Sunnudagur 07.08.2011 - 11:13 - FB ummæli ()

Hvort hefur Ögmundur efni á göngum eða bönkum

Ögmundur ráðherra sagðist ekki getað grafið ný Norðfjarðargöng vegna þess að hann skorti peninga. Ef hann hefði sagt að hann gæti ekki grafið göngin vegna þess að hann hefði ekki skóflur þá hefðu margir talið hann svolítið klikk-ekki satt?

Ögmundur hefur allt til alls til að grafa göng, s.s. mannafla, tækni, tól og kunnáttu. Auk þess bíður fjallið á sínum stað. Þrátt fyrir að allt sé til staðar verður Ögmundur að sýna algjört valdaleysi sitt með þeim orðum að hann hafi ekki peninga til að grafa göng.

Skófla er verkfæri og það eru peningar líka. Skófla getur flutt mold, sand eða gull frá einum stað til annars. Þ.e.a.s. skófla getur flutt verðmæti frá einum stað til annars. Peningar gera það líka.

Ef bóndinn kemur með mjólkina sína í mjólkurbúið og þarf síðan að kaupa fóður fyrir kýrnar sínar í annarri búð þarf hann að geta flutt verðmæti mólkurunnar til fóðursalans. Ef sá sem selur fóðrið vantar mjólk gætu þeir framkvæmt vöruskipti en það er ósennilegt að fóðursalinn geti drukkið alla mjólkina frá öllum bændunum í sveitinni. Þess vegna notum við peninga. Peningar eru skóflur sem flytja verðmæti frá einum stað til annars. Auk þess eru peningar eining fyrir verðmæti eins og metrar eru eining fyrir lengd. Einnig getum við geymt verðmæti í skóflunni/peningum til seinni nota.

Það sem er nauðsynlegt að skilja er að fyrst framleiðum við verðmæti og þegar við höfum gert það skapast þörf fyrir peninga. Ef við þurfum ekki að moka eða grafa er engin þörf fyrir skóflur. Þegar verðmætin hafa verið mynduð búum við til peninga til að meta, flytja eða geyma verðmætin.

Verðmætin eru fógin í því sem skóflan flytur og hún getur gert það margsinnis. Skóflan er ekki verðmætin. Það sama á við um peninga.

Þess vegna þarf Ögmundur ekki skóflu nema hann ætli að grafa Norðfjarðargöng. Þess vegna þarf Ögmundur ekki peninga fyrr en hann er búinn að skapa verðmæti, t.d. Norðfjarðargöng. Þar sem peningar væru skilgreindir rétt myndi verktakinn fyrst búa til verðmætin, Norðfjarðargöng, og síðan myndi Ögmundur skaffa verktakanum skóflur/peninga til að flytja þá verðmætasköpun um þjóðfélagið. Hvernig ætti verktakinn annars að geta keypt sér mjólk í Bónus. Ögmundur myndi búa til þessa peninga á kostnaðarverði, og þar sem peningar eru að mestu rafrænir væri það nánast úr engu.

Sjálfsagt finnst þér þetta geggjað hjá mér.

Það sem er þó virkilega geggjað er að bankarnir gera þetta á hverjum degi og rukka fyrir það.

Í dag verður almenningur að fá skóflurnar/peningana að láni hjá bönkum. Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga. Verðmiðinn á skóflum/peningum tekur mið af hversu mikil verðmæti skóflan/peningarnir flytja. Ef ég fæ skóflu/peninga sem geta flutt 1000 krónur frá einum stað til annars þarf ég að lofa að borga bankanum 1000 krónur til baka auk vaxta. Þess vegna þarf ég að vinna fyrst fyrir 1000 krónunum til bankans og síðan þarf ég að vinna til að eiga ofan í mig og mína. Þar sem Ögmundur þarf líka að fá peninga/skóflur að láni hjá bankakerfinu þarf hann að skattlega þjóðina til að geta borgað bönkunum til baka peninga sem þeir bjuggu til úr engu.

Peningar eru verkfæri eins og skóflur og bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar. Ögmundur hefur ekkert með það að gera og þess vegna getur hann ekki grafið göng til Neskaupsstaðar frá Eskifirði. Þess vegna situr hann og stendur eins og bönkunum þóknast. Þess vegna skiptir engu máli hvaða pólitíska skoðun hann hefur því hann getur ekki gert neitt nema bankarnir samþykki að lána honum peninga. Núna er staðan slík að hann getur ekki tekið meiri lán vegna þess að ríkissjóður er svo skuldsettur. Ástæðan er að megnið af skatttekjum okkar hefur farið í að endurreisa bankakerfið og stór hluti fer í að borga vexti af skuldunum við bankakerfið. Þess vegna stjórnar bankakerfið Íslandi en ekki kjörnir fulltrúar almennings.

Það er rætt um víða veröld hvort við höfum efni á hinu eða þessu og þá er spjótunum venjulega beint að velferðarmálum. Aftur á móti er stærsti kostnaður tilverunnar greiðsla allra til bankakerfisins fyrir afnot af verkfærinu peningum sem þeir hafa einokun á að búa til. Hvort höfum við efni á velferðarmálum eða að halda uppi bankakerfi sem býr til peninga úr engu og meira að segja lætur okkar borga dýru verði fyrir.

Bölvun peningasköpunar sem skuld blasir við öllum sem fylgjast með og vonandi mun Sigtúnsmaðurinn Ögmundur Jónasson sjá ljósið og skilja samhengi hlutanna.

Peningagaldur—The Money Scam

PENINGAR OG STJÓRNARSKRÁ 15 06 2011

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur