Sunnudagur 19.6.2016 - 22:36 - FB ummæli ()

Jafnaðar og ójafnaðarmenn

Menn hafa rætt jöfnuð í samfélaginu undanfarið. Sigurður Ingi núverandi Forsætisráðherra segir í hátíðarræðu sinni 17. júní að jöfnuður sé nauðsynlegur. Hann bendir á að það sé bara ekki hægt að framkvæma hann strax. Meira að segja í einu ríkasta landi veraldarinnar á jöfnuðurinn að koma “seinna”. Nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar talar um jöfnuð í öðru hvoru orði. Stefán Jón Hafstein skrifar langa grein í Kvennablaðið þar sem hann útskýrir nánar hvað er átt við með jöfnuði.

Ekki ætla ég að gera lítið úr vandaðri grein Stefáns. Ég óttast hins vegar að Stefán og Oddný muni feta sömu slóð og Sigurður Ingi. Þá á ég við að boða stefnu en ekki gæta að því hvar valdið liggur. Jafnaðarmenn vilja setja hnífinn á smjörklípuna og dreifa úr henni jafnt. Sigurður Ingi veit mæta vel að sérhagsmunaaðilar á Íslandi ætla ekki að leyfa slíkt og segir því sannleikann þ.e að jöfnuðurinn komi seinna sem þýðir í raun aldrei. Gott dæmi um utanþings völd var loforð um nýja stjórnarskrá á sínum tíma. Sérhagsmunaaðilarnir komu í veg fyrir hana með aðstoð nokkurra þingmanna.

Þeir sem fylgst hafa með stjórnmálum vita að Alþingismenn hafa minni völd en sérhagsmunaaðilarnir á Íslandi. Stærstu áhrifavaldarnir eru Bankar, byggingafyrirtæki, lífeyrissjóðakerfið og kvótagreifarnir. Þess vegna er það nauðsynlegt að stjórnmálamenn hafi hugrekki og dugnað til að afnema óeðlileg völd sem liggja hjá einkaaðilum núna en tilheyra Alþingi í raun. Það skapar engan jöfnuð að ræða málin út í það óendanlega í sölum Alþingis ef valdið til breytinga er ekki þar.

Stjórnmálasamtökin Dögun hafa ákveðið að með markvissum aðgerðum færa valdið til Alþingis sem hefur það í för með sér að sérhagsmunaaðilarnir missa völd. Við munum standa við þessi loforð. Auk þess ætlum við að færa valdið til almennings með nýrri stjórnarskrá og við munum einnig standa við það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.6.2016 - 21:19 - FB ummæli ()

Landsvirkjun

Umræða um Landsvirkjun hefur verið nokkur undanfarið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið þeirrar skoðunar að einkavæða Landsvirkjun. Reynsla Íslendinga af einkavæðingum Sjálfstæðisflokksin er ekki góð. Þegar þeir einkavæddu stór ríkisfyrirtæki, bankana, þá endaði það nánast með þjóðargjaldþroti. Ekki víst að það verði toppað í náinni framtíð.

Núna hefur Sjálfstæðisflokknum bæst liðsauki við einkavæðingu á Landsvirkjun í formi tveggja Krata þeirra Guðmundar Andra og Marðar Árnasonar.  Röksemdir þeirra eru að Landsvirkjun hagi sér illa sem fyrirtæki og eigi Landsnet sem hagi sér líka illa. Ekki varð Davíð Oddson skárri þó hann væri einkavæddur á Hádegismóum. Nei slík vandamál þurfa aðrar lausnir.

Auk þess telja þeir það ekki sjálfgefið að LV eigi að vera ríkisfyrirtæki, það sé ekki neitt rangt við að einkafyrirtæki nýti auðlindir okkar, að eignarhaldið sé aukatriði, að fyrirtæki séu betur rekin sem einkafyrirtæki og ef einkavæðingarleiðin væri valin þá yrði það þjóðinni til góðs.

Þegar betur er að gáð þá hafa þeir rangt fyrir sér.

Stéttafélag opinberra starfsmanna á heimsvísu PSI, Public Services International; http://www.world-psi.org  samanstendur af 20 milljón meðlimum í 154 löndum. Þau hafa staðið að, í samstarfi við aðra, að úttektum á þeim spurningum sem Kratarnir eru að velta fyrir sér. Niðurstaða þeirra er að það borgar sig ekki að einkavæða. Hagnaðurinn sem einkafyrirtækin taka sér er kostnaður sem skattgreiðendur fá ekkert fyrir, fjármögnunarkostnaður einkafyrirtækja er meiri en ríkisins, einkafyrirtæki eru ekki effektívari en ríkisfyrirtæki og veita ekki betri þjónustu. Reynslan af einkavæðingu liðinna áratuga er slæm og líka á orkufyrirtækjum, sjá Bretland sem dæmi. Mörg hundruð sveitafélög/ríki eru að afeinkavæða/almannavæða almannaþjónustu sem var áður einkavædd í Evrópu.

Hvet þá félaga að kynna sér eftirfarandi skýrslur:

http://www.world-psi.org/sites/default/files/rapport_eng_56pages_a4_lr.pdf

http://www.world-psi.org/sites/default/files/documents/research/2016-04-e-uk-public.pdf

Þrátt fyrir ítrekaða leit finn ég ekki neina vísindalega rannsókn sem styður þá fullyrðingu að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að einkavæða almannaþjónustu. Meðan staðan er slík þá fer ég fram á það að menn sýni fram á hið gagnstæða með rannsóknum en ekki trú.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.6.2016 - 21:03 - FB ummæli ()

Slátrarinn í Stundinni

Í Stundinni  kennir ýmissa grasa. Meðal annars er fróðleg grein eftir Illuga Jökulsson um orrustuna við Somme sem núna er hundrað ára. Þar sem ég er sögufrík þá byrja ég lesturinn þar. Mannfallið var gríðarlegt, u.þ.b. 300.000 hermenn létu lífið í allri orustunni við Somme. Allt menn í blóma lífsins sem áttu framtíðina fyrir sér. Saga Veru Britains og síðar kvikmynd, Testament of youth, sker mann inn að beini.

Þegar ég fer svo að lesa um þátttöku íslensku feðganna í skattskjólum hrekk ég í kút. Illugi nefnir nefnilega að það hafi þótt mjög mikil blóðtaka að 20.000 Bretar dóu fyrsta dag orustunnar við Somme. Eitthvað sem situr illa í þjóðarsál Breta. Svo illa að yfirhershöfðingi Breta í orustunni, Douglas Haig fékk síðar viðurnefnið “Slátrarinn í Somme”.

20.000 hermenn dóu á einum degi fyrir 100 árum.

Samkvæmt Unicef (2010) deyja 20856 börn á dag, Í DAG. Um er að ræða börn yngri en fimm ára. Flest börnin deyja vegna mikils fjárskorts viðkomandi ríkja og eiga skattaskjól stóran þátt í fátækt þessara ríkja. Því deyja börnin flest að nauðsynjalausu. Flest öll þessi fátæku ríki væru í plús ef ekki væri fyrir skattaskjólin. Þau þyrftu enga þróunaraðstoð frá okkur. Þau væru sjálfbjarga og öll þessi börn væru ekki að deyja.

Styrjöld þessara barna er ekki lokið og því er mikilvægt að allir taki höndum saman og geri allt til að skattaskjólunum verði lokað.

 

http://www.unicef.org/media/files/Child_Mortality_Report_2011_Final.pdf

 

http://www.taxjustice.net/wp-content/uploads/2013/04/Inequality-1207-you-dont-know-the-half-of-it.pdf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.5.2016 - 23:26 - FB ummæli ()

Framtíð barnanna okkar

Börnin okkar hafa undanfarna daga verið að útskrifast úr skólum landsins. Framtíð flestra er björt og möguleikar þeirra margvíslegir. Þau eiga reyndar litla möguleika á því að eiga fyrir húsaleigu og hvað þá að kaupa sér þak yfir höfuðið. Þökk sé valdhöfum. Illugi vinnur hörðum höndum að því að gera opinbert skólakerfi óaðlaðandi og markmiðið er að búa í haginn fyrir hagnaðardrifið einkakerfi. Þau sem settu upp kollana núna sluppu rétt fyrir horn við aðgerðir Illuga en nú mætir þeim framsóknardama sem leggur húsnæðismarkaðinn ótilneydd í hendur markaðsaflanna. Ekkert non profit dæmi hér segir hún því það gæti skaðað hagnað hinna “frjálsu” fjárfesta sem eru oftar en ekki gæslumenn lífeyris okkar. Lánasjóður íslenskra námsmanna virðist eiga til framtíðar að sinna frekar efnameiri námsmönnum allt í boði Illuga. Kristján Júl laumast mjúkmæltur inn með hagnaðardrifið heilbrigðiskerfi. Bjarni Ben vill selja Landsvirkjun í áföngum til einkaaðila og má ekki heyra minnst á að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka. Kóróna sköpunarverks núverandi ríkisstjórnar í tvískinnungi er bitlaust frumvarp um skattaskjól lagt fram af Fjármálaráðherra sem hefur verið sjálfur í skattaskjóli, reyndar óafvitandi. Samstarfsflokkurinn tekur til gamalla raka og segir að menn mega ekki gjalda þess að vera ríkir. Auk þess fylgja því erfiðleikar að koma svo miklu fé frá skattanefi. Verst er að það skiptir litlu máli hver af fjórflokknum situr við völd. Það er enginn raunverulegur munur bara minniháttar litabrigði sem breyta engu, raunverulega.

Betur settir foreldrar geta skotið skjólshúsi yfir börnin sín og stutt þau fjárhagslega meðan þau ná sér í nægjanlega menntun til að geta flutt úr landi og komið sér fyrir í samfélagi þar sem til er siðferðisleg vitund meðal stjórnvalda, ekki þetta ættbálkasamfélag sem er á Íslandi. Ég sé ekki veisluna, sá hana ekki þá og ekki heldur núna.

Það er hlutverk foreldra að skapa börnum sínum góða framtíð.

Hluti af því er að vera virkur borgari í lýðræðisþjóðfélagi er að skoða með gagnrýnum huga stjórnmál dagsins. Hverjir hafa staðið sig og hverjir þora að gera raunverulegar kerfisbreytingar. Ég sjálfur tel að það sé fullreynt með fjórflokkinn, hann hefur fengið sín tækifæri og ekki tekist að sanna sig. Aðrir bíða á hliðarlínunni og vilja takast á við vandmálin. Dögun er nýlegt stjórnmálaafl sem hefur ekki fengið tækifæri til að spreyta sig. Stefna okkar er markviss og skýr. Stefna okkar er alls ólík því sem stunduð er núna og hefur réttlætið að leiðarljósi. Kynntu þér málið á xdogun.is , aldrei að vita nema lausnir okkar henti þér og afkomendum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.5.2016 - 23:41 - FB ummæli ()

Aflandskrónur á Saga class

Meðan landsmenn eru önnum kafnir við vorverk í görðum sínum leggur Fjármálaráðherra okkar fram lög um afléttingu gjaldeyrishafta á aflandskrónum. Frumvarpið er lagt fram á föstudagskvöldi og á að vera orðið að lögum á sunnudagskvöldi. Asinn er vegna hugsanlegrar sölu á verðbréfum og sniðgöngu. Er það mikilvægara en að almenningur fái að meta frumvarpið og segja álit sitt? Að minnsta kosti er ekki gert ráð fyrir almenningi í þessu ferli enda erum við ekki hagsmunaðilar fyrr en korteri fyrir kosningar.

InDefence hópurinn gagnrýnir bæði málsmeðferð og innihald þessara laga. Eingöngu eru gefnar nokkrar klukkustundir til að meta áhrif laganna. Auk þess er spurt hvort aflandskrónueigendur hefðu bara ekki getað beðið og almenningur fengið forgang . Er tryggt að almenningur skaðist ekki af þessu brölti, það virðist sem InDefence sé ekki rótt.

Lilja Mósesdóttir ritar mjög alvarlegan pistil á Facebook síðu sína um lagafrumvarp Bjarna. Lilja er ekki neinn nóbódy, hún er þrælmenntaður hagfræðingur með áherslu á kreppur. Auk þess var hún þingmaður strax eftir hrun og þess vegna hefur hún mikla þekkingu og kunnáttu um efnið.Ég  mæli því eindregið með því að fólk lesi pistilinn hennar.

Þeir sem hafa fylgst með umræðunni frá hruni þekkja það vel að stærsta mómentið í framtíð Íslands er aflétting gjaldeyrishaftanna. Margir fræðimenn hafa bent á þetta margsinnis. Fátt er meira afgerandi um hag almennings til framtíðar. Tekst sú aðgerð eða mistekst. Flestum þjóðum í svipaðri stöðu hefur mistekist. Ástæðan hefur verið þóknun við fjármagnseigendur sem viljað hafa út og fengið afnot af dýrmætum gjaldeyri viðkomandi þjóða. Það virðist sem hagur aflandskrónueigenda sé ofmetinn á Íslandi enda er spurt hverjir eru þessir aflandskrónueigendur, eru þeir vinir einhverra? Eina vitið er að skattleggja aflandskrónur eins og Lilja bendir á enda eyðir það óvissu og tryggir stöðugleika. Við í stjórnmálasamtökunum Dögun höfum einnig mælt með sömu aðferð.

Ef aflétting á aflandskrónum fer úr böndunum þá fellur gengi íslensku krónunnar og þurfum við ekki að fjölyrða um afleiðingarnar því það er ekki svo langt síðan Ísland lenti í slíku.

Ef mið er tekið af umfjöllun RÚV um málið í kvöld þá er augljóst að fjölmiðlar hafa mestar áhyggjur af því að aflandskrónueigendum séu ekki settir neinir afarkostir og Frosti taldi slíkt ekki vera, þeir fengju valmöguleika um misgóðar leiðir með sitt fjármagn. Það er augljóst að almannatenglar hafa unnið heimavinnuna vel.

Þess vegna kemur það ekki á óvart að almennngur hreinsar arfa úr görðum sínum frekar en að hreinsa til á Alþingi Íslendinga í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.5.2016 - 22:49 - FB ummæli ()

Heimilisbankinn

Núna hefur hópur einstaklinga farið af stað og myndað hóp til að stofna samfélagsbanka. Heimasíða hópsins er http://heimilisbankinn.is  Meðlimum hópsins er full alvara og vinna ötullega að markmiði sínu.

Eftir að íslenskt bankakerfi í einkaeigu skeit svo fullkomlega á sig árið 2008 að það flokkast sem heimsmet núorðið fóru Íslendingar að huga að öðrum kostum í bankastarfsemi. Það má segja að menn gætu komið upp með hvaða hugmynd sem er og hún væri alltaf betri en það hugafóstur Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna sem lagði landið í rúst.

Hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og fleiri hópum reyndu menn að þróa hugmyndina í miðri Búsáhaldarbyltingunni en það náði ekki lengra. Það var mörgum hnöppum að hneppa á þeim tíma og ekki var öllum málum komið í höfn. Frosti Sigurjónsson þingmaður hefur svo bent á þennan möguleika líka.

Núna í upphafi árs, 13. febrúar 2016 héldu stjórnmálasamtökin Dögun opinn borgarafund í Norræna Húsinu um samfélgasbanka.  Hann tókst mjög vel og vakti athygli, ekki síst fyrir þá sök að tveir erlendir fyrirlesarar komu til landsins í boði Dögunar. Og eins og fyrr er getið þá er núna kominn fram hópur sem ætlar að stofna einn slíkan banka.

Kosturinn við samfélagsbanka er að meginmarkmið hans er þjónusta en ekki að græða  fyrir hluthafa. Öllum venjulegum mönnum ætti að vera ljóst að slík ráðstöfun hefur gríðaleg áhrif á kjör neytenda. Þeir sem setja sig upp á móti samfélagsbankahugmyndinni hafa flestir tileinkað sér af alúð það hegðunarmynstur að græða á daginn og grilla á kvöldin. Sá kostnaður sem gróðinn skapar í þjóðfélagi okkar endurspeglar sig í þeirri fátækt sem er á meðal oss. Samfélagsbankahugmyndin er sett henni til höfuðs.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 9.4.2016 - 21:43 - FB ummæli ()

Þið þarna 38 þingmenn

Það virðist hafið yfir allan vafa að Bjarni ykkar hafi átt aflandsfélag. Það er staðfest að þið styðjið Ríkisstjórn þar sem Forsætisráðherranum ykkar finnst allt í lagi að fólk eigi aflandsfélag. Ykkur öllum finnst þá í góðu lagi að eiga aflandsfélag. Þar með hafið þið öll lagt blessun ykkar yfir starfsemi aflandsfélaga í heiminum og þær afleiðingar sem starfsemi þeirra valda.

Þessir tveir flokkar studdu innrás í Írak 2001 og það kostaði milljón manns lífið. Það er ekki síður alvarlegt að leggja blessun sína yfir aflandsfélög en að taka þátt í Íraksstríðinu.

Það er talið að 21-31 trilljón dollarar séu faldir í þeim 80 skattaskjólum sem finnast.

Á tímabilinu 1970-2008 hurfu 944 milljarðar dollara frá Afríku í skattaskjól. Á sama tíma voru skuldir Afríku “aðeins” 177 milljarðar dollara, það er fimm sinnum minna. Eingöngu 20% skattur hefði gert Afríku skuldlausa heimsálfu. Skattaundanskotin valda því að heimsálfan er stórskuldug.

Á svipuðu tímabili þá hurfu 7-9 trilljónir dollara frá 139 fátækari ríkjum heims meðan skuldir þeirra voru 4 trilljónir dollara.

Afleiðingarnar eru niðurskurður vegna skulda, sjúkdómar, fátækt, hungur, vanheilsa og dauði. Samkvæmt Unicef deyja 869 börn á klukkustund og flest að nauðsynjalausu. Flest öll þessi fátæku ríki væru í plús ef ekki væri fyrir skattaskjólin. Þau þyrftu enga þróunaraðstoð frá okkur. Þau væru sjálfbjarga og öll þessi börn væru ekki að deyja.

Ég get ekki treyst ykkur til frekari starfa á Alþingi meðan engin hugafarsbreyting á sér stað eða iðrun. Þið verðið að horfast í augu við alvarleika málsins. Þið styðjið stærstu meinsemd veraldarinnar með hegðun ykkar.

 

 

 

http://www.taxjustice.net/wp-content/uploads/2014/04/Price_of_Offshore_Revisited_120722.pdf

 

http://www.taxjustice.net/wp-content/uploads/2013/04/Inequality-1207-you-dont-know-the-half-of-it.pdf

 

http://www.unicef.org/media/files/Child_Mortality_Report_2011_Final.pdf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.4.2016 - 21:57 - FB ummæli ()

Samfélag manna og aflandsfélög

Að setja peninga sína í skattaparadís er glæpur vegna þess að; rannsóknir hafa sýnt að ef Afríka gæti skattlagt skattaundanskot á 10 ára tímabili bara með 30% skatti þá yrði heimsálfan skuldlaus(1). Þá væri enginn að deyja úr hungri og þorsta. Það deyja 900 börn á klukkustund í vanþróuðu ríkjunum og flest þeirra að nauðsynjalausu. Nema þá helst vegna þess að allir eru að setja peninga í skattaparadísir vegna þess að allir aðrir eru að gera það eða þá að vondir bankar plata viðkomandi til þess.

Að setja peningana sína í skattaparadísir er það sama og að samþykkja og styðja skattaundanskot. Það er það sama og að samþykkja að þjóðríki séu svift tekjum til að sinna þeim sem minnst mega sín. Það er það sama og að samþykkja og styðja það að 900 börn deyi á klukkustund og flest að nauðsynjalausu.

Önnur nýleg rannsókn sýnir að skattaundanskot með skattaparadísum er jafn mikil og helmingur allra útgjalda til heilbrigðismála í öllum heiminum(1).

Að borga skatt er samfélagssáttmáli.

Það að einhver pabbastrákur segi af sér sem forsætisráðherra til þess að ríkisstjórn sem hefur í raun ekkert við skattaskjól að athuga lifi áfram er bara piss í Missisippi. Að minnsta kosti tveir ráðherrar hafa tengsl við skattaskjól í eftirlifandi ríkisstjórn. Nei almenningur mótmælir öllum pakkanum, óheiðarleikanum og siðrofinu. Þess vegna er núverandi stjórn og fjórflokkur úti.

Stóra spurningin fyrir fjórflokkinn er hvort fjórflokkurinn getur enn einu sinni sjarmerað kjósendur til að kjósa sig enn á ný til að gulltryggja það að ekkert breytist. Ef kjósendur komist aftur að þeirri niðurstöðu að kjósa fjórflokkinn í þeirri von að skapa breytingar þá munu sömu kjósendur enda aftur á Austurvelli að mótmæla nýjum siðrofum.

Ég hvet alla kjósendur til að kynna sér söguna og átta sig á því að fjór(fimm)flokkurinn er á snærum auðvaldsins á Íslandi. Þess vegna er hyggilegast að kjósa aðra flokka ef kjósendur vilja breytingar.

1)  http://www.taxjustice.net/

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.3.2016 - 22:33 - FB ummæli ()

Einmana Stjórnarskrá og boltinn

Þegar íslensk valdastétt hafði skitið á sig haustið 2008 ákvað hluti hennar að sleppa stjórnarskránni út úr steinkassanum við Austurvöll. Almenningur tók henni vel og hófst handa við að betrumbæta hana. Mikið ferli fór í gang meðal almennings og mikil bjartsýni ríkti. Hinn hluti valdastéttarinnar vann hörðum höndum við að koma í veg fyrir allar breytingar á henni. Það tókst svo vel að stjórnarskrá Stjórnlagaráðs var lokuð inní steinkassanum við Austurvöll og á þann hátt tekin úr höndum almennings og þar er hún enn.

Það eitt að valdastéttin leggi á sig ómælda vinnu við að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá segir okkur að; það er eitthvað varið í nýja stjórnarskrá, að um mjög mikilvægt mál er að ræða, að við eigum að hafa mikinn áhuga á málinu, að ný stjórnarskrá gefur eitthvað mikið í aðra hönd fyrir almenning því valdastéttin rígheldur í gömlu stjórnarskrána.

Stjórnarskrá er ekki plagg sem sett er upp í hillu og rykfellur þar. Stjórnarskrá er lifandi plagg sem setur valdhöfum mörk og markar réttindi almennings gagnvart valdinu.

Valdastéttinni tókst að gera stóran hluta þjóðarinnar áhugalausan um nýja stjórnarskrá.

Hvers vegna blaðamenn landsins hafa ekki tekið málið upp á arma sína og veitt þjóðinni stuðning og leiðsögn veit ég ekki. Á meðan áhugi erlendra aðila hefur nánast verið óseðjandi þá hefur íslensk fjölmiðlastétt verið yfirdrifið hógvær. Kannski telja þeir það ekki hlutverk sitt að vera afgerandi í þessu máli. Aftur á móti er það ekki óþekkt að fjölmiðlar taka ýmis mál afgerandi upp á arma sína og fylgja þeim alla leið.

Meðvirkni blaðamanna gagnvart valdastéttinni gerði það að verkum að ný stjórnarskrá sem ætti að vera stórviðburður í lífi þjóðar hafnaði sem frétt á milli auglýsinga.

Þess vegna er boltinn hjá þjóðinni, það er eini aðilinn sem getur náð stjórnarskrárgerðinni út úr steinkassanum við Austurvöll. Til þess þarf órofa samstöðu almennings og mikla vinnu. Almenningur verður að gera sér grein fyrir því að með nýrri stjórnarskrá og auknum völdum almennings þá getur margt breyst í lífi Íslendinga til batnaðar.

 

  • Mikið aukið gagnsæi og auðveldara að fá upplýsingar úr kerfinu.
  • Náttúruvernd efld og hugtakið sjálfbærni sett inn.
  • Náttúran fær réttindi og okkur tryggð afnot af henni eins og vatninu.
  • Auðlindirnar tilheyra þjóðinni og við fáum fullt gjald við leigu.
  • Þjóðin fær möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum.
  • Jafnan rétt atkvæða.
  • Persónukjör í kosningum.
  • Alþingi mun geta skipað rannsóknarnefndir að eigin frumkvæði.
  • Skólaskylda án endurgjalds.
  • Og margt fleira.

 

Stjórnarskrá Stjórnlagaráðs er ekki fullkomin en er sú sem flestir Íslendingar segja að sé góð og dugi. Það kom glöggt fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Ef þú varst ósáttur við þá stjórnarskrá en mættir ekki á kjörstað í október 2012 get ég bara vottað þér samúð mína að þú nýttir þér ekki rétt þinn til að láta skoðun þina í ljós. Þess vegna er niðurstaðan sú að stór meirihluti vill þessa stjórnarskrá eða aðra byggða á henni og við það situr.

Á Íslandi á að vera lýðræði sem þýðir að valdið sé hjá þjóðinni. Þjóðin er búin að semja sína útgáfu af stjórnarskrá og samþykkja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir það er stjórnarskránni haldið í gíslingu í steinkassa við Austurvöll. Ef stjórnarskránni verður ekki sleppt út til almennings þá er ekki lýðræði á Íslandi. Forræðishyggja Alþingis er sjúklegt ástand. Því miður er það í boði þjóðarinnar sjálfrar sem skynjar ekki vitjunartíma sinn eða vonast eftir brauðmolum frá valdstéttinni. Þess vegna er boltinn hjá þjóðinni og hún verður að ákveða sig hvað hún ætlar að gera við hann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.3.2016 - 21:16 - FB ummæli ()

Samtal þjóðar og þings

Þessa dagana á sér stað mikil valdabarátta í íslenskri pólitík. Í lok síðasta kjörtímabils tók sig til nokkuð stór hópur þingmanna og stöðvaði framgang stjórnarskrá Stjórnlagaþings. Þeir vildu frekar vinna þetta í nefnd, stjórnarskrárnefnd á þessu kjörtímabili. Núna hefur þessi nefnd sent frá sér drög að þremur frumvörpum til breytingar á gömlu stjórnarskránni.

Frumvörp um; náttúruauðlindir, þjóðaratkvæðagreiðslur og  umhverfis og náttúruvernd.

Átökin snúast um hvort við vinnum áfram úr þessum drögum eða höfnum þeim og höldum okkur við stjórnarskrá Stjórnlagaþings. Öllum má ljóst vera að hér eru ekki allir á eitt sáttir. Þess vegna er upplýst umræða mjög mikilvæg og að menn skýri sjónarmið sín til að forðast misskilning.

Alþingismenn verða að eiga samtal við þjóðina og skýra málstað sinn og hvort þeir eru yfir höfuð sáttir við frumvarpsdrögin. Væntanlega hafa þingmenn ekki ætlað að semja og afgeiða frumvarpsdrögin upp á eigin spýtur án aðkomu almennings. Það passar illa þegar um stjórnarskrá er að ræða.

Alþingismönnum gefst gott tækifæri til að eiga samtal við kjósendur sína n.k. mánudagskvöld í Norræna húsinu. Þá munu Dögun stjórnmálasamtök og Stjórnarskrárfélagið standa fyrir borgarafundi um þetta málefni og hefst fundurinn kl 20:00. Það er eftirvænting hjá þjóðinni að heyra rökstuðning þingmanna og sjálfsagt ekki minni eftrivæntin hjá þingmönnum að heyra í þjóðinni líka.

 

Streymið: http://nordichouse.is/is/event/2990/

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur