Föstudagur 02.09.2016 - 21:40 - FB ummæli ()

Bónusar, græðgi og bankar

Þessi þrjú orð virðast oft fara saman og er það miður því bankar eru nauðsynlegar stofnanir. Eigendur einkabanka í dag eru haldnir sjúklegri þörf fyrir að græða og veita því starfsmönnum sem uppfylla þarfir þeirra duglega bónusa. Stefna eiganda var öllu hógværari áður fyrr og meira horft fram á veginn. Í dag er gróðafíknin svo svæsin að það er eins og enginn sé morgundagurinn.

Reynslan sýnir að starfsmaður sem flytur sig frá græðgisbanka yfir í banka sem starfar án hagnaðarkröfu þá breytir viðkomandi starfsmaðurinn um hegðun. Þess vegna er vandamálið frekar eigendurnir og krafa þeirra um gróða. Einnig er lagaumhverfið gallað.

Þess vegna er hugmyndin um samfélagsbanka góð. Starfsemi slíks banka byggir á annarri lagasetningu en gróðabankarnir. Samfélagsbanki er ekki hugsaður til þess að græða fyrir eigendur sína. Eigendur geta verið ríkið eða sveitafélög. Ef bankanum verður það á að græða þá fer gróðinn aftur til almennings. Gróðinn fer ekki úr nærsamfélaginu.

Samfélagsbanki er venjulegur viðskiptabanki ekki fjárfestingabanki og fjárfestir því ekki í spákaupmennskunni sem setti allt á annan endann 2007. Áhætta slíks banka er mun minni en hinna sem eltast við stundargróða. Banki sem krefst ekki gróða og er áhættulítill getur boðið viðskiptavinum sínum mun ódýrari þjónstu. Auk þess fjárfestir hann í raunhagkerfinu, það er venjulegum fyrirtækjum sem framleiða raunverulega vöru en ekki einhver afleiðuveðmál sem eru bara froða. Þess vegna styður samfélagsbanki nærumhverfi sitt.

Stór og öflugur samfélagsbanki sem þjáist ekki af gróðafíkn á mun auðveldara með að sýna tillitsemi þeim sem lenda í vandræðum með lán sín. Það fellur vel að samfélagslegum skyldum samfélagsbanka. Hagur hans fer saman með hag fjöldans.

Samfélagsbanki er eitt af aðalstefnumálum Dögunar. Kynntu þér málin á xdogun.is og komdu með okkur í þá vegferð að gera bankaþjónustu ódýrari og mannlegri.

Fulltrúar Dögunar verða á Fundi fólksins í Norræna húsinu og þú hefur möguleika að kynna þér málefni Dögunar þar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur