minni.

Mörgum finnst  ekki rétt að einhver græði á veikindum. Svo eru til þeir sem sjá engan grundvallarmun á veikum einstaklingi og bilaðri þvottavél.

Það er frekar nýtt á Íslandi að fjárfestar séu eigendur á heilbrigðisfyrirtækjum. Eðli fjárfesta er að græða. Þeim finnst að það að reisa sjúkrahús eða framkvæma aðgerðir á klínikum sé ekki neitt frábrugðið því að reka bensínstöð. Gróðinn er mikilvægari en hagur fjöldans. Í þeim tilgangi munar þá ekkert um að kaupa stjórnmálaflokka, þingmenn, prófessora og lækna.

Venjulega situr maður einn með sínum lækni og ræðir málin en þegar þriðji gaurinn er kominn inná læknastofuna, fjárfestirinn, þá finnst manni honum ofaukið og gagnrýnir viðveru hans. Það er þetta sem almeningi finnst óþægilegt og óeðlilegt.

Hagsmunir, hagsmunatengsl og vanhæfni eru flókin mál og því mikilvægt að marka skýra stefnu til að forðast árekstra við þau grunngildi sem við höfum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.7.2016 - 08:55 - FB ummæli ()

JFK og stríð gegn hinu og þessu

Var að lesa merkilega bók, JFK and the unspeakable. Þar er sagt frá John F. Kennedy og hverjir drápu hann og hvers vegna. Niðurstaða höfundarins James W. Douglass er að JFK hafi viljað frið í heiminum en það hafi verið öfl sem vildu stríð og sáu sér hag í stríðsrekstri. Þessi öfl drápu þess vegna JFK

Stríðshaukarnir vildu ekkert annað en stríð og helst kjarnorkustríð, sá sem yrði fyrri til ynni stríðið. JFK sagði nei, endurtekið. Þeir vildu ráðast inní Kúbu og Víetnam og aftur sagði hann nei. Í Kúbudeilunni var heimurinn á barmi kjarnorkustyrjaldar og útlit fyrir að öllu lífi á jörðunni yrði eytt.

JFK og Nikita Khrushchev höfðu komið á beinum tengslum á milli sín með bréfasendingum án vitneskju stjórnsýslu sinna landa. Þeir treystu ekki eigin stjórnsýslu heldur sendu bréfin með sérvöldum vinum sem þeir einir treystu. Þeir upplifðu báðir tveir að þeir væru umkringdir brjálaðri stríðsmaskínu sem vildi bara fara í stríð. Þeir töldu báðir að hægt væri að komast að samkomulagi um frið en sú hugsun var talin heimska hjá stjórnendum hers og leyniþjónustu beggja landa.

Þegar Kúbudeilan stóð sem hæst sömdu þessir tveir menn um frið því hinn möguleikinn, þ.e. kjarnorkustyrjöld var að þeirra mati óhugsandi. Með þessum beinu samskiptum sín á milli nálguðust þessir tveir menn hvor annan. Bréfin gátu oft  verið löng sem þeir sendu hvor öðrum. Bann við kjarnorkutilraunum varð að veruleika, deila um Laos og í Berlín voru leyst á milli þeirra. Þeir höfðu báðir stórar hugmyndir um að binda enda á kalda stríðið.

Í raun fær maður að upplifa breytingu á þeim báðum vegna beinna skoðanaskipta þeirra. JFK var engin friðardúfa í upphafi en breyttist. Þeir lýsa því báðir að þeir séu umkringdir stríðsæsingamönnum. Þeir virðast hafa verið stöðugt að verjast óskum um meiri hergagnaframleiðslu og stríðsrekstur. Þegar JFK er skotinn fer Khrushchev að gráta því þá hafði hann misst eina bandamann sinn. Þar með hélt kalda stríðið óhindrað áfram.

Að setjast niður með andstæðingi sínum og ræða við hann skapar oft frið, engin ný sannindi í sjálfu sér. Að skjóta forseta sinn svo hann tali ekki um frið er sjaldgæfara. EF JFK hefði lifað væri örugglega margt betra í heiminum í dag. Ætli það væri þá nokkurt stríð gegn hryðjuverkum?

PX 96-33:12 03 June 1961 President Kennedy meets with Chairman Khrushchev at the U. S. Embassy residence, Vienna. U. S. Dept. of State photograph in the John Fitzgerald Kennedy Library, Boston.

PX 96-33:12 03 June 1961 President Kennedy meets with Chairman Khrushchev at the U. S. Embassy residence, Vienna. U. S. Dept. of State photograph in the John Fitzgerald Kennedy Library, Boston.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.6.2016 - 02:15 - FB ummæli ()

Brexit-Attac og annars konar Evrópa

Ályktun Attac-samtakanna í Evrópu um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Þýðing: Íslandsdeild Attac.

Ákvörðun Bretlands um að yfirgefa Evrópusambandið verður að leiða til stefnubreytingar hjá leiðtogum Evrópu.

Almenningur hefur fengið nóg af því að vera stýrt ólýðræðislegum stofnunum sem stjórna með hagsmuni stórfyrirtækja að leiðarljósi. Við erum þreytt á að lífi okkar sé stýrt af fjármálamörkuðunum.

Viljaleysi Evrópusambandsins til að bregðast við lýðræðislegum kröfum almennings í Evrópu hefur nú leitt til alvarlegustu stjórnmálakreppu í sögu Evrópusambandsins. Ef Evrópusambandið breytist ekki, í grundvallaratriðum og það fljótt, þá mun það leysast upp.

Þótt við virðum gremju og ákvörðun bresku þjóðarinnar, þá höfðum við áhyggjur af því að baráttan fyrir útgöngu Stóra-Bretlands úr Evrópusambandi einkenndist af ótta, kynþáttahyggju og jafnvel ofbeldi. Þetta bergmálar aukið fylgi hægriöfgflokka í kosningum í Evrópu og ofbeldið sem við höfum séð gagnvart flóttamönnum og innflytjendum við landamæri Evrópu. Við óttumst að hægri öflin muni nú sækja í sig veðrið í framhaldi af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Af þeim sökum er það brýnt að við sem aðhyllumst afar ólík gildi, sem byggjast á alþjóðahyggju, lýðræði og jafnrétti látum til okkar heyra við þetta tækifæri. Við skiljum reiði almennings í Evrópu. Sú eyðilegging sem niðurskurðastefna hefur haft í för með sér, niðurbrot lýðræðisins, eyðing almannaþjónustu sem hefur gert álfu okkar að leikvelli einsprósentsins sem á auðinn. Þetta er ekki sök innflytjenda heldur fjármálaveldis og stórfyrirtækja og stjórnmálamanna sem reka erindi þessara afla.

Við leggjum áherslu á nauðsyn þess að grasrótarhreyfingar um alla Evrópu taki aftur stjórn á efnahagslífi okkar, samfélagi og sjálfu lífi okkar. Við krefjumst þess að Evrópusambandið lýðræðisvæði stofnanir sínar með róttækum hætti til að þær verði raunverulegir fulltrúar fólksins sem þar býr, þannig að við getum byggt upp réttlátari og sjálfbærari álfu. Við krefjumst þess að stjórnmála- og embættismenn hætti samningaumleitunum þeim sem kallaðar eru TTIP eða TISA og öðrum ólýðræðislegum verslunarsamningum, taki völdin af fjármálakerfinu og afnemi vald stórfyrirtækja, komi fram við innflytjendur af fullri virðingu, styðji uppbyggingu lýðræðislega stýrðrar almannaþjónustu, vinni að því að gróðurhúsalofttegundum verði útrýmt á einum áratug, og niðurskurðastefnu verði algerlega hætt.

Við bjóðum Bretum einnig stuðning við að berjast fyrir betra samfélagi, í baráttu þeirra gegn kynþáttahyggju og öfgahægrisinnum. Betra Bretland getur hjálpað til við að gera Evrópu betri.

Annars konar Evrópa getur orðið að veruleika. Ef Evrópusambandið getur ekki verið aðili að betri Evrópu, þá verður því feykt í burtu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.6.2016 - 21:21 - FB ummæli ()

Hlutverk fjölmiðla

Á föstudagskvöldið  kemur verður lokaumræðuþáttur á RUV með forsetaframbjóðendum. RUV hefur tekið þá pólitísku ákvörðun að skipta forsetaframbjóðendum í tvo hópa. Fyrst verður rætt við þá sem skora hátt í skoðanakönnunum og síðan við þá sem hafa skorað minna. Þar með hefur RUV ákveðið að skapa forgangsröð. Í leiðinni brjóta starfsmenn sennilega lög en fyrst og fremst hugsjónir lýðræðisins.

Kosningar mega aldrei snúast um skoðanakannanir.

Hér vilja blaðamenn RUV sennilega taka þátt í því að skapa þá sýn á frambjóðendur að sumir séu mikilvægari en aðrir. Þetta er tengt löngun blaðamanna til að “skapa” eitthvað í beinni eins t.d. ríkisstjórn. Það er bara ekki hlutverk blaðamanna að skapa eitthvað eða raða valmöguleikum kjósenda landsins í mikilvæga og ekki mikilvæga. Það gerum við sjálf í kjörklefanum.

Blaðamenn eiga að kynna frambjóðendur fyrir okkur og þeir eiga njóta jafnréttis.

Þegar þörfin hjá blaðamönnum til að flokka frambjóðendur fyrir kosningar raungerist hjá sjálfu ríkisútvarpi allra landsmanna þá er greinilega þörf á lagasetningu. Sú lagasetning afnæmi völd blaðamanna til að flokka frambjóðendur sem mikilvæga og ekki mikilvæga. Samtímis myndi hún tryggja öllum frambjóðendum jafnan aðgang að öllum miðlum landsins án tillits til eignarhalds. Skoðanakannanir bannaðar fyrir kosningar og starf og skyldur blaðamanna skilgreindar.

Kosningar eiga að snúast um stefnumál framboða og það skal kynnt almenningi til að auðvelda honum valið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur