Sunnudagur 01.01.2012 - 01:25 - FB ummæli ()

Árið er liðið og hver er árangurinn

Náttúruöflin minntu á sig víðs vegar um heim og mannskepnan reyndi að hemja þau eftir bestu getu. Þrátt fyrir nauðsyn þess finnst mörgum mun mikilvægara að nota stóran hluta af skatttekjum almennings í hergögn, stríð og að endurreisa fallna banka. Skuldin hefur farið um heiminn á liðnum áratugum og skilið eftir auðn og dauða. Þjóðir hafa reynt að losna við hlekki skuldarinnar en verið mætt af ofbeldi. Almenningur á Vesturlöndum hefur á undandörnum árum fengið forsmekkinn af afleiðingum skuldarinnar sem löndin í Suðri hafa búið við lengi.

Almenningur í Bandaríkjunum sem telur sig búa við afgerandi skiptingu valdsins fékk ný lög á árinu. Lög sem leyfa bandaríska hernum að handtaka hvern sem er hvenær sem er og halda viðkomandi án dóms og laga um óákveðinn tíma. Evrópubúar munu safna bankastjórum álfunnar saman í Brussel og þeir munu taka allar ákvarðanir um fjármál Evrópulandanna. Afnám lýðræðis og réttinda almennings helgast af nauðsyn þess að borga skuldir. Skuldin drepur mun fleiri en náttúruhamfarir gera, 24.000 börn deyja á dag fyrir fimm ára aldur, flest vegna fátæktar á Jörð sem hefur allt til alls öllum til handa.

Jörðin er svo rík af öllu sem við þurfum; við gætum bara rétt út höndina, við gætum grafið eftir vatni, við gætum sáð og uppskorið fæðu, byggt hús og allt annað. Flöskustúturinn á öllum slíkum framkvæmdum er skortur á peningum. Fyrst þarf peninga og síðan má framkvæma. Bankar sem eru einkafyrirtæki hafa einkaleyfi á því að búa til peningana fyrir almenning. Með því að stjórna magni peninga í umferð stjórna bankar framkvæmdum og þar með örlögum okkar. Þess vegna er peningavaldið fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar en er aldrei í framboði. Það stjórnar fulltrúum okkar í skjóli einkaleyfis síns á peningamyndun.

Það er engin stjórnmálahreyfing né stefna í sjónmáli sem hafnar þessum forgangi fjármagns fram yfir verðmætasköpun og á meðan mun skuldin vera fjötrar okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur