Miðvikudagur 2.3.2016 - 18:06 - FB ummæli ()

Einkavæðing á heilsugæslu

Heilsugæslan hefir verið í fjárhagslegu svelti árum saman og hefur meðal annars Vilhjámur Ari læknir bloggað um það.

Núna kemur Kristján Júl ráðherra með uppskrift frá Svíþjóð sem á að bjarga heilsugæslunni. Hugmyndin er að sjúklingarnir burðist með bakpoka fullan af peningum á þær heilsugæslustöðvar sem þeir vilja nýta, þ.e. að sjúklingarnir geti valið sér heilsugæslustöð og penigarnir fylgja honum á viðkomandi heilsugæslustöð. Vandamálið er og er síendurtekið, að starfsmenn hætta að horfa á sjúklinginn en góna þess í stað á bakpokann.

Bakpokinn verður þessi hvati sem ráðherrann talar um og að lokum stjórnar bakpokinn hvernig þjónusta er veitt. Þar með er komin togstreita á milli siðfræði og markaðslögmála hins frjálsa markaðar.

Viðbrögð eyðurmerkurfaranna eru skiljanleg ;” Varla getur ástandið orðið verra við þessar breytingar og eitthvað verður að reyna til að efla heilsugæsluna

Gömul uppskrift er að svelta kerfið þangað til allt er betra en ömurlegt ástand.

Er þessi aðferð ráðherrans betri en ef hann hefði bara sinnt hlutverki sínu og fjármagnað núverandi heilsugæslu þannig að hún hefði getað sinnt hlutverkum sínum?

Fyrirmyndin af því kerfi sem núna er verið að innleiða á Íslandi er frá Svíþjóð að sögn ráðherra. Í Svíþjóð hefur verið mikil umræða og engin sátt um þær breytingar sem gerðar hafa verið á velferðarkerfinu. Í stórri samantektargrein eftir Göran Dahlgren prófessor og fyrrum starfsmanns velferðaráðuneytis Svía kemur eftirfarandi fram.

  1. Flestar rannsóknir sýna að skilvirkni einkarekinna stöðva er ekki meiri en ríkisrekinna. Sænskar rannsóknir sýna það sama í Svíþjóð.
  2. Hagnaður er aukakostnaður sem skapar ekki þjónustu, ekki frekar en annar kostnaður. Að skattgreiðendur standi undir hagnaðargreiðslum með skattgreiðslum sínum getur ekki talist góð ráðstöfun á skattfé.
  3. Hætta er á skattaundanskotum og notkun á skattaparadísum. Dæmi eru um það í Svþjóð hjá fyrirtækjum sem sinna velferðarmálum. Slíkt er þjófnaður á fjármunum sem hefðu komið sér betur innan velferðakerfisins.
  4. Í Svíþjóð hefur heilsugæslustöðvum fjölgað þar sem ábatasamt er að starfa. Í þéttbýli þar sem góð þjónusta er fyrir. Ekki hefur verið fjölgun á stöðvum í dreifbýli. Auk þess fjölgar stöðvum þar sem betur settir borgarar búa en ekki á svæðum þar sem fátækt er og nýbúar. Þess vegna er það markaðurinn sem ræður staðsetningunni en ekki þörfin. Samkvæmt sænsku heilbrigðislöggjöfinni á þörfin að stjórna og því er það í raun lögbrot að þörfin ráði ekki staðsetningunni. Samkvæmt LOV lögunum í Svíþjóð mega sveitafélögin ekki skipta sér af vali á staðsetningu hjá einkaaðilum sem gerir það ómögulegt að grípa ínní.
  5. Þar sem greiðslur miðast ekki við hversu veikur sjúklingurinn er(mismunandi e sveitafélögum) heldur greitt eitt gjald fyrir alla þá hafa rannsóknir sýnt að tilhneiging er til að sinna einföldu sjúklingunum frekar og er staðsetning stöðvanna dæmi um slíkt. Rannsókn frá Stokkhólmi frá 2012 sýnir að 78% af stjórnendum heilsugæslustöðva telur að kerfið mismuni sjúklingum, þ.e. útsettir hópar fari halloka. Algjör minnihluti starfsmanna bæði í Stokkhólmi og öllu landinu telja að kerfið gagnist útsettum hópum. Þeir sem fara halloka eru þá einmitt þeir sem eru í mestri þörf fyrir hjálp. Það er einnig lögbrot gagnvart sænsku heilbrigðislöggjöfinni.
  6. Rannsóknir í Svíþjóð og annars staðar sýna að það er enginn munur á gæðum þjónustu hvort sem hún er einkarekin eða ríkisrekin. Sú fullyrðing að valmöguleiki sjúklinga valdi því að “slæmu” stöðvarnar detti út virðist röng. Sænskir rannsakendur fundu engin tengsl milli gæða og valmöguleika sjúklinga og sama niðurstaða fékkst í Englandi. Valmöguleiki sem slíkur er ekki gott verkfæri til að auka gæði í heilbrigðiskerfinu. Valmöguleiki virkar ef þú smakkar mismunandi rétti því þú getur síðan endurtekið valið. Það á ekki við innan heilbrigðiskerfisins, ef aðgerð mistekst þá getur þú ekki endurtekið valið því aðgerðin er endanleg.
  7. Almenningur í Svíþjóð hefur aldrei verið spurður eða honum gefinn kostur á að kjósa um þessar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Þeir sem skattgreiðendur hafa einfaldlega verið sniðgengnir og það sama gerist á Íslandi. Skoðanakannanir í Svíþjóð sýna endurtekið að stór meirihluti Svía vill ríkisrekið og algjör minnihluti (16%) vill hagnaðardrifna þjónustu.

 

Ríkisendurskoðun Svía skilaði skýrslu í nóv 2014. Skýrslan fjallar um þessar breytingar á heilbrigðiskerfi Svía sem við ætlum að taka upp á Íslandi. Ég fjallaði um skýrsluna hér. Skýrslan reynir að svara því hvort breytingarnar hafi gert heilsugæslunni auðveldara að ná markmiðum heilbrigðislaga. Skýrslan staðfestir að breytingarnar eru ekki til bóta og sérstaklega ekki þeim sem þurfa mest á heilbrigðiskerfinu að halda. Þeir sem hagnast eru þeir sem eru betur stæðir og búa í borgarhverfum betri settra í þéttbýli. Það eru færri læknar til að sinna þeim meira þurfandi en þeim betur settu og minna þurfandi. Nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar eru opnaðar í þéttbýli í borgarhverfum betri settra en frekar lagðar niður hjá þeim sem minna mega sín. Heimsóknir til lækna með minniháttar vandamál hafa aukist hjá þeim minna veiku en heimsóknir þeirra meiru veiku til lækna hafa minnkað. Sennilega vegna þess að þeir búa á ekki ábatasömum svæðum. Rikisendurskoðun Svía sér engin merki þess að kostnaður við rekstur heilsugæslunnar hafi minnkað með tilkomu nýrra starfshátta, þ.e. einkareksturs.

Ríkisendurskoðun Svía bendir sérstaklega á að þar sem bakpokinn sé farinn að stjórna frekar en þörfin þá sé komið upp siðferðilegt vandamál og vanefndir á lögum. Ríkisendurskoðunin hvetur ríkisstjórnina til að beina kerfinu í þá átt að það uppfylli siðferðilegar kröfur heilbrigðslaga.

 

 

Grein í Lancet frá 1971 og heitir THE INVERSE CARE LAW eftir Hart JT lækni segir okkur að sagan bara endurtekur sig. Umræða okkar í dag er spegluð í grein hans. Niðurstaða hans gildir líka í dag.

 

The availability of good medical care tends to vary inversely with the need for it in the population served. This inverse care law operates more completely where medical care is most exposed to market forces, and less so where such exposure is reduced. The market distribution of medical care is a primitive and historically outdated social form, and any return to it would further exaggerate the maldistribution of medical resources”.

 

Við skulum frekar sameinast um réttlæti og efla það heilsugæslukerfi sem nú þegar er til staðar á myndarlegan hátt. Látum markaðsöflin ekki stjórna því hvernig heilsugæslu er útdeilt. Hippokrates eða almenn siðfræði ætti að duga.

 

 

https://www.youtube.com/watch?v=lF1JiUx437M&list=PLIFm1kKdZC1MQy5oBQZT93p3aWLTb5kbk

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.2.2016 - 20:33 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin okkar

Mörgum Íslendingnum er farið að lengja eftir stjórnarskrá sem virkar og er við hæfi. Þeim sem sitja í stjórnarskárnefnd Forsætisráðauneytisins og skilaði núna uppkasti sínu virðast alls ekki vera samstíga þjóðinni að þessu leytinu. Hver er ósk og væntingar margra Íslendinga þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

 

Við teljum stjórnarskrá vera verklagsreglur fyrir kjörna fulltrúa okkar meðan þeir fara með valdið okkar tímabundið sem við treystum þeim fyrir. Þeir sem setja öðrum verklagsreglur hafa valdið og þeir sem fara eftir verklagsreglum hafa ekki valdið. Þjóðin er valdið, þingmönnum er treyst fyrir valdinu tímabundið og stjórnarskrá setur þeim takmarkanir um hvernig þeir beita valdinu sem við treystum þeim fyrir, tímabundið.

 

Þessar nýju tillögur sem koma núna fram hjá stjórnarskrárnefnd Forsætisráðuneytisins virðist bera þess merki að þingmenn setji sig á háan hest, hér fljótum við eplin eins og einn góður maður sagði. Þingmenn eiga ekkert með að setja sjálfum sér verklagsreglur, það á þjóðin að gera. Þess vegna er hægt að henda þessum tillögum út í hafsauga bara vegna þessa eina formgalla.

 

Það er sorglegt að verða vitni að því að fínt fólk með fína menntun reynir með miklum erfiðismunum að semja texta, að stjórnarskrá, sem lítill hópur hagsmunaaðila getur sætt sig við. Hópur sem hefur ákkúrat ekkert umboð til að standa í slíkri vinnu. Hópur sem virkar á venjulegan Íslending eins og geimvera hafi lent í garðinum hans.

 

Nei, við þessir Íslendingar sem teljum að valdið tilheyri þjóðinni og þið þingmenn séuð þjónar okkar erum ekki sátt við þetta brölt ykkar. Árangur ykkar er ekkert til að skreyta með, enn er fátækt á Íslandi, misrétti og forréttindastéttum er hyglað. Það er full ástæða til að almenningur taki virkan þátt í stjórnun landsins.

 

Við sjáum stjórnaskrá sem verkfæri til að kalla fram þjóðarvilja sem eftir atvikum er alls ekki það sem þið þingmenn hafið í hyggju. Það er allt í lagi því þið buðuð ykkur fram til að sinna okkur og vilja okkar. Við viljum hafa möguleika til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um öll hugsanleg mál og bara með undirskrift 10% kosningabærra manna. Við erum valdið og okkur ber að taka afstöðu. Að halda það að 63 einstaklingar séu betur til þess fallnir en almenningur er svæsin ranghugmynd.

 

Við viljum geta ákveðið hvort við göngum í ESB, hvort við samþykkjum TISA samninginn, hvort og hvernig kvótakerfinu verði breytt, hvort lífeyrissjóðirnir verði sameinaðir eða ekki og vald þeirra minnkað eða einfaldlega ákveðið að lækka stýrirvexti seðlabankans. Það virðist sem flestar ákvarðinir séu teknar með hliðsjón af þörfum einhverra hagsmunahópa. Við teljum að stærsti hagsmunahópurinn, þ.e. almenningur, eigi að koma mun meira og með virkari hætti að stjórn landsins.

 

Þess vegna viljum við semja stjórnarskrá, án ykkar þingmanna, til að koma böndum á ykkur fyrir okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.2.2016 - 22:51 - FB ummæli ()

Kæri Guðlaugur Þór

Ég hlustaði á þig og Ögmund rökræða um samfélagsbanka í Bítinu 17. febrúar á Bylgjunni. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera athugsemdir við í málflutningi þínum.

Sparkasse í Þýskalandi er með 50 milljón Þjóðverja af 80 milljónum sem viðskiptavini og hefur starfað í 200 ár. Þegar Þjóðverjar eru spurðir hvaða stofnun þeir treysta best þá segja 54% Sparkasse (liðlega 10% treysta bönkum á Íslandi). Ef Deutsche Bank (einkabanki) setur eina Evru í vinnu þá eru eftir 0,87 Evrur að ári, þ.e. 13% tap á þeirri fjárfestingu. Hjá Sparkasse verður ein Evra að 1.65 Evrum að ári. Tölur frá 2015 um cost-income-ratio (115% vs 59.9%).  Stór útgjaldaliður einkabankanna eru skaðabætur til viðskiptavina vegna skaða sem framferði þeirra hefur orsakað. Deutsche Bank hefur á síðustu fimm árum borgað 8.2 milljarða Evra í skaðabætur og hagnaður á sama tíma var 9.3 milljarðar Evra. Fjöldi lögsókna er núna um 6000.

Ykkur andstæðingum samfélagsbanka er tíðrætt um Íbúðarlánasjóð (ÍLS).  Hvernig stóð þá á því að ríkisrekinn íbúðalánasjóður lenti í ógöngum? Mikið til vegna ákvarðana manna í ríkisstjórn Davíðs og Halldórs og tengdra aðila á sínum tíma. Afnám bindiskyldunnar 2003 og einkavæðing bankanna, allt á vakt XD og XB, settu Íbúðalánasjóð í uppnám sem sjóðurinn réð ekki við. Einkabankarnir komu inn á íbúðarlánamarkaðinn og undirbuðu Íbúðarlánasjóð og lántakendur greiddu upp lán sín hjá Íbúðarlánasjóði. ÍLS gat ekki greitt upp sín eigin lán vegna skorts á uppgreiðsluákvæði. Þar með hafði ÍLS talsvert af peningum (án hirðis). Þess vegna lánaði ILS einkabönkunum (af öllum) Eftir skelfilegt gjadþrot einkabankanna varð það að tapi ÍLS og margir verktakar urðu einnig gjaldþrota.

Íbúðalánasjóður er lánasjóður ekki banki, ekki frekar en að Lánasjóður íslenskra námsmanna sé banki. Enginn getur stofnað bankabók í ÍLS, fengið kreditkort, haft greiðsludreifingu eða sótt um venjuleg neyslulán. ÍLS er ekki banki. Samfélagsbankinn í Norður Dakóta er banki. Hann getur fjárfest í ”köldum svæðum” því hann hefur sveigjanleika sem fylgir almennum bankarekstri.

Jafnvel þó að ÍLS hafi gengið illa þá er ekki hægt að fullyrða það að samfélagsbanki á Íslandi muni ekki standa sig. Samkvæmt þinni rökfræði ættum við því að banna alla einkabanka á Íslandi um alla framtíð vegna þess að það voru einkabankar sem fóru á hausinn 2008 með ærnum tilkostnaði fyrir þjóðina. Hugsanlega hefði verið hægt að byggja nokkra spítala fyrir allan  kostnaðinn af hruninu.

Þú nefnir að þriðji stærsti kostnaðarliður ríkisútgjalda séu vextir. Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður um 25% af VLF. Sú tala margfaldaðist við gjaldþrot einkabankanna haustið 2008. Hægt er að minnka vaxtakostnað ríkisins verulega með samfélagsbanka. Ef ríkið á samfélagsbanka þá mun hann skila stærstum hluta af vöxtunum sem hagnaði til ríkisins. Þess vegna fær ríkið í raun vaxtarlaus lán. Þetta verður eilífðarvél og er mun betri kostur en að selja eignir ríkisins einu sinni. Auk þess er það kostur með samfélagsbanka að hann er eingöngu viðskiptabanki og því mun minni líkur á því að hann fari í þrot. Það er mun meiri áhætta fyrir skattgreiðendur að hafa einkabanka í samfélaginu því þeir eru sí og æ að fara á hausinn og það lendir alltaf á skattgreiðendum hvort sem er.

Þannig kæri Guðlaugur Þór þá virðist sem samfélagsbanki geti orðið mikil lyftistöng fyrir allt samfélagið sem þú og ég búum í. Með hagnaðinn af bankarekstri í höndum almennings þá færumst við fram á veginn að réttlátara samfélagi. Meðan fátækt er til á Íslandi er ekki annað forsvaranlegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.2.2016 - 00:16 - FB ummæli ()

Spilavíti eða samfélagssáttmáli

Laugardaginn 13. febrúar verður fundur um samfélagsbanka í Norræna húsinu kl. 14. Kannski finnst sumum þetta ómerkilegt mál en það leynist margt í þessu máli. Ef fólk veltir fyrir sér öllum þeim kostnaði sem það er að greiða til bankanna þá er hann mikill og fólk kvartar sáran yfir honum. Einnig finnst fólki vextirnir himinháir og ekki er kvartað minna yfir þeim. Ef þú ert einn af þeim sem kvartar undan óréttlæti bankanna þá er hugmyndin um samfélagsbanka eithvað sem þú ættir að velta fyrir þér af alvöru. Ef þú ert sáttur við núverandi bankakerfi skaltu gleyma þessu.

Með samfélagsbanka má minnka þennan kostnað verulega. Ástæðan er einföld, þú ert eigandinn og færð arðinn í eigin vasa. Eigendur samfélagsbanka geta verið ríkið, sveitafélög, jafnvel borgir eða þorp. Þar sem markmið samfélagsbanka er ekki hagnður heldur þjónusta þá er öllum kostnaði við viðskiptamenn haldið í lágmarki.

Samfélagsbanki getur lánað eiganda sínum, t.d. ríkinu eða sveitafélagi og hann getur lánað nánast vaxtalaust. Ef banki sem ríkið á rukkar ríkið um vexti sem lántakenda og vextirnir verða að hagnaði þá fer hagnaðurinn til eigandans, þ.e. ríkisins.  Vaxtakosntnaður jafnast út sem nemur hagnaðinum. Samfélagsbankinn þarf bara fé til að reka sig en ekki að moka inn vöxtum. Þess vegna geta sveitafélög eða ríkið tekið svo til vaxtalaus lán til framkvæmda. Við það minnkar kostnaður á hverri framkvæmd, kannski um allt að helming, og þess vegna getur ríkið framkvæmt mun meira.

Mjög margir hafa verið töluvert æstir yfir því upp á síðkastið að gróði af bankastarfsemi sé ætlaður vinum og vandamönnum. Samfélagsbanki er skapaður með sérstökum lögum þar sem kveðið er á um að hagnaðurinn fari til ríkisins/samfélagsins og markmiðið sé að þjóna almenningi. Markmiðið er ekki að svala óseðjandi þörf einkahluthafa fyrir gróða. Samfélagsbanki er því svarið við þessu óréttlæti. Samfélagsbanki er að sjálfsögðu gagnsær, almenningur hefur aðgang að öllum upplýsingum sem persónuvernd leyfir. Ekkert pukur!

Einfalt en svínvirkar. Til eru samfélagsbankar víðs vegar um heiminn og við í Dögun höfum boði til landsins tveimur erlendum fyrirlesurum til kynna okkur málið. Wolfram Morales kemur frá Þýskalandi og segir okkur frá Sparkasse, samfélagsbanka í Þýskalandi sem eru yfir 400 að tölu. Samfélagsbankar eru ódýrari í rekstri en einkabankarnir og þeir greiða mun meira í skatt en einkabankarnir. Auk þess setja þeir 500 milljónir Evra í sérstök verkefni á ári, eins og listir, íþróttir og fleira. Að lokum þá sýna rannsóknir að þeir skila meiri hagnaði en einkabankarnir. Ellen Brown er lögfræðingur og rithöfundur og hefur samið bók um samfélagsbanka og skrifar mikið um banka og peningamál.

Laugardaginn 13. febrúar í Norræna húsinu kl 14:00.

 

“When a government is dependent upon bankers for money, they and not the leaders of the government control the situation, since the hand that gives is above the hand that takes. Money has no motherland; financiers are without patriotism and without decency; their sole object is gain.” Napoleon.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.2.2016 - 15:48 - FB ummæli ()

Hvað er samfélagsbanki

Þessi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í gær. Mogginn birtir allar greinar jafnvel þær sem fara gegn pólitík hans, virðingvert.

Umræða um samfélagsbanka á Íslandi hefur verið áberandi upp á síðkastið. Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt til að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka. Ráðandi öfl hafa tekið þessari hugmynd illa og haft í frammi villandi málflutning. Stjórnmálasamtökin Dögun hafa haft samfélagsbanka á stefnuskrá sinni frá upphafi.

Þessi átök milli ”Main street” og Wall street” eru ekki ný. Á seinni hluta 19 aldar voru til sterkar populista hreyfingar í Bandaríkjunum sem vildu fjármálavaldið í hendur opinberra aðila en ekki einkafyrirtækja. Mikil átök voru um hvor aðilinn skyldi hafa einkarétt á framleiðslu peninga og lauk því með ósigri almennings þegar Seðlabanki Bandaríkjanna var stofnaður 1913. Hann er einkabanki að öllu leyti. Siðan þá hafa stjórnmálamenn ekki haft nein raunveruleg völd heldur bankakerfið. Valdið fylgir þeim sem framleiðir peningana (1).

Núna hafa Bernie Sanders og Jeremy Corbyn sett sig upp á móti fjármálavaldinu og það gefur aukinn vind í seglin. Hugmyndin um samfélagsbanka er að hnika peningavaldinu örlítið til hliðar í þágu almennings. Til að áhrif samfélagsbanka verði afgerandi þarf hann að vera stór. Þess vegna er hugmyndin um að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka góð og jafnvel að leggja til Íslandsbanka. Grunnhugmyndin er sú að hagnaður sem skapast af bankastarfsemi verði skilað til baka til samfélagsins, almennings. Það gæti verið í formi lægri skatta eða styrk í sérstök verkefni.

Andstæðingar hugmyndarinnar telja að ekki gangi að reka banka nema hann sé einkarekinn. Dæmi um samfélagsbanka sem oft er bent á er bankinn í Norður Dakóta (2)(3). Hann er eign fylkisins og er því ríkisrekinn banki. Hann hefur yfirburða stöðu á markaðnum og stuðlar að stöðugleika. Hann tekur ekki þátt í áhættusömum rekstir, þ.e. hann er viðskiptabanki. Hann hefur flest árin frá því hann var stofnaður 1919 skilað hagnaði í ríkiskassann sem hefur komið íbúum Norður Dakóta til góða.

Við í stjórnmálasamtökunum Dögun (4) munum hafa fræðslufund um samfélagsbanka laugardaginn 13. febrúar í Norræna húsinu kl 14:00. Við höfum fengið tvo frábæra fyrirlesara til að kynna fyrir okkur efnið. Ellen Brown er Kaliforníubúi, lögfræðingur og rithöfundur (5). Hún hefur skrifða bækur um samfélagsbanka. Hún hefur stofnað áhugamannasamtök í BNA til að koma samfélagsbönkum á koppinn sem víðast. Auk þess skrifar hún mikið af greinum um efnið sem birtast víða. Eftir dvöl sína á Íslandi mun hún fara til Englands og ræða við Corbyn því Verkamannaflokkurinn hefur óskað eftir aðstoð hennar. Hinn fyrirlesarinn, Wolfram Morales kemur frá Þýskalandi en hann er framkvæmdastjóri yfir regnhlífasamtökum (6) sem eru yfir einum stærsta samfélagsbanka Þýskalands, Sparkasse. Samkvæmt OECD eru samfélagsbankar þar um 40% af bankamarkaðnum þegar miðað er við fjármagnseignir (7).

Þau munu útskýra fyrir okkur hvernig samfélagsbankar virka og að það sé raunverulegur möguleiki á að stofna slíkan banka á Íslandi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.2.2016 - 19:42 - FB ummæli ()

Að fara yfir á rauðu

Á morgun verður umræða um TISA á Alþingi, Ögmundur og Gunnar Bragi munu takast á um málið. Ekki vanþörf á. Við í Dögun héldum fund um TISA málið í Norræna Húsinu um daginn og þar kom glöggt fram mikill áhugi og áhyggjur almennings. Margt í þessu máli er ekki í lagi.

Ríkustu þjóðirnar innan Alþjóðaviðskiptastofnnarinnar(WTO) taka sig saman og ætla að semja nýjan þjónustusamning sem á að taka við þeim gamla, GATS. Snauðu þjóðirnar hafa ekki viljað semja um nýjan samning vegna aflsmunar þeirrra ríku. Þá fara þær ríku bara af stað fyrir utan WTO og ætla síðan að troða nýja TISA ofan í kokið á þeim fátæku. Mjög siðlaus hegðun í anda gömlu nýlendustefnu stórveldanna, ekkert sem íslensk stjórnvöld eiga að taka þátt í.

Leyndin um hvað er verið að semja um er nánast algjör. Utanríkisráðuneytið segist upplýsa um TISA viðræðurnar á heimasíðu sinni. Þar koma bara fram tillögur Íslands. Þar eru engar upplýsingar hvernig samningaviðræðurnar þróast í raun og veru. Þar eru engar upplýsingar sem geta verið grundvöllur fyrir upplýstri umræðu meðal almennings. Ekkert sem gæti haft áhrif á gang viðræðanna. Ef engin leynd væri þá hefðu þær upplýsingar sem komu fram hjá Wikileaks ekki verið neitt merkilegar.

Til að hægt sé að fullyrða að ekki sé leynd yfir samningaviðræðunum þá verða allir fundir að vera opnir og streymdir á netinu. Öll skjöl aðgengileg á netinu. Þangað til eru viðræðurnar hjúpaðar leynd. Að segja að þetta sé alltaf svona er eins og að réttlæta afbrot með öðru afbroti..hann fór líka yfir á rauðu..og hefur alltaf gert  það. Pukur sem íslensk stjórnvöld eiga ekki að koma nærri.

Samkvæmt gamla GATS þá er settur gerðardómur yfir ágreiningsmál hjá  WTO. Þessi gerðardómur er samansettur af nokkrum lögfræðingum. Niðurstaða þeirra getur verið að fullvalda þjóðríki verða að breyta lögum sínum eða að afnema lög sem þau hafa samykkt áður. Þar með er búið að einkavæða löggjafarvaldið. Það þýðir að ef kjörninr fulltrúar samþykkja slíkan samning þá eru þeir búnir að skerða fullveldið og afhenda hluta af löggjafarvaldinu einkadómstól. Almenningur gerði alls ekki ráð fyrir að fá vald sitt til baka skert sem þessu nemur. Þetta er klárt samningsbrot gagnvart almenningi.

Utanríkisráðherra Íslands telur að slíkur leynisamningur sem minnkar völd kjörinna fulltrúa sé lítið mál. Hann geti skrifða undir hann án undangenginnar umræðu á Alþingi.

”Þar sem við það er miðað að TiSA-samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar hér á landi er samþykki Alþingis ekki áskilið til að samningur verði fullgiltur af hálfu Íslands, en í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir að samþykki Alþingis sé þörf þegar samningar við önnur ríki sem fela í sér afsal eða kvaðir á landi, landhelgi eða kalla á lagabreytingar. Þrátt fyrir að samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar tel ég engu að síður eðlilegt að Alþingi hafi aðkomu að málinu áður en samningurinn verður fullgiltur af Íslands hálfu. Það væri gert með sama hætti og tíðkast hefur varðandi fríverslunarsamninga sem Ísland gerist aðili að, þ.e. að ríkisstjórn leggi fram þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins. Auk þess verður utanríkismálanefnd áfram haldið upplýstri um gang mála og henni jafnharðan kynnt fyrirliggjandi samningsdrög. Ég sé hins vegar ekki sérstaka þörf á því að málið verði borið undir Alþingi áður en til undirritunar samningsins kemur. Eins og áður segir er ekki gert ráð fyrir að samningurinn muni kalla á lagabreytingar hér á landi og samræmist það ekki stjórnskipulegum venjum hér á landi að Alþingi taki afstöðu til hans áður hann er undirritaður”(Gunnar Bragi á Alþingi 2. mars 2015).

Samningaviðræður ríku þjóðanna gegn þeim fátæku, samningaviðræður í leyni gagnvart almenningi, samningaviðræður sem verkalýðshreyfingin öll er andsnúin, samningur sem skerðir fullveldi og völd almenings með gerðadómi, reglur settar til að festa einkavæðingu í sessi, reglur sem hefja rétt fyrirtækja yfir lögbundin hlutverk stjórnvalda til að sinna almannaþjónustu og öryggi. Sorry eruð þið ekki að fatta það að almenningur er lúserinn í dæminu og stórfyrirtækin sigurvegarinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 31.1.2016 - 22:44 - FB ummæli ()

Kæri Bjarni Ben

Sæll Bjarni, samkvæmt fréttum liðinna mánaða telur þú að Íbúðarlánasjóður (ÍLS) sé samfélagsbanki. Þú vilt meina að ÍLS sé samfélagsbanki og sé gott dæmi til að varast. Þú hefur beitt þessu sem röksemd gegn þeirri hugmynd að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka. Þú getur ekki stofnað bankabók í ÍLS og þess vegna er ÍLS ekki hefðbundinn banki heldur sjóður um íbúðarlán. Ef ÍLS er ekki banki þá getur hann alls ekki verið samfélagsbanki, það segir sig nokkuð sjálft. Það næstversta í þessu er að þú kannt ekki muninn á þessu tvennu og leggur á þá hálu braut að dylgja um ÍLS. Það sem er langverst í þessu máli er að ég held að enginn blaðamaður hafi leiðrétt þig og það er verulega slæmt.

Síðan kemur þú í Kastljós um daginn. Þar segist þú ekki vita hvað samfélagsbanki sé. Virðingavert en síðan segir þú ýmislegt um samfélagsbanka þrátt fyrir að þú hafir sagt nokkrum sekúndum áður að þú vissir ekki hvað samfélagsbanki er. Þetta er brattasta námskúrfa sem ég hef orðið vitni að.

Bjarni, samfélagsbanki er viðskiptabanki sem græðir. Hann er í eigu opinberra aðila, sveitfélags eða ríkisins. Markmið og skuldbindingar bankans eru markaðar í lögum. Gróðinn er notaður til að tryggja og efla starfsemi bankans. Allur afgangshagnaður rennur til eigandans eins og í öllum öðrum bönkum.

Þar með er hægt að lækka skatta með þeim gróða eða styrkja ákveðin verkefni.

Nú það er líka hægt að ákveða að hann sé ekki hagnaðardrifinn, það ákveður löggjafarvaldið.

Líkurnar á að slíkur banki fari á hausinn eru minni því hann fæst ekki við áhættusama fjárfestingar. Hann styður fyrirtæki sem framleiða raunverulega vöru en lætur eiga sig að fjárfesta í fjárvafningafyritækjum sem skapa bara vandamál (The Big Short).

Samfélagsbanki sem er ráðandi á markaði getur stuðlað að minni kostnaði og lægri vöxtum því fjárplógsstarfsemi til handa hluthöfum er ekki markmið í sjálfu sér hjá samfélagsbanka heldur þjónusta.

Kæri Bjarni ef þeim í Steitinu (USA) tekst þetta þá hljótum við að klóra okkur fram úr þessu. Gott væri að stofna samfélagsbanka að fordæmi North Dakota fylkisins í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá banki var stofnaður 1919 í kjölfar efnahagserfiðleika og uppskerubrests sem einkabankarinr höfðu bara eitt svar við; að innheimta veðin fyrir skuldunum, þeir kunnu ekki neitt annað. Afleiðingin var samfélagsleg katastrófa. Einkabönkunum var sama um það því hluthafarnir fengu sitt. Það er einmitt það sem við höfum upplifað undanfarin ár á Íslandi, almenningi var og er kastað út af heimilum sínum í skiptum fyrir gróða hluthafa

Samfélagsbankinn í Norður Dakóta starfar eftir lögum sem hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi. Bankinn fjárfestir í raunverulegri verðmætasköpun en ekki spákaupmennsku. Fylkið getur alltaf fengið ódýr lán hjá bankanum sínum. Þar að auki kunna einkabankarnir í N-Dakóta þessu vel því þeir starfa í skjóli stóra bankans sem veitir þeim rekstraröryggi ef sveiflur verða. Banki Norður Dakóta lenti ekki í vandræðum vegna bankakreppurnnar 2008 því þeir höfðu ekki keypt neina ”gúmmítékka” sem hinir bankarnir gerðu. Það samrýmdist einfaldlega ekki fjárfestingastefnu samfélagsbanka að taka þátt í spilavíti  einkabankanna.

Þess vegna eru minni líkur á því að samfélagsbanki þurfi ríkisaðstoð, það er oftast að fjármunir streyma frá bankanum til ríkisins.

Kæri Bjarni, það er okkur í Dögun ljúft og skylt að útskýra fyrir þér sögu og eðli samfélagsbanka. Við verðum með fund í Norræna húsinu laugardaginn 13. febrúar kl. 14:00 um samfélagsbanka. Þar sem enginn er spámaður í sínu heimalandi höfum við fengið tvo fyrirlesara frá útlöndum. Ellen Brown er lögfræðingur eins og þú og líka rithöfundur. Hún hefur skrifað m.a. bók um samfélagsbanka og stofnað áhugamannafélag um málefnið. Hún þvælist víða með fyrirlestra og eftir að hún hefur frætt okkur á Íslandi þá fer hún til Englands og mun hitta forystu verkamannaflokksins því þau hafa óskað eftir ráðleggingum hennar í peninga- og bankamálum. Hinn fyrirlesarinn er Wolfram Morales. Hann er þjóðverji og er framkvæmdastjóri yfir regnhlífasamtökum samfélgsbankans Sparkasse í Þýskalandi. OECD metur það svo að þýskir samfélagsbankar séu um 40% af bankakerfinu í Þýskalandi, þegar talið er í fjármagnseignum.

Þau munu útskýra fyrir okkur eðli samfélagsbanka. Kæri Bjarni þú ert hjartanlega velkominn á fundinn hjá okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.1.2016 - 00:37 - FB ummæli ()

TISA

Margir halda að fríverslunarsamningar fjalli um afnám tolla. Það að þjóðríki setjist niður til margra ára samningaviðræðna við það eitt að skera niður einhverjar prósentutölur í tollatöflum  ríkja er ekki sennilegt. Nei fríverslunarsamningar eru miklu meira. Það ætti einnig vera augljóst að mikið er í húfi þar sem farið er með innihald samningaviðræðnanna eins og mannsmorð, algjör leynd.

Í þessum samningum er mest rætt um óheftan aðgang stórfyrirtækja að mörkuðum þjóðríkja. Til að þau hafi óheftan aðgang verður að setja stjórnvöldum takmarkanir. Það er eðli stjórnvalda á hverjum stað að styðja undir þá starfsemi sem á uppsprettu sína í nærumhverfinu. Það er einnig eðli stjórnvalda að styðja þá sem eru minni máttar. Styðja lítil og meðalstór fyrirtæki. Styðja þróun og nýsköpun. Að skapa réttlæti og sanngirni á markaði. Að varðveita náttúruna. Að skapa almenningi og launamönnum öryggi. Að varðveita menningu og þá þjóðlegu hefð sem veitir svæðinu sérstöðu og íbúunum er annt um.

Það er hlutverk stjórnvalda að stjórna þannig að réttlæti og sanngirni nái fram að ganga öllum til hagsbótar.

Í fríverslunarsamningum eru búnar til reglur sem takmarka völd stjórnvalda. Því er hafnað að stjórnvöld hafi það hlutverk að skapa réttlæti. Eina réttlætið er að allir hafi nákvæmlega sama aðgang að mörkuðum samkvæmt fríverslunarsamningum. Afleiðingin er augljós, stór fjölþjóðleg fyrirtæki munu ryðja smærri fyrirtækjum út af markaðnum með undirboðum og eiga svo markaðinn fyrir sig. Þess vegna eru stjórnvöld fyrirstaða í markaðstöku þessara fyrirtækja enda eru þau aðal þrýstihópurinn sem vill að þessir samningar verði að veruleika. Þess vegna er samið bak við luktar dyr og almenningi ekki hleypt að. Þess vegna mótmæla samtök almennings um allan heim.

Stórfyrirtækin vilja ekki bara jafna stöðu heldur sérstöðu t.d. vill Walmart keðjan hafa eindæmi um hvar hún setur verslanir sínar niður, ráða opnunartíma,  selja tóbak og áfengi að eigin geðþótta. Allt atriði sem stjórnvöld eru vön að ákveða. Það er vel hugsanlegt að þær kröfur sem venjulega eru gerðar til fyrirtækja í tengslum við leyfisveitingar, þekkingu og kunnáttu, öryggisatriði eða þá náttúruvernd verði dæmdar sem íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Þar með er eftirlitsvald stjórnvalda gert að engu.

Fríverslunarsamningar snúast mikið um einkavæðingu á almannaþjónustu. Mikið hefur verið einkavætt á liðnum áratugum. Margt hefur mistekist og því hafa stjórnvöld neyðst til að taka þjónustuna yfir aftur, þ.e. afeinkavæða. Nú vilja þeir sem eru að semja um TISA koma með reglu sem heitir STANDSTILL. Það þýðir að það sem einu sinni hefur verið einkavætt má ekki afeinkavæða, alveg sama þó þjónustan sé dýrari og verri.  Önnur regla sem kallast RATCHETT snýst um að ef stjórnvöld vilja gera tilraun með einkarekstur til að kanna hvernig það reynist þá geta þau ekki bakkað og tilraunin verður því til framtíðar einkarekin. Til að gulltryggja einkavæðingu í sessi þá vilja stórfyrirtækin að inn í samninginn séu sett ákvæði sem kallast ”future-proofing”. Sú regla gengur út á að ef einhvern tíman ný þjónusta verður til þá verði hún alltaf einkarekin, þ.e. stjórnvöldum er fyrirfram gert ókleift að koma að henni. Þessar reglur eru augljóslega gerðar til að takmarka völd stjórnvalda. Stjórnvöldum ber skylda til að bregðast við mismunandi aðstæðum í þjóðfélaginu og það vita allir viti bornir menn að einkarekstur er ekki eina lausnin. Stjórnvöld verða að hafa valið og ákvörðunarvaldið.

Af þessu má ljóst vera að fríverslunarsamningar fjalla minnst um afnám tolla. Þeir fjalla miklu meira um að takmarka það vald sem almenningur hefur falið kjörnum fúlltrúum. Að samningarnir fari fram fyrir luktum dyrum án aðkoma almennings sem eru handhafar valdsins er samsæri. Þessu verður að mótmæla því um er að ræða skerðingu á grundvallarréttindum okkar í því lýðræðisskipulagi sem við búum við.

Stjórnmálasamtökin Dögun munu hafa fund um TISA í Norræna húsinu fimmtudaginn 28. JANÚAR kl 20:00. Þar mun Bergþór Magnússon fulltrúi úr samninganefnd Íslands um TISA kynna samningaviðræðurnar. Ég mun halda stutt erindi. Fulltrúar þingflokkanna munu flestir mæta til að kynna okkur skoðun sína á TISA. Hvet ég alla til að mæta til að kynna sér TISA.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.12.2015 - 01:04 - FB ummæli ()

TISA vs COP21 í París

Sá hluti TISA samningsins sem fjallar um orkumál mun væntanlega hafa gagnstæð áhrif á nýtt samkomulag um kælingu jarðar, kallað COP 21, sem nýlega var undirritað í París samfara lófaklappi. Það merkir að TISA mun auka myndun koltvísýrings í andrúmsloftinu á sama tíma og COP21 reynir að minnka koltvísýring.

TISA stendur fyrir Trade in Service Agreement. Um er að ræða fríverslunarsamning sem er í smíðum og Ísland er þátttakandi að honum. Það er algjör leynd yfir samningaviðræðunum og hvernig þessi samningur muni hafa áhrif á líf almennings. Utanríkisráðuneytið hefur birt hvað Ísland leggur fram í samningaviðræðunum en það skiptir litlu máli í stóru myndinni. Það sem kjörnir fulltrúar og almenningur veit um þessar samningaviðræður kemur frá skjölum sem lekið hefur verið til Wikileaks. Slík leynd gagnvart almenningi ætti að útiloka alla aðkomu lýðræðisríkis að slíkum samningaviðræðum en einræðisríki gætu haldið áfram að semja. Aftur á móti hafa stór fjölþjóðleg fyrirtæki aðgang að upplýsingum um gang samningaviðræðna. Það virðist sem fyrirtækin hafi mikinn aðgang að samningamönnum því það er ekki einleikið hvað mikið snýst um að tryggja stórfyrirtækjum óskertan hagnað með stuðningi í TISA samningnum. Slíkt er reyndar vel þekkt úr öðrum fríverslunarsamningum.

Fríverslunarsamningar snúast að litlum hluta um minnkun tolla á landamærum. Sá hluti er algjör minnihluti slíkra samninga. Meginhluti þeirra snýst um að koma í veg fyrir allt það sem gæti hugsanlega minnkað gróða fyrirtækja. Mikilvægast virðist vera að þjóðkjörnir fulltrúar afsali sér valdinu, valdinu sem almenningur afhenti þeim í trausti þess að þeir færu með það sem sitt eigið fjöregg og afhentu það síðan aftur til eigenda sinna-okkar-óskert. Þess í stað semja embættismenn í skjóli kjörinna fulltrúa OKKAR  um að einkarekinn dómstóll geti snúið við og/eða útmáð ákvarðanir löggjafarsamkundu okkar. Mörg dæmi eru um að einkareknir dómstólar hafi snúið við ákvörðunum kjörinna fulltrúa og þar með kippt lýðræðinu úr sambandi.

Það eitt að Ísland sé þátttakandi í TISA samningunum vekur upp þá spurningu hvað opinberir starfsmenn frá Íslandi voru að gera til Parísar á COP21. Að klappa? Fyrir hverjum? Samkvæmt Wikileaks gögnunum fer TISA samningurin algjörlega gegn samkomulaginu í París og þar sem TISA er bindandi, ræður hann. Því klöppuðu menn bara í París.

Undirskriftin í París er loforð, verður staðið við eftir minni. Samkvæmt fréttum ætla Replúkanar í BNA að gleyma öllum loforðum Obama í París vegna þess að samkomulagið París skaðar hagsmuni fyrirtækja!!!!!

TISA er aftur á móti bindandi samningur og nánast óafturkræfur. Í orkukaflanum er Ísland áberandi og dregur hlassið í samningunum í Genf fyrir skítug jarðefnaeldsneytisfyrirtæki Ameríku, þvílík upphefð. Ísland með sína grænu orku er felubúningur fyrir fyrirtæki sem framleiða olíu, kol og tar- sand. Vá!

Í samningaviðræðunum um TISA leggja lönd fram sínar hugmyndir um þá orkugeira sem þau vilja skuldbinda sig til að semja um en útiloka aðra. Aftur á móti verða allir nýir orkumöguleikar framtíðarinnar sjálfvirkt hluti af TISA að okkur forspurðum, sorry hvert fór vald almennings?

TISA vill að öll orkuform verði ”jöfn”. Það þýðir að kjörnir fulltrúar geta ekki valið endurnýtanlega orku fram yfir óendurnýtanlega orku, geta ekki valið hreina orku fram yfir óhreina, geta ekki valið orku framleidda í heimalandi fram yfir innflutta orku. Sorry hvert fór lýðræðið, og já hvert fór París?

Ef einhver Ríkisstjórn vill styrkja sólarorku verður hún einnig að styrkja olíuiðnaðinn jafn mikið, þann iðnað sem hún hefur í huga að minnka á kostnað hreinnrar orku. Meet me in Paris..some other time.

TISA vill að ef fullvalda þjóð finnur auðlind verður hún að skapa markað sem veitir öllum einkaaðilum möguleika á að vinna/framleiða viðkomandi auðlind. Er það frelsi að útiloka eigendur frá nýtingu auðlinda sinna? Í raun að svifta opinbera aðila möguleikanum á að nýta auðlind í þágu þeirra sem eiga hana og láta hagnaðinn streyma inn í samfélagið. TISA vill að hagnaðurinn renni burt frá samfélaginu til fárra.

TISA vill að allar vottanir á gæðum framkvæmda, ss umhverfismat o.þ.h. verði verulega útþynntar og verði mun minni vörn umhverfinu en hingað til-still, Paris where are you?

Vegna votra drauma Íslendinga um mikla sigra á sviði háhitaorku á heimsvísu reka þeir fyrrnefnda pólitík í Genf sem talin er upp hér að framan. Því miður kemur slík stefna fyrst og fremst mengandi orkugjöfum til hagsbóta og er sem fyrr segir í algjörri andstöðu við markmið Parísar ráðstefnunnar COP21.

TISA er fúlasta alvara. TISA er bindandi eftir að fulltrúar okkar hafa skrifað undir. Einkafyrirtæki geta sótt Ríkisstjórnir/sveitafélög til saka fyrir litlum einkareknum dómstóli skipuðum þremur lögfræðingum. Þeir vinna oftast fyrir stórfyrirtæki en sinna dómarastörfum einnig. Ef einkafyrirtæki telur sig verða fyrir skaða, minni gróða í dag eða minni gróða til framtíðar getur það sótt opinbera aðila til saka. Stjórnvöld verða skaðabótaskyld fyrir ákvæði um neytendavernd, umhverfisvernd og lágmarkslaun. Framkvæmdavald Íslands, sem fær vald sitt frá Alþingi og Alþingi fær vald sitt frá þjóðinni ætlar að afhenda þriggja manna einkadómstól það vald sem á heima hjá almenningi. Framkvæmdavaldið er einnig að gefa skít í íslenskt dómskerfi og telur það ekki geta gætt hlutleysis og réttlætis gagnvart kærum fyrirtækja. Þar með eru einkafyrirtækin ekki bara orðin jafnfætis heldur sterkara afl en löggjafarsamkunda þjóðanna. Þetta finnst Gunnari Braga Utanríkisráðherra smámál:

”Ég sé hins vegar ekki sérstaka þörf á því að málið verði borið undir Alþingi áður en til undirritunar samningsins kemur.”

Svona Ráðherrar eru til í flest öllum ríkisstjórnum sem semja um TISA. Þeir ætla allir að þröngva TISA samningnum í gegnum þingið því þeir vita sem er að samningurinn verður aldrei samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir ítarlega umræðu. Bandaríkjamenn þrá ekkert frekar en að henda NAFTA samningnum út í hafsauga.

Að hagsmunir stórfyritækja séu í fyrirrúmi og þau nánast semja fríverslunarsamninga. Að opinberir starfsmenn þjóðríkjanna sem standa í samningaviðræðunum sem fulltrúar almannahagsmuna hoppa í kjöltu stórfyrirtækjanna með lafandi tunguna eins og kjölturakkar. Að til eru ráðherrar sem er sama um skoðun kjósenda sinna sem veittu þeim vald til að stjórna í eitt kjörtímabil. Ef einhverjum finnst það eðlilegt að samið sé um takmörkun á valdi almennings, sem er og á valdið. Að samið sé í leyni án vitundar valdsins, þ.e. almennings, um að svifta almenning valdinu til að stjórna og ákvarða framtíð sína. Er það sérkennilegt að þeir sem vilja flytja lýðræðislegt vald almennings til örfárra séu kallaðir landráðamenn?

Þess vegna verðum við almenningur, valdið, að standa á fætur núna og segja stopp, ekki lengra…því við erum valdið en ekki þið.

———————————————————————————————————————————–

 

Þau lönd sem taka þátt í TISA samningunum: BNA, ESB löndin, Ástralía, Kanada, Síle, Taiwan, Kólombía, Kosta Rica, Hong Kong, Ísland, Ísrel, Japan, Kórea, Liktenstein, Mauritius, Mexicó, Nýa Sjáland, Noregur, Pakistan, Panama,m Perú, Swiss, Tyrkland.

http://www.world-psi.org/en/issue/TISA

http://www.ogmundur.is/annad/nr/7744

http://attac.is/greinar/frj%C3%A1ls-verslun-og-tisa-samningurinn

http://attac.is/greinar/fr%C3%ADverslunarsamningar-brave-new-world

http://www.visir.is/tisa-samningurinn-og-lydraedi-a-utsolu/article/2015151129588

http://www.attac.no/tag/tisa/

http://www.citizen.org/documents/NAFTA-at-20.pdf

http://www.world-psi.org/sites/default/files/en_tisa_versus_public_services_final_web.pdf

http://www.jonas.is/fundur-mengunarsinna/

http://www.jonas.is/parisarhneykslid/

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.12.2015 - 22:48 - FB ummæli ()

Vigga vinkona og Peningar

Vigdís Hauks formaður fjárlaganefndar Alþingis Íslendinga heldur því fram að ekki séu til nægir peningar til að reka Ríkið, t.d. Landspítalann. Því miður veit hún ekkert hvað peningar eru. Peningar eru verkfæri til að flytja verðmæti framleiðslu okkar frá einum stað til annars, frá einum tíma til annars.

Ef við framleiðum ekki neitt þurfum við ekki peninga. Ef við framleiðum eitthvað þurfum við peninga.

Landspítalinn framleiðir verðmæti merkilegt nokk.

Þess vegna kemur framleiðslan fyrst, svo peningar.

Hvernig geta þá peningar verið takmarkandi þáttur?

Þætti vænt um að Vigga vinkona svari þessu. Hún er nú einu sinni formaður fjárlaganefndar Alþingis Íslendinga. Ef hún kann ekki svarið þá getur Frosti Sigurjónsson örugglega hjálpað henni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur