Laugardagur 12.02.2011 - 23:17 - FB ummæli ()

Erum við eyland

Icesave er aftur komið á dagskrá og mun í næstu viku verða afgreitt frá Alþingi. Sem fyrr er komin fram netsíða til að safna undirskriftum gegn Icesave, kjosum.is. Aðstandendur síðunnar munu kynna síðuna á mánudagsmorguninn kl 11. Sennilega verður Alþingi búið að samþykkja Icesave sólahring síðar, mönnum liggur á.

Ólafur Margeirsson hagfræðingur bendir á að Icesave auki skuldabyrði ríkissjóðs úr 90% af landsframleiðslu í 130%. Svo mikil skuldabyrði getur enginn ríkissjóður staðið undir nema hann fari til umboðsmanns skuldara, þ.e. Parísaklúbbsins eða þá verði í gjörgæslu AGS í áratugi eins og Haítí eða Egyptaland.

Ef þessi gáfaða og vel menntaða þjóð sem er svo nettengd að hún getur aflað sér allra upplýsinga samþykkir Icesave verður svo að vera. Þá verður maður að kyngja stolti sínu og viðurkenna að þessi einstaka þjóð er alveg eins og allar aðrar. Sagan kennir okkur að þjóðir í okkar stöðu láta traðka á sér í 20-30 ár og síðan springur blaðran. Argentína, Chile og Egyptaland sem dæmi. Í millitíðinn er öllum auðlindum rænt af viðkomandi þjóð og hún skilin eftir skuldum vafin.

Kannski er til of mikils mælst að við verðum undantekningin sem sannar regluna, en það má þó reyna.  Ef við samþykkjum Icesave erum við ekki bara að bregðast börnunum okkar og skilja þau eftir í skuldasúpu, við erum einnig að bregðast öllum þeim fjölmörgu þjóðum sem eygðu von í baráttu sinni við ósvífna lánadrottna. Skilaboð Íslendinga til umheimsins munu verða þau að nægjanlega margir Íslendingar séu í liði með lánadrottnum heimsins, vegna þess að við þorðum ekki annað. Þar með höfum við lagt okkar af mörkum til að skuldir þjóða munu aldrei verða afskrifaðar. Þar með mun skuldin halda áfram að myrða 22 þúsund börn á dag.

Við erum ekki eyland ef einhver hélt það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur