Fimmtudagur 14.07.2011 - 21:19 - FB ummæli ()

Hliðið í Brekkukoti

Suma dreymir um að koma fjórflokknum frá völdum og endurreisa lýðveldið okkar á Íslandi. All marga dreymir  um ekki neitt nema Kringluna og Smáralind.

Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld þá er ekki hægt að breyta kvótakerfinu því þá skaðast bankarnir. Það er að segja, þá skiptir ekki máli þó að sjávarútvegsfyrirtæki landsins fengju nýtt kvótakerfi sem þau væru ánægð með, því það dugar ekki. Ástæðan er sú að fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands þarf að skila eins miklum hagnaði inn í bankana og nokkur kostur er. Því er það ljóst að Sægreifarnir eru bara peð, þeir eru skuldum vafðir og þess vegna verða þeir að sæta afarkostum lánadrottna sinna, þ.e. bankanna.

Styrmr Gunnarsson skrifar um óeðlileg samskipti stjórnmálamanna og bankavaldsins í Evrópu. Þeir sem hafa fylgst með fréttum frá Grikklandi, Írlandi, Portúgal og núna frá Ítalíu skilja hvað hann er að velta fyrir sér. Það virðist ekki skipta máli hvaða flokka eða stefnur almenningur kýs til að stjórna fyrir sig því alltaf er beitt sömu uppskriftinni í öllum tilfellum. Afrakstur þeirrar uppskriftar er að almenningur tekur á sig tap bankanna með auknum sköttum og niðurskurði. Þar sem bankarnir hagnast á öllum hugsanlegum ríkisstjórnum, hvort sem þær eru vinstri-miðja eða hægri, þá er það nokkuð augljóst að bankarnir stjórna en ekki almenningur. Myndum við sætta okkur við það að dekkjaverkstæði landsins veltu öllum sínum taprekstri yfir á almenning?

Því ætti það að vera nokkuð ljóst að bankar stjórna hvernig fiskveiðistjórnunarkerfi verður hannað á Íslandi og hitt að bankar stjórna Evrópusambandinu hvað svo sem líður lengd eða formi agúrka á meginlandinu.

Á meðan almenningur og stjórnmálamenn á Íslandi átta sig ekki á þessu mun fjórflokkurinn halda völdum. Á meðan fjórflokkurinn fylgir fjármálavaldinu er honum óhætt og mörgum stjórnmálamanninum er hætt við að leita skjóls hjá honum. Dæmin sýna að einmanna stjórnmálamenn eða litlir flokkar hafa mikla tilhneigingu til að dragast inn í skjól fjórflokksins, hvað svo sem skoðunum þeirra á fjármálaauðvaldinu líður. Þeir sem þráast þó við og halda skoðunum sínum til streitu er mjög hætt við að komast hvorki lönd né strönd sökum fjárskorts. Á þann hátt beinir fjármálavaldið til valda einstaklingum og flokkum sem eru þeim hliðholl.

Til að kóróna hjálparleysi þess hluta almennings sem vill þó sameinast gegn fjórflokknum þá  sér innbyrðist sundurþykki og sjálfhverfni til þess að ekkert afl myndast sem hefur roð í valdastétt landsins. Á meðan þetta ástand varir mun fjármálavaldið með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og núverandi ríkisstjórn stilla af verksmiðjuna Ísland þannig að hún skili hámarks afköstum og sem mestum hagnaði til bankakerfisins.

Það er bylting í gangi hjá almenningi í Evrópu gegn bankavaldinu. Ef þeir straumar komast um hliðið í Brekkukoti, þá á Ísland einhverja von.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur