Þriðjudagur 26.04.2011 - 21:51 - FB ummæli ()

Hvernig er komið fyrir okkur

Íslensk þjóð er ekkert betri eða verri en aðrar þjóðir. Mörg okkar höfðum bara svo miklar væntingar og þess vegna verða til vonbrigði. Við töldum að viðsýni og óvenjuhátt menntastig og greind myndi gera gæfumuninn, svipað og við héldum um útrásarvíkingana og bankamennina á sínum tíma. Eins og þeir voru bara venjulegir er þjóðin okkar líka bara ósköp venjuleg þjóð.

Fréttamiðlarnir segja okkur sögur af einstaklingum sem eiga ekki fyrir nauðþurftum og þeim hafi fjölgað mikið á undanförnum árum. Ok, til að svara stjórnarsinnum strax þá vitum við vel að slíkt var til þegar vinur ykkar Davíð Oddson var við stjórn en við héldum bara að vinstri menn væru vinir litla mannsins. Þrátt fyrir almenna borgarafundi með ráðherrum og fundi með Jóni Gnarr til að koma viðkomandi í skilning um hvað fátækt er í landi alsnægtanna gerist ekkert. Enn eru matargjafir og þiggjendur taldir í þúsundum.

Bankar og fjármálafyrirtæki hafa lagt hundruði fyrirtækja í rúst, fyrirtæki sem skópu atvinnu fyrir þúsundir. Ævistarf fólks gert að engu vegna hagsmuna banka, þjóðinni hafnað með góðfúslegu leyfi stjórnvalda. Sömu sögu er að segja af heimilum fólks, uppeldisstöðvum þeirra sem landið skulu erfa. Heimilin boðin upp og fjölskyldum hent út til að bjarga sér á eigin spýtur á berangri tilverunnar. Það voru stjórnvöld sem leyfðu bönkunum að gera Ísland gjaldþrota og sömu stjórnvöld hleypa hýenum bankakerfisins út á akurinn til að kroppa í hræin eftir bankahrunið.

Biskupinn segir okkur að vera góð við hvort annað og þreyja þorrann. Ef ég vissi ekki betur gæti ég haldið að hann hefði aldrei lesið Biblíuna. Jesús var byltingarsinni og gekk á móti straumnum, sennilega talinn skrítinn af stjórnvöldum þess tíma. Hann velti um borðum bankamanna þess tíma, eina skiptið sem Jesús sýndi af sér ofbeldi. Kristin kirkja ætti að stofna til mótmæla um hverja helgi vegna framferðis bankakerfisins í dag eða þó það væri ekki nema vegna þess sem Jesú sagði, það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið og þeim gjöra.

Sama gildir um þjóðina okkar. Hún ætti að mótmæla og gera byltingu. Ekki erum við sátt við að þúsundir þiggi matargjafir og sumir svelta. Er það í lagi að allt sé skorið niður, laun og velferð. Atvinnuleysi, fyrirtækjum rústað, fólksflótti til annarra landa, óhamingja, sorg og brostnar vonir. Allt til að bankakerfi lifi af. Er það kjarninn í stefnu núverandi vinstri stjórnar?

Er það ekki þannig að bankarnir búa til peninga úr engu og hafa einkarétt á því sem hinir hafa ekki. Er það ekki þess vegna sem þeir ráða öllu? Er ekki full þörf á því að hagfræðingar og allir fari að velta því fyrir sér hvað eru peningar og hvort þjóðin eigi ekki að búa þá til sjálf sér til hagsbótar en ekki bönkunum eins og það er í dag?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur