Föstudagur 13.05.2011 - 22:32 - FB ummæli ()

Erum við þorskhausar

Gagnsæi í íslenskri stjórnsýslu sogast óðum ofan í firrta stofnanahyggju valdstéttarinnar. Þegar nýtt kvótafrumvarp er kynnt til sögunnar er þjóðin lang aftast á listanum yfir þá sem fá að lesa frumvarpið. Í staðin erum við mötuð eins og óvitar af fyrirfram matreiddum fréttum af hvað stendur hugsanlega í frumvarpinu. Leikritið spilast fumlaust fyrir framan alþjóð, hótanir um að rifta kjarasamningum en síðan fellur sennilega allt í ljúfa löð.

Ólesið er frumvarpið farið að valda deilum.

Það virðist vera sem allir innan valdstéttarinnar viti hvað stendur í frumvarpinu og geri sér grein fyrir afleiðingum þess. Almenningur fær ekkert að lesa nema það sem honum er skammtað.

Hér er um eitt heitasta deilumáli síðari tíma að ræða. Landsbyggðarfólk hringinn í kringum landið hefur fengið að finna fyrir óheftum markaði í sókn sinni fyrir hámarksávöxtun fyrir þá en ekki okkur. Þegar biðin lengdist eftir brauðmolunum sem áttu að hrynja af nægtarborði markaðarins gáfust íbúar sjávarbyggðanna upp á því að bíða og fluttu. Eftir situr í heimabyggð stór hluti af lífi viðkomandi og öll framtíðin sem aldrei varð. Hver er réttur þessara einstaklinga að lesa viðkomandi frumvarp?

Var ekki einhver að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu?

Kvótakerfið sem var gerði ekkert annað en að minnka afla úr sjó og einskorða veiðiheimildir til fárra útvaldra þannig að nýliðun var mjög lítil ef nokkur í stéttinni. Spurningin sem þjóðin spyr sig mun mannréttindabrotum linna með nýju kvótafrumvarpi og  mun afli aukast úr sjó.

Því miður mun þjóðin ekki geta gert sér miklar vonir um að arðurinn af auðlindinni muni falla henni í skaut. Útgerðarfélögum landsins hefur tekist að skuldsetja sig svo mikið að mest allur arður sjávarútvegsins rennur inn í bankana í formi afborgana af lánum.

Það virðist sem allt, bæði lauslegt og fast, renni inn í bankana. Það skiptir sennilega engu máli hvernig menn afgreiða blessað kvótafrumvarpið því útgerðin verður alltaf að eiga fyrir afborgunum og annað smálegt eins og mannréttindabrot munu mæta afgangi.

Þess vegna er þjóðin aftast í röðinni af álitsgjöfum því að hún er ekki gildur hagsmunaaðili á eign sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur