Þriðjudagur 01.05.2012 - 12:35 - FB ummæli ()

Að blunda í fleti fjármagnsins

Það er sérkennilegt að hlusta á umræðuna um vanda heimilanna á Íslandi.

Það er ljóst að margir eru að greiða mun hærra hlutfall af tekjum sínum í afborganir af skuldum en áður. Auk þess er fjöldi fólks sem getur ekki staðið í skilum. Að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir því að á meðan lánastofnanir ryksuga til sín kaupmátt almennings verður engin endurreisn á Íslandi, ekki nema að vinstri stjórnin ætli að leggja slíkt alfarið á ríka og skuldlausa fólkið í landinu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem er talsmaður lánadrottna og fjármagnseiganda bannaði almenna niðurfærslu skulda á Íslandi. Seðlabanki Íslands er Konni hans og því í raun ómarktækur í umræðunni. AGS vildi að hver og einn færi í mál við allt og alla til að ná fram rétti sínum. Nokkuð trygg aðferð til að koma í veg fyrir sátt í þjóðfélaginu. Núverandi ríkistjórn hefur verið svo upptekin við að fylgja ráðum sjóðsins á liðnum árum að erfitt getur verið að greina að þessa tvo hópa.

Haustið 2010 eftir stóru tunnumótmælin var sest niður með íslenskum lánadrottnum undir skugga AGS. Lánadrottnarnir kváðu síðan upp sinn dóm að ekki væri hægt að gera meira fyrir skuldsettan almenning í landinu, annað en að halda áfram að rukka hann eða hirða af honum eigur hans. Ríkisstjórnin tók þetta gott og gilt og gerði meira að segja fyrrnefndan rökstuðning að sínum.

Núna fyrirhugar ríkisstjórnin að auka aðstoð til þeirra hópa sem eiga erfiðast með að standa í skilum. Hugsunin er að auka barnabætur, vaxtabætur og fleira í svipuðum dúr. Hugsunin virðist góð en er í raun bara aðgerð stjórnvalda til að auðvelda fólki að millifæra kaupmátt sinn til lánadrottna með aðstoð skattgreiðenda.

Fjármunum sem varið er í endurgreiðslu skulda til lánadrottna er ekki varið til uppbyggingar þjóðfélagsins og skuldir sem ekki er geta til að endurgreiða verða ekki greiddar, þannig er það bara. Þess vegna verður að skera skuldirnar niður til að hjólin fari aftur að snúast. Sá háttur hefur alltaf verið hafður á þegar fyrirtæki eru endurskipulögð. Lánadrottnar verða að taka á sig hluta af kostnaðinum við uppbygginuna. Sá sem lánar er ekki stikk frí og sérstaklega ekki sá sem keypti lánin á útsölu frá gömlu bönkunum.

Það sem er einna sérkennilegast við umræðuna um skuldavanda heimilanna er að hún sýnir að það sem gerðist vorið 2009 eftir vel heppnaða Búsáhaldarbyltingu á Íslandi var að Vinstri grænir lögðust í volgt fletið við hlið Samfylkingarinnar og fjármálaaflanna í nýrri ríkisstjórn í stað Sjálfstæðisflokksins. Auk þess er það ljóst að lánadrottnar eiga síðasta orðið og ráða því för en ekki kjörnir fulltrúar okkar. Þessu verður að breyta en verður ekki auðvelt, það þarf kosningar og nýja þingmenn, þingmenn sem ætla sér ekki í flet fjármagnsins.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur