Laugardagur 21.05.2016 - 23:41 - FB ummæli ()

Aflandskrónur á Saga class

Meðan landsmenn eru önnum kafnir við vorverk í görðum sínum leggur Fjármálaráðherra okkar fram lög um afléttingu gjaldeyrishafta á aflandskrónum. Frumvarpið er lagt fram á föstudagskvöldi og á að vera orðið að lögum á sunnudagskvöldi. Asinn er vegna hugsanlegrar sölu á verðbréfum og sniðgöngu. Er það mikilvægara en að almenningur fái að meta frumvarpið og segja álit sitt? Að minnsta kosti er ekki gert ráð fyrir almenningi í þessu ferli enda erum við ekki hagsmunaðilar fyrr en korteri fyrir kosningar.

InDefence hópurinn gagnrýnir bæði málsmeðferð og innihald þessara laga. Eingöngu eru gefnar nokkrar klukkustundir til að meta áhrif laganna. Auk þess er spurt hvort aflandskrónueigendur hefðu bara ekki getað beðið og almenningur fengið forgang . Er tryggt að almenningur skaðist ekki af þessu brölti, það virðist sem InDefence sé ekki rótt.

Lilja Mósesdóttir ritar mjög alvarlegan pistil á Facebook síðu sína um lagafrumvarp Bjarna. Lilja er ekki neinn nóbódy, hún er þrælmenntaður hagfræðingur með áherslu á kreppur. Auk þess var hún þingmaður strax eftir hrun og þess vegna hefur hún mikla þekkingu og kunnáttu um efnið.Ég  mæli því eindregið með því að fólk lesi pistilinn hennar.

Þeir sem hafa fylgst með umræðunni frá hruni þekkja það vel að stærsta mómentið í framtíð Íslands er aflétting gjaldeyrishaftanna. Margir fræðimenn hafa bent á þetta margsinnis. Fátt er meira afgerandi um hag almennings til framtíðar. Tekst sú aðgerð eða mistekst. Flestum þjóðum í svipaðri stöðu hefur mistekist. Ástæðan hefur verið þóknun við fjármagnseigendur sem viljað hafa út og fengið afnot af dýrmætum gjaldeyri viðkomandi þjóða. Það virðist sem hagur aflandskrónueigenda sé ofmetinn á Íslandi enda er spurt hverjir eru þessir aflandskrónueigendur, eru þeir vinir einhverra? Eina vitið er að skattleggja aflandskrónur eins og Lilja bendir á enda eyðir það óvissu og tryggir stöðugleika. Við í stjórnmálasamtökunum Dögun höfum einnig mælt með sömu aðferð.

Ef aflétting á aflandskrónum fer úr böndunum þá fellur gengi íslensku krónunnar og þurfum við ekki að fjölyrða um afleiðingarnar því það er ekki svo langt síðan Ísland lenti í slíku.

Ef mið er tekið af umfjöllun RÚV um málið í kvöld þá er augljóst að fjölmiðlar hafa mestar áhyggjur af því að aflandskrónueigendum séu ekki settir neinir afarkostir og Frosti taldi slíkt ekki vera, þeir fengju valmöguleika um misgóðar leiðir með sitt fjármagn. Það er augljóst að almannatenglar hafa unnið heimavinnuna vel.

Þess vegna kemur það ekki á óvart að almennngur hreinsar arfa úr görðum sínum frekar en að hreinsa til á Alþingi Íslendinga í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur