Laugardagur 13.11.2010 - 00:33 - FB ummæli ()

Hvað eru peningar

Við erum stöðugt að velta fyrir okkur vandamálum tengd peningum, reyndar eru vandamál okkar mun frekar tengd skorti á peningum. Hvað eru þá þessir peningar?

Í upphafi stunduðu menn vöruskipti en fóru síðan að nota ákveðnar vörur sem viðmið, þ.e. peninga. Flest öll þjóðfélög komu sér upp peningum í einhverju formi. Viðkomandi vara/hlutur hafði þá sitt eigið verðmæti auk þess sem hann var viðmið í viðskiptum.

Í Mesópótamíu og Egyptalandi til forna var uppskeran geymd í sérstökum vöruhúsum sem seinna meir urðu bankar. Menn gátu þá ávísað á sinn hluta af uppskerunni til greiðslu á skuldum.

Síðan komust menn upp á lag með að búa til mynt. Sömu átök voru þá og nú um að allir vildu að sín mynt yrði heimsmyntin. Víxlarar voru menn sem skiptu myntum og komu sér oft fyrir á fjölmennum stöðum. Frægt er þegar Jesús velti um koll borðum þessara bankamanna og rak þú út úr musterinu, eina skiptið sem Jesús beitti ofbeldi.

Ávísanir tengdust verðmætum og mynt var hægt að bræða. Peningar voru lengi vel skiptanlegir fyrir gull en það var afnumið 1971. Í dag höfum við svokallaða „fiat“ peninga sem merkir „let it be done“ á ensku. Peningarnir hafa því ekkert eigið verðmæti og hafa gildi eingöngu vegna þess að þeir eru lögleiddir sem slíkir. Í dag skilgreinum við peninga út frá hagrænum þætti og segjum að peningar séu eitthvað sem hægt sé að greiða með. Einnig er hægt að nota peninga til að bókfæra skuldir og innistæður.

Peningar eru því miðill, við flytjum ákveðið magn af verðmætum frá einum aðila til annars. Við gætum líka haft unnar klukkustundir sem einingu og þá greiðir maður fyrir mjólkina með ákveðnum fjölda af unnum klukkustundum í staðinn fyrir krónur. Til þess að unnar klukkustundir virki þurfa þær að vera löggilt eining eða að hafa gildi eða traust almennings. Helstu einkenni peninga eru þá:

1.      Miðill-(gjaldmiðill) , t.d nota rithöfundar orð fyrir miðil.

2.      Krónur eru eining eins og t.d. kg, meter eða Celsíus.

3.      Peningar eru miðill sem við treystum á að geta notað í viðskiptum.

Megin ástæðan fyrir því að peningar virka er að við trúum og treystum því að við getum selt vörur fyrir peninga og að sá sem tekur við peningunum trúir því að hann geti keypt sér vörur fyrir peningana. Einnig getum við notað peninga til að telja saman skuldir og innistæður. Peningar eru því mælieining, mælieining fyrir verðmæti.

Þar sem peningurinn okkar hefur ekkert eigið verðmæti heldur er bara mælieining á verðmæti er í raun óskiljanalegt að við séum alltaf að rífast um þessa mælieiningu. Ef ég afhendi þér einn lítra af mjólk þá trúir þú því að um sé að ræða einn lítra og getur þar að auki  sannreynt það. Síðan metum við verðmæti eins lítra af mjólk með mælieiningunni peningum, krónum í okkar tilfelli. Verðmætið er raun falið í afurðinni mjólk, vinnunni og kostnaðinum við að framleiða mjólkina. Við mælum síðan magnið með lítrum og verðmætið með krónum. Bóndin fær síðan ákveðið magn af krónum sem hann getur síðan notða til að eignast fóður fyrir kýrnar. Verðmæti mjólkurinnar var flutt með peningunum frá mjólk til fóðurs. Bóndinn hefði alveg eins getað flutt verðmætin með því að skrifa lítrafjöldann á miða en ekki krónur. Þá hefði þurft að vera almenn sátt um það að lítrar væru eining fyrir verðmæti. Í dag eru bara krónur notaðar og er eini löglegi miðillinn fyrir verðmæti.

Það sem ég skil ekki,  hverjum datt það í hug að gefa bönkum einkaleyfi á því að búa til peninga. Hvers vegna hefur Húsasmiðjan ekki einkaleyfi á metrum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur