Miðvikudagur 28.12.2011 - 01:11 - FB ummæli ()

Kosningar-æfingin skapar meistarann

Sennilega eiga flestir stjórnmálaflokkar sem nú sitja á Alþingi það sameiginlegt að álíta að kosningar séu af hinu illa. Allt skal gert til að koma í veg fyrir kosningar. Þær skapa óvissu og eru kostnaður fyrir samfélagið. Flokkar eru ekki reiðubúnir í kosningar fyrr en stjórnarskráin knýr þá til þess.

Þessi hugsun er líka ríkjandi þegar rætt er um þjóðaratkvæðagreiðslur því mótrökin eru stundum þau að ekki sé hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur í hverri viku um öll möguleg mál.

Það hvarflar að manni, þegar hlustað er á forystumenn í þjóðmálumræðunni, að meirihluti þjóðarinnar sé ekki hæfur til þessa að taka afstöðu til ýmissa álitamála. Að meirihluti þjóðarinnar sé svo heimskur að ekki sé þess virði að spyrja hann ráða. Þessar hugmyndir um vanhæfni almennings eru að sjálfsögðu runnar undan þeim sem höndla valdið á hverjum tíma. Almenningur hefur ekki lagt í vana sinn að gjaldfella eigin visku til þess eins að skapa lögmál valdaelítunni til framdráttar.

Þrátt fyrir það þá virðast margir telja að forðast eigi álit almennings með öllum tiltækum ráðum. Bent er á að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, verði að sjá til þess að framkvæmdavaldið hafi nægjanlegan meirihluta til að spýta yfir okkur lögum og reglum án hindrunar. Í því felist stöðugleiki og áframhaldandi hamingja almennings. Kosningar séu ávísun á óstöðugleika. Þess vegna verða allir að sýna ábyrgð og ekki sé stætt á því að standa við prinsipp ef þau verða þess valdandi að almenningur verði fyrir þeirri ógæfu að lenda í kosningum. Kosningum sem eru bara óstöðugleiki og ekki nokkrum manni til gagns, eða þannig sko.

Þess vegna finnst mér ábyrgð kjörinna fulltrúa vera umdeilanleg. Er hún einskorðuð við stöðugleika innan veggja Alþingis? Eða er hún á einhvern hátt tengd því valdi sem tilheyrir almenningi og er tímabundið fært í hendur fárra? Þar sem allar forsendur fyrir tilfærslu valds almennings til núverandi stjórnvalda eru brostnar er full þörf á nýju umboði.

Auk þess þegar haft er í huga að hreinsunarstarfið hófst í síðustu kosningum og það sér varla högg á vatni er augljóst að kosninga er þörf sem oftast. Helst einu sinni á ári að minnsta kosti. Öllum þeim sem vilja framgang raunverulegs lýðræðis ætti því að vera ljóst að því meiri æfing fyrir almenning því betra og er eina leiðin til að skapa meistarann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur