Föstudagur 20.01.2012 - 20:05 - FB ummæli ()

Að „dílíta“ Búsáhaldarbyltinguna

Það er með ólíkindum að menn geti rætt svona lengi og ítarlega um það hvort draga eigi ákæruna til baka á Geir Haarde. Þó málefnið sé athyglisvert ætti það frekar heima hjá háskólasamfélaginu. Ákvörðun hefur verið tekin um að ákæra Geir og þar við situr að mínu mati. Það er lang best fyrir Geir að málinu ljúki með dómi Landsdóms. Það eru allir sammála um að það sé ósanngjarnt að Geir sé einn ákærður og mun fleiri ættu að sitja með honum á bekknum. Koma tímar og koma ráð og því þurfum við að halda áfram með mál Geirs.
Allir vita líka að eiðsvarinn vitnisburður fyrir Landsdómi gæti orðið eldfimur. Margir vilja að slíkar vitnaleiðslur fari fram en mörgum er líka illa við þá tilhugsun og vilja koma í veg fyrir þær. Þess vegna vilja sumir svifta Geir möguleikanum á sýknu vegna eigin hagsmuna. Það er ekki umhyggja fyrir Geir heldur óttinn við að vitnaleiðslurnar muni skaða þá persónulega.
Ef Alþingi Íslendinga kemur núna í veg fyrir þær vitnaleiðslur þá hafa kjörnir fulltrúar almennings sameinast um að þagga niður spillingu og vanhæfni hins þrönga hóps sem fór og fer með völdin í landinu.
Ef slíkt gerist hefur Búsáhaldarbyltingin endanlega verið núlluð, „dílítuð“. Þar með hefur þessi litla krumpa sem Búsáhaldarbyltingin var á vammlausum ferli valdastéttarinnar á Íslandi verið þurrkuð út af harða diskinum. Þar með mun valdastéttin sitja eftir sigri hrósandi og halda áfram að sinna þörfum sínum og vina sinna. Þar með mun valdastéttinni hafa líka tekist að sannfæra Alþingismenn um að þeir sem ná áhrifum og völdum í þjóðfélaginu séu undanþegnir hefðbundnum lögmálum réttarríkissins.
Ef einhver er ósáttur þá er bara að efna til nýrrar Búsáhaldarbyltingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur