Fimmtudagur 29.09.2011 - 01:46 - FB ummæli ()

Laugardagurinn okkar eða þeirra

Það eru áhyggjur vegna reiðinnar í samfélaginu og sumir vilja troða henni niður um einhverja trekt svo hún valdi sem minnstum skaða. Sömu aðilar sjá ekki orsakir reiðinnar heldur upplifa hana sem eitthvað sem skyggir á útsýnið úr fílabeinsturninum. Vandamálið við reiði almennings er ekki skortur á áfallahjálp. Flestir þeir sem eru reiðir eru vel þroskað og sjálfbjarga fólk sem veit ósköp vel hvernig á að sjá sér og sínum farborða. Almenningur hefur verið sviftur möguleikanum á að bjarga sér á eigin spýtur og þeir sem geta það ekki hafa verið sviftir öryggisneti samfélagsins. Hjálpastofnanir reyna að grípa þá sem eru í frjálsu falli.

Reiðin í dag er miklu frekar einkennandi fyrir dýr sem er lokað inní búri. Það getur ekki skilið hvers vegna það fær ekki að njóta alls þess sem er allt um kring um búrið.

Forseti Alþingis telur sennilega að dýrið í búrinu sofi út á laugardagsmorgnum.

Það sem almenningur sér er að bankarnir eru í gjörgæslu stjórnvalda. Bankarnir fá skotleyfi á almenning og síðan fá þeir að liggja á hræinu og sjúga blóðið úr honum í ró og næði. Almenningur skilur hvatir bankanna en vandamálið er að skilja hegðun stjórnvalda. Það er augljóst að stjórnvöld setja hag fjármagns ofar hag almennings. Almenningur upplifir að fjármagnið, bankarnir eigi alltaf síðasta orðið en ekki kjörnir fulltrúar okkar. Það er því augljóst að bankarnir, Wall Street stjórna kjörnum fulltrúm okkar. Þess vegna er málið að kjörnir fulltrúar okkar og framkvæmdarvaldið sé hræddara við okkur en við bankana.

Sonur minn sagði við mig, pabbi, ég skil bankana, ég skil Steingrím prinsipp lausan mann en ég skil ekki að þið sættið ykkur við þetta.

Þess vegna hlýtur krafa okkar á laugardaginn að vera að setja manngildið ofar fjármagni. Peningar eiga að vera verkfæri okkar en ekki þrælahaldarar.

Ok, ef við viljum breytingar þá er um að gera að krefjast breytinga okkur í hag fram yfir hag fjármagnsins og við þurfum að neyða okkar kjörnu fulltrúa til að fara að vilja okkar. Ef við sameinumst ekki um það er bara við okkur sjálf að sakast. Ef við getum ekki brotið odd af oflæti okkar og unnið með sem flestum og sameinast, óvinur þinn er óvinur minn, munum við ekki ná árngri.

Við skulum mæta á laugardaginn á Austurvöll og velta fyrir okkur hver er óvinur okkar. Við skulum sameinast gegn honum. Við skulum ekki velta fyrir okkur hoppikastala, tunnum, skemmtiatriðum eða einhverjum jólasveini sem við kunnum ekki við í hópnum. Við skulum ekki sundra okkur. Við verðum að sameinast til að öðlast styrk, ekki fyrir okkur heldur fyrir börnin okkar svo þau  búi áfram á landinu okkar. Einhver verður að heimsækja okkur á elliheimilið, eða hvað?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur