Laugardagur 08.07.2017 - 22:15 - FB ummæli ()

G20 og Yanis Varoufakis

Núna er G20 fundurinn í Hamborg þar sem þjónar fjármálavaldsins koma saman og koma því í verk sem fjármálavaldið vill. Kjörnir þjóðhöfðingjar eru þrælar fjármálavaldsins. Það ætti að vera augljóst öllum að bankakerfið hefur notið sérkjara en allir aðrir hafa þurft að taka á sig miklar skerðingar á lífskjörum í kjölfar bankakreppunnar 2008.

Yanis Varoufakis var fjármálaráðherra í Grikklandi 2015 og hefur gefið út endurminningar sínar frá þessum tíma, Adults in the Room: My Battle with Europe’s Deep Establishment. Hann lýsir því mjög vel í þessari bók hversu stjórnmálamenn eru valdalausir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabanki Evrópu hafa síðasta orðið á fundum fjármálaráðherra Evrópusambandsins. Gríska þjóðin hafnaði skilyrðum fjármálavaldsins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Evrópusambandið fyrir hönd þess var að þvinga upp á grísku þjóðina.

Ekki einu sinni þjóðaratkvæðagreiðsla var virt. Seðlabanki Evrópusambandsins kom til skjalanna og hætti að skaffa Grikkjum seðla og mynt sem er þó lagaleg skylda bankans. Án peninga stöðvast samfélagið. Yanis var tilbúinn með nýtt peningakerfi byggt á skattkortum því hann vissi vel að Seðlabanki Evrópsambandsins myndi gera þetta. Lausn Varoufakisar var aldrei notuð vegna þess að vinstri stjórnin sveik Varoufakis og kjósendur sína. Ef kerfi Yanisar hefði farið í gang og virkað þá hefðu vopnin verið slegin úr höndum fjármálavaldsins og Grikkir hefðu getað gefið fjármálavaldinu langt nef.

Fjármálavaldið/bankakerfið/seðlabankakerfið framleiðir peningana okkar og stjórnar magni þeirra í umferð. Sá sem gerir það er með valdið. Þess vegna eru stjórnmálamenn og kjörnir þjóðarleiðtogar valdalausir þar sem þeir eltast við að þjóna fjármálakerfinu í stað þess að þjóna fólkinu sem kaus þá. Þegar bankarnir minnka magn peninga verður kreppa. Þegar þeir auka magn þeirra verður bóla og þegar þeir skrúfar fyrir þá eins og í dæmi Grikkja hrynur samfélagið. Pólitíkin í dag hversu falleg sem hún kann að vera getur ekki breytt ákvörðunum fjármálakerfisins. Pólitíkin í dag verður að snúast um að endurheimta valdið yfir framleiðslu peninga til að hún virki fyrir fólkið.

Öllu þessu lýsir Yanis mjög vel í bók sinni og óskar eftir því að fullorðið fólk komi inní herbergið, þ.e. að við föttum þetta. Að öðrum kosti verðum við bara áhorfendur þegar allt draslið fer til helvítis eins og hann segir í lok bókar sinnar.

Mæli eindregið með bókinni hans Varoufakisar svo menn skilji betur stóru myndina og hvernig fjölmiðlarnir eru misnotaðir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur