Miðvikudagur 03.02.2016 - 19:42 - FB ummæli ()

Að fara yfir á rauðu

Á morgun verður umræða um TISA á Alþingi, Ögmundur og Gunnar Bragi munu takast á um málið. Ekki vanþörf á. Við í Dögun héldum fund um TISA málið í Norræna Húsinu um daginn og þar kom glöggt fram mikill áhugi og áhyggjur almennings. Margt í þessu máli er ekki í lagi.

Ríkustu þjóðirnar innan Alþjóðaviðskiptastofnnarinnar(WTO) taka sig saman og ætla að semja nýjan þjónustusamning sem á að taka við þeim gamla, GATS. Snauðu þjóðirnar hafa ekki viljað semja um nýjan samning vegna aflsmunar þeirrra ríku. Þá fara þær ríku bara af stað fyrir utan WTO og ætla síðan að troða nýja TISA ofan í kokið á þeim fátæku. Mjög siðlaus hegðun í anda gömlu nýlendustefnu stórveldanna, ekkert sem íslensk stjórnvöld eiga að taka þátt í.

Leyndin um hvað er verið að semja um er nánast algjör. Utanríkisráðuneytið segist upplýsa um TISA viðræðurnar á heimasíðu sinni. Þar koma bara fram tillögur Íslands. Þar eru engar upplýsingar hvernig samningaviðræðurnar þróast í raun og veru. Þar eru engar upplýsingar sem geta verið grundvöllur fyrir upplýstri umræðu meðal almennings. Ekkert sem gæti haft áhrif á gang viðræðanna. Ef engin leynd væri þá hefðu þær upplýsingar sem komu fram hjá Wikileaks ekki verið neitt merkilegar.

Til að hægt sé að fullyrða að ekki sé leynd yfir samningaviðræðunum þá verða allir fundir að vera opnir og streymdir á netinu. Öll skjöl aðgengileg á netinu. Þangað til eru viðræðurnar hjúpaðar leynd. Að segja að þetta sé alltaf svona er eins og að réttlæta afbrot með öðru afbroti..hann fór líka yfir á rauðu..og hefur alltaf gert  það. Pukur sem íslensk stjórnvöld eiga ekki að koma nærri.

Samkvæmt gamla GATS þá er settur gerðardómur yfir ágreiningsmál hjá  WTO. Þessi gerðardómur er samansettur af nokkrum lögfræðingum. Niðurstaða þeirra getur verið að fullvalda þjóðríki verða að breyta lögum sínum eða að afnema lög sem þau hafa samykkt áður. Þar með er búið að einkavæða löggjafarvaldið. Það þýðir að ef kjörninr fulltrúar samþykkja slíkan samning þá eru þeir búnir að skerða fullveldið og afhenda hluta af löggjafarvaldinu einkadómstól. Almenningur gerði alls ekki ráð fyrir að fá vald sitt til baka skert sem þessu nemur. Þetta er klárt samningsbrot gagnvart almenningi.

Utanríkisráðherra Íslands telur að slíkur leynisamningur sem minnkar völd kjörinna fulltrúa sé lítið mál. Hann geti skrifða undir hann án undangenginnar umræðu á Alþingi.

”Þar sem við það er miðað að TiSA-samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar hér á landi er samþykki Alþingis ekki áskilið til að samningur verði fullgiltur af hálfu Íslands, en í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir að samþykki Alþingis sé þörf þegar samningar við önnur ríki sem fela í sér afsal eða kvaðir á landi, landhelgi eða kalla á lagabreytingar. Þrátt fyrir að samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar tel ég engu að síður eðlilegt að Alþingi hafi aðkomu að málinu áður en samningurinn verður fullgiltur af Íslands hálfu. Það væri gert með sama hætti og tíðkast hefur varðandi fríverslunarsamninga sem Ísland gerist aðili að, þ.e. að ríkisstjórn leggi fram þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins. Auk þess verður utanríkismálanefnd áfram haldið upplýstri um gang mála og henni jafnharðan kynnt fyrirliggjandi samningsdrög. Ég sé hins vegar ekki sérstaka þörf á því að málið verði borið undir Alþingi áður en til undirritunar samningsins kemur. Eins og áður segir er ekki gert ráð fyrir að samningurinn muni kalla á lagabreytingar hér á landi og samræmist það ekki stjórnskipulegum venjum hér á landi að Alþingi taki afstöðu til hans áður hann er undirritaður”(Gunnar Bragi á Alþingi 2. mars 2015).

Samningaviðræður ríku þjóðanna gegn þeim fátæku, samningaviðræður í leyni gagnvart almenningi, samningaviðræður sem verkalýðshreyfingin öll er andsnúin, samningur sem skerðir fullveldi og völd almenings með gerðadómi, reglur settar til að festa einkavæðingu í sessi, reglur sem hefja rétt fyrirtækja yfir lögbundin hlutverk stjórnvalda til að sinna almannaþjónustu og öryggi. Sorry eruð þið ekki að fatta það að almenningur er lúserinn í dæminu og stórfyrirtækin sigurvegarinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur