Mánudagur 24.10.2016 - 20:49 - FB ummæli ()

Samfélagsbanki-norður Dakóta bankinn

Í Norður Dakóta í Bandaríkjunum er starfræktur samfélagasbanki. Hann er eigu Norður Dakóta fylkis og lang flestir íbúar fylkisins eru mjög ánægðir með bankann. Saga hans er mjög merkileg en hann var stofnaður árið 1919 af bændum.

Á þessum árum voru uppskerubrestir og einkabankarnir settu bændur miskunnarlaust í gjaldþrot. Þá sameinuðust bændurnir og stofnuðu stjórnmálaflokk sem náði völdum í fylkinu. Árið 1919 stofnaði fylkið sinn eigin banka

Í raun snérist barátta bænda fyrir fylkisbanka í N-Dakóta ekki um stjórnmál heldur um praktíska hluti. Ef fylkið ætti bankann og hann væri ekki hagnaðardrifinn þá myndi kostnaður bænda lækka verulega. Auk þess var hagur bankans samofinn hag samfélagsins sem hann var hluti af. Þess vegna rak hann ekki bændur í gjaldþrot heldur beið þangað til hagur þeirra vænkaðist og þá voru skuldirnar gerðar upp. Þannig hefur bankinn starfað í nær hundrað ár. Hann horfir á heildarmynd samfélagsins sem hann tilheyrir. Bankinn telur það vera sitt hlutverk að brúa bilið þegar óblíð ytri skilyrði valda skaða en ekki að vera hluti af þeim óblíðu skilyrðum. Þess vegna elska íbúar N Dakóta bankann sinn því hann er vinur þeirra.

Við í stjórnmálasamtökunum Dögun viljum feta í fótspor bændanna í Norður Dakóta. Fyrsta skrefið er ný lagasetning á Alþingi. Þar þarf að skilgreina samfélagsbanka. Banki sem er eingöngu viðskiptabanki en ekki fjárfestingabanki. Fjárfestingabankar taka miklu meiri áhættu sem viðskiptabankar gera ekki. Sú áhættusækni olli bankahruninu 2008. Auk þess á bankinn ekki að vera hagnaðardrifinn en einkabankarnir þrír á Íslandi hafa innheimt um 4-500 milljarða á liðnum 8 árum í hagnað sem er hreinn kostnaður fyrir viðskiptavini. Samfélagsbanki hefur samfélagslegar skyldur og skilar hugsanlegum hagnaði aftur til samfélagsins. Reynslan sýnir að samfélagsbankar eru ódýrari fyrir viðskiptavini og fara sjaldnar í þrot. Banki Norður Dakóta skaðaðist ekki af bankahruninu 2008. Til er þýskur samfélagsbanki sem heitir Sparkasse og er 200 ára gamall og hefur hann 50 milljón þjóðverja sem viðskiptavini en þjóðverjar eru 80 milljónir. Þetta er vel hægt á Íslandi. Dögun vill nota tækifærið núna og breyta þeim bönkum sem nú þegar eru í eigu ríkisins í samfélagsbanka með sérstakri lagasetningu. Þess vegna verður Dögun að komast á þing til að koma þessum breytingum í framkvæmd.

Þessi grein birtist í Bændablaðinu 20. október.

 

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er hér góð fræðslumynd um Norður Dakótabankann.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur