Miðvikudagur 18.05.2011 - 22:37 - FB ummæli ()

Að þurrka rykið af peningunum

Í gegnum tíðina hafa margir aðilar tjáð sig um ábyrgð banka á tilverunni. Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur sú umræða verið vaxandi. Nú er svo komið að mjög mikið af fréttum snúast um óeðlilegt hátterni þeirra. Skýrslur eru skrifaðar og margir tjá sig á netinu. Að auki hafa dómstólar dæmt þá seka fyrir lögbrot gegn almenningi. Það verður allt ljósara fyrir almenningi að bankarnir eiga sér vitorðsmenn hjá valdastéttinni. Jafnvel gengur það svo langt að upplifun sumra er frekar sú að það séu bankarnir sem stjórni en ekki valdstéttin.

Hverju sætir? Hvers vegna gerir fólk ekki uppreisn gegn bönkum?

Ef veröldin hefði hafist með litlu þorpi úti á landi og þú byggir þar. Kaupfélagið, sem allir þorpsbúar eru hluthafar í,  er þungamiðja staðarins og þar leggja allir inn framleiðslu sína. Síðan gátu menn tekið aðrar vörur út á inneign sína eða fengið inneignarnótu. Þar sem kaupfélagið naut svo mikillar virðingar í þorpinu þá gátu menn notað inneignarnóturnar sínar til að kaupa aðra hluti hjá öðum fyrirtækjum. Ef menn vantaði dekk á bílinn þá var hægt að setja inneignanóturnar upp í verð dekkjanna. Það var þó háð því að dekkjasalanum vanhagaði eitthvað sem kaupfélagið hafði að bjóða. Þess vegna gengu slík viðskipti ekki alltaf vel fyrir sig og erfitt gat verið að jafna út það sem út af stóð. Enn sem komið er ekki búið að finna upp peninga í litla þorpinu okkar.

Kaupfélagsstjórinn,  sem var mjög vandaður maður og umhugað um litla þorpið(sitt), vildi finna lausn á þessum þætti mannlegra samskipta, sem stundum eru kölluð viðskipti. Hann lét prenta miðakort, svipað og strætómiðakortin sem við nútímamennirnir þekkjum.  Kaupfélagsstjórinn ákvað líka verðgildi miðanna, eitt kort með 100 miðum jafngilti einum fullburða kálfi. Þegar menn lögðu inn framleiðslu sína hjá kaupfélaginu fengu þeir því ákveðinn fjölda af miðum í staðinn, allt eftir verðmæti framleiðslunnar. Eftir það gengu viðskiptin vel og allir gátu framkvæmt að vild og eftir getu sinni, alltaf var hægt að skiptast á verðmætum meðan einhver þörf var fyrir þau. Auk þess voru þeir sem voru duglegir að framleiða vörur mestir meðal jafningja.

Kaupfélagsstjórinn sem réð þó mest öllu í þorpinu sat þó í þorpsráðinu fyrir kurteisis sakir. Þar kom hann með miðana sína og þorpsráðið gat látið framkvæma ýmislegt sem þurfti að sinna í þorpinu. Það greiddi með miðunum fyrir þá verðmætasköpun sem unnin var fyrir þorpið.

Að sjálfsögðu voru miðarnir sjálfir nánast verðlausir, bara smá prentkostnaður sem kaupfélagsstjórinn tók á sig.

Tíminn leið og síðan flutti maður í þorpið(aðkomumaður). Hann keypti prentsmiðjuna af kaupfélaginu þar sem kaupfélagsstjórinn hafði látið prenta miðana sína fyrir fólkið sitt í þorpinu sínu. Aðkomumaðurinn breytti leikreglunum aðeins. Honum tókst að fá þorpsráðið til að samþykkja lög þess efnis að öll viðskipti skyldu fara fram með miðunum úr prentsmiðjunni hans. Hingað til höfðu menn notað miðana, vöruskipti, vinnuskipti eða gömlu inneignanóturnar jöfnum höndum. Eftir að aðkomumaðurinn hafði öðlast einkaleyfi á mannlegum samskiptum þorpsbúa hvað viðkemur viðskiptum með hjálp löggjafans á staðnum þá breytti hann verðskránni á miðunum. Í staðin fyrir að selja miðana á raunkostnaði auk smá heildsöluálagningar þá ákvað hann að lána mönnum miðana á því verðgildi sem þeir túlkuðu. Þannig ef atvinnurekandi sem var vanur að láta vinnumann sinn fá 100 miða á mánuði þurfti nú framvegis að fá 100 miða lánaða hjá aðkomumanninum og skrifa upp á að hann lofaði að endurgreiða honum 100 miðana á ákveðnum tíma liðnum. Eins og við munum þá túlkuðu 100 miðar einn fullburða kálf en voru ekki sjálfir virði eins kálfs. Einnig vildi aðkomumaðurinn fá 10% vexti vegna þess að hann sagði að hann gæti ávaxtað miðana sína betur annarstaðar og því bæri lántakandanum að bæta sér skaðann.

Eftir það varð gamli kaupfélagsstjórinn og vörubílstjórinn hans algjörlega valdalusir í litla þorpinu því að prentsmiðjueigandinn réði núna lögum og lofum. Allir í þorpinu fóru nú að skulda prentsmiðjunni og jókst það með hverju árinu. Kaupfélagið og síðan þorpsráðið urðu stórskuldug með tímanum því allir, almenningur, fyrirtæki og opinberir aðilar voru tilneydd til að nota miða prentsmiðjunnar í öllum sínum viðskiptum. Miðarnir fengust ekki nema sem lán hjá prentsmiðjunni og þá þurfti að endurgreiða.

Þorpsráðið réð ekkert við skuldirnar og fór því að innheimta skatta hjá þorpsbúum til að endurgreiða prentsmiðjunni miðana sem það þurfti svo nauðsynlega til að geta stundað sínar framkvæmdir. Atvinnurekendur lentu líka í skuld við prentsmiðjuna og  reyndu allt sem þeir gátu til að lækka kaup vinnumanna sinna og að reka þá áfram svo þeir framleiddu sem mest á tímaeiningu. Vinnumenn og atvinnurekendur urðu frá og með þessari stundu óvinir og urðu til verkalýðsfélög í þorpinu, atvinnurekendur fengu viðurnefnið kapitalistar. Verkamenn fóru í verkfall til að fá fleiri miða. Þegar verkamenn höfðu fengið sína kauphækkun þá þurfti að prenta fleiri miða og skuld þorpsins við prentsmiðjuna jóks sem því nam. Sú atburðarrás hefur reyndar margendurtekið sig síðan.

Þar sem aðkomumanninum hafði ekki hugnast að prenta miða fyrir vöxtunum heldur bara fyrir höfuðstólnum af miðunum sem hann lánaði fólkinu í þorpinu þá fór að bera á vandræðum við að standa í skilum. Ef allir í þorpinu voru að nota miðana sína þá voru engir miðar afgangs til að standa skil á vöxtunum. Aðkomumaðurinn gat leyst það með því að prenta fleiri miða og lána meira. Einnig leystist þetta oft þannig að þorpsbúar fóra að etja kappi hvor við annan um miðana. Endaði það oftar en ekki að einhver þorpsbúinn varð gjaldþrota og þá leystust úr læðingi miðarnir hans sem hinir gátu notað til að eiga fyrir vöxtunum.

Aðkomumaðurinn okkar var haldinn sveiflóttri kvíðaröskun(cýclisk hegðun). Stundum vantreysti hann allt og öllum og þverneitaði að lána nokkrum þorpsbúa miða. Afleiðingin varð sú að þrátt fyrir að allir þorpsbúar væru með sínar vörur þá gátu þeir ekki stundað viðskipti nema að takmörkuðu leyti og því urðu margir gjaldþrota. Aðra skorti miða til að standa í skilum við prentsmiðjuna og misstu því hús og bíl en aðkomumaðurinn hafði þá venju að taka veð í eigum þorpsbúa þegar hann lánaði þeim miðana. Fljótlega fór aðkomumaðurinn að finna fyrir því að það minnkaði í kassanum hjá honum því hann treysti engum til þess að fá lán hjá sér. Hann ákvað nú samt að treysta þorpsráðinu og vildi lána þeim. Þar sem honum hafði tekist á sínum tíma að sannfæra þorpsráðið um það að hann ætti að hafa einkaleyfi á því að prenta miðana þá varð það honum ekki erfitt að telja þeim trú um að þau yrðu að taka hjá sér stórt lán af miðum. Miðana yrði síðan þorpsráðið að setja strax aftur inn hjá prentsmiðjunni því bæði þá væru svo fáum treystandi til að lána nýja miða og hitt að margir hefðu farið á hausinn og því væru endurheimturnar lélagar á gömlu miðunum. Þorpsráðið samþykkti þetta að sjálfsögðu því mörkuð hafði verið sú stefna að að tryggja rekstrargrundvöll prentsmiðjunnar þannig að hún tæki ekki á sig meiri skuldbindingar en hún réði við vegna yfirtöku gömlu miðanna og eigna þorpsbúa. Í kjölfarið hækkaði þorpsráðið svo skattana hjá þorpsbúunum til að geta endurgreitt nýja lánið.

Nú eru liðin nokkur hundruð ár og þar sem aðkomumaðurin er með sveiflótta kvíðaröskun þá hefur það í för með sér að stundum treystir hann öllu og öllum allt of vel. Þá prentar hann mjög mikið af miðum og lánar þá á útsöluprís þannig að þá keppast allir þorpsbúar við að fá lánaða miða hjá honum, því hver vill missa af góðri útsölu. Þá ganga viðskiptin vel og fólk getur stækkað við sig og keypt sér nýjan bíl.

Spekingarnir hafa skilgreint þessar sveiflur í viðskiptunum sem kreppur og bólur og tala um cýklíska ekónómíu. Þeir telja að hópahegðun(=heimska) ráði för þorpsbúa í viðskiptunum og stjórnist af afli sem þeir nefna markað. Markaðurinn hefur þá eiginleika að vera alvitur, alráður og blessunarríkur ef þú þóknast honum. Þessi hugtök eru þorpsbúum vel kunn því presturinn hefur marg oft talað um þessa eiginleika hjá guðunum og reynslan hefur kennt þeim að illa fer ef eitthvað hallar á trúræknina.

Það er eins og með alkann, hann er æðislegur þegar hann er þurr og þess vegna fyrirgefa þorpsbúar alltaf sveiflótta hegðun aðkomumannsins.

Það er eins og meða alkann, þetta er ekki honum að kenna, nei að sjálfsögðu er þetta allt þorpsbúunum að kenna.

Núna eru allir búnir að gleyma gamla kaupfélagsstjóranum og kerfinu hans til að liðka fyrir flutningi á verðmætum frá einum þorpsbúa til annars.

Fyrir þá sem eru ósáttir við prentsmiðjur dagsins í dag væri hollt að glugga í sögu mannsins og velta fyrir sér að taka upp aðra aðferð, aðferð sem þarf ekki einu sinni að finna upp, bara að þurrka rykið af.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur