Sunnudagur 19.12.2010 - 19:39 - FB ummæli ()

Búum við í einræðisríki

Núna er Alþingi Íslendinga komið í jólafrí. Á lokasprettinum samþykktu þingmenn fjárlagafrumvarpið. Þar er gert ráð fyrir bæði niðurskurði og skattahækkunum í boði bankanna.

Fjárlögin túlka ranga nálgun á því hvernig við eigum að leysa bankakreppuna og auk þess standast fjárlögin ekki skoðun. Sem dæmi þá gera lögin ráð fyrir nokkuð góðum hagvexti, um 3%, en spáin núna er tæplega prósent fyrir næsta ár. Nálgun fjárlaganna snýst um að bremsa hagvöxt með skattahækkunum og niðurskurði.  Þess vegna er mjög sennilegt að fjárlögin haldi ekki út árið og að leiðrétta þurfi mistökin á árinu 2012. Þessi atriði hefðu átt að vera fyrirsagnir, blaðamenn hefðu átt að setja hausinn í bleyti og ráðfæra sig við marga hagfræðinga. Í kjölfarið hefðu átt að vera fréttaskýringaþættir.

Þess í stað snýst umræðan mest um vanlíðan foringjanna þegar þremenningarnir í VG sátu hjá. Hvort slíkt hefði gerst áður á Alþingi eða ekki. Blaðamenn gátu ekki höndlað kjarnann eða hina málefnalegu umræðu. Blaðamönnum er vorkun, við Íslendingar erum ekki neinir dúxar í málefnalegri umræðu. Við spörkum frekar í sköflunga, öskrum og æpum, en látum boltann vera.

Hér á landi þarf margt að breytast ef vel á að fara. Við þurfum að læra málefnalega umræðu og reyna að hlusta eftir rökum annarra. Núna þá horfum við bara á viðkomandi og ef hann er ekki í liði með okkur þá er hann asni og allt sem hann segir er rangt. Einnig er lífsspursmál fyrir þjóðina að hún noti tíma sinn frekar til að kynna sér málefnin með sjálfstæðum hætti en að horfa bara á sápuþætti í sjónvarpinu. Sem borgarar í lýðræðisþjóðfélagi er það skylda okkar að kynna okkur málin og taka upplýsta ákvörðun.

Vel upplýstur almenningur mun styðja góð málefni og hafna slæmum. Þess vegna mun virkur almenningur bæta þjóðfélagið sem við lifum í.

Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna svona mörgum finnst nánast vonlaust að standa í baráttu fyrir breytingum, hvers vegna almenningi finnist ekki taka því að kynna sér málin á eigin spýtur. Látum við spunameistarana stjórna okkur eða er hugsanlegt að við upplifum okkur búa í einhverskonar einræðisríki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur