Miðvikudagur 21.03.2012 - 19:15 - FB ummæli ()

Hyggjuvit evrunnar

Þeir sem hönnuðu evruna komu því þannig fyrir að Seðlabanki Evrópu(SBE) má ekki lána þjóðríkjum peninga innan ESB (Article 123 of the Lisbon Treaty). Aftur á móti getur SBE lánað einkabönkum peninga. Bankarnir fá þessi lán á mjög lágum vöxtum, u.þ.b 1%.

Þjóðríki ESB verða því að fá lánað hjá einkabönkum. Þess vegna eru þjóðríkin háð ákvörðunum einkabankanna hvort þau fá lán eða ekki og á hvaða kjörum. Það hefur sýnt sig að vextir hafa hækkað verulega á lánum einkabanka til þjóðríkjanna. Grikkland(12%), Írland, Spánn, Portúgal og núna síðast Ítalía(7%) hafa lent í þessu. Bankarnir græða á mismuninum.

Þessi mikla vaxtahækkun á lánum til þjóðríkja veldur því að þau geta ekki fjármagnað sig. Þar með eru þau komin upp við vegg með gjalddaga. Í stað þess að fá lágvaxtalán hjá Seðlabanka Evrópu eins og einkabankarnir þá verða viðkomandi ríkisstjórnir að fá lán hjá einkabönkunum á mun hærri vöxtum.

Það er ljóst að þessi hönnun veitir einkabönkum mjög mikil völd. Sá sem ræður yfir veskinu þínu ræður í raun yfir þér. Þær ráðstafanir sem gerðar eru í dag í Evrópu bera þess merki að bankarnir hafi síðasta orðið. Evran hefur verið hönnuð af bönkunum og fyrir bankana en ekki til að auðvelda kjörnum fulltrúum í lýðræðisríkjum til að sinna hutverki sínu. Einkabankarnir hafa aldrei verið kjörnir til að stjórna en gera það samt.

Kjörnir fulltrúar almennings í skuldsettum löndum Evrópu verða að beygja sig undir kröfur bankanna um niðurskurð og skattahækkanir til að geta endurgreitt bönkunum hávaxtalánin. Þjóðríki sem fara ekki að vilja bankanna fá ekki lán. Eitt er víst að Seðlabanki Evrópu er ekki lánveitandi til þrautavara fyrir þjóðríki Evrópu heldur fyrir einkabanka.

Einkabankar stjórna buddum þjóðríkja í Evrópu. Þeir gera það með yfirráðum sínum á stofnunum ESB eins og Seðlabanka Evrópu og framkvæmdavaldi ESB.  Fjárlagagerð skuldsettra ríkja ESB er í höndum fyrrnefndra aðila og sjálfstæði þeirra sömuleiðis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur