Þriðjudagur 21.12.2010 - 22:14 - FB ummæli ()

Kranablaðamennska eða sannleikurinn

Ég las pistil Láru Hönnu hér á Eyjublogginu „sannleikurinn og fjölmiðlanir“. Það er pistill sem enginn á að láta fram hjá sér fara. Í pistlinum hefur Lára Hanna sett inn myndina „The War You Don’t See“  eftir John Pilger. Þessa mynd verða allir að skoða. Í mjög stuttu máli segir hún frá því hvernig spunameistarar stórveldanna undirbúa jarðveginn áður en þeir fara í stríð eða taka upp á einhverju álíka gáfulegu. Í myndinni kemur skýrt fram að blaðamenn láta misnota sig og gera sig seka um gagnrýnislaus vinnubrögð. Það sem á íslensku er kölluð kranablaðamennska. Blaðamenn eru því í raun hluti af áróðursvél valdhafanna.

Síðustu daga hafa íslenskir spunameistarar sett upp farsa sem uppfyllir flest skilyrði þeirrar kranablaðamennsku sem lýst er í mynd John Pilger. Þrír þingmenn VG, þau Ásmundur, Atli og Lilja, tóku þá ákvörðun að greiða ekki atkvæði með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þau birtu yfirlýsingu þar sem þau rökstuddu ákvörðun sína.

Öll umræða eftir það hefur snúist að mestu leyti um allt aðra hluti en rökstuðning þeirra fyrir hjásetu. Þremenningarnir hafa auglýst eftir málefnalegri umfjöllun, þau hafa kallað eftir því að þeim sé mætt með málefnalegri rökræðu. Gagnrýni þeirra á vinnubrögð foringjanna er ekki megin ástæðan fyrir því að þau sátu hjá. Þessir tveir þættir, hjásetan og gagnrýnin á foringjaræðið, hafa fengið mest rými í umræðunni þrátt fyrir að þessir tveir þættir séu ekki aðalatriðin. Í kjölfarið kemur svo umræða um að þau séu ekki í liði, svíki samherja, skaði liðsheildina og verði að gera upp hug sinn hvoru megin línu þau standa. Hér eru spunameistararnir á ferð og kranablaðamennskan fylgir í kjölfarið eins og þægur rakki.

Gagnrýni þremenninganna á fjárlagafrumvarpið snýst um grundvallaratrið. Hún snýst um hvers konar efnahagsstefnu íslensk stjórnvöld ætla að fylgja. Þremenningarnir eru ekki sáttir við að vinstri ríkisstjórn Íslands fylgi stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er í ætt við nýfrjálshyggju. Þau vilja að ríkisstjórnin marki sér sjálfstæða stefnu sem helgast af þeim gildum sem vænta má af ríkisstjórn sem kennir sig við vinstri stjórnmál. Flóknara er það ekki.

Ef einhver blaðamaður gæti reynt að lesa í mismuninn á þessum tveimur stefnum og reyndi að leggja sjálfstætt mat á þær. Ef fjölmiðlar héldu síðan umræðunni innan málefnalegra marka og létu hanaslag stjórnmálanna ekki þekja forsíður fréttanna væri strax mikið unnið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur