Sunnudagur 31.01.2016 - 22:44 - FB ummæli ()

Kæri Bjarni Ben

Sæll Bjarni, samkvæmt fréttum liðinna mánaða telur þú að Íbúðarlánasjóður (ÍLS) sé samfélagsbanki. Þú vilt meina að ÍLS sé samfélagsbanki og sé gott dæmi til að varast. Þú hefur beitt þessu sem röksemd gegn þeirri hugmynd að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka. Þú getur ekki stofnað bankabók í ÍLS og þess vegna er ÍLS ekki hefðbundinn banki heldur sjóður um íbúðarlán. Ef ÍLS er ekki banki þá getur hann alls ekki verið samfélagsbanki, það segir sig nokkuð sjálft. Það næstversta í þessu er að þú kannt ekki muninn á þessu tvennu og leggur á þá hálu braut að dylgja um ÍLS. Það sem er langverst í þessu máli er að ég held að enginn blaðamaður hafi leiðrétt þig og það er verulega slæmt.

Síðan kemur þú í Kastljós um daginn. Þar segist þú ekki vita hvað samfélagsbanki sé. Virðingavert en síðan segir þú ýmislegt um samfélagsbanka þrátt fyrir að þú hafir sagt nokkrum sekúndum áður að þú vissir ekki hvað samfélagsbanki er. Þetta er brattasta námskúrfa sem ég hef orðið vitni að.

Bjarni, samfélagsbanki er viðskiptabanki sem græðir. Hann er í eigu opinberra aðila, sveitfélags eða ríkisins. Markmið og skuldbindingar bankans eru markaðar í lögum. Gróðinn er notaður til að tryggja og efla starfsemi bankans. Allur afgangshagnaður rennur til eigandans eins og í öllum öðrum bönkum.

Þar með er hægt að lækka skatta með þeim gróða eða styrkja ákveðin verkefni.

Nú það er líka hægt að ákveða að hann sé ekki hagnaðardrifinn, það ákveður löggjafarvaldið.

Líkurnar á að slíkur banki fari á hausinn eru minni því hann fæst ekki við áhættusama fjárfestingar. Hann styður fyrirtæki sem framleiða raunverulega vöru en lætur eiga sig að fjárfesta í fjárvafningafyritækjum sem skapa bara vandamál (The Big Short).

Samfélagsbanki sem er ráðandi á markaði getur stuðlað að minni kostnaði og lægri vöxtum því fjárplógsstarfsemi til handa hluthöfum er ekki markmið í sjálfu sér hjá samfélagsbanka heldur þjónusta.

Kæri Bjarni ef þeim í Steitinu (USA) tekst þetta þá hljótum við að klóra okkur fram úr þessu. Gott væri að stofna samfélagsbanka að fordæmi North Dakota fylkisins í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sá banki var stofnaður 1919 í kjölfar efnahagserfiðleika og uppskerubrests sem einkabankarinr höfðu bara eitt svar við; að innheimta veðin fyrir skuldunum, þeir kunnu ekki neitt annað. Afleiðingin var samfélagsleg katastrófa. Einkabönkunum var sama um það því hluthafarnir fengu sitt. Það er einmitt það sem við höfum upplifað undanfarin ár á Íslandi, almenningi var og er kastað út af heimilum sínum í skiptum fyrir gróða hluthafa

Samfélagsbankinn í Norður Dakóta starfar eftir lögum sem hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi. Bankinn fjárfestir í raunverulegri verðmætasköpun en ekki spákaupmennsku. Fylkið getur alltaf fengið ódýr lán hjá bankanum sínum. Þar að auki kunna einkabankarnir í N-Dakóta þessu vel því þeir starfa í skjóli stóra bankans sem veitir þeim rekstraröryggi ef sveiflur verða. Banki Norður Dakóta lenti ekki í vandræðum vegna bankakreppurnnar 2008 því þeir höfðu ekki keypt neina ”gúmmítékka” sem hinir bankarnir gerðu. Það samrýmdist einfaldlega ekki fjárfestingastefnu samfélagsbanka að taka þátt í spilavíti  einkabankanna.

Þess vegna eru minni líkur á því að samfélagsbanki þurfi ríkisaðstoð, það er oftast að fjármunir streyma frá bankanum til ríkisins.

Kæri Bjarni, það er okkur í Dögun ljúft og skylt að útskýra fyrir þér sögu og eðli samfélagsbanka. Við verðum með fund í Norræna húsinu laugardaginn 13. febrúar kl. 14:00 um samfélagsbanka. Þar sem enginn er spámaður í sínu heimalandi höfum við fengið tvo fyrirlesara frá útlöndum. Ellen Brown er lögfræðingur eins og þú og líka rithöfundur. Hún hefur skrifað m.a. bók um samfélagsbanka og stofnað áhugamannafélag um málefnið. Hún þvælist víða með fyrirlestra og eftir að hún hefur frætt okkur á Íslandi þá fer hún til Englands og mun hitta forystu verkamannaflokksins því þau hafa óskað eftir ráðleggingum hennar í peninga- og bankamálum. Hinn fyrirlesarinn er Wolfram Morales. Hann er þjóðverji og er framkvæmdastjóri yfir regnhlífasamtökum samfélgsbankans Sparkasse í Þýskalandi. OECD metur það svo að þýskir samfélagsbankar séu um 40% af bankakerfinu í Þýskalandi, þegar talið er í fjármagnseignum.

Þau munu útskýra fyrir okkur eðli samfélagsbanka. Kæri Bjarni þú ert hjartanlega velkominn á fundinn hjá okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur